Tengt Siglufirði
Dagblaðið 28 júlí 1978
Óskýranlegur eldsvoði á Siglufirði:
Húsið varð alelda á örfáum mínútum.
Húsbóndinn fórst í eldinum en húsmóður var bjargað út með mikil brunasár
Rétt eftir klukkan eitt í gærdag gaus skyndilega upp mikill eldur í húsinu nr. 10 við Lindargötu á Siglufirði. Efri hluti hússins varð alelda á ótrúlega stuttum tíma og stóðu eldtungurnar út um glugga nokkrum mínútum eftir að fólk, sem leið átti framhjá húsinu, varð þar einskis vart. Slökkviliðið kom fljótt á vettvang.
Húsmóðurinni í húsinu var bjargað út úr húsinu með mikil brunasár, en húsbóndinn Kristján Gunnarsson, maður á fertugsaldri beið bana í eldsvoðanum. Lindargata 10 var með elztu húsum á Siglufirði að sögn Kristins Georgssonar slökkviliðsstjóra. Hann og hans menn geta enn engum getum að því leitt, hver var orsök hins skyndilega elds, sem magnaðist ótrúlega á örskömmum tíma.
Hitinn frá eldinum var gífurlegur og sprungu ytri rúður í tvöföldum gluggarúðum næsta húss. Var það hús í hættu um tíma. Er slökkviliðið þar að húsinu var verið að bjarga húsmóðurinni út úr húsinu. Var hún mikið brennd á handleggjum og andliti og e.t.v. víðar. Var hún flutt til Reykjavikur þegar í stað með Vængja-flugvél og mun vera með 35% brunasár.
Húsbóndinn var staddur á efri hæð hússins. Þar uppi varð sprenging mikil um það bil er slökkviliðið kom að húsinu og eftir það varð ekki farið inn í húsið um nokkra stund. Er upp varð komizt fannst húsbóndinn látinn. Hjónin sem í húsinu bjuggu áttu sex börn á aldrinum eins og hálfs til 17 ára. Fjögur þau elztu voru af fyrra hjónabandi húsmóðurinnar.
Klukkan 5 í morgun gaus eldur aftur upp í brunnu húsinu og barðist slökkviliðið þá við hann í tvo tíma. Var eldhafið töluvert. Húsið var einangrað með torfi og sagi og sagði Kristinn slökkviliðsstjóri að rífa hefði þurft veggi til að slökkva mætti í torfinu. Var það erfitt verk. -ASt. — sjá frásögn sjónarvotts á baksíðu (frá forsíðu)
---------
Dagblaðið: Baksíðan !
Frásögn fyrsta sjónarvotts eldsins á Siglufirði:
„Ég sá barnið í glugga hins brennandi húss — og get ekki skýrt út hvernig mér tókst að ná því út um gluggann"
„Ég heyrði eitthvert torkennilegt sprengingarhljóð og á sömu stundu öskur frá dóttur minni og telpu sem með henni var að leik. öskur þeirra var þannig að einhver skelfing fólst í því, svo ég hljóp strax til þeirra út fyrir húsið. Þá sá ég eldinn á efri hæðinni að Lindargötu 10, en þar átti leikfélagi dóttur minnar heima."
Þannig sagði Guðbjörg Jóhannsdóttir að Lindargötu 11 á Siglufirði frá í samtali við DB, en hún mun einna fyrst hafa orðið eldsins vör í húsinu hinum megin götunnar.
„Ég hljóp að brennandi húsinu og sá um leið yngsta barnið í glugga á neðri hæðinni. Glugginn var opinn og án þess að ég geti skýrt hvernig það atvikaðist, stökk ég upp á brík sem á húsinu er. Kannski hefur maður sem kom þarna að líka stutt við mig.
Ég veit það ekki. En barninu náði ég og maðurinn tók við því. Ég fór með barnið heim til mín og kom því á öruggan stað og hringdi í slökkviliðið. Svo fór ég aftur að húsinu, sá enga hreyfingu en heyrði eitthvað. Í því kom slökkvilið á vettvang og húsmóðurinni var bjargað út. Þá kom sprengingin og eldurinn magnaðist ógurlega. Allt logaði. Þá voru örlögin ráðin aðeins á örfáum mínútum."
Guðbjörg sagði að tvö elztu börnin að Lindargötu 10 hefðu verið farin til vinnu er eldurinn kom upp. Ein telpa var við barnagæzlustörf í öðru húsi, önnur á barnaheimili, ein að leik á götunni með dóttur Guðbjargar og þeirri yngstu bjargaði Guðbjörg út um gluggann.
