Glefsur frá blaðinu Fram – Prentað í Siglufjarðarprentsmiðju Fram 1919

3. árgangur 1919, 1. tölublað

Bann.

--- Í dag sást auglýst á götunum, að Siglufjörður væri fyrst um sinn í samgöngubanni, er sú bannfæring frá sýslumanni Eyjafjarðarsýslu og mun enginn undrast yfir henni. Hér norðanlands hefir fram að þessu ríkt sú viturlega stefna að reyna af ítrasta mætti að verjast hinni skæðu spönsku veiki, eft nú höfum við Siglfirðingar slitið bandalagið og opnað faðminn fyrir hinum norsku skipum og með því fyrir möguleikum til þess að veikin komi hér, ef hún er í þeim.

Valdhafar hér eru á þeirri skoðun að af skipunum stafi engin hætta, og má vel vera að þeir hafi rétt fyrir sér, en sannanir hafa þeir engar, er þeim að líkindum ekki fyllilega ljóst hverja ábyrgð þeir taka sér á herðar. Þrátt fyrir það þó byrjað sé að afgreiða skipin, er svo ákveðið, að menn þeir er í skipunum þurfa að vinna, skuli ekki hafa neitt samneyti við skipsmenn, ekki svo mikið sem drekka vatn um borð.

En mér er spurn. Hví þarf þessa varasemi, ef engin hætta er með að sýking geti orðið af skipsmönnum? Er treystandi að þessum fyrirskipunum verði hlýtt? Eða hafa þeir, sem ráðið hafa því að skipin skuli fermast, ekki fulla trú á því að það sé hættulaust? Eru þeir vísvitandi og viljandi að hleypa veikinni inn í sveitina? Manni verður ósjálfrátt að leggja þessar spurningar fyrir sig. Hið eina rétta var að láta skipin liggja hér svo langan tíma, að útséð væri að nokkur hætta væri að umgangast skipsfólkið. Jafnframt átti að hafa sterkan vörð á því að skipsmenn ekki gengju á land og að enginn færi um borð.

Okkur varðar ekkert um tafir skipanna. í fyrirrúmi fyrir öllu á að sitja, að verja sveitina fyrir veikinni svo lengi sem föng eru á. Þeir menn, sem hafa ráðið því að byrja skyldi á að ferma skipin nú þegar, spila hátt spil, það er líf manna h|r sem það gildir. Eg óska og vona að þeir vinni. En framkoma þeirra er jafn óvarleg þó þeir vinni, þeir hafa eingar rökstuddar sannanir, einungis líkur fyrir því að hættan sé engin. Þetta bann er um óákveðinn tíma.

Að líkindum þar til nokkrir dagar eru liðnir eftir að búið er að afgreiða skipin, ef enginn veikist. En það er von á fleiri skipum, og þau geta komið áður en þessir dagar eru liðnir, og þá framlengis bannið, og getur náð yfir langan tíma. Skyldi það ekki geta orðið einhverum hvumleitt?

Þangað til eg fæ fullnægjandi skýringar verð eg að álíta að þetta frumhlaup, að byrja að ferma skipin fyr en hættulaust var, sé Siglfirðingum til mikillar vanvirðu, þar sem allar nærliggjandi sveitir halda fast við varnarstefnuna. Og þeir munu margjr sem eru á sama máli og eg.

Á Gamlársdag. Ölver.
----------------------------------------------------------------------

Fram - 11. janúar 1919

3. árgangur 1919, 2. tölublað

Um sóttbannið.

Herra ritstjóri! Viljið þjer ljá þessum línum rúm í blaði yðar.

Á fundinum, sem haldinn var hjer á dögunum um sóttvarnarráðstafanir og samgöngubann hjer í Siglufirði, hafði jeg ekki hjá mjer símskeyti, sem jeg hafði fengið frá landlækni. Jeg mundi ekki með vissu hvað i því stóð og þorði ekki að vitna til þess í ræðu minni. Þetta símskeyti breytir þó talsvert málavöxtum og læt eg það því koma hjer fram.

Rvík. 29. des. 1918. Hjeraðslæknir Siglufirði.

Ef báðir skipstjórar láta í tje skriflega yfirlýsingu um það að á skipunum*) sje ekki og hafi ekki verið hvorki á brottfararstað nje á leiðinni neinir sjúkir menn, sem grunur geti leikið á um að hafi Influenzu eða annan næman sjúkdóm, eða lík manna, sem dánir sjeu úr slíkum sjúkdómum og ef þjer við rannsókn á skipunum finnið engan þar með influenzu eða annan næman sjúkdóm, ber samkvæmt íslenskum lögum að veita þessum skipum tafarlaust fulla heimild til að hafa öll nauðsynleg mök við land og landsmenn. En stjórnarráðið mun í símtali við sýslumann Eyfirðinga ákveða hvort einangra skuli Siglufjörð til frekari tryggingar gegn influenzu fyrir aðrar sveitir þar til þessi skip eru afgreidd og full vika liðin þar frá.

Landlæknir.

---- Af þessu má líklega betur skilja hvernig á banninu stendur og mína afstöðu til málsins. Viðvíkjandi sóttvörnum framvegis skal jeg geta þess að landlæknir sagði mjer í símtali í fyrradag, að nú væri að tilhlutun stjórnarráðsins hann (c: landlæknir) og læknadeild háskólans (c: allir kennarar háskólans í læknisfræði) að semja sóttvarnarreglur gegn spönsku veikinni, sem gilda ættu um alt land. Landlæknir taldi það óhæfilegt hve mikið ósamræmi væri í ráðstöfunum víðsvegar um landið; á Seyðisfirði er höfð ein leiðin, önnur á Akureyri, þriðja á Sauðárkrók o. s. frv.

— Mjer skildist að landlæknir mundi ætla sjer að leggja það til, að álíta skyldi hvern mann ósmitunæman, sem sóttlaus (hitalaus) hefði verið síðustu undanfarna 10 daga. Þetta kemur líka vel heim við það, sem stendur í bæklingi landlæknis um kvefpestina á bls. 5. — Jeg var því miður ekki búinn að lesa þennan bækling, þegar áðurnefndur fundur var haldinn og gat því ekki skírt frá hvernig aðrir læknar en »heilbrigðisráðið« á Akureyri líti á þetta mál.

----Jeg hefi það eftir manni á Akureyri, að óvíst sje að Akureyringar muni hlíta þannig gjörðum reglum og bera fyrir sig að bæjarstjórn Akureyrar hafi boðist til að bera allan kostnað af sóttvörnum þar og sje því ekki skyldug að fara eftir öðru en sínu eigin höfði. Þetta er reyndar tæplega trúlegt — enda þótt Akureyringar eigi í hlut, nema hjer sje að rísa upp íslensk Bergen, sem stendur utanvið ramma þjóðfjelagsins.

Siglufirði 10. jan. 1919. Guðm. T Hallgrímsson.

*) Það er: »Rövær« og »Tiro«.
----------------------------

Bannið.

Á þriðjudagskvöldið síðastliðið boðuðu nokkrir menn til borgarafundar, var hann haldinn í barnaskólanum, og mætti þar fjöldi manna.

Tilefni þessa fundar var að komast að niðurstöðu um hvernig skyldi haga sér gagnvart skipi því frá Svíþjóð er þá hafði komið um daginn. Voru menn á eitt sáttir um það, að koma í veg fyrir að framlengt yrði, skips þessa vegna, bann það er Siglufjörður var settur í vegna afgreiðslu skipa þeirra er hingað komu um jólin. Þótti mönnum sú bannráðstöfun óréttlát og kendu ýmsum um án þess þó að hægt væri að fá að vita með vissu hverjar orsakir voru til bannsins.

Um það hvað gera skyldi, og svo um það hvað gert hefði verið í sambandi við hin áður umgetnu skip, urðu allmiklar og talsvert heitar umræður. Að síðustu var svohljóðandi tillaga frá Stefáni kennara Sveinssyni og Hannesi Jónassyni, borin upp og samþykt í einu hljóði:

Fundurinn skorar á hreppstjóra Hvanneyrarhrepps að senda þegar í stað fyrirspurn um það til stjórnarráðsins, hvernig Siglufjörður eigi að haga sér gagnvart skipum þeim, sem koma hér að sækja síld, til þess að verða eigi settur í sóttkví. Jafnframt skorar fundurinn á hreppstjóra Hvanneyrarhrepps að sjá um að als engin mök eða samgöngur verði við skip þau er kunna að koma. Hreppstjórinn sneri sér fyrst til sýslumanns Eyjafjarðarsýslu og æskti eftir að hann kæmi málinu áleiðis, en þar eð hann vildi ekkert sinna því, sendi hreppstjórinn fyrirspurnina beina leið til stjórnarráðsins.
--------------------------------------- «

Yfirlýsing

Þar eð eg hefi orðið þess var, að meðal margra annara lygasagna, sem ganga hér staflaust meðal fólks, bæði á þá menn sem unnið hafa að afgreiðslu skipanna og einnig á sjálfa skipshöfnina, er sú, að um borð í þessum tveim skipum »Rövær« og »Tiro« hafi komið upp veiki á meðal skipverja meðan skipin lágu hér á höfninni.

Og að við sem höfum með afgreiðslu skipanna að gera hefðum haldið þessu leyndn, þá vil eg hér með lýsa þessar sögur tilhæfulaus ósannindi og því til sönnunar láta birta eftirfarandi yfirlýsingar frá yfirmönnum beggja skipanna undirskrifuð á sömu klukkustund og þeir sigldu út af höfninni.

Vi undertegnede erklærer herved paa tro og love at der under skibets henliggen her ekki har forekommet noget tilfælde av sygdom, deriblandt ^spanske syke« og at den heller ekki har forekommet tidligere blandt mandskapet her om bord. Siglefjord den 8. jan. 1919 Jens Nilssen Otto Paust lte styrmand. förer af s.s. »Tiro< Sandefjord.

Undirskriftina staðfestir Siglufirði 8. jan. 1919 Guðm. Hafliðason hreppstjóri.

Bekræfter herved paa tro og love, at nu naar jeg idag forlater Siglefjord havn om bord i mit skib ikke findes en eneste syk mand, og ei har der forekommet noget sykdomstilfælde under opholdet her, ligesom der tidligere heller ingen sygdom her været om bord Siglefjord den 8. jan. 1919 Chr. Fagerland Chr. Hansen lste stynnand förer af s.s. »Rövær« Haugesund.

Undirskriftina staðfestir.

Siglufirði 8. jan. 1919 Guðm. Hafliðason hreppstjóri.

Viðvíkjandi þeim sem í seinni tíð hafa haft svo annríkt með þá svonefndu spönsku veiki og við að útbreiða ósannindi og lýsa vantrausti á sýna meðbræður. Til þeirra vildi eg beina þeirri spurningu hvort þeir gætu ekki fengið virðingarverðari atvinnu, sem gæti orðið þeim til meira gagns og heiðurs bæði nú og í framtíðinni, þar eð þá vantar bæði rétt og þekkingu til að setja sig sem dómara yfir annara gjörðir.

Siglufirði 10. jan. 1919. Ole Tynes.

-----------------------------------------------------------------------------

Fram - 25. janúar 1919

3. árgangur 1919, 4. tölublað

Næturvörður.

Dags daglega heyrast hér sögur um smáhnupl, vikulega um svona minniháttar þjófnað og á mánaðarfresti um innbrot og þjófnað í stærri stíl. Við játum allir að þetta sé illt og óviðunanlegt ástand; vítum það með hörðum orðum og köstum ótæpt hnútum að yfirvöldunum fyrir það að þau ekki taki í taumana, en að öðruleyti látum við sitja við orðin tóm með þessar lögleysur eins og svo margar aðrar hér í bænum; gjörum ekkert til þess að vernda rétt okkar sjálfir.

Allur fjöldinn af þessum gripdeildar og þjófnaðarsögum er nú að sjálfsögðu uppspuni; má þar benda á sumar móþjófnaðar sögurnar frá í fyrra vetur, því það er sannanlegt að heilir hlaðar sem átti að hafa verið stolið, komu ósnertir undan fönninni, en — því miður, — margar af sögunum eru sannar. Og hve skaðlegt það er fyrir þennan bæ og fyrir þjóðina að ala upp heilan flokk, heila kynslóð þjófa, um það þarf eg víst ekki að fjölyrða, en það gjörum við með því að ganga þegjandi fram hjá lögbrotunum og lögbrotsmönnunum í stað þess að hjálpa yfirvöldunum til að leiða þetta skuggafólk fram í dagsljósið og fá því hegnt öðrum til aðvörunar.

