Tengt Siglufirði
Morgunblaðið 27. mars 1965 - SIGLUFIRÐI, 26. mars,
Allmiklar skemmdir urðu á bæjarskrifstofunum hér í dag, þegar eldur kom upp í húsi því, þar sem þær eru.
Tildrög eldsins voru þau að skömmu fyrir hádegi voru menn frá Vatnsveitu Siglufjarðar að þíða frosna vatnsleiðslu, sem liggur að húsinu, Vatnslaust var af völdum frostsins og höfðu mennirnir grafið skurð meðfram leiðslunni og hituðu pípuna með gashitunartæki.
Þarna rétt við eru dyr að kyndiklefa hússins, og stóðu þær opnar, Svo slysalega vildi til, að skyndilega kviknaði í þurrum viðnum við dyrnar, og gaus þegar upp mikill eldur. Klukkuna vantaði þá tuttugu mínútur í tólf. Húsið er gamalt, stórt, tvílyft timburhús, og breiddist eldurinn óðfluga út.
Tókst þeim rétt með naumindum að bjarga skrifstofuvélum og öðru handtæku út úr húsinu áður en þeir urðu að flýja út vegna reykjarsvælu. Slökkvilið staðarins kom þegar á vettvang og dældi sjó á og í húsið, þar sem vatn var ekki fyrir hendi.
Höfðu þeir lokið við að slökkva kl. 13.30.Í húsinu hefur bæjarstjóri aðsetur, Rafveita Siglufjarðar, byggingafulltrúi bæjarins, og þar er bæjarþingsalurinn og ýmsar skrifstofur bæjarins.
Talsvert brann í bæjarþingssalnum og af rjáfri hússins, en mestar urðu skemmdirnar af sjó. Helstu skjöl voru geymd í eldtraustum skáp, en mikið af bréfum og gögnum gereyðilagðist, og allnokkuð af bókum og skjölum skemmdist. --Stgr.. Kr
Myndin var tekin, þegar teikningum og öðrum verðmætum var bjargað út úr skrifstofu byggingafulltrúans.
--------------------------------------------------
Þjóðviljinn 27 mars 1965 Siglufirði, 26/3.
Skrifstofur Siglufjarðarkaupstaðar brunnu í gærmorgun
Skrifstofur Siglufjarðarkaupstaðar eyðilögðust í eldi skömmu fyrir hádegi í dag. Húsið sem er gamalt timburhús við Tjarnargötu, kallað „Hvíta húsið", er talið gereyðilagt, en mestu af skjölum bæjarins og skrifstofuvélum tókst að bjarga.
Eldurinn mun hafa komið upp um kl. 11.20 í morgun í kyndiklefa á neðri hæð hússins, en það er eins og áður var sagt gamalt timburhús, tveggja hæða byggt 1918 eða 1919 af dönskum útgerðarmanni og verksmiðjueiganda, Sören Goos, en skrifstofur Siglufjarðarkaupstaðar eru búnar að vera þarna til húsa um áratugi.
Voru bæjarskrifstofurnar á efri hæð hússins en á neðri hæðinni voru skrifstofur rafveitunnar og byggingarfulltrúa. Um hádegi hafði slökkviliðinu tekizt að vinna bug á eldinum að mestu leyti, stóð húsið þá uppi en er talið gerónýtt.
Mestu af skjölum bæjarins svo og skrifstofuvélum tókst að bjarga, þannig björguðust flestöll skjöl bæjargjaldkera en hins vegar brann eitthvað af skjölum bæjarstjóra, en hann er fjarverandi um þessar mundir.
Megnið af skjölum rafveitunnar og byggingarfulltrúans náðist einnig út. Logn var að mestu á meðan bruninn stóð yfir og var það til mikils hagræðis við slökkvistarfið. Ekki var kunnugt um eldsupptökin síðdegis í gær. — KF
----------------------------------------------------------
Mjölnir 13 apríl 1965
„HVÍTA HÚSIÐ" BRENNUR
„Hvíta húsið", þar sem skrifstofur Siglufjarðarkaupstaðar, rafveituskrifstofan og byggingafulltrúi voru til húsa, eyðilagðist af eldi föstudaginn 26. f. m. Húsið var gamalt timburhús, elzti hluti þess mun byggður árið 1906.
Talið er, að eldsupptök hafi verið þau, að neisti frá gaslampa hafi komist undir bárujárnsklæðningu hússins og kveikt í einangrun, sem var mjög eldfim, en verið var að þíða vatnsleiðslur utan við húsið með slíkum lampa.
Strax og eldsins varð vart, um kl. 11,30, var slökkviliðinu gert viðvart og var það komið á staðinn fimm mínútum síðar, en á meðan var reynt með litlum árangri að slökkva með handslökkvitækjum og vatnsaustri. Ekki liðu nema um tíu mínútur frá því að eldsins varð vart og þar til óverandi var inni í húsinu fyrir reyk.
Samt tókst starfsfólki hússins og aðvífandi vegfarendum að bjarga miklu af vélum, skjölum og innanstokksmunum og koma því fyrir í eldtraustri skjalageymslu áfastri húsinu eða út. Slökkviliðinu tókst fljótlega að hefta útbreiðslu eldsins, en samt mun hafa liðið meir en klukkustund þar til eldurinn var að fullu slökktur.
Hafði þá húsið skemmzt svo mjög af eldi, reyk og vatni að það má telja gerónýtt, þó að uppi standi. Húsið var vátryggt hjá Byggðatrygging s.f. fyrir rúmar 800 þús. kr. Þá varð tjón á innbúi sem metið er á um 250 þús. kr. samtals, en innbúi að verðmæti 400 þús. kr. tókst að bjarga og er þá miðað við vátryggingarfjárhæð.
Það má telja lán í óláni, að kvikna skyldi í á þessum tíma dags, því lítið sem ekkert mun hafa eyðilagzt af óbætanlegum munum, þannig björguðust öll mikilsverð skjöl bæjarins og rafveitunnar svo og teikningar. Er það fyrst og fremst því að þakka, að starfsfólk og vegfarendur brugðu svo skjótt við. Hefði eldurinn komið upp að nóttu til, og allt brunnið sem brunnið gat inni í húsinu, hefði líklega óbætanlegur skaði verið skeður.
Bæjarskrifstofurnar hafa nú fengið efstu hæð lögreglustöðvarinnar fyrir skrifstofuhald sitt, en Rafveitan og byggingafulltrúi hafa fengið inni í Útvegsbankahúsinu. Bæði þessi hús eru steinhús.