Íkveikjan á lögregluvarðstofunni og....

Morgunblaðið 29 september 1938

Tveir eldsvoðar á Siglufirði í gær í lögreglustöðinni og Hólsbúinu

ELDUR kom upp á tveimur stöðum um svipað leyti í gær morgun á Siglufirði. Kviknaði í í heyi í hlöðu á Hólsbúinu og í dívan á lögreglustöðinni á Siglufirði. Töluvert skemdist af heyi á Hólsbúinu, en á lögreglustöðinni urðu litlar skemdir. Það var um sex-leytið í gærmorgun, sem heimilisfólkið á Hólsbúinu varð eldsins vart í hlöðunni.

Logaði heyið upp með austurveggnum. Fólkið kæfði logana með vatni og byrgði hlöðuna. Var sÍðan kallað á slökkviliðið og tókst því ásamt fleira fólki að kæfa eldinn. Hlaðan er steinsteypt og tekur um 1000 hesta af heyi, en ekki voru í henni nema 500 hestar. Um 30 hestar af heyi brunnu og meira eyðilagðist af vatni og reyk. Hús og hey var vátrygt hjá Brunabótafjel. Íslands. Brunaorsökin: sjálfíkveikja.

Eldurinn á lögreglustöðinni. Á meðan Hólsbúsbruninu stóð yfir, eða kl. 7 í gærmorgun, er yfirlögregluþjónninn Bjarni Jóhannesson kom á lögreglustöðina, logaði þar í dívan og þili. Virtíst þessi eldur mjög grunsamlegur. Skemdir urðu litlar, en talið, að ef lögregluþjónninn hefði komið nokkrum mínútum síðar en raun var á, þá hefði þarna orðið stórbruni, þar sem lögreglustöðin er í gömlu timburhúsi. Málið er í rannsókn, þar sem líklegt þykir að

ekki sje alt með feldu um bruna þenna.Ath. sk. Lögregluþjónninn var Jóhannsson, ekki Jóhannesson eins og í blaðinu stóð.

-----------------------------------------------------

Neisti 12. október 1938

Íkveikjan á lögregluvarðstofunni.

Fyrir skömmu vöknuðu Siglfirðingar snemma morguns við brunalúðrana og  flaug sú fregn um bæinn, að kviknað væri í heyi á Hólsbúinu. Slökkviliðið fór  staðinn og eldurinn varð slökktur áður en skemmdir urðu mjög miklar, sú saga  skal heldur ekki rakin hér, en í þess stað gert að umtalsefni atvik, sem kom fyrir  þennan sama morgun, atvik sem er mikið alvarlegra en heybruninn á Hóli,  hvort sem hann hefir stafað af trassaskap eða óviðráðanlegum orsökum. 

Þegar slökkviliðið var farið fram að Hóli þennan umrædda morgun kom  yfirlögregluþjónn bæjarins inn á lögregluvarðstofuna og það fyrsta sem hann  rekur augun í, er að eldur er í teppi á dívan, sem stendur gegnt dyrunum.  Hann segir svo frá; 

"Að hann hafi í flýti vöðlað teppinu saman, farið með það í  miðstöðvarklefa hússins en þar er handlaug - og kæft eldinn og borið síðan  vatn inn á varðstofuna og skvett á þilið sem dívaninn stóð við, en það var  ofurlítið byrjað að sviðna. Við nánari athugun á þiljunum og dívaninum,  kom  það í ljós, að á það hafði verið skvett steinolíu. Það er því ekki um að villast, að  hér er um íkveikju að ræða, enda gat naumast átt sér stað, að eldur kæmi  þarna upp öðruvísi, en steinolían tekur þó af öll tvímæli, ef nokkur hefðu verið."

Í húsinu sem varðstofan er í, - "Hvíta húsinu" - hefur bærinn skrifstofur sínar og  voru öll skrifstofuáhöld og innanstokksmunir óvátryggðir, ennfremur er þar mjög mikið af  skjölum, fundargerðabókum og ýmsum fleiri afar þýðingarmiklum skjölum,  bænum tilheyrandi, sem varla verður metið til peninga, og hefði orðið bænum  mikið tjón, hefði það brunnið. 

Bærinn hefði því beðið stórtjón peningalega ef húsið hefði brunnið og þar að  auk mikið tjón vegna áðurnefndra skjala. Hver getur nú verið valdur að þessu  óþokkaverki? Gat nokkur haft hag af að húsið brynni?

Það verður ekki séð í fljótu bragði, að neinn gæti haft peningalegan hagnað  af að brenna húsið og hin svokallaða "rannsókn" í málinu hefir heldur ekki leitt  neitt í ljós, sem vísað gæti á þann seka, enda hefir þessi "rannsókn" farið fram  með hinum mestu endemum. Það eiga engir að hafa lykla að bæjarþingsalnum,  nema 5 eða 6 starfsmenn bæjarins og 3 menn aðrir. Af þessum 8 til 9 mönnum  geta 5 til 6 sannað, að þeir voru staddir allt annarstaðar í bænum á þeim tíma,  sem íkveikjan fór fram. 

Þegar yfirlögregluþjónninn kom að varðstofunni. var hún læst.  Brennuvargurinn hlýtur því að hafa haft lykil. Í rannsókn málsins hefði legið  beinast við, að athuga grandgæfilega hvernig ástatt var um þá menn sem vitað  var að höfðu lykla að húsinu og jafnvel setja þá þeirra í gæsluvarðhald, sem  ekki gátu fært fullkomnar sönnur á hvar þeir voru á þeim tíma, sem íkveikjan var framin, en þetta er ekki gert og virðist sem öll rannsóknin sé  hið mesta kák. 

Þegar komið er að eldinum í dívanteppinu er það svo lítið brunnið, að  naumast hafa verið liðnar meira en 1 til 1½ mínúta frá því kveikt var í.

Þrátt fyrir  þetta virðist yfirlögregluþjóninum ekki hafa dottið í hug að líta neitt í kringum sig  eftir tilræðismanninum. Útvarpinu var send fregnin um eldinn á Hóli, en hvers  vegna var þagað um íkveikjuna á lögregluvarðstofunni? 

Hvað líður rannsókninni?  Er það meiningin að þegja þetta mál í hel og láta sökudólginn sleppa? 

Að sinni skal látið nægja að draga mál þetta fram í dagsljósið, en það hefir  ekki verið sagt um það seinasta orðin ennþá. 

Það er krafa almennings, að sá seki verði fundinn.