Glefsur úr blaðinu Fram árið 1922

6. árgangur 1922, 1. tölublað

>Eimskipafélag Íslands og Siglufjörður<.

Það hefir vakið mikla gremju meðal alls almennings hér í Siglufirði hversu mjög Siglufjörður er settur hjá við samningu áætlunar skipa Eimskipafélagsins fyrir árið 1922. Kom mönnum þessi hjásetning mjög á óvart, þar sem vitanlegt mætti vera hverjum manni að Siglufjörður heftir undanfarin ár verið hin drýgsta tekjulind félagsins. Má óhætt fullyrða þetta hvað viðkemur 2 síðastliðnum árum, hvað útflutning snertir. Skip félagsins, og skip ríkissjóðs, sem félagið einnig stjórnar, hafa hvað ofan í annað og á þeim tíma sem lítið var um útfl.vöru annarstaðar á landinu fengið fullfermi síldar og olíu héðan úr Siglufirði.

Áttu menn síst von á því nú, þegar losnar um samgöngur og samkepni harðnar, að þetta félag dragi sig til baka, þar sem máske var allra mesta gróðavonin og nauðsynin að halda vinsældum og fremur auka þær — því oft hefur raunar áður sviðið Siglfirðingum, þegar skipin ferða eftir ferð, hafa liðið hér fyrir fjarðarmynnið á flakki sínu milli Sauðárkróks og Akureyrar, svo nærri, að reykjarþefinn hefir lagt fyrir vit manna. Til þess aðeins að minnast á hve hlutdrægnislega virðist farið með okkur, er »Goðafoss« t. d. ætlað að koma 9 sinnum við á Kópaskeri (5 s. á leið frá útl. og 4 s. á l. út) en á Siglufjörð á skipið að koma 8 sinnum, 6 sinnum á leið frá útl. og 2 á leið út í ágúst og sept. Er þó líklega flestum augljós munur um flutningsvonir skipanna frá þessum 2 stöðum.

Maður minnist varla á slíkt keltubarn sem Húsavík, en þar á »Goðafoss« að koma 17 sinnum. í þessu sambandi skulu menn aðgæta, að Goðafoss siglir með styrk úr ríkissjóði, svo framkvæmdastjórn Eimskipafélagsins ræður ef til vill eigi öllu um samningu áætlana en það sýnir oss þá ljóslega að fulltrúar okkar Siglfirðinga, þeir sem áhrif eiga að hafa á þing og stjórn, og beðnir hafa verið ár eftir ár, að gæta hagsmuna Siglfirðinga í þessu efni, eru ónýtari en fulltrúar flestra annara héraða á landinu.................. Greinin er lengri, restinni sleppt hér.

------------------------------

Póstferðir.

Sú breyting verður á póstferðum á þessu ári, á milli Akureyrar og Siglufjarðar, að landpóstur sá sem gengið hefur þessa leið verður lagður niður, og pósturinn í þess stað fluttur sjóleiðís, með viðkomum víða um Eyjafjörð. Bjarni skipasmiður Einarsson á Akureyri heftir tekið að sér ferðirnar og notar til þess mótorbátana »Mjölnir« og »Hróli kraka« er var hér staddur í fyrstu póstferð í gærdag.

----------------------------------------------------------------

Fram - 11. febrúar 1922

6. árgangur 1922, 4. tölublað

Prentsmiðjufélag Siglufjarðar.

Á aðalfundi félagsins sem haldinn var 5. og 12. þ. mán. voru allar eignir félagsins seldar, þar á meðal blaðið Fram.

3 tilboð höfðu komið fram en hæðsta tilboðið kom frá 10 mönnum öllum búsettum hér í Siglufirði, og var því tekið. Afhending allra eignanna fer fram þegar í stað. Hinir nýju eigendur halda áfram útgáfu blaðsins og með sömu ritstjórn til 1. apríl næstk. Hið allra fyrsta mun, fenginn fullkominn prentari að prentsmiðjunni svo að ýms prentun auk blaðsins geti orðið af hendi leyst, hindrunarlaust.

