Grunsamlegur húsbruni á Siglufirði. Tvenn hjón sett í gæsluvarðhald

Alþýðublaðið 3 nóvember 1936

KLUKKAN á 5. tímanum í fyrradag kom upp eldur í nýbygðu húsi á Siglufirði. Húsið var uppi við fjall, upp af svo nefndum Hlíðarvegi. Eftir tæpa klukkustund var búið að slökkva eldinn, og var þá neðri hæðin mikið brunnin. Eigendur hússins eru tvær konur, Lilja Júlíusdóttir og Ingibjörg Guðmundsdóttir.

Kom eldurinn upp á neðri hæð hússins, en þar bjó Lilja Júlíusdóttir. Fjölskylda Júlíusar Einarssonar, sem bjó á efri hæðinni, komst mjög nauðuglega út úr eldinum. Alþýðublaðið átti tal við bæjarfógetann á Siglufirði í morgun. Sagði hann, að húsið hefði ekki verið fullsmíðað. Var það vátryggt hjá Brunabótafélagi Íslands fyrir 12 þús. krónur, og innbú eigendanna fyrir 4 þús. kr. hvors fyrir sig. Eigendurnir voru þegar kallaðir fyrir rétt og síðan úrskurðaðir í gæzluvarðhald. Voru réttarhöld í málinu, í gær, en rannsókn er ekki að fullu lokið. Þykir nokkurn veginn víst, að kveikt hafi verið í húsinu. 

----------------------------------------------------- 

Vísir 3 nóvember 1936 - Siglufirði 2. nóv. FÚ 

Eldsvoði á Siglufirði.  

Um kl. 16,30 í gær braust út eldur í húsinu Ránargötu 6 B á Siglufirði. — Húsið sem er tvílyft timburhús, brann mjög innan, en féll ekki. Eigendur hússins eru Ingibjörg Guðmundsdóttir og Lilja Júlíusdóttir. Bjuggu þær i húsinu ásamt fjölskyldum sínum og brann innbú þeirra beggja að mestu leyti og matarforði.

Húsið var vátrygt fyrir 12.000 krónur og innbú alls fyrir 8000 krónur. — Um upptök eldsins er ókunnugt, en réttarhöld hófust í gærkveldi, stóðu mikinn hluta nætur, og héldu áfram í dag. Húsráðendur hafa verið í gæslu síðan rannsókn hófst. Ókunnugt er um árangur rannsókna.

--------------------------------------------------- 

Morgunblaðið 3 nóvember 1936

Húsbruni í Siglufirði. UM klukkan 4 á sunnudag kom upp eldur í húsi við Hlíðarveg í Siglufirði. Varð húsið á skammri stundu alelda, en þó tókst að slökkva eldinn áður en húsið brynni til kaldra kola. Er talið fullvíst að hjer sje um íkveikju að ræða.

Hús þetta var í smíðum og ekki fullgert. Stendur það undir fjallinu út og upp af Hlíðarvegi, og voru tveir eigendur þess. Ólafur Sveinsson og Júlíus Einarsson. Húsið mun hafa verið 11X12 álnir að stærð og tvær hæðir. Eldsins varð vart um kl. 4 á sunnudaginn í neðri bygð hússins og slapp fjölskylda Júlíusar Einarssonar, sem bjó á efri hæð, nauðulega út úr eldinum, 5 manns alls.

Á neðri hæðinni, þar sem eldurinn kom upp, bjuggu fjórir, svo að alls var í húsinu 9 manns. Slökkviliðið kom fljótt á vettvang, en þá var húsið alelda eins og áður er sagt. En vatnsleiðsla er þarna og brunahani skamt frá húsinu. Voru teknar þrjár vatnsslöngur í notkun, og varð eldurinn slöktur eftir tæpa klukkustund. Þá var neðri hæðin mjög brunnin, en lofthæðin lítið. Húsið var vátrygt hjá Brunabótafjelagi Íslands fyrir 12 þús. króna, en var ekki fullsmíðað. Innanstokksmunir eigendanna tveggja voru vátrygðir fyrir 4000 krónur hjá hvorum. -.-.

