Fram 1916-1917

Heimildarsíðan – Blaðið fram

Fram 1916-1917 - 1. árgangur 1916-1917, 1. tölublað, blaðið FRAM

Til lesenda. 
Um leið og hið fyrsta blað af »Fram« kemur fyrir almenningssjónir, viljum vér gera nokkra grein fyrir tilveru þess og tilgangi.

Siglufjörður hefir nú um nokkurra ára bil, verið aðalstöð hins mesta peningastraums er að landinu hefir borist. Hefir sá straumur verið til mikils gagns fyrir sveitina sjálfa, fólk víðsvegar frá, og ekki síst fyrir landsjóð.

Eigi að síður hefir Siglufjörður verið settur á lægri bekk, bæði í áliti manna úti um land, og að nokkru leiti í fjárveitingum til opinberra fyrirtækja. Eitt af erindum þeim er þetta blað þykist eiga er það að gefa mönnum kost á að kynnast Siglufirði nánara, með réttari og sannari frásögnum en áður hafa gengið manna á milli.

Opinber landsmál mun blaðið ræða án þess þó að taka saman við nokkurn sérstakan stjórnmálaflokk. Innanhéraðsmál munu tekin til rækilegrar íhugunar. Fréttir, innlendar og útlendar mun blaðið gera sér far um að flytja sem mestar og réttastar, og höfum vér til þess fengið góð sambönd. Að svo mæltu felum vér blaðið velviljuðum lesendum.

Ritstjórar: Friðbjörn Níelsson og Hannes Jónasson.
----------------------------------------------------------------------------

Höfnin.

Engum sem kunnugur er staðháttum hér á Siglufirði, dylst það, að framtíð hans sem blómlegs fiskiþorps og kauptúns eins atvinnumesta pláss landsins - og innan fárra ára eins álitlegasta bæjar á landinu, ef rétt er áhaldið — stendur og fellur með höfninni. Hitt vitum vér líka, að höfninni til bóta hefir ekkert — alls ekkert verið gjört, sem til framkvæmda hefir komið, fram til þessa dags, því eg tel ekki ljósmerkið á Selvíkurnefi, sem, þó það sé betra en ekkert, gjörir ekki nægilegt gagn sem leiðarljós fyrir fjörðinn.

Satt er það, að úr litlu fé hefir verið að spila en þó hefði mátt gjöra meira en gjört hefir verið, en um það dugar víst eigi að fást, enda er nú það stórmál á döfinni hjá hafnarnefnd sem hlýtur að setja til síðu flest annað meðan það kemst í framkvæmd, enda einna brýnust þörfin í þá átt; eg á við Hafnarbryggjumálið. Þörfin fyrir hafnarbryggju eða bryggju til almennra nota er nú orðin líklega 8 ára gömul og hefir altaf farið vaxandi með vexti kauptúnsins og fólksfjölgunar og þar af leiðandi aukinni atvinnu og viðskiftum, enda nú svo komið að framkvæmd þess máls er algerlega óhjákvæmileg.

Málið er líka komið það á veg að hafnarnefnd hefir látið landsverkfræðing Krabbe gjöra uppdrætti og áætlanir að bryggjunni, en eg hefi því miður heyrt, að Krabbe sjálfur telji þær ekki ábyggilegar, og er það leitt, því þrátt fyrir það þó Krabbi tæki ekki neitt fyrir sína vinnu, kostaði þó verk þetta um 600 kr. og á svona undirstöðu er eigi hægt að byggja. Það var afráðið þegar formaður hafnarnefndarinnar, Guðm. Læknir fór til útlanda í haust, að fela honum að ferðast til Noregs í vetur eða vor og leita þar samninga við hafnarverkfræðinga í Bergen sem hann hafði skrifast á við um málið um að þeir sendu upp hæfan mann til að skoða og »planleggja« bryggjuna og gjöra ábyggilegar áætlanir. Svo langt er þó undirbúningur málsins kominn eins og nú standa sakir.

Það hefir verið talið sjálfsagt að bryggjan yrði byggð undan austurenda flóðgarðsins fyrir utan Söbstað, gengi þar út og austur í fjörðinn, og tæki af sjógang og ísrek þeim bryggjum sem innar eru á eyrinni. Bryggjustæði hefir verið mælt þarna — líklega að ráðum Krabbes - og hreppsnefnd og hafnarnefnd svo samþykt það þegjandi, og mótmælum aldrei verið hreyft af neinum, af þeirri einföldu ástæðu að málið hefir aldrei opinberlega verið rætt, því hitt er mér vel kunnugt að margir líta öðrum augum á málið en þeir sem um það hafa fjallað hingað til.

Vér sem kunnugir erum orðnir mætti íss og ægis hér á Siglufirði og eg tel okkur hafa betri þekkingu í þeim efnum en alla landsins verkfræðinga — vitum það að bryggja þarna útfrá þarf að vera mjög ramgjörð eigi hún að standa óhögguð, og við höfum ekki efni á að fita okkur áfram með tilraunum, þó landssjóður hefði það með flóðgarðinn. Að bryggjan verði því afar dýr þarna, um það eru víst allir sammála. En til þess að því fé sé eigi að meira eða minna leiti á glæ kastað, þarf notagyldið að vera tilsvarandi. Notagyldi bryggjunnar þarf að vera:

1. Að fólks og vöruflutningaskip geti lagst og legið við hana og af- og ífermt sig í hvaða veðri sem er.

2. Að þar sé hægt að taka móti vörum út- og uppskipuðum eins og þörf krefur, án þess vörunum sé hætta búin af sjógangi.

3. Að tilheyrandi bryggjunni og áföst henni sé nægileg lóð til að byggja á vörugeymsluhús fyrir afgreiðslu skipa þeirra sem hingað hafa fasta áætlun, og fyrir kolabyrgðir.

4. Að bryggjan liggi á svo hentugum stað og svo nærri miðbiki kauptúnsins að öllu öðru jöfnu, að flutningar frá og að henni séu sem hægastir og kostnaður minstur.

Eg geng viljandi framhjá síldarsöltun á bryggjunni þótt eg viti að hún hafi verið ráðgerð, því mér virðist það aukaatriði óskylt málinu. —

Að sönnu gott að hafa fé upp úr fyrirtækinu á þann hátt, ef það rýrir ekki notagildi þess að öðru leiti, og síldarsöltunin má alls ekki vera aðal atriðið. Þessum fjórum framanskráðum atr. getur bryggjan útfrá eigi fullnægt.

1. Brimið í haust sýndi okkur það, að sjór getur orðið kraftmikill hér inni, og þó eigi væri um jafnmikinn sjógang að ræða og þá, mun þó mikið þurfa svo ó- hætt sé, a. m. k. er hætt við að uppfylling (leir og möl) skoli úr henni, því hún verður aldrei höfð svo að sjór ekki gangi yfir hana á þessum stað. Og hvernig fer uppskipun fram í stormi, við þá bryggju sem sjór gengur á? Hún verður óframkvæmanleg og verður að stöðvast alveg, eins og nú bátauppskiptin framan af höfninni, og er þó þetta það atriði sem mest áhersla verður að leggjast á.

Bryggja þessi, þó svo ramgjörð væri, að hún stæðist sjórót og ísrek, gæti heldur aldrei varið allar bryggjurnar fyrir innan sig. Fyrir sjóroki kynni hún að verja bryggjur þeirra Söbstads og Bakkevigs en ekki fleiri, og fyrir ís ekki einusinni þær. Þegar ís á annað borð er kominn inn á höfnina, þá ferðast hann ekki eftir neinum föstum reglum, en tekur ótal útkróka og hringferðir og við vitum að lítill jaki nægir til að brjóta jafnvel fleiri bryggjur. Eg tel líka því fé illa varið sem á þennan hátt gengi til að vernda hagsmuni örfárra einstaklinga á meðan aðrir sem jafna hlutdeild ættu hlunnindanna, eigi nytu þeirra að neinu.

2. Af því sem tekið er fram við 1. gr. sést það að vörur lægju undir skemdum af sjógangi á bryggju þarna.

3. Mér er sagt að allar lóðir við hið fyrirhugaða bryggjustæði séu nú þegar fyrirfram leigðar út einstökum mönnum, sem flestir munu hafa tekið þær í þeim tilgangi að græða á sölu þeirra þegar búið væri að byggja bryggjuna. Hvort það er satt veit eg ekki, en ef svo væri rýrir það mjög notagildi bryggjunnar.

4. Bryggjan liggur þarna alveg í útjaðri kauptúnsins og langan veg frá öllu viðskiptalífi. Hlyti því allur flutningur að og frá henni að verða margfalt erfiðari og kosnaðar metri en ella. Keyrsla er hér orðin dýr eins og annað og sem verra er, nær ófáanleg með köflum, svo þetta mundi valda miklum erfiðleikum. Nei, hafnarbryggjan á að byggjast sunnan á tanganum, þar sem nú stendur bryggja sú sem sam. versl. hafa leigt Edv. Jacobsen. Það á að kaupa, eða ef það ekki fæst, þá að taka lögnámi, af hinni miklu lóð sem Hinar sam. ísl. verzl. eiga, og sem er svo langt frá að þær hafi þörf fyrir til eigin afnota, að þær leigja út öðrum til síldarsöltunar meginið af henni.

Látum verðið fyrir sölu eða lögnámi vera ríflegt. Það vinnst upp beinlínis og mikið meira við það hve ódýrari bryggjan yrði þarna en útfrá auk óbeina hagsins, því sunnan á tanganum nægir ágætlega, sterk timburbryggja sem varla kostar fleiri þúsundir, en steinbryggjan útfrá kostar tugi þúsunda. Og gagnið þarna yrði margfalt. Bryggjan væri þarna í skjóli fyrir sjógangi af allri hafátt, svo upp og útskipun gæti framfarið hindrunarlaust hvað sem gengi á, og hún lagi þarna í miðju kauptúninu með svo hægri aðstöðu fyrir alla sem æskilegt væri.

Og plássið er nægilegt. Eg geng útfrá að tekið yrði alt svæðið úr beinni línu rétt neðan við bræðsluhúsin og þar suður til sjávar, neðan við lýsisbryggjuna, og svo beint frá bræðsluhúsinu til sjávar, sunnan við Borðeyrarbryggjuna, er það svæði allnóg fyrir 4 vörugeymsluhús og kolabyrgðir, jafnvel þó sam. verz. væri ætlað pláss fyrir eitt hús til eigin afnota.

Handa skipum sam. verzl. sem nú standa í uppsátri á tanganum, væri hægt að fá pláss annarstaðar t. d. á hafnarbryggjustæðinu útfrá, og fleiri síaðir eru nothæfir til þess. Fyrir sam. verzl. yrði þetta stórgróði jafnvel þó um engar skaðabætur væri að ræða, því þær eiga lóð að þessu svæði á allar hliðar sem mundi margfaldast að notagyldi og verðmæti við bryggju bygginguna. En þó svo væri, að réttur þeirra yrði að einhverju leiti rýrður með þessari ráðstöfun, þá má eigi í slíkt horfa, því hagur einstaklingsins hlýtur ætíð að víkja fyrir þörf og heill fjöldans.

Ármóður.
--------------------

ATHS. Vér viljum leifa oss að taka það fram, að þótt vér að sumu leiti séum höf. sammála, þá getum vér eigi fallist á öll atriði hans.

En þar sem þetta er fyrirtæki sem alla varðar og alls ekki sama hvar bryggjan verður sett; er mjög áríðandi að heyra álit sem flestra áður en málinu er haldið lengra. Vér munum því með ánægju veita fleiri greinum um þetta efni rúm í blaðinu.

Ritstj.
------------------------------------------------------------

Skattanefnd heitir ein heljarmikil nefnd. Á henni hvílir það vandaverk að áætla árstekjur manna. Nefnd þessi hefir nýlega lagt fram skrá um árstekjur þær, fyrir árið 1915, er hún álítur að menn hafi haft. Af skrá þessari verður ekki séð að nefndin hafi haft við mikið að stiðjast og virðist þó ástæða til, að nefndin aflaði sér þeirra upplýsinga sem tök eru á. í nefndinni sitja þessir 3 stórhöfðingjar:

 • Hafliði Guðmundsson, hreppstjóri,
 • Bjarni Þorsteinssón, prestur,
 • Jón Guðmundsson, verzlunarstjóri, og eru það alt menn, sem ættu að vera svo kunnugir hér, að áætlun þeirra gæti verið að minstakosti stórgallalaus, og verður máske vikið að þessu síðar.

Hér fer á eftir áætlun nefndarinnar um árstekjur manna af atvinnu, árið 1915, og getur hver sem vill sagt hana réttláta:

 • 100,000 kr. Sören Goos.
 • 60,000 — Olie & Guanofabriken.
 • 50,000 — Elias Róald.
 • 45.000 — Edvin Jakobsen.
 • 30,000 — John Wedin.
 • 25.000 — Hinar sam. ísl. verzl.
 • 20.000 — G. Evanger, O. Evanger.
 • 15,000 — H. Söbstad.
 • 10,000 — H. Hendriksen, Th. Bakkevig.
 • 8,000 — Ole Tynæs.
 • 5,000 — Halldór Jónasson.
 • 4,000 — Helgi Hafliðason, Bjarni Þorsteinsson.
 • 3,500 — Jón Guðmundsson.
 • 3,000 — Friðbjörn Níelsson, Hafliði Guðmundsson.
 • 2,500 — Guðmundur T. Hallgrímsson.
 • 2,000 — Guðmundur Björnsson, Hallgrímur Jónsson, Matthías Hallgrímsson.
 • 1,600 — Björn Jónasson
 • 1,500 — Guðmundur Hafliðason, Jósef Blöndal, Sig. Kristjánsson, Sóphús Árnason.
 • 1,400 — Kjartan Jónsson. ;
 • 1,200 — Helgi Guðmundsson, Sigurjón Benediktsson, Þorvaldur Atlason, Þórður Þórðarson.

Svo er líka áætlun um tekjur af eign, en þeim er slept hér. Tekjuskatturinn, samkvæmt þessari áætlun, nemur rúmar 14. þús. króna, sem sýslumaður innheimtir á manntalsþingi 1917, og er ekki að búast við að menn séu ánægðir með það ef skattur þessi kemur rangt niður, sem hann, því miður, virðist gera.
---------------------------------------------

Tíðin.

Hlákur og þíðviðri voru hér síðastliðna viku, svo snjó tók að mestu upp; en um helgina frysti aftur og hefir síðan verið frost og stilling. Skautaís. er nú dágóður á tjörnum bæjarins, og má þar sjá margan manninn, eldri sem yngri — blómarósir og unga sveina — vera að skemta sér, einkum þegar kvölda tekur.

Steinsteypuhús, tvílypt, er Sigurjón Benediktsson járnsmiður að láta byggja, áfast við íbúðarhús sitt. Mun þar eiga að koma ein ný verzlun enn. Sigtryggur Jónsson byggingameistari frá Akureyri hefir »accord« á byggingunni.

Nýtt verzlunarhús, hefir h.f. hinar sam. ísl. verzlanir látið byggja hér í sumar, og er það nú að mestuleiti fullgert. Ákveðið er að flytja í það jafnsnemma og vörukönnun fer fram. Hús þetta er hið vandaðasta og hefir sölubúðin það framyfir aðrar sölubúðir hér á staðnum, að ofn er í henni. Annars er það athugaverður sparnaður, að hafa ekki ofna í sölubúðum.

Þetta blað verður sent heim til allra í bænum og grendinni, sem álitið er að muni verða kaupendur þess. — Ef einhver sem fær blaðið, ekki vill kaupa það, er hann beðinn að láta annanhvorn ritstj. vita það. Fram kemur út einusinni í viku ef hægt er. Verð blaðsins er 1 kr. hver 15 númer — 10 aura í lausasölu. Afgreiðslan fyrst um sinn hjá Friðbirni Níelssyni.
-------------------------------------------------------------

Fram - 30. nóvember 1916

1. árgangur 1916-1917, 2. tölublað,

Um Siglufjörð. Eftir Guðmundur Bildal.

Framför. Fáir staðir á landi voru munu hafa tekið jafn hröðum framförum, og Siglufjörður, síðan um aldamótin. Bryggjur og »platningar« hafa verið bygðar kring um alla eyrina, svo nú geta skipin tugum saman fermt og affermt sig við þær. Eyrin er þrátt fyrir það of lítil fyrir allan þann fjölda sem hingað sækir til síldveiða. Var því á síðastliðnu vori byrjað á 3 bryggjum út með Hvanneyrarströnd. Er þar Ásgeir Pétursson instur með bryggju og stóra uppfyllingu fram að fjöruborði. Næstur honum er stórkaupmaður Sören Goos með bryggju, uppfyllingu og safnþró fyrir bræðslusíld.

