Glefsur úr blaðinu Fram-1920

4. árgangur 1920, 5. tölublað

Skíðafélag.

Nokkrir piltar hér í firðinum hafa ákveðið að mynda hér skíðafélag ef nægileg þátttaka fengist. Allir drengir frá 10 til tvítugs aldurs, eru því hér með beðnir að koma á fund á morgun (sunnudaginn 8. febrúar) kl. 10 f. H. í húsi Guðl. Sigurðssonar. Nokkrir piltar.

-----------------------------------------------------------

Fram - 14. febrúar 1920

4. árgangur 1920, 7. tölublað

Tíðiin:

Síðari hluta mánudags gekk í norðaustan byl. Var aðfaranótt þriðjudags og þann dag allann, eitt með mestu afspyrnurokum er hér koma. Fannkoman var mikil, en frostlaust að kalla mátti. Sjórokið gekk hér yfir alla eyrina og langt upp í hlíðar, og brim var svo mikið að menn muna ekki slíkt, telja það hafa verið mun meira en september-brimið 1916. Veðrinu slotaði aðfaranótt miðvikudags, en hefir þó síðan verið rosafengið. Nokkurt frost síðustu daga, hæst um 8 gráður, samtímis hefur það farið upp í 17 gráður á Akureyri.

Skaðar af völdum brimsins. Ennþá einu sinni hefur orðið hér í Siglufirði töluverður skaði, þar sem brimið sópaði burt hinni stóru bryggju Thorsteinsens úti í Bakka, er það eignatjón svo þúsundum skiftir.

Varnargarðurinn hefur og verið mjög hætt kominn; hefur sjórinn grafið sig undir hann á stórum svæðum og brotið hann, og mun hann ekki þola mörg slík áföll, enda gekk óbrotinn sjórinn yfir hann inn á tjarnir, svo hér þarf skjótra aðgjörðra, og garðinn þarf að hækka töluvert ef hann á að koma að tilætluðum notum. Eins og stendur þarf fólk úti á grandanum þrásinnis að flytja úr húsum sínum vegna sjáfarágangs ef nokkurt brim er að mun.

Úr Ólafsfirði er oss sagt að sjórótið á þriðjudaginn hafi gert þar mikinn usla. Sett um skúra og tók út úr einum þeirra nær 5 skpd. saltfiskjar. Mótorbátar sem uppi stóðu rótuðust til og brotnuðu nokkrir talsvert, og tvo róðrarbáta tók brimið. Annars hefur óveður þetta gengið yfir alt land, en fregnir hefur maður ekki af stöðum víðar að.

Bæjarstjórnarfundur í gær. —

Meðal annars sem þar var til meðferðar voru 2 tilboð sem komið höfðu í þvergötu, sem á að leggja af væntanlegri Grundargötu og austur þangað sem stendur hús Johansens; gatan er áætluð 105 m. löng, 8 álna breið.

Annað tilboðið var frá Birni Jónassyni, ökumanni fyrir 2,275 kr., hitt frá Flóvent Jóhannssyni í nafni Sigurjóns Sigurðssonar ökumanns, 40 krónum hærra eða 2,320 krónur. En nú skeður það furðulega fyrirbrigði að hærra tilboðinu er tekið, eða tilboði Sigurjóns.

Var það samþykt með 3 atkv.: Oddvita, Fr. N. og Flóvents, gegn 2: B. P. og Sig. Kr. Hefur þó bæjarstjórnin áður tekið tilboðum Björns í tvær götur, sem miklu vandameira og erfiðara er að leggja, en þessa götu. Voru tilboð hans eins og menn muna svo langt undir öðrum tilboðum sem fram komu; þó kippir nú meiri hluti bæjarstjórnar að sér hendinni, þrátt fyrir það, þótt tilboð Björns sé ennþá mun lægra, og honum fult svo vel treystandi til að gera verkið. Þess skal getið að blaðinu hefur borist grein þessu aðlútandi, en sem kom svo seint að hún verður að bíða næsta blaðs.

----------------------------------------------------------

Fram - 6. mars 1920

4. árgangur 1920, 10. Tölublað

Lítil athugasemd.

Fyrir nokkrum dögum kallaði frú Guðrún Björnsdóttir mig á sinn fund heim í hús sitt og spurði mig hvort það ekki væri satt, að O. Tynes hefði boðið mjer áfengt vín og sagt, að mjer væri óhætt að drekka þetta því það væri aðeins Frugtvín. — Þessu neitaði jeg harðlega, því það eru rakalaus ósannindi. O. Tynes hefir aldrei boðið mjer slíkt.

— Þessa frásögn mína er jeg reiðubúinn að staðfesta með eiði, hvenær sem krafist verður.

Siglufirði 28. febr. 1920 Jóhann Þorfinnsson.

Vottar: Sveinn Jónsson Andrés Hafliðason.

Í sambandi við ofanritað vottorð vil eg allra virðingarfylst mælast til þess við frú Guðrúnu Björnsdóttur að hún sé ekki framvegis að skifta sér af mér eða mínum högum, því að það er eg sjálfur en ekki hún, sem á að bera ábyrgð á orðum mínum og gerðum, og þó að hún í seinni tíð virðist hafa veitt mér einhverja sérstaka athygli, þá er langt frá því, að eg sé nokkra minstu vitund upp með mér af þeirri athygli hennar, því að ekki get eg, fyrir mitt leyti, talið hana neina fyrirmynd annara manna.

Að öðru leyti skal hér mint á það, sem mælt er, að hverjum beri að gera hreint fyrir sínum eigin dyrum áður en hann fer að sópa frá dyrum náungans og mætti þá svo fara, að frúin við þá »hreingerningu« fyndi einhvern, sem henni stæði nær að skifta sér af heldur en mér og fleiri hér í bænum, hvað það snertir að freista annara til drykkju og fleiri ódygða, sem hlotist hafa af yfirsjón Evu gömlu í Paradís hér á árunum.

Bæði eg og sumir fleiri hafa hugsað sem svo, að frúin hefði nóg að sýsla með að gæta síns eigin heimilis og þess, sem þar fer fram, en það er líklega misskilningur fyrst að hún þykist ekki hafa nóg að starfa í sínum eigin víngarði — þykir hann máske ekki nógu rakur — og mætti þó ef til vill finna þar þær plöntur, sem ekki veitti af góðri umsjá, og þá umsjá þykist líklega frúin sjálf vera færust um að láta í té.

Hvað Jóhann Þorfinnsson snertir, þá hefir hann verið í vinnu hjá mér undanfarin 3 ár og allan þann tíma reynst mér að vera s t a k u r r e g I u m a ð u r sem og í alla staði duglegur og áreiðanlegur maður, sem óhætt er að mæla með hvar sem er, og vildi eg gjarnan geta haldið honum sem lengst í minni þjónustu. Tel eg það því hreinasta óþarfa að frú Guðrún Björnsdóttir sé að skifta sér af daglegum háttum pilts þessa og mætti hún gjarnan rifja upp fyrir sér þau orð, að það sé hægra að sjá flísina í auga bróður síns en bjálkann í sínu eigin auga,

Sigluf. 6. mars 1920. Ole Tynes.

----------------------------------------------------------------- +

Fram - 12. mars 1920

4. árgangur 1920, 11. tölublað

Vindhögg. —oo—

Oss barst í fyrradag undirskriftaskjal frá nokkrum kaupendum blaðsins hér í bæ, með hverju þeir segja sig frá blaðinu. En því miður getum vér ekki tekið uppsögn þeirra gilda, þar sem enginn þeirra er skuldlaus við blaðið. En með ánægju munum vér strika út nöfn þessara manna af kaupendaskránni, jafnótt og þeir greiða skuld sína. Rétt til hughreystingar þessum mönnum skulum vér geta þess, að blaðinu hafa undanfarna daga síðan þetta fékk fæturnar, bæzt kaupendur, fullkomlega eins margir og þeir sem nú vilja segja sig frá því, og yfirleitt hefur tiltæki þetta vakið hina mestu andstygð, og kemur aldrei til að ná tilgangi sínum sem sé þeim að eyðileggja blaðið, þvert á móti verður nú þetta hið argasta vindhögg, og aflar blaðinu hér miklu meiri vinsælda en það nokkurntíma naut áður.

Ein, eða aðalástæðan sem tilfærð er fyrir þessari framkomu gagnvart blaðinu, er grein herra O. Tynes til frú G. Björnsdóttir í síðasta tbl. og geta því óhlutdrægir lesendur blaðsins séð hvort grein sú er að efni og orðfæri þannig að geta talist ósæmileg, eða sérstök ósvífni af ritstjórans hendi, að leyfa Tynes með henni að hreinsa sig af ljótum áburði, og biðja sig undanþeginn óþarfa afskifti um hans einkaháttalag. Annars virðist oss nú sumt fólk orðið næsta hörundssárt í seinni tíð, bæði hvað viðkemur sjálfu því og náunganum, og sérstaklega finst oss og mörgu góðu fólki, fyrverandi ritstjóri H. J. húðstrýkja sjálfan sig all hrottalega með því að skrifa undir skjal þetta með þessum vandlætingarpostulum.

Hannesi var þó ekki svo velgjugjarnt meðan blað þetta var í hans höndum, og margs að minnast frá hans ritstjórnartíð. Teljum vér vist ef í það væri farið, að fá mætti yfirlýsingu ótal mætra manna, bæði hér í sveit og víðar, um það hvað blaðið hefði tekið stórkostlegum breytingum til hins betra, þá er það kom í vorar hendur, þó því að sjálfsögðu sé að mörgu leyti mjög ábótavant.

Benda má á það að illa hefur þó róðurinn sózt æsingarseggjunum, sem óðu inn á, að heita mátti, hvert einasta heimili, og gerðu fleiri en eina atrennu að sumum, að þeir ekki skyldu þó ná fleirum en 48 af nær 200 kaupendum sem blaðið hafði hér í sveit, en eins og áður er getið er sú tala þegar full aftur. Það má öllu ofbjóða. Drottnunargirni og blint sjálfsálit þeirra, er skoða alþýðuna sem viljalaust verkfæri í sínum höndum, verður sjálfum þeim fyr eða síðar að fótakefli.

Og ætli það sé ekki að verða svo hér, í þessum bæ, að augu hugsandi alþýðufólks séu þegar opin fyrir því, að óhemjulæti einstakra rnanna og yíirgangur keyrir hér fram úr öllu hóti

------------------------

Yfirlýsing.

Eg finn mér skylt að taka það fram, að vottorðið sem birt er í síðasta tölublaði »Fram«, er sett þar án míns vilja og vitundar. Og til að fyrirbyggja allan misskilning skal eg geta þess, að erindið, sem Guðrún Björnsdóttir átti við mig og Sigurð Þorkelsson frá Landamótum, þegar hún gerði okkur báðum boð að finna sig, var alt annað en það að spyrja mig hvort það væri satt að O. Tynes hefði veitt mér áfengi, en talið barst að bindisstarfsemi og spurði hún mig þá að þessu, sem eg neitaði að væri satt, eins og eg hefi áður sagt. Gat hún þess þá að það gleddi sig, því sér hefði fallið illa, ef hún hefði neyðst til að trúa því.

10. mars 1920. Jóhann Þorfinnsson

-------------------------

Orðsending til O. Tynes.

Það er alkunnugt að lítil tilefni eru oft notuð, þegar menn eru reiðir, t. d. út úr ósigri við kosningar — og vilja endilega láta reiðina bitna einhversstaðar, en tilefni það, er hr. O. Tynes notar til að ráðast á mig í síðasta tölubl. af »Fram.« er þó það smæsta, sem eg minnist að hafa séð, á prenti að minsta kosti.,—

Dylgjum hans svara eg ekki, af þeirri einföldu ástæðu að eg skil þær ekki, en ef hann er að drótta því að mér, sem helst lítur út fyrir, að eg sé óheil í bindindismálinu, þá skora eg á hann að segja það hreinskilnislega og færa sönnur á mál sitt. Annars á eg ekki von á að eg þurfi þar neitt að afsaka mig. Eg held það sé nokkurnveginn áreiðanlegt að allir sem þekkja mig,-viti hve mikill sannleikur felst í þeirri aðdróttun, en hinir veita þessum ritsmíðum líklega litla eftirtekt.

Það má ekki minna vera, en að eg — í viðurkenningarskyni fyrir ráðleggingar hr. O. T. og annan góðvilja(!) til mín, gefi honum eitt ráð: að skifta sér aldrei framar af bæjarstjórnarkosningum, því það hefir augsýnilega svo skaðleg áhrif á skapsmuni hans og vitsmuni, að hann þolir það hreint ómögulega. Og svo þarf hr. O. Tynes ekki að vonast eftir svari frá mér oftar, hverju sem hann kann að finna upp á næst, því sannar sakir hefir hann engar á mig, en útúrsnúninga og ósannindi nenni eg ekki að eltast við.

Guðrún Björnsdóttir

----------------------

Fram - 20. mars 1920

4. árgangur 1920, 12. tölublað

Hvert horfir?

Eins og vitanlegt er orðið, varð, að því er séð verður, smágrein hr. O. Tynesar í n. s. blaði »Frams« til þess að nokkrir kaupendur blaðsins hér í bænum sögðu því upp. Er veður þetta, sem gert hefir verið út af téðu greinarkorni, með öllu óskiljanlegt þ. e. a. s. frá sjónarmiði sæmilegrar skynsemi og sanngirni, því þó eg lesi umr. grein hvað eftir annað bæði áfram og aftur á bak, get eg ekki fundið eitt einasta orð í henni móðgandi auk heldur meiðandi, og svo hygg eg fleirum fari, sem greinina Iesa rólega og hlutdrægnislaust, enda mundi frú Guðrún sjálfsagt að öðrum kosti láta réttan sakaraðila (Tynes) sæta ábyrgð fyrir.

Eftir því sem mér virðist, tekur hr. O. Tynes skarpast til orða þar sem hann fyrir sitt leyti telur frú Guðrúnu enga »fyrirmynd« og að hún skuli fyrst gæta síns eigin »víngarðs« (þ, e. heimilis og annara nærliggjandi starfa), en hvorttveggja þetta er svo algengt svar þegar einhver ætlar óbeðinn að fara að hlutast til um annara hagi, þó í bestu meiningu sé gert, að enginn meðalgreindur maður lætur sjást eða heyrast að það móðgi hann. Eins og eg hefi rétt til þess óátalið, að álíta frú Guðrúnu í raun og sannleika að sumu leyti fyrirmynd kvenna, verður ekkert við því sagt þó annar sé á gagnstæðri skoðun um það, enda mun svo lengst verða.