ASt.
-----------------------------------------------------------------
Vísir 28. Júlí 1978 (forsíða)
Móður og barni bjargað úr brennandi húsi
Ég sá að skyndilega teygðu eldtungur sig út um glugga á rishæð hússins beint á móti, og hljóp strax yfir götuna. Gluggi á neðri hæðinni var opinn og fyrir innan var litla stúlkan sem mér tókst að bjarga", sagði Guðbjörg Jóhannsdóttir á Siglufirði
Hún mun fyrst hafa vör við eldsvoðann að Lindargötu 10 á Siglufirði í gær. Þar fórst 32 ára gamall maður, Kristján Gunnarsson. Hins vegar tókst að bjarga konu hans, Elíngunni Birgisdóttur og Sylvíu dóttur þeirra sem er á öðru ári.
Guðbjörg býr í húsinu Lindargötu 11 og stendur það beint á móti húsinu sem brann. Eftir að hafa bjargað barninu fór hún með það inn til sín og hringdi þegar I slökkvilið. Að því búnu fór hún aftur inn í brennandi húsið og var þá reykur orðinn mikill.
„Ég fór inn I tvö herbergi á neðri hæðinni en þar var enginn.
Þegar ég kallaði upp stigann að rishæðinni heyrði ég þrusk þar uppi og í sömu svifum bar að tvo menn sem fóru upp stigann þar sem þeir fundu konuna og komu með hana niður. Í sama mund varð sprenging uppi og eldurinn læstist um allt", sagði Guðbjörg.
Elíngunnur var flutt til Reykjavikur með áætlunarflugvél Vængja þar sem gert var að brunasárum sem hún hafði hlotið. Slökkviliðið réði niðurlögum eldsins og fann lík Kristjáns. Eldsupptök eru ókunn. Sjá bls. 3. SG
Vísir: Bls.3
MAÐUR FÓRST í ELDSVOÐA Á SIGLUFIRÐI
Rishæðin varð alelda á svipstundu - móður og barni bjargað
Rúmlega þrítugur maður lét lifið i eldsvoða á Siglufirði i gær. Sambýliskonu hans og barni þeirra á öðru ári var naumlega bjargað skömmu eftir að kviknaði i en hin börnin voru ekki heima. Það var um klukkan 13.15 að eldur kom upp i húsinu Lindargata 10 sem er um 50 ára gamalt timburhús, en það er kjallari, ein hæð og ris.
Eldurinn virðist hafa komið upp i suðurenda rishæðarinnar. Ekki er enn vitað um eldsupptök. Eldurinn magnaðist fljótt og var rishæðin alelda á svipstundu. Þegar eldurinn kom upp voru i húsinu þrjár manneskjur, maður, kona og tæplega tveggja ára barn þeirra. Kona i næsta húsi var fyrst vör við eldinn og bjargaði barninu út um glugga á hæðinni.
Hún lét síðan slökkviliðið vita og fór aftur inn í hið brennandi hús til að athuga um fleiri íbúa þess en þá var kominn kæfandi reykur um það allt. Rétti því kom slökkviliðið og tveir menn fóru inn í reykhafið og komu fljótlega út meðhúsmóðurina sem var flutt strax á sjúkrahús og síðan með áætlunarflugvél Vængja sem var nýkomin á flugvöllinn, til Reykjavikur.
Hún mun hafa verið með mikil brunasár og því send til sérfræðinga. Ekki var frekari mannbjörg viðkomið vegna eldhafsins. Húsráðandinn, sem hafði verið á næturvakt í Síldarverksmiðju ríkisins, mun hafa sofið uppi og konan skaðbrenndist við að reyna að bjarga honum sem því miður tókst ekki í tæka tíð.
Fannst hann látinn þegar loksins var fært aftur inn í húsið. Allt innbú eyðilagðist í eldinum og er húsið sjálft talið ónýtt en tjónið hefur enn ekki verið metið. —SG/ÞRJ Siglufirði
-----------------------------------------------------------------
Morgunblaðið 28 júlí 1978
Maður ferst í eldsvoða í Siglufirði
MAÐUR um þrítugt brann inni í eldsvoða á Siglufirði skömmu eftir hádegi f gær og eiginkona hans brenndist nokkuð. Þrem börnum hjónanna var bjargað úr húsinu á síðustu stundu. Það var rétt um kl. 13 f gær, að fólk á Siglufirði varð skyndilega vart við mikinn eld í húsinu nr. 10 við Lindargötu, en það er tvílyft timburhús, og steinsteyptur kjallari undir. Í húsinu voru hjón með 3 börn.