Þar fyrir utan er h.f. Bræðingur með bryggju og uppfyllingu. Allar þessar uppfyllingar eru með steyptum vegg að framan, og fylt upp bakvið með grjóti og möl. Verk þetta kostar svo tugum þúsunda skiptir, því traust þarf að byggja svo Ægir karl ekki vinni á því, þegar hann ýglir sig. Sökum ótíðar síðastliðið vor, og vegna þess að ervitt var með aðflutninga á efni; var seint byrjað á þessum stórvirkjum; voru þau því ekki nærri því fullgerð þegar stóra brymið kom í haust, sem tók allar þessar þrjár bryggjur og skemdi uppfyllingarnar.

Mestar urðu skemdirnar hjá Sören Goos, því hann var kominn lengst á veg. Sprengdi sjórinn safnþróna, sem eðlilegt var, þar steypan hefir ekki verið hálfhörnuð. Hefir hann því beðið mest tjón á mannvirkjum, við brym þetta; fyrir utan að hann mun hafa tapað um 900 tunnum af síld.

Þá hefir stórkaupmaður O. Tynæs byrjað á stóru mannvirki inn á leirunni. Hefir hann bygt þar »platningu» á staurum (ath; sk 2018; sennilega Annleggið sem kallað var, - í mínu minni) sem á að ná alla leið til lands, og útfrá þeirri »platningu verða bygðar 12—15 bryggjur, og er ein þeirra þegar komin. Verður að þessari byggingu stór príði fyrir höfnina; fyrir utan krónurnar og aurana sem þessar bryggjur munu færa bæði landsjóði, eigendum og vinnu þiggendum. Þá hefir O. Tynæs með höndum framkvæmd á því að byrjað verði á komandi vori að dýpka inn-höfnina. Er það eitt af mestu nauðsynjaverkum fyrir Siglufjörð, að höfnin sé bætt og dýpkuð. Meira í næsta blaði. (hér neðar) 
---------------------

Góð ráðstöfun er það, sem hreppsnefndin hefir nú fyrir nokkru gert, að skylda alla til þess að fylla upp á grunnum þeim er þeir hafa, og uppfyllingar þurfa við. Er þá vonandi að úti sé saga tjarnanna nafnfrægu, er lengst hafa eitrað loftið hér á Siglufirði. Þetta er brýn nauðsyn og margra ára gömul, er vonandi að hart verði gengið eftir að þessari fyrirskipun verði hlýtt.

Auglýsing:

Hreppsnefndin í Siglufirði er fús á að veita styrk allt að 600 krónum á ári í þrjú ár, þeim sem vill skuldbinda sig til að halda uppi GISTIHÚSI fyrir allt að 20 manns, og að öðru leyti eptir nánara samkomulagi við hreppsnefndina. Umsóknir sendist hreppsnefnd sem fyrst.
---------------------------------------------------------------------

Fram - 8. desember 1916

1. árgangur 1916-1917, 3. tölublað,

Um Siglufjörð. Eftir Guðm. Bíldal. Framhald.

Óþægindi.

Þó að þessar bryggjur og »platningar« séu þarfar og góðar, og fyrir þær komi margar krónur á Siglufjörð, og þaðan út um land, þá gjöra þær að hinu leitinu stórt óhagræði. — Hér eru mörg hús bygð á ári hverju, og mest farið að byggja úr steinsteypu, en nægur sandur og jafnvel möl líka, til steypu hér á eyrinni. — Nú eru þegar bygðar »platningar« yfir mestan hluta af þessum sandi, og verður víst í næstu framtíð bygt yfir allan sand. Það er því útséð um að hægt verði að fá nokkurt efni til byggingar hér á staðnum, og er það illa farið.

— Ekki sé eg annað heldur en mótorbáta úthaldi til þorskveiða sé að mestu leiti útbygt héðan, íþað minsta um síldar tímann, þar sem mest af þessum bryggjum og plássum er bygt og leigt til síldveiða. Að minni hyggju ætti allur mótorbáta útvegur að flytjast til Sigluness að sumrinu til, er þar mun betra að sjá til veðurs, og sjómenn mundu verða þar tryggari við bátana, því þar er ekki sollurinn og síldin til að glepja þá.

Atvinna.

Eins og áður er getið, byrjaði vinna hér alment seint í vor, og varð því kaupgjald strax nokkuð hátt, því margt var að vinna þegar tíðin batnaði. Almennt kaupgjald var hér í vor og sumar 50 til 75 aurar á tímann, nema fyrir smiði, þeir fengu 1 kr. og þar yfir á tímann. Síldarsöltunarkaup var heldur lágt í sumar, eftir því sem það hefir stundum verið. Ráðið fólk fékk 50—60 aura á tunnuna. Eitthvað lítið hærra var borgað í skipum út á höfninni.

Aftur á móti hefir kaup í haust verið afarhátt, í september og október ekki að tala um minna kaup almennt en 80—100 aura á tímann, og stafaði það af því að fólkinu fækkaði þá svo mikið, en meginið af síldinni lá hér, og liggur nokkuð af henni hér enn. Nú er kaupið komið niður í 60 aura um tímann í nóvember. Aldrei hefir annar eins fjöldi komið hingað til að leita sér atvinnu, eins og síðast liðið sumar. Munu sumir hafa farið með létta vasa heim, leiddi það af tunnuvöntun um tíma, og svo var kaup lægra um síldveiðitímann en oft hefir átt sér stað áður, vegna þess hve fólkið var margt.

Horfin tíð.

Nú er sumarið liðið hjá með öllum sínum göllum og gæðum, og allar blómarósirnar sunnlenzku og vestfirsku horfnar nú héðan, óspiltar af heiminum, og norsarnir farnir heim með endurminninguna í huganum um hýr augu og hlý orð frá stúlkunum á síldarpöllunum. Önnur gæði munu þeir eigi hafa hlotið af þeim, því þrátt fyrir allar tröllasögur sem ganga um landið, um lifnaðinn á Siglufirði á sumrin, fæðist hér aldrei óskilgetinn krakki. – Framhald í næsta blaði (hér neðar)

Fram - 16. desember 1916

1. árgangur 1916-1917, 4. Tölublað

Yfirlýsing.

Þar sem eg hefi komist að raun um, að allmargir álíta að eg hafi undanfarið haft skemdar tvíbökur á boðstólum, sem eg hafi átt að kaupa af ónefndum kaupmanni, sem nú er farinn héðan; þá lýsi eg hérmeð yfir því, að þetta eru tilhæfulaus ósannindi með öllu.

— Eg hefi fengið alt mitt brauð beint frá útlöndum, en alls ekki keypt skemdar vörur til þess að selja almenningi.

Siglufirði, 14. des. 1916. Stefán Kristjánsson.

Fram - 18. desember 1916

1. árgangur 1916-1917, 5. Tölublað

Um Siglufjörð. Eftir Guðmundur Bíldal. Framhald.

Atvinnuveitendur.

Á Siglufirði eru margir atvinnuveitendur, þegar með eru taldir selstöðu-vinnuveitendurnir. Atvinna hjá þeim er þó ekki eins notadrjúg fyrir kauptúnsbúa, eins og sumir halda, því þótt þeir reki stóra atvinnu hér, þá safna þeir að sér vinnukrafti frá öllum landsins hornum, og jafnvel frá útlöndum. Peningar þeirra fara því nokkuð víða, og verður minst eftir af þeim hér, nema ef vera skyldi lítið eitt hjá hér búsettum kaupmönnum. Hér eru eiginlega ekki nema 2 atvinnuveitendur sem atvinnu veita alt árið:

Hin. sam. ísl. verzlanir og Helgi kaupm. Hafliðason. Sam.ísl. verzlanir, sem hafa stæðstan skipastól hér, veita mörgum manninum atvinnu, bæði á skipunum vor og sumar, og eins við þau á veturna þegar annars er lítið um atvinnu. Margir hafa líka haft atvinnu við uppfyllingu á lóð félagsins, sem nú er langt á veg komin, og er munur að sjá hana nú, eða meðan þar var aðeins ýldu tjörn.

Helgi. kaupm. Hafliðason, sem einatt er að endurbæta og auka sjávarútveg sinn, veitir mörgum atvinnu bæði á sjó við útveg sinn, og á landi við skipasmíðar, húsasmíðar, bryggju og platningar sem hann stækkar og endurbætir jafnframt því sem úthaldið eykst. Þó hér sé ekki um stóra drift að ræða þá hefir þó margur maðurinn fengið krónur fyrir úthald Helga kaupm.

Í hákarlinn á veturna, þegar ekkert annað hefir verið til að gjöra. Hér vantar tilfinnanlega atvinnurekstur á veturna svo sem tunnuverksmiðju, og útbúnað til að keyra grjóti og möl ofan úr fjalli, til uppfyllingar á eyrinni og húsabygginga.

Skaði fyrir kauptúnið að H. Söbstad varð blindur, því eg hefði trúað honum manna bezt til að koma hér á stað tunnuverksmiðju, og jafnvel hinu líka.

Atvinnurekendur.

Þáer einn flokkur manna hér á sumrin, sem eg þarf að minnast á. Ekki eru það atvinnuveitendur. Nei! það eru atvinnurekendur, sem við ekkert höfum með að gjöra. Eg meina selstöðu-kaupmennina, sem hingað koma úr öllum áttum heimsins, og selja fólki alla mögulega hluti (alt að sindakvittun.) Þessir menn eru að mínu áliti jafn mikil plága fyrir Siglufjörð, eins og hafísinn væri fyrir alt norðurland ef hann settist þar að um bjargræðistímann. Þessir »spekulantar« koma ekki með nokkurn hlut af því sem okkur vantar, eða verst er að fá, heldur með tóman »lúxús« og glingur sem nóg er til af áður.

Einn hefir silki, annar cigarettur o. s. frv., og þó einhver máske hafi fatnað eða þessháttar, þá bjóða þeir hvorki betri vörur né betra verð en okkar heimilisföstu kaupmenn. Þessi flokkur »spekulanta« ætti að sitja heima hjá sér, og koma hvergi. Þeir gjöra hvort sem er ekki annað en plokka fjöður af unglingum og fáfróðum fyrir sinn óþarfa varning, og fljúga svo heim til sín strax og kólna tekur og veturinn nálgast.
----------------------------------------------------------

Fram - 23. desember 1916

1. árgangur 1916-1917, 6. Tölublað

Yfirlýsing.

Við sem ritum nöfn okkar hér undir, lýsum, það hérmeð ósannindi sem talað hefir verið í Siglufirði um Ólaf J. Reykdal, að hann loki konu sína inni í stofu þeirri sem þau leigja, þegar hann fari út til vinnu sinnar. Við höfum komið oftar en einusinni inn til konu hans, Sæunnar O. Reykdals, þegar hann hefir ekki verið heima, hefir þá verið ólokuð stofan.

Við teljum það miður sæmandi, að búa til þessi ósannindi, ásamt fleiru sem hefir verið talað um þau hjón, sérstaklega Ólaf J. Reykdal hér í Siglufirði.

Bessi Þorleifsson, Björg Bessadóttir, Ágústa Bessadóttir, Andrea Bessadóttir, Valgerður Bæringsdóttir, Sigríður Baldvinsdóttir.
-----------------------------------------------------------

Fram - 30. desember 1916

1. árgangur 1916-1917, 7. Tölublað

Rafljósin eru nú tekin upp á sömu keipunum og í fyrra, að vera ýmist að deyja eða að ganga aftur á víxl.

Það er annars ljóta óþægðin sem þetta rafurmagn, eða öllu heldur Hvanneyraráin, hefir sýnt okkur, það n. l., að vera of lítil, þegar »beztu menn sveitarinnar« treystu henni til að vera nógu stórri. Hér fer á eftir hvernig ljósin lifðu fimtudagskvöldið 28. þ. m.:

 • Kveikt kl. 4,
 • dó aftur kl. 6.30
 • komu svo kl. 8.30,
 • dóu kl. 9.40,
 • komu enn kl. 10,50
 • og dóu kl. 11.40.

Samtals var þá ljós í fjóra og hálfan tíma.

Á þessum tíma árs, mun ekki veita af að kveikt sé kl. 3 og ljós sé til 12 að minsta kosti. Það er því nákvæmlega jafnlangur tími sem maður má sitja í myrkrinu, eins og maður hefir ljós. —

Og fyrir þetta má maður borga fult gjald.
-------------------------------------------------------------

Fram - 13. janúar 1917

1. árgangur 1916-1917, 9. tölublað,

Rafljósin loguðu í fyrrakvöld aðeins í tvo og hálfan tíma samtals. —

Altaf vernsar það.
-------------------------------------------------------------

Fram - 20. janúar 1917

1. árgangur 1916-1917, 10. Tölublað

Þakkarávarp.

Öllum þeim, nær og fjær,, sem sýndu okkur vott virðingar og samúðar í tilefni af sifurbrúðkaupi okkar, færum við hér með bestu þakkir.

Sérstaklega þökkum við hina rausnarlegu og vel völdu gjöf, 500 krónur í hlutabréfum Eimskipafélags Íslands, sem nokkrir Siglfirðingar færðu okkur.

Siglufirði 16. jan. 1917. Kristjana Bessadóttir. Sigurjón Benediktsson.

Rafmagnslýsingin.

Þess hefir tvisvar verið getið í »Fram« hve illa hefir gengið með rafljósin hér í vetur. Er ekki gott að vita til hvers það hefir verið gjört — því öllum lesendum blaðsins hér er það kunnugt — nema ef vera skyldi til þess, að halda mönnum vakandi, minna þá á að eitthvað verður að gjöra til bóta, því ómögulegt sé að una við sömu kjör í framtíðinni. Þetta hlýtur að vera öllum ljóst sem nokkuð hugsa, og hlut eiga að máli. Þar sem nú svo er, að alt sem til ljósanna heyrir er hreppsins eign, þá er auðvitað, að hreppsnefnd verður að hafa öll ráð og framkvæmdir, og mun hún þegar vera byrjuð á undirbúningi, þó er ekki kunnugt að hve miklu leyti.

Guðmundur Davíðsson hreppstjóri frá Hraunum var hér fyrir skömmu í þeim erindum, að mæla vatnsmagn í Leyningsánni, lítur þá útfyrir, að þar sé helst hugsað til að fá kraft til rafmagnsframleiðslu. Er þar mikið meira vatn en í Hvanneyraránni, en hvort það er nægilegt til að lýsa upp bæinn, eins og hægt er að hugsa sér hann í ekki altof fjarlægri framtíð, skál látið ósagt hér. Verði nú á nýjan leik byrjað með rafmagnsframleiðslu með vatni hér í Siglufirði, verður að taka þann mesta vatnskraft sem hægt er að fá, og horfa ekki í þó að það verði nokkrum þúsundum dýrara.

Þó að vatnið hefði orðið nóg í Hvanneyraránni, hefðu vélar þær sem til eru brátt orðið ónógar til framleiðslu rafmagns þess, er bærinn þarf til ljósa, sé gert ráð fyrir að hann stækki jafnhröðum fetum og hann hefir gjört nú í síðustu tíu ár, og að afturkippur komi í byggingar hér er ekki sýnilegt nú, þó að hindrun nokkur kunni að verða meðan stríðið stendur yfir. Þegar þá kemur til tals að setja á stofn nýja rafmagnsstöð, verður að reikna þannig, að ekki þurfi að skifta um afl og vélar eftir örfá ár. Kemur þá að því, sem áður er tekið fram, að þann mesta vatnskraft verður að fá sem föng eru á.

Það má ganga að því vísu, að ekki verði byrjað á neinum stórvirkjum fyr en búið er að ransaka og mæla alt sem þarf, kemur þá í ljós hvort Leyningsáin, með þeim lækjum, sem hægt er að sameina henni, eða Fjarðaráin verði hentugri til notkunar, bæði hvað kraft og aðra afstöðu snertir.