Maður, sem átti tal við Ólaf Sveinsson, segir að Ólafur hafi sagt sjer að eldurinn hafi komið upp í stofu hjá sjer á neðri hæðinni, en óvíst um upptök hans.

Þegar er slökkviliðinu hafði tekist að vinna bug á eldinum, voru báðir húseigendur  kallaðir fyrir rjett og stóðu yfirheyrslur fram á kvöld. Að þeim loknum voru þeir báðir og konur þeirra úrskurðuð í gæsluvarðhald. 

Hófust svo yfirheyrslur aftur í gærmorgun og stóðu fram eftir öllum degi í gær. Þykir sýnt, af því, sem fram komið er, að þarna hafi verið um íkveikju að ræða

---------------- 

Morgunblaðið 4 nóvember 1936

Íkveikjan í Siglufirði. 

Rjettarhöld stóðu enn yfir á Siglufirði í gærkveldi, út af húsbrunanum og var altalað í bænum, að þeir tveir heimilisfeður, sem í húsinu bjuggu hafi játað að þeir hafi verið valdir að húsbrunanum. En kona l Ólafs Sveinssonar, Ásta, neitar að vera nokkuð við þetta riðin.

----------------------------------------------------- 

Alþýðublaðið 6 nóvember 1936

Þau settust inn í stofn og biðu þess að húsið yrði alelda. Tvenn hjón á Siglufirði meðganga að hafa kveikt í húsi sínu.

Eigendur hússins, sem brann á Siglufirði á sunnudaginn, meðgengu á mánudag og þriðjudag að hafa kveikt í því. Eigendur hússins voru tvenn hjón, Ólafur Sveinsson og Lilja Júlíusdóttir og Júlíus Einarsson og Ingibjörg Guðmundsdóttir. Var alt þetta fólk sett í gæzluvarðhald undir eins og kviknaði í húsinu.

Þau neituðu öll fyrst í stað að vita nokkuð um upptök eldsins, en eftir þrálátar yfirheyrslur gafst Ólafur Sveinsson fyrstur upp á mánudagskvöld og meðgekk að hafa kveikt í húsinu með vitund og samþykki hinna Þriggja. Hafði Ólafur um kl. 4 á sunnudaginn safnað saman bréfarusli, farið með það í kjallara hússins og kveikt í því.

En um morguninn höfðu þau fjögur ákveðið íkveikjuna. Eftir að hann hafði kveikt í bréfunum, settist Ólafur, ásamt hinum þremur, inn í stofu og biðu þau eftir því, að eldurinn gripið um sig. Júlíus meðgekk loks á þriðjudag, en konurnar voru harðvítugastar og meðgengu ekki fyr en á miðvikudag.

Ástæðuna fyrir því, að Ólafur kveikti í húsinu kváðu hjónin hafa verið þá, að þeim hafi ekki líkað það og viljað ná vátryggingarfénu til að byggja húsið að nýju öðruvísi. Má nú vænta þess, að hinar tíðu íkveikjur á Siglufirði fari að réna, þar sem lögreglunni tekst að koma upp um brennuvargana.

-----------------------------------------------------

Morgunblaðið 6 nóvember 1936

Þeim líkaði ekki nýja húsið og kveiktu í því. 

Húsbruninn Á Siglufirði síðastliðinn sunnudag.

EIGENDUR hússins, sem brann í Siglufirði s.l. sunnudag, hafa nú játað að hafa kveikt í húsinu. — Húsið áttu tvenn hjón, Ólafur Sveinsson og Lilja Júlíusdóttir; Júlíus Einarsson og Ingibjörg Guðmundsdóttir. Voru þau öll sett í gæsluvarðhald eftir brunann. Rjettarrannsókn í máli þessu hefir staðið nær óslitið frá því á sunnudagskvöld kl. 6 til kl. 7 í gærkvöldi.

Ólafur Sveinsson hefir meðgengið að hann hafi kveikt í húsinu, og hin þrjú að þau hafi verið í vitorði með honum. Ólafur bar fyrir rjettinum að hann hafi á sunnudagsmorguninn viðað að sjer brjefarusli og látið það bak við kassa í geymsluherbergi á neðri hæð hússins, þar sem hann bjó. En Júlíus og hans fjölskylda bjó á efri hæð.