Upphaflega tilefnið til þessara opinb. viðskifta frú Guðrúnar og Tynesar er ómerkilegasta bæjarslaðlaður, og er ilt til þess að vita, að slíkt skuli geta leitt til fjandskapar milli góðra borgara bæjarins og ómaklegra árása á menn. Næsta ástæðan er vottorð það, sem Jóhann Þorfinnsson gefur Tynes, þar sem hann ber það undir eiðstilboð, að frú Guðrún hafi kallað sig á sinn fund, til þess að spyrja sig hvort það væri ekki satt, að Tynes hefði viljað svíkja ofan í hann áfengt vín með því að telja honum trú um að það væri óáfengt »Frugtvín,«

Eftir þessu vottorði er ekki hægt að sjá annað, en að frú Guðrún sé að safna sönnunum fyrir því, að Tynes neyti allra bragða til þess að tæla yngri menn til drykkju og óreglu, og það jafnt þá, sem hann veit að eru bundnir drengskaparheiti gagnv. víninu (ungm.félaga) og þannig ekki aðeins brjóti landslögin (bannl.) heldur geri sig líká sekan í lúalegasta ódrengskap.

Góðir menn og réttsynir, þreifið nú í ykkar eigin barm og athugið hvernig ykkur myndi þykja, ef slíkri framkomu sem þessari væri að ástæðulausu trúað um ykkur og verið að safna vottorðum um hana, og hvort þið mynduð, ef þið annars segðuð nokkuð, stilla skapi ykkar og orðum betur í hóf en hr. Tynes í umr. grein. Og ekki munduð þið vilja láta gefa ykkur sök á því, þó ykkur yrði á að trúa því sem fullorðinn maður gefur vottorð um og býðst til að sverja.

Ef vottorðsgefandinn hefði tekið sínar síðari leiðréttingar fram strax, hefði málið horft alt öðruvísi við, því það er nokkuð annað, hvort slúðrið aðeins berst í tal og það með þeim hug að álíta það ósatt, eða að pilturinn er beint kvaddur til viðtals, til þess að staðfesta það. Frú Guðrún og hennar menn máttu sjá það strax, að grein Tynesar var aðeins eðlileg afleiðing af vottorðinu eins og það er orðað, og hefðu því átt að hlífa piltinum við opinberri minkun með því að blanda honum ekki inn í málið frekar.

Hvernig umrædd grein hr. Tynesar — jafnvel þó meiðandi hefði verið auk heldur — gat gefið tilefni til þess, að ýmsir kaupendur segðu blaðinu upp, er ekki auðvelt að sjá eða skilja á annan veg en þann, að frú Guðrún hafi sjálf gengist fyrir því, og þannig mun það líka alment lagt út, því hefði það ekki verið vilji hennar, má ætla að hún hefði getað afstýrt því. Annars hver sem upphafið eða aðaldriftina hefir átt í því að safna undirskriftunum, virðist mér það tiltæki vægast sagi hið óskynsamlegasta, svo að eg hefði ekki trúað að frú Guðrún væri ekki vaxin langt yfir að eiga þátt í slíku.

Menn gátu haft bæði »skömm og gaman« af því að sjá smalana leggja undir sig allan bæinn með sama herópið: »Hefnum Guðrúnar,« inn í hvert hús, eins og eitthvert stórmál væri uppi, sem allan almenning varðaði. Eg er einn af þeim, sem lesið hafa »Fram« frá byrjun- og minnist eg ekki að hafa séð í honum meiðandi greinar, sem þó ekki er óalgengt í blöðum, að undansk. ádeilunni á séra Bjarna í ritstj.tíð þeirra H. J. og F. N. í hnippingum Tómasar og Halldórs stappar víða nærri og sömul. í bolamálinu o. fl.

Eg geri ráð fyrir ef séra Bjarni, svo vel látinn sem hann er, hefði ráðist á blaðið með rógi og undirskriftasmölun að hann hefði getað fengið flesta hreppsbúa til að segja því upp, en auðvitað var hann yfir það vaxinn, enda hefði alstaðar mælst fyrir sem hin mesta ómenska. Þetta uppsagnaruppþot nú, út af ómerkilegasta prívatmáli, er eindæmisháðung og auglýsir hina hörmulegustu mynd af andlegum þroska og félagslífi bæjarins. Það dylst engum að það félagslíf er óheilbrigt, sem lætur ekki einstaklinginn sjálfráðan og í friði um það, hvort hann kaupir eitt vikublað eða ekkl, og þvælir honum og heimili hans inn í ýms slúður- og óvildarmál, sem hann gæti verið laus við.

Séu menn óánægðir með blaðið sem þeir kaupa, ættu þeir hver og einn að geta sagt því upp hjáiparlaust og án þess að sérstakir menn gengjust fyrir því, jafnvel þó það væri skylda, sem ekki er, að láta uppsögninni fylgja skammabréf til ritstjórans. Sem einn af kaupendum og lesendum »Frams« get sagt fyrir mitt leyti, að þó eg sjái það eins og aðrir, að fjórar krónurnar eða fimm sem hann kostar nú, séu ekki fyrir neðanmálssögunni og pappírnum, miðað við pappírs og bókaverð, er eg þó nógu heimtufrekur til þess að geta kosið hann betri.

Ekki að mér þyki hann svo orðhvass eða ófyrirleitinn, því í því efni kemst hann ekki í neinn samjöfnuð við önnur blöð, sem lesin eru hér, heldur þykir mér hann ræða oflítið almenn mál, sérstaklega þó hin opinberu mál kaupstaðarins og önnur framfaramál þessarar sveitar. Eigi »Fram« að verða bænum til uppbyggingar, sem hlýtur að hafa verið hinn upphafl. tilgangur hans, verður hann að taka í sig meiri einurð og festu en mér virðist hann hafa og auðvitað jafnframt því að vera frjálslyndur og réttsýnn.

Eg minnist þess t. d. að fyrir nokkru gerði hann þá fyrirspurn til eins bæjarfulltrúans, því hann hefði í bæjarstjórninni greitt atkvæði með sínu eigin tilboði í vinnu bæjarins, þó það væri bæjarsjóði næstum tvö þúsund krónum dýrara en tilboð annars manns í sömu vinnu. Þegar þessi fyrirspurn kom fram, þótti hún af sumum óþarfa árás og afskiftasemi og þannig hefir fulltrúinn sjálfur víst litið á hana, því þrátt fyrir skýlausa siðferðilega skyldu sína gagnvart gjaldendum bæjarins — sem fæstir geta setið á bæjar-stjórnarfundum — að gera grein fyrir þessari einkennilegu afstöðu sinni, hefir hann engu svarað.

Í þessu máli sem fleirum, þykir mér »Fram« hafa skort einurð og atfylgi að taka það ekki til rækilegrar athugunar og skýringar, því óneitanlega er framkoma fulltrúans í því svo dularfull og tortryggileg, að öll ástæða er fyrir bæjarbúa að vilja vita, hvaða heilbrigðar varnir hann hefir að færa fyrir henni eða hvort hann hefir ætlað að nota stöðu sína til þess að auðgast á bæjarsjóðnum.

Að gefa út blað í bænum, en að almenningur hafi þó litla eða enga hugmynd um hvað gerist á bæjarstjórnarfundum, né hvernig fulltrúarnir starfa, eða hvaða mál eru efst á dagskrá, er mjög óviðfeldið og öðruvísi en það á að vera. Mér finnst það því koma ómaklega niður, þegar þess er gætt hvað »Fram« er altof hæglátur og fáskiftinn um fliesta hluti, að bregða honum um ósvífnar árásir á menn og málefni.

Mér fyrir mitt leyti finst blaðið bera þess merki, að ritstjórinn sé alt of mjúkhentur til að hafa þann starfa á hendi enda mun hann mega kallast sérstakur friðsemdarmaður og góðmenni í hvívetna. Yfirlýsing sú að það sé stefna ritstjórans að hvepsa í og níða saklausa menn, er blaðuppsögninni fylgdi undirrituð af uppsegjendum, þar á meðal mönnum, sem að eins munu hafa reynt hann að góðu einu, mun því alment mælast fyrir sem óþörf sending og ódrengileg.

Í sambandi við það, sem »Fram« kann að vera ábótavant, finst mér verða að gæta þess:

Í fyrsta lagi hvað hann hefir miklu verri aðstöðu til frétta og annars fróðleiks en t. d, Reykjavíkur og Akureyrarblöðin, í öðru lagi að hann er langódýrasta vikublað landsins og hefur því úr litlu fé að spila til fréttakaupa útlendra blaða og fróðlegra ritgerða auk margs annars, í þriðja lagi að sumir, sem að blaðinu hafa staðið hafa haldið fram þeirri einstrengislegu sérvisku, að það ætti að vera skoðana og stefnulaust í öllum opinberum málum, en með því hlýtur hvert blað að vera áhrifalaust og leiðinlegt, og í fjórða lagi, og ekki síst, er ritstjórn »Frams« svo illa borguð að hún verður að vera eingöngu hjáverk.

Laun fyrir ritstjórn og alla afgreiðslu munu vera eitthvað yfir tvö þúsund, en byrjunar ritstjóralaun, t. d. við blað Seyðfirðinga, sem vakið var upp nú um ára mótin og er á stærð við »Fram« eru á fimta þúsund, og hafa þó ritstjórar aðalblaðanna til muna hærri laun. Eins og hér stendur á, að efni blaðsins verður að mestu leyti að koma frá ritstjóranum, ríður enn meira á því að hann geti gefið sig við því óskiftur.

Að halda blaðinu og prentsmiðjunni við, álit og vera bæði sóma og nauðsyn fyrir bæinn, og að bæjarbúar sem og aðrir hreppsbúar er nokkur efni hafa og áhrif ættu fremur að beita þeim þessum fyrirtækjum til stuðnings en eyðileggingar. Siglfirðingar geta ekki fremur en Seyðfirðingar talið sér vansalaust eða skaðlaust að leggja niður blað sitt, heldur ætti það að vera þeim metnaðarmál að styðja það svo að það þyrfti ekki að vera lakar úr garði gert en »Austurland« eða Akureyrarblöðin. Látum horfa til framfara og friðsamlegrar sambúðar, en ekki út í eld og eyðileggingu.

Einn af kaupendum »Frams.«

------------

ATH.

Heiðruðum greinarhöfundi þykir Fram vera um of fáskiftinn hvað viðkemur opinberum málum, og þá helst héraðsmálum, og má það til sanns vegar færa, hefur og tæplega verið leyfilegt að þessu, en hitt, að almenningi hér sé ekki gefinn kostur á, gegnum blaðið, að fylgjast með stórmálum þeim sem t. d. bæjarstjórnin hefur með höndum, finst oss ekki alskostar réttmæt athugun, því ekki minnumst vér þess að nokkurt það mál, sem hún hefur um fjallað, og sem stórmál eða reglulegt framfaramál þessa bæjar getur kallast, hafi farið alveg þegjandi framhjá oss, þótt slælega höfum vér lagt til málanna.

En alt stendur til bóta, og þá vonandi eins ritstjórn þessa blaðs. Enn sem komið er, má heita að fyrirtæki þetta sé á byrjunarstígi, ritstjórnin aðeins hjáverk, eins og greinarhöf. réttilega tekur fram, en á framtíð blaðsins og gagnsemi trúa margir góðir menn, og hafa þegar tekið höndum saman um að »Fram« skuli ekki velta út af á næstunni heldur verði að honum hlúð á alla lund, eftir föngum, og þá auðvitað ritstjórnin bætt eins og annað, og að því er og verður stefnt, að góður maður verði fenginn, sem eingöngu og óskiftur geti gefið sig að blaðinu, þótt vér hins vegar teljum víst að aldrei verði sá fenginn sem öllum gerir til geðs.

Ritstj.

-----------------------

Lítið andsvar til frú Guðrúnar Björnsdóttur og orðsendingar þeirrar, er hún sendi mér í seinasta blaðinu af »Fram« 13. þ. m. og sem vísast á að vera einhverskonar greinargerð fyrir aðdróttunum þeim, er eg vísaði heim til föðurhúsanna í grein minni í »Fram« 6. þ. m. Líklega hefir frúnni svelgst á greininni og til þess að sneiða sem allra mest hjá málefninu, þá kennir hún bæjarstjórnarkosningunni um alt saman, eða gefur í skyn, að eg hafi orðið óður og uppvægur af því að ná ekki kosningu o. s. frv. —

Eg skil nú raunar ekki hvers vegna frúin er að setja grein mína í samband við bæjarstjórnarkosninguna og verð að álíta »orðsending« hennar til mín fram komna af því, að hún hafi ekki haft öðru til að dreifa. Eg hefi ekki, enn sem komið er, fundið til þessarar reiði, sem frúin er að bregða mér um, og býst heldur ekki við, að eg muni finna til hennar, enda er það eðlilegt, þar sem framboð mitt hvorki var margþvælt né heldur mengað neinum ofsa og mikilmensku-brjálæði — og fyrir bragðið slapp eg líka við martröð og illa drauma um vantandi atkvæði o.s.frv.

Ekki gerði eg heldur út flokk manna til að gana milli fjalls og fjöru og kvists og kjallara í þeim tilgangi að kenna mönnum, hvernig þeir ættu að koma því fyrir, að neðsta nafnið á listanum gæti orðið efst og borið sigur úr býtum, Annars fanst mér kosningin fara vel fram, en hafi eg vakið hneyksli og sett blett á Siglfirðinga með því að leyfa að nafn mitt væri sett á A-listann, þá vil eg vona, að það hneyksli og sá blettur máist af áður en langt um líður. Og heilræðið sem frúin gefur mér að síðustu að vera helst ekki að skifta mér oftar af málefnum bæjarins — því heilræði vísa eg aftur til ráðgjafans sjálfs með þeirri athugasemd, að það verður alls ekki til greina tekið, —

Hvað snertir »yfirlýsingu« þá, sem Jóhann Þorfinnsson setur í sama blað, þá skal eg leyfa mér að taka það fram, að »vottorðið« sem Jóhann gaf mér sjálfur af frjálsum og fúsum vilja og prentað er í »Fram« 6. þ. m., er í alla staði sannleikanum samkvæmt frá byrjun til enda. Annað sem til umræðu kom á þeim »málfundi,« varðar mig ekki um, með því að það hefir væntanlega ekki snert mig að neinu leyti, enda má mér að öðru leyti á sama standa, hvort eg hefi verið sá fyrsti eða síðasti, sem lagður var á vogarskál frúarinnar þann daginn.

Siglufirði 19. mars 1920. O. Tynes.

--------------------------------

Tíðin:

Fremur hæg veðrátta hér í Siglufirði fyrri part vikunnar en töluverð frost. í gær gekk í landátt og er í dag komin asahláka, sú fyrsta á vetrinum. Fréttir bæði austan og vestan herma hið sama, alstaðar hláka, og er vonandi að framhald verði á henni, því víða mun nú vera orðin brýn nauðsyn á að breytist til um tíðarfar.

