Brúarfoss, við Ráðhústorg 1 (Suðurgata 1) brennur

Alþýðublaðið 9 mars 1943

Kona skaðbrennist af völdum olíu á Siglufirði.

Maður hennar brenndist einnig og barn nærri brunnið inni.

FREGN frá fréttaritara Alþýðublaðsins á Siglufirði hermir, að í gærkveldi hafi orðið slys þar af völdum steinolíu. Brann hús þar nærri því til kaldra kola, kona skaðbrenndist, maður hennar brenndist einnig og barni var bjargað á síðustu stundu og tókst að lífga það við eftir klukkustundar lífgunartilraunir.

Klukkan rúmlega hálffimm var brunaliðið kvatt á vettfang. Hafði kviknað í húsinu Brúarfoss við Suðurgötu, en þar var rekin billjardstofa. Þegar að var komið var húsið alelda og allir komnir út, nema lítil stúlka, dóttir húseigandans, Kristjáns Kjartanssonar Var leitað aðstoðar amerískra setuliðsmanna, sem bjuggu skammt frá.

Húsið Brúarfoss brann ekki til „kaldra kola“ eins og sumstaðar er getið hér. Húsið var endurbyggt. Þessi mynd er sennilega frá árinu 1946 +/- og sést húsið Brúarfoss lengst til vinstri á myndinni. Skrúðgangan er á Suðurgötu, framan við verslun Gests Fanndal og fleiri hús við Suðurgötuna. -Ljósm. Kristfinnur

Húsið Brúarfoss brann ekki til „kaldra kola“ eins og sumstaðar er getið hér. Húsið var endurbyggt. Þessi mynd er sennilega frá árinu 1946 +/- og sést húsið Brúarfoss lengst til vinstri á myndinni. Skrúðgangan er á Suðurgötu, framan við verslun Gests Fanndal og fleiri hús við Suðurgötuna. -Ljósm. Kristfinnur

Höfðu þeir meðferðis gasgrímur og tókst einum þeirra að bjarga Barninu út úr hinu brennandi húsi. Eftir að herlæknir hafði í rúmlega klukkustund gert lífgunartilraunir tókst að vekja barnið til meðvitundar og er það nú sennilega út allri hættu. Faðir stúlkunnar, Kristján, brenndist á andliti og annarri hendinni, en kona hans Ólina Kristjánsdóttir, skaðbrenndist hér og þar um allan líkamann. Hafði kviknið í fötum hennar og var hún flutt á sjúkrahúsið. 

-------------------------------------------------- 

Vísir 9 mars 1943

Húsbruni í Siglufirði. Ungbarn hætt komið. Í gær brann húsið Brúarfoss við Suðurgötu á Siglufirði. Kviknaði út frá olíu, sem nota átti til að lífga í eldavél. Hjónin, sem eiga húsið og búa í því, Kristján Kjartansson og Ólína Kristjánsdóttir björguðust með nokkur brunasár, en konan brenndist þó allmikið, því að kviknað hafði í fötum hennar. Tilraun Kristjáns til að bjarga 2 ára gömlu barni þeirra út úr brennandi húsinu, mistókst, því að hann féll ómegin vegna reyks. En amerískur hermaður setti upp gasgrímu sina, tókst að brjótast inn og bjarga barninu. Var það aðfram komið, en lífgunartilraunir tókust vel, og er barnið úr allri hættu. 

--------------------------------------------------

Morgunblaðið 9 mars 1943

Tveggja ára barn inni í brennandi húsi. Amerískur setuliðsmaður bjargar barninu Fréttaritari vor á Siglufirði símar í gær: Um kl. 3½ í dag kom upp eldur í húsinu „Brúarfoss" hjer við Ráðhústorgið og brann það til ösku á skammri stundu. Eigandi hússins var Kristján Kjartansson. Bjó hann í húsinu með fjölskyldu. Komust hjónin, Kristján og kona hans Ólína Kristjánsdóttir með naumindum út úr hinu brennandi húsi og höfðu bæði fengið brunasár. — Kviknaði í fötum konunnar og brenndist hún talsvert, svo að flytja varð hana á sjúkrahús. Hún er ekki talin í lífshættu. Kristján brenndist á höndum og handleggjum, en ekki stórvægilega.