Með þessari þögn og afskiftaleysi gjörum við okkur siðferðislega samseka þjófunum. Meinleysið og góðmenskan gengur oflangt þegar t.d. húsbóndinn veit að fjósamaðurinn stelur af heyinu sem hann á að gefa kúnni og af mjólkinni, en lætur hann samt eftir sem áður gegna verkinu átölulaust. Fyrsta og lang veigamesta ráðið, við þessu bæjar- og þjóðarböli, er óefað það, að við allir, sem ekki viljum teljast til þjófaflokksins, sé- um alvarlega á verði sjálfir gegn þessum ófögnuði og kærum hlífðarlaust hvern og einn sem við höfum sannanir á að stelur. Þar má aftur gæta þess, að rata hið rétta meðalhóf, því eins skaðlegt og það er að hlífa þjófnum, þá er þó hitt hálfu skaðlegra að kæra saklausan mann og kasta með því skugga á æru hans.

Afleiðingar þess háttar frumhlaupa eru ætíð óútreiknanlegar fyrir upphafsmanninn. Annað ráðið er árvakur lögregluþjónn og trúr og pössunarsamur næturvörður, einn eða fleiri. Á þeim, sérstaklega þó næturverðinum, hvílir þá sú skylda að verja eignir okkar, fyrir þessum ófögnuði. Það yrði að sjálfsögðu erfitt verk og óþakklátt, en svo eru flest nauðsynjaverkin og þetta er eitt af þeim allra nauðsynlegustu, og ókleyft er verkið ekki ef sá sem starfar að því hefir fylgi og hjálp allra heiðarlegra borgara bæjarins.

Nú í haust og vetur hafa flestir síldareigendur haft næturvörð á bryggjum sínum. Samt hefir verið stolið. Munu nú margir segja að það sýni að stolið verði eins fyrir það og ekkert síður þó nú einn eða tveir næturverðir gengju hér á hverri nóttu, og hefðu allan bæinn til eftirlits. Þetta kann að vísu satt að vera, að fyrir þjófnað verði aldrei að fullu í veg komið, en hitt má líka segja og er enda altalað hér manna á milli, að næturverðir einstakra manna í haust, hafi verið mjög svo óheppilega valdir, sumir hverjir, eins og líka hitt, að hver þeirra um sig hefir aðeins passað upp á þá bryggju, sem hannátti að vaka yfir, en ekkert skift sér af þó stolið væri á næstu bryggju, rétt fyrir augunum á honum.

Aftur á móti myndi reglulegur næturvörður láta sig alt grunsamlegt jöfnu skifta hver sem hlut ætti að máli, og eg efast ekki um að honum myndi takast fljótlega að fá nátthrafnana sem núna ganga hér um á öllum tímum næturinnar, til að halda sig í hreiðrunum ef þeir ekki gætu gjört grein fyrir hvert erindi þeir ættu út á svo óvanalegum tíma. Vonandi verður nú þess ekki langt að bíða, að við Siglfirðingar fáum lögskipaðan fastan næturvörð — einn eða fleiri, — en meðan það ekki verður, og það verður að sjálfsögðu ekki í vetur, ættu útgerðarmenn og bryggjueigendur, eða þeir, sem mest eiga í þjófshættu hér, að samlaga sig og kosta sjálfir einn næturvörð.

Þetta yrði svo hverfandi kostnaðarauki fyrir hvern einstakan þeirra að það munaði þá ekki neinu en væri þeim og sveitinni í heild sinni næstum ómetanlegt gagn. Til þess starfa þyrfti að velja mann sem bæði væri trúr, einarður og karlmenni að burðum, því hann þyrfti að eiga það undir sér að bera af hverjum einum ef á þyrfti að halda. Aðalstarf þessa varðar yrði auðvitað að venja nátthrafnana af þarflausu flökti og það mundi ekki verða svo erfitt, taka þá sem hann stæði að stuldi eða gripdeildum, en reka hina í rúmin sem grunsamlegir væru ef þeir ekki gætu gert fullnægjandi grein erinda sinna.

Kostnaður við þetta, deildur niður á ein 10 til 12 félög og menn með stórum atvinnurekstri yrði alveg hverfandi. Annars er vonandi að hin nýja bæjarstjórn sem við völdum tekur hér 20. maí í vor, láti þetta verða eitt af allra fyrstu málum sem hún hefir til meðferðar og að hún og hinn væntanlegi lögreglustjóri ráði því farsællega til lykta. — Það er sannarlega komið meira en mál að reka af höndum sér þennan og margan annan ófögnuðinn sem vaxið hefir örara en illgresi í hlaðvarpa í frjósömum jarðvegi löggæsluleysis og skeytingarleysis hér í Siglufirði. Læt eg svo úttalað um þetta mál.

r — n
-----------------------------------------------------------------

Fram - 22. febrúar 1919

3. árgangur 1919, 8. tölublað

Lokun sölubúða.

Nýlega hefir Kaupmanna og verslunarmannafélag Siglufjarðar samþ., með innbyrðis samþ., að loka sölubúðum kl. 8 að kveldi, nema mánuðina júní, júlí, ágúst og sept. Tillaga hafði komið fram um að loka kl - 9 þessa 4 mánuði, en var feld með miklum meirihluta atkv. Var samþykt að setja engin takmörk um lokun búðanna þann tíma önnur en Þau, sem lögreglusamþyktin setur (klukkan 11,)
----------------------------

Siglufjarðarskarð.

Eins og flestum hér er orðið kunnugt lá leið mín yfir Siglufjarðarskarð 22. jan. s. l. og vildi mér það óhapp til að eg datt á svelli í ytri Skarðbrekkunni; rann eg niður eftir henni og stöðvaðist á neðsta staurnum sem grafinn er þar niður og meiddist eg töluvert mikið á staurnum. Voru þessir staurar settir niður fyrir mörgum árum og strengdur vír á þá til þess að fólk, sem yfir fjallið færi, gæti haft stuðning af því, en eins og eðlilegt er hefir vírinn ryðgað ísundur, en ekki verið endurbættur.

Hvort það er af trassaskap eða annara annmarka vegna skal eg ekki dæma um, en helst lítur út fyrir að trassaskapur ráði þar fyrir, því svo miklu hefir Siglufjörður haft umráð yfir af vír að hægt hefði verið að fá jafn fáa faðma eins og þurfa til að strengja á fyrnefnda staura. Ekki var meiðslið svo mikið sem eg fékk á fyrnefndum stað að eg gæti ekki gengið að mestu leyti hjálparlaust ofan í Skarðdal og fékk eg bestu viðtökur þar, var færður úr sokkunum sem voru blautir og lánað þurt til að fara í.

Einnig var sent suður í Leyning og Jón Jónsson bóndi þar fenginn til þess að hjálpa til að aka mér á sleða heim til mín. Í Skarðdal var ekki nema einn karlmaður heima og þurfti þar af leiðandi að fá mann af öðrum bæ. Þakka eg Skarðdals fólki innilega fyrir alla þá hjálp og nákvæmni sem mér var þar veitt. Þá, sem hafa látið sér það um munn fara að mér hafi engin hjálp verið veitt í Skarðdal, lýsi eg ósannindamenn að þeim ummælum þeirra.

Kristmar Ólafsson.
--------------------------------------

Fram - 8. mars 1919

3. árgangur 1919, 10. Tölublað

Hafnarbryggjan.

Fyrir nokkrum árum síðan, voru gerðir uppdrættir að fyrirhugaðri hafnarbryggju og öldubrjót norðaustan á eyrinni, yst á lóð Söbstaðs. Nokkru síðar var svo keypt spilda af Söbstað í þeim tilgangi að byggja þarna hafnarbryggju. En einhverra hluta vegna hafa uppdrættir þessir ekki líkað, eða ekki þótt ábyggilegir, því á síðast liðnu sumri var hr. Jón Þorláksson verkfræðingur fenginn hingað til þess að mæla svæðið og gera uppdrætti og kostnaðaráætlun um byggingu þessarar bryggju.

Nú fyrir skemstu hefir komið nokkuð af þessum nýju uppdráttum ásamt lýsingu á þessu mikla mannvirki, eins og Jón Þorláksson hugsar sér að það verði. Skal hér ekki farið inn á að lýsa því, hvernig hann hugsar sér tilhögun og lögun byggingaunnar, aðeins skal það tekið fram, að fyrirkomulag alt og lögun bryggjanna virðist í fljótu bragði mun hentugra eftir þessum nýu uppdráttum, heldur en þeim gömlu. Afgangur uppdráttanna, ásamt sundurliðaðri kostnaðaráætlun er væntanleg hingað með næsta landpósti.
----------------------------------------------------------------------

Fram - 22. mars 1919

3. árgangur 1919, 12. tölublað

Þjófnaður í Siglufirði.

Í 4 töiubl. »Fram« þ.ár kom grein með yfirskriftinni »Næturvörður.«

Hún var eftir einhvern grímuklæddan náunga. Er eg hafði lesið þá grein þá varð mér fyrst fyrir að svipast eftir athugasemdum við hana frá ritstjórunum. Sú leit varð árangurslaus. Mér kom þá til hugar að þeim mundi hafa láðst að gera athugasemdir við hana, en hitt síður að annar ritstjórinn Hannes Jónasson væri henni hjartanlega samþykkur, eins og eg þykist nú viss um að hann sé. Því í síðasta tölubl. >Fram« í greininni um miðsvetrarfundinn segir hann — að greinin hafi flutt ljótan sannleika.

Ekki dylst mér það að sá sannleikur — er Hannes kallar — er ljótur hvar sem hann á sér stað, en eg verð að mótmæla því að það alt sé sannleikur um Siglfirðinga, sem farið er með í nefndri grein, þó Hannesi finnist það. Eg skil varla að hann hafi munað alt, sem stóð í greininni þegar hann tók sér þessi orð í munn. Því að áðurnefnd grein er víða svo stórorð og bólgin af staðlausum fullyrðingum í garð Siglfirðinga, að eg þóttist sannfærður um að enginn, sem þekti hér vel til — en það hélt eg að Hannes gerði — gæti sagt að hún flytti sannleika,

En nú þegar sá maður, sem ætla mætti að þekti hér vel til, staðfestir þessi ummæli nefndrar greinar um okkur Siglfirðinga, þá get eg ekki lengur þagað. Eg vil benda á nokkur atriði í greininni. T. d. fer höfundur þannig á stað: »Dagsdaglega heyrast hér sögur um smá hnupl, vikulega um svona minniháttar þjófnað og á mánaðar fresti um innbrot og þjófnað í stærri stíl.«

Síðan í haust hefi eg heyrt fimm þjófnaðarsögur en veit aðeins um að tvær af þeim eru sannar.

Eg hefi ekki verið mér úti um þannig sögur, en það hugsa eg að þeir menn hljóti að vera, sem geta staðfest aðrar eins öfgar eins og eg held að höfundur nefndrar greinar fari með, í sumum atriðum. Það er ekki nema eðlileg afleiðing af því hvernig höfundur fer af stað, þar sem hann segir á öðrum stað: »og hve skaðlegt það er fyrir þennan bæ og fyrir þjóðina að ala upp heilan flokk, heila kynslóð þjófa.«

Já, víst er það skaðlegt hvar og á hvaða tíma sem er. En þegar farið er að ala hér upp »heila kynslóð þjófa« í jafn fámennu þorpi, þá verða líklega fáir Siglfirðingar undanteknir, minsta kosti hjá greinarhöfundi og þeim sem hugsa svipað og hann. Og ekki skil eg í að ummæli um næturverðina í nefndri grein séu sönn. T. d. það: »að hver þeirra um sig hefir aðeins passað upp á þá bryggju, sem hann átti að vaka yfir, en ekkert skift sér af þó stolið væri á næstu bryggju, rétt fyrir augunum á honum.«

Nú geri eg ráð fyrir að allir, sem þurftu að láta vaka hér í haust þeir hafi reynt að fá þá menn til þess, sem þeir báru traust til. En þó einhverjum hafi ef til vill mistekist í vali sínu, þá er harla ólíklegt að öllum hafi gert það — þó skal eg ekki fullyrða neitt um það að svo stöddu — en eg held þeim hafi mistekist hafi þeir allir fengið þá menn, sem gátu horft á aðra stela og létu það afskiftalaust, líklega af því það var ekki á þeirri bryggju sem þeir áttu að gæta að; því þeir menn sem þannig haga sér eru eitthvað meir en lítið siðferðislega gallaðir.

