Misvísandi fréttaflutningur af "strandi" og bruna

Vísir 28 maí 1933 Siglufirði 27. maí. FB.

Skipstrand og bruni. 

Frakkneskt fiskiskip, „Fleur de France", strandaði í niðaþoku við Sauðanes kl. um 7 í morgun. Eldur kom upp í skipinu um leið og það strandaði og brann það á skammri stundu. Skipverjar, 36 talsins, björguðust á 13 dorium, og komu þeir hingað heilu og höldnu um kl. 1. Skipshundurinn fórst í eldinum. Skipverjar telja, að skipið hafi gerbrunnið. Björguðu þeir aðeins fatnaði sínum og fáu öðru. Bátur er að fara á strandstaðinn. --- Nánara síðar.  

(nefnd viðbót birtist einnig hjá Heimdalli frá sama fréttaritara, hér neðar)

-----------------------------------------------------------

Heimdallur 30 maí 1933 - Siglufirði, FB. 27. maí.

Grunsamlegur skipsbruni.  

Frakkneskt fiskiskip, Fleur de France, strandaði í niðaþoku á Sauðanesi- kl. um sjö í morgun. Eldur kom upp i skipinu um leið og það strandaði og brann það á skammri stundu. Skipverjar, 36 talsins, björguðust á 13 dorium, og komu þeir hingað heilu og höldnu um kl. eitt. 

Skipshundurinn fórst í eldinum. Skipverjar telja, að skipið hafi gerbrunnið. Björguðu þeir aðeins fatnaði sínum og fáu öðru. Bátur er að fara á strandstaðinn. Nánara síðar.

Síðari fregn.

Menn héðan fóru strax í bátum út að Fleur de France og komu að skipinu brennandi hér í fjarðarmynninu. Þar sem það lá fyrir akkeri á 10 faðma dýpi. Tókst mönunum að saga sundur akkerisfestina og koma skipinu upp í Neskrók.

Þar fóru fram slökkvitilraunir og varð nokkuð ágengt að slökkva eldinn, en eigi slökkva að fullu. Síðar fóru fleiri menn út eftir með slökkviáhöld og vinna nú að björguninni. Er góð von um að takist að slökkva eldinn. Í skipinu eru um 100 smálestir saltfiskur. Strandmennirnir fara héðan á Gullfoss, sem fer héðan í kvöld. Sjópróf út af strandinu verða haldin í Reykjavík. — 

Tíðarfar hagstætt og afli góður, en þó nokkru minni síðustu dagana.

Strandmennirnir komu hingað með Gullfoss.. Rannsókn mun þegar vera byrjuð hér.

-------------------------------------------------------- 

Einherji, 31 maí 1933

Skip brennur. 

Síðastliðna laugardagsnótt strandaði frakkneska fiskiskipið "Fleur de France" hér við Sauðanesið vestan Siglufjarðar. Þoka var á, en skömmu síða bar þar að ms “Kolbein unga" frá Akureyri og tókst honum að draga skipið á flot kl. 8½ á laugardagsmorguninn.

Fréttir höfðu borist hingað inn í bæinn um strandið snemma um morguninn. Fór þá hafnarvörður strax á vettvang og fleiri á mótorbátum. 

Um það leyti er "Kolbeinn" kom skipinu á flot varð elds vart fram í skipinu, og voru hásetar eitthvað að reyna að slökkva.

Ekki vildi skipstjóri láta draga sig til hafnar, en leysti togvír Kolbeins og lagðist við akkeri á 10-11 faðma dýpi, en það er á miðri skipaleið vestan, að.

Nokkru síðar gaus upp eldur í mótorhúsi skipsins og magnaðist fljótt, svo og eldurinn fram í. Fóru þá skipverjar að tygja sig til að yfirgefa skipið, og bjarga föggum sinum.

