Glefsur frá blaðinu FRAM 1918

Glefsur frá blaðinu FRAM 1918

 2. árgangur 1918, 1. tölublað

Skarlatssótt hefir komið upp í húsi Sæmundar Jónssonar hér í bænum, og hefir þegar verið sett bann á húsið.
----------------------------------------------------------------------------

Fram - 12. janúar 1918

2. árgangur 1918, 2. tölublað

Reikningar hreppssjóðs, rafleiðslu og vatnsleiðslu liggja almenningi til sýnis í sölubúð sam. ísl. verslana, ásamt athugasemdum endurskoðenda og svörum oddvita.

6 Hnýsur er sagt að Nesmenn hafi drepið í gær, komu þær upp í vök í ísnum rétt innan við Siglunesið, og voru drepnar þar. Var ísinn þá alveg samanfrosinn um allan fjörðinn, nema þessi eina vök, en hún mun einnig vera frosin nú.

»Örkin« vélbátur héðan, var á leið frá Dalvík er ísinn var að reka hér inn. Þegar báturinn var kominn meðfram Siglunesi norðan verðu komst hann ekki lengra. Var komið fram til hans á árabát af Siglunesi og reynt að koma vélbátnum svo nærri landi sem unt var, hann síðan festur við stóran hafísjaka og skilinn eftir. Þeir sem á bátnum voru komu svo hingað gangandi. Í gær var bátsins vitjað síðast og var hann kyr, frosinn fastur á allar hliðar.

Dalamenn komu í kaupstaðinn í gær, gangandi á samanfrostnum hafís alla leið fyrir Landsendann og inn fjörðinn.
-------------------

Hafísinn.

Þá er hafísinn kominn, þessi voða gestur, sem allir óttast, allir kvíða fyrir, en þó fáir eru viðbúnir. Síðastliðinn sunnudag byrjaði hann að reka hér inn, var það að eins hroði. Frost var ákaflega mikið um daginn, um 23 stig á celcius, fraus því pollurinn strax útundir eyrar odda. Á miðvikudagskvöld og fimtudagsnótt fylti fjörðinn alveg, svo hvergi sást auður blettur. Þessa daga hefir frostið verið uppundir og um 20 stig, frýs því ísinn saman á auga bragði og myndar eina samfasta heild. Útlitið er hið versta. Eftir því sem frést hefir eru hafþök hér útifyrir og vesturundan, austan af Skjálfanda eða lengra austan að hefir rekki frést sökum símslita.

Má búast við að ísinn liggi nokkuð lengi, getur þá farið svo, að sverfi að ýmsum, sem ekki hafa verið við þessum gesti búnir. Tilfinnanlegast mun eldiviðarleysið verða, en þó mun suma einnig skorta hey, og það jafnvel efnaða og forsjála menn, er skjöplast hefir í þetta skifti. Getur svo farið stundum. Yfirleitt eru íslendingar léttúðarfullir, og láta altof mjög hverjum degi nægja sína þjáning, gildir þetta jafnt um æðri sem lægri, þó auðvitað séu undantekningar. Bústu við illu, því hið góða skaðar ekki, segir máltækið, og það er rétt.

Það getur stundum verið gott að vera bjartsýnn, og búast við hinu besta, en reynslan hefir sýnt, að það er ekki ætíð sem affarabest. Hefði hygnisamtök og framkvæmdir haldist í hendur, þurfti enginn skortur að vera á neinu hér í Siglufirði, þó ísinn lægi til vors, nema ef. vera skyldi á einstöku matartegundum, svo sem garðmeti, en því miður mun verða önnur niðurstaða. Eg hefi áður vikið að eldsneytis og fóðurskorti, en matvælabirgðir munu heldur ekki vera ofmiklar, ef samgöngur teppast lengi.

Það hefir breytt á því að einstöku heimili séu bjargarlítil ef ekki bjargarsnauð, og er það nokkuð snemma á tíma. Ekki má búast við því að kaupmenn láni í óvissu það lítið þeir hafa, og þá liggur ekki annað fyrir fólki en hreppurinn, þessi hjálparstofnun, er sviftir þá réttindum sínum er hún hjálpar, ef hún þá getur nokkuð hjálpað, ef hún í tíma hefir gert réttar áætlanir um hvað ske kynni að hún þyrfti að gera.

Að því er snertir hjálp af hreppsins hálfu nú, horfir hún nokkuð öðruvísi við en áður hafir verið, þar sem hreppum veitist heimild til að taka lán úr landssjóði til hjálpar bágstöddum og er það fé rentu frítt þar til tveim árum eftir lok heimsófriðarins, er svo að skilja á lögum þeim er lán þetta heimila, að við útbýtingu til mann skoðist það ekki sem sveitarstyrkur, en ekki meiga hrepparnir veita mönnum af fé þessu, nema í ítrustu nauðsyn.

En hvernig sem skilyrðin eru um hjálp er það skylda allra þeirra er hennar þurfa að leita, að gera það í tíma stofna ekki heilsu og lífi í voða, og hinna er hjálpina eiga að veita, að inna hana af hendi strax og hennar er leitað. En ber engum skylda til að líta eftir því að fólk líði ekki neyð? Þeir sem hafa á hendi stjórn héraðsmála vita sjálfsagt betur en eg um það hvað lands lögin bjóða í þeim efnum, en mannúðin á sín eigin lög.

H. J.
---------------------------------

Barnaskemtun.

Kvenfélagið »Von« hélt skemtun fyrir börn seinni part daganna 7. og 8. þ. m. Fyrra kvöldið var skemtunin haldin fyrir börn á aldrinum frá 3ja til 8 ára, síðara kvöldið frá 8 til 14 ára. Yngri börnin voru um 70 að tölu, en hin eldri hátt á annað hundrað. Börnunum var skemt með jólatré og ýmsum leikjum við þeirra hæfi, ennfremur söng Chr. Möller nokkrar gamanvísur og lék frk.

Emilía Bjarnadóttur undir á orgel. Það má fullyrða að börnin skemtu sér ágætlega, var auðséð á öllu er fram fór, að konur þær er veittu skemtun þessari forstöðu, gerðu sér alt far um að skemtunin færi sem best fram, og að börnin nytu þessara gleðistunda sem best. Börnunum og mæðrum þeim er með þeim voru var veitt súkkulaði og kökur. Það er sagt að lítið þurfi til að gleðja börnin, og er það satt, en að þessu sinni mun glaðningin ekki hafa verið mjög ódýr.

Er það mikið sem hið nýstofnaða kvenfélag hefir látið að mörkum við börn og fátæklinga eftir svo stuttan starfstíma. Að vísu hefir það notið góðrar hjálpar frá utanfélagsmönnum, en þó mun hinn góði vilji vera aðal starfandi aflið. Haldi kvenfélagið »Von« áfram starfi sínu í sama anda og með jafn miklum dugnaði á komandi árum mun það verða vinsælt, þess er víða minst með þakklæti nú, sérstaklega munu börnin og foreldrar þeirra bera hlýan hug til þess, og þakka því kærlega fyrir skemtunina.

H.
----------------------------------

Auglýsing:

Sparið eldsneytið ! Brennið ekki kaffi, kaupið heldur brent kaffi í verzlun Jens Eyjólfssonar.
-------------------------------------------------------------------------

Fram - 19. janúar 1918

2. árgangur 1918, 3. Tölublað

Skólanefnd Siglufjarðar hefir ákveðið að hætta barnaskólanum nú þegar, og hefir afhent hreppsnefnd það sem eftir var af kolum skólans til hjálpar eldiviðarlausu fólki. Ennfremur hefir skólanefndin sagt öllum kennurum barnaskólans upp starfi þeirra, frá lokum þessa skólaárs að reikna.

Tíðin. Stillingar hafa verið alla vikuna, en frost afskaplegt. Hæðst mun það hafa verið 29 gráður, en oftast um og yfir 20. Stundum hefír það þó fallið niður í 10 gráður, en hlaupið jafnharðan upp aftur.
------------------------------

Hafísinn er jafnmikill og áður; allur fjörðurinn fullur af samanfrostnum hafís, og svo langt fram til hafs, sem sést hefir.
------------------------------

Skólamál

Eins og kunnugt er orðið, hefir skólanefnd ákveðið að skólanum skuli algerlega hætt, en kolunum, sem til hans voru ætluð, útbýtt meðal þeirra, sem verst eru staddir með eldsneyti. Flestum mun ljóst hvað þetta er mikið neyðarúrræði, sérstaklega ef svo fer, sem skólanefnd gerir nú fastlega ráð fyrir, að skólanum muni ekki heldur verða hægt að halda uppi næsta vetur.

— Ekki er gott að segja um, hver áhrif þetta kann að hafa á framtíð barnanna, en gera má ráð fyrir þeim talsverðum, eins og hér stendur á, að á allflestum heimilum er hvorki tími né tækifæri til að veita börnunum neina verulega fræðslu. Foreldrar sem talað hafa við mig um þetta, hafa líka allir sagt hér um bil það sama: »Þetta hefir líklega mátt til, en ekki vitum við hver ráð við eigum að hafa með börnin okkar.«

— Okkur, kennara skólans, langar mjög til að bæta úr þessu, en sjáum því miður — ekkert gott ráð. — Þó hefir okkur komið saman um, að bjóðast til að koma stöðugt á heimili skólabarnanna, það sem eftir er vetrarins, til að líta eftir lestri þeirra og leiðbeina þeim.— Foreldrar og barnaumráðendur, sem þetta vilja þiggja, eru beðnir að gera svo vel að láta mig vita eigi síðar en 25. þ. m.

Guðrún Björnsdóttir.
-----------------------------

Til kaupenda. (Fram)

Vegna pappírsskorts, sem aðallega stafar af samgönguleysi því sem nú er, kemur blaðið fyrst um sinn aðeins út annan hvorn laugardag, mun þetta verða bætt upp aftur þegar samgöngur liðkast og pappír fæst, þannig að ekki færri en 52 blöð komi út á árinu. Næsta blað kemur því ekki út fyr en 2. Febrúar.
---------------------------------------------------------------------------------

Fram - 2. febrúar 1918

2. árgangur 1918, 4. tölublað

Ísinn.

Nú hefir Siglufjörður verið lagður og samfrosta við ísinn á hafinu um þriggja vikna tíma. Hafa verið farnar margar ferðir á ísnum frá Dölum og hingað, sömuleiðis frá Dölum og til Haganesvíkur. Í fljótu bragði mætti álíta svo sem ís þessi lægi hreyfingarlaus, og myndaði eina breiðu, sem ekkert gerði af sér annað en hindra skipaferðir og orsaka kulda.

En svo er als eigi; hreyfing íssins, eða lyfting hans með flóði hefir orsakað stórtjón á bryggjum og platningum. Þetta hefir þannig orðið, að stórir íshnúðar hafa myndast utan um bryggju og platningarstaura, hefir sjórinn frosið utan um þá um leið og hann hefir fallið. Þegar svo flæddi, ítti ísinn að neðan undir hnúðana utan á staurunum hófst svo alt á loft. Flestar bryggjur hér hafa meira og minna lyfst upp, og er ekki í fljótu bragði hægt að segja hve mikill sá skaði er, einn af þeim mönnum, sem best vit hefir á þeim hlutum hefir áætlað hann 50—60 þúsund krónur en annar athugull maður, hefir álitið að nær myndi fara 100 þús. kr.

Er enn þá heldur ekki fyrirséð hve illa bryggjurnar geta farið, bæði er mögulegt að þær lyptist enn, og svo geta þær brotnað þegar ísinn leysir og rek kemur í hann. Um hálfsmánaðar tíma var frostið mest, var þá daglega 20 — 30 stig og þar yfir. Mest var það, sem menn urðu varir við, 42 stig. Nú um nokkurn tíma hafa frostin verið vægari, og í gær var 5 stiga hiti.
-----------------------------

Hreppsnefndin hefir haft með höndum ýmsar dýrtíðarráðstafanir undanfarið. Hefir hún fengið loforð landsverslunarinnar fyrir breskum kolum, þegar hægt verður að flytja þau, og út á það loforð lánaði O. Tynæs hreppnum 25 smálestir af kolum.

Fór því næst fram nákvæm skoðun á birgðum allra kauptúnsbúa af: kolum, mó, spýtum, olíu, rúgmjöli, hveiti, feitmeti, kjöti og fiski o. fl. og kolum og öðrum vörubirgðum hreppsins úthlutað eftir þeim skoðunarskýrslum. Þannig fá t. d. þeir einir kol, er lítil eða eingin áttu fyrir, og því meir sem minna áttu.