Um alt land hagleysur, og víða svo mikil fannkyngi að slíks eru engin dæmi, sumstaðar sunnanlands voru símastaurar á kafi í fönn á löngum svæðum.

Skíðakapphlaup og skíða íþróttir ýmsar áttu að fara fram hér í dag, en þá kom hlákan og eyðilagði skíðafærið. Er það skíðafélag nýstofnað hér í bænum sem gengist hafði fyrir þessari kepni og mun nánar minst á félagsskap þennan í næsta blaði. Skíðahlaupin fara fram fyrsta dag sem gott skíðafæri verður.

-------------------------------------------------------------------

Fram - 3. apríl 1920

4. árgangur 1920, 14. tölublað

Skíðaíþróttir sýndi Skíðafélagið hér síðastliðinn mánudag. Veður var hið besta og skíðafæri ágætt. Íþróttirnar voru:

Kappganga, hindrunarlaus brekka og brekka með loftstökki og var þátttakendum skift í þrjá flokka;

- Í fyrsta flokki voru 15 ára og eldri,

- Í öðrum 13 til 15 ára og

- Í þriðja 10 til 13 ára.

Gengið var af

I. flokki frá Hvanneyri og fram að Steinaflötum og til baka (c. 7 kílóm.)

II. flokki frá Hvanneyri og suður á Hafnarhæð og til baka og af

III, flokki suður á Búðarhól og til baka.

Brekkan var: fyrir

I. fl. af Hvanneyrardalsbrún á jöfnu, fyrir

II. fl. úr hlíðinni nokkru neðar og

III. fl. neðarlega úr hlíðinni.

Brekkan með loftstökki var einnig mismunandi há fyrir flokkana.

Þátttakendur voru alls 30 og voru ákveðin þrenn verðlaun fyrir hvern flokk í hverri íþrótt; féllu þau sem hér segir.

Verðlaunin eru ágrafnir peningar. í kappgöngunni:

I fl.

Jóhann Þorfinnsson 1. verðlaun, gekk leiðina á 25 m. 20 sek.

Sveinn Hjartarson 2. verðlaun, gekk leiðina á 26 m. 47 sek,

Þorvaldur Björnsson 3. verðlaun, gekk leiðina á 27 m. 29 sek.

II. fl. Helgi Kjartansson 1. verðlaun, gekk leiðina á 15 m. 16,5 sek.

Jón Þórarinsson 2. verðlaun, gekk leiðina á 15 m. 40 sek.

Árni Björnsson 3. verðlaun, gekk leiðina á 15 m. 54 sek,

III. fl. Jóhann Gunnlaugsson 1. verðlaun, gekk leiðina á 9 m. 28 sek.

Kjartan Ólafsson 2. verðlaun, gekk leiðina á 9 m. 32 sek.

Gunnlaugur Jónsson 3. verðlaun, gekk leiðina á 9 m. 54,5 sek.

Í hindrunarlausri brekku:

I. fl.

Jóhann Þorfinnsson 1, verðlaun.

Ólafur Einarsson 2. verðlaun

Þorvaldur Björnsson 3. verðlaun

II. fl.

Árni Björnsson 1. verðlaun.

Jón Þórarinsson 2. verðlaun

Benedikt Einarsson 3. verðlaun

III. fl.

Alfreð Möller 1. verðlaun og einustu.

Í brekku með loftstökki:

I. fl,

Jóhann Þorfinnsson 1. verðlaun.

Vilhj. J. Hjartarson 2. verðlaun

Jóhann Þorkelsson 3. verðlaun

II. fl.

Jón Þórarinsson 1. verðlaun.

Kristinn Halldórsson 2. verðlaun

Benedikt Einarsson 3. verðlaun

Ennfremur leggur dómnefndin til að Helgi Kjartansson fái aukaverðlaun fyrir 2 sérstaklega góð stökk af þremur (féll fyrsta stökkið).

III. fl.

Jóhann Gunnlaugsson 3. verðlaun.

Aukaverðlaun frá O. Tynes fyrir lengsta loftstökkið hlaut E. Johansen, stökk 14,60 metra.

Íþróttirnar tókust yfirleitt mjög vel og voru hin besta skemtun; voru þátttakendur í hverjum flokki svo jafnir, að víða var mjög örðugt að gjöra upp í milli. Með góðri æfingu munu margir af þessum mönnum þó gjöra mikið betur næsta ár, svo vel, að Siglufirði ætti þá að vera vorkunarlaust að standa fremst í röðinni með skíðamenn landsins.

Jón Jóhanness., Guðm. Hafliðason, Ásgr. Þorst., Ole O Tynes.

--------------------------------------------------

Tíðin:

Indælasta tíð þessa viku, undanfarna daga sólbráð og hitar og væg frost um nætur. Er víða hér í firðinum að byrja að koma upp jörð. Víða í sveitum vestur undan er og sögð komin bestajörð og að sunnan er sögð góð tíð. Vonandi er kominn algerður bati.

Bessi Þorleifsson fór í hákarlalegu á m.b. »Georg« í fyrradag, kom aftur úr legunni í morgun með rúmar 20 tunnur af lifur og mikið af hákarli. Mátti heita að í bátnum væri eins og hann gat rúmað. Lítur því vel út með hákarlaveiðina.

Hrognkelsaveiði er töluverð hér þessa viku, byrjuðu þau að veiðast fyrir síðastl. helgi og er það í fyrra lagi. En enginn reynir fyrir þorskinn ennþá, bendir þó margt á að fiskur muni kominn hér útifyrir.

9 matadora í L'hotnbre fékk Hinrik Thorarensen læknir nýlega. Velti hann laufi, keypti 7 spil og fékk 9 matadora.

Náttúrlega urðu þeir sem viðstaddir voru úti með sínar 2 krónur hver til læknisins.

--------------------------------------

Fram - 10. apríl 1920

4. árgangur 1920, 15. tölublað

Skíðahlaup.

Það orð hefur farið af Siglfirðingum og Fljótamönnum, máske frá ómuna tíð, að þeir væru bestu skíðamenn landsins. Var það og heldur eigi svo undarlegt að á þessum slóðum væru jafnan góðir skíðamenn, þar sem vetur er harður og langur, erfiðir fjallvegir og þrásinnis ómögulegt að komast um bygð eða milli bygða öðruvísi en á skíðum. Allir þekkja af afspurn Siglufjarðarskarð, aðal samgönguleiðina á landi milli Fljóta og Siglufjarðar.

Oftast nær er skarðið ófært að vetrinum, nema fyrir menn sem kunna á skíðum og oft útheimtir skarðið að góðir skíðamenn séu. Afbragðsskíðamenn hafa líka verið uppi hér bg margar sögur af þeim sagðar. Víða hefur hún farið sagan af Einari heitnum Guðmundssyni á Hraunum, föður Páls Einarssonar hæstaréttardómara og þeirra systkina, þegar hann á gamalsaldri tók kvenmann fyrir aftan sig á skíðin, uppi á Siglufjarðarskarði, og rendi sér með hann niður á jafnsléttu, sem þó er langur vegur og brattur vel, en karl stóð eins og ekkert væri um að vera.

Hér um slóðir voru margir fleiri nafnkendir skíðagarpar á tímum Einars á Hraunum, sem nú eru úr sögunni, en þeir hafa engir komið í staðinn, sem sérstaklega er á lofti haldið sem afbragðsmönnum á skíðum, af hverju sem það kemur, hvort þeir eru ekki til í seinni tíð, eða hvort menn ekki dást nú eins að kostum náungans, eða halda þeim fram eins og gjört var í þá tíð, það látum vér ósagt, en almennt mun skíðahlaupum hafa farið hnignandi hér síðastliðin ár.

Er það því lofsvert mjög að nokkrir ungir og áhugasamir menn hér í Siglufirði tóku höndum saman nú í vetur, og stofnuðu félag, sem þeir nefndu »Skíðafélag Siglufjarðar« og er stefnuskrá þess að »efla og iðka skíðahlaup«. Árangur félagsstofnunar þessarar varð þegar auðsær, skíðahlaup voru iðkuð hér með allra mesta móti, bæði af eldri og yngri, körlum og konum; augsýnil. að nýtt fjör og nýr áhugi hefði gripið hugi manna fyrir þessari hollu og fögru íþrótt, sem af frægum íþróttamönnum hefir verið kölluð íþrótt íþróttanna, áhrifamesta og glæsilegasta íþrótt heimsins.

Hafa stofnendur skíðafélagsins sjálfsagt fundið sárt til þess hversu mjög vér stöndum frændum vorum austan hafs, Norðmönnum og Svíum, Iangt að baki í þessari íþrótt, vér sem höfum hin bestu skilyrði til þess að geta staðið þeim jafnfætis í henni ef áhuginn er vakandi og skíðahlaup kappsamlega iðkað; hafa þeir og séð að kappið varð best glætt með félagsskap, sem gengist fyrir kappmótum árlega, þar sem þeim fræknustu og fimustu væru úthlutuð verðlaun.

Kappmótum þar sem mönnum alstaðar að af landinu, væri boðin þátttaka. Helst þyrfti þá skíðafélagið að geta látið keppa um einhvern góðan grip, dýrgrip, sem veitti sigurvegaranum að nafnbót að hann væri Skíðakonungur íslands; við hann yrði svo keppt árlega hér í Siglufirði; mundu þá siglfirskir skíðamenn gjöra það að metnaðarmáli að Skíðakonungur íslands væri jafnan Siglfirðingur........ Framhald greinarinnar má finna hérna.

-----------------------------

Reglugjörð um lokun sölubúða.

Var hún með litlum breytingum samþykt eftir frumvarpi nefndar þeirrar er kosin hafði verið til að semja hana, (oddvita, B. Þ.) en nefndin fór mikið eftir tillögum Kaupmanna- og Versl.m.félagsins sem málið var borið undir til álits. Eftir reglugjörð- inni á að loka búðum sem hér segir:

Frá 1. júní til 30. sept. kl. 10 síðd. alla virka daga nema á laugardögum kl. 11; frá 1. okt. til 31. mars kl. 6, nema síðasta virkan dag fyrir aðfangadag mega búðir vera opnar til miðnættis:

Frá 1. apríl til 31. maí kl. 8.

Tillaga frá Fr. N. um að lokunartíminn að sumrinu skyldi vera kl. 9 og 10 var feld.

En tillaga sama um að apríl og maí skyldu búðir opnar til 8 í stað 7 í nefndarfrumvarpinu náði samþykki.

F. N. greiddi síðan atkvæði með reglugjörðinni eins og hún er. Flóvent var einn á móti öllu; vildi að engu ganga öðru en því að lokað væri kl. 8 alt sumarið alla daga jafnt.

2 frídagar nýir eru ákveðnir í reglugjörð inni, sumardagurinn fyrsti og fullveldisdagurinn 1. des.

-------------------------------

Tíðin:

Sífeld norðanhríð síðan á annan í páskum; hafa menn verið hræddir við að ísinn væri að reka að landi, en ekki mun hann þó nálægur ennþá því stórbrim hefur verið á, og er, eins og að haustdegi.

Hannes Jónasson hefur nýlega byrjað hér verslun með munaðarvöru og barnagull; minnast menn þá um leið árása Hannesar á kaupmenn Siglufjarðar hér um árið, fyrir sölu á óþarfa varningi.

-------------------------------

Stórtjón.

2 mótorbátar sökkva í Ólafsfirði.

Tjónið nær 36 þúsund krónum.

Þrír mótorbátar úr Ólafsfirði fóru í hákarlalegu laugardagsmorguninn fyrir páska, »Græðir« eign Guðm. Jakobssonar o. fleiri,

»Ásgeir« eign Þorst. kaupm. Péturssonar hér í Siglufirði og

»Gissur« eign Þorst. Þorsteinssonar Ólafsfirði.

»Græðir« leysti að sögn strax á laugardagskvöld og hélt heim til Ólafsfjarðar; veður var þá að breytast. Hinir 2 lágu páskadaginn allan og fengu dágóðan afla. Kl. 12 um nóttina leysa báðir bátarnir og halda til lands, var Þorst. Þorsteinsson form. á »Gissur« hræddur við að halda heim til Ólafsfjarðar í slíku útliti, þar sem líka þeir lágu rétt fram úr Siglufirði, fer hingað inn og gjörði það gæfumuninn.

»Ásgeir« hélt heim til Ólafsfjarðar og kom þangað aðfaranótt annars, var veður þá orðið svo slæmt að mennirnir komast með naumindum í land úr bátnum.

Hanga þeir þó báðir, »Græðir« og »Ásgeir« allan annán dag páska, en á þriðjudagsmorgun eru báðir sokknir og farið að reka úr þeim smáfjalir. Báðir voru bátarnir stórir og sterkir, annar með 10 en hinn með 8 hesta vél og mjög vel útbúnir að öllu leyti,

Í báðum var hákarlaúthaldið alt og annar þeirra, bátur Þorst. Péturssonar, hálffermdur með lifur og hákarli; er tjón þetta lágt metið 36 þúsund krónur, sem kemur líkt við báða parta þar sem bátarnir voru svipaðir, auk þess er hið óbeina tap óreiknanlegt, sem af því hlýst að missa bátana á þessum tíma. Er þetta mjög tilfinnatilegur skaði ekki eingöngu fyrir eigendurna, heldur og fyrir bygðalögin, Siglufjörð og Ólafsfjörð, sem hlut eiga að máli.

Manni verður tíðrætt um slys þetta, af því að þetta hendir Ólafsfirðinga hvað eftir annað, að þeir missa báta sína á þennan hátt; eru það milli 10 og 20 bátar sem þarna sökkva á fáum árum, allir óvátrygðir, enda víst íllmögulegt að fá vátrygðan bát frá Ólafsfirði. Þessvegna virðist, næstum að segja, ófyrirgefanlegt að gamlir og reyndir menn skuli í versta útliti fara fram hjá jafngóðri höfn og Siglufirði, inn á þennan voðastað, sem Ólafsfjörður er.

En fyrst þetta ólán hendir nú einhvern hinn hepnasta formann norðurlands, aflamanninn mikla Þorvald Friðfinnsson, sem um leið er mjög aðgætinn maður, má búast við að þessu haldi áfram, ef menn ekki algjörlega taka saman höndum um það að halda ekki út frá þessum firði, nema þá yfjr hásumarið, flytja hingað til Siglufjarðar til dæmis, sem er tryggasta verstöðin, bæði vetur vor og haust, þar til þá að hafnarbætur fást í Ólafsfirði.