Og einmitt með þessu finst mér höfundur hafa reynt að gera þá að misindismönnum, sem gættu eigna einstakra manna — að nóttu til — hér í haust; og þá um leið nokkuð marga af fjöldanum, þareð útgerðarmenn voru búnir að ganga í valið. Þó gripdeild eigi sér hér stað eins og líklega víðast, en þó einna helst í sjávarþorpum, þá nær það ekki neinni átt að það sé eins mikið og gefið er í skin og sagt í greininni »Næturvörður.« Og það er síður en svo að eg telji ekki ástandið fremur slæmt eins og það er nú, þó eg geti als ekki fallist á það að hér sé stolið nær því dagsdaglega einhverju.

Því er ver, Siglufjörður er ekki laus við þjófnað, en það sem við þurfum að gera er að reyna að festa hendur í hári þeirra manna, er gera sig seka í þesskonar. Og það er satt að meinleysi og afskiftaleysi í þessu getur gengið of langt og hvorutveggja hefir ill áhrif fyrst og fremst á þá seku og ef til vill fleiri. Einnig er það ekki nema gott að þannig málum sé hreyft opinberlega. En mér finst að í greininni »Næturvörður« hafi verið farið með öfgar sumstaðar og fullyrt það sem als ekki á sér hér stað.

Siglufirði 17. mars 1918 Guðmundur Skarphéðinsson.

Aths. Ofanskrifuð grein hefði vel getað verið veigameiri — eigi hún að skoðast sem svar gegn greininni »Næturvörður« — þar sem höf. hefir þurft um 7 vikur til að semja hana. Það er ekki mín ætlun að svara fyrir hönd höf. greinarinnar »Næturvörður,« það getur hann gert sjálfur ef hann vill, eg vil aðeins benda á eitt atriði.

Höf. ofanskrifaðrar greinar tekur eftirfyljandi málsgrein til að hneyxlast á: »Dagsdaglega heyrast hér sögur um smáhnupl, vikulega um minni háttar þjófnað, og á mánaðarfresti um innbrot og þjófnað í stærri stíl.

«En hann gleymir því að síðar kemur:» »Allur fjöldinn af þessum gripdeildar og þjófnaðarsögum er nú að sjálfsögðu uppspuni. «

H.J.
--------------------------------------------------------------------------

Fram - 29. mars 1919

3. árgangur 1919, 13. tölublað

M e ð þessu blaði látum við undirritaðir af ritstjórn blaðsins, en við tekur kaupm. Sophus A. Blöndal. Við þökkum öllum þeim, sem á einn eða annan hátt hafa stutt okkur við þetta starf, sem við vorum aðeins ráðnir við til bráðabirgða, og sem verið hefir ýmsum erfiðleikum bundið alt frá byrjun; en þó sérstaklega framan af.

Við göngum þess ekki duldir, að þrátt fyrir góðan vilja, hafi ritstjórninni verið að ýmsu leyti ábótavant þennan tíma, en væntum þess, að nú taki betra við. Jafnframt þökkum við hinar ágætu viðtökur, sem blaðið hefir fengið víðsvegar út um land, og óskum þess, að það meigi njóta sömu vinsælda hér eftir sem hingað til.

Virðingarfylst,

Friðbjörn Níelsson. Hannes Jónasson.
-------------------------------

Svar til H. J.

Það lítur helst út fyrir að grein mín »Þjófnaður í Siglufirði« hafi komið H. J. eitthvað óþægilega eða minsta kosti má draga það af aths. hans við nefnda grein; því að þar gerir hann sig óþarflega breiðann. Honum hefði verið sæmra að reyna í henni — með einu orði — að gera grein fyrir sannleiksást sinni á greininni »Næturvörður;« því flestum mun þykja sæmra að rökstyðja að einhverju leyti þá skoðun sína er þeir slengja fram, en það finst H, J. óþarfi nú sem oftar.

En hver veit þá á hverju skoðun H. J. er bygð í þessu máli? Að svo komnu efa eg að hún sé bygð á nokkru því, sem hann hefði getað dregið fullyrðingu sína af. Tilraun hans til að sýna hvað eg hafi gengið óhreint til verks er veigalítil, því það sem hann tilfærir og segir að eg hafi gleymt mundi hann hafa kallað ryk hjá öðrum en höfundi greinarinnar »Næturvörður« af því að í þeirri grein stendur á öðrum stað: Og hve skaðlegt það er fyrir þennan bæ og þjóðina að ala upp heilan flokk heila kynslóð þjófa,

Eftir þessa fullyrðingu í greininni er það reykur einn, sem H, J, vill blekkja mitt skrif með. Því sem H. J. er að vísa heim til mín vísa eg aftur heim til hans, því þar á það að vera, af því að eg hefi aldrei með hálfu orði lýst vanþóknun minni á ritstjórn »Fram,« heldur aðeins furðað mig á því að ritstjórarnir skyldu ekki gera aths. við greinina »Næturvörður.« Svo að þetta var óþarfa rembingur hjá H, J. Og alt hans skrif um heimvísunina er staðleysa ein,

Flestir, að H. J. undanteknum, veit eg að hafa tekið eftir því, að grein mín var dags. 17. marz 1919. En þó heldur H. J. að hún sé sjö vikna og kallar hana sjöviknagrein. Þetta sýnir hvað mikill veigur er í svörum hans oft og einatt og einnig það hve vandur hann er að þeim. En mín skoðun er sú, að sum af hans »andlegu fóstrum« í »Fram« hefðu haft gott af því að vera sjö vikna, hefðu þau þá getað orðið veiga meiri, en ekki staðlaus stafur eins og aths. hans síðast. Og skal eg gera H. J. grein fyrir þessu hvenær sem hann vill. En að fara að eiga í orðasennu við hann nú er ef til vill sama og að leggjast á ná inn þar eð hann er að fara frá ritsíjórn »Fram.«

Guðm. Skarphéðinsson.
-------------

Háttvirtum greinarhöfundi, Guðm. Skarphéðinssyni, gefst til kynna, að eg met framanskráða grein hans að verðleikum, nefnilega gjörsamlega að vettugi, og virði hina ekki svars.

Getur það sparað honum sálaráreynslu við að hnoða saman fleiri svörum út af þessu máli. 

H. J.
-----------------------------------------------------------------------------

Fram - 12. apríl 1919  3. árgangur 1919, 15. tölublað

Ógurlegt snjóflóð féll hér austan fjarðar í nótt.

Tók yfir um 1000 faðma svæði.
Sópaði sjö húsum út í sjó, og gekk yfir bæinn í Neðri Skútu.
16 manns lentust í flóðinu
7 náðust lifandi eftir 10 tíma.
9 manns ófundið ennþá og talið af.

Flóðbylgjan æddi hér yfir á eyri og gerði stórskaða. Tjónið um 1½ miljón kr.

Eftir því sem vér best vitum enn þá verða menn fyrst varir þessa voða viðburðar þannig, að um kl. 4 í nótt verður vökumaður á M.S. »Æskan«, sem lávið Lýsisbryggju svokallaða, sjónarvottur þess, að flóðbylgja ógurleg kemur æðandi austan yfir fjörðinn. Sá hann um leið að fjörðurinn varsnjóhvítur, og hyggur í svipinn að hafís sé þar kominn. Flóðbylgjan æðir á land upp með afskaplegum aðgangi, og tók t. d. skip þetta sjó inn að Iúkugötum um leið og bylgjan reið yfir. Afleiðingar flóðbylgjunnar urðu hroðalegar.

Utan frá Bakkevig og alla leið suður til Roalds eyðilögðust allar bryggjur meira og minna, og svo var afl bylgjunnar mikið að tvö fiskiskip Sam. verslananna, sem á landi stóðu, fluttust úr stað, en mótorbátar og smærri bátar, lágu sem hráviði hér og þar, um eyraroddann, m.b. »Georg« spónmölvaðist, og mótorbátur sem lág upp við Roaldsbryggju hentist á hvolf. Er menn sáu þessar aðfarir hér, varð mönnum Ijóst að snjóflóð mundi hafa hlaupið úr fjallinu austan fjarðarins, og þaðan stafaði flóðbylgja þessi, en ekkert mátti sjá vegna hríðarsorta og myrkurs. Þegar birta tók af degi rofaði snöggvast svo að sást austur yfir fjörðin, brá mönnum þá mjög í brún, því að af sjö húsum, sem stóðu hér beint á móti eyraroddanum var aðeins eitt eftir.

Eigi gátu menn séð bæinn Neðri-Skútu, eða íbúðarhús er þar stóð fyrir neðan á sjávarbakkanum. Var þá brugðið við svo fljótt sem unt var. Fjöldi manna fór austur yfir, ef ske kynni að eitthvað mætti aðhafast þrátt fyrir illviðrið, því þar höfðu sjáanlega gerst hörmuleg tíðindi. Þegar menn komu yfir um, sáu menn að afarmikil snjóskriða hafði fallið úr fjallinu fyrir ofan Staðarhól, klofnað á hól nokkrum fyrir ofan bæinn og aðalflóðið hlaupið að sunnan verðu, og Neðri-Skúta lent alveg í suðurjaðri þess, var alt þetta svæði ein auðn, þar síóð ekki steinn yfir steini, og eyðileggingin afskapleg. Síldarbræðsluverksmiðja Evangers og 5 önnur hús þeim tilheyrandi, hús Benedikts Gabríels Jónssonar, og bærinn Neðri-Skúta var alt sópað burtu, og engin lífsmerki sjáanleg á öllu þessu svæði.

Í húsum Evangefs bjuggju: Knut Sæther umsjónarmaður og kona hans, og Friðbjörn Jónsson húsmaður með konu og barni, og varð leit að þeim árangurslaus, enda stóðu húsin rétt við sjóinn, og hafa sópast út í fjörð í einni svipan. í húsi Benedikts Gabríels, bjó hann með konu og 2 börnum, og var sjáanlegt að þar mundi hafa farið á sömu Ieið. Í Neðri-Skútu bjó Einar bóndi Hermannsson með konu sinni, þrem börnum sínum, fósturbarni og gamalli konu.

Menn sáu þegar að hér var sá staðurinn er sennilegast væri að líf leyndist, þó ýmislegt benti til hins gagnstæða þar eð búshlutir og innanstokksmunir höfðu fundist víðsvegar í flóðinu, og mikill hluti bæjarins hafði farið langar leiðir og tætst sundur. Var þá farið að grafa til þess að leita bæjarleifanna, og urðu menn þess varir áður en langt um leið, að eitthvað af gamalli baðstofu mundi vera þar undir, og kunnugir vissu að þar hafði fólkið sofið,

Um kl, 2 var búið að grafa upp baðstofuna og ná öllu fólkinu lifandi. Þar lá það í rúmum sínum skorðað milli rúma og súðarinnar, sem fallið hafði niður, og hvíldi nú á rúmstokkum og gólfi. Var það mikið þjakað og nokkuð meitt, sem von var eftir 10 tíma dvöl í slíkum heljargreipum, en var þó með ráði og rænu, nema sonur hjónanna Hermann, hann var meðvitundarlaus, lá hann og allur í fönn, var svo fólkið alt flutt að Árbakka, er standur þar litlu sunnar.

Vaknaði Hermann þar skjótt til meðvitundar, og gera menn sér nú vonir um að alt fólkið muni komast til heilsu. Sjálfsagt verður leitinni haldið áfram, en því er miður að hún er að sögn þeirra er komið hafa á vettvang, vonarlítil. Tjónið af öllu þessu er stórkostlegt, fyrir utan mannslífin.

Auk allra þessara húsa sem upp hafa verið talin hefur fjöldi annara mannvirkja austan fjarðarins eyðilagst, bæði bryggjur og uppfyllingar. Húsin voru flest full af tómum tunnum, og þar lágu einnig um 1000 föt af lýsi, og fjölda margir snurpinótabátar, sem alt hefur meira og minna eyðilagst, og mun óhætt vera að fullyrða að tjónið sé ekki minna austan fjarðarins og vestan, en 1 til 1½ miljón krónur. Fólkið í Skútu hefur mist aleigu sína, að undanteknum fáeinum kindum sem voru í húsi lítið eitt sunnan við bæinn, og slapp, 2 kýr bóndans voru dregnar dauðar upp úr fönninni í dag.

Góðir menn og konur! Ef nokkurntíma hefur verið ástæða til skjótrar hjálpar, þá er það nú. Fólkið er matarlaust, klæðlaust, allslaust, og alt kemur sér vel. »Fram« er fús að veita móttöku gjöfum, og koma þeim áleiðis.
----------------------------------------------------------------

Fram - 19. apríl 1919

3. árgangur 1919, 16. tölublað

Voðasnjóflóð enn, 9 manns ferst.