Rifrildi og það töluvert, hefir verið háð í skipsskrokkunum inni á leirunni. Hefir ísinn gert það verk drjúgum auðveldara. Ávexti þess rifrildis hefir svo verið ekið í land og deilt út meðal bæjarbúa. — En misjafnlega er látið af þeim eldsmat og útlátum hans.

Heyleysi tilfinnanlegt er orðið hér i bænum, bæði fyrir kýr og kindur. Áttu margir lofað hey inní Fljótum, en ísinn bannar flutning á því. Hafa sumir látið bera hey á bakinu innanað, þó erfitt sé, en sumir hafa þegar drepið kindur sínar.
----------------------------------------------------------------------

Fram - 8. mars 1918

2. árgangur 1918, 7. tölublað

Kolaúthlutunin.

Eg var einn af þeim mörgm er komu á miðsvetrarfundinn og bjóst við að heyra þar margt fróðlegt. Eg bjóst við að heyra hreppsnefnd gera þar grein fyrir verzlun sinni eða úthlutun. Eins bjóst eg við því að gerðar mundu fyrirspurnir til hreppsnefndar og þeim svarað. — En þetta varð ekki. — Af hverju veit eg ekki, en hugsa þó helst að mönnum hafi ekki gefist tími til þess, því þegar búið var að lesa það upp á þessum fundi, sem venjulega er upp lesið á slíkum fundum, spurði oddviti hvort nokkur vildi taka til máls.

Stóð þá Guðm. Bíldahl upp og vakti máls á hvort hreppsnefnd ætti að annast svarðartekju í stærri stíl á næsta vori. Oddviti svaraði snúðugt og sagði: »Eg er annars búinn að segja fundi slitið.« Eg sem þetta rita, hafði sérstaklega vonast til, að heyra minst á kolaúthlutun hreppsnefndarinnar, því mér, og eg veit líka mörgum öðrum þykir, hún mjög athugaverð og skal skýra dálítið nánar frá því.

Á síðastliðnu hausti var listi látinn ganga um kauptúnið, og gátu þeir, sem skrifuðu sig á hann fengið keypt ensk kol (frá Tynæs) fyrir kr. 250,00 smálestina. Á þennn lista skrifuðu sig aðallega kaupmenn og betur stæðari kauptúnsbúar, en menn miður efnum búnir og fátæklingar treystu sér ekki að kaupa eldsneyti með þessu verði. Flestir vonuðu að þeir næðu sverði sínum heim og treystu á hann.

Nokkru síðar komu hingað hin svokölluðu »dýrtíðarkol.« Kol þessi hefir mér skilist eiga að vera nokkurskonar dýrtíðaruppbót. Þau átti að selja fyrir kr. 125 smálestina, þó þannig að misjafnt verð væri á þeim, en meðalverð þetta. Flokka átti menn niður og þeir, sem fátækastir voru skyldu fá kolin ódýrust o. s. frv. Hér á Siglufirði voru þrír flokkar. 1. fl. fékk kolin fyrir 170 kr. 2. fl. fyrir 135 kr. og 3. f). fyrir 100 kr.

Í öðrum og þriðja flokki voru sárafáir, en þorri manna í fyrstfa flokki. Vegna þess að miklu fleiri voru í fyrsta flokki en í þriðja flokki varð meðalverðlangt fyrir ofan 125 kr. á smálest og hlýtur því ágóði á þessari kolaúthlutun að hafa orðið töluverður. Til þessarar hækkunar hafði víst hreppsnefnd enga heimild, en því síður hafði hún heimild til að verja ágóðanum til þess er hún gerði. Hreppsnefndin varði sem sé ágóðanum til þess að bæta þeim upp, sem keypt höfðu og borgað kolin frá Tynæs. Uppbótin er sögð að hafa verið frá 25—50 kr. á smálest.

Þessi uppbót finst mér mjög athugaverð og alveg óviðunandi", þar sem það er sannanlegt að fátækari menn hafa að nokkru leiti borgað þá uppbót er þeir efnaðri fengu. Þegar nú svo fór með svörð manna að honum varð ekki náð heim vegna ótíðar og hreppsnefnd hafði bannað þeim mönnum er svörð áttu í Leyningi, að rista torf til að þekja svörðinn, svo hann spiltist og rýrnaði að miklum mun, og til vandræða horfði með eldsneyti, voru fengin lánuð kol hjá einum útgerðarmanni hér gegn ábyrgð stjórnarráðs um að þan yrðu borguð í sömu mynt fyrir einhvern ákveðinn tíma í sumar.

Verð á þessum kolum er sagt að muni verða frá 300—360 kr. smál. Nú eru allir þeir, sem eru í eldsneytishraki, sem einkum er hinn fátækari hluti manna hér, neyddir til að kaupa samskonar kol og hinir efnaðri fengu fyrir 250 k.r mínus uppbótinni, sem er alt að kr. 50,00 (borgað að nokkru leiti úr þeirra eigin vasa,) fyrir þetta geysiháa verð 300 - 360 kr. srnál.

Tilgangur minn með grein þessari er að vita hvort það sem eg hefi sett hér fram verður hrakið af hreppsnefnd og ef það verður ekki, þá að hreppsnefnd hugsi sig næst dálítið betur um, áður en hún lætur fátæklinga borga svona lagað offur til hinna efnaðri. Áður en eg enda þessa grein vil eg minnast ofurlítið á bann hreppsnefndar gegn torfristu í Leyningi. Banni þessu var hlýtt af flestum, en, einn braut það áreiðanlega það var hreppsnefndarmaðurinn, herra verzlunarstjóri Jón Guðmundsson sem einnig er í Leyningsnefndinni.

Novibus.
--

Aths. Hreppsnefndinni er heimilt rúm í næsta blaði til að svara grein þessari.

Ritstj.
-----------------------------------------------------------------------------

Fram - 23. mars 1918

2. árgangur 1918, 8. Tölublað

Á glapstigum.

Það mætti segja um þá menn, sem viljandi eða óviljandi hröklast út af sínu eigin starfssviði og lenda inn á annara og taka þar að ráðsmenskast — öðrum til skapraunar og sjálfum sér til háðungar, — að þeir séu á glapstigum. Þetta mun þó sjaldan henda góða og rétthugsandi menn. Það er því sorglegra, að einmitt þetta skyldi henda hreppsnefndina okkar 9. þ. m . þegar hún hafði til umræðu greinina »Kolaúthlutunin« sem prentuð var í síðasta tbl. þessa blaðs, því greinilegar hefir enginn maður á glapstigum lent, en hreppsnefndin þar.

Oddviti lagði fram tillögu í málinu sem hann hafði haft með sér á fundinn, og mælti fast fram með að hún yrði samþykkt. Eftir allsvæsnar umræður hepnaðist oddvita að fá þrjá meðlimi samkundunnar til þess, ásamt sér, að samþykkja tillöguna, og var hún samdægurs send oss og þess krafist að hún væri birt í blaðinu. Vér eru í engum vafa um að hreppsnefndin hefir eingan rétt til að krefjast að slík yfirlýsing, sem sú er hún sendir oss, sé birt í blaðinu, þar eð hún inniheldur aðeins:

 • 1. afskifti af ritstjórn blaðsins sem henni kemur ekkert við,
 • 2. illyrt og alveg órökstudd stóryrði um greinina og greinarhöf., sem á engan hátt leiðrétta eða upplýsa sjálft málið, og
 • 3. tilkynning um málssókn, sem blaðinu auðvitað ber engin skylda að flytja — nema þá sem auglýsingu og þá fyrir borgun. En samt sem áður prentum vér hér bréf nefndarinnar orðrétt, og hljóðar það svo:

»Hreppsnefnd Hvanneyrarhrepps skorar hér með á ritstjórn blaðsins Fram, að taka eftirfylgjandi yfirlýsingu upp í 1. eða 2) tölubl. blaðsins, en hún var samþykkt á hreppsnefndarfundi í dag:

Hreppsnefndin lýsir megnri óánægju sinni yfir ritstjórn blaðsins Fram, sérstaklega þeim ritstjóranum, sem sæti á í nefndinni, að í síðasta blað skyldi vera tekin svæsin árásargrein á hreppsnefndina í heild sinni og nafngreinda meðlimi hennar, mestmegnis bygð á vanþekkingu, illgirni og ósannindum, og það athugasemdalaust af honum, sem þó var vorkunnarlaust að vita hið rétta.

Hreppsnefndin ákveður ennfremur að hefja málssókn gegn ritstjórn blaðsins út af greininni, sérstaklega að því er snertir kolaúthlutunina.

« Siglufirði 9. marz 1918.

Fyrir hönd hreppsnefndar. B. Þorsteinsson. oddviti.«

2) Vér biðjum hina heiðruðu hreppsnefnd að virða ekki á verri veg, þótt vjer birtum þessa yfirlýsingu í 8. tbl. blaðsins, þar eð 1. og 2. tbl. kemur ekki út fyr en væntanlega í janúar 1919.
-------------------------------------------------------------------------------

Fram - 6. apríl 1918

2. árgangur 1918, 10. tölublað

Kolaúthlutunargreinin

-- Í 9. tbl. af »Fram.« Þar sem mín er getið í grein þessari, er ekki sagt rétt frá. Fundarstjóri hafði sagt fundi slitið áður en eg bað um orðið. Fékk eg samt sem áður að láta skoðun mína í ljósi á svarðartekju fyrir kauptúnið á komandi vori. Sagðist oddviti vera því mótfallinn fyrir sitt leyti, að hreppsnefndin skifti sér nokkuð af svarðarupptekt, því hún myndi fá sömu þakkir fyrir það og aðrar gjörðir sínar. Hvað meðnefndarmenn sínir vildu gera í þessu vissi hann ekki, en annars hefði hann verið búinn að segja fundi slitið.

En það verð eg að játa, að mér þótti þessi miðsvetrarfundur endasleppur og snubbóttur, og átti eg ekki von á honum svo, þess vegna varð eg of seinn að koma fram með þetta svarðarmál. Þetta er þó sá eini fundur, sem almenningur getur látið skoðanir sínar opinberlega í ljósi á, að því er snertir hin ýmsu mál er hann varða, og hreppsnefnd hefir með höndum.

Dagskrá ætti að vera auglýst jafnframt fundarboðinu, svo menn geti hugsað málin, og vitað hvað fundi liði. Annars er það segin saga, að hreppsnefndir fá sjaldan mikið þakklæti fyrir starf sitt; eru margir dómar um það bæði á gatnamótum og í heimahúsum, fynst þá margt athugavert, og öðruvísi en það á að vera, er eg engin undantekning í því tilliti. Eg hefi oft átt tal um það sem mér hefir þótt athugavert við framkvæmdir hreppsnefndar hér, við tvo af nefndarmönnunum, þá Helga Hafliðason og Jón Guðmundsson, sem eg á einna mest tal við af þeim flokki.

Höfum við getað rætt málin án allra stóryrða, þótt meiningamunur hafi átt sér stað, sem líka hefir verið af ókunnugleika mínum á málunum, hefi eg oft fengið hjá þeim upplýsingar á ýmsu sem nægðu mér svo, að eg sá að eg hafði ekki á réttu að standa. En í kolauppbótarmálinu hefi eg ekki fengið viðunanlegt svar né upplýsingar. Þau mál er almenning varða, og nokkru skifta, álít eg að sé heppilegra að séu rædd og rifist um á almennum borgara fundi, heldur en í blaðinu »Fram.«

Þá er ónákvæmt sagt frá í áminstri grein, um torfristu í Leyningi, þar sem aðeins einn maður er nefndur í sambandi við hana. Það getur skilist svo, að hann hafi verið sá eini, sem hefir látið rista á svörð sinn, en því er ekki að heilsa, það voru fleiri sem ristu torf þar, þó stórtækastur væri aðalumsjónarmaðurinn Jón Jóhannesson, en hann borgaði sneplana! Þau mál sem eg ætlaði að hreyfa á miðsvetrarfundinum, býst eg við að geta komið fram með á almennum fundi sem að sjálfsögðu verður haldinn þegar oddviti kemur af sýslufundi.