Þessu má ekki halda áfram, kunnugir menn mæla, að þessir bátstapar hver ofan í annan séu að eyðileggja margan í Ólafsfirði, og er slíkt ekki að undra. Tæplega getur þing og stjórn aðgjörðalaust horft upp á og hummað fram af sér hvert stórtjónið á fætur öðru, sem þarna verður. Sé mögulegt að bæta höfnina í Ólafsfirði, verður að framkvæma það; öll sanngirni heimtar það, sé það kleyfur kostnaður. Hafa Ólafsfirðingar ekki falið þingmönnum sínum að bera hafnarmál þeirra fram á alþingi?

Kirk heitinn verkfr. skoðaði eitthv. höfnina fyrir tveim árum, hvað sagði hann? Vér munum ekki að neitt hafi um það heyrst.. Þetta verður að rannsaka betur, en reynist það ógjörningur að bæta höfnina, verða Ólafsfirðingar að sætta sig við það að flytja þaðan burtu, minsta kosti vetrar- og haust vertíð, það tjáir ekki að deila við dómarann. Og hitt fáum vér aldrei skilið að aflamennirnir góðu úr Ólafsfirði geti ekki miklu betur neitt sín og aflað miklu betur frá góðri verstöð eins og t. d. Siglufirði.

----------------------------------------------------------------------

Fram - 24. apríl 1920

4. árgangur 1920, 17. tölublað

Fyrirlestur fluttur af H. Thorarensen lækni á samkomu Skíðafélags Siglufjarðar. síðasta vetrardag 1920.

Þið hafið sjálfsagt öll heyrt það margsinnis áður að íþróttir væru hollar, að þær styrktu bæði líkamann og sálina, að þær væru besta meðalið til að halda heilsu sinni og líkamskröftum, Nú skulum við athuga á hvaða hátt íþróttirnar styrkja líkamann og sálina og hvaða og hve mikið gagn þær hafi fyrir heilsuna.

Til þess verðum við fyrst að líta lítið eitt á líkamsbyggingu mannsins. Líkama mannsins má líkja saman við heilt ríki. Eins og ríkið er myndað af einstaklingum, eins er líkaminn myndaður af smáögnum, frumum, sem eru svo smáar að þær aðeins sjást í smásjá, smáagna er einstaklingur eða borgari í hinu mikla ríki: líkamanum.

Og eins og þjóðirnar hafa samgöngufæri s.s. skip og járnbrautir til að færa nauðsynjavöru út til allra eins hefur líkaminn blóðstrauminn sem færir hverri einustu smáögn, hverjum einasta borgara hans næringu og loft og flytur burtu skaðleg efni. Og eins og þjóðirnar hafa símakerfið þvert og endilangt um alt ríkið, eins hefur líkaminn sitt símakerfi, sem sé: taugarnar, sem aftur liggja að miðstöð líkamans: heilanum.................................................

Hluti erindisins, restina má lesa hér

--------------------------------------

Fram - 19. júní 1920

4. árgangur 1920, 25. tölublað

Álalækurinn.

Eins og flestum bæjarbúum er kunnugt eru hér ekki færri en 15 fastar nefndir sem allar eru sérstaklega skírðar til þeirrar skyldu — sumar jafnvel að miklu leyti sjálfar kosið sig til þess — að hafa framkvæmdarstjórn á hinum ýmsu opinberu störfum fyrir bæinn og yfir höfuð að vaka yfir þroska hans og sóma á öllum sviðum.

Ein af þessum velæruverðugu nefndum er heilbrigðisnefndin, en með því að hún sem slík á að gæta alls þess, er varðar þrifnað bæjarins og heilbrigði, beini eg hér með sérstaklega til hennar, og því næst allra bæjarbúa, þeirri fyrirspurn hvort það sé hættu eða vansalaust að hreinsa ekki Álalækinn, minsta kosti á hverju vori á meðan hann er látinn renna opinn í gegn um bæinn. Það er ætíð óviðfeldið að sjá slíkt liggja ofanjarðar — og það þó fjær sé — sem menn daglega sjá nú af aðalgötu bæjarins liggja í Álalæknum; að öðru leyti vil eg helst komast hjá því að gefa nákvæma lýsingu á þeirri viðurstygð, sem nefndur lækur er fyrir bæinn, eins og hann lítur út, enda öllum augljóst og vitanlegt.

Hvað snertir hina heilbrigðislegu hættu af því að hafa lækinn óhreinsaðan vil eg benda á það, að eg hefi orðið þess var, að börn eru oft að sulla í læknum (ef til vill drekka úr honum) og þar á meðal að veiða upp úr. honum ýmsan gamlan óþverra, sem vel getur verið þeim og öðrum skaðlegur, auk þess mun það eiga sér stað, að fólk fari með mat og matarílát í lækinn. Annars virðist mér það, hvernig sem á er litið mjög óhyggilegt auk óþrifnaðarins að láta lækinn renna suður í gegn um bæinn í stað þess að gjöra honum farveg annað hvort út og niður í Hvanneyrarkrók, sem ef til vill væri það besta, eða þá beint niður frá hliðinu á Hvanneyrargirðingunni niður í tjörnina fyrir neðan Kamb og úr henni með röri í gegnum malarkambinn.

Haldi lækurinn þeim farvegi, sem hann hefir nú, hefur það þær afleiðingar meðal annars að óumflýjanlegt er að kosta æði miklu fé til þess að tryggja allan veginn með fram honum, sérstaklega Hvanneyrarbrautina, sem hann er nú á góðum vegi með að eyðileggja. Í öðru lagi verður ekki hjá því komist að hreinsa farveginn á hverju ári og helst dýpka hann nokkuð. Í þriðja lagi verður lágeyrin að utan (mýrin) aldrei vel þurkuð upp á meðan lækurinn rennur suður fyrir ofan hana, og í fjórða lagi verður það ekki fyrirbygt — sem getur verið mikið peninga-spursmál — að lækurinn, þó straumlítill sé hér neðra, beri æði mikið fram og skemmi með því bestu bryggjustæðin.

Eru grynningarnar fram af honum ljósastur vottur um það. Að leiða lækinn ofan frá hliðinu kostar mjög lítið, þegar þess er gætt að skurð eða lokræsi gegn um hávaðann sunnan við Kamb ofan í áðurnefnda tjörn þarf að gjöra hvort sem er til þess að þurka upp mýrina. Sé það ekki ákveðið enn hvar Álalækurinn á að falla til sjávar í framtíðinni, er þegar kominn tími til að gjöra út um það, og hefði það helst átt að gjörast áður en byrjað var á braut þeirri, sem nú er verið að leggja meðfram læknum. Vildi eg svo mega mælast til þess við heilbrigðis og sóttvarnarnefndina að þær bæru ráð sín saman og athuguðu hvort ekki mætti komast af með mykjuhauginn sem bæjarprýði þó lækurinn væri hreinsaður, settur í lokaðan farveg eða breytt um stefnu hans?

Sv. B.

--------------------------------------------------------------------

Fram - 26. júní 1920

4. árgangur 1920, 26. tölublað

Hverju eigum við að brenna í vetur?

Hverju eigum við Siglfirðingar að brenna næsta vetur? Þessi spurning mun liggja þungt á mörgum, því fátt er öllu verra að þola en kulda í húsum inni, að ekki sé talað um slíkt, ef ekki yrði soðinn matur sökum eldiviðarskorts. Nú eru kol orðin svo dýr, að fáir almúgamenn reisa rönd við þeim kostnaði, og þar að auki alls ekki áreiðanlega víst að kol fáist hingað. Margir Siglfirðingar gátu í fyrra sumar aflað sér tiltölulega ódýrs eldsneytis með því að kaupa spítnabrak það er tilféllst — sérstaklega úr snjóflóðsrústunum og skemdum bryggjum.

Nú er ekki því til að dreifa, sem einu gildir. En hver ráð verða þá fyrir höndum með eldiviðinn? Þetta er alvörumál sem bæjarstjórnin ætti að láta til sín taka, Eða kannske hún hafi þegar einhverjar ráðstafanir á prjónunum þessu viðvíkjandi ? Við megum ekki reiða okkur á kolin, því eins og drepið var á áðan, verða þau svo dýr, að almenningi kemur það að engum notum þótt bærinn keypti einhverja fúlgu af þeim. Enda mun bærinn hafa nóg að gjöra með fé sitt. þótt eigi fari hann að liggja með kol, seim engir geta keypt.

En væri ekki vit í því að bærinn gengist fyrir svarðartekju! Að minsta kosti hefði verið eins vitlegt að leggja peningana í það eins og að vera að leggja nýja götu. Siglfirðinga vantar margt, sem þeim er nauðsynlegra og sem þeir hafa minna af, en götur til að spíkspora eftir, enda veit eg ekki hverjum til góðs hún á að verða í bráðina þessi nýja gata. Vonandi kæmi þó eitthvað af þeim peningum aftur í bæjarsjóðinn, sem hann legði í svarðartekju. Verið getur að nokkrir séu, sem geta tekið upp svörð sinn sjálfir, en hinir munu þó margfalt fleiri, sem ekki geta komið því við, svo ekki þyrfti að óttast það að eigi fengist markaður fyrir svörðinn.

Nú er Verkamannafélagið á Akureyri að láta taka upp svörð í óða önn, hefir 30 menn í vinnu við það. Og einnig mun Akureyrarbær hafa í hyggju að Iáta taka upp svörð. Hið sama mun vera á prjónunum á Seyðisfirði, ennfremur í Reykjavík og sjálfsagt víðar. Ekki hefir Verkamannafélagið hérna, svo eg viti, bært á sér í þessa átt, enda stefnir hugur verkamannaforingjanna hérna hærra en svo, að hann komi nálægt svarðargröfum né svoleiðis auvirðuIegum hlutum.

Þeirra andi er innblásinn af kaupsýslu-»maní,« pólitík og mathematiskum útreikningum um vegalagningu og götugerð, þótt kannske kaupmenskuhugurinn eigi þar snarastan þáttinn. En svo mikið er víst, að svarðarlausir munum við mega verða þess vegna, jafnt verkamannafélagar sem aðrir, að seint munu þeir fara að gangast fyrir slíku. Eg vildi því gera þá uppástungu að bærinn gengist fyrir því, að tekinn væri upp svörður og hann seldur bæjarbúum þurr og heimfluttur.

Eg er viss um að nægur vinnuafli fengist hér nú til slíks, og margir mundu vilja slá ögn af kaupkröfunum ef þeir ættu þess von að fá ódýran eldivið. Svo er að líta á það, að við þurkun á sverði má hafa not af börnum, sem lítt eru hæf til annarar vinnu fyrir æsku sakir. Eg geng út há því sem gefnu að mörgum finnist þetta vera vitleysa ein og heilaspuni. Það eru svo margir nú á tímum með svo háfleygar hugsanir, að þær nema ekki staðar við móhrauka og þess konar hégóma, og enn aðrir, sem enga peninga vilja nema þeir séu greiddir fyrir síldarvinnu.

Og líka eru til þeir menn, sem þykja mun hégómlegt að kasta út bæjarfé fyrir íslenskan mó. Menn segja að þess konar borgi sig ekki — það sé engin »spekulation.« En komið gæti þó á daginn, að kostnaðarsamara yrði það bænum að afla útlends eldneytis er hausta tekur til þess að ylja bæjarbúum við, heldur en að bregðast nú við og reyna að taka upp svörð fyrir síldartímann. Það ganga nógu margir iðjulausir nú og mundu taka vinnunni þakksamlega — jafnvel þótt bærinn borgaði hana í engu öðru en íslenskum mó. Hann mun reynast gjaldgengur þegar vetra tekur.

Kulvís.

-----------------------

Þorskfiski.

Síðast er reynt var alveg fisklaust, fengust 1 og 2 fiskar á bát. En nú glæðast vonir manna því fiskiskip sem inn eru að koma segja góðan fisk kominn í Húnaflóann og hefur oftast liðið skamt á milli að fiskur gangi hér á mið, þegar hún hefur verið þar kominn. Og góðs vita segja menn að vöðuselurinn er horfinn hér af slóðum en hann hefur verið hér í þúsundatali útifyrir og ætla menn að selurinn muni hafa varnað því að fiskur kæmi á hin vanalegu mið og allur gengið dýpra fyrir.

Bendir og þar á, að fiskiafli hefur verið ágætur við Grímsey undanfarið, og einnig kominn góður afli við Langanes. »Æskan« m.s. kom inn í gærdag með tæp 20 skpd. fiskjar, sem hún hafði fengið á þrem síðustu sólarhringum i flóanum; skipið kom aðallega inn með veika menn.

--------------------------------------------------------------

Fram - 3. júlí 1920

4. árgangur 1920, 27. tölublað

Rafmagsmálið.

Eins og menn muna kom snemma í vor símskeyti frá Jóni verkfræðing Þorlákssyni og þá birt hér í blaðinu, þess efnis, að hann legði til að vér um óákveðinn tíma frestuðum að hugsa til þess að koma upp fyrirhugaðri raforkustöð inni í firðinum, þar eð ógerningur væri að gjöra nokkrar ábyggilegar áætlanir um kostnað þess fyrirtækis á þessum óútreiknanlegu tímum, en jafnframt kveðst hann muni ráðleggja okkur að koma upp hjálparstöð rekinni með mótorafli til hjálpar þeirri, sem vér þegar höfum og áætlun yfir kostnað slíkrar stöðvar muni hann senda bráðlega.

Má líklega þar um kenna tómlæti því, er þessu máli var sýnt lengi fram eftir af hálfu okkar Siglfirðinga, að altaf var búist við áætlun þessari, sem ekki er ennþá hingað komin. Vér vöknum fyrst til meðvitundar um að skjótt þurfi að bregða við, eigi tiltækilegt að verða að koma hjálparstöð þessari upp þegar á þessu sumri, eða komandi hausti, þegar tilboð kemur frá tveim mönnum á Akureyri, hr. kaupm. Rögnv. Snorrasyni og verkfræðing E. Jensen, um að þeir skuli byggja fyrir okkur hjálparstöð, sem geti tekið til starfa komandi haust, en til þess að því verði komið í kring, verði þeir að fá svar okkar við tilboðinu eftir 14 daga, en tilboðið undirskrifa þeir 18. f. m. og er því sá frestur útrunninn, þessa dagana, eða í dag, þó muni ólíklegt að áætlunin breytist þótt ákvörðun dragist lítið eitt lengur.

En allra hluta vegna mun okkur hollara að draga ekki um of að taka endanlega ákvörðun í málinu, sér í lagi verði sá kostur tekinn, að taka þessu tilboði. Aðaldrættir tilboðs þeirra félaga eru að þeir bjóðast til að setja upp rafveitustöð fyrir Siglufjörð sem hér segir: »Steinhús bygt úr r-steini, 50 hestafla Holeby Diselmotor, 36 kilovatta Dynamo 2x35 volt með straumtöflu, alt þetta uppkomið og klárt til notkunar fyrir kr. 74,080,00 — sjötíu og fjögur þús. sex hundruð og áttatíu krónur. Stöðin getur verið uppsett og tilbúin til notkunar fyrir 30. október svo framarlega að ekkert ófyrirsjáanlegt komi fyrir.