Þriðjudag 15. þ. m. komu menn úr Héðinsfirði hingað og sögðu þau hryggilegu tíðindi, að í Héðinsfirði hefðu fallið mörg snjóflóð um síðustu helgi, og tvö þeirra orðið mannsbanar. Hið fyrra þeirra snjóflóða féll laugardaginn 12. þ. m. um kl. 3 síðdegis úr svokallaðri Víkurbyrðu, og fórst þar bóndi frá Vík Páll Þorsteinsson að nafni, maður á besta aldri, frá konu og 1 barni, var hann á heimleið frá beitarhúsunum í Vík. Allir bændurnir þrír voru á beitarhúsunum þennan dag en Páll heitinn varð þeirra fyrstur til heimferðar — og skildi það. Lík hans var ófundið er síðast fréttist.

Snjóflóð hafa oft fallið á þessum stað og orðið mönnum að bana; árið 1841 fórust í snjóflóði á sama stað 2 giftir bændur frá Vík, Jón Jónasson og Jón Jónsson, voru þeir einnig á heimleið frá beitarhúsunum. Síðara flóðið féll um lcl. tvö á sunnudaginn úr fjallinu fyrir ofan Ámá, fremsta bæ í Héðinsfirði hljóp það á fjárhús í túninu á Ámá og fórst þar Ásgrímur sonur Erlends bónda 24 áragamall. Í flóðinu lentu einnig 37 ær og fórust flestar. Annar maður var nýgengin frá fjárhúsinu til annars fjárhúss skamt frá, það hús slapp hjá flóðinu.

Héðan fóru menn til Héðinsfjarðaráþriðjudaginn, ef hugsanlegt væri að einhverju yrði bjargað, fundu þeir eftir nokkra leit Ásgrím örendan í heytótf áfastri fjárhúsinu og 8 ær lifandi. Mótorbátur frá Hofsós hafði verið veðurteftur hér í Siglufirði alllengi þriðjudaginn, síðdegis, hélt hann heimleiðis og morguninn eftir bárust þau skeyti hingað frá honum, að hann hefði eigi séð bæinn Engidal, er hann sigldi þar hjá, og enga mannaferð þar, en þóttist aftur á móti hafa séð að snjóflóð mundi hafa fallið upp undan bænum. Var þá þegar brugðið við héðan; og sendur vel mannaður mótorbátur vestureftir.

Gerðu menn sér þó vonir um að hér hefði eigi fallið snjóflóð sem að grandi hefði orðið, því í manna minnum hafði ekki snjóflóð hlaupið á þessum stað, hugðu menn fremur að bæinn hefði fent í kaf, því eigi sést af sjó utan. Önnur varð þó raunin á, því þaðan átti maður eftir að frétta máske hroðalegustu viðburðina. Hafði afarmikið snjóflóð fallið um þveran dalinn, og síðan ofan eftir honum, hlaupið á bæjarhúsin og grafið þau, en eigi náð peningshúsum er stóðu nær sjónum. Sást þar ekkert líf heima við, þar er bærinn hafði staðið, nema hundur einn, sem var þar á vakki.

Sáu menn hvar héppi hafði grafið sig upp úr flóðinu, og að hann var blóðugur og rifinn á löppunum. Haus á dauðu hrossi sást upp úr fönninni og kofarústum rétt fyrir neðan bæinn. Var þegar farið að moka upp bæjarrústirnar, og er þar skemst af að segja að heimilisfólkið alt 7 manns fanst þar örent í bæjarbrotunum undir 4 til 5 álna þykku fióði. Var fólkið alt í rúmunum, svo snjóflóðið hefur fallið á náttarþeli, og miklar líkur til að verið hafi sömu nóttina og voðaflóðið féll hér í Siglufirði, því líkin voru mikið farin að rotna. Seint um kvöldið var búið að ná öllum líkunum, og voru þau flutt hingað til Siglufjarðar á fimtudagsmorguninn.

Af skepnum fórust þarna: 2 kýr, 1 hross, 6 kindur, 2 hundar og köttur. Fjárhúsin stóðu utar og neðar í túninu og hafði þau ekki sakað. Fullorðna féð og hross höfðu legið við opið og því farið út þegar veður batnaði. enda Virtist því líða nokkurnveginn vel. Í öðru húsi voru lömb og eitt hross, hafði það eigi komist út því húsið var birgt, og voru lömbin svo hungruð að þau höfðu étið ull hvert af öðru, mold úr görðum og veggjum og taglið af hrossinu, en virtist vel lifandi. Hér á eftir fara nöfn og aldur þeirra er látist hafa í þessum snjóflóðum, hér í sveitinni:

 • Hér í Siglufirði.
  Knud Sether verkstjóri 52 ára.
 • Frú L. Sether kona hans 47 — (Bjuggu hér að staðaldri síðan 1911.)
 • Friðbj. Jónsson tómthúsm. 50 ára.
 • Guðrún Jónsdóttir kona hans 54 ára
 • Alfred Alfredsson tökubarn 8 ára
 • Ben. O. Jónsson tómthúsm.33 ára
 • Guðrún Ouðm.d. kona hans 30 ára og dætur þeirra;
 • Hrefna Svanhvít , 6 ára _ ... ,.
 • Brynhildur 4 ára

 • Á Engidal.
 • Margrét Pétursdóttir ekkja 49 ára.
 • Pétur Oaribaldason 26 ára
 • Sigr. Pálína Oaribaldadóttir 21 árs
 • Kristólína Kristinsd. tökubarn 6 ára
 • Halldóra Guðm.d. vinnukona 76 ára  *)
 • Gísli Gottskálksson húsm. 28 ára
 • Málfr. Anna Oaribaldad. kona hans 19 ára
 • Í Héðinsfirði.
 • Páll Þorsteinsson bóndi í Vík 37 ára.
 • Ásgr. Erlendsson ungl.á Amá 24 ára

Þegar birti upp var hafin leit eftir líkum þeirra sem fórust hér í Siglufirði, hefur víðan verið leitað alla daga og nætur með hverri fjöru, og eru nú 6 lík fundin, lík Knud Sether, og konu hans, Benedikts Gabríels, konu hans og eldri dóttur, og lík Guðrúnar konu Friðbjarnar. Héraðslæknirinn fullyrðir að fólkið héðan hafi alt dáið samstundis, en sumt af Engidalsfólkinu hafi ef til vill lifað eitthvað, en telur þó örugt að meðvitund þeirra sem ekki hafi dáið þegar í stað, hafi horfið álíka fljótt og meðvitund þeirra sem lenda í kæfingu.

Læknirinn álítur því að vér megum vera fullvissir um það að dauðinn hafi komið að fólkinu meðvitundarlausu, og að ekki geti verið að ræða um þungt helstríð, þeir sem eitthvað hafi lifað eftir að slysið bar að höndum hafi liðið jafn hóglega yfrum sem hinir, sem þegar í stað létu lifið. Alla dagana hafa mótorbátar og smábátar verið á ferð fram og aftur um fjörðinn, að tína saman síldartunnur og timbturrekald, munu hafa náðst um 1500 tómar síldartunnur og allmikið af timbri mjög brotið og sundurtætt, mikið af því aðeins eldsmatur.

Höfnin hefur verið hroðaleg útlits þessa daga, full af óhreinni krapstellu, spítnarusli og tunnum. Innan til mun hún og alls ekki vera trygg til umferðar stærri skipum, eins og stendur. Menn vita alls ekki hve langt vélar og járnbitar hafa hentst út á fjörðinn, því það hefur ekki verið hægt að rannsaka enn þá. Ekki var unt að vinna að björgun á höfninni í gær vegna veðurs. Tjónið hefur heldur ekki verið hægt að gjöra upp nákvæmlega enn þá.
-----------------------------------------------------------------

Fram - 26. apríl 1919

3. árgangur 1919, 17. tölublað

Leiðrétt   *)

Fram hefur verið beðinn að geta þess, og leiðrétta að gamla konan Halldóra Guðmundsdóttir sem fórst í snjóflóðinu hafi ekki verið vinnukona í Engidal, heldur hafi hún verið stjúpmóðir ekkjunnar Margrétar, og fóstra Péturs heitins Garibaldasonar, og dvalið hjá þeim í ellinni.
----------------------------------------------------------------

Fram - 17. maí 1919

3. árgangur 1919, 20. tölublað

AUGLÝSING

Björgunarlaun.

Allir þeir sem kröfu eiga fyrir björgun eftir snjóflóðið, hvort heldur er fyrir vinnu, bátslán eða annað verða að senda hreppstjóra Hvanneyrarhrepps kröfur sínar fyrir 22. þ. m. Að öðrum kosti mega þeir vænta að þær verði ekki teknar til greina. Sýslumaður Eyjafjarðarsýslu 14. maí 1919. Páll Einarsson. ----------------------------------------------------------------

Fram - 31. maí 1919

3. árgangur 1919, 22. tölublað

Tíðin:

Votviðrsamt en hlýindi alla vikuna, þoka í gær. Maður slasast. Even Jóhansen vélasmiður var síðastliðinn sunnudag að fylgja tengdamóður sinni vestur að Dalabæ. Á heimleiðinni datt hann hér í fjallsegginni og hrapaði niður í svokallaða Fífladali, hefir hann hrapað um 15 metra, meiddist hann mikið á annari öxlinni, og skaddaðist eitthvað innvortis. Fylgdarmaður var með Jóhansen því þoka var á, og komst hann með hjálp mannsins hingað niður á eyrina. Hann er heldur á batavegi, en kemur til með að eiga nokkuð í þessu, og er það tilfinnanlegur skaði fyrir. hann, á þessum tíma.

M.k. Sigríður kom hingað frá Rvík síðastl. sunnudag. Farþegar hingað: Þorv. Atlason kaupm. og Sveinn Sveinsson frá Felli.

»Fulmar« seglskip með hjálparvél, kom hingað frá Álasundi á þriðjudaginn, með timburfarm til O. Tynes og Roalds. Með »FuImar« komu framkvæmdastjórarnir Ole Tynes og Ole Utgaard. Var fáni við hún á hverri stöng, til að fagna heimkomu Tynesar. — Eins og bæjarbúum er kunnugt, hefir Tynes legið sjúkur oft og einatt í þessari utanför sinni; hreppti vont veður í hafi, og gömul liðagigt tók sig upp. Nú er hann að vísu mun betri, og gengur ekki allskostar óhaltur; útlitið er máske lítið eitt veiklulegra en áður var, en nú vonum vér að með sumrinu og sólinni verði hann aftur sá óhalti víkingur, sem hann áður var.

S.s. Sterling kom hingað þriðjudagskvöld, meðal farþega ungfrú Hólmfr. Sigurjónsdóttir. Auk þess voru með skipinu ýmsir agentar, og fjöldi farþega til annara hafna.

Guðmundur L. Hannesson lögreglustjóri kom hingað með Sterlíng á þriðjudagskvöldið, með fjölskyldu sína, og er nú alfluttur hingað. Hann er nú að búa um sig í íbúðinni í barnaskólahúsinu, þar sem hann kemur til með að búa fyrst um sinn.
-------------------------

Fram - 21. júní 1919

3. árgangur 1919, 26. tölublað

Fyrsti bæjarstjórnarfundur Siglufjarðarkaupstaðar.

Eins og getið var í síðasta blaði var fyrsti fundur bæjarstjórnarinnar settur og haldinn síðastliðinn laugardag. Bauð oddviti bæjarfulltrúana velkomna og lýsti yfir þeirri ósk sinni, að þeir mættu í sátt og sameiningu vinna að því, að efla framfarir þessa bæjarfélags og allir leggjast á eitt um framgang þeirra mála, sem bæjarstjórnin fengi nú til meðferðar. Kvaðst hann vona, að þeim mundi heppnast að stíga rétt hin fyrstu sporin á sjálfstjórnarbraut bæjarins, því að þessi spor, sem nú stigi þeir, mundu að miklu leyti marka framsóknarbaráttu Siglufjarðar um langan aldur.

Guðm. T. Hallgrímsson héraðslæknir, þakkaði fyrir hönd bæjarfultrúanna, hlýleg orð og góðar óskir oddvita, og bað hann heilann setjast í oddvitasess bæjarstjórnar Siglufjarðar. Óskaði hann, að oddviti mætti í þeim sessi vinna að mörgum málum sér til heiðurs og bygðarlaginu til blessunar, og lýsti yfir því fyrir hönd bæjarfulltrúanna, að þeir mundu allir vilja setjast að einu verki um það, að styðja hinn nýkomna bæjarstjóra að góðu starfi og í sameiningu hver við annan leysa svo gott verk af hendi, sem þeim væri frekast unt, til heilla og framfara þessu bæjarfélagi. Bað ræðumaður fulltrúana að standa upp og þakka með því ávarp oddvita, og var svo gert.