Guðm. Bíldahl.
-----------------------------------

Þær upplýsingar í hreppsmálum sem hinn háttvirti greinarhöfundur oft hefir fengið hjá tveimum af hreppsnefndar mönnunum, duga ekki almenningi, og óvíst að þær yrðu öllum látnar í té, þó óskað væri eftir, og allar upplýsingar hefir hann ekki getað fengið samkvæmt greininni. Þegar nú hin ýmsu má! eru óskyr, og ekki hepnast að þau skýrist á fundum, þá er eðlilegt að þau séu rædd í blaðinu »Fram.«

Eitt er áreiðanlegt og víst, að hreppsmál eru engin launungarmál og þau þurfa að ræðast og meðferð þeirra að vítast ef þess er þörf, annað hvort á fundum eða þá í blöðum. Annars virðist ofanskrifuð grein lítið koma við greininni »Kolaúthlutunin,« sú grein fjallar mest um það sem ekki fór fram á fundinum, en hefði átt að vera til umræðu þar, samkvæmt þeirri skoðun sem haldið er fram í grein þeirri er hér birtist.

Ritstj.
-----------------------------

Innbrot.

Um morguninn 2. apr. varð Flóvent Jóhannsson, umsjónarmaður Ásgeirs kaupmanns Péturssonar, var við að brotist hafði verið inn í hús Ásgeirs, svokallað Lúðvíkshús, hér suður undir bökkunum. Hafði þar verið farið inn um glugga. Fyrir gluggunum voru hlerar að innanverðu, og þar fyrir innan var staflað tunnum.

Öllu þessu hafði þjófurinn rutt niður. Úr húsinu hafði verið tekið um 200 pd. af góðum flöttum saltfiski, keilurusl og tros hafði sá sem innbraust ekki kært sig um að hirða.

— Eitthvað hefir einnig heyrst um smáhnupl af trjávið í bænum en ekkert uppvíst orðið. Er þó vonandi að hreppstjórinn láti ekki sitt eftirliggja að komast fyrir hverjir eru valdir að þessu. Siglufjörður ætlar sér að verða stórbær, og verður það með tímanum, en óknytti, sem jafnan fylgja stórbæunum, er heppilegt að kæfa í fæðingunni.
-------------------------------------------------------------------------------

Fram - 13. apríl 1918

2. árgangur 1918, 11. tölublað

Bæjartíðindin.

Skilnaður Hvanneyrarhrepps við Eyjafjarðarsýslu samþyktur á sýslufundi með öllum atkvæðum.

Bæjarréttindamálið var tekið fyrir á sýslufundi 6. þ. m. Eftir að séra Bjarni Þorsteinsson hafði skýrt frá undirbúningi málsins hér heima og gefið þær upplýsingar er hann hafði fram að færa, lagði hann til að kosin yrði 5 manna nefnd í málið.

Tillaga sú var studd af sýslunefndarmanni Þóroddstaðahrepps, séra Helga Arnasyni. Sýslumaður hélt því næst langa ræðu um málið, og höfum vér heyrt um ýms atriði þeirrar ræðu, en hirðum eigi um að birta þau hér, þar sem þau bæði virðast nokkuð fyrir utan málið sjálft, og hafa nú enga þýðingu, þar sem málið er samþykt innan sýslunefndar. Eftir að sýslumaður hafði lokið ræðu sinni bauð hann orðið til nefndarmanna, en þar sem einginn vildi taka til máls, var gengið að því að kjósa í nefndina, og hlutu þessir kosningu:

Páll Einarsson sýslumaður. Bjarni Þorsteinsson. Jóhann Jóhannsson. Benedikt Guðjónsson. Stefán Bergsson. Nefndin kom fram með álit sitt í fyrradag, og urðu þau úrslit málslins, að það var samþykt með öllum atkvæðum. Vér höfum engar nánari fréttir fengið um umræður um málið, heldur ekki um fjárskifti milli hreppsins og sýslunnar. Menn treysta því, að þar verði samviskulega aðfarið á báðar hliðar. Nú er eftir að vita hvernig alþingi snýst í málinu, og hvort það verður nokkuð tekið fyrir á þessu þingi.

Eigi er því að neita, að það varpaði ljóma yfir 100 ára afmæli Siglufjarðar 20. maí, ef frumvarpið fengi samþykki á þessu þingi. Að málið fékk framgang á sýslufundi er gleðilegt, Þaðan væntu menn mótstöðu, og Þó samþykki sýslunefndar í svona málum sé ekki fast skilyrði fyrir samþykki alþingis, þá er altaf skemtilegra að samkomulag sé.
---------------------------------------------------------------------

Fram - 11. maí 1918

2. árgangur 1918, 16. tölublað,

Kolin í Spitsbergen.

Ole Tynæs hefir skýrt oss frá, að kolanáma sú í Spitsbergin, sem 4 kunningar hans í Álasundi eiga, hafi reynst fremur vel. Hafa verið losuð þar um 40 þús. smál. af kolum í vetur. Gufuskipið »Siglufjord« lagði á stað frá Álasundi 4 maí til þess að sækja hinn fyrsta kolafarm þangað norður.

Verð kolanna er ekki mjög hátt samanborið við kolaverð hér, eða 14 kr. pr. hektólíter, en í eina smál. fara sem næst 12 hektólítrar.
---------------------------------

Leikfimissal barnaskólans hefir hreppsnefndin leigt Jens Eyjólfssyni kaupmanni hér til Bíósýninga.

Er ráðgert að það taki til starfa strax í sumar.

(Ath. meira má lesa um BÍÓ hérna - sk)

»ForIand« norskt selveiðaskip, kom hingað í fyrrakvöld. Skipstjórinn, Hafseide, segir að frá Siglunesi séu ekki nema 15 mílur fram að samföstum ís. Flestir norsku selveiðararnir, segir hann að leggi ekki á stað fyr en 15. maí, og að engin von sé til þess að nokkurt norskt síldveiðiskip komi hingað í sumar. — Hingað kom skipið vegna vélarbylunar. Það er búið að fá um 200 seli.

Ný Síldarbræðsluverksmiðja. H.f. hinar sam. ísl. verslanir hafa fengið leyfi hreppsnefndarinnar hér til þess að byggja síldarbræðslu-verksmiðju á lóð sinni hér, þar sem lýsisbræðsluhús félagsins standa nú.
------------------------------------------------------------------------------

Fram - 20. maí 1918

2. árgangur 1918, 17. tölublað

Þrennir tímar. 1818 – 1918 + Framtíðarspá: 2018

1818
Það er sumarmorgun. Þoka liggur yfir hafinu. Seglskipið »Már,« hefir ekki haft landsýn í samfleytta fimm sólarhringa, og hvorki skipstjórinn, afi minn, né nokkur af skipshöfninni getur sagt um hvar í íshafinu skipið er statt.

Um miðjan dag: Landsýn á bakborð. Þokunni léttir, og hinn litli vindsvali, er áður var, eykst, og fyrir stinnungs byr stefnir skipið að landi, og kemur upp undir Siglunes. — Um kvöldið: Skipið liggur á Siglufjarðarhöfn. Nokkrir bæjir sjást meðfram fjallahlíðunum, niðri á eyrinni eru örfá hús, flest torfhús.

Margir bátar koma út að skipinu; íbúar Siglufjarðar nota hið sjaldgæfa tækifæri til þess að fá fréttir frá umheiminum. Kaupmaðurinn, sá eini á staðnum leitar eftir viðskiptum hjá skipsmönnum. Morguninn eftir: Skipið er farið. Höfnin auð. Siglufjörður með sömu ummerkjum og áður. Kyrð og einverublær sem fyr. Alt tilbreytingarlaust, þar til annað skip ef til vill villist hér að, og ber með sér óminn af atburðum þeim er gerast í heiminum. —

1918.

Siglufjörður, 20. maí. Fallbyssuskot. Bærinn prýddur fánum. Guðsþjónusta. Litprentuð hátíðaskrá með kvæðum. Skrúðgöngur, silki, flauel, gull og silfur. Syngjandi barnaflokkur, hin efnilega unga kynslóð.

Hljóðfærasláttur og söngur, ræðuhöld, íþróttir og dans. Frá morgni til morguns er alt líf, fjör og gleði hjá hinum þúsund íbúum Siglufjarðar, því í dag er 100 ára minningarhátíð, afmæli bæjarins sem löggilts verslunarstaðar. Þar sem örfá hús voru fyrir 100 árum er nú stór bær, 20 kaupmenn þar fyr var einn.

Stórar verksmiðjur, og umfangsmikil starfsemi við síldarsöltun. Heill floti af stærri og minni skipum er auð sækja í Ægisskaut. Kæri Siglufjörður. Hamingjan stiðji þig, og gefi að þú á hinum komandi árum blómgist og þróist á sama hátt og þú hefir gert á þeim liðnu. En eiginlega ættir þú að sýna uppsprettu framfara þinna þann þakklætisvott að breyta um nafn; kalla þig: »Síldarfjörð.«

2018.

Siglufjörður! Hraðlestin, sem fór á stað frá Rvík fyrir fjórum klukkustundum, staðnæmist á hinni skrautlegu járnbrautarstöð. Fáum mínútum . síðar ókum vér með fljúgandi hraða í glæsilegri bifreið til hinnar alþektu og víðfrægu gistihallar: »Siglufjörður,« og brátt setjumst vér þar að miðdegisverði er fullnægir hvers manns kröfum.

Við borðið sitja gestir í hundraða tali, fjöldi tungumála blandast saman í óskiljanlegan klið, því hér eru menn af flestum þjóðum heimsins. Um kvöldið er kappsigling á höfninni, eru það hinir hraðskreiðu neðansjáfar mótorbátar verksmiðjueigandanna er reyna sig þar. Þúsundir áhorfenda eru dreyfðar umhverfis höfnina. Bærinn nær umhverfis allan fjörðinn, frá Siglunesi til ysta undirlendis að vestan. Allur fjörðurinn er ein stór höfn með hundruðum bryggja og hafnarvirkja.

Hér er tvöhundruð ára minningarhátíð, gleði og fögnuður. Veðrið er brosandi bjart, himininn heiður og blár. Síðastliðinn vetur hefir í fyrsta sinn hepnast að útiloka hafísinn frá höfninni með risavöxnum stíflum, þó þessi landins forni fjandi lægi fyrir öllu Norðurlandi í hálfan annan mánuð. Þeim peningum, er gera hefði mátt ráð fyrir að þurft hefðu til endurbóta á skemdum af völdum íssins, er nú varið til hátíðahalds.

Einn af ræðumönnum hátíðarinnar endar mál sitt með þessum orðum: »Að síðustu flyt eg Siglufirði hugheilar hamingju óskir, og vil leyfa mér að enda ræðu mína með þeim orðum, er afi minn skrifaði fyrir 100 árum síðan í blaðið »Fram,« er þá var hið eina blað bæjarins: »

Sýndu uppsprettu auðæfa þinna og framfara þann þakklætisvott, að breyta um nafn, kalla þig Síldarfjörð.«

F. G. H.
----------------------------------------------------------------

Fram - 25. maí 1918

2. árgangur 1918, 18. Tölublað

Afmælishátíðin 20. maí.

Svo sem fyrir var ætlað, fór afmælishátíð Siglufjarðar fram hinn ákveðna dag. Veður var fagurt um morguninn, bjart sólskin og logn, en er fram á daginn kom hvesti talsvert og síðar byrjaði að rigna, og héldust við skúraleiðingar það sem eftir var dagsins.

Dróg það nokkuð úr gleðinni fyrir fólki, en þó ekki svo, að tilfinnanlegt væri. Klukkan 7 um morguninn var skotið af fallbyssu, og jafnsnemma byrjaði lúðraflokkur frá Akureyri að leika lög sín. Kl. 9 hófst skrúðganga barna frá Hvanneyri og eftir götum bæjarins á hátíðarsvæðið, og hélt skólastýra Guðrún Björnsdóttir þá ræðu.

Kl 10 þreyttu drengir og fullorðnir kapphlaup og verður skýrt frá þeim nánar á öðrum stað í blaðinu.

Kl. 11 var haldin guðsþjónusta í kirkjunni, sem ekki rúmaði nærri því alla er þar vildu vera.

Kl. 12½ gengu Kaupmanna og verslunarmannafélag Siglufjarðar, og Fiskifélagsdeild Siglufjarðar undir fánum sínum í nýa kirkjugarðinn, fylgdi þeim mikill mannfjöldi. Lögðu ofannefnd félög blómsveiga á leiði þeirra: Guðmundar Einarssonar verslunarstjóra, Guðm.S.Th. Guðmundssonar kaupmanns og Hafliða Guðundssonar hreppstjóra. Hélt past. emer. Tómas Bjarnarson þar stutta ræðu. Þá var hlé til kl. 3, og byrjaði þá síðari hluti íþróttanna, hindrunarhlaup og kappróður.