Spennan er sú sama og nú er notuð við stöðina á Siglufirði og því ekki annað en leiða þræði frá þessari væntanlegu stöð á þá ljósþræði sem næstir eru.« Þá gera þeir áætlun yfir kostnað og rekstur slíkrar stöðvar og er eftir þeirri áætlun olíueyðsla, smurning, tvistur, pössun o. fl. hvern klukkutíma sem vélarnar ganga í fullum gangi kr. 12,29½ sé gengið út frá að þær starfi 1080 tíma á ári. Þess utan eru svo rentur og afborganir af stofnkostnaðinum sem er krónur 75,000,00 og reiknað með 8% vöxtum, og sé stöðin fullborguð á 10 árum, þurfi að greiða árlega krónur 11,400,00, eða tæp 12 þús. krónur, og er þá gert fyrirlag fyrir árlegum aðgerðum á vélum og vátryggingu.

Rafleiðslunefnd bæjarins tók tilboð þetta til meðferðar á 2 fundum og lagði síðan álit sitt fyrir bæjarstjórnarfund sem haldinn var 30. f. m. og telur nefndin í því áliti sínu: »rétt eftir atvikum að tekið verði tilboði Rögnv. Snorrasonar með þessum skilyrðum: 1. Að málið sé borið undir samþykki ljósnotenda auk bæjarstjórnar. 2. Að Jón Þoriáksson verkfræðingtir verði ráðinn sem ráðanautur bæjarins um, þetta tilboð og geri samningsuppkast og að hann telji hjálparstöð þá sem í boði er svo fullnægjandi að hann ráði til samþ. 3. Að nægilegt fé fáist og reynt sé sem fyrst að útvega það.«

Samþykti bæjarstjórn þessar tillögur rafleiðslunefndar með þeirri einu breytingu, að málið yrði ekki einasta borið undir ljósnotendur, heldur einnig undir borgara bæjarins, á almennum borgarafundi. Var nú ákveðið að tveir fundir skyldu haldnir, hinn fyrri með ljósnotendum sem haldinn var í gærkvöldi og svo alm. borgarafundur sem halda skal á morgun, og þar tekin endanleg ákvörðun í málinu.

Á fundi þessum í gærkvöldi upplýstist að verði hægt að koma upp fullnægjandi, ábyggilegri hjálparstöð fyrir þá upphæð sem nefnd hefur verið, eða nál. kr. 75,000,00, fer rekstur, hirðing, vextir, afborganir og annar kostnaður, við báðar stöðvarnar, þá gömlu og hina nýju, ekki fram úr 30 þúsundum og 100 kr. árlega, sé geri ráð fyrir 2000 ljóstímum, sem hæfilegt þykir að reikna ljóstíma hér í Siglufirði. Er þá reiknað með að vatnsstöðin gamla notist jafnmarga tíma og síðasta ljósár, sem öllum er vitanlegt að er hið bágasta sem yfir okkur hefir komið síðan stöðin tók til starfa.

En þetta síðastl. ljósár lýsti hún okkur samt 717 klukkustundir eða rúml. þriðjung ljóstímabilsins, er því óhætt að reikna með því að hin nýja stöð þurfi aldrei að ganga meir en tæpa 1300 tíma árlega. Með þeirri orku er stöðvarnar veita má hæglega selja 1600 16 kerta ljós og virðist því mega fullyrða, án nokkurra gyllinga, að verðið þurfi ekki að fara fram úr 20 krónum fyrir 16 kerta ljósið, yfir árið, sem gefur þá í tekjur kr. 32,000,00 og standist þessi áætlun rafljósanefndar, er þetta mjög ódýrt ljós, eftir því sem aðrir kaupstaðir hérlendir verða að greiða fyrir ljósmeti.

Til samanburðar má geta þess að áður en olía hækkaði í verði í vetur var rafmagnsstraumur á Akureyri og í Reykjavík seldur á 1,50 pr. kílovatt, sem er sama og 1000 kertaljós í eina klukkustund, en með þessari áætlun rafljósanefndar yrði kílovattið á tæpa 62 aura (61½) eða meira en helmingi lægra. Þó kaupa menn heldur kílovattið á 1,50 annarsstaðar heldur en að brenna olíu. Sem dæmi upp á hvað olíubrensla er dýrari með því verði sem nú er á olíu, er útreiknað og prófað að t. d. 14 línu olíulampi brennir í 10 klukkutíma olíu fyrir 48 aura en 14 kerta rafljós, sem einnig ber betri birtu, kostar með því verði sem hér er áætlað, nefnil. 20 kr.

16 kerta ljósið fr. árið, 8¾ eyrir í 10 tíma, olían meir en fimmfalt dýrari, og ekki er hitagildi olíuljóssins svo miklu meira að til mála geti komið að það geti þolað samanburð þess vegna, undir þeim skilyrðun sem við eigum að búa, En við stöndum svo sérsstaklega vel að vígi, vegna þess að við eigum gamla ljósverkið, sem nú er orðið mjög ódýrt. Gamla stöðin heftir framleitt rúm 1600 16 kerta ljós, en þó hafa ekki nærri allir sem viljað hafa getað fengið ljós.

Svo ólíklegt er, að þegar nú í dag verður gengið milli ljósnotenda, samkvæmt tillögu Guðr. Björnsdóttur sem samþykt var á fundinum í gærkvöldi, til þess að fá hjá þeim pantanir á því ljósmagni er þeir vildu hafa, fari ljósgjaldið ekki fram úr 20 krónum — fáist ekki pantanir fyrir þessum 1600 ljósum,halda mætti fremur að pantanir kæmu fyrir miklu meiru, samkvæmt eftirspurninni undanfarið.

Ekki skulu menn með þessum línum eggjaðir til að samþykkja það að hjálparstöð verði hér reist, en að eins bent á að vel er athugunarvert áður en því er hafnað, af hverjum einstakling, hvort hann treystist að komast af með ljóshald sitt ódýrar en hér er kostur á gefinn. Því hvernig sem fer með afkomu hér í Siglufirði hin næstu árin, þurfum vér, sem hér búum, altaf að brenna ljósi, og þá mikið vafamál hvort vér á annan hátt getum aflað oss þess ódýrara, geti rafljósanefnd tryggt okkur ljós fyrir þetta verð sem hún nú áætlar.

Auðvitað getur hún ekki áætlað verðið nema til eins árs í senn, vegna síbreytilegs olíuverðs, en nú er reiknað með því hæsta verði á olíu sem þekst hefur og er vonandi að fremur megi gjöra ráð fyrir verðfalli á henni, en hækkun hér eftir, en verðfalls á olíu gætir strax, því olían er stór póstur í rekstri stöðvarinnar. Eins og útlitið er mun hið erfiðasta við þetta vera að útvega peninga til fyrirtækisins, og getur allt strandað á því að það muni ekki takast, en við slíku er ekki hægt að gjöra.

-------------------------------------------------------------

Fram - 24. júlí 1920

4. árgangur 1920, 30. Tölublað

Rafljósanefndin er að láta ditta að vatnsþrónni, sletta í lekastaði hingað og þangað, og steypa botninn að einhverju leyti. Til þess þarf töluvert af sandi, sem flytja þarf héðan neðan af eyri. Datt nefndinni það snjallræði í hug að heita á alla verkfæra borgara bæjarins, konur auðvitað jafnt sem karla, að bera á sjálfum sér sem svaraði 50 pundum af sandi hver upp á dalinn. Hafa borgararnir brugðist vel við einkum þó karlmennirnir, og má á hverju kvöldi sjá álitlega hópa á leiðinni upp, alla með poka á bakinu.

En »drjúgur verður síðasti áfanginn« mörgum, einkum þeim feitlagnari, og margur sveittur þegar upp kemur, en upp fara þó allir pokarnir, og mun nægur sandur fást til viðgerðarinnar á þennan hátt. Heyrst hefir að loksins muni nú þak sett á þróna, sem fyrir löngu hefði átt að vera komið, en í það fer mikið efni, og væri sjálfsagt af nefndinni að skora á menn að koma því upp á sama hátt, til að spara ljósverkinu þann kostnað. Vér efumst ekki um að margur yrði til þess að koma einum planka uppeftir, því sandburðurinn þykir nú hér hið mesta »sport«, og eins mun verða um hitt.

-----------------------------------

Fram - 7. ágúst 1920

4. árgangur 1920, 32. tölublað

Bæjarstjórnarfundur var haldinn 30. júlí síðastl. Af málum sem fyrir voru tekin, skal þessara getið: Samþyktar tillögur Rafljósanefndar um að þak verði bygt yfir safnþróna, þegar á þessu sumri, og að hámarksmælirar verði settir upp hjá hverjum ljósnotenda.

Kol. Samþykt að panta alt að 280 tonn af kolum handa bænum. Samþykt tillaga frá G. T. Hallgrímssyni héraðslækni um að kjósa þriggja manna nefnd til þess að gangast fyrir og undirbúa spítalabyggingu hér.

Kosningu hlutu G. T. H., oddviti og utan bæjarstjórnár H. Thorarensen læknir.

-------------------------------------------------------------------

Fram - 25. ágúst 1920

4. árgangur 1920, 34. tölublað

»Verðandi« heitir mótorkútter sem hér er kominn er þeir kaupmennirnir Helgi Hafliðason og Sören Goos og skipstjóri Jón Sigurðsson keyptu í Svíþjóð síðastl. vetur og var ætlun þeirra að halda skipinu út á fisk við Faxaflóa. Verðandi er myndarlegt skip nær 100 smálestir á stærð, með 100 hesta Bolindervél og vel útbúinn. Í vor og sumar hefur hann verið í flutningaferð- um milli landa, kom nú með timburfarm til Blönduóss. Verðandi á heimilisfang í Siglufjörður, fyrsta skipið sem skrásett er héðan, hann hefur merkið S.F. 71.

-----------------------------------------------------------------------------

Fram - 28. ágúst 1920

4. árgangur 1920, 35. tölublað

Bryggja brotnar.

Í fyrradag liðaðist í sundur bryggja Thorsteinsens í Bakka og féll niður, að undanteknum bryggjuhausnum, sem stóð eftir. Stórt gufuskip »Dollart« lá við bryggjuna og var verið að flytja út í það síld, dálítill sjógangur var, skipið riðamikið en bryggjan ótraust.

Bryggjan var alsett síldartunnum og margt fóik á henni við vinnu, og var lán mikið að ekki skyldi slys afhljótast, af, svo vildi vel til að bryggjan féll beint niður og flaut alt á bryggjudekkinu, bæði fólk og tunnur, aðeins örfáartunnur sem runnu út af, en hefði bryggjan farið á hliðina, eru mikil líkindi til þess að stórt slys hefði orðið. Þetta er fjórða bryggjan sem Thorsteinsen, eða H.f. Bræðingur missir í Bakka.

-------------------------------------

Fram - 28. ágúst 1920

4. árgangur 1920, 35. tölublað

Fágæt skemtun var það, sem loftskeytamönnunum í loftskeytastöðinni hérna á Melunum (Reykjavík) gafst kostur á, í gær um miðjan daginn. — Það voru hljómleikar, sem haldnir voru suður í Lundúnum! — Einn þeirra, loftskeytamannanna, ætlaði í mesta grandaleysi að fara að hlusta eftir einhverjum algengum loftskeytum, en um leið og hann lætur tólið við eyrað, heyrir hann undur fagran söng einhverrar heimsfrægrar söngkonu, sem var þá að syngja á loftskeytastöð í Lundúnum, en rafmagnsbylgjurnar báru sönginn út um víða veröld. —

Þeir fóru nú fleiri að hlusta á loftskeytastöðinni og heyrðu ekki að eins til þessarar söngkonu, heldur líka til karlmanns, sem einnig söng einsöng og loks lék hljóðfæraflokkur mörg lög. — Og þeir búast við að skemtunin verði endurtekin dag eftir dag. — Menn geta farið að öfunda þá á loftskeytastöðinni! Í útlendum blöðum er sagt frá því, að í Ameríku sé farið að nota svona loftskeyta-»músik« til að dansa eftir á baðstöðunum þar með ströndum fram.

Vonandi verður þess ekki langt að bíða, að loftskeytastöðin hérna fái þau tæki, sem til þess þarf, að þessir hljómleikar heyrist »berum eyrum« á Melunum umhverfis stöðina!

»Vísir« 24. júlí.

----------------------------------------------------------------

Fram - 4. september 1920

4. árgangur 1920, 36. tölublað

Hátíðahald.

Hr. Espeland ráðsmaður norska sjómannahælisins biður þess getið, að nokkurskonar kveðjuhátíð verður haldin í norska sjómannahælinu kl. 4 á morgun. Þangað eru allir velkomnir, bæði útlendir og innlendir, að taka þátt í borðhaldi, (smurt brauð og kaffi eða te) og hlusta á ræðuhöld og söng. Frelsisherinn aðstoðar með söng og hljóðfæraslætti. Vér viljum hvetja fólk til að sækja samkomu þessa.

------------------------------------------

Bæjarstjórnarfundur þriðjudaginn 31. ágúst 1920.

Af málum sem fyrir voru tekin, skal þessara getið:

1. Samþykt tillaga um að hækka ljósgjald fyrri helming ljósársins um 50%.

2. Samþykt að hækka vatnsgjald af fasteignum í bænum um 20% frá gildandi vatnsgjaldaskrá og í stað bryggjugjalda þeirra, sem áður hafa verið, komi 3 aur. gjald af hverri útfluttri síldartunnu.

Þá kom fram tillaga um að mótorskip þau, er síldveiði stunda hér á sumrin, 20 tonna eða stærri, gjaldi kr. 40,00 í vatnsgjald og að gufuskip greiði kr. 5,00 fyrir hvert vatnstonn er þau fá, þó ekki minna en 60 kr. hvert.

Tillagan samþykt. Ennfremur samþykt að nema úr gildi vatnsgjald af stórgripum.

3. Varnargarðurinn og kaupin á Hvanneyri. Oddviti skýrði frá að hann hefði átt tal við forsætisráðherrann um varnargarðinn, hafnarmálið og kaup á Hvanneyri.

Hafði forsætisráðherra getið þess að Hvanneyri myndi máske fást til kaups fyrir um 150 þús. kr. auk núverandi aðgerðar á varnargarðinum.

4. Þá gat oddviti þess að hann gæti fengið dýralæknirinn á Akureyri til þess að koma hingað og skoða nautgripi bæjarins, vegna berklaveiki, en kostnaður við það myndi verða 5—6 kr. á kú. Samþ. að fá læknirinn og að æskilegt væri að hann jafnframt skoðaði kýr bæði á Dölum, Nesi og Héðinsfirði. Samþykt að greiða kostnaðinn úr bæjarsjóði. Þrír fulltrúar mættu ekki á fundinum.

