Tunnuverksmiðja Siglufjarðar brann í gær (23 maí 1934)

Bruni á Siglafirði. Klukkan um hálf þrjú í gær komi upp eldur í tunnuverksmiðjunni á Siglufirði, að menn halda, út frá hljóðdeyði olíuhreyfilsins, er knúði vélarnar. Var hreyfillinn í útbyggingunni, áfastri norðan við aðalbygginguna. Eldurinn magnaðist á svipstundu og reykjarsvælan, og sluppu verksmiðjumennirnir út án þess að fá bjargað fötum sínum eða smíðatólum, sem brunnu þarna óvátrygð.

Tunnuverksmiðjan var stór steinbygging, er bærinn átti, og næstu hús við eru lýsisgeymsluhús ríkisverksmiðjunnar að austan og íbúðarhús Páls Dalmars fulltrúa að vestan. Bæði þessi hús urðu varin. Byggingin sjálf var vátrygð fyrir 14 þús. kr. hjá Brunabótafélagi íslands. Vélar verksmiðjunnar voru vátrygðar fyrir 40 þús. kr. og efni, sem þarna brann, vátrygt fyrir 12 þús. kr., hvorttveggja hjá Sjóvátryggingarfélagi Íslands.

Tunnur þær, sem verksmiðjan hafði framleitt í vetur, voru geymdar í mjölskemmu Ríkisverksmiðjunnar og skemdust ekki. Tunnuverksmiðja Siglufjarðar er samvinnufélag 50 manna, og hafa þeir með ábyrgð ríkisins komið sér upp vélum og rekið fyrirtækið, en bærinn leigt félaginu húsnæðið. Félagsmenn hafa orðið fyrir miklu tjóni, því mikið af vinnu sinni við verksmiðjuna frá stofnun hennar hafa þeir lagt í fyrirtækið, en vátryggingarupphæð tæplega fyrir innkaupsverði véla og útbúnaði. (FÚ.)

----------------------------------------- 

Nýja dagblaðið 24 maí 1934

Stórbruni á Siglufirði Tunnuverksmiðjan brann í gær Tjónið minnst 100 þús. kr.

Kl. 2½ í gærdag kom upp eldur í Tunnuverksmiðjunni á Siglufirði, að því er menn halda út frá „púströri" hreyfilsins, sem var í útbyggingu norðan verksmiðjuhússins. Inn í sjálfa verksmiðjuna kom eldurinn um gat það á veggnum, sem vélreim frá hreyflinum lék í, og magnaðist svo skjótt, að verksmiðjumennirnir sluppu nauðulega út án þess að geta bjargað fötum sínum eða smíðatólum, sem brunnu þarna óvátryggð.

Sú skýring er gefin á því hversu fljótt magnaðist eldur og reykjarsvælan, að mikið af smágerðu sagi hafði sezt á alla veggi og veggjasyllur. Tunnuverksmiðjan var í stórri steinbyggingu, sem bærinn átti og hafði selt félaginu á leigu. Byggingin sjálf var vátryggð fyrir 14 þús. kr. hjá Brunabótafélagi Íslands, en vélar verksmiðjunnar voru tryggðar hjá Sjóvátryggingarfélaginu fyrir 40 þús. kr. og tunnuefni hálfsmíðað og ósmíðað, var tryggt fyrir 12 þús. kr. hjá sama félagi.

Tunnuverksmiðjan var samvinnufélag 50 manna, sem unnu að tunnusmíðinni. Höfðu þeir með miklum dugnaði unnið að því að koma fyrirtæki þessu á fót, og m. a. lagt fram mikla vinnu til stofnkostnaðar verksmiðjunnar. En ríki og bær höfðu veitt fjárhagslega aðstoð og ábyrgðir, til þess að fá vinnu við smíði á síldartunnum, sem svo mikið er notað af árlega, flutta inn í landið.

Vátryggingarfjárhæð vélanna nemur áþekkri fjárhæð og skuldum þeim, er á vélunum hvíldu. Hálfsmíðað og ósmíðað efni í 5—6 þús. tunnur, brann þarna. Alls hafði verksmiðjan lokið smíði á 19 þús. síldartunnum, en þær voru geymdar í mjölskemmu Ríkisverksmiðjunnar og skemmdust því ekki. Einnig bjargaðist ósmíðað efni í 300 tunnur.

Talið er að beint tap verkamannanna í Samvinnufélaginu, er af bruna þessum hefir hlotizt, nemi um 30 þúsundum króna, en vátryggingarfjárhæðin samanlögð er 66 þús. Þorkell Þ. Clementz vélfræðingur hefir beizt fyrir um stofnun verksmiðjunnar og veitt henni forstöðu.