Kl. 4½ lögðu hin fyrnefndu félög blómsveiga á leiði Snorra Pálssonar verslunarstjóra, Jóhanns Jónssonar hreppstjóra og C. J. Grönvolds verslunarstjóra, í gamla kirkjugarðinum á Hvanneyri. Þar hélt past. emer. Tómas Bjarnarson einnig ræðu. Þaðan hófst svo skrúðganga fullorðinna. Gekk hreppsnefnd í broddi fylkingar undir fálkaflagginu, þá ýms félög hvert undir sínu merki, og höfðu þau við hlutkesti hlotið þá niðurröðun, að fyrst gekk Kvenfélagið »Von« þá Ungmennafélag Siglufjarðar, þarnæst Kaupmanna og verslunarmannafélag Siglufjarðar, og síðast Fiskifélagsdeild Siglufjarðar. Síðast gekk allur almenningur og var fáni íslands borinn þar fyrir.

Skrúðgangan hófst frá Hvanneyri sem fyr er sagt, hélt eftir miklum hluta af götum bæjarins, og staðnæmdist áhátíðarsvæðinu. Þar stóð pallur með ræðustól prýddur fánum, lyngsveigum og krönsum. Þegar fótkið hafði staðnæmst sté söngflokkurinn, sem hafði haft talsverða æfingu undir stjórn séra Bjarna Þorsteinssonar, upp á pallinn, og söng fyrst: »Ó, guð vors lands,« og þar næst nýorkt hátíðakvæði eftir Matthías Jöchumson með nýsömdu lagi eftir séra Bjarna Þorsteinsson.

Þá sté séra Bjarni Þorsteinsson í ræðustólinn og flutti sköruglega alllanga ræðu fyrir minni Siglufjarðar. Sagði hann hundrað ára sögu hans í stuttum dráttum. Þá var sungið annað nýorkt hátíðakvæði eftir Pál J. Árdal, og var lagið einnig nýsamið af séra Bjarna Þorsteinssyni. Þar næst var sungið: Ísland, Ísland! Eg vil syngja, eftir Huldu, og hélt þá kaupm. Sigurður Kristjánsson ræðu fyrir minni Íslands. Eftir það voru sungnir ýmsir ættjarðarsöngvar, og lék lúðraflokkurinn á milli.

Héraðslæknir Guðm. T. Hallgrímsson mælti fyrir minni ungu kynslóðarinnar og fyrir minni séra Bjarna Þorsteinssonar. Aðrar ræður voru ekki haldnar. Þegar þessu öllu var lokið safnaðist fólkið inn í leikfimishúsið er var skreytt á ýmsan veg, byrjaði þar brátt dansleikur er hélst framundir morgun. Í barnaskólanum voru veitingar seldar. Altaf öðruhvoru dagsins lék lúðraflokkurinn Iög sín, var mönnum það óvanaleg og kær skemtun.

Yfirleitt fór hátíðin vel og skipulega fram, og menn skemtu sér vel. Hér var allmargt gesta, um hundrað manns frá Akureyri og æðimargir úr Fljótum og Skagafirði. Mörg heillaóskaskeyti voru send í tilefni dagsins bæði frá innlendum og útlendum. Nú er þessi dagur liðinn, og hin daglegu störf byrjuð.

En oft mun hugur Siglfirðinga hvarfla til þessarar þýðingarmiklu gleðistundar, og við það að fá að heyra skýrt sagt frá hinum stórfelda mismun á Siglufirði 1818 og nú, verður mönnum ljóst, að eigi hin nýa öld að vinna eins dyggilega að framförum og heill bæjar og sveitar, og hin liðna hefir gert, þá þarf mikið að vinna, og engin má af sér draga. Ver óskum að þeir er halda hátíðlegan 20. maí 2018 megi fá að sjá blómlegan ávöxt iðju vorrar og niðja vorra yfir öldina. Því orði sigur! ----------------------------------

Íþróttir 20. maí. 150 m. hlaup fyrir fullorðna.

 • Sigurður Finnbogason 1. verðlaun, ágrafinn krónupening, hljóp á 19 sek.
 • Steinþór Hallgrímsson 2. verðlaun, ágrafinn 50 eyring hljóp á 2l½ sek.
 • Snorri Stefánsson 3. verðlaun, ágrafinn 25 eyring, hljóp á 22 sek.
 • Guðlaugur H. Vigfússon hljóp.á 23 sek.
 • Rögnvaldur Rögnvaldsson
 • Jóhann Sigurjónsson
 • Sveinn Hjartarson hlupu allir á 24sek.

100 m. hlaup fyrir drengi.

 • Guðmundur Steinsson 1. verðlaun ágrafinn 50 eyring hljóp á 17 sek.
 • Helgi Kjartansson
 • Ármann Sveinsson
 • Hinrik Steinsson, allir 2. verðl. ágrafinn 25 eyring hlupu á 17½ sek.
 • Angantýr Ásgrímsson og
 • Jóhann Þorkelsson hlupu á 19 sek.
 • Jón Kristjánsson hljóp á 21 sek.
 • Vilh. Þorsteinsson »« » 22 ---
 • Halld.J.Porleifsson »« » 26 ---
 • Kjartan Ólafsson »« » 26 ---

70 m. Hindrunarhlaup fyrir drengi. Klifrað yfirgrindur.

 • Guðm. Steinsson 1. verðlaun 5 kr hljóp á 12 sek.
 • Hinrik Steinsson 2. verðlaun 3 kr hljóp á 12½ sek.
 • Jón Kristjánsson 3. verðlaun 2 kr. hljóp á 14 sek.
 • Kjartan Ólafsson 3. verðlaun 2 kr. hljóp á 15 sek.
 • Vilhelm Þorsteinsson 3. Verðl.. 2 kr. hljóp á 15 sek.
 • 100 m. hindrunarhlaup fyrir fullorðna, með vatnsfötu á höfðinu með 15 cm. vatni í.
 • Klifrað yfir grindur á leiðinni, fötunni skotið undir grindurnar og tekin aftur.
 • Steinþór Hallgrímsson 1. verðl. 10 kr. hljóp á 19 sek. hafði mest vatn eftir í fötunni 13½ cm.
 • Snorri Stefánsson 2. verðl. hljóp á 20 sek. 13 cm. vatn.
 • Jóhann Sigurjónsson hljóp á 21 sek. 9 cm. vatn.
 • Sigurður Finnbogason hljóp á 21 sek. ekkert vatn.
 • Sveinn Hjartarson hljóp á 21 sek. ekkert vatn.
 • Jóhannes Hjálmarsson hljóp á 23 sek. 10 cm. vatn.
 • Rögnvaldur Rögnvaldsson hljóp á 23 sek. ekkert vatn.
 • Guðl. Helgi Vigfússon hljóp á 30 sek. 13 cm. vatn.

Kappróður.

Vegalengdin var ekki mæld.

 • Bátur no. 2 vann fyrstu verðlaun 30 kr. var 5 mín. 35 sek. Stýrim. Jón Gunnlaugsson. Ræðarar: Ólafur Sigurgeirsson, Guðbrandur Sigfússon, Hallgrímur Sveinsson, Benedikt O. Jónsson.
 • Bátur no. 1 vann önnur verðlaun 15 kr. var 5 mín. 49 sek. Stýrim. Kjartan Jónsson. Ræðarar: Helgi Ásgrímsson, Jóhannes Hjálmarsson, Guðlaugur Þorleifsson, Björn Skarphéðinsson.
 • Bátur no. 3 var 5 mín. 53 sek. Stýrim. Jón Sigurðsson. Ræðarar: Þórður Sigurðsson, Kristinn Bessason, Sigurður Gunnarsson, Jóhann Einarsson.
  --------------------------------

Frá áhorfendasvæðinu.

Íþróttirnar 20. maí, sem áreiðanlega var besta skemtunin, sýnir að íþróttirnar hæna að sér fólk er með eftirvæntingu og áhuga fylgjast með í kappleikunum, en fólkið verður að veita keppendum meira svigrúm og markið þyrfti helst að vera afgirt því þegar áhorfendur hópast utan um markið, verða sérstaklega drengirnir hikandi og hægja á sér við aðstökkið (að markinu).

Það var bersýnilegt, að þáttakendur alla vantaði æfingu, en það er fyllilega mitt álit að sá er vann fyrstu verðlaun þurfi ekki nema litla æfingu til að ná hinu danska hámarki í 150 metra hlaupi 1910. Sá er hlaut 3 verðlaun álít eg að muni aldrei skara fram úr í stuttu hlaupi þar sem alt er komið undir flýtir en hann mun verða erfiður keppinautur í löngu hlaupi. Hindrunarhlaupið var aðeins til skemtunar og hafði þess vegna ekkert íþróttagildi.

Stutthlaupið fyrir drengina tókst fremur vel og var gaman að því, en einnig þeir voru óæfðir og lítið undirbúnir enda voru margir af þeim hikandi er að markinu kom og áttu áhorfendur sök á því, eins og áður er sagt hópuðust áhorfendur of mikið að markinu, annars hefði eflaust náðst betri árangur og þeir verið styttri tíma með hlaupið. Kappróðurinn álít eg lítilsvirði og án íþróttagildis, þar sem bátarnir sem tóku þátt í honum voru svo mismunandi að stærð og lögun.

Aftur á móti álít eg að kappróður á jöfnum bátum t. d. Snurpunótabátum með 6 ræðurum og stýrimanni mundi auka íþrótta áhuga fyrir róðri, auk þess að vera holl og góð æfing fyrir keppendur og ágæt skemtun fyrir áhorfendur.

O. B.
----------------------------------

Fundist hefir peningabudda á bryggjum bæjarins með dálitlu af peningum í, réttur eigandi borgi þessa auglýsingu og snúi sér til fynnanda til að meðtaka eign sína. Björn Jónatansson.
---------------------------------------------------------------------

Fram - 22. júní 1918

2. árgangur 1918, 23. tölublað,

Slys.

Síðastliðinn miðvikudag vildi það sorgIega slys til hér, að ungur maður, Rögnvaldur Rögnvaldsson að nafni, ættaður af Höfðaströnd, datt út af bryggju og druknaði. Var verið að leggja pall á bryggjuna og kölluðu smiðirnir á hann til þess að lypta undir tré, gekk hann hratt fram til þeirra, en aðra leið en vanalega, og datt niður. Um leið féll niður pallur og náði pilturinn strax í hann en slepti honum jafnskjótt, sökk til botns og skaut aldrei upp aftur.

Svo hittist á, að menn á bát voru að róa þarna fram hjá örfáa faðma frá, snéru þeir strax við, en gátu þó ekki náð í hann. Þarna var um 16 feta dýpi, og enginn viðstaddur svo vel syntur að kafað gæti til botns, en þó var það reynt. Eftir á að giska fimtán mínútur náðist maðurinn upp, var þá læknir kominn á staðinn, gerði hann strax tilraunir til lífgunar en þær reyndust árangurslausar þrátt fyrir það þó alt væri gert sem tilheyrir og hægt var. —
-------------------------

Þormóður Eyjólfsson er að láta reisa verslunar og íbúðarhús við Vetrarbraut austanverða, er það 16x14 al. að stærð og tvílyft. Yfirsmiðurinn er hr. Þorst. Þorsteinsson frá Lóni.
-------------------------

Fiskiafli á Siglufirði 17. júní.

Mánudaginn 17. júní byrjuðu róðrar aftur eftir hríðarhviðu þá er gerði hér. Réru héðan 36 bátar. Þar af seldu 12 fisk sinn til sama manns, og gerði aflinn á þessum 12 bátum um daginn kr. 7092.00, með 9 aura verði á pundi. Hefir því aflast á þessa báta þann dag til samans 78.800 pd.

Það má gera ráð fyrir hinir bátarnir hafi aflað mjög líkt, hefir þá sameiginlegur afli á 36 báta verið 236.400 pd.er gerir kr. 21.276.00 Lifur úr fiskinum má ætla 30 lítra úr hverjum 1000 pd., hafa þá fengist 7.092 lítrar og ef reiknaðir eru 16 aurar fyrir lítirinn gerir lifrin 1.134 kr. Samtals verða þá afurðir fiskiaflans þennan dag 22.410 kr. Þess má geta að spottafiskur er ekki hér með talinn.
-------------------------------------------------------------------------

Fram - 20. júlí 1918

2. árgangur 1918, 27. Tölublað

Járn.

Fyrir nokkrum dögum var eg að leita að mó fram í Leyningsfjalli. Eg hafði stungið 3½ spaðstungu niður án þess að finna annað en móblending. — Þá kom eg niður á samfelda, sprungulausa hellu af dökkbrúnu efni, áþekku stálbiki nema lítið eitt ljósara. Sýndist mér fyrst að það vera mókol, en þegar eg hafði höggvið upp lítið eitt af þessu, kom það í ljós að þetta var járnblendingur.

