Tengt Siglufirði
Vísir 30 september 1957 - Frá fréttaritara Vísis. Siglufirði í morgun.
Miljónatjón í stórbruna á Siglufirði
Nótahjallur Síldarverksmiðju ríkisins brann með miklu af veiðarfærum
Í gær varð stórbruni á Siglufirði er nótahjallur Síldarverksmiðja ríkisins brann til kaldra kola með öllu sem í honum var og er þar um miljóna tjón að ræða. Húsið sjálft er stórhýsi, steyptir útveggir en með timburlofti og járnklæddu þaki.
Niðri í húsinu, sem er einn salur rafmagnsblásari sem blæs lofti í netin til að þurrka þau, en fullþurrkuð eru þau sett upp á loft og geymd þar yfir veturinn. Nú voru geymd í húsinu 27 snurpinætur og hringnætur auk rekneta og annarra veiðarfæra og voru fimm nætur í þurrkun niðri, en hinar allar geymdar uppi á lofti.
Verðgildi hverrar nótar nemur nú sem næst 100—120 þúsund krónum, svo að veiðarfæratjónið eitt út af fyrir sig er gífurlegt. Eldsins varð vart klukkan tæplega hálffimm í gærdag með því að eld- og reykjarsúla stóð allt í einu upp úr þakinu. Var slökkviliðinu strax gert aðvart og vann það sleitulaust að slökkvistörfum, er. allt kom ekki.
Allt, sem brunnið gat í húsinu brann til ösku og nokkru eftir að eldsins varð vart féll bæði þakið og loftið í húsinu og um sjöleytið í gærkveldi stóð tóftin ein eftir uppi. Eldhafið var gífurlegt og logaði í glóðunum fram á nótt. Enn í morgun stóð vörður við húsið til að koma í veg fyrir að neistar kviknuðu og læstust í nærliggjandi byggingar
Í morgun stóð vörður við húsið til að koma í veg fyrir að neistar kviknuðu og læstust í nærliggjandi byggingar. Má það teljast mikið lán í ógæfunni að blæjalogn var meðan húsið brann, því ella hefði geta farið illa. Síldarverksmiðjan S.R.P. er þarna á næstu grösum og henni stóð mikil hætta af eldhafinu. Voru segl breidd á verksmiðjuna og vatni dælt á hana án afláts, sömuleiðis á olíugeymi, sem að vísu stóð tómur, sunnan við nótahjallinn.
Tókst slökkviliðinu að bjarga báðum þessum byggingum. Eldsupptök eru ókunn, því enginn maður var í húsinu þegar eldsins varð vart, enda ekki unnið í húsinu í gær.
------------------------------------------
Morgunblaðið 1 október 1957
Milljóna tjón í eldsvoða í Siglufirði á sunnudaginn
Reykjarsúlan minnti á kjarnorkusprengingu er hún steig upp
Siglufirði, 30. sept.
KLUKKAN að ganga fimm í gærdag tóku Siglfirðingar eftir því að reykur steig skyndilega nokkur hundruð metra í loft upp af netjahjalli Síldarverksmiðja ríkisins hér í bæ. Var þetta líkast „sýnishorni" af kjarnorkusprengingu og sást reykurinn frá fiskiskipum yfir fjallið Stráka. Allt í einu varð sprenging mikil í hjallinum og varð hann eitt eldhaf á svipstundu. Klukkustund síðar var hann brunninn til ösku og milljónatjón hafði af hlotizt.
Í þessum netjahjalli Síldarverk smiðjanna voru geymdar eftir því sem næst verður komizt, 27 síldar nætur. Því má fullyrða að orðið hafi milljónatjón, því að ný nót kostar á annað hundrað þúsund krónur. Að minnsta kosti 21 þessara síldarnóta var vátryggð, en þær voru geymdar á vegum S. R. og jafnvel fleiri munu hafa verið tryggðar.
Rétt fyrir sunnan netjahjallinn stóðu tveir lýsisgeymar. Nokkru fyrir vestan hjallinn stóðu enn aðrir lýsisgeymar. Fyrir norðan hann stendur Dr. -Paulsverksmiðjan elzta síldarverksmiðjan hér og austur af hjallinum ganga trébryggjur í sjó fram. Voru því þarna í næsta nágrenni við hinn logandi hjall milljóna verðmæti.
Geyminn sem næst stóð suðurgafli hjallsins, sleiktu eldtungurnar, en hann var sem betur fer tómur, því ella hefði nokkur hluti af Siglufjarðarkaupstað og bryggjur verið í mikilli hættu. Slökkvilið Siglufjarðar undir stjórn Egils Stefánssonar gekk mjög rösklega fram en starf þess miðaði aðallega að því að verja nærliggjandi mannvirki. Ókunnugt er um eldsupptökin, en talið er að um sjálfsíkveikju geti verið að ræða. Útveggir hjallsins voru úr steini og standa þeir uppi. —St. –
---------------------------------------------
Mjölnir 3. október 1957 (frétt)
Stórbruni s.l, sunnudag. Klukkan um fjögur á sunnudaginn var, gaus allt í einu upp geysimikill eldur í síldanótageymslu Síldarverksmiðja. ríkisins, en hún stendur á verksmiðjulóðinni fast fram við bryggjurnar.
Slökkviliðið kom strax á vettvang en þá var eldurinn orðinn svo magnaður, að ekki varð við neitt ráðið. Brann allt húsið, nema steingaflar og súlur, sem halda uppi efsta hluta hliðanna. -
Að neðan voru trérimlar milli súlnanna.
Þá brunnu allar síldarnæturnar, sem þarna voru geymdar, um 25 talsins. Hafði Jón Jóhannsson, netamaður umsjón með flestum þeirra.
Ekki er kunnugt um eldsupptök en málið í rannsókn. Í þessum bruna hefur orðið stórkostlegt tjón. Veiðarfærin, sem þarna brunnu eru eflaust 3ja-4ra milljóna kr. virði.