Þá voru fundarmál þau, er fyrir lágu, tekin fyrir og birtist hér útdráttur úr fundargerðinni:

Þessar nefndir voru kosnar:

1. Fjárhagsnefnd:

 • Sig. Kristjánsson,
 • Friðb. Níelsson,
 • B. Þorsteinsson.

2. Fasteignanefnd:

 • Guðm. T. Hallgrímsson,
 • Oddviti,
 • Friðb. Níelsson.

3. Vatnsveitu og rafmagnsnefn:

 • Friðb. Níelsson
 • Sig. Kristjánsson,
 • Oddviti,
 • Bjarni Þorsteinsson,
 • Maron Sölvason.

4. Veganefnd:

 • Oddviti,
 • Flóvent Jóhannsson,
 • Björn Jónasson.

5. Brunamálanefnd:

 • Flóvent Jóhannsson,
 • Oddviti,
 • Friðb. Níelsson.

6. Ellistyrktaksjóðsnefnd:

 • Bjarni Þorsteinsson,
 • Friðb. Níelsson,
 • Helgi Hafliðason.

7. Fátækranefnd:

 • Helgi Hafliðason,
 • Friðb. Níelsson,
 • Sig. Kristjánsson.

8. Byggingarnefnd:

 • Oddviti, sjálfkjörinn,
 • Flóvent Jóhannsson
 • Helgi, Hafliðason,
 • Albert Jónsson
 • Jón Ólafsson. Báðir hinir síðast nefndu utan bæjarstjórnar.

9. Hafnarnefnd:

 • Sig. Kristjánsson,
 • Guðm. T. Hallgrímsson,
 • Oddviti,
 • Jón Guðmundsson,
 • O. Tynes. Tveir þeir síðustu utan bæjarstjórnar.

10. Skólanefnd:

 • B. Þorsteinsson,
 • Sig. Kristjánsson,
 • S. A. Blöndal (utan bæjarsfjórnar),
 • Friðb. Níelsson,
 • Helgi Hafliðason.

11. Kjörstjórn:

 • Oddviti sjálfkj.
 • B. Þ.,
 • Sig. Kristj.
 • 12. Skattanefnd:
 • Oddviti sjálíkj.,
 • Sig. Kristj.,
 • F, N.

13. Heilbrigðisnefnd:

 • Oddviti og héraðslæknir sjálfkj.,
 • Flóvent Jóhannsson,
 • Stefán Sveinsson.

14. Sóttvarnarnefnd:

 • F. N.,
 • Oddviti og
 • héraðslæknir.

II. Slökkviliðstjóri var kosinn

 • Jón Guðmundsson.

III. Nauðsyn reglna um sölu á brensluvínanda o. fl.

 • Kosnir ásamt
  Oddvita til að semja reglur um sölu á slíkum teg.
 • B. Þ. og
 • G.T.H.

IV Lögregluþjónn,

 • Aðst. lögþ., Næturvörður.

Samþykt var að sameina lögregluþjóns og hafnarvarðarstöðuna og launa með 1600 kr. úr bæjarsjóði og 400 úr hafnarsjóði,

Samþykt að fela oddvita að ráða aðstoðarlögregluþjón og næturvörð og auglýsa lögregluþjónsstöðuna.

Oddvita var falið að fá mann til að vaka á nóttunni og gæta aðkomu skipa, uns næturvörður yrði kosinn.

Utan dagskrár var oddvita falið að sjá um útvegun einkennismerkja, ef til kæmi að hér yrði stofnaður sérstakur borgar eða alþýðuvörður, sömuleiðis að sjá um útvegun einkenningsbúninga fyrirlögregluþjón aðst.lög.þj. og næturvörð.

Ýms fleiri mál voru á dagskrá, sem enga þýðingu hefir að birta nokkuð um að svo stöddu.
-----------------------------

Talsíminn.

Nýlega hefir símastjóri sent umburðarbréf til símastöðvanna þar sem hann tilkynnir að nú hafi allar stærri stöðvarnar vissan ákveðinn tíma að deginum til samtala við Reykjavík.

Tíminn sem Siglufjörður hefur við Rvik á hverjum degi er síðasti fjórðungur hverrar klukkustundar allan daginn, 10,45—11, 11,45—12 o. s. frv. og mun a öðrum tímum ekki til neins að biðja um samband þangað.
------------------------------

Allir þeir er hafa beðið um reiti í kirkjugarðinum eru ámintir um að afmarka þá. Lykillinn að sálarhliði kirkjugarðsins er í húsi Skarphéðins.

Sóknarnefndin.
---------------------------------------

Fjármark mitt er ómarkað hægra og sýlt, biti fr. vinstra, Brennimark: G. T. H.

Guðmundur T. Hallgrímsson.
-------------------------------------------------------------------------

Fram - 5. júlí 1919

3. árgangur 1919, 28. tölublað

Jarðakaup bæjarins.

Hér fer á eftir nefndarálit um jarðakaupamálið, en tillaga sú, sem þar er getið um, er áður prentuð í »Fram« (nr. 26.) Nefnd sú, er bæjarstjórnin kaus í jarðakaupamálinu, hefir orðið sammála um það, sem hér segir:

Tillaga:

Greinargerð.

Siglufjörður er verst settur allra kaupstaða landsins að því, er kaupstaðarlóðina snertir. — Reykjavík, Akureyri, ísafjörður, Seyðisfjörður, Hafnarfjörður, eiga ekki eingöngu lóð þá, er húsabyggingin í hverjum kaupstað nær yfir, heldur miklu meira land. Siglufjörður á ekki þumlung af landi. Siglufjörður þarf, eins og að aðrir kaupstaðir landsins, að eiga sig sjálfur.

Hið íslenska löggjafarvald hefir líka oft sýnt þá stefnu að styðja og styrkja bæjarfélögin í því, að bæirnir eignist landið, sem þeir standi á og það jafnvel þótt eigi væri að ræða um bæ með kaupstaðarréttindum eða jafnmiklum fólksfjölda og Siglufjarðar. Bæjarfélaginu mun það verða vænlegast til þroska og framfara, að kaupstaðarlóðin verði í höndum þess sjálfs og fái auk þess land til ræktunar — slíkt er skilyrði fyrir vexti og viðgangi bæjarins, sem aftur leiðir af sér auknar tekjur í landssjóð. Landinu í heild sinni er það og fyrir bestu, að numdar séu í burtu óheppilegar hömlur fyrir framförum og eflingu kaupstaðarins.

Siglufjörður þarf að fá land það, sem tillagan fer fram á, m. a. af þessum ástæðum:

 • 1. Til þess að bæjarstjórn og bæjarfélagið geti ráðið byggingu húsa, legu og fyrirkomulagi gatna innan kaupstaðarins.
 • 2. Til þess að hafa beitarland handa búpeningi þeim, sem er í kaupstaðnum og mesta nauðsyn er á, að ykist.
 • 3. Til þess að auka jarðræktun kringum kaupstaðinn og með því auka mjólkurframleiðsluna, sem er skilyrði fyrir vexti bæjarins.
 • 4. Til þess að hagnýting og umráð jarðanna fari meira eftir hagsmunum almennings en ef eignin væri í umráðum og hagnýtingu prívat manns — enda þótt prestur væri.
 • 5. Til þess að fyrirbyggja í framtíðinni hugsanlegar — jafnvel líklegar — deilur bæjarvaldsins og bæjarbúa annars vegar og Hvanneyrarprests hins vegar út af umráðum og hagnýtingu jarðanna og óhjákvæmilegum ágangi búpenings bæjarbúa á jarðirnar.
 • 6. Af því að Siglufjarðarkaupstaður ætlar að leggja stórfé af mörkum til hafnarbóta, en getur það ekki nema að eignast landið í kring.

Um 1. — Núverandi ástand er það, að presturinn á Hvanneyri getur mælt út svæði til byggingar þar og þeim, sem hann vill leigja, og það þau svæði að sjálfsögðu, sem hann telur sér hagkvæmt að leigja án tillits til þess, hvernig aðstaðan og húsaröðin í bænum við það kynni að líta út.

Atvinnurekstri, sem honum ekki t. d. sýndist um, en bænum væri til stórrar framfara, gæti hann algerlega neitað um land, eða að minsta kosti látið leiginguna vera þeim erfiðleikum bundna, er væri til stór hömlunar fyrir atvinnureksturinn.

Umráðamaður jarðanna gæti neitað að láta land undir götu nema þá með afarkjörum, og þótt semja mætti lög um heimild fyrir bæjarfélagið til þess að taka nauðsynlegt land undir götu, þá mundu af því geta risið sífeldar deilur og óánægja út af slíkum málum milli bæjarstjórnar og umráðamanns Hvanneyrar — deilur, sem væri æskilegt að fyrirbyggja.

Þar sem umráðamaður jarðarinnar þannig getur ráðið stærð hinna leigðu grunna, getur myndast afar óheppilegt og ófullnægjandi fyrirkomulag bygginga í bænum, en það úrræðið, að taka af ofstórum grunnum og steypa saman oflitlum, yrði svo dýrt og bænum ofvaxið vegna kostnaðar, að það yrði ekki framkvæmanlegt og því örðugra viðfangs, sem bæði væri við leigutöku og leigusölu lóðanna að eiga.

Um 2. — Hið ræktaða land — Hvanneyrartúnið — er grýtt og harðbalakent og mundi kosta mikið fé ef gera ætti þar miklar jarðabætur til þess að auka töðuframleiðsluna. Það yrði dýrt fyrirtæki, sem bæði mundi vera ofvaxið þeim prívat manni — presti — er byggi á jörðunni og þar að auki ekki svara kostnaði. Aftur á móti mundi bærinn geta ráðist í slíkt og mundi gera slíkt af óhjákvæmilegri þörf til aukinnar mjólkurframleiðslu, án tillits til kostnaðarins. Mjólkurskortur er eins og nú stendur tilfinnanlegur fyrir bæjarbúa, svo að ungbörnin skortir jafnvel á stundum, hvað þá heldur ef bærinn yxi.

Um 3. — Bæjarbúar verða með búpening sinn undir högg að sækja með sumarbeit í landi þessara kirkjujarða. Bærinn þyrfti að eiga beitarlandið, svo að ekki yrði hægt í framtíðinni að setja eigendum búpeningsins stólinn fyrir dyrnar. Þetta atriði kynni í framtíðinni að geta orðið til þess fallið, að vekja óánægju milli prestsins á jörðunni og bæjarbúa, þótt ekki hafi brytt á því við núverandi prest, sem hefir sýnt mikla ósérplægni og lipurð í þessu efni, en líka oft orðið fyrir ágangi á jörðina.

Um 4. — Það er næsta auðsætt að ef bærinn á landið, mun umráðum þess og hagnýting þess meira hagað eftir hagsmunum almennings í bæjarfélaginu en ef eignin yrði í umráðum og hagnýtingu prívatmanns — prests — sem ekki er nema eðlilegt að mundi hugsa um að hafa sjálfur sem mest upp úr jörðunni og landinu.

Að minsta kosti er ekki loku fyrir það skotið, að svo kynni að fara, er núverandi prestur færi af jörðunni.

Um 5. — Út af umráðum prests og hagnýtingu landsins annarsvegar og út af ágangi búpenings bæjarbúa hinsvegar, kynni á ýmsa lund að geta risið margvíslegar deilur eða misklíðarefni milli bæjarvaldsins eða bæjarbúa annarsvegar og prestsins hinsvegar.

Vér segjum ekkert um, að svo þurfi nauðsynlega að fara, heldur að eins, að ekki sé ólíklegt, að slíkt gæti átt sér stað, og það fyrirkomulag, sem er þannig vaxið, teljum vér óheppilegt, ekki eingöngu vegna bæjarfélagsins, heldur líka vegna sjálfrar kirkjunnar eða hlutaðeigandi prests. Meðan jarðirnar eru ekki eign bæjarins er næsta líklegt, að hagsmunir bæjarfélagsins eða bæjarbúa og prests geti rekið sig á, og þótt núverandi presti hafi tekist vel í þessu efni, gæti við mannaskiftin orðið breyting á því.

Frá peningalegu sjónarmiði kirkjunnar (eða prestlaunasjóðs) ætti salan að vera réttmæt — frá öðru sjónarmiði kirkjunnar ætti salan að vera æskileg.

Um 6. — Siglufjörður ætlar á næstunni að leggja út i hafnarbætur, sem kosta yfir hálfa miljón og hann mun kosta að ¾

Slík mannvirki getur bærinn varla lagt út í ef hann á ekki landið áður. En það yrði bæði honum og landinu í heild sinni óhagur, ef nauðsynlegar hafnarbætur færust fyrir byggingar, er þegar leigt út, og núverandi prestur á Hvanneyri nýtur allra tekna og nytja eins og áður þótt salan verði smþykt, en mikið af þessu svæði er þó óbygt enn og það væri bæjarfélaginu hægra að ráða fyrirkomulagi bygginga og gatna á þessu svæði ef bærinn væri eigandi, heldur en ef bæjarvaldið þyrfti bæði undir leigutaka og leigusala lóðanna að sækja.