BARN INNI Í BRENNANDI HÚSINU  Inni í húsinu var tveggja ára barn þeirra hjóna. Kristján ætlaði að stökkva inn og sækja barnið, en varð að snúa við og féll í ómegin, er út kom. Kom þá amerískur setuliðsmaður með gasgrímu og fór inn í húsið.  Tókst: honum að ná barninu og kom með það út úr brunanum. Var barnið þá meðvitundarlaust, Eftir tvö tíma var búið að lífga barnið og er það talið úr allri hættu. Húsið var vátryggt fyrir 18 þus. kr. Engu af innbúi varð bjargað. - Talið er að kviknað hafi út frá eldavél. 

--------------------------------------------------

Einherji 9 mar 1943

ELDSVOÐI Um kl. 16 í gær kom upp eldur í húsinu nr. 1 við Ráðhústorg (Brúarfoss). Var húsið mikið til alelda þegar slökkviliðið kom á staðinn. Tókst fólkinu með naumindum að bjargast út, nema einu tveggja ára barni, sem svaf upp á lofti og var það amerískur hermaður er bjargaði því á síðustu stundu. Barnið var þá meðvitundarlaust. í húsinu bjó Kristján Kjartansson ásamt konu sinni og átta börnum þeirra hjóna.

Eftir nokkurn tíma tókst slökkviliðinu að ráða niðurlögum eldsins og var þá mest allt brunnið innanúr húsinu, en eftir standa útþil, þó mikið brunnin. Tildrög eldsins munu hafa verið þau, að frú Ólína var að kveikja upp í eldavél og notaði steinolíu við uppkveikjuna. Telur hún að um leið og olían kom í vélina hafi orðið sprenging og stóð eldblossinn fram úr vélinni, í sama bili sprakk olíubrúsi er stóð á gólfinu og flóði logandi olían um gólfið.

Læsti eldurinn sig þegar í föt Ólínu og skipti engum togum að eldhúsið varð alelda. Í þeim svifum bar að Kristján, mann Ólínu, og tókst honum að koma henni út, en sneri þá aftur inn í húsið að leita að barni þeirra, er var uppi á lofti. Við þá tilraun skaðbrenndist Kristján á hendi og nokkuð á höfði. Einnig brenndist frú Ólína mikið á fótum og hendi. Var læknir þegar sóttur til að gera að sárum þeirra hjóna.

Nokkru síðar var frú Ólína flutt á sjúkrahús, ásamt yngsta barni sínu, 6 mánaða gömlu, Í brunanum misstu hjónin aleigu sína og brann allt, er í húsinu var; innanstokksmunir, fatnaður allur, matvæli o. fl. Húsið var gamalt timburhús með steyptum kjallara. Mun húsið hafa verið vátryggt mjög lágt og innbúið fyrir sáralítið, er því fjárhagslegt tjón Kristjáns mjög mikið.  Var það átakanleg sjón að sjá þau hjón, bæði mikið brennd, studd frá brennandi heimili sínu og börnin átta, er með naumindum sluppu ómeidd en allslaus nema með fötin sem þau stóðu í.

-------------------------------------------------- 

Þjóðviljinn 10 mars 1943

Húsbruni á Siglufirði

Tveggja ára barn bjargast með naumindum úr eldinum

Í fyrradag brann húsið Brúarfoss á Siglufirði. Tveggja ára barni var með naumindum bjargað úr eldinum. Í húsi þessu bjuggu Kristján Kjartansson og kona hans Ólína Kristjánsdóttir og 8 börn. Konan ætlaði að kveikja eld í eldavél, þegar sprenging varð og eldhúsið alelda og læsti eldurinn sig í föt hennar.