---------------------------------

»Norðmenn rjúfa hauginn há«.

Hér frammi í firðinum er hóll, sem Álfhóll heitir og er sagt að þar sé heygður fornmaður einn, Álfur að nafni. Eru nú nokkrir tingir menn teknir að rjúfa hauginn, hvað sem þeim verður til fanga.

-----------------------------------------------------------

Fram - 18. mars 1922

6. árgangur 1922, 9. tölublað

Ríkissjóður og bæjarfógetaembættið á Siglufirði

Baldursmálinu er nú lokið með þeim úrslitum í hæstarétti eins og í undirrétti, að alt áfengi skipsins, um 24 smálestir er upptækt. Það má segja, að ríkissjóði hafi þar áskotnast minst ¼ miljón króna. Árlegir vextir af áfengisverðinu, þótt lágt verði reiknað, nema meiru en árlegum kostnaði, sem ríkissjóður nú og í framtíðinni hefir af bæjarfógetaembættinu hérna.

Að komist var fyrir þetta áfengisbrot var af því, að bæjarfógetinn hérna setti milli 10—20 leyniverði, sem að næturlagi héldu vörð um allar samgöngur frá skipinu í land og með því höfðust gögn fyrir brotinu. Ef hér á staðnum hefði ekki verið valdsmaður, þá er auðvitað, að skipið hefði sloppið. Aðeins á þessu eina embættisverki hefir ríkissjóður því fengið meira en allan kostnað af bæjarfógeta-embættinu hérna, um aldur og æfi, greiddan. Þetta sé sagt þeim til huggunar sem voru á móti stofnun bæjarfógeta-embættisins hér vegna kostnaðaraukans fyrir ríkissjóð.

Hvorki ríkissjóður né þjóðin okkar mun — sem betur fer — tapa við að kröfum vor Siglfirðinga hafi verið og verði sint.

Gamall Siglfirðingur.

--------------------------------------------------------

Fram - 25. mars 1922

6. árgangur 1922, 10. tölublað

Siglufjörður sem sérstakt þingmannskjördæmi.

Heyrst hefir, að sumum háttv. alþingismönnum finnist Siglfirðingum ganga til fordild og frekja í að krefjast þess, að kaupstaðarumdæmið verði gert að sérstöku kjördæmi. Siglufjörður hafi ekki rétt til þess vegna mannfæðar sinnar. Í fyrsta lagi er hér til að svara, að fleiri kjördæmi minni hafa lítið eitt fleiri íbúa og kjósendur *), en standa Siglufirði langt að baki með atvinnugreinar, verzlun, útflutnirig og innflutning og framleiðslu, sbr. síðar.

Auk þess má benda á, að eitt kjördæmi landsins hefir lítið eitt færri íbúa og kjósendur en Siglufjörður (Austur-Skaftafellssýsla 1132 íbúa) og annað kjördæmi landsins (Seyðisfjörður) hefir alt að þriðjungi færri íbúa (og kjósendur) en Siglufjörður. Enn auðsærra er það misréttið þegar tekið er tillit til þroska þeirra 3 kaupstaða, þegar þeir urðu þingmannskjördæmi (1903) og Siglufjarðar nú. Þá hafði Akureyri 1533 íbúa, Ísafjörður 1269 og Seyðisfjörður 892. Þá höfðu Vestmannaeyjar, sem voru sérstakt þingmannskjördæmi, alls 722 íbúa.

M. ö. o. Siglufjörður hefir nú álíka íbúatölu og Ísafjörður hafði er hann var gerður að sérstöku kjördæmi, alt að þriðjungi fleiri íbúa en Seyðisfjörður hafði er hann fékk þingmann fyrir sig og meira en þriðjungi fleiri íbúa en þingmannskjördæmið Vestmanneyjar hafði þá. Í öðru lagi er þess að gæta, að það er fleira en fólkstalan ein, sem á að ráða því, hvort hérað eigi að verða þingmannskjördæmi út af fyrir sig. Staðhættir, atvinna og sérleiki héraðs eiga þar fullkomlega eins að ráða. Þar sem staðhættir eru sérstakir og atvinnuvegir mikilvægir, er meiri ástæða til að héraðið fái þingmann fyrir sig en annað hérað jafnmannmargt eða álíka mannmargt, er hefir eigi eins mikilvæga atvinnuvegi né sérstæða.