Þetta mál verður að öllum líkindum tekið fyrir á miðsvetrar fundi, en þá sem fyr koma menn óundirbúnir á fundinn, ef ekkert verður búið að rita um það eða ræða fyr en þá. Væri því æskilegt ef hreppsnefnd vildi gefa mönnum upplýsingar um fyrirætlanir sínar, um mögulegleika til byggingar á nýrri rafmagnstöð, og hvernig farið yrði með ljós meðan á þeirri byggingu stendur. Einnig um hvort sé hægt að fá kraft til suðu, í sambandi við ljósin.

Síðan rafmagnsljósin komu hingað fyrst, hefir verið allmikill kur í mönnum yfir því, hvernig þau hafa reynst. Hefir hreppsnefnd, sem framkvæmdarvald hafði í málinu verið kent það mikið, og ekki alveg að ástæðulausu, en þó hefir hún verið sökuð meira en réttlátt er. Aðalsökin liggur hjá þeim er framkvæmdu verkið, sáu um kaup á efni og áhöldum, og höfðu á hendi mælingar og áætlanir. Var þeim af hreppsnefnd treyst sem samviskusömum og ábyggilegum mönnum, en þeir reyndust það ekki.

Að hreppsnefnd reiddi sig of mikið á þá, verður ekki hrakið, en þar sem nokkrir af sömu mönnunum koma til með að fjalla um málið nú, og hinir sem með þeim eru þekkja dálítið til, virðist vera ástæða til að treysta því, að þeir ekki í annað sinn taki sér til aðstoðar fáfróða verkfræðinga og óhlutvanda verkstjórnendur.

J
----------------------------------------

Rafljósin

Um síðustu helgi gjörði hláku í réttan sólarhring, þá brá svo við með ljósin, að þau loguðu alt kvöldið í 2 kvöld. Síðan hafa þau verið að smádeyja.

— Það væri því ekki úr vegi að segja, að ef þetta stóra fyrirtæki, rafleiðslan, ætti að sýna fullkomið gagn, þyrftum við að hafa hláku allan veturinn.
-----------------------------------------------------------

Fram - 27. janúar 1917

1. árgangur 1916-1917, 11. tölublað

Afli

 • Nokkra undanfarandi daga hefir verið róið til fiskjar og aflast heldur vel.
 • Hæðst munu hafa fengist um 500 á skip af heldur fallegum fiski.
 • Mestur eða allur fiskurinn mun seldur bæjarbúum í soðið á 10 aura pundið með haus og slógi.
 • Helgi Hafliðason er nú að láta byggja upp, og lengja mótorkútter Snyg.
 • Mun eiga að lengja hann um ca. 5 álnir og setja í hann nýjan 36 hesta mótor.

Gott að auglýsa.

Verzlun Sig. Sigurðssonar hér í bænum,átti galvaníseraðan bátasaum fyrir um 150 krónur, sem hún var búin að eiga lengi og ekkert var selt af.

Svo var sett auglýsing um hann í síðasta blað af »Fram« eins og menn muna; en þar eð blaðið kom ekki út fyr en seint um kvöldið var ekkert selt af saumnum þann dag.

— En kl. 7 á mánudagskvöldið hringir verzlunarstjórinn blaðið upp í símann og segir að ekki sé einn nagli eftir. —

Svona er gott að auglýsa í »Fram.«
---------------------------------------------------------------

Fram - 10. febrúar 1917

1. árgangur 1916-1917, 13. tölublað

Þakkarávarp.

Hin góðkunnu heiðurshjón séra Bjarni Þorsteinsson og frú Sigríður Lárusdóttir á Hvanneyri hafa í mörg ár gefið mér daglega mjólk.

Þessa rausn þeirra þakka eg þeim af öllu hjarta, og bið góðan guð að launa þeim velgjörðir þeirra við mig.

Björg Bjarnadóttir.
---------------------------------------------------------------

Fram - 27. febrúar 1917

1. árgangur 1916-1917, 16. tölublað

Tombólu hefir skemtinefnd Sjúkrasamlagsins ákveðið að koma á bráðlega, og væri óskandi að menn vildu styðja Sjúkrasamlagið með því að gefa drætti.

— Í nefndinni eru: Sigríður Þorláksdóttir, Marsibil Ólafsdóttir, Flóvent Jóhannsson, Þormóður Eyjólfsson og Friðbjörn Níelsson, og veita þau öll dráttunum móttöku.
--------------------------------------------------------------

Fram - 3. mars 1917

1. árgangur 1916-1917, 17

Raflýsingin. í dag á að ganga til atkvæða um það hvort kaupa skuli hjálparstöð þá, sem rætt var um í síðasta blaði, eða ekki. Þess vegna skulum við hugsa dálítið um málíð áður en við förum áfundinn. Það sem aðallega gæti verið með því að hjálparstöðin sé keypt, er fyrst og fremst það, hve leiðinlegt og óþægilegt það er, að hafa ekki tryggari ljós en þau sem nú eru, og svo það að nú á þessum erfiðu tímum, gæti orðið torvelt að fá alt það er þarf til að reisa öfluga rafstöð fram í firðinum, svo að hún þessvegna rnáske ekki yrði fullgjörð fyr en eftir mörg ár.

En verði hægt að fá vélar þær er til hjálparstöðvarinnar þurfa, ættu alveg eins að fást vélar til stöðvarinnar framfrá, og þessvegna óvíst að lengri tíma þurfi en svo sem 2 ár að koma stöðinni framfrá upp. Það sem erfiðast myndi verða að fá, er koparþráður í leiðsluna framanað og er sagt að Englendingar hafi bannað Norðmönnum að flytja koparþráð frá Ameríku. En það mun vera af því að þeir óttastað Norðmenn selji þráðinn aftur til Þýskalands, svo sú ástæða myndi naumast koma til greina gagnvart okkur. Þótt við finnum það vel, hve afar leiðinlegt það er að hafa ekki betri ljós en við höfum, þá finnum við það líka vel, að svo dýrt er hægt að kaupa bótina að ofdýrt sé.

Ef við kaupum nú þessa hjálparstöð sem uppkomin kostar fullar 35 þús. krónur, verður líka að athuga það, að bara vextirnir af þessari upphæð nema 21 hundrað kr. á ári, fyrir utan verðfall vélanna, sem myndi verða mikið. En vélarnar, af sömu stærð og áætlað hefir verið, geta ekki framleitt meiri kraft en núverandi stöð getur framleitt, þegar nóg er vatn. Það má því ekki setja fleiri ljósnotendur í samband við stöðina en það, að hjálparstöðin ein geti fullnægt þeim, þegar vatnið þrýturtil að knýja gömlu vélina. Sú vél sem nú er, getur að vísu þegar nóg vatn er, framleitt meira rafmagn en nú er notað, og mætti því fjölga ljósnotendum dálítið, þar eð ný rafvél, knúð af mótor, væri til taks að taka við af gömlu vélinni, þegar vatnið þryti.

En mismunurinn á krafti þeim sem nú er notaður, og þeim sem rafvélin getur framleitt er svo lítill, að tekjuaukinn sem það hefði í för með sér yrði svo lítill- að hann nægði ekki fyrir vöxtunum af byggingu hjálparstöðvarinnar, hvað þá fyrir verðfalli vélanna eða allri þeirri olíu er mótorinn myndi þurfa. Það sem við aðallega verðum að hafa hugfast við hvert einasta fyrirtæki, hvort heldur er einstaks manns eða sveitarfélags, er framtíðin með öllum sínum breytingum og framförum. Við verðum að forðast öll dýr fyrirtæki, þó þau jafnvel fullnægi núverandi þörfum okkar, ef þau ekki eru sniðin eftir kröfum framtíðarinnar.

Við höfum líka ljóst dæmi fyrir okkur um það að jafnvel á 5 árum hafa tímar og staðhættir tekið svo miklum breytingum að undrun sætir. Þessvegna er full ástæða til þess að við hugsum okkur tvisvar um, áður en við greiðum atkvæði með slíkri hjálparstöð, sem fyrst og fremst kostar 35 þús. kr. og er auk þess dýr í brúkun, og gerir þess utan lítið annað gagn en að bæta upp gallana á núverandi stöð, og því að engu leyti til frambúðar. Greiðum því atkvæði með öflugri rafstöð fram í firðinum og því, að hún verði bygð svo fljótt sem unt er, en á móti hverju því fyrirtæki sem ekki fullnægir framtíðarþörf okkar — og hjálparstöðin umrædda er eitt af þeim.
---------------------------------------

Presturinn og Fram

Á miðsvetrarfundinum, sem haldinn var hér síðastliðinn laugardag, þóknaðist fundarstjóranum, séra Bjarna Þorsteinssyni, að ráðast á blaðið »Fram« og ritstjóra þess. Eg gat því miður ekki verið á öllum fundinum sökum anna, en skilríkir menn hafa sagt mér aðalinntak úr ræðu þeirri, er presturinn flutti af blöðum, á fundinum.
Höfuðefni ræðunnar var árás á blaðið og stofnun þess. Kvað hann það illu heilli stofnað, valdi því mörg háðuleg og ill nöfn, kallaði það vanskapnað í blaðslíki, og sagðist geta staðið við að það væri saurblað. Þar að auki fór hann með óheiðarlegar aðdróttanir að öðrum ritstjóra blaðsins, í sambandi við kosningu hans í hreppsnefnd í haust.

Dómur sá, er presturinn lagði á blaðið »Fram« var eins og áður er sagt lesinn upp af blöðum á fundinum í viðurvist fjölda af sóknarbörnum hans; mun presturinn hafa gjört sér í hugarlund, að ræðan myndi hafa mikil áhrif, þar sem hún var flutt af honum, þeim manni, er flestir hafa hingað til virt og elskað, og ekki hefir svo á hafi borið sýnt sína verri hlið opinberlega. Tilgangurinn var augljós, að sverta blaðið í augum kaupenda, til þess, ef hægt væri að steypa fyrirtækinu, brýndi hann fyrir mönnum að láta það ekki fá langan aldur.

Það er ekki laust við að þessi framkoma prestsins hafi á sér nokkurn jesúíta blæ; allir þekkja orðtak þeirra: »tilgangurinn helgar meðulin.« Virðist við nánari athugun að það sé ekki presti sæmandi að semja heima hjá sér, og lesa yfir sóknarbörnum sínum níðrit um menn og málefni, einungis til að svala reiði sinni. Kemur það niður á fleirum en ritstjórunum, því blaðið er sett á stofn, og er eign alls þorra bestu manna hér.

Eg hef ekki haft náin kynni af mörgum prestum en þó flest öllum, sem hafa verið í Eyjafjarðarsýslu síðastliðin 20 ár, og eg get fullyrt að engum þeirra hefði getað dottið í hug að semja, því síður leyfa sér að flytja áopinberum fundi jafn illorðaðar og samanhnoðaðar skammir, eins og séra Bjarni fór með á nefndum fundi.

Að presturinn á eftir hefir séð að hann hefir farið feti of langt, bendir, að hann, þrátt fyrir ítrekaða fyrirspurn okkar ritstjóranna, neitar að láta ræðu sína til birtingar í blaðinu.
Séra Bjarni á hrós skilið fyrir dugnað sinn í hreppsmálum hér - hann tók sjálfur fram á fundinum að hann ætti það skilið en lítið mun lofstír hans sem prests og manns hafa vaxið hjá sóknarbörnum hans við framkomu hans á þessum makalausa fundi, sem mun verða í minnum hafður meðan þeir menn lifa sem nú eru uppi í Siglufirði.

Hannes Jónasson
---------------------------------------------

Matvælasparnaður - Sykurkort lögleidd.

Stjórnarráðið hefir gefið út reglugjörð um notkun mjölvöru og sykurs. Er þar fyrirskipað að rúgbrauð skuli að einum fjórða blönduð maís, og hveiti megi bakarar að eins nota til franskbrauðs, súrbrauðs, tvíböku og bollugjörðar. Þá er og bannað að nota rúg, rúgmjöl, hveiti og haframjöl til skepnufóðurs.

Sykurkort eru lögleidd og má sykurinn að eins selja við því verði er landsstjórn ákveður. Þessi reglugjörð öðlast gildi þegar í stað fyrir Reykjavíkurkaupstað og Hafnarfjörð. Getur stjórnarráðið með auglýsingu látið reglugjörðina ná til annara kaupstaða og sveitarfélaga ef henni þurfa þykir.
---------------------------------------------

Fram - 10. mars 1917

1. árgangur 1916-1917, 18. tölublað

Úr bænum.

Raflýsingarfundurinn var haldinn eins og tilstóð á laugardaginn var. Fór hann bæði vel og friðsamlega fram, og að því leiti öfugt við miðsvetrarfundinn, að þar var málefnið tekið fram yfir mennina. Fundurinn endaði með því að samþykt var að ráðast í byggingu öflugrar rafstöðvar fram í firðinum svo fljótt og unt væri, en felt með nálega öllum atkv. að kaupa mótorhjálparstöð þrátt fyrir öflug meðmæli Jóns Guðmundssonar verzlunarstjóra.

Sykur er nú orðinn af skornum skamti hjá almenningi hér, munu margar fjölskyldur nú þegar vera alveg sykurlausar og enn fleiri sem klára sinn síðasta sykur næstu daga.

Myndi ekki vera tiltök að fá sykur þann er Norðmenn eiga hér á staðnum til útbýtingar meðal fólks, auðvitað gegn fullri borgun? Vill ekki hreppsnefndin athuga það.

Hrognkelsi hefir aflast með meira móti þessa viku.

Sjúkrasamlagið þarf stuðning allra góðra manna. Nú er tækifæri fyrir menn að sýna því samhygð sína með því að gefa drætti á tómbólu þá sem fyrirhuguð er seint í þessum mánuði. Skemtinefndin veitir dráttunum móttöku.

Uppfyllingu er H. Söbstað að láta gera á hinni stóru lóð sinni, þessa daga, og ættu fleiri er slíks þurfa, að nota bæði gott veður og gott akfæri, og fylla nú upp hjá sér. Ekki er betra að geyma það sumrinu.
----------------------------------------------------------------

Fram - 17. mars 1917

1. árgangur 1916-1917, 19. tölublað

Viðvíkjandi Miðsvetrarfundinum.

Miðsvetrarfundurinn var haldinn hér á Siglufirði 24. febr. 1917. Fundurinn var mjög fjölsóttur. Fundarstjóri var séra B.Þorsteinsson, sem gaf til kynna reikninga leikfimishússins og ráðstöfun hreppsnefndar á bænum Skriðuland, sem virtur var 100 kr. og gefinn fátækum manni sem þar hafði búið.

Einnig var upplesin fjárupphæð hreppsins, sem var all mikil. Nokkur skjöl voru lesin frá Guðmundi Hlíðdal, sem hann hafði skrifað viðvíkjandi rafmagnsIjósunum, sem bráðlega verður haldinn fundur um. Líka mintist oddviti á árásir sem á sig hefði verið gjörðar í blaðinu. Mér finst líka sem mörgum öðrum að ritstjórar blaðsins ættu heldur að tala um sínar eigin ritstjórabuxur og eitthvað sem er þarflegra, en skammir eða ónot til prestsins okkar.

Enda þekki eg ekki nokkurn mann í þessum hreppi, sem heldur að hann sé ósannkristinn eða óprestlegur enda er hann viðurkendur einn af okkar góðu prestum, búinn að vera hér í 29 ár elskaður og virtur af okkur Siglfirðingum, og alstaðar talinn mestur framkvæmdamaður, og viljað hag sveitarinnar í öllu. Hann var endurkosinn í haust til 6 ára, og geta menn séð hvaða traust er borið til hans sem oddvita og gjaldkéra. En svo ætla nokkrir menn að gjöra honum erfitt fyrir, þeim varð ekki kápan úr því klæðinu.

Þessvegna getum við ekki þolað að hann sé óvirtur eða mæti þeim orðum sem hann hefir orðið fyrir í þessu blaði. Það er því viðbúið að við eigendur og kaupendur blaðsins segjum okkur frá því ef svona heldur áfram.

Guðný Pálsdóttir.
----------------------------

Þar eð sögur hafa gengið um það hér í Siglufirði, að eg gengi með smittandi sjúkdóm, sé eg mig tilneyddan að birta eftirfylgjandi vottorð:

»Hér með vottast að Alfred Andersson, 26 ára, Siglufirði, er heill heilsu.

« Siglufirði 13. febr. 1917. H. Kristinsson, læknir.

Þetta vottorð vona eg að nægi til þess að fólk hætti þessu ósæmilega slúðri um mig.

