Feðgar bíða bana í eldsvoða á Siglufirði.

Alþýðublaðið 20 mars 1958 Fregn til Alþýðublaðsins. Siglufirði í gær.

Tvær efstu hæðirnar af Hótel Höfn brunnu til ösku í gærmorgun.

Sex ára drengur brann inni, en faðir hans lézt af brunasárum, er hann hlaut við að reyna að bjarga drengnum.

STÓRBRUNI varð á Siglufirði í gærmorgun, þegar tvær efri hæðir á Hótel Höfn brunnu til ösku. Eigandi hótelsins, Gísli Stefánsson, og sonur hans, sex ára gamall, fórust í eldsvoðanum. Kona Gísla og tvö börn þeirra sluppu út með naumindum. 

Hótel Höfn vár þriggja hæða forskallað timburhús. Var nýbúið að byggja við það og standsetja neðstu hæðina. Hótelstjórinn, Gísli Stefánsson, bjó á mið hæðinni ásamt fjölskyldu sinni, konu og fjórum börnum. Einnig bjó einnig bjó maður á efstu hæð hússins. Eldsins varð vart um kl. 8 í gærmorgun og magnaðist hann mjög fljótt.

Elzti sonur hjónanna, 13 ára gamall, var nýfarinn í skóla, eða um 15 mínútum fyrir átta, og þá bar ekki á öðru en að allt væri með felldu, en kl. 8 var húsið alelda. Kona Gísla komst út um aðaldyrnar við illan leik og rétt á eftir var yngsta barni hjónanna, 5 ára, bjargað út um aðaldyr. Skömmu síðar tókst öðru barni, 11 ára gamalli stúlku, að komast út um glugga á austurhlið hússins með naumindum. 

FLEYGÐI SÉR ÚT UM GLUGGA Gísli mun hafa snúið við til svefnherbergisins til að ná í son sinn Stefán, sem varð 6 ára daginn áður. Þar hefur eldurinn gosið á móti honum og mun hann aldrei hafa náð til drengsins, sem fórst í eldinum. Meðan þessu fór fram varð húsið alelda. Urðu þeir, sem unnu að slökkvistarfinu, varir við að Gísli braut glugga á annarri hæð og kastaði sér út". Var hann þá allmikið brunninn og hafði skorizt mikið af glerbrotum. Var hann þegar fluttur í sjúkra hús, lézt hann þar skömmu seinna.

ALELDA 5—10 MÍNÚTUM 

Þrátt fyrir að slökkviliðið kom á vettvang og hóf slökkvistarf örskömmu eftir að eldsins varð vart, fékk það ekki við neitt ráðið, því húsið varð alelda á 5—10 mínútum. Tókst með naumindum að verja næstu hús, þrátt fyrir að veður var mjög gott þegar þetta gerðist. Sem fyrr segir var Hótel Höfn forskallað timburhús, en á milli fyrstu og annarrar hæðar var steingólf, sem eldurinn komst ekki í gegnum. Eldsupptök eru ókunn, en rannsókn stendur yfir. 

-----------------------------------------------

Tíminn 20 mars 1958

Faðir og sonur fórust í stórbruna á Siglufirði í gær

Hótel Höfn brann — fjölskyldan komst út á nærklæðum nema 6 ára drengur — faðirinn þaut inn í eldinn aftur til að reyna að bjarga honum  

Á níunda tímanum í gærmorgun varð stórbruni á Siglufirði, og brunnu tvær efri hæðir gistihússins Höfn, og sá hörmulegi atburður varð, að tveir menn létust í brunanum, gistihúseigandinn Gísli Stefánsson, og ungur sonur hans. Stefán að nafni. Annað fólk komst út með naumindum. Mun faðirinn hafði snúið við inn í eldinn aftur til þess að reyna að slökkva og bjarga syni sínum, en það hetjuverk kostaði hann lífið.  

Það var kl. 5 mínútur yfir 8 í gærmorgun, sem brunakallið kom. Brunaliðið var mjög fljótt á vettvang, aðeins örfáar mínútur, en þá voru tvær efri hæðir hússins alelda, og stóðu eldtungur út um glugga á miðhæð. Fólkið var þá komið út úr húsinu nema Gísli og 6 ára sonur þeirra hjóna. Litlu síðar var sem sprenging yrði í húsinu og kastaðist Gísli þá út um glugga á miðhæð hússins og lenti í snjó skafli við búshliðina. Var hann mjög brunninn en lífs. Lést hann þó um klukkustund síðar. Litli drengurinn, Stefán, fannst síðan látinn í brunnu húsinu, þar sem herbergi hans hafði verið, og mun hann ekki hafa vaknað. 

Smiðir koma til vinnu.

Gistihúsið Höfn stendur austan vert við Lækjargötu. Það er nokkuð gömul bygging. Neðsta hæð þess steypt og yfir henni steypt loft. Tvær efri hæðir voru úr timbri, múrhúðaðar. Á neðstu hæð Voru fatageymslur og stofur og fleiri herbergi tilheyrandi veitinga húsrekstrinum, en í fyrra var byggður stór samkomusalur við húsið, einn hinn stærsti á landi hér.