Eg hefi víða séð járnblending (rauða) hér í jörð, en hvergi eins samfeldan og hreinan og þarna, og að því ef virðist, eins járnmikinn. Lagið var eigi þykkra en um 4 þuml. þarna, en virtist þykkna eftir því sem ofar drægi. Eg tók iítið sýnishorn af járnblending þessum, en oflítið til þess, að nægi til rannsóknar, sem eg tel mjög æskilega, því þó þessi fundur sýnist ómerkur, bendir hann þó í þá átt, að meira geti fundist við nákvæmari leit og ef til vill fleira. Vér vitum t. d. að blýantserts (graphit) er hér til í Hafnarfjallinu og þá ekki ósennilegt um fleiri málma.

Og hvaða þýðingu málmfundur og málmnám hér, geti haft fyrir Siglufjörð, þarf ekki að útskýra.

Jón Jóhannesson.
-------------------------------------------------------------------

Fram - 27. júlí 1918

2. árgangur 1918, 28. Tölublað

Ómannúðleg meðferð.

Aðfaranótt þess 19. júlí s. 1. vöktu tveir menn upp bóndann í Skarðdal í Siglufirði og báðust gistingar, einnig um hús fyrir tvö naut er þeir höfðu meðferðis. Menn þessir hétu Jóhannes Björnsson frá Hofstöðum í Skagafirði, og Jón Sigtryggsson frá Framnesi, einnig í Skagafirði.

Af sérstökum ástæðum var ekki hægt að hýsa mennina í Skarðdal, héldu þeir því áleiðis ofan í bæinn með annað nautið, hitt skildu þeir eftir nálægt Skarðdal.

Nautið, sem þeir fóru með, seldu þeir manni hér á eyrinni, hitt sömuleiðis, og sendi kaupandinn skilríkan mann morgunin eftir fram í Skarðdal, til þess, að álykta þyngd nautsins.

Þá lagði maður þessi merki til þess, að nautið átti bágt með að stíga í fæturna, einnig sá hann að það var ljótt útlits en sá engin sérstök missmíði á því. Um kvöldið fór sami maður frameftir aftur, og var þá önnur klaufin dottin af öðrum afturfæti á nautinu, lá hún þar nokkra faðma frá. Morguninn eftir var nautið drepið þar sem það var, hafði það sem von var ekki getað hreyft sig neitt, kom þá í ljós að á öðrum framfæti var önnur klaufin einnig mikið laus frá holdinu.

Allar voru klaufirnar holar innan og harla óííkar því sem er á þeim skepnum, var engu líkara en gamalt kal væri og klaufirnar þar af leiðandi í þessu ásigkomulagi. Hvílíkar kvalir þessi skepna hefir verið búin að líða, geta þeir menn gert sér í hugarlund sem nokkrar tilfinningar hafa og ekki eru dauðir og daufir fyrir líðan dýranna. Fæturnir af nautinu sýna það ljóst að það hefir orðið að þola illa meðferð í vetur, það hlýtur seljandanum að hafa verið kunnugt, eigi að síður sendir hann það langa leið, og það yfir vondan fjallveg án þess að hugsa nokkuð um hvað skepnan muni taka út.

Meiri líkindi til að böðuls náttúra búi i brjósti þess manns en mannlegar tilfinningar. Það hefir heyrst fyr að Skagfirðingar séu kaldir innan rifja gagnvart skepnum sínum, sérstaklega hrossum, en þessi meðferð að láta nautið ganga þennan veg með klaufirnar svo lausar á fótunum, að ein dettur af á leiðinni, er svo níðingsleg, að hverjum heiðvirðum manni hlýtur að standa stuggur af þeim manni er misbeitir svo yfirráðum sínum yfir skynlausri skepnu.

Frásögn þessi er tekin eftir bóndanum í Skarðdal Gísla Bjarnasyni, og manni þeim er sendur var frameftir og áður er umgetið, eru þeir reiðubúnir að standa við þessa lýsingu sína af útliti nautsins hvenær sem vera skal, og gefa nánari skýringu. Þetta er skrifað hér öðrum til viðvörunar, og til þess, að þeir sem hlut eiga að máli viti að eftir þessu var tekið, meiga þeir vera vissir um um þungan áfellisdóm allra góðra manna er frétta um þessa mjög svo ómannúðlegu meðferð á varnarlausri skepnu.

21. júlí 1918. Hannes Jónasson.
--------------------------------

Til Jan Mayen

Vélskipið »Snorri« lagði af stað héðan í gærmorgun norðaustur til eyjarinnar Jan Mayen, til þess að sækja rekavið. Með skipinu fór Gunnar Snorrason og einn trésmiður.
------------------------------------------------------------------------

Fram - 10. ágúst 1918

2. árgangur 1918, 31. tölublað

Frá Jan Mayen kom vélskipið »Snorri« í fyrrinótt, og fór til Akureyrar í gær. Það var fulllestað alskonar rekavið.

Skólanefndin hefir nú tekið ákvörðun um skólahald næsta vetur. Er ákveðið að barnaskólinn starfi í sex mánuði, börnum sé skift í 3 deildir, en þeim kent á víxl í einni stofu. Þetta fyrirkomulag var haft síðasta vetur og reyndist vel. Unglingaskóli verður enginn.

Svarðarþjófnaður er byrjaður í stórum stíl að margra manna sögn. Þykjast ýmsir eiga um sárt að binda, en til lítils er að kveina, hér er enga hjálp að fá. Hvenær kemur að því að lög og réttur taki sér bústað á Siglufirði?

Næturvörð hefir hreppsnefndin, samkvæmd bréfi aðstoðarlögreglustjórans, samþykt að hafa hér það sem eftir er af síldveiðitímanum. Hann mun þó vera óráðinn enn.
---------------------------------

Fram - 24. ágúst 1918

2. árgangur 1918, 33. tölublað

Margt fer öðruvísi en ætlað er.

Herra ritstjóri! Hinn 27. júlí þ. á., er birt níðgrein Í yðar heiðraða blaði, um okkur undirritaða, með yfirskriftinni »Ómannúðleg meðferð.« Byrjar greinin með því, að lýsa komu okkar að Skarðdal, með tvö naut, sem greinarhöfundur hr. Hannes Jónasson lætur mikið yfir, að hafi verið illa útlítandi og misþyrmt á ýmsan hátt.

Segir að klaufirnar á öðru nautinu hafi verið holar innan og ólíkar því, sem vanalegt sé, og eftir að við höfum verið búnir að selja það, hafi ein klauf á afturfæti dottið af og önnur verið hálf laus. —

Svo bætir hr. H. J. þeirri ályktun við, að þessi missmíði á klaufunum, stafi að líkindum af gömlu kali og kvölum og úteys mjög sinni meðaumkvun yfir því, hvað dýrið hafi orðið að þola og það hljóti eigandinn að vita vel. Samt sendi hann það yfir langan og vondan fjallveg, án þess að hugsa nokkuð um, hvað dýrið taki út.

Mörg fleiri bríxlyrði og þungar ásakanir, lætur hann falla í garð eigandans. Ennfremur segir hr. H. J. að það hafi heyrst fyr, að Skagfirðingar væru kaldir innan rifja gagnvart skepnum sínum, sérstaklega.hrossum o. s. frv. Til fullrar skýringar, verðum við í stuttu máli að segja ferðasöguna. —

Eftir umtali við útlendan mann hr. Blomkuist leggjum við af stað hinn 17. júlí, með tvö sláturnaut, til Siglufjarðar. — Voru þau bæði 3ja vetra, all væn og ekki með neinum sjáananlegum göllum (nóg vitni.) Fyrstu nóttina gistum við að Felli í Sléttuhlíð. Höldum síðan fót fyrir fót, sem leið liggur, og er ekkert af ferðum að segja, fyr en kemur upp í Siglufjarðarskarð. Fara nautin þar að gjörast löt í spori og komið vonsku veður, vatnshríð með allmiklum stormi. — Auðvitað héldum við áfram, því ekkert vit var, að setjast þar að með nautin, á bjargleysu, í slíku óveðri, ef annars væri kostur.

Töldum við víst, að greiðar myndi ganga er halla tæki undan fæti. En svo reyndist ekki, því austan skarðs var svo mikið af eggmynduðu lausagrjóti í götunni, að nautin áttu erfitt með að komast áfram og runnu til næst um því í hverju spori. — Veittum við því þá eftirtekt, að sérstaklega annað nautið hafði hruflast á hælum og sárnað milli klaufanna, en stautaði samt sem áður götuna, eftir hinum bolanum. Að Skarðdal komum við árla nætur og hugðum gott til gistingar, því við vorum blautir og illa til reika, en nautin þreytt.

Brá okkur því heldur í brún, er bóndinn gaf þau svör, að hann hefði ekkert hús fyrir nautin og engar ástæður til að hýsa okkur. Spyrjum við hann þá, hvort hann geti hvergi bent okkur á hús yfir nautin, á kotunum þar í kring. Svarar hann því neitandi. Biðjum við hann þá um leyfi til, að vera þar undir húsþaki hjá honum, þó ekki séu tök með rúmföt. Því neitar hann einnig.

Okkur er það minnisstætt, í viðtali við bónda þennan, að ekki virtist hann mjög viðkvæmur fyrir líðan nautanna þó þau væru höfð úti, þreytt, í úrfelli og í kulda, en þetta er samt annar maðurinn, Gísli Bjarnason, sem greinarhöfundur kveðst hafa sína frásögn eftir. Ekki er að furða, þó slíkur maður hafi getað fylt hr. H. J. meðaumkvun og mannúð.

Við undum illa úrslitunum í Skarðdal og reikuðum fram og aftur milli peningahúsa er við sáum, en engin voru í því lagi, að nautin væru hafandi þar næturstund, utan einn kofaræfill, en þar voru hestar inni. — Við vorum því neyddir til að hafa þau úti um nóttina, en gáfum þeim í laut fyrir ofan Skarðdal, úr heypoka er við höfðum haft með að heiman. Héldum síðan ofan í kaupstaðinn og báðumst gistinga rá tveimur gistihúsum, en í báðum stöðum var svo fullskipað, að ekki þótti ábætandi.

Áttum við þá ekki meira við, að leita húsaskjóls. Þess viljum við geta, að þrátt fyrir alt og alt, var okkur mjög vel tekið af mörgum í Siglufirði, og þökkum við þeim mönnum gestrisnina. Snemma um morguninn vitjum við nautanna og eru þau þá stirð mjög og köld, því enn þá var rigning. Annað var svo, að ekkert fékst það til að fara, en það viljum við fullyrða, að þá hafi það haft allar sínar klaufir og við veittum ekki eftirtekt neinu sérstöku losi á þeim. Fórum við því aðeins með annað nautið ofan í bæinn og seldum það strax hr. Blomkuist.

Buðum honum einnig nautið í Skarðdal og lýstum því svo rétt, sem við gátum. Var þá sendur þessi trúverðugi maður, er hr. H. J. kvaðst hafa nokkuð af sinni frásögn eftir, til að yfirvega verðmæti eða þunga nautsins, en að honum heimkomnum kvaðst hr. Blomkuist ganga að því, að greiða 375.00 kr. fyrir nautið, án húðarinnar. Geta menn fljótlega séð samkvæmnina í því tvennu, að nautið hafi átt við stórfeldar kvalir að búa, en er þó, að dómi sama manns, svo vænt, að það er kaupandi fyrir 375.00 kr. innan úr skinni. Kjötverð é Siglufirði var sagt 85 — 90 aura pundið. —

Hvað meðferð nauts þessa annars viðvíkur, munum við lítt deila við hr. H. J. um, en láta nægja umsögn forðagæslumanns og þeirra manna er best til þekkja, til að sýna og sanna, hversu tilgátur hans og hrakyrði eru algjörlega óverðskulduð og án ábyrgðartilfinningar fyrir réttum eða röngum málstað. Hitt viljum við taka fram, að nautinu var gefið inni í alt fyrra sumar. Voru því klaufirnar orðnar mjög stórar, eftir svo langan innistöðutíma og eðlilega ekki samfelt horn í gegn, samkvæmt vexti og byggingu klaufanna, heldur meira og minna holar sérstaklega framan til, sem þó alls ekki kom í ljós, fyren á Ieiðinni, er klaufirnar slitnuðu.