Um kl. 4 á sunnudaginn kveikti hann svo í brjefaruslinu með eldspýtu. Fór hann síðan í eldhúsið til konu sinnar og dvaldi þar góða stund, þar til eldsins varð vart af konu úr næsta húsi. Hafði hann haft á orði við konu sína um morguninn að rjettast væri að kveikja í húsinu þann dag. En áður hafði hann átt tal um þetta víð konu sína og meðeiganda hússins, Júlíus Einarsson.

Voru þeir báðir óánægðir með húsið. Sem þeir höfðu látið smíða í sameiningu, en það var ekki fullgert er kveikt var í því. Hafði Lilja, kona Ólafs, hvorki samþykt það nje mótmælt en Júlíus hefir játað að hafa gefið samþykki sitt og sagt konu sinni, Ingibjörgu, sem hafði látið málið afskiftalaust. Ólafur játaði brot sitt strax á mánudagsmorgun, en hin ekki fyr en á þriðjudag. Var þeim öllum slept úr gæsluvarðhaldinu í gærkvöldi og bíða þau nú dóms.

Húsið, sem brann, Ránargata 6 B, var tvílyft timburhús, ekki fullsmíðað. Það var brunatrygt fyrir 12000 krónur og búslóð hvors fyrir sig fyrir 4000 krónur. Alt hjá Brunabótafjelagi Íslands  

----------------------------------------------------- 

Einherji 6 nóvember 1936

Húsbruni á sunnudagskvöld. Húsið nr. 6B við Ránargötu brann að mestu, Bruninn orsakast af mannavöldum. Rannsókn málsins var lokið í fyrrakvöld.

Húsbruni á sunnudagskvöld. Húsið nr. 6B við Ránargötu brann að mestu, Bruninn orsakast af mannavöldum. Rannsókn málsins var lokið í fyrrakvöld. Rannsókn viðvíkjandi upptökum eldsins hófst þegar á sunnudagskvöld. Lék þegar grunur á að íkveikjan væri af mannavöldum og þar af leiðandi var rannsókn hafin strax.

Ólafur Sveinsson viðurkennir að hafa kveikt í húsinu og haft til þess samþykki Júlíusar mótbýlismanns síns. Rannsókn í brunamálinu lauk í fyrrakvöld um kl, 7, hafði hún staðið yfir frá því kl. um 6 á sunnudagskvöld, nærfellt óslitið. Hin grunuðu. hjónin Ólafur Sveinsson og Lilja Júlíusdóttir, Júlíus Einarsson og Ingibjörg Guðmundsdóttir kona hans, hafa öll meðkent að hafa verið sek og meðvitandi í bruna hússins Ránargata 6B.

Ólafur játaði að hafa einn kveikt í húsinu, hafði hann viðað að sér á sunnudagsmorguninn bréfarusli og látið það á bak við kassa í geymsluherbergi á neðri hæð hússins, en hann bjó á þeirri hæð, en Júlíus á efri, um kl. 4 á sunnudaginn kveikti hann svo með eldspítu í bréfaruslinu, fór inn í eldhús til konu sinnar og dvaldi þar um stund, þar til eldsins var vart af konu úr næsta húsi. Á sunnudagsmorguninn segir Ólafur við konu sína að nú væri réttast að láta húsið fara í dag, áður hafði hann rætt um íkveikjuna við konu sína og Júlíus sameiganda sinn, og voru þeir sammála um að láta húsið brenna, því báðir voru óánægðir með það.

Lilja hafði hinsvegar gjört hvorugt að samþykkja íkveikjuna, eða setja sig á móti henni. Júlíus hefur játað að hafa samþykkt að kveikja í húsinu, og sagt konu sinni frá því, en hún látið það afskiftalaust. Húsið var vátryggt hjá Brunabótafélagi íslands fyrir 12000 krónur og innanstokksmunir fyrir samtals 8000 krónur.

Lögreglan hér á þakkir skilið fyrir hinar röggsamlegu aðgerðir í máli þessu og hve fljótt og vel henni tókst að leiða þetta leiðinlega mál til lykta.