Á miðhæð bjó fjölskyldan og sváfu hjónin, Gísli Stefánsson og frú Guðrún Matthíasdóttir, þar ásamt þrem börnum sínum, Stellu Grétu 12—14 ára, Stefáni 6 ára og yngsta syni um 4 ára. Á efstu hæð svaf elzti sonur þeirra hjóna og þar bjó einnig einhleypur maður, Magnús Þórarinsson, kennari.

Gestir munu ekki hafa verið í gisti húsinu. Elzti sonurinn var farinn í gagnfræðaskólann fyrir klukkan átta. Um klukkan 7 komu þarna smiðir, sem ætluðu að fara að setja járn á þak hinnar nýju viðbyggingar. Fóru þeir inn um aðaldýr hússins og gengu upp á loft, fóru þar út um glugga út á þak viðbyggingarinnar. Urðu þeir einskis varir, fundu enga reykjarlykt. Yfirsmiðurinn, Skúli Jónasson, gekk aftur inn í húsið laust fyrir klukkan átta, niður og út til að sækja eitthvað út í bæ. Hann varð einskis var.

Gekk hann síðan frá húsinu, en að nokkrum mínútum liðnum heyrði hann brunakallið, og er hann leit til hússins, stóðu eldtungur út um glugga. Magnús kennari vaknaði við það, að húsmóðirin kallaði á mið hæðinni, að eldur væri í húsinu. Fór hann fáklæddur upp úr rúminu og komst út um loftsglugga út á þak viðbyggingarinnar.

Frú Guðrún, og yngsti drengurinn komust út um aðaldyrnar, en Gísli mun hafa snúið við inn í eldinn aftur, ef til vill ætlað að reyna að slökkva en þó fyrst og fremst til þess að bjarga Stefáni syni sínum. Gerðist nú allt í skjótri svipan. Gísli kom ekki út með drenginn, en litlu síðar stökk hann, eða virtist öllu fremur hendast út um glugga, sem fyrr getur. Virtist mönnum þá sem sprenging yrði í húsinu. Stella Gréta dóttir hjónanna komst nokkru áður út um eld húsglugga á miðhæðinni.

Næstu hús varin. 

Slökkviliðið beindi starfinu að því að verja viðbygginguna og næstu hús. Logn var en hitinn af bálinu mjög mikill. Sprungu rúður í næstu húsum, en tókst að verja þau og einnig viðbygginguna að mestu, hún skemmdist þó eitthvað af reyk og vatni. Neðsta hæðin skemmdist og lítið, en efri hæðirnar brunnu alveg.

Valinkunnur maður.

Gísli Stefánsson var 39 ára að aldri. Hann hafði lengi átt heima á Siglufirði, keypti þetta hús fyrir nokkru og rak bæði gistihúsin á Siglufirði, þetta og Hótel Hvanneyri. Hann var hinn valinkunnasti maður, naut trausts og vináttu allra er til þekktu. Stefán, litli drengurinn, sem brann inni, var hið efnilegasta barn. Sú hetjudáð að snúa inn í eldinn aftur til þess að bjarga barninu, sýnir og gerla hver maður Gísli var.

Í gær fóru fram réttarhöld á Siglufirði vegna brunans en ekkert hafði upplýst um eldsupptök og ekkert var í húsinu, er valdið gæti sprengingu, svo vitað væri. Venjuleg sjálfvirk olíumiðstöð var í húsinu.

-----------------------------------------------

Vísir 20 mars 1958

Eldsvoði á Siglufirði. Eldurinn kom upp á miðhæðinni – orsakir ókunnar.

Siglufjarðarbær lamaður eftir hinn sviplega atburð

Svo sem getið var í meginhluta upplags Vísis í gær, varð hörmulegt slys á Siglufirði er Hótel Höfn brann ásamt eiganda þess. Gísli Þ. Stefánsson fórst ásamt syni sinum, 6 ára gömlum, Stefáni að nafni. Eldsins varð vart laust eftir klukkan 8 í gærmorgun og að því er Vísi var tjáð frá Siglufirði í morgun, varð húsið alelda á samri stundu og fuðraði upp svo ekki varð við neitt ráðið.

Átti slökkviliðið fullt í fangi með að verja nærliggjandi hús og talið er, að þau myndu einnig hafa brunnið ef hvassviðri hefði verið og vindurinn staðið á þau. Hótel Höfn var tvílyft hús, byggt úr timbri, en steypt gólf er yfir stofuhæðinni og brann hún ekki. Þá brann ekki heldur stór viðbygging, sem Gísli hafði látið byggja við húsið og var notuð sem samkomusalur. Voru það hin veglegustu salarkynni og nýlega búið að taka þau í notkun.

Gísli hóteleigandi bjó ásamt fjölskyldu sinni á miðhæð hússins og bjargaðist fólkið naumlega út nema sex ára drengur þeirra hjóna, Stefán að nafni, sem brann inni og Gísli sjálfur, sem stökk skaðbrenndur út um glugga á miðhæðinni, þar eð allar útgöngudyr voru lokaðar. Auk þess mun Gísli hafa slasast við fallið og lézt hann á sjúkrahúsinu á Siglufirði skömmu síðar. Gísli mun hafa ætlað að bjarga Stefáni litla út úr eldinum og þess vegna orðið svona naumt fyrir.