Þótt samkomulag og samvinna við núverandi umráðamann jarðarinnar sé og muni verða góð, gæti hæglega svo farið, að nýr prestur hefði þær skoðanir á lausn þessa máls, er bænum gæti stafað mikið óhagræði af og það jafnvel án þess kirkjunni væri af því sýnilegur hagur.

Leyningur er lítilfjörlegt afdalakot en væri hentugt til sumarbeitar fyrir kýr.
----------------------------

Bæjarstjórnarfundur.

Þriðjudaginn 24. f. m. var bæjarstjórnarfundur haldinn og er þetta útdráttur úr dagskránni:

Framkvæmd eignarnáms á 16 m. breiðri landspildu norðan af lóð H. Söbstaðs til hafnarinnar, samkvæmt tillögu hafnarnefndar. Svohlj. tillaga borin upp og samþykt með 6 atkv.

Bæjarstjórnin samþykkir að krefjast eignarnáms vegna hafnargerðarinnar, á 16 m. breiðri spildu af lóð H. Söbstaðs frá sjó að vesturmörkum lóðar hans næst sunnan við lóð þá, er hafnarsjóður hefur þegar keypt af nefndum Söbstað.

Enn hélt bæjarstjórnin fund fimtudaginn 26. júní.

Útdráttur úr dagskránnni:

Lesið upp frumvarp til bæjarstjórnarlaga, samið af séra B. Þorsteinssyni. Frumvarpið samþykt grein fyrir grein, og í heild sinni. Frumvarp þetta verður lagt fyrir alþingi í sumar, og fer það fram á miklar breytingar frá bæjarstjórnarlögum þeim, sem vér nú höfum.

Þannig að ef það nær fram að ganga fáum vér algjörðan skilnað frá Eyjafjarðarsýslu.

Jarðarkaupamálið.

Lagt fram og lesið upp nefndarálit og greinargerð frá fasteignanefnd. Svipuð tillaga og samþykt var á þingmálafundinum 18. f. m., samþ. með öllum atkv. Greinargerðin sömuleiðis. Nefndarálitið og greinargerðin er langt og ítarlegt skjal, sem birtist í þessu blaði, þar sem það varðar hér allan almenning. Sjóvarnargarðurinn norðan til við Siglufjarðareyri.

Samþykt tillaga um að mælast til þess við stjórnarráðið, að það með fyrstu ferð sendi hafnarverkfræðing til að skoða skemdir á garðinum, og láta í sumar, helst í júlí, framkvæma nauðsynlegar viðgerðir.
-----------------------------------------------------------------

Fram - 26. júlí 1919

3. árgangur 1919, 31. tölublað

Bannlagabrot?

Hér var gufuskip á ferðinni »Vistula« frá Aberdeen, með tómar tunnur hingað og á fleiri hafnir. Skip þetta vakti hér töluvert umtal, því nú er það sjaldgæft orðið að vín sé á skipspappírum tilgreint, þó eitthvað sé meðferðis af því tagi. En þarna var ekkert laumulega að farið. Skipstjóri, sem ekkert kvaðst þekkja til bannlaga vorra, hefur víst sýnt vín-farmskírteinið ásamt öðrum plöggum, en þá fór nú ver en skyldi, var vínið gert upptækt, flutt hér á land og sett í — steininn.

Voru þetta 3 ámur og 2 eða 3 kassar af fínum drykkjum sent nafngreindum mönnum á Akureyri. Lögreglan leitaði víða um skipið, en fann ekki meira. Réttur var hér haldinn yfir skipstjóra en ekkert ákveðið um sekt hans að sinni. Skipið var á leið til Akureyrar, mikið af farminum þangað, og ekki örgrant nema eithvað kynni að leynast af hinum forboðnu ávöxtunum, og átti því að útkljá mál skipstjóra þar.
-----------------------------------------------------------

Fram - 2. ágúst 1919

3. árgangur 1919, 32. tölublað

»Geir« björgunarskipið, kom að sunnan á miðvikudag; flutti póst og farþega.

Mun Geir ætla að liggja hér fyrst um sinn. Hafði hann nær því fengið atvinnu um leið, því í fyrramorgun festi sig skonorta hér á »Hellunni,« en þó ekki meira en svo að hún gat losað sig sjálf með flóðinu, því lágsjávað var þegar hún strandaði.

Hvenær skyldi klukkuduflið koma á »Helluna?«
-----------------------------------------------------------------

Fram - 9. ágúst 1919

3. árgangur 1919, 33. tölublað

Keyrsla.

Oft hefi eg orðið undrandi yfir því hvernig að hestar eru þrælkað- á einn eður annan hátt. Þeir eru þó skapaðir með tilfinningu og heitu blóði og af sama höfundi og maðurinn, þó virðist, sem svo, að yfirboðurum dýranna standi öldungis á sama hvernig að vesalings hestinum hans líður að kvöldi, aðeins ef eigandinn hefir þyngri budduna en ella, vegna þess að hann hefir látið einhvern galgopann reyna þolrifin í ökuklárnum sínum. Eg spyr: Er enginn dýravinur til á Siglufirði ? eða er engin dýraverndan þar? —

Mönnum sem séð hafa unnið með hestum, stingur í stúf að sjá einn hest fyrir þungu æki á aðeins tvíhjólaðri »kerru« en þegar að fjórhjólaður vagn er brúkaður þá ætti að hafa tvo hesta fyrir, fyrst og fremst að það er léttara fyrir tvo hesta að draga, heldur en einn, þó að haft sé í vagninum hlutfallslega þyngra, en það er sérstaklega þetta, ef tveir hestar eru fyrir einum vagni, er síður hætt við því að notaðir séu smá strákar sem ökumenn, strákar, sem varla kunna að stjórna sjálfum sér, hvað þá heldur að þeir kunni að fara með skepnur.

Sjaldan hefi eg séð meiri svína aðferð hvað keyrslu snertir, en þann 4. þessa mánaðar, þá var eg staddur með öðrum manni á svokölluðum »Hólma« hér á pollinum, þá fóru tveir strákhnokkar með sinn hestinn hvor og vagna; þeim nægði ekki að taka spretti, heldur héldu þeir sömu fantakeyrslunni frá því fyrst að við tókum eftir þeim utan við Höfn og það inn fyrir Steinaflatir og voru alls ósparir að berja blessaðar skepnurnar; slíkt er ekki heiðvirt, þegar það er skoðað frá þeirri hlið. sem nefnist mannkærleiki, þó að sómatilfinningin sé lögð til hliðar.

En þrátt fyrir alt ætti slíkt ekki að eiga sér stað, því að Guð hljóta skepnurnar að eiga yfir sér, ekki síður en þeir, sem meðhöndla þær.

Jón H. Arnason
------------------------------------------------------------

Fram - 23. ágúst 1919

3. árgangur 1919, 35. tölublað

Tíðin.

Frá sunnudagsmorgni og fram á aðfaranótt föstudags mátti heita að væri sífelld úrkoma. Alla daga kalt og versta hrakveður með norðanstormi, og sjógangur eins og í verstu haustgörðum. Snjóaði í fjöll öðru hvoru, og miðvikudagsmorgun var hér hvítt niður að sjó. Í gærdag birti til og var dágott veður allan daginn. Eins og nærri má geta, gengur heyskapurinn báglega í þessari tíð. Hey var þó orðið nokkurn veginn þurt hér í kring á laugardaginn og náðist þá eitthvað inn, en seinni part dagsins tók að rigna og kom ofan í flatt hjá mörgum.

Hér vesturundan hefir tíðin víst verið með svipuðu móti og snemma í vikunni fréttist að snjóað hefði ofan undir bæi í Miðfirði og sama er að heyra að sunnan — þar hefir líka snjóað í fjöll. »Það má segja, að hér hafi enginn hlutur verið þurr á þessu sumri nema vatnsæðarnar í höfuðstaðnum. Þær hafa verið haldnar þorsta og þurki þó að alt annað hafi orðið vatnsósa af óþurkum« er „Fram“ skrifað úr Rvík. Hinsvegar segja blöðin að hagstæð veðrátta hafi verið á Suðausturlandi og sama hefir heyrst af Austfjörðum.
--------------------------------------------------------------

Fram - 30. ágúst 1919

3. árgangur 1919, 36. tölublað

Graftar eða leðjuvélín komin. —

E. S. »Siglufjord'« eign »Anlægskompaniet O. Tynes,« kom hingað með timburfarm til félagsins og hafði á eftir sér hina margumræddu graftarvél félagsins. Er sérstakt skip eða prammi útbúin handa vélinni og heitir »Sandfoss« Hann er knúður af 125 h. Dieselmótor og á pumpan að geta sogið upp 10 þús. tonn af sandi á dag. »Montör« eða vélastjóri kom ásanit vélinni og á að stjórna henni og verður hún líklega reynd í næstu viku.
---------------------------------------------------------------

Fram - 6. september 1919

3. árgangur 1919, 37. tölublað

Kolin.

Loksins hefir tekist að fá loforð fyrir kolum hingað til bæjarins, af kolafarminum úr »Geysir« sem er nýkominn til Akureyrar og verður hér úr helginni. Eru það nær 300 tonn sem leggjast eiga hér á land, og er þegar búið af bæjarbúum að panta rúm 200 tonn. Lögreglustjórinn hefur eftir langt og mikið þjark komið því í kring að vér fáum kolin við sama verði og Akureyri, 200 kr. smálestina á land flutta, og munar það bæjinn um töluverða fjárhæð, nefnil. allan flutningskostnaðinn í land.

Frú Jóhanna Stuff, konan sem allir Siglfirðingar hafa heyrt getið í sambandi við kaffihús, sem kona þessi hefur haft hér í sumar, hefur nýlega verið sektuð um 100 kr. fyrir að hafa óhlýðnast lögreglunni um lokun kaffihússins á tilteknum tíma, og eftir lokunartíma að hafa, veitt gestum sínum af örlæti miklu langt fram á nætur. Hefir þá oft verið gleðskapur mikill og frúin því grunuð um græsku hvað snertir óleyfilega vínsölu o. fl. Var nú hafin mjög nákvæm húsransókn en hversu mikið og vel sem leitað var fanst ekkert grunsamt í fórum frúarinnar og slapp hún með fyrnefndar 100 kr.
-----------------------------------------------------------------

Fram - 13. september 1919

3. árgangur 1919, 38. tölublað

»Siglufjords Sildesalteri & Anlægscompagni.«

Eins og um hefir verið getið hefur félag þetta fengið hingað nýtísku graftrarvél eða sandpumpu. Var síðastl. laugardag búið að koma vélunum svo í lag að pumpan yrði reynd, og bauð forstjóri félagsins herra O. Tynes oss að vera til staðar við tilraunina, sem fram átti að fara út við »Tréhólmann« svonefnda. Er »Tréhólminn« byrjun á hinum miklu virkjum, sem félagið hefir með höndum, og er hann þegar nær 600 feta löng ,piatning' og 50 feta breið, með tveim bráðabirgða bryggjum, (útleggjurum) út í höfnina. Meðan verið er að hita mótorinn sem knýr pumpuna, gengur Tynes með oss um hólmann og skýrir lauslega fyrirætlanir félagsins, sem næst á þessa leið:

»Eins og menn vita hamlaði ófriðurinn framkvæmdum vorum á verki þessu, er vér byrjuðum á 1916, efni gátum vér ekki viðað að oss vegna siglingateppunnar og urðum að leggja árar í bát. Fyrst nú í ár höfum vér getað byrjað á verkinu aftur og er nú ásetningur okkar að fá verkinu lokið hið allra fyrsta. Vér höldum áfram að reka niður staura og leggja palla þar til vér erum landfastir, og verður þá lengd þessarar aðalbryggju eða platningar nær 1200 fet og er það stærsta og lengsta platning á öllum Norðurlöndum.

Út frá þessari aðalbryggju ætlum vér að byggja 20 smærri bryggjur, hverja fyrir 2 veiðiskip, og á þá að verða mögulegt að afgreiða 40 skip samtímis við bryggjurnar, Með graftrarvélinni ætlum vér að dýpka meðfram allri norðurhlið þessarar aðalbryggju, og með öllum smábryggjunum, svo að þar verði 12 til 16 feta dýpi, en leðjunni eða sandinum kastar vélin innfyrir platninguna, og verður hún notuð þar til uppfyllingar, því inn af þessum tréhólma ætlum vér að fylla upp svæði sem er 1200 feta langt og 310 feta breitt, en leðjunni og sandinum á graftarvélin hæglega að geta spýtt 500 metra gegnum rör sem frá henni verða lögð.