Kristján var á efri hæð hússins ásamt þremur börnum þeirra, þegar hann heyrði hljóð konunnar. Brá hann við, hljóp niður, gat slökkt eldinn í fötum hennar og komið í henni út. Síðan fór hann inn aftur til þess að sækja börnin. Fann hann þegar 3 ára dreng og fjögurra mánaða telpu, en hið þriðja, 2 ára telpu fann hann ekki.

Fór hann síðan út með tvö börnin og jafnharðan inn aftur til að leita að því þriðja en varð að leita út að glugga til að fá hreint loft og var þá dreginn út af þeim sem fyrir utan voru, en aðrir menn, fóru inn í húsið, en urðu frá að hverfa. Fór þá amerískur hermaður með gasgrímu inn í húsið og tókst að finna barnið, sem var að dauða komið vegna reyks. Héraðslækni tókst þó að lífga það eftir alllangan tíma og er það nú úr hættu. Kristján og Ólína eru bæði allmikið brennd, sérstaklega konan. Húsið og allt sem í því var gereyðilagðist.

- -------------------------------------------------

Dagur 11 mars 1943

HÚSBRUNI á Siglufirði. 

Húsráðendur skaðbrennast. Amerískur hermaður gekk vasklega fram við að bjarga barni úr eldinum

Fréttaritari blaðsins á Siglufirði símar: UM KLUKKAN 4. e. h. s.l. mánudag kviknaði i húsinu „Brúarfossi", í Siglufirði, með þeim hætti, að húsfreyjan, Ólína Kristjánsdóttir, var að kveikja upp í eldavél með steinolíu og varð sprenging í vélinni.

Húsið, sem er einlyft timburhús, varð alelda á augabragði og jafnframt kviknaði f fötum Ólínu. Manni hennar, Kristjáni Kjartanssyni, tókst að slökkva eldinn í fötunum, en þó ekki fyrr en hún hafði brennst til muna og hann skaðað sig á eldinum. Tókst þeim síðan með naumindum að bjarga 2 börnum sínum út úr húsinu, en eitt þeirra, 2ja ára að aldri, varð eftir.

Gerðu slökkviliðsmenn vasklega tilraun til þess að ná því, en tókst ekki; var reykurinn svo magnaður, að þeir komust ekki að barninu. Amerískur hermaður, með gasgrímu, lagði þá til inngöngu í húsið og tókst honum að ná barninu og koma því út. Var það óbrennt, en nærri kafnað af reyk.

Hermaðurinn mun ekki hafa skaðast af eldinum. Er vaskleg framkoma hans mjög rómuð af Siglfirðingum. Húsið stendur enn, en er mjög skemmt af eldinum. Hjónin eru í sjúkrahúsinu, all þungt haldin.

Tjón þeirra er mjög mikið. — Innanstokksmunir brunnu allir. Voru vátryggðir fyrir 5000 kr. — Hjónin . starfræktu knattborðsstofu í húsinu. Brunnu þar allir munir, óvátryggðir. 

--------------------------------------------------

Siglfirðingur 13.mars 1943

RÁÐHÚSTORG 1 

BRÚARFOSS brennur. 

Um 4 leytið sl. mánudag kviknaði eldur í húsinu Ráðhústorgi 1, svonefndum Brúarfoss. Og er slökkviliðið kom á vettvang, var húsið alelda að innan. Tildrög eldsins voru þau, að sprenging varð í eldavél, er verið var að kveikja upp eld, og komst eldur í olíuílát, er sprakk og varð eldhúsið alelda á svipstundu.

Húsið er eign Kristjáns Kjartanssonar og bjó hann þar ásamt konu sinni, frú Ólínu

Kristjánsdóttur og 8 börnum þeirra hjóna. Frú Ólina var að kveikja upp eldinn, er sprengingin varð, en maður hennar var uppi í íbúð þeirra og gætti þriggja yngstu barnanna, en eldhúsið var í kjallara en íbúðin, ásamt knattborðsstofu, er þau ráku, á gólfhæð hússins.