Fóru þeir í fiskibáta skipsins, en skipið hafði stundað lóðarveiði á bátum (doríum) frá skipinu. Um hádegisbilið komu mótorbátar með fiskibátana í togi, 14 að tölu og var skipshöfnin í þeim, 36 manns.

Þá fóru skipin Valbjörn og Ármann út að hinu brennandi skipi, sem vitanlega var stórhættulegt að láta sökkva þarna á svo grunnri og fjölfarinni skipaleið.

Tókst þeim, þrátt fyrir eldinn, að saga sundur keðju skipsins og koma því eftir leiðsögn hafnarvarðar uppundir fjöru við svonefndan Vindbelg undir Nesskriðum.

Héldu skip þessi áfram slökkvitilraunum uns þeim tókst loks að kæfa eldinn með aðstoð véldælu slökkviliðsins, undir forustu slökkviliðsstjórans.

Allmiklu hefur verið bjargað af veiðarfærum, dragreipum úr reiða o.fl.  

Nú hefur þeim skipshöfnunum á Ármanni og Valbirni tekist að þurrdæla skipið að mestu. Hefur áhöfn þessara skipa unnið sleitulaust að björgunarstarfinu.

Um 100 smálestir af saltfiski er í skipinu og verður honum sennilega öllum bjargað, hvað sem nýtilegt kann að reynast af honum til verkunar.

Eigi er enn kunnugt með hverjum hætti kviknað hefur í skipinu, en sjópróf fara nú fram í Reykjavík þessu viðvíkjandi, því skipshöfnin fór öll héðan með s.s. Gullfoss stranddaginn.

“Fleur de France" er stórt þrísiglt mótorskip um 700 brútósmálestir að stærð. Allt er skipið brunnið að aftan og framan niður að sjó. en lestarrúm að mestu óskemmt. 

--------------------------------------------------  

Vísir 31 maí 1933 -- Siglufirði, 30. maí. — FB. 

Það hefir nú komið í ljós, að frakkneska skonnortan Fleur de France hefir skemst miklu meira af eldinum en búist hafði verið við. Voru báðir stafnar brunnir svo, að fella varð fremstu og öftustu siglu. Flestöll segl brunnu.

Tvær 80 ha. mótorvélar reyndust eyðilagðar. Veiðarfæri mestöll og skipsbúnaður annar brann. Skipið hafði allmikið af salti, sem er ónýtt, nema í þróarsíld, og af 100—150 smál. af fiski má ætla, að 50—60 skpd. verði verslunarvara.

Það, sem olli skemdum salts og fiskjar var aðallega, að olíugeymar skipsins höfðu sprungið og hráolía blandast austrinum og drepið gegnum fiskstaflana. — Ármann og Valbjörn eru nú hættir björgun, en aðrir bjarga því sem eftir er og bjargað verður úr skipinu.

--------------------------------------------------

Einherji, 15. júní 1933 Auglýsing:

STRAND UPPBOÐ -  frá Fleure de France.  (vegna strands og elds)  

Á hafnarbryggjunni Siglufirði fer fram opinbert uppboð miðvikudaginn 21. þ.m. á ýmsum strandmunum frá Fleure de France.

Uppboðið hefst kl. 3½ síðdegis. Ef viðunanlegt boð fæst, verður selt m.a: saltskóflur, dufl, dregg, varpakkeri, keðjur, akkerislásar, skrúflyklar, körfur, lóðir, manilla, stengur, stýri, árar, ámur. járnfat, segl, saltfiskur, bátar (14 “doríur"), skipsflakið Fleure de France með keðjum, siglum o. fl. 

Gjaldfrestur verður veittur til 10. júlí n.k. en aðeins áreiðanlegum kaupendum, sem uppboðshaldari þekkir.

Uppboðsskilmálar lesnir upp á uppboðsstaðnum.

Ef veður leyfir má búast við, að uppboðið á Fleure de France fari fram við skipið og verður það nánar tilkynnt í upphafi uppboðsins. -- 

Skrifstofu Siglufjarðar 3. júní 1933. -- G. Hannesson.