Siglufirði 2. marz 1917. Alfred Andersson (sænski.)
-----------------------------------------------------------------

Skemtun hefir skemtinefnd Sjúkrasamlagsins gengist fyrir að haldin verði í kvöld kl. 9. Þar syngur Chr. Möller og Flóvent Jóhannsson heldur fyrirlestur. —

Óskandi að menn fjölmenni á skemtun þessa, og styðji þannig eitt þarflegasta félag bæjarins. 

Auglýsing um skemtunina er á öðrum stað hér í blaðinu. 
-----------------------

Auglýsing:

SKEMTUN til ágóða fyrir Sjúkrasamlagið verður haldin í Bío í kvöld. Chr. MÖIler, syngur með aðstoð Þorm. Eyjólfssonar, nokkur lög. Flóvent Jóhannsson, , heldur fyrirlestur um Yfirmenn og undirgefna.

Húsið opnað kl. 8,30- Byrjað kl. 9. Aðgöngumiðar verða seldir í verzlun Friðb. Níelssonar eftir kl. 3 og kosta 1 kr
-----------------------------------------------------------------

Fram - 24. mars 1917

1. árgangur 1916-1917, 20. Tölublað

Mál dæmt

5 þ. m. féll dómur í landsyfirréttinum í málinu J. V. Havsteen gegn H. Söbstad. Havsteen byrjaði mál þetta með því að stefna Söbstad fyrir skuld kr. 601,43 en Söbstad stefndi Havsteen aftur strax og krafðist enn hærri upphæðar.

Kröfur þeirra beggja voru að nokkru teknar til greina við undirréttinn. Havsteen áfryjaði svo málinu til yfirréttar og lyktaði því þannig þar að krafa Havsteens var tekin til greina með kr. 475,01 og krafa Söbstads með kr. 369,92.

— Söbstad var því dæmdur að greiða mismuninn kr. 105,09 með 6 prc. ársvöxtum, en málskostnaður féll niður fyrir báðum réttum.
-------------------------

Hafliði Guðmundsson hreppstjóri, liggur allþungt haldinn af hjartabilun. Er búinn að vera rúmfastur nær mánaðartíma.
-------------------------

Íll meðferð.

Vegna þess að eg þykist hafa orðið fyrir illri og óverðskuldaðri meðferð af séra Bjarna Þorsteinssyni á Hvanneyri, vildi eg leyfa mér að biðja blaðið fyrir nokkrar línur, sumpart til þess að hefna mín, mér að kostnaðarlausu, og sumpart öðrum til aðvörunar er líkt stendur á fyrir. Eg bað séra Bjarna Þorsteinsson, umráðamann Eyrarinnar hér, í fyrrahaust um lóð undir hús, og fékk strax loforð fyrir henni.

Litlu síðar útmældi svo presturinn lóðina, að Guðmundi Björnssyni mótorista, viðstöddum, sem tók við lóðinni fyrir mína hönd.

— Lóð þessi er næst sunnan við norska sjúkrahúsið, nær fram í flæðarmál og fast að steinhúskofanum, sem hafður er til þess, að stinga inní óráaseggjum að sumrinu. Nú leið tíminn svo, að eg tók ekki skriflegan samning fyrir lóðinni, sem eg hefði þó átt að gjöra, en eg áleit útmælinguna og loforð prestsins ábyggilega.

En í sumar tók eg mig til og ætla að sækja samninginn, og borga fyrsta ársgjaldið, og tjáir prestur mér þá að hann sé búinn að láta annan hafa þessa lóð mína, og það með skriflegum samningi, og væri því til einkis að ræða það mál; enda hefði hann séð að eg fátæk og umkomulaus hefði ekkert með lóð þessa að gjöra, því dýrt væri að gjöra þar uppfyllingu.

Líka sagðist hann hafa fengið 10 kr. hærri leigu eftir lóðina heldur en eg átti að borga, (eg átti að borga 10 kr. á ári eins og vanalegt er undir íbúðarhús hér,) og hefði hann því gjört það í bestu meiningu að losa mig við lóðina. Við þessa afsökun sat svo. Mér gramdist þetta tiltæki prestsins, því eg gat ekki séð aðra ástæðu til þessa brigðmælgis en fégyrnd. Presturinn hefir n. l. séð það, sem hann athugaði ekki í fyrrahaust, að hægt var að fá meira fyrir lóðina en þessar vanalegu 10 kr., og svo notað sér að ekki var búið að gjöra skriflegan samning. En mér er spurn.

Mundi ekki fleirum en mér hafa orðið á að trúa því, að guðsmaðurinn myndi ekki lofa undir vitni því, sem hann svíkur fyrirvaralaust, og það fyrir einar 10 krónur? Eg lét taka upp grjót uppí fjalli með leyfi prestsins. En nú er ekki sjáanlegt að eg þurfi á því að halda, enda býst eg við að það litla af því, sem komið var niður á lóðina, fylgi henni.

Eg hugsaði mér um tíma að leita réttar míns á presti á lagalegan hátt; en eg sá við nánari athugun, að fáir mundu verða til að taka málið að sér fyrir mig, því það hefir sýnt sig í mörgum tilfellum á landi hér, að þeim meginn er rétturinn, sem auður og mannvirðing er fyrir. Enda eg svo línur þessar með þeirri ósk, að sem fæstir hafi ástæðu til að bera sóknarprestinum sínum slíkan vitnisburð.

Guðný S. Stefánsdóttir.
-------------------------------------------------------------------------

Fram - 31. mars 1917

1. árgangur 1916-1917, 21. Tölublað

Landsímastöðin á Siglufirði. Flestir eða allir, sem verið hafa hér á Siglufirði, um lengri eða skemri tíma, þekkja það hve erfitt er að fá talsímasamband við fjærliggjandi símastöðvar. Margir kenna þetta vondri afgreiðslu hér á símastöðinni. Það getur vel verið, að afgreiðslunni hér sé að einhverju leiti ábóta vant; en það, hve seint afgreiðslan gengur hér, er þó að litlu eða engu leiti stöðvarstjóranum að kenna. En sökum ókunnugleika skella margir allri skuldinni á hann. Mig langar þessvegna til að benda á aðal orsakirnar til þess, að afgreiðslan hér gengur svona illa; en þær eru, að mínu áliti, þessar:

 • 1. Of fáar aðallínur.
 • 2. Óregla á 3ja flokks stöðvum.
 • 3. Vont eftirlit gæslustöðvarinnar.

Það, hve erfitt er að fá talsímasamband héðan til Rvíkur og annara fjærliggjandi stöðva, er aðallega línufæðinni um að kenna. Héðan til Sauðárkróks liggur aðeins ein talsímalína og þessi lína liggur um allar 3ja flokks stöðvar á þeirri leið. Héðan er því ekki hægt að ná talsímasambandi við neina 2ars eða 1sta flokks stöð á þeim tíma, er 3ja flokks stöðvar hafa til afgreiðslu. Tími þeirra er svo stuttur að 2ars og 1sta flokks stöðvar meiga ekki tefja fyrir þeim.

Okkur vantar því beinar línur til Sauðarkróks og Akureyrar, sem ekki liggja um neina 3ja flokks stöð, til að hægt sé að afgreiða samtöl við 1sta og 2ars flokks stöðvar á sama tíma og 3ja flokks. Úr þessu verður að nokkru leiti bætt með línu þeirri sem í ráði er að lögð verði héðan til Akureyrar á næstkomandi sumri. En óvíst er hvort það getur orðið, þar eð Landsíminn er mjög fátækur af efni til símalagninga og samgöngurnar eru svo litlar nú.

Óregla 3ja flokks stöðvanna hér í kring, þekkja víst flestir sem hafa notað símann eitthvað að ráði. Það er t. d. ekki óalgengt að Fell, Kolkuós og Hólar svari ekki á þeim tíma sem þær eiga að hafa til afgreiðslu, þótt á þær sé hringt; en suma daga eru þær svo að flækjast inni á línunni mest allan þann tíma sem þær eiga að hafa lokað. Og yfirleitt er það þannig með 3ja flokks stöðvar á símleiðinni héðan til Akureyrar, að þær virðast flestar fara mest eftir sínum eigin geðþótta með það hvenær þær eru inni á línunni og hvenær ekki.

Hve mikið þettað tefur fyrir afgreiðslunni hér, dylst víst engum. Það kemur og alloft fyrir að stöðvar þessar skifta línunni þegar þær þykjast þurfa að tala saman. Þegar svo ber undir má sá er símans gætir hér, oft og einatt hringja hálfa og heila tímana án þess að fá svar og án þess einu sinni að vita hvort nokkur stöð er að nota línuna eða ekki. Þá er þriðja ástæðan, sem er: Vont eftirlit gæslustöðvarinnar. Það er gæslustöðin sem á að sjá um að afgreiðslan á stöðvum þeim er henni lúta, fari vel fram og að lögum og reglum Landssímans sé hlýtt.

Það er því hirðuleysi gæslustöðvarstjórans að kenna að 3ja flokks stöðvum líðst að haga sér eins og um hefir verið getið. Akureyrar stöðin er gæslustöð Siglufjarðar og allra stöðva þar á milli. En stöðvarstjórinn á Akureyri skeitir því engu þótt klagaðar séu ólöglegar aðfarir þeirra. stöðva, sem hann á að hafa eftirlit með.

Í stað þess að hann ætti í slíkum tilfellum að gefa viðkomandi stöðvarstjóra stranga áminningu og ef að það dugir ekki kæra. hann fyrir Landsímastjóranum og fá því til vegar komið að afgreiðslan sé tekin af slíkum mönnum og stöðvarnar lagðar niður. Það myndi verða hinum til viðvörunar. Af þessum línum vona eg að mönnum skiljist, að það er ekki að öllu leiti afgreiðslunni hér að kenna hve erfitt er áð fá talsímasambönd héðan.

H. O. Guðmundsson
-----------------------

Þrifnaður.

í lögreglusamþykt fyrir Siglufjarðarkauptún er V. kaflinn um alment hreinlæti og þrifnað. Fyrsta greinin í þeim kafla hljóðar svo:

»Heilbrigðisnefndin hefir eftirlit með öllu því, sem lítur að almennum þrifnaði í kauptúninu, eftir þeim ákvæðum sem þar um eru sett, í heilbrigðissamþykt kauptúnsins.«

Eg hefi því miður ekki þessa heilbrigðissamþykt milli handanna, og get því ekki dæmt um hve skýr og skorinorð hún er, en svo mikið er víst, léleg má hún vera, ef heilbrigðisnefndin hefir gætt skyldu sinnar samkvæmt henni, dæmt eftir því þrifnaðarástandi sem bærinn sýnir sig að vera í, nú þegar snjóa leysir. Það er ófögur sjón, sem mætir augunum víðsvegar út um þorpið, þegar litið er á af þeim, sem nokkra eftirtekt hafa. Öskuhaugar eru víðsvegar á milli húsa, blandaðir ennþá verri óþokka, aukheldur sumstaðar fast við götu og uppá jöðrum þeirra.

Skólpi hefir verið helt niður fast við húsin, og með því alskonar sorpi svo sem fiskúrgangi og öðrum matarleifum, tómum blikkdósum og mörgu fleiru sem óþrif eru að. Þegar svo vorar, og jörðin hitnar, rotna haugarnir og ýlduna leggur um alt þorpið, svo andrúmsloftið eitrast.

Börn sem leika sér og litið eftirlit hafa ata föt sín og líkama í saur þessum, sem auðvitað er þrunginn af bakteríum, og þó náttúran oft hjálpi til með sínum hreina blæ af fjöllum og hafi, þá eru oft hér lognmollur, og er hægt að geta sér til hve holl fæða loftið er fyrir líkamann, þegar svo viðrar.

Þetta er engin ný saga hér, á sama hátt hefir það gengið undanfarin ár. Á vorin hefir heilbrigðisnefndin vanalega rumskast af vetrardvala sínum, gjört dálitla rögg á sig, en aldrei til fullra nota. Með öðrum orðum, hún hefir látið hreinsa til í þorpinu þar, sem menn ekki hafa sjálfir verið búnir að gjöra það áður en hún hefir vaknað, en um ráðstafanir til bóta fyrir framtíðina hefir aldrei heyrst.

Hersöngur framfaramanna hér í Siglufirði hefir ennþá ekki inni að halda neitt vess um framfarir í þessum efnum, og á þó þrifnaður jafnan hátt sæti hjá þeim öllum, sem eru framfaramenn í réttum skilningi.

Því verður ekki neitað, að hér eru miklir erfiðleikar með að koma frá sér sorpi og skólpi, og mun óvíða verra vera. Fyrir nokkrum árum var mikið talað um að koma hér á frárensli, og nokkru fé varið til undirbúnings, síðan hefir ekkert um það heyrst opinberlega. Líklega að það mál hafi verið sett í nefnd sem ekkert hefir starfað, það þekkist hér. Vonandi er samt, að það komist í framkvæmd með tíð og tíma, þess er brýn þörf. Um sorp og ösku er það að segja, að þorpsbúar hafa engan stað, sem þeir eru frjálsir að flytja það á. ÖIl ströndin frá Bakka inn á Leiru er leigð til afnota, og annaðhvort þegar bygðar bryggjur á lóðunum, eða í ráði að byggja þær.

Þessvegna er ekki leyfilegt að fleygja neinu í sjóinn, fæstir kæra sig um að grynnist við bryggjur þeirra. Þó bera margir sorp hér suður í fjöruna, líklega í leyfisleysi, en það hefnir sín, því hvergi er ódaunninn verri en þar meðfrem sjónum, geta menn fundið stækjuna langt út á eyri, þegar fjara er, og sunnan vindur.

Það er því ekki þægilegt fyrir menn, að verða af með óhreinindi þau, er óhjákvæmilega fylgja hverju húsi. En eitthvað verður að gjöra, og hreppsnefnd og heilbrigðisnefnd eiga að finna ráðin, til þess eru þær kosnar. Þó mikið sé að gjöra í hreppsnefnd hér, þá ætli það ekki að vera ofætlun 7 mönnum að afkasta því sem gjöra þarf, það er að segja ef þeir skifta með sér verkum og ekki kasta öllum störfum á oddvita, nauðugan eða viljugan.

Hvernig líst hreppsnefndinni á að hafa ráðinn mann, sem borgað væri af hreppsfé, og hefði hann á hendi flutning á ösku og öðru sorpi frá húsum á tilteknum tímum. Húsráðendum væri svo gjört að skyldu, að hafa ílát við hús sín, sem öllu þessháttar væri kastað í. Sorpið yrði svo að vetrarlaginu flutt í þar til gjörða safnþró, með vorinu væri það svo tekið þaðan og notað sem uppfylling í tjarnirnar, eða flutt á sjó út.

Þetta hefði að vísu kostnað nokkurn í för með sér, en eg er þess fullviss, að hver húsráðandi gildi fúslega þeim mun hærra útsvar, sem tilþyrfti, að hann gæti á þægilegan hátt orðið laus við þau óþægindi er sorp hans og annara veitir honum, og þorpið þyrfti ekki lengur að blygðast sín, þegar vorið dregur snæhjúpinn af því. Vel má vera að hreppsnefnd og heilbrigðisnefnd sjái annað ráð betra en hér er bent á. Hvernig farið er að, skiftir litlu, ef aðeins breyting kemur til batnaðar og hún þarf að koma.
----------------------

Síðan framanrituð grein var sett hefir mér borist heilbrigðissamþyktin í hendur, og verð eg að segja að hún er ekki skörp í ákvæðum sínum. Eg vil leyfa mér að taka hér upp 17. grein hennar, hún hljóðar svo:

»Sorphaugar eða sorpgryfjur skulu ekki vera nær íbúðarhúsum, en nemi 5 álnum og ekki nær vatnsbóli en nemi 15 álnum«

Ef hús standa þétt saman getur heilbrigðisnefnd heimtað, að sorpi og ösku sé safnað í laus ílát úr málmi, og flutt burtu áður en ílátin fyllast. «Fimm álnir frá húsi, en það hreinlæti!

Ef hver húsráðandi notaði sér þessi ákvæði, og ekki hefði meiri tilfinningu fyrir hreinlæti, þá væri fagurt um að líta hér í kauptúninu. En sem betur fer, er ekki öskuhaugar innan 5 álna frá hverju húsi þó slæmt sé. Eg hefi tilfært þessa grein hér til þess að sýna fram á hvað háar hugmyndir þeir menn hafa haft um þrifnað, og glögt auga fyrir því sem prýða mætti kauptúnið, sem hafa samið þessa samþykt í fyrstu. Fleira mætti segja um þetta mál, en rúm blaðsins leyfir það ekki að sinni.