Nú verður því- eigi neitað, að þetta má einkum heimfæra upp á Siglufjörð. Kaupstaðurinn hefir svo sérstæða staðháttu og mikilvægi atvinnuveganna má m. a. marka af, að t. d. árin 1914 og 1915 var Siglufjörður 3. kaupstaðurinn á landinu (næst Akureyri og Reykjavík) með samanlagt verðmæti innflutnings og útflutnings samkv. verzlunarskýrslunum. Skýrslurnar 1918 gefa engar ábyggilegar upplýsingar um þetta efni vegna þess, hve innflutningur og jafnvel útflutningur vegna stríðsráðstafana gekk í gegnum aðrar hafnir, einkum Akureyri og Reykjavík.

Að þetta sé rétt með farið skal sannað með eftirfarandi: 1918 voru saltaðar hér og seldar til útflutnings um 35 þúsund tunnur af síld, á ca. 100 kr. tn., m. ö. o. ca. 350 þúsund krónur fyrir aðeins útflutta síld. Hér til kemur svo allur annar útflutningur: fiskur, lýsi, síldarmjöl o. fl. Nú er allur útflutningurinn héðan það ár í hagskýrslunum talinn 114 þús. kr. virði svo að auðséð er, að verðmæti útflututngsins samkv. hagskýrslunum gefur ekki rétta hugmynd um útflutningsverðmætið héðan eins og það var í raun og veru, en auðvitað á Hagstofan enga sök á þessu. Þess skal getið, að árið 1918 var sérstaklega aflalítið ár hér.

Það er því næsta auðsætt, að mannfæðin hér getur eigi réttlætt það, að hið háa Alþingi feldi frumvarp frá alþ.m. vorum Stefáni Stefánssyni um að Siglufjarðarkaupstaðarumdæmi verði gert að sérstöku þingmannskjördæmi. Hafi hann þökk fyrir að koma fram með frumvarpið, ef hann fylgir því fast fram, sem ber ekki að efa að óreyndu. Væri óskandi að hann bæri giftu til að leiða það mál til sigurs. Þá er ein ástæðan sú, að það yrði kostnaðarauki fyrir ríkissjóð ef frumvarpið næði fram að ganga. Satt er það, en næsta óverulegur og ef ríkið hefir ekki ráð á að láta héruðin fá þá þingmannatölu og þingfulltrúa, sem þau eiga sanngirniskröfu til, þá væri nær að spara með því að halda Alþingi að eins annaðhvort ár, heldur en að neita héruðunum um sanngjarna hlutdeild í þingfulltrúa-tölunni.

Enn eru er það úrræði til, að Siglufjörður kosti sjálfur þingmann sinn og væri þá kostnaðargrýlan úr sögunni. En það mundi sannast, að- þingfulltrúi vor sem vera ætti ---- mundi hugsa um hag alls landsins engu síður en aðrir þingmenn og ætti það illa við, að ríkissjóður kostaði ekki hans þingferð sem annara þingfulltrúa og verður því ekki farið frekar út í það atriði.

Siglfirðingur

*) Mýrasýsla 1847 íbúa, Dalasýsla 2068 íbúa, Ísafjörður um 1800, Strandasýsla 1773, Norður-Þingeyjarsýsla 1572, Vestur-Skafta- fellssýsla 1907.

-----------------------------------------------------------------------------

Fram - 1. apríl 1922

6. árgangur 1922, 11. tölublað

Frétt, og hluti alþingisfregna:

Sameining lögsagnarumdæma Siglufjarðar og Eyjafjarðarsýslu.