Kemur svipaður klaufnavöxtur og einnig fyrir á innigjafa sauðfé og hefði hr. H. J. ekki verið vorkun að veita þessu eftirtekt. Annars má gleðjast yfir því, að eiga mann, sem virðist láta sér jafn ant um meðferð dýranna og hr. H. J. — Má ætla, að hann láti eigi óátalið, ef húsakynni þau, er bændur í grend við hann bjóða skepnum sínum, eru ófullnægjandi og svo léleg, að ekki sé hægt fyrir langferðamenn, að fá þar skýlt einum eða tveimur nautgripum hvað sem á liggur.

Viljum við fullvissa hr. H. J. um það, að ef 3ja vetra naut, frýs til skaða í fjósinu á Framnesi, þá eru líkur til, að skepnum líði illa í Skarðdalskofunum. Þá mætti ekki gleymast, að þakka hr. H. J. velvildina og mannkærleikann, þar sem hann kvaðst rita þetta öðrum til viðvörunar og til þess, að láta okkur vita, að eftir þessu hafi verið tekið. Til endurgjalds viljum við ráðleggja honum sem rithöfund, að hlaupa ekki um of eftir því sem sagt er, hvorki um Skagfirðinga né aðra menn, og leggja ekki út í, að rita níð um einn né annan, með jafn lélegum heimildum fyrir hendi og í þetta skifti

Hofsstöðum 7. ágúst 1918. Jóhannes Björnsson, Jón Sigtryggsson.

Vér undirritaðir, sem erum nágrannar hr. Jóns Sigtryggssonar á Framnesi, og nákunnugir heimili hans, vottum hér með að naut það, er hann ól upp og seldi til Siglufjarðar í sumar, hefir alt af verið vel með farið, eins og aðrar skepnur hans, bæði hvað fóður og aðra aðhlynningu snertir, og ætíð haft sama hús og mjólkurkýrnar. Tvo síðastliðna vetur, var það notað sem þarfanaut frá allmörgum bæjum, svo vér erum því kunnugri meðferð nautsins. Síðari veturinn var nautið aldrei leitt burt af heimilinu. en kýrnar jafnan heim til þess. Framnesi 8. ágúst 1918 Þorvaldur Jónsson forðagæslumaður í Akrahr. Sveinn Benediktsson (forðagæslum.) Magnús H. Gíslason, Eiríkur Magnússon, Björn Jónasson, Konráð Arngrímsson.

* Athugasemd við grein þessa kemur í næsta blaði. —
-----------------------------

Sjávarnargarðurinn þarf viðhald.

Eg býst við að flestum Siglfirðingum sé það ljóst, hve mikils virði sjávarnargarðurinn er fyrir kaupstaðinn, en þeim þarf líka að vera það fulljóst, hversu mikil nauðsyn ber til þess að hann ekki verði látinn eyðileggjast fyrir hirðuleysi og handvömm, en það tel eg vafalaust að hann geri, verði honum ekki haldið við.

Mannvirki eins og hann, sem ekki er meira í borið, en liggur stöðugt undir áföllum af sjó og grjóti þarf auðvitað eftirlit og viðhald, og þess þarf líka stranglega að gæta að hann ekki verði fyrir ágangi af mannavöldum, og þyrfti meðal annars að banna að taka möl eða grjót nálægt honum.

Eg veit að stjórnendum kaupstaðarins er ljóst að eg fer hér með rétt mál, en eg hefi bara heyrt að þeir álíti kaupstaðnum ekki bera að kosta viðhaldið og skal eg ekki dæma um hverjum ber skylda til þess, en vil bara vekja athygli á því, að Siglfirðingar verða í tíma að hlutast til um að sá er það dæmist á geri tafarlaust það er gera þarf til tryggingar því að garðurinn ekki á parti eyðileggist, því að geri þeir ekki þær ráðstafanir geta þeir treyst því að þær verða ógerðar, og væri þá illa farið ef að það kostaði stórskemdir eða alvarlega bilun á garðinum.

Eg get búist við að einhverjum detti í hug að mér komi þetta mál ekki við, en eg verð að álíta að það snerti mig ekki alllítið, því svo vel þekki eg mennina orðið, að eg teldi vafalítið að nógir yrðu til að kenna þeim er bygðu garðinn um ef bilun ætti sér stað þótt að þeir ættu enga sök á því. Svo taldi eg mér líka skylt að benda á þetta sérstaklega, þar sem eg álít að hann þurfi viðhald strax í sumar.

p,t. Siglufirði 5. ágúst 1918. Felix Guðmundsson.
--------------------------------

Hlutaveltu hélt Sjúkrasamlag Siglufjarðar á sunnudagskvöldið var. Fór hún þannig fram, að ástæða virðist til að minnast á hana með örfáum orðum. Fyrst og fremst var fullur helmingur af dráttunum núll, og meginið af því sem átti að heita drættir var lítils eða einkis virði. T. d. voru margir drættirnir eitt bréfspjald, og það auðvitað eyðilagt með því að líma á það númerið. Inngangurinn var seldur á 25 aura.

Vitanlega getur enginn ætlast til þess, að almenningur græði á því að draga á hlutavelturn, sem haldnar eru til þess að styrkja þarfleg fyrirtæki, en áreiðanlegt er, að full-langt hefir nefnd sjúkrasamlagsins farið, með því að bjóða upp á slíka hlutaveltuómynd, og er henni það síst til sóma, að ná í peninga með slíku móti, og það hefði hún átt að vita að svo langt má fara í þessu sem öðru, að tilgangurinn helgi ekki meðalið.

S. K. (ekki sk, síðueigandinn)
-------------------------------

Kol?

Hérna vestan í fjallsbrúninni (upp af Engidal) hafa nýlega fundist molar, sem mjög líkjast kolum. Hefir þeim verið brent og reyndust þeir að loga vel.

Mun þetta verða betur athugað hið bráðasta.
-----------------------------------------------------------------------------

Fram - 31. ágúst 1918

2. árgangur 1918, 34. tölublað

Kol fundin í Engidalslandareign.

Þess var getið í síðasta blaði, að molar, er mjög líktust kolum, hefðu fundist hér vestan í brúninni á fjallinu sem gengur fram vestan Siglufjarðar.Tóku þeir, sem molana fundu, nokkra mola með sér, en athuguðu ekkert nánara hvort útlit væri fyrir að meiri kol væru þarna. En nú hefir þetta verið athugað nokkru nánar. Þriðjudaginn 27 þ. m. fóru þrír menn þangað, séra Bjarni Þorsteinsson og 2 aðrir.

Fóru þeir sjóveg að Engidal og gengu þaðan upp á fjallið. Fundu þeir þar í gili nokkru töluvert af lausum kolamolum. Ennfremur fundu þeir þar einkennilegt hvítgrátt leirefni og eitthvert svart óþekt efni, sem stungið var upp á að máske væri uppbleytt kolaefni. Séra Bjarni hefir góðfúslega sent oss sýnishorn þau, er þeir tóku með sér, bæði af kolunum og leirnum og svarta efninu ásamt stuttri lýsingu á því, hvar og hvernig þeir fundu þau, og um aðstöðu þarna, ef til þess kæmi að kol reyndust að vera þar að nokkru ráði, og er hún á þessa leið:

— Þessi sýnishorn eru öll tekin úr fjallinu milli Engidals og Hvanneyrar. Eru þau úr gili, sem liggur ofan úr svo kölluðu Viki og niður í Engidalsdalinn framarlega. Fundum við mola og mola á stangli í öllu gilinu, lausa, auðsjáanlega borna fram með mikilli malar og aurskriðu, sem hefir fallið niður gilið í vor eða fyrravor og fellur líklega árlega.

Gilið og aurskriðan með kolunum byrjar hvorttveggja uppi í Vikinu og þar eru margir smáir gráleitir og rauðleitir aurhólar eða melhólar og þar mun uppspretta kolanna vera undir, en enga hugmynd hefi eg um hve mikið eða lítið þar kann að vera. í brekku þar fyrir ofan var töluverður vottur kola innan um leðju. Þaðan er örskamt upp á fjallsbrúnina norðan við Hvanneyrardalinn (skálina.)

Kolin eru falleg að sjá og loga dável. En ákaflega er þarna ilt aðstöðu Þótt kol fyndust þar að mun, En hví skyldi ekki vera víðar kol í þessu fjalli og fleiri fjöllum hér, og það á betri og hentugri stöðum, úr því þau eru þarna. Og ekki má láta hér staðar numið, heldur þarf að ransaka þetta alt betur bæði þarna og annarstaðar í sveitinni. Það er þá í þessu svonefnda Viki sem kolin aðallega virðast vera og þar fyrir ofan.

Er þar vitanlega afar erfitt aðstöðu, þar eð það er uppi undir brún á háu fjalli og engin höfn þar nálægt. Eigi að síður er sjálfsagt að þetta sé ransakað betur en gert hefir verið, grafið að mun inn í fjallið og það víðar en á einum stað, og sýnishorn send suður til efnafræðislegra athugana. í fljótu bragði virðast kolin dágóð — betri en Tjörneskolin. Þau eru heldur dekkri og glansmeiri og sérstaklega að mun þyngri í sér, og gefur það von um að meira hitagildi sé í þeim, en Tjörneskolunum.

Hér er óneitanlega verkefni fyrir hreppsnefndina, stendur það henni næst að láta ýtarlega ransókn fara fram á kostnað hreppsins, því síður er að búist við að einstakir menn athugi það að gagni. Þarf auðvitað fyrst að semja um það við eiganda Engidals, Odd Jóhannsson skipstjóra. á Siglunesi, svo það sem gert verður, sé gert með hans fulla leyfi.

En hér dugar heldur enginn dráttur, því jafnvel þó ekki væri þarna nema lítið eitt af kolum, þá sjá allir hvílík feykna hjálp það væri, núna í eldiviðarvandræðunum, ef hægt væri að fá þarna kol til vetrarins, hvað þá ef um framtíðar kolanámu væri að ræða. Sýnishorn þau, sem umgetur hér að framan, eru til sýnis, þeim er þess óska, á afgreiðslu blaðsins.
--------------------------------

Betra er ilt að gera, en ekki neitt.

Þessi málsháttur er víst ríkjandi í huga þessa S. K. er skrifar um hlutaveltu Sjúkrasamlagsins í síðasta tbl. Frams. Þær ómerkilegu línur hefðu betur höfundarins vegna setið heima í föðurhúsum, þó til hefðu orðið, en koma fyrir almenningssjónir, svo útblásnar og illgirnislegar sem þær eru. Hlutavelta sú sem umræðir í nefndri grein, var að engu leyti lélegri en hlutaveltur eru yfirleitt.

Þar voru margir mjög góðir munir, t. d. heil og hálftn. af salti, ein síldartunna með síld, og margir munir alt að 10 kr. virði en flestallir drættirnir kostuðu töluvert meira en það sem drátturinn var seldur, að undanskildum þessum póstkortum, sem S. K. gerir sérstaklega að umtalsefni og er það ekkert nýtt þó lélegir drættir fljóti með á hlutaveltum, sem eru haldnar í þeim tilgangi að aura saman í sjóð þarflegra fyrirtækja.

Og þó að farið væri svo langt að seldur var inngangur á 25 aura fyrir fullorðna, en börn höfðu frían aðgang, þá eru það engin nýmæli því að hlutaveltum er vanalega seldur aðgangur.

En hér var ekki farið eins langt eins og sumstaðar á vinna aldrei góðu málefni ógagn Þau eru á þeim grundvelli bygð að þau dæma sjálf sig dauð og ómerk. Þrátt fyrir það læt eg hér fylgja yfirlýsingu tveggja óvilhallra utansýslu manna sem voru svo velviljaðir að hjálpa til að númera og afhenda á nefndri hlutaveltu, og sýnir sú yfirlýsing að umsögn S. K. í umræddri grein er ósönn og villandi.

Kjartan Jónsson.

Að gefnu tileini er oss undirrituðum ljúft að lýsa því yfir, að við vorum með og sáum er númeraðir voru drættir á hlutaveltu þá er Sjúkrasamlag Siglufjarðar hélt hér sunnudaginn 18. þ. m. og vissum hve mörg núll voru látin í kassana og getum við því fullyrt að drættir á þessari hlutaveltu voru ekkert lakari en venja er til og núll með færra móti; hlutaveltan með öðrum orðum í fullkomnu meðallagi.

Þess skal einnig getið að við höfum ekki fyr orðið þess varir að gerður væri úlfaþytur út af því þó hlutaveltur væru ekki vís gróðavegur fyrir þá sem draga, heldur hefir alt gott og hugsandi fólk litið fremur á fyrirtæki það er hlutaveltunni var ætlað að styrkja heldur en það hvað drátturinn sem það fékk var margra peninga virði. Og á gagnsemi fyrirtækisins getur í þessu tilfelli ekki leikið vafi.