Hvenær verki þessu getur orðið lokið er ekki gott að áætla. Strax seinni part vetrar verður byrjað á að dýpka og um leið að fylla upp, og býst eg við að nokkuð af bryggjunum verði tilbúnar til síldarsöltunar að sumri. En á 2 næstu árum vonum vér að geta komið miklu í verk. Að lokinni byggingu virkjanna er aðaltilgangur félagsins að reka hér síldarsöltun, bræðslu o. s. fr. Ennfremur er tilgangurinn að selveiðarar haldi út héðan að vorinu, leggi hér á land skinn og spik, og þegar þeir svo í júlímánuði hætta selaveiðum þurfa þeir ekki til Noregs, heldur geta hér búið sig út til síldveiðanna, en þá þarf Siglufjörður að hafa eignast góðan »slipp«, því öll þurfa selveiðaskipin á land til eftirlits og umbóta þegar þau koma úr ísnum.«

Nú berst talið að framtíð Siglufjarðar og útlitinu, sem um þessar mundir er fremur ískyggilegt, en Tynes trúir á framtíð Siglufjarðar, og þó að þeir félagar ef til vill verði fyrir stórtapi á stórvirkjum þessum sem þeir ráðast í, þá verði þessir 5 þúsund staurar sem þeir reki hér niður varla rifnir upp, síldin komi aftur, og þá verði það þeim til gagns og góðs, er þá byggi fjörðinn. En — vér lifum í þeirri trú og tryggu von að nú séu aflaleysisárin hjá gengin og nú komi góðæri, hvert árið öðru betra, langt fram á öld.

Þá fer mótorinn að gelta og vér hröðum okkur þar að. Alt leikur nú á reiði skjálfi því vélarnar eru mjög öflugar. Dýpið þar sem pramminn liggur er 7 fet, sogrörum er varpað til botns og úr pumpukjaftinum efri beljar samstundis gríðarlegt fossfall, og efast nú enginn um af þeim sem á horfir, að hér eru tröllatök að verki. Pumpurörin eru 10 tommu víð, og á pumpan að geta sogið upp þó hnullungar mannshöfuðstórir séu. 10 þúsund tonnum á pumpan að geta afkastað daglega, en af þeim 10 þúsund tonnum er mikið vatn, en fljótvirk mun hún samt sem áður.

Við þessa fyrstu tilraun, sem ekki var vel að marka, þar sem ekki var hægt að hagræða pumpunni sem skyldi, og því mjög mikill sjór sem pumpaðist með, gróf hún holu niðurá 14 fet á örskömmum tíma. Vér þökkum nú herra Tynes túrinn og upplýsingarnar og óskum honum til hamingju með fyrirtækið og að alt það fé, sem þeir félagar leggja í þetta þarfa fyrirtæki, megi bera þeim margfalda ávöxtu.
----------------------------------------------------------------

Fram - 20. september 1919

3. árgangur 1919, 39. tölublað

Ósannur orðrómur hefir hvað eftir annað borist út af Siglufirði, um óspektir og ólæti hér í sumar. Hafa sögurnar margfaldast svo og magnast að furðu gegnir. Segir ein sagan, þegar til Akureyrar kemur, að nærri hafi höggið bana 2ja manna í einum »slagnum.« En alt er þetta uppspuni. Hér hefir verið rólegra en nokkurt undanfarið sumar, sem útlendingar hafa verið hér uppi, og er það máske einkum að þakka því, að suðuspritt hefir hér aðeins verið selt gegn seðlum, þó sú ráðstöfun hafi ekki einhlýt reynst, þar sem kína-lífs-elixír, (kínavínið) sem allir máttu selja viðstöðulaust, var talsvert notaður en ,kínavínið' reynist ekki að hafa jafnill áhrif og »kogesinn«, á geð manna.
-------------------------------------------------------------------

Fram - 27. september 1919

3. árgangur 1919, 40. tölublað

Siglufjörður fær sjálfstjórn.

Lögreglustjórinn fékk í gærkvöld svohljóðandi símskeyti frá 1. þingm. Eyfirðinga Stef. Stefánssyni frá Fagraskógi:

Bæjarstjórnarfrumv. afgreitt sem lög frá Alþingi í dag.

Þarna er þá góðu máli ráðið vel og giptusamlega til lykta — þrátt fyrir andróður og firrur, nísku og eigingirnd. Þann 26. sept., á afmælisdegi konungsins, voru samþykt lög á Alþingi, sem gáfu oss Siglfirðingum þann fulla rétt, sem vér höfðum leitað eftir um lengri tíma. Alþingi sé heiður fyrir þetta. Og öllum þeim er studdu málið sé einnig heiður. En sérstaklega sé Stefáni Stefánssyni, 1.þm. Eyfirðinga, heiður og þökk af okkar hendi, því að hann hefur vissulega klifið þrítugan hamarinn til þess að vinna fyrir þessari sjálfsögðu réttarbót okkar.

Nú verðum vér sjálfstæðir, í þess orðs fullu meiningu. Vér gleðjumst af því að þurfa nú ekki að fara langar leiðir til þess að ná eða reka réttar vors. Vér gleðjumst hver og einn af því, að nú eignumst vér dómsvaldið hingað, lögregluvaldið óskorað hingað, fullkomna tollgæslu hingað, fógetavald o. s.frv. í stuttu máli: vér erum komnir þangað, sem siðferðiskröfur okkar bestu manna beindust að. En — kæru meðborgarar. —

Skyldur fylgja hverjum vegi! Vér megum vita, að svo framarlega hefur oss nú verið veitt full framkvæmd og dómsumsjá á vorum málum, að vér verðum að vanda vorn hag að öllu. Fyrst og fremst verðum vér að reyna að sýna sjálfstæðisrétt vorn með því að vera góðgjarnir og hreinlyndir. Vér megum ekki bera reiðihug til þeirra, sem ekki voru svo eftirlátir í okkar garð, sem vér hefðum á kosið. — Hreinlundin, sem skal sýna sig í réttum dómi á kostum og löstum vorum, á að vera svo, að vér viljum ávalt halda því fram, sem hverjum þykir satt og rétt. Sé þessa gætt getum frjálsir og frakkir framan mann.

En í öðru lagi verðum vér að vanda svo til, að einungis bestu menn, sem vér eigum völ á, fjalli um okkar mál. Svo best vegnar oss vel. Svo best getum vér gengið fram fyrir þjóðina og tekið þátt í störfum hennar sem sjálfstæður þáttur. Svo best göngum vér fram með heiðri og heimtum okkar rétt sem þjóðnýtir borgarar.

Vér viljum vinna íslandi!
--------------------------------

Rafmagnið.

Nú er nauðsynlegum undirbúnings-mælingum lokið við Selá hjer frammi í firðinum. Jón Þorláksson verkfræðingur byrjaði á þeim og lagði ráðin á um framhaldið, en Valtýr Stefánsson Iauk við þær. Mælingarnar gefa góðar vonir um það, að Selá nægi okkur til ljósa í framtíðinni, jafnvel þótt íbúatala bæjarins þrefaldist við það sem hún er nú. Þróarstæðið er nákvæmlega mælt og áætlað uppi í Selskálum, og pípuleiðslan ákveðin þráðbeint þaðan, að sunnanverðu við Selá niður á eyrarnar við Fjarðará.

Landslag er gott, bæði til þróarbyggingar og pípuleiðslu. Lengd pípuleiðslunnar er 804 metrar, en lóðrjett fallhæð 225 metrar. Vatnsmagn árinnar hefur verið mælt nokkrum sinnum í mestu frostum undanfarna vetur, og verður þeim mælingum haldið áfram á komandi vetri, ekki aðeins þegar vatnið er sem minnst heldur og endra nær. Allt virðist benda til þess, að orka árinnar verði töluvert meiri en til Ijósa fyrir bæinn fyrst framan af, en nóg mun verða þörfin fyrir það, sem af kann að ganga. Þörf fyrir rafmagn til suðu og ýmislegrar annarar notkunar og eptirspurnin eptir því mun aukast svo hröðum fetum, að ekki mun liða á löngu, þangað til taka verður einnig Fjarðará í þjónustu bæjarins.

Vatnsmagn þeirrar ár er nokkru meira en Selár, fallhæðin miklu minni, pípuleiðsla miklu Iengri og landslagið, þar sem pípurnar mundu verða að liggja, óhentugt, giljótt, dældótt og í miklum hliðarhalla. Báðar þessar ár, Selá og Fjarðará, taldi verkfræðingurinn miklu aðgengilegri til starfrækslu í bæjarins þarfir en Leyningsá og Skútuá; og óráðlegt taldi hann það fyrir okkur að ganga fram hjá öllum þessum ám hjer og sækja rafaflið inn í Fljótaá í Stífluhólum, bæði af því að aflið þar mundi tæplega verða nægilegt til að fullnægja öllum þörfum hjer í framtíðinni og einnig vegna þess, hve ákaflega dýr leiðslan myndi verða þaðan og hingað yfir fjallið og landslag mjög vont. Og svo er betra hjá sjálfum sér að taka en sinn bróður að biðja.

Næsta atriðið í þessu máli er þá það, að Jón Þorlóksson verkfræðingur býr til alla uppdrætti að hinu fyrirhugaða verki og sundurliðaðar kostnaðaráætlanir, allt byggt á hinum gjörðu mælingum. Þetta bjóst hann við að geta sent hingað í vetur, öðruhvoru megin við nýjárið. Þá kemur til kasta bæjarstjórnarinnar hjer, að reyna að útvega nauðsynlegt peningalán til fyrirtækisins. Og þá er þriðja og síðasta atriðið eptir, og það er að koma verkinu í framkvæmd, eða fá einhvern mann, einn eða fleiri, til að standa fyrir framkvæmd verksins.

Er vonandi að þetta gangi allt nokkurn veginn greiðlega, og að þess sje ekki langt að bíða, að þetta mjög þarfa fyrirtæki, sem heimsófriðurinn hefir tafið, komist til framkvæmda, svo að hjer verði ljós alstaðar og ávallt, þegar þörf er á. Leiðslan framan að til bæjarins verður »háspennt« sem kallað er, t. d. 3000 volt; en hjer í bænum verður spennunni breytt í lægri spennu, t. d. 220 volt eins og við höfum nú. Slíkar straumbreytistöðvar (transformatorar) eru ýmist inni í þar til gerðum húsum eða úti, efst í tveim, þrem staurum, sem standa hver nálægt öðrum, Mestallt leiðslunet bæjarins, sem nú er, mun verða notað eins og það er, svo og innanhúsaleiðslur og ljósaáhöld, nema einhver notandi æski breytingar. Á rafmagn til suðu verður lítillega minnst í næsta blaði.

B. Þ.
----------------------------------------------------------

Fram - 4. október 1919

3. árgangur 1919, 41. tölublað

Rafmagn til suðu

Rafmagn er mikið notað til suðu erlendis; en því að eins er auðið að selja afl til þeirrar notkunar, að aflið sje ekki af mjög skornum skamti, því ávallt er metið mest að fullnægja ljósaþörfinni. Rafafl er ákaflega þægilegt til suðu sökum hreinlætis þess, er því er samfara, og vinnusparnaðar, og þykist hver sú húsmóðir hafa himin höndum tekið, sem fær rafafl til suðu og bökunar alt árið, og jafnvel þótt ekki sje nema sumarið. Áhöld þau, sem til rafsuðu eru notuð, eru nokkuð dýr í byrjun, einkum nú, en þau endast töluvert lengi. Sumstaðar eru suðuáhöld,— og jafnvel ljósáhöld líka—-, seld notendum gegn árlegri afborgun uns lokið er, og virðist það hentugt fyrirkomulag.

Eflaust verður töluvert rafmagn selt til suðu, þá er hin nýja rafstöð kemst upp við Selá. Frá notenda sjónarmiði væri æskilegast, að sem flestir gætu fengið keypt þetta dýrmæti undraafl, og skoðað frá hlið fyrirtækisins væri æskilegt, að allt það afl yrði selt og notað strax, sem stöðin getur látið í tje, og fara þarna saman hagsmunir beggja, notendanna og fyrirtækisins. En mjög ódýrt getur aflið ekki orðið, hvorki til ljósa nje suðu, ef fyrirtækið á að geta borið sig, þar sem allt, bæði efni og vinna, verður tvisvar til fjórum sinnum dýrara nú, en það hefði orðið fyrir stríðið.