Eldur læsti sig þegar í föt frú Ólínu og heyrði Kristján upp bæði hljóð hennar og sprengihvellinn. Hann hljóp því niður og tókst að slökkva eldinn í klæðum konu sinnar og brenndist við það bæði á höndum og andliti og skaðbrenndist konan einnig.

Er hann hafði bjargað konu sinni út, snaraðist hann upp til að vitja barnanna og kom tveim þeirra strax út, dreng á þriðja ári og telpu rúmlega fjögra mánaða, en þriðja barnið, tæplega tveggja ára telpu, fann hann ekki í svipinn, en um tvö herbergi var að ræða, sem barnið gat verið í. Hann var líka kominn að köfnun af reyk og þjáður af brunasárum er hann leitaði sér fersks lofts út um einn gluggann, en þá var hann tekinn út af þeim er úti fyrir voru.

En aðrir freistuðu að leita barnsins og meðal þeirra Sigtryggur Stefánsson, ungur piltur, og var hann með reykgrímu. Ekki nýttist honum þó gríman og lá honum fljótt við köfnun, og féll hann á gólfið, en aðrir komu honum út og hresstist hann brátt.

Setuliðsmenn er hér eru komust að því, að barnið var í stórhættu inni í brennandi húsinu, og sóttu gasgrímur. Fór einn þeirra, Sgt. Artur L. Gregory, inn í brennandi húsið og tókst að ná barninu, sem þá var að dauða komið og meðvitundarlaust. Tókst þó héraðslækni eftir langan tíma að lífga barnið við og er það nú úr allri hættu.

Þau hjónin, Kristján og Ólína, eru sem fyrr segir skaðbrennd og liggur hún nú á sjúkrahúsi og er hjá henni yngsta barnið. Kristján bíður nú bata sára sinna einnig á Sjúkrahúsinu, og liður þeim sæmilega eftir ástæðum.

Húsið Brúarfoss var gamalt timburhús, einlyft á háum steinsteyptum kjallara. Er það gjörónýtt að öllum innanþiljum, en útveggir standa mjög skemmdir og má víst telja húsið sama sem eyðilagt. Hitt er þó enn tilfinnanlegra fyrir þau hjón, að missa þarna allar eignir sínar og atvinnu, því að ekkert bjargaðist. Standa þau nú uppi örbjarga og húsnæðislaus, með allan barnahópinn og flest kornung, og bæði sárþjáð af sárum sínum.

Er þess full þörf, að almenningur hér bregðist nú vel við og safni fé til að bæta úr sárustu þörf þessara hjóna, sem orðið hafa fyrir þeirri þungbæru raun að missa aleigu sina á jafn slysalegan hátt.

---------------------------------------------------  

Neisti 15. Mars 1943 - BÆJARFRÉTTIR

Raunalegt brunatjón.

Um miðjan síðastliðinn mánudag kom upp  eldur í húsi Kristjáns Kjartanssonar,  Ráðhústorgi 1 hér í bæ.

Eyðilagðist  bæði hús og innanstokksmunir að  mestu - og var það mjög tilfinnanlegt  tjón fyrir eigandann, þar sem hvort  tveggja hafði verið mjög lágt vátryggt.  Það versta var þó, að bæði Kristján  og kona hans, Ólína Kristjánsdóttir,  skaðbrenndust og eitt barn þeirra, af  átta, var komið fast að köfnun, er það  náðist á síðustu stundu, meðvitundarlaust. 

Eins og gefur að skilja, og  þeir vita best, sem til þekkja. eru hjónin, sem fyrir brunatjóninu urðu, ákaflega illa sett, slösuð, heimilislaus og  févana með sinn stóra barnahóp, Í  bili hafa góðviljaðir samborgarar  hlaupið undir bagga.

En það þarf að  gera meira. Siglfirðingar eiga að sameinast um að hjálpa foreldrum barnanna, sem nú eru tvístruð um bæinn,  til þess að ná saman heimili sínu.  Er ekki að efa, að til þess er bæði geta  og vilji.