H. J.
----------------------------------

Tvíbura eignaðist Guðrún Blöndal, kona Jósefs Blöndals stöðvarstjóra, á fimtudaginn, voru það 2 drengir annar 17 en hinn 18 merkur að þyngd. Þau hjónin eiga 6 börn fyrir og er hið elsta þó aðeins 8 ára.
----------------------------------

Athugasemd við greinina »Íll meðferð.«

Þar eð eg er eitt af sóknarbörnum séra Bjarna Þorsteinssonar, þá get eg ekki látið vera að rita nokkrar línur eftir að eg las grein í »Fram« með fyrirsögninni »Ill meðferð« því eg átti als ekki von á að nokkur mundi hafa ástæðu til að brígsla séra Bjarna Þorsteinssyni á Hvanneyri um svik.

Eg hefi þekt prestinn frá því eg var barn að aldri, og hefi eg sjálfur oftsinnis fengið ýms loforð hjá honum munnlega, og alt staðið eins og stafur á bók, enda hefi eg ekki heyrt nokkurn mann áfella hann fyrir að hann ekki fullkomlega hafi staðið við það sem hann hefir lofað, því gramdist mér þegar eg las þessa grein, og undraði stórum að nokkur mannssál sem gengið er út frá að sé með heilbrygðri skynsemi, skuli láta slíkan óþverra hugsunarhátt koma fyr almenningssjónir, og það um velgjörðamann sinn.

Þegar Guðný S. Stefánsdóttir kom hér í kaupstaðinn fyrir rúmu einu og hálfu ári, hafði hún hvergi höfði sínu að halla, en fyrir framúrskarandi dugnað séra Bjarna fékk hún húsaskjól í barnaskólanum hér, endurgjaldslaust fyrir sig og börnin. Ennfremur mætti fyrnefnd kona muna eftir allri þeirri hjálp og umhugsun, sem séra Bjarni og kona hans veittu henni og börnum hennar fyrst eftir að hún kom hér. Guðný S. Stefánsdóttir hefði þó átt að muna eftir þeim velgjörðum sem hún hefir orðið aðnjótandi af séra Bjarna og konu hans, jafnframt þeim svikum sem hún ber honum á brýn.

Nei, hún gleymir öllu því góða en gjörir alt sitt til að blekkja heiðvirðan prest í augum almennings. Eftir framkomu konunnar að dæma þá lætur hún hinar illu eða vondu hugsanir sínar hafa alveg yfirhöndina, eða finst þessari konu það vera beinasta og réttasta leiðin að láta koma fyrir almenningssjónir allar þær vammir og skammir sem henni kann að detta í hug, um þann mann sem henni finst að hafi gjört sér eitthvað órétt.

Þótt séra Bjarni hafi gefið G. S. S. eitthvert loforð fyrir þessum fyrnefnda grunni, þá get eg ekki annað hugsað en að konan á einhvernhátt hafi fyrirgjört rétti sínum, og einna helst á þann hátt að hún hafi látið dragast að greiða (lóðargjaldið) grunnleiguna, og séra Bjarni því haldið að hún ætlaði ekki frekar að hugsa um grunninn, og því leigt hann öðrum, annars get eg ekki séð, þar sem eg er mjög kunnugur staðhætti grunnarins, að það hafi á nokkurn hátt verið skaðlegt fyrir konuna að hún ekki fékk þennan grunn, þar sem margir aðrir grunnar eru hér fáanlegir og sem ekki kosta neina sérstaka uppfyllingu, eða peninga útgjöld, til þess að byggja á, aftur á móti er þessi grunnur svo, að það þarf mikinn kostnað við uppfyllingu áður en hægt er að byggja á honum.

Vil eg að endingu benda G. S. S. á það, ef hún lætur hugsanir sínar koma fyrir almenningssjónir, að hún reyni að hafa dálítið meira taumhald á þeim, en hún hefir haft þegar hún ritaði greinina »Ill meðferð.«

Helgi Hafliðason.
-------------------------------------------------------------------------

Fram - 7. apríl 1917

1. árgangur 1916-1917, 22. Tölublað

„Ver farið en heima setið."

Grein mína »Íll meðferð« í 20. tbl. »Frams,« hefir Helgi Hafliðason tekið til athugunar í síðasta blaði, án þess hún snerti hann á neinn sjáanlegan hátt, og að sjálfsögðu með þá hugmynd í höfðinu að hann væri að gjöra séra Bjarna Þorsteinssyni mikið gagn.

En H. H. hefir gleymt að afla sér sannra upplýsinga um það sem þessi svökallaða »athugasemd« fjallar um.

Eg leyfi mér að lýsa það bein ósannindi að eg ásamt börnum mínum, hafi fengið nokkra hjálp né umönnun fyr né síðar af Hvanneyrarhjónunum. Það eina sem eg hefi við þau skift, er að eg keypti mjólk af þeim árlangt og borgaði hana fullu verði eins og eg veit að frú Sigríður mun kannast við. Í öðru lagi kannast eg ekki við að í þessari umræddu grein minni séu upptaldar allar hugsanlegar vammir og skammir um séra Bjarna eins og athugasemdin gefur í skyn.

En eg get fullvissað H. H. um það að þó séra Bjarni hafi svikið mig um lóðina, þá hefir mér aldrei komið til hugar að hann ætti nokkuð skylt við allan þann óþverra sem innifelst í þessum tveim orðum »vammir og skammir,« og er eg að hugsa að H. H. hafi ekki athugað hvað mikið innifelst í þessum orðum, annars ekki látið þetta frá sér, því það eru hans orð en ekki mín. Það er aftur á móti rétt hermt af H. H. að séra Bjarni vildi enga þóknun taka fyrir veru mína í skólahúskjallaranum yfir rúman hálfan mánuð.

En hvort eg á að þakka það prestinum, hreppnum eða skólanefndinni veit eg ekki, eg lét mér nægja að bjóða borgun. Allar aðrar ágiskanir viðvíkjandi grein minni eru ekki svara verðar. Að endingu vil eg svo leyfa mér að gefa H. H. heilræði fyrir hans föðurlegu bendingu, það, að hann skifti sér ekki framar af því, sem honum kemur ekkert við.

Siglufirði 3. apríl 1917. Guðný S. Stefánsdóttir.
----------------------------------

Hlutavelta sjúkrasamlagsins verður að öllu forfallalausu næsta sunnudag eftir páska.
-------------------------------

Tunnuverksmiðju sína ætlar H. Söbstað nú að láta taka til starfa í þessum mánuði.

Á hann þökk skilið fyrir að verða fyrstur til að byrja á slíku nytsemdarverki hér.
-------------------------------

Opinberun.

Ungfrú Sigrún Ásgrímsdóttir og Björn Jónsson á Siglunesi, hafa nýlega opinberað trúlofun sína.
--------------------------------------------------------------------

Fram - 14. apríl 1917

1. árgangur 1916-1917, 23. Tölublað

Hafliði Guðmundsson hreppstjóri andaðist að heimili sínu hinn 12. þ. m. kl. 7 að morgni, 64 ára gamall. Banamein hans var brjóstveiki ásamt hjartabilun. Hafði hann verið rúmfastur lengi, og þjáðist mjög síðustu vikurnar er hann lifði. Helstu æfiatriða þessa sárt saknaða og valinkunna heiðursmanns mun síðar getið í Fram.
---------------------------

Meðferð á hestum.

Ekkert vekur athygli dýravina hér í Siglufirði, eins og ökumenn og meðferð þeirra á hestum. Akstur með hestum hefir verið með mesta móti hér í vetur, hefir tvent borið til þess, það fyrsta að tíðin hefir verið góð, og akfæri ágætt, og annað, að menn hafa verið skyldaðir til að fylla upp lóðir sínar þar sem þess gjörist þörf. Hafa menn þeir sem uppfyllingu hafa þurft, fengið hesta og sleða eða kerru hjá Birni Jónassyni, sem einn hefir þau tæki hér í Siglufirði.

Menn hans hafa sjaldan fylgt með, og hafa því óvanir menn ekið, er ekki voru starfinu vaxnir, og hestarnir þar afleiðandi sýnt mótþróa, fyrir óvana ökumanna. Þessir menn hafa því þurft að beita ofbeldi við skepnurnar, sem komið hefir fram í því að þeir hafa barið þær með frosnum kaðli (aktaumunum) og ekki ætíð hugsað um hvar höggið kom, annan ósið hafa þeir haft og það er, að kippa snögt í taumana, skerast þá mélin upp í munnvik hestins og mynda sár, sem altaf dýpkva, þar liggur svo járnið altaf í sárinu, því seint ætlar sú regla að komast á, að menn noti múla á hesta sína.

Þetta kom fyrir hjá einum ökumanninum í vetur meðan mölinni var ekin utan úr Hvanneyrarkrók, svo dæmið er ekki tekið út í bláinn, og mun þetta optar hafa átt sér stað. Er það merkilegt af Birni Jónassyni, sem annars fer ágætlega með hesta sína, að hann skuli ekki hafa betra eftirlit með hestum sínum þegar hann lánar þá öðrum. Nú fyrir stuttu var verið að aka grjóti á hestum í uppfyllingu hjá bryggju Helga Hafliðasonar, var það um flóðtíma, og krap mikið við fjöruna, því frost var mikið; gengum við tveir þar hjá í því að einn ökumaður kom með æki, ætlaði hann hestunum fram í krapið, líklega eftir skipun verkstjóra, en hesturinn vildi ekki hlýða, var hann þá barinn um höfuð og herðar, en það kom ekki að neinu gagni, hesturinn hnykti á við höggin en hafði sig ekkert áfram.

Fór þá ökumaðurinn að gæta betur að, og var þá sleðinn fastur á sandi. Svona mætti telja fleiri dæmi, en eg læt mér nægja þetta fyrst um sinn, og vona að Björn Jónasson hafi betra eftirlit með hestum sínum hér eftir, því eg veit að honum tekur sárt til þeirra og vill að þeim líði vel, sem er líka skylda hans. Í Lögbirtingablaðinu eru ný útkomin lög, um meðferð á skepnum, og er þar mest rætt um hesta, væri óskandi að þau væru birt almenningi svo þau yrðu ekki einungis pappírslög, því ef þeim er stranglega fylgt, verða menn að bæta sig með meðferðina á hestunum hér í Siglufirði.

Dýravinur.
----------------------------------

Úr bænum.

Afmæli

 • 15. apr. Þorm. Eyjólfsson, kaupm.
 • 16. — Guðný Pálsdóttir, ekkja.
 • 18. — Jóh. Sigurgeirsson, trésm. 18.
 • ---  —  Ólína Ólafsdóttir, húsfrú.

Hlutavelta sjúkrasamlagsins verður ekki á morgun. Síðar verður auglýst hvenær hún verður.

Tíðin.

Síðdegis á laugardaginn var, brast á vonsku stórhríð með miklu frosti, og hefir haldist síðan, nema á miðviku- og fimtudaginn, þá var stilt og gott veður. Mest varð frostið á annan dag páska — 18 stig.

Hafís.

Á þriðja dag páska heimsótti hann okkur, og er nú nálega hálfur fjörðurinn af ís.

Mun það hafa slegið flestum skelk í bringu að horfa á hann siglandi inn fjörðinn, brjótandi og eyðileggjandi alt sem fyrir er. Til allrar hamingju virðist ísinn ekki vera mikill ennþá, en hætt við ef þessi norðanátt helst lengi, að meira komi af honum.

Þessa tvo daga sem veðrið var nokkurnvegin stilt og bjart, var gengið hér uppá fjallsbrúnina og sást þá mjög lítill ís hér framundan, svo menn eru að vona að þetta sé aðeins hroði sem brátt muni fara aftur.

Skemdir nokkrar hefir hafísinn nú þegar gjört á bryggjunum hér, aðallega hjá Bakkevíg, en hætt við að fleiri bryggjur muni laskast ef norðanáttin helst.

Ný aðferð er það sem H. Söbstað er að láta útbúa til þess að fylla upp tjarnirnar á eyrinni. Það er einskonar sjálfhreyfileg flutningalest í loftinu.

Vér munum síðar flytja nánari lýsingu á aðferð þessari.

Hákarlaskipin er nú verið að útbúa í krafti, mun byrjað að setja þau á flot úr helginni, ef það verður þá hægt vegna íssins.

G. Blómkvist hefir sent hingað símskeyti um að hann fari að koma hingað. Gjörir hann ráð fyrir að koma til Reykjavíkur um 20. þ. m.
----------------------------------

Þar eð eg hefi orðið þess var, að mér hafa verið ætluð ummæli þau sem Guðmundur Davíðsson á Hraunum, hefir eftir Siglfirðingum í grein sinni »Æðarfugladráp« sem byrtist í blaðinu »Fram« í vetur, leyfi eg mér að byrta hér eftirfarandi vottorð frá Guðmundi, um að eg sé ekki sá er færði honum þessar umræddu fréttir; ekki þar fyrir: eg gæti sagt svipaðar sögur og gjöri það ef til vill síðar ef þeir hinir sömu sem nú hafa borið þetta á mig, ekki hætta þessháttar slúðri.

Theódor Pálsson.
------------------------------

Að gefnu tilefni leyfi eg mér að lýsa yfir því að enginn hinna þriggja háttvirtu Siglfirðinga, er eg mintist á í grein minni »Æðarfugiadráp« í »Fram« var herra skipstjóri Theódor Pálsson.

Hraunum 2. apríl 1917. Guðm. Davíðsson.
--------------------------------------------------------------------------------

Fram - 21. apríl 1917

1. árgangur 1916-1917, 24. tölublað

Fáein orð um Fjarðará og Skarðsá.

Af því raflýsing og rafmagnseldun virðast hafa gagntekið hugi margra hér á Siglufirði, sem er eitt af þeim fáu kauptúnum hér á landi sem hafa verið svo forsjál og framtaksöm að koma á raflýsingu áður en styrjöldin mikla skall á, þá vil eg ekki skorast undan að segja fáein orð um, hve mikið afl megi fá án afarkostnaðar, til eldunar og ljósa úr stærstu ánum hér við fjörðinn; úr því nokkrir velvirtir bæarbúar hafa æskt þess. Síðastliðinn laugardag fórum við herra Jón Jóhannesson, hér búsettur í bænum, fram að Selá; því mig. fýsti að sjá hvernig þar væri umhorfs.

Á leiðinni athugaði eg vatnsmagnið í Fjarðaránni á Leyningseyrunum, þar sem áin fellur í einulagi, og reyndist mér það vera um 200 lítrar á sekúndu. Af þessu og athugunum þeim sem nýnefndur hr. J. Jóhannesson gerði seint í janúar síðastl., og af mínum eigin athugunum í lok septemb. mánaðar síðastliðið haust, held eg að ekki verði unt að fá úr Fjarðaránni einni, frá því rétt fyrir ofan fossinn og ofan að Selá, þar sem aflstöðin við hana yrði líklega sett, meira en sem svarar 120 hestöflum, né með Blekkingsá leiddri í Fjarðarána við fossinn meira en um 150 h.öfl., — en það er aðeins helmingur til 2/5 þess afls, sem eg held að megi fá úr Skarðsá einni sé hún tekin upp rétt fyrir ofan þjóðveginn, sem yfir hana liggur hérum bil einn og einn fjórða til einn og hálfan km. fyrir ofan Skarðdal, og leidd í járnpípum ofan að stöð rétt fyrir ofan bæinn Leyning, og þó mundi kostnaðurinn við að nota Fjarðarána og Blekkingsá engu minni en við að nota Skarðsá.

Nákvæmlega get eg ekki sagt um þetta nú, fyr en fallhæðin á báðum ofan nefndum stöðum hefir verið mæld. — Sömuleiðis vil eg geta þess, að sama laugardagskveld gekk eg uppá aflstöðina hér og sá vélina í fyrsta sinni í góðu lagi og gangi, og hika eg ekki að segja, að vélin, sem er byltivaki (Alternator), er góð, og gekk þá prýðilega; en ekki getur hún gefið meira en 11 k. w. 880 vatt. (16 h.öfl); en með því afli getur, hún þó lýst 1485, — 16 k. ljósalampa séu hálfs watt lampar notaðir t. d. Osram, eða Wotan lampar, og hver þeirra gefur rétt 10 k. ljós. Því eins og sjá má á stimpli hennar er hún ætluð til að ala einungis 54 amper straum, og hann með 220 volta þrýstingu (tension) gefur 11,880 watt, eða tæpi. 16 h. öfl; eins og áður er sagt. Þetta er alt sem eg þori að fullyrða að svo stöddu, og bið alla að virða á betri veg.