Siglufirði 26. agúst 1918. Bjarni Jósefsson Felix Guðmundsson.

Frekari umræður um þetta mál verða ekki leyfðar hér í blaðinu.

Ritstj.
------------------------------------------------------------------------

Fram - 7. september 1918

2. árgangur 1918, 35. tölublað

Ver farið en heima setið. - Svar til Jóns Sigtryggssonar og Jóhannesar Björnssonar.

Grein mín í 28. tbl. , Fram þ. á. með yfirskriftinni: »Ómannúðleg meðferð,« hefir ollað þeim brjóstsviða Skagfirðingunum, hr. Jóni Sigtryggssyni á Framnesi og hr. Jóhannesi Björnssyni á Hofstöðum. Hefir þeim fundist ástæða til að svara henni, en svarið er ekki mikils virði, því það hrekur að engu leyti meginatriði minnar greinar, þau: að hið umrædda naut hafi mist eina klaufina nálægt bænum í Skarðdal, og þar af leiðandi hlotið að taka út miklar kvalir á leiðinni. Annars lítur svo út sem þeim hafi þótt mikils við þurfa, því í fyrsta lagi fá þeir þriðja mann í félag við sig og gefa honum umboð til þess að koma grein þeirri til ritstjóranna er birtist í 33. tbl. Fram.

Hefir hann prentfrelsislögin að bakhjalli og heimtar greinina birta í blaðinu samkvæmt þeim, liggur næst að álíta að þrímenningarnir hafi verið hræddir um að greinin fengi ekki upptöku í biaðið, það þurftu þeir ekki að óttast, en prentfrelsislögin voru þeim þarna að litlu gagni ef greininni hefði verið neitað, því í henni felst engin leiðrétting eða ný skýring.

Í öðru lagi safna þeir saman vottorðum margra manna, sem ekkert vita um meðferð nautsins eða líðan á leiðinni; hve mikið gildi þessi vottorð hafa að öðru leyti, skal vikið að síðar. Mikill hluti svars þessara manna er um viðtökur þær er þeir hafi fengið í Siglufirði, sérstaklega hjá Gísla bónda Bjarnasyni í Skarðdal. Hirði eg eigi um að skattyrðast við þá um það atriði, en ef eftirtekt þeirra hefir verið góð hafa þeir hlotið að sjá, að gripir voru í sumum húsum hjá bóndanum og sum í Byggingu, var Því ekki að vænta húsnæðis fyrir nautin nema í einum kofa er þeir svo dæma skepnuhús bóndans eftir.

En þó þeim hafi litist illa á skepnuhús hér í Siglufirði, þá get eg þó fullvissað þá um það, að þau hafa fram að þessu skýlt skepnum svo vel, að engar hordauðafregnir hafa borist úthéð- an úr sveit, og væri betur að hægt væri að segja hið sama um öll héruð landsins. Þá kemur að aðalatriðinu: meðferð nautsins heima og á ferðalaginu. Eg hefi sent dýralækni klaufina þá er móti var þeirri er afdatt, og vil eg tilfæra hér umsögn hans um hana. —

„Klaufin virðist vera af þroskuðu nauti. Fremri partur sólans er holur, ytri hornveggurinn hvelfist um of inn á sólann og þrýstir á hann, og fyrir aðgæsluleysi manna eða vankunnáttu hefir klaufin haft næði til að vaxa fram skökk og snúin. Sólinn hefir þar af marist við kyrstöður á hörðum bás, sennilega.

Af marinu hefir sólinn svo rotnað, og hola er eftir á stórum parti. Þegar nú naut er rekið langar leiðir svona til fótanna, er ofur eðlilegt að bólga komi í leðurhúð klaufanna, því eins og gefur að skilja, er gangur nautinu miklu örðugri með skemdum og snúnum klaufum, en ef þær væru réttar. — Það verður að álíta, að reyndum bændum, eða mönnum sem hafa alist upp við nautgripahirðingu, sé ekki vorkunn að hirða klaufir á nautum, eða veita því eftirtekt ef þær vilja vaxa óeðlilega. Þetta hefir eigi að síður mistekist fyrir eiganda hins umrædda nauts, og er leiðinlegt fyrir hann.“

Með skýringu dýralæknis þykist eg hafasannað: Að nautið hefir að þesu leyti orðið að þola illa meðferð í vetur. Að eigandanum hefir verið það kunnugt sannar grein hans, og í þriðja lagi hlýtur öllum þeim er undir vottorðið hafa skrifað að hafa verið það kunnugt, vottorðið ber það með sér að þeim er gagnkunnugt hús nautsins og öll hirðing þess.

Gildi þessa vottorðs fer því að verða fremur rýrt, að ekki sé meira sagt. Að klaufin datt af nautinu er sannað með vottum, enda reyna þeir herrar greinarhöfundar ekki til að mótmæla því. Það, að klaufin datt, sannar að illa hefir verið farið með nautið á leiðinni, því ill meðferð er það, og misþyrming á skepnum, að láta þær ganga langan veg og illan með lausar klaufir.

Þó þessir menn, þeir hr. Jón Sigtryggsson og Jóhannes Björnsson, hæðist að mannkærleik mínum, og einnig að hluttekningu minni með dýrunum, verður þeim það aldrei til málsbóta. Hve mikið sem þeir reyna til að skýra málið frá þeirra hlið, þá stendur þó fast og óhaggað: að þeir komu með naut tíl Siglufjarðar, er var i því ástandi, að þeir gátu ekki komið því síðasta áfangann, stuttan spöl, og að ein klaufin datt af því eftir ferðalagið.

3. sept. 1918. Hannes Jónasson
----------------------------

Löggæslan á Siglufirði.

Þar sem margir kaupstaðarbúar hafa ekki haft svefnfrið fleiri undanfarnar nætur fyrir hávaða á götunum, svo sem söng, skömmum og áflogum, sem ölvaðir menn hafa valdið, flaug mér í hug, að líta í lögreglusamþykt Siglufjarðar til að vita hvort framferði þessara næturgöltrara væri samkvæmt ákvæðum hennar. Í löggæslusamþyktinni er tekið skýrt fram, að ekki meigi á nokkurn hátt raska friði borgaranna, hvorki á nótt eða degi.

Það má því heita næsta merkilegt að lögreglan skuli láta þetta afskiftalaust, ekki síst þegar þess er gætt, að fyrir nokkru var þessi næturháreisti kærð fyrir lögreglustjóranum hér. Mælt er að hann telji sér ekki skylt að vaka á nóttunni og mun hreppsnefndin því hafa samþykt að launa næturvörð af hreppsfé, en annaðhvort hefir þessi næturvörður ekki verið skipaður enn, eða þá að hans gætir ekki meira en vatnsdropans í úthafinu, svo ekki sé tekið dæmi af krækiberinu á vonda staðnum. Eitt er víst, að ólætin eru söm eftir sem áður. Er ekki annað sjáanlegt, en kæra verði til æðri staða, ef bót á að fást ráðin á þessum ófögnuði.

Að öðru leyti er það athugunarvert fyrir lögregluna, hve margir eru hér ölvaðir, og það sumir dag eftir dag, þar sem hún, lögreglan, á heimtingu á að hver einstakur segi til, að viðlögðum sektum, hvar og hvernig hann hafi ölvaður orðið. Lítt er það skiljanlegt, að aðkomumenn hafi lögmætar áfengisbirgðir til að »fylla sig í,« og ekki skyldi maður ætla, að læknarnir hér misbrúki svo vald sitt, að sá drykkjuskapur, sem á sér hér stað, sé þeim að kenna. Væri gengið röggsamlega fram í því, að grafa fyrir þessa meinsemd, gæti það orðið til þess, að næturvörður yrði óþarfur og sparaðist hreppnum þá fé það, sem til hans gengur, eða á að ganga.

Öllum þeim, sem unna heil! og sóma Siglufjarðar og halda framförum hans hæst á lofti, ætti að vera það sérstakt áhugamál, að koma í veg fyrir þann ósóma, sem hér hefir verið gjörður að umtalsefni. Það er hart, að verða að hlusta á það daglega, að sagt sé að hér líðist alt átölulaust; hér megi allir lifa og láta eins og þeim sýnist. Framfarablærinn verður daufari og réttindakrafa íbúanna glamurkendari, ef þeir, eða hinir ráðandi menn kaupstaðarins — bráðum bæjarins — geta, eða vilja ekki halda bænum í því sniði, sem almenn sómatilfinning og siðgæðiskend heimta.

Þetta næturfólk er flestalt aðkomandi hér, og sjálfsagt siðgæðis og sómafólk heima hjá sér. Því þá að líða því að haga sér hér eins og skríll? Er nokkur ástæða fyrir því? Lögreglan hlýtur, sóma síns vegna, að svara því á einhvern hátt.

30. ágúst 1918. Guðbj. Björnsson.
---------------------------

Engidalskolin.

Hreppsnefndin er að leita hófanna um að fá ókeypis verkfróðan mann, til þess að athuga kolin á Engidal. Nokkur von er til þess að það takist von bráðar, en afgert er það ekki enn.

Skólanefndin hefir ráðið þá Stefán Sveinsson og Guðmund. Skarphéðinsson sem kennara við barnaskólann næsta vetur.

Sigfús Vormsson hefir að sögn selt Hjalta Jónssyni hús sitt og lóðarréttindi á Grandanum fyrir 10 þús. kr. Mun það vera nálega þrefalt virðingarverð eignarinnar.
------------------------------

Yfirlýsing.

Samkvæmt prentfrelsislögunum krefst eg þess, herra ritstjórar, að þér takið til birtingar í næsta eða næstnæsta tlb. af »Fram« eftirfarandi yfirlýsingu.

Útaf grein herra Kjartans Jónssonar í 34. tbl. af »Fram« leyfi eg mér að taka fram, að athugasemd mín, viðvíkjandi hlutaveltu Sjúkrasamlags Siglufjarðar, var ekki gerð í þeim tilgangi, að skaða sjúkrasamlagið, eða tortryggja stjórn þess, heldur vildi eg benda nefnd þeirri á, er stóð fyrir hlutaveltunni, að hún hefði farið lengra á því sviði, en hér hefði áður verið vani, og það á þann hátt að henni hefði ekki orðið það sæmdarauki.

Eg benti henni á það í þeim tilgangi einum, að betur yrði vandað til næstu hlutaveltu samlagsins.

Ummælum herra Kjartans um illgirni mína og óhlutvendni leyfi eg mér að vísa heim til föðurhúsanna, sem ómerkum orðum. S. K.
----------------------------------

Fram - 14. september 1918

2. árgangur 1918, 36. tölublað

Hvað veldur?

Fyrir all-Iöngu síðan var götunum hér í bænum gefið nöfn, og var þá jafnframt ákveðið að tölusetja húsin og festa götunafnspjöld upp. Löngu áður en skírnin komst á göturnar var mál þetta komið á döfina, en mest mun það hafa rekið eftir, að sýslumaður hafði oft og ríkt gengið eftir að þetta væri gert. En hann mun hafa ætlast til meira en skírnarinnar einnar, því lítið lið er að henni ef húsin fá ekki númer.

Þetta þrekvirki, að gefa götunum nöfn, virðist hafa tekið svo á krafta hreppsnefndar, að hún hefir ekki séð sér fært að leggja út í að framkvæma meira í þessu máli, eða að minsta kosti ekki svo að lýðum sé Ijóst, þó veit eg til þess, að talað var við mann síðastliðið haust um að taka að sér verkið við að númera húsin, en við það umtal eitt hefir setið fram að þessu.

Þetta atriði að númera húsin er þýðingarmeira en margir gera sér ljóst, þó liggur sem þýðing ekki svo djúpt, að hreppsnefnd sé vorkunn að finna hana, og skal hún því ekki skýrð hér. Það er satt, að hreppsnefnd hefir afarmikið að gera hér, en þetta mál kostar ekki mjög mikla fyrirhöfn, hvorki andlega né líkamlega, og hefði sjálfsagt getað verið komið í framkvæmd ef dugnaður hefði verið annarsvegar.

Það er ekki nóg að hafa sífelt á vörunum framfarir Siglufjarðar, ef svo mikið af því, sem nauðsynlega þarf að gera, og auðvelt er að gera, kemst ekki í framkvæmd. Hvað veldur þessum drætti skal látið ósagt hér, hvort það er eins manns sök eða sjö manna, er ekki gott að segja. Máske það megi klessa því á stríðið, því er víða kent um alt er aflaga fer.