------------------------ -----------------------------------

Fram - 18. september 1920

4. árgangur 1920, 38. tölublað

Rafljósin og Þróarþakið.

Það eru ýmsir að spyrjast fyrir um það, hvað valdi því, að rafljósanefndin hafi hækkað Ijósagjöldin. Þeirri spurningu er reyndar fljótsvarað: Það er vegna þess kostnaðar, sem viðgerð vatnsþrórinnar hefir í för með sér. En þá er enn spurt: Hvað gengur með viðgerðina? Miðar henni nokkuð áfram? Já, það mun vera búið að steypa í stærstu lekastaði þrórinnar, og timbur hefir verið keypt til þaks yfir hana, að eigi fenni hún full í fyrstu snjóum. En þar með er líka búið.

Nú er allra veðra von héðan af, og miklu líklegra en hitt að snjóa sé skamt að bíða. Og þá er til lítils barist fyrir almenning, að greiða þriðjungi hærra gjald fyrir viðgerð, sem ekki verður nema kák eitt, er eigi kemur að notum; en það er flestra mál að mest ríði á að fá þakið á þróna, því ella fyllist hún af krapa sem svo botnfrýs er grimdir koma. Hér neðan af Eyrinni blasir við álitleg breiða af timbri uppi í brekkuhallinu norður af kirkjugarðinum; Þar er það búið að liggja á annan mánuð við litla — eða enga — hirðu; því hefir ekki einu sinni verið raðað upp í búlka, heldur liggur, sem fyr er sagt, á tjá og tundri um grundirnar, alveg eins og það hefði rekið af hafi. Þetta timbur er nú eign bæjarins, og á að sögn að fara í þróarþakið.

En hvers vegna er það ekki geymt betur en þetta? Getur ekki verið hugsanlegt, að borð og borð hverfi þarna úr hrúgunni svo lítið beri á, því ekki mun eftirlitið vera mjög strangt. Væri nú ekki ráð fyrir bæjarstjórnina að fara að koma þessu uppeftir meðan tíðin leyfir? Nú mun þó talsvert vera farið að hægjast um vinnu við síldina, svo ókleift væri tæplega, að fá menn til þess, og hesta ef með þyrfti. Sum trén þarna eru tæplega mannameðfæri í slíku brattgengi og leiðin er upp í Hvanneyrarskál.

Að minsta kosti hefir viður sá, er þarna liggur, sjálfsagt verið of dýru verði keyptur til þess, að láta hann liggja þarna eftirlitslausan og í óhirðu. Ljósnotendur hafa fullan rétt til að krefjast þessa. Þeir eiga að borga brúsann, að samþykki fulltrúa sinna, væri þá eigi nema sanngjarnt að séð verði um af þeim hinum sömu, að viðaukagjaldið verði ekki greitt fyrir gýg.

-------------------------

M.s. »Verðandi« SF 71 lagði á stað fyrir nokkru síðan með síldarfarm áleiðis til Svíþjóðar, hér austur með kom leki að skipinu og sneri það þá aftur til Siglufjarðar Hefur orðið að taka síldina úr skipinu og verður gert við það hér í haust.

------------------------------------------------------------

Fram - 2. október 1920

4. árgangur 1920, 40. tölublað

Lögreglusamþykt fyrir Siglufjarðarkaupstað, staðfest af stjórnarráðinu, er ný- komin út eins og getið var um í síðasta blaði. Samþyktinni er skift í 12 kafla, 78 greinar alls, og verða teknar hér upp, mönnum til fróðleiks, þær greinar, er almenning varðar mestu. Samþyktin gildir frá 1. ágúst 1920

2, gr. Allir, sem fara um götur bæjarins utan gangstétta, hvort heldur eru gangandi, ríðandi, í vagni, á hjólum eða öðrum fararkosti, skulu, þá er þeir mæta einhverjum eða einhver vill komast framfyrir þá, halda sér, gripum sínum og farartækjum á vinstri helmingi akbrautarinnar eingöngu og svo nærri götubrún eða gangstéttabrún sem auðið er. Við krossgötu skal, ef þörf gerist, sá bíða, sem er til vinstri handar, þeir sem fara um gangstéttir, skulu jafnan víkja til vinstri handar, en eru þó skyldir til að víkja á akbraut, sé hún til vinstri handar.

3. gr. Á almannafæri má eigi fljúgast á, æpa, blístra eða hafa annan hávaða eða ofsalegt eða móðgandi háttalag, sem raskar allsherjarreglu eða ónáðar þá, sem um fara eða nálægt búa.

5. gr. Á fjölförnum götum, eða þar sem hætta getur af stafað, má ekki leika knattleik, paradís, feluleik, stikk eða klink, ekki gera rennibrautir, renna sér á skautum, skíðum eða sleðum eða hafa um hönd aðrar skemtanir eða leika, sem hindra umferðina. Lögreglan ákveður jafnan, hvaða götur þetta á við. Sömuleiðis er bannað að hanga utan í vögnum, sleðum eð á bifreiðum, sem eru á ferð um göturnar, eða festa við þá sleða, handvagna eða annað, er til óþæginda getur orðið.

6. gr. Á götum eða yfir götur eða svæði, sem almenningur fer um, má eigi skjóta með byssum eða öðrum skotvopnum, ekki kveykja í púðri, skoteldum eða nokkrum öðrum sprengiefnum og ekki kasta steinum, glerbrotum, snjóköglum, torfi, óhreinindum, vatni eða neinu öðru, er tjóni getur valdið eða óþægindum fyrir þá, er um slíka staði fara. Nauðsynlegar sprengingar vegna mannvirkja má aðeins gera með sérstöku samþykki lögreglustjóra, og ber bæði verkstjóri og sá, sem mannvirkið er unnið fyrir, ábyrgð á, að allrar varúðar sé gætt.

12, gr. Enginn má ótilkvaddur slökkva eða kveikja á götuljóskerum bæjarins. Enginn má taka vatn úr brunahönum bæjarins eða hreyfa við þeim að neinu leyti, nema hann hafi til þess fengið leyfi slökkviliðsstjóra og umsjónarmanns vatnsveitunnar. Enginn má snerta við brunaboðum bæjarins, nema hann þurfi að gera vart við eldsvoða. Brot gegn þessari grein varða sektum, er ekki séu lægri en 50 kr.

14. gr Hlaðnar byssur má ekki bera á götum bæjarins eða annarstaðar á almannafæri. Byssur skal ávalt bera þannig að opið viti upp.

17. gr. . Eigi skal leyfilegt að setja upp sjálfsala.

18. gr. Foreldrum og öðrum hlutaðeigendum er skylt að annast um, að tilhlýðilegt eftirlit sé haft með óstálpuðum börnum, sem eru á þeirra vegum, þegar þau eru á almannafæri. Börn yngri en 12 ára mega ekki vera á almannafæri seinna en kl. 8 á tímabilinu frá 1. sept. til 14. maí og ekki seinna en kl. 10 frá 15. maí til 31. ágúst, nema þau séu í fylgd með fullorðnum.

22. gr. Nú er hús eða hluti úr húsi orðið svo hrörlegt, að hætt er við að það hrynji eða falli niður, eða það er þannig bygt, að hætt er við að járn fjúki af þaki eða veggjum, og getur lögreglustjóri þá bannað að nota húsið og boðið eiganda eða umráðamanni hússins að gera þær umbætur á því, að eigi geti valdið hættu fyrir vegfarendur. Auk þess getur lögreglustjóri gert aðrar ráðstafanir í þessa átt á kostnað hlutaðeiganda. Sama gildir og þegar grjótgörðum, skíðgörðum eða annari girðingu liggur við falli.

24. gr. Þegar ís leggur á höfnina, má enginn fara út á ísinn fyr en hann er orðinn vel heldur. Þyki lögreglustjóra ísinn eigi nógu traustur, skal hann banna alla umferð um hann.

25. gr. Eigi má kasta í höfnina eða fjöruna grjóti, möl, sandi, ösku, dauðum fiski, síld, matarleifum, fiskúrgangi né öðru slíku, og ekki skilja neitt slíkt þar eftir nema fyrir utan línu, er hafnarnefnd ákveður.

27. gr Á almannafæri má ekki ríða eða aka harðara en á hægu brokki, og þar sem mikil er umferð, gatan mjó eða farartálmi á veginum, skal aðeins fara fót fyrir fót Ríðandi menn og vagnstjórar skulu í tæka tíð gera viðvart mönnum, sem á undan þeim ganga. Eigi má ríða eða aka um gangstéttir bæjarins.

41. gr. Umferð bifreiða og bifhjóla skal eigi leyfð um götur og vegi kaupstaðarins. Þó getur bæjarstjórnin leyft umferð flutningabifreiða.

42. gr. Þeir sem fara á reiðhjólum um götur bæjarins, skulu gæta þess, er hér segir: A hjólum mega ekki í senn vera fleiri menn, en hjólin eru gerð fyrir. Sá, er stýrir hjólum, skal ætíð halda að minsta kosti atmari hendi um stýrið og hafa báðar fætur á stigsveifum. Enginn má flytja með sér á hjólum hluti, sem valdið geta hættu eða hindrað umferðina. Á hverjum hjólum skal vera bjalla, sem gefur hvellt hljóð, en ekki horn, og skal hjólamaður láta til hennar heyra, ef hætt er við árekstri, og ætíð áður en hann fer fyrir götuhorn eða yfir gatnamót. Á hverjum hjólum skal, þegar dimt er, vera tendrað Ijósker, er snúi fram og lýsi framundan sér. Ljós skal tendrað eigi síðar en á þeim tíma, sem ákveðinn er til tendrunar á götuljóskerum bæjarins.

46. gr. Skyldur er hver hundeigandi að hafa helsi á hundum sínum með áletruðu Sgf. og tölu. Bæjarsjóður útvegar merkispjöldin, en lögreglustjóri afhendir þau eigendum hundanna gegn greiðslu andvirðis þeirra, sem rennur í bæjarsjóð. Hver hundur, sem ekki ber slíkt helsi eða fylgir utanbæjarmanni, er réttdræpur, ef eigandi hirðir hann ekki og greiði áfallinn kostnað innan þriggja daga eftir að hundurinn hefir verið auglýstur. Réttdræpir eru einnig þeir hundar, sem raska svefnfriði manna með gelti og spangóli á næturþeli, og skulu eigendur þeirra sæta sektum. Grimma hunda og hunda, sem hafa þann vana að ónáða menn og hræða með glepsi, urri eða gelti, eða sem eru óvenjulega stórir, ber eigendum að binda eða mýla forsvaranlega að viðlagðri sekt.

57. gr. Veitingahúsum öllum skal lokað kl. 10 á kvöldin til kl. 7 að morgni, og allir gestir, sem ekki hafa þar næturstað, skulu vera farnir út ekki seinna en kl. 10½

Samt skal félögum, sem lögreglustjóri þekkir, heimilt að halda samkvæmi og dansleík eða aðrar skemtanir á veitingahúsum, sem eigi séu bundnar við áðurnefndan tíma, ef eigi taka aðrir þátt í því en félagsmenn og gestir þeirra. Ennfremur mega brúðkaup og önnur samsæti eða dansleikar tiltekinna manna standa fram yfir hinn tiltekna tíma.

62. gr. Lögreglustjóri getur og fyrirskipað skoðun á kvikmyndum og bannað sýningu á myndum, sem hann telur skaðlegar eða siðspillandi. Án leyfis lögreglustjóra má ekki kveikja skotelda eða ganga með logandi blys.

63. gr. Á almannafæri má enginn fleygja hræjum, rusli eða öðrum óhreinindum, í ræsi má eigi kasta neinu því, er stíflað getur vatnsrásina. Sorpi, slori, ösku eða öðrum óhreinindum má eigi kasta í fjöruna né út af bryggjum eða bólvirkjum nema fyrir utan línu, er hafnarnefnd ákveður.

66. gr. Skepnum má ekki slátra á eða við götur bæjarins eða á almannafæri, heldur skal það gert bak við hús, innan grinda eða á lokuðu svæði, þar sem aðrar skepnur geta ekki séð blóðvöllinn. Bannað er að láta hunda koma á blóðvöllinn þegar slátrað er,

68. gr. Sorphauga, áburðarhauga, salerni, forir eða því um líkt má eigi hafa í nánd við almannafæri nema í steinlímdum gryfjum, vandlega byrgðum, enda veitti heilbrigðisnefnd samþykki til þess.

72. gr. Polla, síki eða tjarnir á leigðum lóðum kaupstaðarins, sem óhollusta stafar af að áliti heilbrigðisnefndar, er lóðareigendum skylt að fylla upp og þurka eftir nánari ákvæðum heilbrigðisnefndar.

74. gr. Brot gegn samþykt þessari varða sektum alt að 1000 krónum. Drengir 14 til 15 ára skulu sæta vandarhöggum, þó ekki fleiri en fimtán, ef þeir gera sig seka í brotum á samþykt þessari eða gera eitthvað sem ber vott um einstaka ónáttúru - eða sæta einföldu fangelsi alt að 8 dögum.

-------------------------------------

Saurbær seldur.

Lárus Jónsson bóndi í Saurbæ tilkynti nýlega til bæjarstjórnarinnar að hann gæti nú selt Saurbæ fyrir kr. 11,500,00, en bærinn hafði fengið rétt til þess að ganga í hæsta tilboð ef jörðin yrði seld.

Á bæjarstjórnarfundi sem haldinn var 28. þ. m. samþykti bæjarstjórnin að ganga inn í kaup þessi og kaupa Saurbæ fyrir þetta verð.

Á nefndum bæjarstjórnarfundi var einnig ákveðið að bærinn léti taka upp nokkuð af grjóti í haust, og skal athygli vakin á auglýsingu um tilboð í grjótupptektina sem birt er hér í blaðinu i dag. Á fjárhagsáætlun fyrir árið 1921 heyrist ekki minst ennþá og er mönnum farið að leiðast eftir henni.

--------------------------------

Auglýsing

Gamla „Bíó" á Siglufirði, ásamt grunnréttindum, og með eða án lifandimyndavélar og nokkurra slíkra áhalda, er til sölu nú strax.

Húsið sjálft er 10x20 álna að stærð, hæð ca. 8 álnir undir þakskegg, með ca. 2 fóta risi og járnþaki. Grunnurinn er allur 1152 ferálnir á ágætum þurrum stað, við 2 götur og ieigður til 50 ára frá fardögum 1913, gegn 20 króna ársleigu.

Semjið um kaup við Valdimar Thorarensen á Akureyri,

Akureyri 11. september 1920 Vald. Thorarensen.