Ritað 18. apríl. 1917. Frímann B. Arngrímsson.
-------------------------------------

Meðferð á hestum.

Með þessu nafni er grein í 23. tölublaði »Fram,« sem þarf athugunar við. Tek eg sérstaklega kaflann um keyrslu á grjóti fram með bryggju Helga kaupmanns Hafliðasonar. Þar segir: »Var um flóðtíma krap mikið við fjöruna, kom einn ökumaður með æki, ætlaði hann hestinum fram í krapið líklega eftir skipun verkstjórans. Hesturinn vildi ekki hlýða. Var því laminn um höfuð og herðar, hnykti á við höggin, og gat ekki dregið sleðann. Fór þá ökumaðurinn að gæta betur að, var þá sleðinn fastur á sandi.«

Þessi ummæli dýravinsins um ökumanninn, skora eg á hann að sanna (ella standa sem ósanninda maður,) því slík meðferð á hestum ef sönn væri varðar við" lög, ætti ökumaður fyrir illa meðferð á hestinum og verkstjóri ef hann hefir skipað svo fyrir, að keyra í krapi og á sandi, báðir skilið straff fyrir.

En það varðar líka við lög, að bera straffsverða breytni á náungann, þótt af dýravini sé gert, ef ósatt reynist. Dýravinurinn hefði heldur átt að benda mönnum á að kaupa Dýraverndarann og lesa hann því þar eru lögin sem hann vill láta auglýsa, fyrir utan margt annað gott, og svo mikill dýravinur er eg að eg kaupi það blað og les.

Kem eg þá að efninu aftur. Hvað grjótkeyrsluna snertir lét eg aldrei keyra fram í fjöruna sem sjór féll á nema þegar fjara var og ísinn lá á þurrum sandi. Þessi þurra ísfroða sem var ofan á ísnum gerði hestana aðeins fyrstu ferðina trega til að fara fram á ísinn, en þegar þeir voru búnir að fara það einu sinni fóru þeir tregðulaust, því hvorki hestur né sleði kendu sands.

Á einum stað upp á þrautinni var hálf vont ef sleðinn fór nokkuð útaf henni og kæmi það fyrir að sleðinn stoppaðist, hjálpuðum við með járnum að koma honum á stað svo hesturinn þyrfti ekki að ofreyna sig, þar að auki var aldrei meira haft á sleða en tveggja manna æki, sem kom til af því að grjótið var á þeim stað að það var á brekku að fara, fyrst á stað, er eg því viss um að hestar Björns hafa verið ómeiddir eftir akstur á umræddu grjóti sem betur fer.

Og svo mikill dýravinur er eg, að hefði eg séð ökumanninn berja hestinn eins og dýravininum segist frá, mundi eg hafa gefið honum ráðningu og látið hann fara heim til sín og hætta keyrslu fyrir mig. En þar sem hann talar um malarkeyrslu úr Hvanneyrarkróknum, mun hafa við sannleik að styðjast að eitthvert ólag var þar á keyrslu hjá einum ökumanninum, en hann var líka látinn hætta keyrslu strax og það kom í ljós, getur hver sem vill skoðað hesta Björns nú að engin meiðsli mun á þeim sjást eftir járnmél né annað. Það er hverju orði sannara hjá háttvirtum dýravin að það gengur altof tregt að kenna mönnum að brúka múlbeisli í stað hinna, mundi mörgum hestinum líða betur með múlinn sinn en járnmélin sem margan hestinn hefir sært, og mun særa svo lengi sem þau eru brúkuð. —

Athugaverðast við keyrslu eða akstur hér er þetta: Hestarnir koma hingað óvanir keyrslu og akstri, en vandi mikill að temja þá við þá brúkun ekkert minni en fyrir reiðmanninn að gera góðan reiðhest úr göldum fola, en bæði er það að hér eru fáir sem kunna þá ment að kenna hestum, drátt og þeir þá ekki fáanlegir til að hafa keyrslu á höndum, sem best eru hæfir til þess, eru því oft notaðir unglingar til þessa starfa, og sem verst er, þegar hægt er að fara að nota þá sem brúklega keyrara hætta þeir og óvanir taka við. Svona gengur það koll af kolli, sami keyrarinn sést hér sjaldan árið út. Verða því hestarnir einatt að læra nýja siði hjá sínum nýju húsbændum og gengur það misjafnt sem eðlilegt er, og snýst það oft uppí það að klárarnir vilja ráða sjálfir hvort þeir fara eða þá standa kyrrir hvað sem drengirnir segja.

Guðm. Bíldahl.
---------------------------------------------------------------------------

Fram - 1. maí 1917

1. árgangur 1916-1917, 25. tölublað,

»Sök bítur sekan.«

Í síðasta tölublaði »Fram« hefir herra G. Bíldahl ráðist á grein mína »Meðferð á hestum« og efast þar um að eg segi satt, en eins og greinin ber með sér, var eg ekki einn sem horfði á þetta, og mun eg því standa við orð mín og sanna á sínum tíma. Eg lýsi það ósannindi, að í grein minni standi, að G. B. hafi látið aka fram í fjöruna þar sem sjór var á, en sjórinn var nýfallinn úr snjónum og þarafleiðandi krap, því það getur hver maður séð, að þegar vatn eða sjór er nýrunnið úr snjó, þá er snjórinn ekki strax orðinn þur og svo var í þetta sinn, þótt hr. Bíldahl kalli það þurra ísfroðu.

En þetta þarf ekki að koma til greina þar eð sandbletturinn sem sleðinn stóð fastur á var fyrir ofan flæðarmál, og sagðist pilturinn sem ók hafa beðið Bíldahl að moka snjó á þennan blett, en hann ekki gert það um þetta stældu þeir, og þá var það sem hesturinn var barinn; því reiði piltsins kom fram á hestinum í staðinn fyrir Bíldahl, því líklega hafa honum verið hugsuð höggin þótt hesturinn fengi þau, enda hefi eg aldrei séð þennan pilt fara illa með hesta og hefir hann þó ekið talsvert.

En það voru ekki höggin sem vöktu athygli mína, heldur hitt, að sjá hestinn stimpast við að hafa sig áfram bara fyrir snjóleysi, og það af skeytingarleysi mannanna, því nægur snjór var þar nærri, sem auðveldlega hefði mátt moka yfir þennan auða sandblett. Þegar eg skrifaði grein mína um meðferð á hestum þá vissi eg ekki að hr. Bíldahl keypti Dýraverndarann, og væri annar eins dýravinur og hann lætur, því þá hefði mér ekki til hugar komið að trúa, að hann léti slíka meðferð viðgangast.

Hvað viðvíkur lestri hr. Bíldahl á Dýraverndaranum, þá lítur ekki út fyrir að hann hafi borið mikinn ávöxt, nema ef vera kynni í orði, og hvað lögunum viðkemur, þá get eg ekki séð að þau hafi minna gildi í Lögbirtingablaðinu, en í Dýraverndaranum, ennfremur hefir það oft komið fyrir, bæði hér og annarstaðar, að lög hafa verið brotin, og eins getur verið um þessi lög, ekki síst þar sem þau eru þá ekki almenningi kunn,- og þeir menn, sem brotið hafa önnur lög, t. d. bannlögin, er eins trúandi til að brjóta þessi lög

Dýravinur.
---------------------------

Opinberun.

Ungfrú Sólveig Þorkelsdóttir og Benóní Benediktsson frá Akureyri, og ungfrú Jóhanna Evertsdóttir og Þorkell Friðriksson.

»Hafliði« vélbátur Helga Hafliðasonar, fór til hákarlaveiða á dögunum og kom eftir tvo daga með 8 tn. af lifur, er það um 20 kr. hlutur.
---------------------------------------------------------------------

Fram - 19. maí 1917

1. árgangur 1916-1917, 27. Tölublað

Hjónaband.

Ungfrú Björg Bessadóttir og Björn Skarphéðinsson, bæði til heimilis hér í bænum, hafa nýlega verið gefin saman í hjónaband.
----------------------------------------

Hákarla veiðin.

Þessa viku hafa komið inn af hákarlaveiðum: »Sjöstjarnan« með 82 tn. og »Hafliði« með 58 tn. og er það ágætur afli eftir svo fárra daga útivist, enda sögðu þau bæði nægan hákarl þar fram ámiðunum.

— Eins og kunnugt er fiskar »Sjöstjarnan« hákarlinn á línu, rétt eins og þorsk, og hefir rúrna 100 aungla á hverju kasti. Í einni umvitjuninni hafði hún fengið 58 hákarla, eða sem næst á annanhvorn aungul,og hefir það mátt vera björgulegt, að horfa á slíka stórfiska röð.

Kolaveiði hefir verið allgóð þessa viku hér á innfirðinum.

Er það ekki lítil búsbjörg í þessari dýrtíð. Hann er seldur á 50 aur. kgr. og þó hann hafi aldrei fyr náð svo háu verði, getur það ekki talist dýr fæða, samanborið við annan mat.

Höfrungahlaup allstórt kom hér inn á fjörðinn í morgun, var farið bæði á vélbátum og árabátum til veiða, og lukkaðist bátunum loks í félagi að reka heilan hóp af skepnum þessum inn í fjarðarbotn og þar á grunn. Tók þá til skothríð allsvæsinn, er mun hafa líkst stórskotaliðsáhlaupi og linti ekki fyr en öll dýrin voru dauð. Hve mörg þau eru vitum vér ekki, því þetta gjörðist rétt áður en blaðið fór í pressuna.
----------------------------

Hinn svokallaði Dýravinur.

Ekki svaraði eg honum fyrir það að mig bíti nein sök fyrir meðferð á hestum. En sem verkstjóri við fyrgreinda vinnu, gat eg ekki tekið rógi hans og álygum þegjandi. En ráða vil eg honum að lesa upp ritsmíði sína í 23 tölubl. »Fram,« því hann hefir sjáanlega verið búinn að gleyma henni þegar hann ritar í 25 tölubl.

því þar ber hann á móti kaflanum sem byrjar svona. »Það var um flóðtíma o. s. frv.« Fer því upp á land og finnur þar sandblett, nenni ekki að elta hann lengur, get búist við honum næst þegar hann fer af stað uppí Hvanneyrarskál eða út á landsenda. Og eftir niðurlagi seinni greinar hans að dæma, get eg búist við honum eins langt frá deiluefni okkar, eins og austrið er frá vestrinu.

En það get eg fullvissað hann um þótt hann færi að taka bannlögin og brot á þeim, — náttúrlega til að fága sig, en sverta aðra. — þá verður það ekki einu sinni Pílatusar-þvottur, hvað þá betri. Mun ekki eyða rúmi í »Fram« til að munnhöggvast við hann meira, þótt eg ef til vill gæti stungið upp í hann dúsu.

Guðm. Bíldahl.
----------------------------------------------------------------------

Fram - 23. júní 1917

1. árgangur 1916-1917, 31. Tölublað

Götunöfn og tölusetning húsa, er sagt að eigi að komast hér á innan langs tíma. Situr nú veganefndin á rökstólum og semur tillögur um nöfnin, sem svo hreppsnefnd staðfestir eða breytir eftir geðþótta. Menn eru forvitnir: að fá að vita hve falleg nöfnin verða, hefir sá leiði kyittur komið upp, að göturnar eigi að bera nöfn útlendra manna, er það óviðeigandi, því nóg eru alíslensk nöfn til. Vonum vér þess, að af þeim 9 mönnum, er um mál þetta fjalla, sé meirihlutinn svo hollur íslenskri tungu, að þeir sjái um að eigi fæðist neinir málfræðislegir vanskapnaðir í götu nöfnunum.

Ritsíminn tekur nú til starfa bráðlega, komu tveir unglingar frá Akureyri með Sjöstjörnunni í gær, sem eiga að gæta hans í sumar.

Timburskipin eiga ekki vinum að fagna, er þau hitta Þjóðverja. Hefir sú fregn komið hingað, að timburskip, sem tilheyrir Ásgeir kaupm. Péturssyni, hafi verið tekið og flutt til þýskrar hafnar. Skip þetta var stórt, voru í því á þriðja hundrað standards af timbri. Sama fregn segir að Þjóðverjar hafi brent 2 timburskip til C. Höepfnersverslunar á Akureyri, 1 til trésmíðafélagsins »Dvergur« í Hafnarfirði og 1 til kaupm. Sigfúsar Bergssonar sama staðar. Þau tvö síðastnefndu hafa hlotið að vera komin hér nærri landi, höfðu verið búin að vera mánuð á leiðinni frá Svíþjóð.

Bryggjur miklar eru þeir að láta byggja, S. Goos og h.f. Bræðingur, utan við Hvanneyri. Eru þær mjög sín með hverju móti, og ekki gott að dæma um, hvor traustari er, eða betur útbúin til að verjast áhlaupum Ægis. Það verður reynslan að sýna. Verkafólkshús 53 álna langt og 16 álna breitt, er S. Goos einnig að láta byggja. Ennfremur er verið að byggja platningu austan við bryggju Helga Hafliðasonar. Hún er eign h.f. Alliance.
------------------------------------------------------------------------------

Fram - 30. júní 1917

1. árgangur 1916-1917, 32. Tölublað

Um Siglufjörð.

Nú fara Norðmennirnir bráðum að koma, þó líklega verði þeir færri en vanalega. Aðal atvinna sumarsins fer í hönd, og með henni þreyta og vökur, miklir peningar, og mikil ánægja. Má óhætt fullyrða, að af öllum þorra fólks í Siglufirði er hlakkað til síldarveiða tímabilsins allan annan ársins tíma. Er þetta ekki að undra, því á þessu tímabili safna sumir fé til þess að' fæðast og klæðast af yfir árið, og æðimargt af fólkinu safnar einnig gleði og nautnastundum sem það svo dreymir um hinar löngu vetrarnætur, þegar ekkert er að hafa til unaðs nema gamlar endurminningar.

Eins og menn vita safnast hér saman á sumrum fólk af öllum landshornum, að heita má, ásamt Norðmönnum, Dönum og Svíum og stundum slæðingi af öðrum þjóð- um. Er því götulífið hér fjörugt og oft gleði bragur yfir hinum yngri lýð. Þó er langt um meira ósatt af því óorði, er fer af Siglufirði en margir ætla, sögur þær, er héðan ganga margar vísvitandi uppspuni óvandaðs fólks, er annað hvort ekki þekkir rétt til, eða er sjálft í þeim flokknum, er verri má teljast, og segir sínar eigin sögur.

Sæmir það illa því fólki, er sækir hingað atvinnu að bera út óhróður um dvalarstað sinn, gætir það ekki þess að nokkuð fellur jafnan á hvern þegar dómur er feldur um heildina. Þó er enn meiri vansæmd fyrir þá, er hér eiga heima, að ófrægja sína eigin sveit, með því að bera henni verri sögu en ástæða er til. Því verður ekki neitað, að hér er sem annarsstaðar misjafn sauður í mörgu fé, gildir það jafnt um aðkomufólk sem heimalninga.

Er jafnan rétt að skömmin skelli þar sem hún á heima hver sem í hlut á. Verður það aldrei ofbrýnt fyrir mönnum sérstaklega fyrir þeim yngri — að vekja ekki hneyxli, né gefa ástæðu til að hægt sé að benda fingrum að Siglufirði eða Siglfirðingum. Vegna hins mikla atvinnureksturs sem hér er á sumrum, hefir Siglufjörður nokkurskona sérstöðu sem sveit, og er veitt meiri eftirtekt, en mörgum eða jafnvel flestum öðrum kauptúnum landsins af líkri stærð. Þorpið hefir blómgast meira en nokkurt annað á landinu á síðast liðnum 15 árum bæði að fólkstölu, efnahag og ýmsum framförum.

En það þarf líka að taka framförum frá fleiri hliðum, og ein er sú, að reka af sér ýmsan óhróður, er því hefir fylgt. Eg man eftir að fyrir ekki all-löngu síðan stóð grein í Lögréttu um Stykkishólm, og drykkjuskap þar, eftir St.D.stóð þar meðal annars þau ummæli, að í Stykkishólmi væri eins mikill drykkjuskapur og á Siglufirði. Var að skilja á greininni, að svo langt þótti jafnað, að ekki væri hægt að fara lengra. Slíkar hugmyndir komu þar fram um Siglufjörð, og svo mun víðar. Þeir sem rétt þekkja til, vita að drykkjuskapur hér í Siglufirði, sérstaklega síðan bannlögin komust á, hefir ekki verið meiri en víða annarsstaðar á landinu, og minni en kunnugir menn hafa sagt að hafi verið á Ísafirði, Reykjavík og víðar.