Fólk sem dreif að gat hjálpað börnunum út, t.d. einu út um eldhúsglugga og við að koma einu barninu út brenndist konan sem bjó í húsinu nokkuð. Þegar slökkviliðið í Siglufirði kom á vettvang var maðurinn ekki kominn út úr húsinu en hann hafði verið sofandi á efri hæð hússins þegar eldurinn kom upp og þá nýkominn af vakt í SR.
Eldurinn á efri hæðinni var svo mikill að ekki var viðlit að komast þar strax inn, en hins vegar gekk vel að ráða niðurlögum eldsins. Þegar slökkviliðsmenn komust inn í húsið fundu þeir manninn liggjandi á grúfu á baðherbergisgólfinu og var hann þá látinn. Kona mannsins brenndist nokkuð eins og fyrr sagði og var hún send til Reykjavíkur með flugvél, en hún var ekki talin í neinni lífshættu.
Þar sem ekki hafði tekizt að ná í alla aðstandendur mannsins sem fórst í eldinum f gærkvöldi er ekki hægt að skýra frá nafni hans að svo komnu. Að sögn lögreglunnar í Siglufirði þá eru eldsupptök ókunn en húsið mun að mestu ónýtt eftir brunann.
-----------------------------------------------------------------
Morgunblaðið 29 júlí 1978
Eldur aftur laus í gær
ELDUR kom aftur upp í gær í húsinu við Lindargötu 10 á Siglufirði en þar fórst maður í eldsvoða í fyrradag eins og sagt var frá í blaðinu f gær og kona og þrjú börn sluppu. Konan brenndist nokkuð en þó ekki eins mikið og talið var í fyrstu.
Samkvæmt upplýsingum slökkviliðsstjórans á Siglufirði kom eldurinn upp aftur vegna þess að glóðir höfðu leynzt í einangrun hússins sem var reiðingur. Tók nokkra stund að ráða niðurlögum eldsins á nýjan leik. Ekki er vitað um eldsupptök í fyrradag um hádegisbilið, en húsið varð þá alelda á 10 mínútum.
-----------------------------------------------------------------
Þjóðviljinn 29. Júlí 1978
Maður ferst í húsbruna á Siglufirði
Laust eftir kl. 13 í gærdag kom upp eldur I gömlu timburhúsi á Siglufirði, við Lindargötu.
Í húsinu bjuggu hjónin Elín Birgisdóttir og Kristján Gunnarsson með 6 börnum sinum, sem eru á aldrinum 2-18 ára. Eldurinn kom upp á efri hæð hússins og varð skjótt mjög mikill.
Börnin voru ekki öll heima er eldsins varð vart, en Elínu og nágrannakonu tókst að koma börnunum sem heima voru út, en Elín brenndist illa við björgunaraðgerðirnar og var flutt á sjúkrahús í Reykjavík. Kristjáni Gunnarssyni tókst hins vegar ekki að komast út og beið hann bana I eldinum.
Hann var 32 ára að aldri og hafði stundað sjómennsku og alhliða vinnu í landi. Eldsupptök eru óþekkt, en slökkviliðinu tókst að ráða niðurlögum eldsins á mjög skömmum tíma undir vaskri stjórn Kristins Georgssonar slökkviliðsstjóra. Húsið Lindargata 10 er gjörónýtt og missti fjölskyldan þar allt sitt innbú og eigur. -Þig/GRS
-------------------------------------------------------
Mjölnir 4 ágúst 1975
Maður ferst í húsbruna á Siglufirði
Laust eftir hádegið á fimmtudag 27. júlí kom upp eldur í húsinu Lindargötu 10 á Siglufirði, sem er gamalt timburhús. í húsinu bjuggu hjónin Elíngunnur Birgisdóttir og Kristján Gunnarsson með 6 börnum. Tvö elstu börnin voru farin til vinnu, þrjú voru úti við en yngsta barnið og hjónin inni.
Börn sem voru nálægt húsinu sáu fyrst reykinn og vöktu athygli Elíngunnar og Guðbjargar Jóhannsdóttur, sem býr í næsta húsi. Hljóp Guðbjörg inn og tókst á síðustu stundu að ná yngsta barninu og komast með það út um glugga, en Elíngunnur var farin upp á efri hæð hússins, þar sem Kristján svaf, en hann hafði verið á næturvakt í loðnuverksmiðjunni til kl. 8 um morguninn. Reyndi hún að bjarga honum út, en hæðin var þá orðin alelda og varð hún frá að hverfa og tókst með naumindum að komast út.