----------------------------------------------------------------------------

Fram - 9. október 1920

4. árgangur 1920, 41. tölublað

Heilbrigðissamþykt fyrir Siglufjarðarkaupstað.

Samþ. þessi er staðfest af stjórnarráðinu jafnhliða lögreglusamþ. er birtist í seinasta blaði, og er tekið hér hið helzta úr henni.

1. gr. Samþyktin gildir fyrir land jarðanna Hvanneyrar og Hafnar í Siglufirði.

5. gr. Ef heilbrigðisnefndin telur nauðsynlega einhverja þrifnaðarbót eða heilbrigðisráðstöfun, sem hefir í för með sér útgjöld úr bæjarsjóði, þá skal hún leggja mál það fyrir bæjarstjórn og fara fram á að féð sé veitt. Þó getur nefndin látið gera bráðnauðsynlegar þrifnaðarbætur án fengins samþykkis bæjarstjórnar, ef brýna nauðsyn ber til að þær séu gerðar tafarlaust, svo sem þá er hættuleg farsótt alt í einu kemur upp í bænum.

6. gr. Nú býr eigandi ekki í húsi sínu, og skal hann þá fela einhverjum fullveðja manni, er í húsinu býr, að vera húsráðandi; skal húsráðandi gegna öllum skyldum eftir samþykt þessari með tilliti til húseignarinnar, sem annars hvíla á eigenda. Eigandi skal tilkynna heilbrigðisnefnd hver sé húsráðandi.

7. gr. Eldhússkólp, þvottaskólp og önnur óhreinindi má ekki láta síga í jörð svo nærri íbúðarhúsum að hætta sé á því, að jarðvegurinn undir húsunum saurgist, síst þar sem kjallarar eru undir húsum; öllu því skólpi, sem ekki er borið í sjó, skal veita í burtu frá húsunum í opnum eða lokuðum ræsum, svo langt, sem heilbrigðisnefnd þykir þurfa. Öll skólpræsi skulu vera svo víð og hallajöfn, að hvergi flói út úr þeim og hvergi komi pollur eða vilpur; skal hreinsa þau svo oft, að ekki leggi ódaun úr þeim.

8. gr. Ef ræsi er gert fram með alfaravegi á opinberan kostnað, skulu þeir, er hús eiga fram með veginum, skyldir að gera skólpræsi hver frá sínu húsi út í göturæsið, á þann hátt, er heilbrigðisnefnd telur hentugast.

9. gr. Meðan ekki eru komin upp í kaupstaðnum regluleg slátrunarhús, skal heilbrigðisnefndin hafa eftirlit með slátrun og kjötsölu, Slátrun skal fara fram á hreinlegum stað. Slátrarar skulu vera í hreinum fötum með ermar brettar upp fyrir olnboga. Þeir skulu ávalt vera hreinir um hendurnar. Menn, sem hafa útbrot á höndum eða ganga með einhvern næman sjúkdóm, mega ekki vera slátrarar. Hundar mega ekki vera nálægt slátrun. Sullum skal safna í sérstakt ílát og brennast eða grafast í jörðu niður. Kjöt af sjálfdauðum skepnum eða veikum má ekki selja til manneldis.

10. gr. Búpening má ekki hafa í sama húsi og íbúð handa mönnum. Ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi getur þó heilbrigðisnefndin veitt leyfi til þess að skepnur séu hafðar í kjallara.

11. gr. Ef einhver vill reisa peningshús eða gera for, haugstæði eða haughús, þá skal hann gera heilbrigðisnefnd aðvart áður en hann byrjar verkið, og skal hún gæta þess, að haldin séu fyrirmæli þau, er hér fara á eftir. Ekkert peningshús má setja nær vatnsbóli en 15 álnir, fjós má ekki setja nær íbúðarhúsi eða alfaravegi en nemi 10 álnum. For má ekki gera og ekki hafa haug nær íbúðarhúsi eða alfaravegi en nemi 10 álnum og ekki nær vatnsbóli en 15 álnum. Forarveggir skulu jafnan ná ¼ alin eða meir upp úr jörðu, og skal hafa yfir hverri for sterkan hlera, svo að örugt sé um að menn eða skepnur geti ekki fallið í forina. Ef hús standa þétt saman, getur heilbrigðisnefnd bannað mykjuhauga og haughús og heimtað að forir séu gerðar úr höggnu grjóti og steinlími eða steinsteypu, svo að þær séu vatnsheldar, bæði botn og veggir.

12. gr. Ef peningshús, haugstæði eða forir, sem eldri eru en þessi samþykt, valda miklum óþrifnaði, má heilbrigðisnefnd beita fyrirmælum undanfarandi greinar, en heimilt er þó eiganda að skjóta fyrirskipun nefndarinnar innan 8 daga undir úrskurð bæjarstjórnar, sem gefur úrskurð í málinu svo fljótt, sem verða má.

13. gr. Þá er hús er reist til íbúðar, skal jafnan um leið reisa salerni og skal það ekki vera nær dyrum, gluggum eða vindaugum á húsinu en nemi 15 álnum; þó getur heilbrigðisnefnd veitt undanþágu frá þessu, ef sérstakar ástæður mæla með því. Gólfið í salerninu skal vera steinsteypt og hærra en jarðvegurinn í kring. Hafa skal í salerninu saurkagga vel vatnsheldan, og skal hann ná fast upp að setunni. Heilbrigðisnefnd getur leyft að hafa salerni innanhúss í sérstökum klefa, ef útigluggi á hjörum er á klefanum og að öðru leyti svo um salernið búið, sem heilbrigðisnefnd telur fullnægjandi. Ef vatnsheld for er gerð hjá húsinu, má hafa salerni yfir forinni, þannig að saurindin fari beina leið í hana.

15. gr. Ef engin salerni fylgja þeim húsum, sem eldri eru en þessi samþykt, eða þau ein, sem illa eru gerð eða mikill óþrifnaður er að, þá getur hellbrigðisnefnd heimtað af húseigendum að þeir geri ný salerni á þann hátt, er segir í 13, gr. 16. gr. Hver húseigandi á kaupstaðarlóðinni skal láta útbúa, innan 1. maí n. k., sorpkassa með loki. Sorpkassar skulu vera vatnsheldir og skal í þá safna öllu sorpi og ösku, er til fellur frá húsinu. Alt sorp skal svo flutt í sjó norður fyrir Siglufjarðareyri nema heilbrigðisnefnd kveði öðru vísi á. Hver lóðareigandi skal láta hreinsa af lóð sinni alt rusl og sorp, strax og snjó leysir af lóðinni. Ef út af bregður getur heilbrigðisnefnd látið framkvæma verkið á kostnað lóðareiganda.

17. gr. Það er skylda sjómanna að fleygja öllu slori í sjóinn svo út taki, fyrir utan þá línu, sem hafnarnefnd ákveður, ef því er ekki safnað í gryfjur á þeim stöðum, sem heilbrigðisnefnd leyfir. Útgerðarmenn og skipstjórar bera ábyrgð á því að þessu sé hlýtt.

18. gr. Ef einhverskonar óhreinindi safnast kring um hús manna svo að fýlu leggur af, eða daunilt rensli fer út á alfaraveg eða inn á eignir þeirra, er næstir búa, þá getur heilbrigðisnefnd skipað hlutaðeigandi húsráðanda að flytja burtu óhreinindin tafarlaust.

19. gr. Í kaupstaðnum má enginn reka nokkurn þann iðnað sem óhollusta fylgir eða óþrifnaður, t. d. lýsisbræðslu og sútun, nema heilbrigðisnefnd veiti leyfi til. Skal allur slíkur iðnaður vera háður eftirliti heilbrigðisnefndar og fyrirmælum hennar, að því er hreinlæti snertir, bæði utan húss og innan.

20. gr. Heilbrigðisnefnd skal hafa gát á öllum brauðgerðarhúsum, og eru bakarar skyldir að hlýða fyrirmælum hennar að því er hreinlæti snertir.

21. gr. Öll tóbaksnautn er bönnuð í brauðgerðarhúsum. Enginn má sofa í stofum, er hafðar eru til brauðgerðar. Brauðgerðarmenn skulu hafa yst klæða hvítar yfirhafnir, er ávalt séu hreinar, þeir skulu þvo höfuð sitt og hendur áður en þeir taka til verka, og ekki mega þeir þvo sér í vinnustofunni. Deig má ekki hnoða með fótum. Þeir menn mega ekki vinna að brauðgerð, sem lungnatæring hafa, eða annan næman sjúkdóm, eða opin sár eða útbrot á höndum eða handleggjum.

22. gr. Heilbrigðisnefnd skal hafa gát á því að ekki sé höfð á boðstólum matvara sem skaðleg er fyrir heilsu manna. Nefndinni er heimilt að taka í búðum og öðrum sölustöðum, fyrir gangverð, sýnishorn af hverri matvöru þeirri, er hún telur líkur til að skemd sé og skaðleg fyrir heilsu manna og rannsaka hana Heilbrigðisnefnd getur bannað matvælasölu, ef sölustaðurinn virðist óhæfur vegna óþrifnaðar. . . . ,

23. gr. Öll þau hús, sem leigð eru til íbúðar, þar með taldar sjóbúðir, skulu vera svo gerð, að unt sé að halda þeim hreinum; gluggar skulu vera á hjörum, að minsta kosti einn í hverju herbergi og trégólf í öllum íverustofum

24. gr. Ef íbúðarhús er svo illa gert eða hrörlegt eða þröngt, að heilbrigðisnefnd álítur hættulegt fyrir heilsu manna að búa í því, þá getur nefndin bannað íbúðina

25. gr. Bannað er að taka kjallara til íbúðar án leyfis heilbrigðisnefndar

26. gr. Heilbrigðisnefndin skal hafa eftirlit með samkomuhúsum í bænum og sjá um að þau séu ræstuð hvenær sem hún álítur þess þörf, og af þeim, sem hún telur til þess færa, og sjá um að í slíkum húsum séu jafnan nægilega mörg hrákagögn. Vilji eigendur eða notendur ekki sætta sig við álit heilbrigðisnefndar, geta þeir leitað álits héraðslæknis, sem þá ræður úrslitum.

27. gr. Heilbrigðisnefnd skal skoða öll skólahús og skólastofur, hvort heldur eru opinber eign eða einstakra manna, að minsta kosti tvisvar á ári, í byrjun skólaársins og á því miðju, Hver sá er tekur til kenslu 10 börn eða fleiri er skyldur að tilkynna heilbrigðisnefnd hvar hann ætlar að kenna.

30. gr. Heilbrigðisnefnd, í samráði við sóttvarnarnefnd gengst sérstaklega fyrir því að lögskipuðum vörnum sé haldið uppi gegn næmum sjúkdómum. Ef upp kemur alvarlegur, næmur sjúkdómur á því svæði, er samþyktin nær yfir eða í grendinni, þá er heilbrigðisnefnd heimilt að setja um stundarsakir strangari fyrirmæli en í samþykt þessari felast, um hreinlæti utan húss og innan, burtflutning á óhreinindum o. s. frv.

32. gr. Ef menn brjóta þessa samþykt eða vanrækja að framkvæma á settum fresti nokkra þá fyrirskipun, er heilbrigðisnefnd setur samkvæmt henni, þá varðar það alt að 200 kr. sekt, er rennur í bæjarsjóð.

Samþykt þessi öðlast gildi 1. ágúst 1920.

-----------------

Viðbót 2018: Varðandi niðurlag 27, greinar, „hrákadalla“ þá man ég eftir og sá einn „stórborgara“ Siglufjarðar losa sig við stóran hráka, blönduðum munntóbaki á einn ákveðinn stað við hlið inngreyptan miðstöðvarofn í Nýja Bíó. Þessi maður sat ávalt í sætinu rétt aftan við neyðardyr salarins þar sem viðkomandi ofn var, og þar í skotinu var stór svört klessa eftir karlinn, klessa sem lengi var þar án þess að viðkomandi hreingerningakonur snertu. Ég (sk) hefi verið um það bil 10 ára er ég þekkti þetta fyrirbæri, hrákakarla.

-------------------------------------------------------------------

Fram - 23. október 1920

4. árgangur 1920, 43. tölublað

Bæjarstjórnarfundur

20. og 21 . þ. m.

Af málum þeim, sem þar voru til meðferðar voru hin stærstu, kaup á Hvanneyri og Fjárhagsáætlunin fyrir næsta ár, og viljum vér geta þeirra lítið eitt.

Hvanneyrarkaupin .

Mál það var fyrir skömmu til umræðu á fundi bæjarstjórnarinnar, en var þá afgreitt mjög skjótlega og bjuggust fáir við því að það mundi koma á dagskrá aftur að sinni. Svo var þó eigi. Mun það einkum hafa komið fram nú vegna þess, að ef hugsanlegt yrði að kaup á jörðinni mundu ganga fyrir sig á þessum vetri, á komandi alþingi, þá mundi óhjákvæmilegt að áætla nokkra talsverða upphæð til viðhalds og viðgjörðar flóðgarðsins norðan við eyrina. Máli þessu var nú vísað til fasteignanefndar, og á hún að koma með tillögur um hvað gjöra skuli, líklega áður en þingmálafundur verður haldinn hér í haust.

Í sambandi við þetta getum vér eigi annað en lýst skoðun voni á þessu máli. Eins og nú er tímum háttað álítum vér með öllu móti óhæfilegt að hugsa til þess að bærinn ráðist í kaup á Hvanneyri, fyrir það verð og með þeim skilmálum, sem að oss er haldið. Fyrst og fremst er verðið gífurlega hátt, sé það alt að 150 þúsund krónur, og síðan fylgir sá böggull skammrifi, að bærinn taki þegar á sig alla ábyrgð á varnargarðinum, og viðhald á honum. Meira að segja greiði áfallinn kostnað við aðgerð á garðinum síðastl. sumar, sem að engu gagni kom.

Allir hér vita að garðurinn er mjög eyðilagður, um alt miðbik hans, og þarf því tiltölulega mikið fé til endurbóta og viðgerðar á honum, til þess hann komi að tilætluðum notum, og mundi sá útgjaldaliður á næstu fjárhagsáætlun bæjarins áreiðanlega verða mörgum þyrnir í auga. Meðan þessi kvöð fylgir kaupunum á Hvanneyri álítum vér þau ekki geta komið til tals, enda þótt ekki þyrfti að borga jörðina á augabragði, eða út í hönd, nema þá með því móti að verð jarðarinnar yrði fært niður um alt að helming.