Unga fólkið hefir þó orðið harðast úti, því verið borin á brýn ósiðsemi og lauslæti. Má vera að Norðmenn séu eigi alveg lausir við þá ókosti, en fólk sem hér á heima, á ekki alt, sem því er borið í þeim sökum. Hefi eg veitt því athygli að höfuðstaður landsins hefir átt hér mest af þeim lýð innlendum, er hægt væri að bera slíkan vitnisburð. Kemur og þaðan flest fólk íslenskt er hér dvelur á sumrum. Þessum leiðinda orðróm, er liggur á Siglufirði þarf að hrinda af sér, og það verður ekki gjört á annan hátt en þann, að hver einstaklingur gæti þess að vera ekki orsök í eða gefa ástæðu til, að hægt sé að segja um hann sannar óhróðurs sögur, er verði heildinni til vansæmdar.

Þá fellur hið illa álit sem menn hafa á Siglufirði smátt og smátt um sjálft sig og hverfur. Þetta er verk sem allir verða að taka jafnan þátt í bæði þeir sem eru að vaxa upp, og þeir sem eldri eru. Þó hvílir mest skylda á foreldrum kennurum, og öðrum leiðtogum og forsjármönnum uppvaxandi kynslóðarinnar. Líklegt er að allir vilji vera ráðvandir siðsamir og góðir menn, sér og sveit sinni og ættjörð til sóma, og enginn mun kjósa afkomendum sínum þá galla er þeir sjálfir bera.

s. m.
------------------------------------------------

Bryggjur auk þeirra sem getið var um í síðasta ,blaði, eru þeir Árni Böðvarson og Lúðvík Sigurjónsson að láta byggja nýjar bryggjur norður af ytri tanga eyrarinnar austast. -------------------------------------------------------------------

Fram - 7. júlí 1917

1. árgangur 1916-1917, 33. tölublað

Höfðingleg gjöf. Kaupmaður Sigurður Kristjánsson í Siglufirði hefir alveg nýlega gefið Ekknasjóði Siglfirðinga 100 krónur. Þessa er hér getið með innilegu þakklæti fyrir sjóðsins hönd.

Stjórn Ekknasjóðsins.
---------------------------

Hreppsnefndin hélt fundi 4. og 5. þ. m. og fer hér á eftir hið helsta sem gjört var. Samið og samþykt frumvarp til laga um bæjarstjórn í Siglufjarðarkaupstað. Var það langt og mikið mál í nærri 40 greinum. —

Aðaldrættir frumvarps þessa eru:

Í bæjarstjórn kaupstaðarins skulu vera 6 fulltrúar, kosnir til 6 ára og ganga 2 úr annaðhvert ár. Bæjarfógetinn er sjöundi maður bæjarstjórnarinnar og oddviti hennar.

— Í niðurjöfnunarnefnd skulu vera 3 menn, kosnir til 6 ára og ganga 2 og 3 úr á víxl á þriggja ára fresti. Einginn þeirra má vera líka í bæjarstjórn. Endurskoðendur allra opinberra reikninga kaupstaðarins skulu vera 2, kosnir til þriggja ára í senn. — Bæjarstjórnin kýs hafnarnefnd, byggingarnefnd og hinar aðrar nefndir er undir hana heyra, svo og sérstakan bæjargjaldkéra.

— Annars er frumvarp þetta að mestu samhljóða gildandi lögum um bæjarstjórnir í öðrum kaupstöðum landsins. Frumvarp þetta verður sent alþingismönnum sýslunnar núna með Botníu og er ætlast til að þeir flytji það inn í þingið samtímis tillögunni um kaupstaðarréttindi fyrir Siglufjarðarkauptún. Það mun áreiðanlega engin vera sá í öllu þessu kauptúni, að hann ekki óski að breyting þessi nái fram að ganga, og það nú á þessu þingi.

Og þá er hitt ekki síður áhugamál okkar allra, að ef breyting þessi nær fram að ganga, og Siglufjörður fær bæjarréttindi, að þá verði síðasta greinin í ofannefndu frumvarpi látin vera óbreytt, en hún hljóðar svo: »Lög þessi öðlast gildi 20 maí 1918.« — Þann dag, fyrir 100 árum, var Siglufjörður með konunglegum úrskurði, löggiltur sem verslunarstaður. Þá var hafnarvarðarstaðan veitt Guðmundi Hafliðasyni til 1 árs, frá 1. júlí, samkv. tillögu hafnarnefndar.

Um stöðu þessa höfðu sótt auk hans:

 • Guðmundur Bíldahl,
 • Páll S. Dalmar,
 • Hallgrímur.Jónsson og
 • Jón Jóhannesson.

Þá voru tekin fyrir götunöfnin. Voru mjög misjafnar tillögur komnar fram um þau, sumar góðar en sumar fremur ótilhlýðilegar.

Að endingu voru þessi nöfn samþykt:

 • 1. Gatan sem fyrst var lögð hér, og liggur frá Hinriksenspalli og upp að Álalæk: Aðalgata.
 • 2. Gatan sem liggur frá aðalbryggju sam. ísl. verslana og upp að íbúðarhúsi Jóns factors: Gránugata.
 • 3. Gatan frá Söbstað og upp að hinu nýja húsi Jóns Jóhannessonar skipstjóra: Eyrargata.
 • 4. Gatan frá Gránugötu, út hjá Goos og út að Söbstað: Tjarnargata.
 • 4. Gatan frá Gránugötu út hjá Sigurjóni járnsmið og út að Flóvent (og lengra síðar): Vetrarbraut.
 • 6. Gatan frá Gránugötu, út fyrir ofan Tynæs og út að flóðgarði: Norðurgata.
 • 7. Gatan sem á að koma milli húsa Guðmundar mótorista og þar beint norður bak við pósthúsið og að minsta kosti út í Eyrargötu: Grundargata.
 • 8. Gatan sem á að koma frá Aðalgötunni við Álalæksbrúna og þar norður eftir meðfram Álalæknum: Lækjargata.
 • 9. Gatan sem liggur frá efri endanum á Eyrargötu og alla leið út í Bakka: Hvanneyrarbraut.
 • 10. Gatan frá Álalækjarbrú og suður bakkana svo langt sem verslunarlóðin nær: Suðurgata.
 • 11. Gatan sem liggur upp fyrir utan Stein Einarsson og þar suður hólana: Lindargata.
 • 12. Gatan sem liggur uppí kirkjugarðinn: Brekkugata.

Nafna og númeraspjöld verða útveguð svo fljótt sem hægt er, og síðan sett á húsin.
------------------------------------------------------------------------

Fram - 14. júlí 1917

1. árgangur 1916-1917, 34. Tölublað

Veitingasal hefir Hallgrímu Jónsson látið gjöra úr sölubúð sinni, og var hann opnaður síðastliðinn sunnudag. Mun Hallgrímur vera sá eini hér, sem treystir sér að hafa veitingasölu á þessum vandræðatímum sem nú eru.
-------------------------------------------------------------------------

Fram - 17. júlí 1917

1. árgangur 1916-1917, 35. tölublað

Standmynd af Hafliða sál. ætla Norðmenn að reisa einhverstaðar hér á eyrinni að stríðinu loknu. Eru þeir byrjaðir að safna frjálsum samskotum til þess meðal þeirra er hér hafa verið.

Óráðið er enn úr hverju myndin verður og hve stór, á það að fara eftir því hve mikið safnast. Talað hefir verið um að setja myndina framan við hús hans eða þá þar sem kirkjan stendur nú, ef hin tilvonandi nýja kirkja verður sett annarstaðar.
------------------------------------------------------------------------

Fram - 7. ágúst 1917

1. árgangur 1916-1917, 38. Tölublað

Hafnarvörðurinn. Vér höfum heyrt að hafnarvörðurinn annist ekki embætti sitt eins og skyldi. Óskandi að hann bæti úr því áður víðtækari óánægja hafst af.
-----------------------------------------------------------------------

Fram - 14. ágúst 1917

1. árgangur 1916-1917, 39. Tölublað

Úr bænum.

Afmæli:

 • 15. ágúst. Herdís Hjartard. ungfrú.
 • 17. „ Andrés Hafliðason. versl.m.
 • „„  „ Gunnl. Þorfinnss. verkstj.
 • 18. „ Anna Vilhjálmsd. húsfrú
 • 19. „ Jósep Blöndal, stöðvarstj.
 • 20. „ Vigl. Jónsson, sjómaður.
 • 21. „ Margrét Jósefsd. húsfrú.

Opinberað hafa trúlofun sína Ingiríður Ásgrímsdóttir og Kristinn Bessason formaður, bæði til heimilis hér í bænum. -------------------------------------------------------------------------

Fram - 22. ágúst 1917

1. árgangur 1916-1917, 40. tölublað

BANN

Hérmeð er öllum bannað að kasta hverskyns affalli frá húsum sínum, svo sem skólpi, rusli, blikkdósum o. s. frv. á fjöruna framundan húsi mínu, nema um háfjöru og verður þá að flytja allt slíkt fram á marbakka.

Verði þessu ekki hlýtt verður tafarlaust kært til sekta fyrir lögreglustjóra.

Guðmundur T. Hallgrímsson
------------------------------------------------------------------------

Fram - 28. ágúst 1917

1. árgangur 1916-1917, 41. Tölublað

Nokkur orð um eftirlit.

Ekki lýsir það góðum embættisrekstri hjá sýslumanni Eyjafjarðars, að hafa ekki til lögskráningabækur og ekki heldur sjóferðabækur í sínu umdæmi. Þetta er brot á lögreglumáli, hvort heldur það er honum að kenna eða sjálfu stjórnarráðinu, eins og hann hefir reynt að sýna fram á. Með þessu lögbroti eru hásetar sviftir rétti sínum gagnvart útgerðarmanni. Hvað fengi alþýðumaður fyrir svona lögbrot? Mundi hann ekki fá steininn?

Það stóð nýlega fyrirspurn í blaðinu »Fram« til sýslumannsins í Eyjafjarðarsýslu, en hann sneiddi fram hjá henni, honum hefir þótt hún væmin. Þá er eftirlitið hjá þeim mönnum sem eiga að skoða skipin ekki á háu stigi. Einn þeirra er smiður, sem fyrst smíðar skipin og gerir við og metur svo sín eigin verk á eftir og segir alt gott og blessað. Annar er gamall sjómaður sem litlu eða eingu fær ráðið, þó hann hafi best vit á þeim hlutum. Þriðji er úr kaupmannastéttinni, sem líklega veit ekki einusinni hvort sjórinn er saltur nema þá af afspurn, hvað þá meira.

Mér er spurn, vita þessir skoðunarmenn hve mörg teningsfet hver maður á að hafa af rúmmáli í skipinu. Eg efast um það. Annars mundu manna plássin á skipunum sem ganga héðan vera betri. Vill nú ekki sýslumaðurinn í Eyjafjarðarsýslu taka rögg á sig og skerpa eftirlitið á þessum sviðum í sínu lögsagnarumdæmi. Er ekki rétt að hvíla þessa skoðunarmenn og skipa aðra nýja? Ætli mannaplássin á skipunum sem héðan ganga séu lögleg? Eg held það sé ekki. Hver á að hafa eftirlit með þessu?

Er það útgerðarmaðurinn? Ætli það sé ekki sýslumaðurinn, Páll Einarsson? Eg ætla ekki að fara frekar út í þetta að sinni, en lengi mætti halda áfram.

Eina fyrirspurn ætla eg að setja hér að lokum. Er það gott eftirlit að láta hvern pranga á íslensku smjöri sem vill langt fyrir ofan hámarksverð? Spyr sá sem ekki veit.

Aðkomandi.
----------------------------------------------------------------------

Fram - 4. september 1917

1. árgangur 1916-1917, 42. Tölublað

Uppþot allmikið gerði maður nokkur hér í bænum, nóttina sem Sterling lá hér. Er sagt að hann hafi brotist inn í eitt veglegasta kvennabúr kaupstaðarins og rekið þar út eitthvað af sauðum en sest að sjálfur, en þá brá svo við að allar meyjarnar flýðu húsið. Fór náungi þessi þá út og gerðist all mikilvirkur, t. d. rak hníf í kinnina á einum, flumblaði hendina á öðrum með flöskubroti, beit í fingur á þeim þriðja og ýmislegt þessu líkt. Var hann loks handsamaður af hreppstjóranum og nokkrum vöskum drengjum — lögreglustjórinn var ekki heima — og fluttur í steininn.

En er þangað kom tók ekki betra við því allir klefarnir voru fullir, varð því að gefa upp sakir bæði kjöttunnum og smjördunkum svo hægt væri að hola þessum manni niður.

— Daginn eftir kom lögreglustjórinn heim, og mun hann þá hafa tekið manninn til bæna, að minsta kosti er búið að sleppa honum nú, en sagt er að aumingja maðurinn hafi þar orðið að þola harðan dóm fyrir framferði sitt, því fyrir utan allar áminningar hafi hann orðið að borga 25 kr. sekt.
-----------------------------------------------------------------------

Fram - 11. september 1917

1. árgangur 1916-1917, 43. Tölublað

Hjalti Jónsson skipstjóri úr Reykjavík, sem er hér fyrir fiskiveiðafélagið »ísland«, hefir gefið öllum stúlkunum sem ráðnar voru hjá félaginu við síldarverkun, 50 kr. í peningum hverri, en þær eru um 60. Þetta mun hann hafa gert til þess að bæta þeim upp atvinnuna í sumar, og er það slíkur höfðingsskapur, að ekki verður með orðum þakkað.

— Skyldu fleiri koma á eftir jafn örlátir og höfðinglega hugsandi?

Skólanefndin hefir nýlega samþykt fyrirkomulag á barnaskólanum hér í vetur.

Á kenslan að fara fram í 3 deildum en allar í einni stofu og kenslan að fara fram 9 tíma á dag þannig, að miðdeild verði kent frá 9 til 12, yngstu deild 12 — 2 og elstudeild frá 3 til 7. — Fastakennarar verða 3 en aukakennarar eða tímakennarar engir.
-----------------------------------------------------------------------

Fram - 18. september 1917

1. árgangur 1916-1917, 44. tölublað

Páll Einarsson sýslumaður er staddur hér í bænum þessa daga. Kom hann hingað til að halda sjóréttarpróf útaf því að »Akureyrin« fór upp á Helluna fyrir nokkrum dögum.
-------------------

Þakkarorð. Hérmeð vottum við þeim hjónum Guðbjörgu Þórðardóttur og Guðmundi Björnssyni á Siglufirði, okkar innilegasta þakklæti fyrir þá rausnarlegu hjálp er þau sýndu okkur, þeim alveg óþektum, með því að taka til fósturst nýfæddu stúlkuna okkar

Siglufirði 17. sept 1917. Marsibil Baldvinsdóttir. Jóhann Jóhannsson.
-----------------------------------------------------------------------

Fram - 22. september 1917

1. árgangur 1916-1917, 45. tölublað

Bæjarréttindamálið á alþingi. Þann 3. september skilaði alsherjarnefndin álit sínu um frumvarp til laga um bæjarstjórn á Siglufirði, og er það á þessa leið: »Nefndin telur sanngirni mæla með því að Siglufjörður fái kaupstaðarréttindi, en sér eigi fært að mæla með framgangi frumvarpsins á þessu þingi sakir ónógs undirbúnings á málinu.« Framsögumaður var Pétur Ottesen. Þegar frumv. var tekið til 2. umræðu, tóku flutningsmennirnir það aftur, vildu það heldur en láta málið falla við atkvæðagreiðslu.
---------------------------

Sjálfblekingur tapaðist hér á götunum 31. f. m.

Finnandi er vinsamlega beðin að skila honum gegn fundarlaunum til

Óskars Halldórssonar.
------------------------------------------------------------------------

Fram - 25. september 1917

1. árgangur 1916-1917, 46. tölublað

Fyrirspurnir.

Eftirfylgjandi fyrirspurnum leyfi eg mér að beina til lækna vorra.