Beið Kristján bana í eldsvoðanum. Hann var 32ja ára og hafði mikið stundað sjómennsku en vann nú í landi. Svo heppilega vildi til, að flugvél frá Vængjum var stödd hér þegar eldsins varð vart og var hún fengin til að bíða þar til vitað væri um afdrif fólksins. Var Elíngunnur flutt með henni á Sjúkrahús í Reykjavík þar sem hún liggur enn, mjög illa brennt.
Útför Kristjáns heitins fór fram sl. fimmtudag. Húsið Lindargata 10 er gerónýtt og missti fjölskyldan þar allt sitt innbú og eigur. Slökkviliðið, undir stjórn Kristins Georgssonar, kom fljótt á vettvang og gekk vel fram við slökkvistarfið, en eldurinn var orðinn svo magnaður, þegar að var komið, að frá slysinu varð ekki forðað. Eldsupptök eru ókunn.
-------------------------------------------------------
Mjölnir sama dag, skrif af tilefni brunans !
Sem dæmi hér um sofandahátt bæjaryfirvalda má nefna að á sama tíma og 1/3 hluti brunahana bæjarins er óvirkur liggja nokkrir nýir í porti áhaldahússins og hafa ekki fengist settir niður þrátt fyrir síendurtekin tilmæli slökkviliðsstjórans.
En nota aðrir en slökkviliðið brunahana? Já, sést hefur til bæjarkarlanna þar sem þeir tengja slöngur sínar við þá og verðum við að ætla að þeir meðhöndli hanana sómasamlega. Komið hefur fyrir að hanar sem slökkviliðsstjóri hefur álitið að væru í fullkomnu lagi reynast skyndilega óvirkir þegar á að nota þá.
Ekki skal fullyrt hér hverjum er um að kenna, en óvirkur brunahani er mál sem ekki er hægt að yppta öxlum yfir. En sagan er ekki öll.
Á brunahönunum hafa verið unnin hrein og klár skemmdarverk eins og kom í ljós við brunann við Lindargötu þar sem eyru höfðu verið brotin af tengistykki eins hanans og tafði það fyrir meðan skipt var um. Að auki fá lokin á hönunum sjaldan að vera í friði. Það, að láta skemmdarfýsn sína bitna á neyðartækjum, er mesti ræfildómur sem hugsast getur.
Um eldvarnir í heimahúsum.
Auðvitað vonum við öll að eldur verði hvergi laus. En hvernig er eldvörnum háttað heima hjá þér, lesandi góður? Átt þú reykskynjara og slökkvitæki? Vita allir í fjölskyldunni hvað gera skal ef kviknar í.? Ég tel að það sé skylda hvers manns að hugleiða þessi mál og mun því verða gerð grein fyrir þeim tækjum sem helst koma að gagni, en hafa ber í huga að vanda bæði val og staðsetningu tækjanna.
a) Reykskynjari.
Fullkomnustu reykskynjarar eru ótrúlega næmir og nema meira að segja reyk sem við sjáum alls ekki t.d. uppgufun af plastefnum sem hafa ofhitnað en slíkar gufur geta verið baneitraðar (polyuretan). Tækin eru aftur á móti „ónæm" fyrir sígarettureyk ef hann er ekki óeðlilega mikill. Tækin ganga fyrir rafhlöðu og gefa sjálf til kynna ef skipta þarf um hana (árlega) og þurfa sáralítið annað viðhald.
b) Slökkvitæki.
Á markaðnum eru handhæg þurrduftstæki sem duga alveg á minni háttar elda og geta haldið eldi niðri þar til slökkviliðið kemur á staðinn. Góðir Siglfirðingar! Minnumst þess að eldurinn er góður þjónn en harður húsbóndi. Föllum ekki í þá gildru að hugsa sem svo: „Það kviknar ekki í hjá mér".
Kröfur okkar hljóta að vera:
Að brunahönum í bænum verði fjölgað, að brunahanarnir séu í fullkomnu lagi, að í þeim sé nægilegt vatn, að aðstaða slökkviliðs sé stórbætt. (Nú kemur í huga minn aðstöðuleysi Björgunarsveitar Slysavarnarfélagsins en það er efni í annan pistil út af fyrir sig). Ég skora á ykkur öll að íhuga þessi mál.
Að lokum þakka ég Kristni Georgssyni fyrir greinargóð svör við spurningum mínum.
Pétur Garðarsson