Tunnuverksmiðju Söbstads á Siglufirði brennur og fleira

Verkamaðurinn 10 júlí 1919      

Bruni á Siglufirði. 

Á Mánudagskvöldið var brunnu húseignir H. Söbstads síldarkaupmanns á Siglufirði til kaldra kola. Eldsins varð vart á sjöunda tímanum og byggingarnar fallnar eftir klukkutíma. Brunnu þarna þrjú hús, er öll voru samföst.

Syðst íbúðarhús með tunnuverksmiðju í kjallaranum, þar norðan við síldarbræðsluverksmiðja, með lifrarbræðsluáhöldum í kjallara, og nyrst nýbygt stórhýsi, sem ekki mun hafa verið tekið til notkunar ennþá. Getið er til að kviknað hafi út frá gufukatli í lifrarbræðsluhúsinu, því verið var að gufubræða lifur þennan dag.

Skaðinn er afar mikill, og munu húseignirnar hafa verið vátrygðar mjög lágt, og margt brann inni í húsunum, sem ekki hefir verið vátrygt, svo sem mikið af lyfur, mörg steinolíuföt, stór herpinót, síldarnet og margt fleira. Slökkviáhöld voru í megnasta ólagi og komu ekki að gagni, en vindstaða var hæg á sunnan og bar hitann því frá næstu húsum.

Síldarbryggjur framan við húsin skemdust ekki til muna. Enginn mannskaði eða meiðsl urðu við brunann. H. Söbstad var einn af fyrstu norsku útgerðarmönnunum, sem tóku sér bólfestu á Siglufirði. Var hann einn af stærstu síldarútgerðarmönnum Siglufjarðar á fyrri árum, og á síðustu árum hefir hann auk 'þess rekið síldar- og lifrarbræðslu og tunnusmíði, með elju og fádæma áhuga. En eldurinn er stórvirkur. Á einum klukkutíma breytti hann margra ára starfi þessa atorkumanns og feikna fémæti í reyk og ösku.

Myndin sýnir nefndan Söbstad bruna. - 
Ljósmyndin var tekin þann, 7. júlí 1919. -
Ljósmynd: Sveinbjörn Jónsson Byggingameistari frá Akureyri - 
Ólafur Magnússon ljósmyndari (Mbl.) litaði myndina árið 1924
Húsið mun hafa staðið á þeim stað er húsið Síbería, sem Primex-kitosanverksmiðjan

Myndin sýnir nefndan Söbstad bruna. -
Ljósmyndin var tekin þann, 7. júlí 1919. -
Ljósmynd: Sveinbjörn Jónsson Byggingameistari frá Akureyri -
Ólafur Magnússon ljósmyndari (Mbl.) litaði myndina árið 1924
Húsið mun hafa staðið á þeim stað er húsið Síbería, sem Primex-kitosanverksmiðjan

--------------------------------------------------------

Íslendingur 11 júlí 1919

Stórbruni á Siglufirði. 

Á mánudaginn kviknaði í síldarolíu- og tunnuverksmiðju Söbstads á Siglufirði og brunnu til kaldra kola. Er sagt, að kviknað hafi í út frá miðlofti verksmiðjanna. Byggingin mun hafa verið vátryggð fyrir 45 eða 48 þús. krónur, en allt annað, sem fórst í bruna þessum óvátrygt, svo eigandinn hefir orðið fyrir afarmiklu tjóni.

Þar fórust meðal annars 150 ný net, ný snurpinót, er kostaði 10 þús. krónur, mikið af tunnum og allskonar efnivið, lýsi ofl. Þá eru ekki aðrar síldarolíuverksmiðjur á Siglufirði en Goos's, en í ráði er, að »Hinar sam. ísl. verslanir« láti byggja verksmiðju þar í vetur og hefir fjelagið ákveðið að kaupa um 10 þús. mál síldar í sumar til bræðslu í vetur.