 • 1. Er það ósaknæmt, svo eigi verði átalið frá heilbrigðislegu sjónarmiði ef »boxin« (talklefarnir) á talsímastöðvum landsins eru eigi gerð hrein yfir lengri tíma svo loftið í þeim verður þrungið líkt og þá verst er í hásetarúmum skipa, — auk þess sem það er alt annað en fýsilegt að núa sér við óhreina veggi?
 • 2. Stafar eigi sýkingarhætta, og hún töluvert alvarleg frá talfærinu, sé það ekki iðulega hreinsað upp úr sóttvarnarefnum, eða að minsta kosti þurkað upp. Er ekkert við það að athuga þótt talpípan sé löðrandi í ryki, tóbaki og öðrum óhreinindum, og lögur sem myndast hefir af andgufu manna og hóstaýringi renni til í skálinni.? Gestur.

------------------------------------------------------------------------

Fram - 6. október 1917

1. árgangur 1916-1917, 48. tölublað

Stórhríðarhvell gerði fyrrihluta vikunnar með sjógang miklum og frosti. Hlutust þar af ýmsar skemdir bæði hér og annarsstaðar, því menn munu yfirleytt hafa verið illa viðbúnir vetrinum svo snemma, og þessvegna meiri skemdir og slys orðið en ella. Bryggja Lúðvíks Sigurjónssonar hér norðan á eyrinni tók upp alt að miðju en efnið náðist að miklu leyti. Mun eigandinn þar hafa orðið fyrir talsverðu tapi, þótt minna yrði en áhorfðisi.

— Aftur á móti stóðu bryggjur þeirra h. f. Bræðings og S. Goos í Hvanneyrarkróknum, enda eru þær rammlega gerðar og mun svo til ætlað af eigendanna hálfu, að þær standist öll fjörbrot Ægisdætra hversu mikil sem þau verða. Uppfylling hjá h. f. Bræðingur, skemdist nokkuð, brotnaði -syðra hornið af múrvegg þeim er bygður var í vor. 8 kindur flæddi út hér út með Hvanneyrarströndinni og ráku dauðar á land utan á eyrinni. »Brödrene« strandaði yfir í Skútutjöru og er kominn þar nærri því á þurt land. Litlar líkur til að hann náist út aftur.

»Kristíana« hákarlaskip sam. ísl. verslaria, rak inn á leiru en hefir náðst út aftur lítið skemd. »Grótta« vélskip sem Ásgeirs Péturuðsson á, lá við Tjörnesnámuna, en losnaði þaðan og strandaði á svonefndri Lónkotsmöl skamt norðan við Hofsós. Sagt er að bæði vél og segl skipsins hafi verið í miklu ólagi, og mennirnir því orðið að láta það hrekjast fyrir sjó og vindi. í Ólafsfirði er sagt að 4 mótorbátar hafi farist, annaðhvort sokkið út á höfninni eða rekið á land og brotnað. Hvort þeir hafa alveg eyðilagst eða ekki er oss ókunnugt um.
------------------------------------------------------------------------

Fram - 13. október 1917

1. árgangur 1916-1917, 49. tölublað

Málaferli. Hafnarbændur hafa stefnt Hvalnefndinni »in solidum« fyrir sáttanefnd Hvanneyrarhrepps, fyrir það að hún hefir neitað að greiða þeim þriðjung verðs af 66 háhyrningum er þeir telja að unnir hafi verið á þeirra lóð.
-----------------------------------------------------------------------

Fram - 20. október 1917

1. árgangur 1916-1917, 50. tölublað,

Ásgeir Pétursson á um 10 þús. tunnur á síldargeymslulóð sinni hér, er hann nú að láta byggja utanum þær bráðabyrgða skýli til varnar gegn úrkomu vetrarins.
-----------------------------------------------------------------------

Fram - 27. október 1917

1. árgangur 1916-1917, 51. tölublað

Hjónabönd. Nýlega hafa verið gefin saman í hjónaband

 • Sólveg Þorkelsdóttir og Benóní Benónísson, -
 • Þóra Þorkelsdóttir og Helgi Ásgrímsson, -
 • Sólveig Björnsdóttir og Jóhann Sigurgeirsson.
  ----------------

Skilsemi.

Í fyrra vetur í desembermánuði kom mótorbátur frá Akureyri, sem varð fyrir því óhappi, að missa útbyrðis nokkuð af flutning þeim er á þilfari var. Meðal annars, er þar fór í sjóinn var poki sem eg átti, var í honum um 30 pund af tólg, og ein útidyra skrá. Pokinn var merktur mér fullu nafni. Eg gat ekki ímyndað mér annað, en poki þessi væri mér algjörlega tapaður og fékkst ekki mikið um, slíkt getur altaf komið fyrir; en nokkru eftir nýár fæ eg bréf frá Arna bónda Guðmundssyni í Vík á Skaga, um að hjá honum hafi rekið poka með tólg í, sem sé merktur mínu nafni, og sé því að líkindum mín eign, sé hann geymdur hjá sér, og verði það þar til eg vitji hans, eða geri aðrar ráðstafanir um hann.

Eg skrifaði manni þessum aftur, sem mér er að öllu ókunnugur, og bað hann, þar sem eg myndi ekki sjálfur verða með neitt skip þetta ár, og ætti því ekki leið þar vestur eftir, að reyna að koma pokanum til mín, annað hvort með því að koma honum til Sauðárkróks, og þaðan með ferð, eða á einhvern annan hátt.

Leið svo tíminn, þar til í sumar að eg eitt sinn fæ boð frá skipstjóranum á s.s. Maí um að eg eigi poka hjá honum, er þar þá tólgarpokinn kominn, með öllu innihaldi ósnertu, hafði finnandinn gert sér ferð með hann út í skipið, til þess að geta komið honum til mín. Enginn reikningur eða skilaboð fylgdu með um borgun fyrir fyrirhöfn.

Eg get ekki annað en dáðst að skilvísi þessa manns, er óvíst að margir hefðu gert sér far um að leita uppi eiganda að reka, er svo langt var aðkominn og flestir myndu hafa að minsta kosti kosið sér ómakslaun fyrir. Eg skrifa þessar línur til þess, að votta bónda þessum þakklæti mitt fyrir skilsemi hans og fyrirhöfn alla, og til þess, að menn taki hann sér til fyrirmyndar undir líkum kringumstæðum.

Siglufirði 20. okt. 1917. Jón Jóhannesson skipstjóri.
-------------------

Á flestu má eitthvað græða. Nú fyrir stuttu fékk Hvanneyrarhreppur, eða öllu heldur Siglufjörður 25 tonn af kolum, góðum enskum kolum, og þó þetta væri lítill skamtur í mörg eldstæði, mun þó brúnin hafa hækkað á mörgum þeim, sem kviðu fyrir vetrarkuldanum. Eftir töluvert mikil umsvif var afráðið annaðhvort af hreppsnefndinni eða landsstjórninni — að selja kol þessi með mismunandi verði, ekki af því að kolin væru mismunandi góð, heldur af hinu, að mennirnir væru mismunandi efnum búnir til þess að kaupa þau og borga. Þetta var falllega hugsað.

Ég, karlinn, einyrki — með 5 börn á pallinum, taldi "mér víst að fá kolin fyrir 135 kr. tonnið eða máske bara á 100 kr. og brýrnar flugu uppí hársrætur, og er það þó sjaldgæft. En sú dýrð stóð ekki lengi; eg lét brýr síga, þegar eg sá að mér var ætlað að greiða 170 kr. fyrir tonnið, sama verð og efnuðustu menn þessa þorps.

En bíddu við. Þarna er eg þá kominn í tölu bestu og efnuðustu manna þorpsins, það er þó dálítil bót í máli. En ef eg á að segja alveg satt, þá hefði eg heldur kosið að fá þessi kol nokkrum krónum ódýrari og eiga heldur auraráð til.annara lífsnauðsynja, heldur en vaxa í augum almennings, nei ekki alimennings, vaxa í augum hrepps nefndarinnar, því fyrir þann vegsauka, vil eg lítið gefa. Mér leikur líka grunur á að þessi upphefð vari ekki lengi, líklega ekki lengur en á meðan eg er að kaupa og borga kolin.

Flóvent Jóhannsson.
-------------------

Tíeyringa kaupir verzlun Friðbjörns Níelssonar.
---------------------------------------------------------------------------

Fram - 3. nóvember 1917

1. árgangur 1916-1917, 52. tölublað

Kvenfélag.

Svo er að sjá, sem dálítil breyting sé að komast á hugsunarhátt og framkomu manna hér í Siglufirði. Bendir margt til þess, skal það ekki hér upp talið nú, vil eg aðeins láta ánægju mína í ljósi yfir því að svo er. Með því skal þó ekki kveðinn neinn harður dómur yfir því sem á undan er gengið. Það er að líkindum ástæðulaust; en allir hugsandi menn, sem framfarir elska, fagna yfir öllum þeim breytingum, sem til bóta eru.

Það er eins og menn séu að vakna til meðvitundar um sitt eigið gildi, og finni til þess að þeir hafa ástæður til að nota krafta sína, sem þeir áður hafa ef til vill ekki vitað hve miklir voru, meðan þeir ekki voru reyndir. Þetta er þó í byrjun enn, en vonandi má búast við þroskun og henni mikilli, það þarf líka svo að vera, hér sem annarstaðar þarf að ryðja skóginn, svo nýr gróður geti vaxið upp, meina eg með því úreltan hugsunarhátt og margskonar fyrirkomulag.

Hið síðasta er, að kvenfélag var stofnað hér síðastliðinn miðvikudag. Hafði áður farið fram nokkur undirbúningur til þess, og var svo boð- að til fundar. Stofnendur félagsins voru um 40, og von á fleiri meðlimum innan skams. Á fundinum var kosin nefnd til þess að semja frumvörp til laga fyrir félagið, er leggja skal fyrir næsta fund. Í nefnd þessa voru kosnar frúrnar:

 • Guðrún Björnsdóttir,
 • Indíana Tynæs,
 • Petrína Sigurðardóttir,
 • Björg Jónsdóttir, og ungfrú
 • Sigríður H. Jónsdóttir.

Tilgangur félagsins mun vera líkur og hjá öðrum kvenfélögum; aðhlynning að fátæklingum aðalatriðið. Sá tilgangur er góður, og virðingarverður, en þó ekki ástæða til þess að binda sig við hann eingöngu. Jafnhliða honum ætti félag þetta að láta til sín taka um ýms málefni er varða kvenþjóðina og jafnvel eins, þó þau snerti bæði kyn.

Það er alkunnugt, að kvenfólkið hefir meiri þrautsegju til að bera en karlmenn, þegar því er full alvara, nú hefir það nýlega fengið rýmkað starfsvið sitt, og ætti ekki að láta hjá líða að nota sér það. Þessi félagsskapur er alveg nýr hér, og fátt af því kvenfólki, sem í félag þetta hefir gengið, verið með í samskonar félagi áður.

Samt sem áður má ganga að því vísu, að nógir kraftar séu hér til, og hins besta að vænta í framtíðinni. Þær konur, sem forgöngu hafa átt að þessari félagsstofnun eiga heiður skilið, og er óskandi að allar yngri og eldri, sem ástæður hafa til, fylli hópinn. Séu nokkrar, sem eru mótfallnar fyrir alvöru, ættu þær að minsta kosti að láta þennan fé- lagsskap í friði, það er ætíð réttara að hlúa að ungum efnilegum gróðri, en leitast við að uppræta hann.

H. J.
----------------------------

Auglýsing:

Mikið skelfing býr þú til gott kaffi elskan mín! Ó það er nú ekki svo vandasamt blessuð vertu, þegar maður hefir þennan indæla „Heklu" kaffibætir, sem fæst í verzlun Sig. Sigurðssonar.
-----------------------------------------------------------------------

Fram - 10. nóvember 1917

1. árgangur 1916-1917, 53. tölublað

Fyrir lokuðum dyrum.

Í fyrrahaust var farið fram á það við hreppsnefndina hér, að hún héldi fundi sína, — að minsta kosti eitthvað af þeim, — fyrir opnum dyrum, með öðrum orðum, að atkvæðisbærum mönnum, gæfist kostur á að hlýða á ræður og tillögur nefndarmanna. Hreppsnefndin eða meiri hluti hennar neitaði þessu, og hafði »lög að mæla,« er hún kvaðst ekki skyldug til þess.

Við þetta urðu menn að sætta sig þó þeim þætti slæmt, því fékst ekki breytt. Það verður ekki í fljótu bragði séð, hverjar ástæður hreppsnefndarmenn hafa, til þess að vilja halda leyndu fyrir hreppsbúum í lengstu lög því sem gerist á hreppsnefndarfundum, allar ákvarðanir sem komast í framkvæmd verða þó opinberar að lokum, og enginn æðri réttur að áfrýa til, þó hreppsbúar séu ekki alskostar ánægðir. Nú á síðustu tímum hefir hreppsnefnd haft meira að gera, og um fleiri mál að fjalla en að undanförnu, og það hefir frést að allir hafi ekki verið þar sammála um hin ýmsu atriði, og er það blátt áfram eðlilegt.

En óneitanlega hefði það verið leiðbeining og stuðningur fyrir kjósendur við næstu hreppsnefndar kosningar, ef þeir hefðu fengið að heyra á ræður og tillögur nefndarmanna, þá hefðu þeir fengið að vita hverjir eru hollráðastir og bera mesta umhyggju fyrir sveitarfélaginu, þá menn er svo sjálfsagt að kjósa framvegis, þeir sem miður reynast fengju að missa sig. Eins og málið er vaxið nú, veit enginn, nema nefndin sjálf, hverjir eru frumkvöðlar að því sem gert er til bóta, og hverjir eru orsök í því sem aflaga fer, þegar svoleiðis kemur fyrir. Að vísu eiga að heita starfandi undirnefndir, en þeirra gætir lítið, og þær eru allar háðar yfirráðum hreppsnefndar, sem stundum annaðhvort gerir ráðstafanir sínar án þess að biðja um álit undirnefndanna, eða gengur fram hjá tillögum þeirra.

Ein af þeim mörgu umbótum sem hér hefðu orðið við bæjarréttindin, var sú, að bæjarstjórnarfundir hefðu orðið haldnir fyrir opnum dyrum. Fyr en það mál fær fram að ganga þarf líkast til ekki að búast við breytingu á þessu atriði, þangað til mun ríkja gamall vani, í skjóli laganna, en sæi hreppsnefndin sér fært að »opnadyrnar« fyrir almenningi, þá myndi færri hnútum að henni kastað en gjört er bæði leynt og ljóst, þá lentu aðfinningar á einstökum mönnum, eða þeim, sem ættu skilið að fundið væri að við.

Hefðu fundirnir verið opnir, væru mönnum ljós ýms atriði, sem nú eru á huldu, og jafnvel ekki sumir hreppsnefndarmennirnir vita um, en þau hin sömu eru daglegt umræðu efni manna, eins og t. d. afhending á steinolíu, og hækkun vatnsskatts. Um hið síðara atriði má álykta að það stafi af virðingarhækkun húsa, en hvort það er réttmætt, að hækka vatnsskattinn þó húsin hækki í verði við dýrtíðina, virðast menn vera í efa um.

Ekki svo að skilja, að bæði eg og aðrir eru vatninu svo fegnir, að þeir greiða fúslega þessa hækkun, en spurningin er hvort hreppsnefndin hefir þar eins mikil lög að mæla, eins og þegar hún neitaði, að leyfa hreppsbúum að hlýða á ræður hreppsnefndarmanna. Þeir, sem vita rétt um þetta atriði, ættu að upplýsa mig og aðra fáfróða, þar mætti líka koma fróðleikur um, hvort það kostar 7 krónur, að vigta steinolíu úr einu fati.

H. J.
--------------------------------

Rafljósin.

Fyrir skömmu vildi svo til að eg var á gangi um bæinn að næturlagi klukkan um eitt. Rétt áður hafði verið fest upp auglýsing um að láta ekki rafljósin lifa að óþörfu, gekk eg því að gamni mínu um flestar götu bæjarins til þess að sjá hvernig þessu boði væri hlýtt. Sú breyting var á frá því í fyrra, að í öllum sölubúðum voru ljósin slökt, og þótti mér þar meiga líta framfarir, aftur á móti sá eg ljós í sumum forstofum, skrifstofum, daglegu stofum, eldhúsum og víða þar sem fullorðið fólk svaf, sem ekki virðist þó brýn nauðsyn. Í einu húsi stóru var ljós í hverjum glugga nema einum.

Að öllu samanlögðu fanst mér lítið farið eftir þ