Aðgætandi er einnig að með rentum þeim, sem nú eru á peningum, og útlit er fyrir að verða muni í náinni framtíð, mundi jörðin ekki gefa bænum meiri tekjur en sem svaraði vöxtum af 70 til 80 þúsund krónum. Alt öðru máli er aftur að gegna með afstöðu ríkissjóðs til Siglufjarðar. Honum er Hvanneyrareignin einn besti kjötpotturinn á landinu sem hann árlega færir upp úr þetta frá ½ og upp í heila miljón, í beinum tollum, honum ber því skylda til þess að gjöra mannvirki þetta, varnargarðinn, svo vei úr garði, að virkilega séu hér tryggðar eignir manna frá eyðileggingu, og atvinnuvegur okkar verndaður.

Ríkissjóð munar minna að verja til endurbóta flóðgarðsins, segjum 40 til 50 þúsund krónum, tolli af 10 til 15 þúsund síldartunnum, sem honum líka geta verið algerðar aukatekjur, en bæjarfélagið okkar, þótt burðugt sé, enda hreinn óþarfi að slengja þeim kostnaði á okkur. En vér eigum að krefjast þess til alþingis að fullkomin endurbót og viðgerð á garðinum fari fram þegar á næsta sumri, og fela þingmönnum vorum að flytja það mál fyrir okkur á næsta þingi, en leggja Hvanneyrarkaupin á hilluna fyrst um sinn.

Fjárhagsáætlunin .

Ýmsar breytingar voru á henni gerðar frá 1. umræðu, og varð útkoman sú að hún var jöfnuð með 64 þúsund krónum í aukaútsvörum, sem jafnað verður niður nú í haust.

Nokkuð af nýjum vegum er ætlast til að verði lagðir næsta vor:

1. Framhald af Eyrargötu upp í Lækjargötu.

2. Framhald af Vetrarbraut og

3. Framhald á þvergötu milli Vetrarbrautar og Hvanneyrarbrautar þannig að hún nái milli gatnanna.

4. Brú á Leyningsána.

Til kvöldskólahalds í vetur er á ætluð upphæð með því skilyrði að minst 15 nemendur sæki skólann, annars fellur styrkurinn niður.

6 þúsund krónur eru áætlaðar til Saurbæjarkaupanna, fyrri afborgunar.

Spítalamálið fær nú góðan byr, og eru ætlaðar til spítalabyggingar 13 þúsund krónur.

En styrk til kirkjubyggingar slept að þessu sinni.

Kom nefndarmönnum saman um að leggja allan kraft á sjúkrahúsið og stuðla til þess af megni að því verði komið upp, ekki síðar en 1922, leggja vel fram fé til þess, og láta kirkjuna sitja á hakanum á meðan, en vinda sér síðan betur að henni.

Tveim þúsundum og fimmhundruð krónum er ætlað til byggingu Sláturvallar.

Og er þá meiningin að öllum, jafnt bæjarmönnum sem aðkomumönnum verði bannað að slátra annarstaðar. Er þetta gott nýmæli.

Tillagan frá G. T. H. Þá er ætlað fjögur þúsund krónum til útrýmingar rottum, og væri betur að þar yrði ekki kastað peningum til lítils. Enginn hefur á móti því að mikla nauðsyn beri til þess að reyna að losa sig við þann ófögnuð, en mörgum finst að tvær herferðir hefðu átt að duga, en til þeirra mátti komast af með 2500 til 3000 krónur.

Launum til auka-lögregluþjóns var slept úr þessari áætlun, og er það bein afturför frá því sem verið hefur, auka-lögregluþjónn hefir verið hér tvö undanfarin sumur, en nú er hann skorinn niður, hefði sjálfsagt mátt klípa laun hans af öðrum útgjaldaliðum, t. d. rottunum.

Ennfremur var á þessum fundi varpað hlutkesti um hverjir af hinum sex fyrst-kosnu bæjarfulltrúum skyldu ganga úr bæjarstjórninni í vetur, og voru dregnir út Helgi Hafliðason og Friðbjörn Níelsson.

Verður þá kosið um 2 fulltrúa í komandi janúarmánuði.

-------------------------

Tíðin:

Sama indæla góða tíðin, hefir nú verið enn hlýrra þessa viku, altaf frostlausar nætur, og sést ekki föl í fjöllum.

Skip.

S.s. »Björkhaug « fór héðan síðastl. sunnudag, með skipinu fór Edvin Jacobsen stórkaupmaður. —

S.s. »Gudrun« fór héðan á fimtudag, með skipinu fór Andreas Hövík síldarkaupmaður. —

S.s. Borg, S.s. Gullfossog,

S.s.Lagarfoss liggja hér öll í dag.

Borg og Gullfoss taka hér síld og mun Borg ferðbúin á morgun, en Gullfoss fer líklega ekki fyr en á þriðjudag. Lagarfoss er á leið vestur á Húnaflóa tekur þar kjöt til Noregs. Með Gullfoss fer héðan fjöldi farþega. »Sterling« er væntanleg á morgun. S.s. »Island« á að vera hér kringum 12. nóv. næstkomandi. Kóra er á Isafirði á leið hingað.

Rafmagnsljósin.

Bærinn er nú ljóslaus sem stendur, er enn verið að gera við safnþróna hefur leki á henni svo mjög aukist í haust að nær helmingur vatnsins fór þann veg, og voru ljósin farin að fara á miðri vöku. Búist er við að hægt verði aftur að kveikja, á mánudag.

Oddur C. Thorarensen konsúll á Akureyri hefir nýskeð, af Noregskonungi verið sæmdur Sct. Ólafsorðunni.

Þjófnaðarmálin í Reykjavík grafa víst talsvert mikið um sig. Hér var nú í vikunni, af lögreglunni tekinn fastur unglingspiltur sunnlenskur, grunaður um að vera við þau riðinn. Hann verður sendur suður með Sterling.

------------------------------------------------------------------------

Fram - 6. nóvember 1920

4. árgangur 1920, 45. tölublað

Tiðin:

Síðastl. sunnudag gerði hér töluvert norðaustanveður með sjógangi, og bjuggust menn við að nú mundi ætla að breyta til uni tíðarfar, en það er eins og nú geti ekki orðið vont úr neinu, og datt veðrið niður strax sama daginn, og hefur síðan verið stilt og gott veður, sólskin á hverjum degi og væg frost um nætur, nefnilega, sama einmuna góða tíðin. Til bera var farið hér í Siglufirði i gærdag 5. nóv. og voru berin alveg óskemd, mun slíkt ekki oft henda.

Varnargarðurinn.

Í sjóganginuuj ttm síðustu helgi, fóru leyfarnar af viðgerðinni í sumar, og er sú viðgerð orðin verri en engin hefði verið. Er nú fullséð að mikla og góða endurbót þarf að gera á honum þegar á næsta vori, eins og stendur er öll eyrin í voða, ef stórbrim ber að höndum.

Hjónabönd.

Siðastl. laugardag voru hér gefin saman í hjónaband ungfrú Guðrún Ásgrímsdóttir frá Siglunesi og Hermann Einarsson sjómaður héðan úr Siglufirði.

Síðastl. fimtudag voru hér einnig gefin saman í hjónaband ungfrú Sigríður Jóhannesdóttir úr Eyjafirði og Egill Stefánsson verkstjóri við síldarbræðsluverksrniðju h. sam. ísl. verzlana hér í Siglufirði.

---------------------------------------------------------------------

Fram - 13. nóvember 1920

4. árgangur 1920, 46. tölublað

Tíðin:

Um síðustu helgi reið veturinn í garð, hefur töluverður snjór fallið þessa viku, en frost hafa verið væg. Síðastliðna nótt var hér afspyrnurok stóð austan hér í firðinum, en til hafsins hefur verið norðanveður, og er hér stórbrim í dag, og hríðarveður norðan.

Varnargarðurinn er allur meira og minna að eyðileggjast, hafa bæst í hann stór göt, og sprungur víða, í morgun.

Jarðarfarir.

Síðastl. mánudag var hér jarðsunginn Kristinn heit. Tómasson, að viðstöddu miklu fjölmenni, Daginn eftir var hér jarðsungið ungbarn sem Ingimundur Sigurðsson verkamaður og kona hans mistu nýskeð.

Götunöfnum og númerum á hús er verið að koma fyrir hér þessa dagana.

--------------------------------------------------------------------

Fram - 20. nóvember 1920

4. árgangur 1920, 47. tölublað

Símslit.

Í ofsaveðrunum um síðustu helgi hafa símslit og aðrar bilanir, á tímanum orðið víða um land. Í Fljótum urðu skemdirnar miklar og á mörgnm stöðum, ýmist undan krapþunga á þráðunum, eða þá að veðrið skekti til og skók staura svo að alt slitnaði niður. Einn staurinn rétt við stöðina í Haganesvík kiptist upp »með rótum« og fluttist fleiri mannslengdir og skruggur og eldingar riðu gandreið á símanum um Fljótin og gerði spellvirki. Sambandslaust var héðan úr Siglufirði, frá því á sunnudagsmorgun og þar til í fyrradag, en nú má heita að síminn sé í lagi aftur.

Undarlegt fyrirbrigði má það kalla og ekki gott að vita hvað valdið hefur, að eitt kvöldið nú í vikunni, logað i á símaþráðunum á löngu svæði austur af Haganesvik. Veður var hið besta, og var svo bjart af logum þessum sem best lýsa rafljós. Staurar allir og þræðir voru mjög hlaðnir krap-klessingi og var sjón þessi, sem stóð góða stund hin einkennilegasta. Getur hafa verið leiddar að því, að skeð geti, að við hér í Siglufirði höfum, af ríkdómi vorrar náðar miðlað Fljótungum ljósum þessa kvöldstund frá rafstöð vorri.

Hér hefur slíkt hent að símaþræðir hafa logað og sprengingar orðið, ef rafleiðslu- þræðir hafa lagst á símaþræðina og í þetta sinn hafi þá með undarlegheitum, þræðirnir logað alla leið inn yfir fjall. án þess þó að vér yrðum varir nokkurra stórmerkja. Ekki skal úr því leyst hér. En í þessu sambandi skal bent á, að mjög hættulegt getur verið að ekki sé svo tryggilega um búið að þræðir þessir geti aldrei »slegist saman«, því sé hugsanlegt að með þessu móti geti borist eldur með símaþráðunum í hús manna, geta hér einhv. góða kvöldstund öll hús símanotenda í þessum bæ, staðið í björtu báli.

Glæpamál nýtt er komið upp í Reykjavík, og eftir lausafregnum sem borist hafa, líklega eitt af þeim allra svívirðilegustu sem ofanaf hefur tekist að fletta, hér á landi. Ófyrirleitnir fantar senda skip úr höfn hlaðið grjóti og torfi, en sundurbora allan botn skipsins, auðvitað án vitundar skipverja og ætla sér að láta alt hverfa þegjandi og hljóðalaust. En vátryggja skip og farm mjög vel fyrir þessa ferð.

Skipið var M.s. »Leó«, en nöfn þeirra sem við þetta eru riðnir eru ekki sannfrétt ennþá vegna símslitanna, en þrír munu vera komnir í tugthúsið. Glæpurinn komst þannig upp að skipið varð að snúa við aftur vegna óveðurs er á það skall rétt eftir að komið var út úr höfninni í Reykjavík, en þá strax var þó eitthvað farið að bera á óeðlilegum leka, sem leiddi alt í ljós.

----------------------------------------------------------------------

Fram - 27. nóvember 1920

4. árgangur 1920, 48. tölublað

Barnaveiki (Difterites) illkynjuð hefur stungið sér hér niður. Hefur hennar orðið vart í þrem húsum, sem öll hafa verið stranglega sóttkvíuð, og 2 börn dáið. Hið fyrra mistu Hallur Garibaldason sjóm. og kona hans, dreng 2ja ára, Garibalda að nafni, og hið síðara, Stefán Jónsson verkamaður og kona hans, dreng, Sigfús að nafni, 4. ára gamlan. Vonandi tekst að stemma stigu þessa voðagests verði sóttbanninu og banni um samgöngur við hin sýktu hús, fylgt af öllum almenningi, út í yztu æsar.

-------------------------

1. desember. Vegna barnaveikinnar, sem hér liggur nú í landi, er ekki búist við að nokkuð geti orðið af samkomum vegna smita-hættu, þann dag.

---------------------------------------------------------------------

Fram - 4. desember 1920

4. árgangur 1920, 49. tölublað

Barnaveikin breiðist ekki út, og engin fleiri »tilfelli« í hinum sýktu húsum.

--------------------------------------------------------------------

Fram - 24. desember 1920

4. árgangur 1920, 52. tölublað

Auglýsing

Rafljósanotendur !

Hérmeð er skorað á alla ljósnotendur að láta ekki rafljós sín lifa að óþörfu, t. d. ekki í búðum, öðrum húsum eða herbergjum, sem ekki er verið í, að öðrum kosti mega menn búast við, að rafljósin lifi ekki um jólin nema að litlu leyti. Hver sem sparar ljósin stuðlar að því að hann sjálfur og meðborgarar hans hafi nóg rafljós um jólin.

Allir sem nota línraf(bolta), sem ekki hefir verið leyft, verða að skila strax slíkum tækjum að öðrum kosti getur notkun slíkra raftækja varðað fangelsishegningu. Þetta gildir einnig um línrafnotendur, sem hafa leyfi til að hafa einn »bolta« en kynnu að hafa 2 bolta. Bolta þá sem leyfilegt er að nota eru menn beðnir að nota ekki á aðfangadag.

Siglufirði 22. des. 1920 Rafljósanefndin.

---------------------------

Ath: (sk)- Línrafboltar, eru sennilega það sem í dag er kallað straujárn, sem notuð eru til að strauja skyrtur og sambærilegt.

-------------------------

Tíðin: Norðan-stórhríð, með ofsaroki við og við mátti heita óslitin frá því á laugardag og fram á miðvikudag, og er nú hér kominn töluverður snjór. í gær og í dag bjart og gott veður en frosthart nokkuð, var í gærmorgun 13 stig, í dag aftur hlýrra.

Aðal-Götur bæjarins hafa verið mokaðar og eru hinar prýðilegustu undir jólin, og bæjarstjórn til sóma.

Kosning 2ja fulltrúa í bæjarstjórn fer fram 8. jan. næstk. samkv. augl. kjörstjórnar hér í blaðinu í dag. Hverjir í kjöri verða er ófrétt enn sem komið er.

Kjörskráin var lögð fram almenningi til sýnis í gærdag. Telur hún 448 kjósendur, þar af konur 231 og karlmenn 217.

Þorskfiski er hér dágott altaf þegar gefur á sjó. í gær réru 3 vélbátar og fengu allir milli 40 og 50 til hlutar af góðum fiski.

Rafljósin eru nú farin að bila, þrýtur vatnið óðum eins og áður, þegar vetur leggst hér að. Athygli skal vakin á aug lýsingu rafljósanefndar í blaðinu í dag, þar sem almenningur er kvattur til að fara vel með ljósin.