En ekki tjáir að bíða eptir því, að svipað verðlag komist á, og þá var, því þá mætti lengi bíða. Kolaverðið og olíuverðið, sem nú er, og líklega helst um stund, hlýtur að sætta okkur við, þótt rafmagnið verði nokkru dýrara, en það hefur verið að þessu, Rafmagn hinnar nýju stöðvar, bæði til Ijósa og suðu, verður selt eptir mæli, svo notendur borga aðeins það, sem þeir nota, og alls ekki meira. Ekki er gott að gera neina ábyggilega áætlun um það, hve mikinn krapt meðalheimili þarf til suðu. því efni skal þetta aðeins tekið fram.

Straumnotkunin er mæld í watt, og t. d. 100 watt í einn klukkutíma (eða 200 watt í hálftíma) er kallað 100 watt-tímar. Til þess að hita 1 líter af köldu vatni upp í Suðu þarf 115 watttíma; vilji maður hita hann á hálftíma, þarf 230 watt, og til þess að hita hann á kortjeri þarf 460 watt. En hvort sem maður notar lengri tími og minni straum eða skemmri tíma og meiri straum, er ávalit jafndýrt að hita 1 líter af vatni upp í suðu, því borgunin fyrir rafafl til suðu er venjulega reiknuð eptir því, hve marga watttíma, eða kílówatttíma, mælirinn sýnir að notandinn hafi brúkað um tiltekinn tíma t. d. á mánuði, og er þá borgað máðaðarlega. Einn kíló- watítími er 1000 watttímar.

Þegar suðan er komin upp, þarf ca ¼ af straumstyrkleikanum til þess að halda suðunni við. Suðuáhöld eru aðallega tvennskonar; annaðhvort plötur af ýmiskonar gerð, sem hitna af straumnum, en á plötumar eru sett þau venjulegu ílát, sem sjóða skal í; eða rafmagnsílát, stærri og minni og af margskonar gerð, sem sjálf hitna beinlínis af straumnum- en það er sjóða skal, er látið í þau. Um rafmagn til hitunar húsa skal talað í næsta blaði.

B. P.
--------------------------

Lögin um sjálfstjórn Siglufjarðar eiga að ganga í gildi 1. jan. 1920.
--------------------------

900 þúsund mun hann orðinn, og nær miljón króna mun hann verða, tollurinn af inn- og útfluttu hér í Siglufirði þ. ár. Bita missir Eyjafjarðarsýsla af borði sínu, nú þegar Siglufjörður algerlega losnar við hana.
---------------------------------------------------------------

Fram - 11. október 1919

3. árgangur 1919, 42. tölublað

Rafmagn til hitunar.

Um hitun húsa með rafmagni getur varla verið að tala hjer hjá oss, sem höíum ekki meira rafmagni yfir að ráða, en raun er á og útlit er fyrir. Til slíkrar hitunar, ef um nokkuð mörg hús er að ræða, þarf ákaflega mikið afi, og helst nokkuð auðfengið og ekki mjög dýrt. Svo er talið, að 40- 60 watt þurfi að vetrinum til þess að hita upp hvern kúbikmeter í herberginu, og rúman helming af þeirri wattatölu, til þess að halda hitanum við eptir á.

Til þess að hita upp herbergi, sem er 4 metrar á hverja hlið og 3½ m - undir lopt þarf þá nálægt því 3000 watt, (þrjú kílówatt), og mundi það kosta mörg hundruð krónur á ári, ef verðið á straumnum til hitunar væri nokkuð svipað verðinu á straum til ljósa. En að selja straum til hitunar við svo lágu verði, að það verði hagnaður að hita þannig herhergi sín, geta venjulega þær stöðvar ekki gert, sem reknar eru fyrir opinbert fje og hafa miklum ljósþörfum að gegna, með því líka mesta ljósþörf og mesta hitaþörf eru opt samtímis.

En rafstöðvar, sem eru eign einstakra manna eða fárra sameiganda, og hafa því hlutfallslega lítilli ljósþörf að gegna, en aflið er með góðum hagnaði notað til ýmiskonar vjelareksturs að sumrinu, slíkar rafsöðvar geta stundum orðið notaðar með einhverjum hagnaði til þess að hita upp hús að vetrinum, ef aflið á annað borð er nógu mikið. Við þurfum því tæplega að búast við því að geta fengið rafhitun í hús okkar yfirleitt í náinni framtíð, nema nýar leiðir verði fundnar til þess, að safna hitanum saman þann hlutadagsins,sem vjelarnar eru ekki notaðar til ljósa.

Og þetta getur tekist, áður en varir. Því einmitt þetta, söfnun raforkunnar og geymsla hennar til seinni tíma, svo vjelarnar þurfi aldrei að vera iðjulausar, það er eitt af þeim viðfangsefnum, sem raffræðingarnir keppast nú einna mest við að leysa á viðunandi hátt.

B. P.
------------------------------------------------------------

Fram - 25. október 1919

3. árgangur 1919, 44. tölublað

Lögreglustjórinn biður »Fram« að minna menn á að,vissara sé að gefa upp tekjur sínar fyrir árið 1918, og það þurfi þá að gerast helst í dag og á morgun, annars geti menn búist við því að skattanefndin ætli þeim ofháar tekjur, og setji þá þar af leiðandi í ofháan skatt. Tekjurnar ber að gefa upp til lögreglustjórans.
-----------------------------------------------------------------------------

Fram - 22. nóvember 1919

3. árgangur 1919, 48. tölublað

Tíðin.

Á mánudag gekk í norðanhríð, fyrstu hríðina á vetrinum, og hélst hún fram á fimtudag með talsverðu frosti, mun frostið mest hafa orðið 11 gráður. Í gær og í dag besta veður og alveg frostlaust.
--------------------

Fyrirspurn

Hversvegna eru ekki mokaðar götur hér nú, eins og undanfarna vetur? Er það af apturför við hið fengna lagalega sjálfstæði með bæjarstjórn að baki sér? Eða fer hugsunarhætti fjöldans svo hnignandi í menningarlegu tilliti?

Forvitinn.
----------------------------------------------------------------------------

Fram - 29. nóvember 1919

3. árgangur 1919, 49. tölublað

Fjarðaráin hefur það auðsjáanlega á stefnuskrá sinni, að eyðileggja brúna hjá svokölluðum Álfhól, með því að gjöra sér nýjan veg vestanvert við brúna og jafnvel taka steinsteypustöpulinn undan brúnni. Þessa óhæfu má hún alls ekki komast áfram með að gjöra, verður því að stoppa hana í tíma þótt áleitin sé. Og til þess eru 2 vegir. a. Að færa hana úr farveg sínum við eyrarodda þann er hrindir henni á bakkann að norðan, sem hún er að eyðileggja.

Það virðist vera hægt að veita henni austur á bóginn, en þar kemur hún til að lenda með talsverðum krafti á öðrum bakka, sem hún mundi geta eyðilagt fljótlega og þá um leið eystri brúarstöpulinn, en sá bakki er miklu styttri, og því ódýrara að múra hann upp með grjóti. En þessi nýi farvegur er að öðru leyti ekki tryggur því hann liggur í gegnum lágar eyrar, sem hún í vexti gæti farið yfir og þá grafið sér farveg og yrði þá stefna hennar á norðurbakkann eftir sem áður, en að líkum nær brúnni. Álít þessa leiðina varhugaverðari þótt ódýrari yrði í bráðina, en að tryggja bakkann að norðan. En þá kemur sú stóra spurning: með hverju á að tryggja hann svo varanlegt sé til frambúðar.

Það hafa komið til tals 2 leiðir til að tryggja bakkann svo duga skuli brúnni og brautinni.

 • b. Að klæða bakkarm með timbri á þann hátt að reka niður tré með hæfilegu millibili, klæða svo með 5|4 tommu borðum og
 • d. Að hlaða hann upp með grjóti. Lengd bakkans sem þarf að tryggja er 30 faðmar, hæð til jafnaðar í það minsta 2 metrar.

Þótt það máske í bráðina yrði eitthvað kostnaðarminna að brúka timbur, geta allir séð að til frambúðar getur það aldrei dugað eins og velgerður grjótgarður. Þótt menn geri nú ráð fyrir að timburklæðning geti staðið án þess að ísrek brjóti hana, þá er eg hræddur um að áin geti einatt grafið sig undir borðin og eyðilagt bakkann á þann hátt. Þá er öðru máii að gegna með steininn; hann mundi leita niður á við eftir ánni, ef hún vildi grafa sig undir. og þá hægt að bæta það ofan frá.

Við þurfum ekki að kaupa steininn, heldur gengi allur sá kostnaður í vasa verkamanna, sem mér findist eðlilegra þar sem þá er líka, um ábyggilegra verk að ræða, og losnum þá um leið við að fylla vasa einhvers timbursalans með peninga, fyrir vöru þá, er að mínu áliti aldrei yrði varanleg. Það er fleira og meira, sem bæjarstjórnin þyrfti að láta vinna, sem má heita óhjákvæmilegt, það er að koma grjóti að sér til vegagjörða í bænum og er það í fyrsta lagi hin fyrirhugaða Lækjargata, sem ómögulegt er að gjöra án grjóts.

Og þótt vegir hafi verið gjörðir hér í bænum með torf-köntum, er það hvorki til fyrirmyndar né fram búðar; mætti því leggjast niður, og nota heldur steininn til vegagjörða. Eins og allir sjá og vita, er þörfin svo mikil fyrir mikla vegalagningu í bænum, að undrum sætir hvað bæjarstjórnin hefir haft þar lágan gjaldalið á áætlun sinni. Nú komast margir hvorki frá eða að húsum sínum ef rignir eða flóðbylgjur æða yfir flóðgarðinn. Til þess að bjarga þessu við í bráðina væri réttast að keyra möl úr fjallinu í vetur í reinar á þeim útmældu vegastæðum sem blautust eru og og mestrar þarfar krefst.

Vilji nú bæjarstjórn láta vinna að þessu í vetur, og með því veita fjöldanum atvinnu þegar tíðin leyfir, þætti mér sanngjarnt og efast ekki um, að verkamenn mundu vinna fyrir lægra kaup hjá bænum, en í hlaupa vinnu hjá Pétri og Páli. Þetta fyrirkomulag hefir það gott við sig, að það skapar mönnum atvinnu þegar ekki er annað fyrir hendi, og áætlaðir peningar lenda í vösum vinnuþyggjanda kauptúnsins, en ekki alt til utanhreppsmanna eins og átt hefir sér stað hér á vorin. Því eptir að fiskur er kominn er hér ekki um heimamenn að ræða til vegavinnu, aðeins aðkomumenn hingað og þangað að.

G. Bíldahl.
----------------------------------

Bæjarstjórnarfundur Í fyrradag.

1. Kosnir voru í ellistyrktarsjóðsnefnd tveir menn í stað H. H. og Friðbj. Níelss., sem er veikur.

Kosninguna hlutu:

 • Sig. Kristjánsson og
 • Guðm. T. Hallgrímsson

2. Snjómokstur á götunum.
Kom bæjarfulltrúunum saman um að enn sem komið er hefði ekki verið brýn nauðsyn á því, að götumar væru mokaðar. Enda yrði að fara svo gætilega þar í, sem frekast væri unt þar sem að aðeins væru áætlaðar 300 kr. til snjómoksturs, til nýjárs, en vinna ekki lengi að hlaupa í þá upphæð, nú á tímum. Málinu annars vísað til veganefndar. - Í sambandi við þetta lýsti Flóvent Jóhannsson því yfir að þá nýlega, hefði á verkamannafélags-fundi verið rætt og samþykt, að verkamenn ynnu fyrir lægra kaupi en annars, þegar bærinn ætti í hlut, ynnu þá fyrir 90 aura á kl.stund.

3. Frumvarp til fundarskapa, fyrir bæjarstjórnina, las oddvíti upp. En málið eigi afgreitt á þessum fundi.

4. Ný byggingareglugjörð fyrir kaupstaðinn. Kosin 5 manna nefnd í það mál, kosningu hlutu Oddviti, Guðm. T Hallgiímss. séra Bj. Þorsteinss. Kjartan Jónsson Páll Kr. Jóhannson. Tveir þeir síðastt. utan bæjarstj.
----------------------------------

Skarlatssótt hefur stungið sér hér niður. Hefur hennar orðið vart í þrem húsum, í tveim þeirra eru sjúklingarnir á góðum batavegi. Héraðslæknirinn hefur jafnóðum og veikinnar hefur orðið vart, einangrað húsin, og tekst honum vonandi að hefta útbreiðslu hennar.
-------------------------------------------------------------------