Gísli heitinn er Húnvetningur að uppruna, en lærði til þjóns og var fyrst starfsmaður hjá Ríkisskip og síðan Hótel Borg. Hann mun hafa flutzt ásamt konu sinni til Siglufjarðar um 1943, annaðist hótelrekstur fyrst í stað á Hótel Hvanneyri, en fyrir nokkrum árum keypti hann Hótel Höfn og hefur haft rekstur beggja hótelanna á hendi síðan. Hótel Hvanneyri er þó aðeins starfrækt á sumrin.

Gísli var 38 ára gamall, vinsæll máður og vel látinn, Áður en Gísli keypti Hótel Höfn hét það Hótel Siglunes og mun Henrik Thorarensen hafa byggt það.  

Samkvæmt upplýsingum frá bæjarfógetanum á Siglufirði í morgun er talið fullvist að eldsupptökin hafi verið á miðhæðinni, en um orsakir er enn ekki vitað. 

Verður sérfræðingur fenginn í dag til þess að athuga rafmagnið og hvort orsakanna muni vera að leita til þess. Fréttaritari Vísis á Siglufirði sagði að allur bærinn væri lamaður eftir þennan sviplega og átakanlega atburð. 

-----------------------------------------------

Mjölnir 21 mars 1958  (frétt)

Hörmulegt Slys 

Gísli Þ. Stefánsson, hótelstjóri, og sex ára sonur hans, Stefán, biðu bana af völdum eldsvoða, er Hótel Höfn brann í fyrradag. 

Um áttaleytið á miðvikudagsmorgun varð elds vart á miðhæð  Hótel Hafnar. Magnaðist eldurinn  svo skjótt, að húsið varð alelda á  fáeinum mínútum. Í húsinu bjó  Gísli Þ. Stefánsson, kona hans og  4 börn. Einnig Magnús Þórarinsson, kennari, sem bjó á efstu hæð.  Engir gestir voru í hótelinu.

Fólk mun hafa vaknað og þá, orðið eldsins vart og komst konan og  börnin tvö naumlega út og  Magnús einnig, öll á nærklæðum  einum.

Stefán sonur þeirra hjóna  mun ekki hafa náð út, en faðir  hans ætlaði að finna hann og  bjarga honum. Það tókst ekki og  stökk Gísli út um glugga á miðhæð hússins. Var hann þá orðinn  skaðbrenndur og slasaður. Var  hann fluttur í Sjúkrahús Siglufjarðar og lést þar eftir skamma  stund.

Elsti sonur hjónanna var  fyrir nokkru farinn í skóla, og  varð þá einskis var.

Um kl. 10 var allt brunnið, sem  brunnið gat á efri hæðum hússins, sem var steinhús, með steinlofti milli 1. og 2. hæðar en klæðning öll og innviðir úr timbri og  öðrum eldfimum efnum á hinum  hæðunum. Ekki varð neitt við  eldinn ráðið því húsið var alelda,  þegar slökkviliðið kom á vettvang, og lélegur vatnsþrýstingur  fyrst. Slökkviliðinu tókst þó að  verja næstu hús, en mjóu munaði, að eldur læsti sig í húsið  Eyrargötu 17. Rúður brotnuðu í  því húsi og einnig allar rúður á  götuhlið hússins

Lækjargata. 9  sviðnaði nokkuð þrátt fyrir,  að vatni væri á það dælt og segl  þanin yfir, eftir því sem hægt var.

Það var blæjalogn og sólskin og  reykurinn steig beint upp í loftið.  Menn hugsa með hryllingi til þess  ef vindur hefði staðið t.d. af norðaustri, því allar líkur benda til, að  þá hefði ekki tekist að verja tvö  e.t.v. þrjú hús, öll timburhús að  mestu, sem vestan Lækjargötu  standa.

Ekkert er vitað um eldsupptök.

Hótel Höfn var nú helsta samkomuhús bæjarins auk þess að  vera, gistihús. Gísli Þ. Stefánsson  hafði byggt stóran og velbúinn  samkomusal við húsið austanvert  og var neðsta hæð hússins tengd  þeim sal, anddyri, fatageymsla og  fleira.

Voru húsakynni þessi tekin í   notkun nú um áramótin sl. Samkomusalurinn varð fyrir litlum  skemmdum af eldi, en allmiklum  af reyk og vatni, svo og innanstokksmunir.

Þessi bruni og manntjónið, sem  af honum hlaust, er einn hörmulegasti atburður, sem hér hefur  gert í langa tíð. 

Ath. sk. Skrifað var um þennan hörmulega atburð í flestum fjölmiðlum, en hér er aðeins það helsta sem skrifarð var, annað nánast samhljóða í öðrum miðlum, í mörgum tilfellum stutt frásögn. 

Myndirnar þrjár hér neðar voru teknar af Kristfinni Guðjónssyni. 

18-58-0272-#

18-58-0272-#

18-58-0272-#