H. J.
-----------------------------

Hallgrímur Tómasson kaupmaður í Rvík. (frá Siglufirði), hefir fengið staðfestingu stjórnarráðsins á ættarnafninu Hallgríms, handa sér og sonum sínum.
--------------------------------------------------------------------------------

Fram - 5. október 1918

2. árgangur 1918, 39. tölublað

Kolaransóknin í Engidalslandareign.

Litlar líkur til að þar séu kol. Strax eftir að kolamolar þeir fundust — sem áður hefir verið getið um — í fjallinu ofan við Engidal, reyndi hreppsnefndin að fá hjá stórnarráðinu hæfan mann til þess að ransaka möguleika fyrir kolanámi þarna, og aðrar ástæður. Stjórnarráðið vísaði þegar til landsverkfræðings, sem tók þessari málaleitun vel, og lánaði hingað reyndann mann frá Tjörnesnámunum. Maður þessi kom svo hingað með »SterIing« síðast og byrjaði þá þegar ransóknir við þriðja mann, og var við þær í þrjá daga.

Um árangur þeirra ransókna og um skoðun hans á möguleikum fyrir kolavinslu þarna, látum vér oss nægja að vísa í eftirfarandi skýrslu hans til landsverkfræðings, dagsetta hér á Siglufirði 26. f. m.

»Um leið og eg hérmeð leyfi mér virðingarfylst að senda yður, herra verkfræðingur, sýnishorn af kolum þeim, er eg undanfarna daga hefi tekið úr Engidalsfjalli við Siglufjörð, skal eg leyfa mér að gefa eftirfylgjandi skýrslu þessu viðvíkjandi.

Strax má taka það fram, að mestu líkur eru til þess, að kolanám á þessum stað verði ekki til verulegs gagns eða frambúðar. Aðstaða öll er ákaflega ill. Eg lét grafa í fjallið á nokkrum stöðum, þar sem mér var vísað til. Nýfallinn snjór tafði töluvert fyrir vinnunni. Kolalag fann eg ekkert en steingerða trjákvisti fann eg á einum stað, á að giska 1500 fet yfir sjómál innan um leirruðning og brunnið grjót og lágu trjáleyfar þessar mjög óreglulega.

Frá næstu brún fyrir ofan og ofan að þessum kolum voru á að giska 15 metrar. Þegar grafið var hérum bil 3 metra inn í skriðuna virtist taka að mestu fyrir kolin eða þessar trjáleyfar. Fönn og illviðri gjöra frekari ransóknir á þessu alt að því ómögulegar á þessum tíma árs. —«
-----------------------------------------------------------------------------

Fram - 12. október 1918

2. árgangur 1918, 40. tölublað

Ofsaveður með miklum sjógangi gerði hér aðfaranótt sunnudags síðastt. og urðu ýmsar skemdir. Galeas er hér lá, rak á grunn á Skútufjöru, og er tvísýnt um að hann náist út. Skipið er eign Friðriksens timburkaupmanns í Rvík. og átti að sögn að taka hér síld til Svíþjóðar. Njáll hákarlaskip hinna sam. ísl. verslana hraktist inn á leiru, og einn mótorbátur fór á sömu leið. Bryggjur brotnuðu hjá H. Söbstað.

Alla vikuna hefir verið vesta veður, rok og úrfellir og ýmsar aðrar skemdir og tjón orðið. Má þar á meðal annars nefna að platning féll niður hjá Helga Hafliðasyni, var á henni síld og salt, alt mun þó hafa náðst upp. Barkur sá, er Sören Ooos stórkaupmaður lét setja niður sem bryggjuhöfuð við síldarstöð sína í Hvanneyrarkrók rótaðist allmikið, og braut utan af sér staura og binding, er sett hafði verið á hann, voru þó staurarnir reknir niður og vel frá öllu gengið. Eitthvað mun hafa tekið út af fé eins og vanalegt er hér á haustum þegar sjórót er mikið, hve margt það hefir verið er ekki kunnugt.

»SöIve« hið sænska gufuskip er fermdi sig hér fyrir nokkru með síld af þeirri er sænska stjórnin hefir keypt af landsstjórninni, liggur hér enn. Fær ekki leyfi til að fara heimleiðis með farminn. Þykir mörgum það einkennileg ráðstöfun. Hverjar ástæður eru fyrir þessum farartálma, er ekki vel ljóst. Þeir síldarkaupendur er fermdu skipið hafa enn ekki fengið móttökuskírteini fyrir síldinni þrátt fyrir marg ítrekaðar tilraunir.

»Valkyrien« dönsk skonnorta liggur hér; á hún að taka síld til Svíþjóðar. Var byrjað að ferma hana, en því er nú hætt, þykir síldarseljendum ekki álitlegt að ferma, þar sem skipin ekki fá fararleyfi, en síldin er sagt að sé á ábyrgð þeirra þar til skipin eru lögð á stað.
----------------------------------------------------------------------

Fram - 19. október 1918

2. árgangur 1918, 41. tölublað

Vatnsleiðslurörin

Nú hefir snjórinn breitt sig yfir Siglufjörð; eins og sakleysishjúpur liggur hann yfir landinu. Hið hreina sakleysi vekur ætíð góðar og göfugar tilfinningar samúð og hlýleik, en þegar. undir sakleysis blæjunni leynast illir lestir, þá er hún ekki annað en fals og fláræði, og á engan rétt á sér, þarf að svifta henni í burtu svo hið rétta komi í Ijós.

Í þetta skifti — reyndar áður að haustlagi — hefir snjórinn hulið merki um hirðuleysi á nokkru af eigum hreppsins. Að hirða þær illa er líklega ekki löstur, en galla tel eg það vera á þeim er hlut eiga að máli. Það eru vatnsleiðslurörin sem eg á við. Hér út og upp á skriðunni liggur allstór bunki af þeim. Frá Hvanneyrarbrautinni og niður að hústóft Ásgeirs Péturssónar liggur löng leiðsla, sem aldrei hefir verið notuð síðan sú tóft var bygð 1916.

Í gegnum brautina út við brúna á Hvanneyraránni liggja tvær lengdir að minsta kosti önnur brotin, þær hafa einnig verið þar síðan 1916. Fyrir ofan hús P. J. Thorsteinsons í Bakka er eitthvað af samskonar rörum sem ekki eru eign Thorsteinsons og því líkindi til að hreppurinn eigi. Eg get ekki álitið að þessi rör séu beinlínis vel geymd þar sem þau eru, verð að skoða það vanhirðingu að þau eru Iátin liggja svona hér og þar.

Rörin eru dýr nú orðið og það hlýtur að álítast skylda hreppsnefndar, að fara vel með eigur hreppsins. Eg álít að ekki sé til ofmikils mælst þó farið væri fram á, að þeir er um rörin eiga að sjá söfnuðu þeim saman á einn góðan stað, sem þau væru vel geymd á þangað til þau verða notuð. Það væri að minsta kosti myndarlegra, og betra til afspurnar, því fleiri munu hafa rekið augum í þetta en eg, og ekki alt heimamenn, sem eru orðnir vanir stjórnseminni hér.

14. okt. 1918. H. J,
-------------------------------------------------------------------------

Fram - 2. nóvember 1918

2. árgangur 1918, 43. tölublað

Hrossakjöt

Nýlega kom hingað til bæjarins Skagfirðingur nokkur með 5 hross. Seldi hann þau ýmsum, bæði til manneldis og hákarlabeitu. Eg hefi átt tal við einn þeirra er keyptu að manni þessum, var það veturgamalt tryppi er hann fékk, og kostaði það 100 krónur. Kjöt af þessu tryppi, að fráskildum beinum úr ganglimum, óg 140 pund.

Húðina seldi hann á 40 krónur, og slátur og mör er ekki ofreiknað á 10 krónur. Þá hafa þessi 140 pund kjöt kostað 50 krónur, eða um 35 aura pundið. Þetta má kalla ágætt -verð, sérstaklega þegar tekið er tillit til þess að kjöt af ungum hrossum er holl og mjög nærandi fæða, ólíku betri en kjöt af dilkarytjum þeim sem verið var að selja hér í haust.

Viðbjóður sá, sem menn áður höfðu á hrossakjöti, og jafnvel á þeim er lögðu sér það til munns, er nú óðum að hverfa, þó ekki sé hann að öllu dottinn úr sögunni. Þó eru augu manna ekki svo opin sem vera skyldi fyrir ágæti þessarar fæðu, og væri óskandi að menn í framtíðinni athuguðu hvort ekki væri réttara að kaupa meira af hrossakjöti en minna af rýru kindakjöti.

Úti um heiminn fer hrossakjöts- át stöðugt í vögst, t. d. voru etnir 60.000 hestar í Parísarborg á einu ári fyrir fáum árum síðan.

H. J.
------------------------------------------------------------------------------

Fram - 9. nóvember 1918

2. árgangur 1918, 44. tölublað

Tilkynning

Fimtudaginn 6. þ. m. var seld hér á uppboði hvít ær 3ja vetra gömul, mark líklega hamar hægra, tvísíýft aftan vinstra og biti framan. Brennimark B. E. eða B. F. ennfremur var saman snúinn vír í hægra horni. Réttur eigandi vitji andvirði hennar að frádregnum kostnaði til Hreppstj. Hvanneyrarhrepps.

Peningabudda hefir tapast. í buddunni á að vera lykill, ennfremur innleystir arðmið- ar af hlutabréfum Eimskipafélagsins og f!eiri áríðandi skjöl. Finnandi er vinsamlegast beðinn að skila buddunni til undirritaðs gegn fundárlaunum. Siglufirði 7. nóv. 1918. Guðm. Hafliðason.

Þú sem tókst stigann fyrir austan hús Guðbj. Björnssonar ert aðvaraður um að láta hann þangað aftur, ella verður þín vitjað á réttilegan hátt.

Axel Friðbjarnarson.
-----------------------------------------------------------------------------

Fram - 23. nóvember 1918

2. árgangur 1918, 46. tölublað,

H. Söbstad liggur þungt haldinn.

Ole Tynes hefir náð út seglskipinu »Gunnvör« sem rak inn á leiruna í haust, og liggur það hér við bryggju og undirbýr sig til ferðar til Noregs, þar á að eftirlíta það og gera við. Stýrimaður á því verður skipstjóri Þorl. Þorleifsson frá Staðarhóli.
---------------------------------------------------------------------------------

Fram - 14. desember 1918

2. árgangur 1918, 49. tölublað

Rafljósin.

Sá tími nálgast nú óðum, að vatnið í Hvanneyraránni hætti að nægja til ljósframleiðslu fyrir bæinn. Undanfarna vetur hafa ljósin byrjað að deyja um og fyrir jól; eitt árið í byrjun desember — alt eftir tíðarfarinu. Orsök þessa vatnsleysis þýð- ir ekki að fást um, frekar en gert hefir verið.

En bent skal á eitt ráð, sem nokkuð getur bætt þennan leiða galla, og það er, að ljósin séu s p ö r u ð svo sem frekast eru föng á. Það er að vísu ekki hægt að skipa neinum, sem ljósinnleiðslu hefir, að nota ljósin ekki, en það er skylda hvers manns — ;gagnvart sjálfum sér — og öðrum — að nota að eins ljós í þeim herbergjum, þar sem nauðsynlega er þörf á ljósi, þegar vatnsskortur er farinn að gera vart við sig.

Menn ættu alvarlega að hafa það hugfast, hve ó- þægilegt og oft mjög bagalegt það er, þegar rafljósin deyja á miðju kvöldi, eða fyr, og ekki er annað að grípa til en kerti — því óvíða munu vera til olíulampar. Menn ættu að hafa þetta hugfast áður en að því kemur að ljósin byrja að deyja, og gera alt sitt til þess, að þau endist sem lengst.

— Eina ráðið er þetta: Látið hvergi lifa ljós, nema þar sem nauðsynleg í er, og látið um fram alt í sem allra fæstum stöðum lifa ljós yfir nóttina. Það er með ljósin, eins og svo margt annað, að »eins dauði er annars líf,« fyrir hvert ljós sem slökt er lengist sá tími sem vatnið treynist. Vatnið er nú þegar farið að minka að mun í þrónni, og má búast við að ljósin fari að bregðast manni innan fárra daga. Nema alvarleg samtök verði höfð með að spar þau. Eftir að þetta var skrifað og sett í blaðið hafa ljósin byrjað að bregðast. Því meiri er nauðsyn alvarlegs sparnaðar.

Mannfjöldi í Hvanneyrarhreppi. 1910 — 1917.

Mannfjöldi í Hvanneyrarhreppi. 1910 — 1917.