Sú fregn hljóp hér um allan bæ í gærdag, að tillaga væri komin fram um það á alþingi að sameina aftur Siglufjörð og Eyjafjarðarsýslu, og væri Gunnar Sigurðsson frá Selalæk flutningsmaður hennar. Voru menn hálf órólegir yfir fregn þessari, og þótti hún ill, töldti raunar ótrúlegt að alþingi mundi eftir tæp fjögur ár svifta okkur þeim réttindum sem mátti segja að gefin hefðu verið af alþingi sem afmælisgjöf, á 100 ára afmælisdegi Siglufjarðar 20. maí 1918, en við hverju mátti ef til vill eigi búast?

Hringdi ritstj. blaðsins til alþ.manns okkar hr. Stefans Stefánssonar, í gærkvöldi. Tjáði hann oss að í gærdag hefði mál þetta verið tekið út af dagskrá, og mundi eigi aftur koma til umræðu fyr en eftir helgi. Annars gaf þingmaðurinn það í skyn að álit hans væri, að tillaga þessi mundi fram komin af bekni við sig. Svo væri mál með vexti að hann fyrir hönd sparnaðarnefndar hefði flutt fram tillögu um sameining Árnes- og Rangárvallasýslu í 1 lögsagnarumdæmi, og hefðu svo þingmenn þeirra sýslna komið með þessa tillögu eins og móti hinni.

Annars bjóst alþ.maðurinn við því, að allar tillögur sem fram væru komnar um sameining lögsagnarumdæma yrðu feldar, og að við Siglfirðingar myndum als eigi þurfa að vera hræddir um að slíkt næði fram að ganga, hvað okkur snertir.

--------------------------------------------------------------

Fram - 8. apríl 1922

6. árgangur 1922, 12. tölublað

Nýjustu þingfregnir.

Sameining Siglufjarðar við Eyjafjarðarsýslu. Frá þessu máli var skýrt í síðasta blaði, og urðu endalok þess að tillaga frá Gunnari Sigurðssyni frá Selalæk, um að vísa því til stjórnarinnar, ásamt tillögunum um sameining Árness- og Rangárvallasýslna, var samþykt og málið þar með út úr sögunni, á þessu þingi.

Hringdi Gunnar Sigurðsson alþ.- maður til ritstjóra »Fram«, og sagði honum málalok þessi, og gat þess að þeir flutningsmenn tillögunnar um sameining Siglufjarðar við Eyjafjörð, hefðu eigi gjört það í óvingjarnlegum tilgangi við Siglfirðinga, heldur hefði þetta verið neyðarvörn, þar sem þingmaður okkar hefði verið flutningsmaður hinnar tillögunnar, og gjört að eins í þeim tilgangi að bjarga þeirra sýslum frá sameiningu, sem og hefði lánast.

----------------------------

Fram - 19. apríl 1922

6. árgangur 1922, 13. tölublað

Hafnarbryggjan.

Á bæjarstjórnarfundi sem haldinn var hér 10. þ. mán. var með öllum gr. atkv. (7) samþykt tillaga frá hafnarnefnd um byggingu hafskipabryggju á hafnarlóðinni, svo framarlega að hægt sé að útvega lán til fyrirtækisins. Hefur hafnarnefnd áætlað lengd bryggjunnar nær 100 metra og að hún þá nái fram á 14 feta dýpi um stórstraumsfjöru. Að áliti verkfræðings kostar bryggja þessi bygð á kláfum fyltum grjóti, 20 feta breið, með 40 feta haus, um 48 þúsund krónur.

Er tilætlunin, ef lán fæst, að verkið verði boðið út í sumar og byrjað á byggingunni á komandi hausti. Er svo talað um að þessum hafnarbótum reynum vér að koma upp hjálparlaust af hendi hins opinbera, enda okkur í engan máta ofvaxið að byggja þessa bryggju á eigin spýtur. En um leið og við byggjum bryggju þessa án hjálpar, er hún ekki annað en spor í áttina til hinnar fullkomnu hafnarbótahugmyndar, sem hér var á döfinni 1919, og lýst var aftur hér í blaðinu fyrir skemstu.

Þessi bryggja sem nú á að ráðast í, mun að öllu sjálfráðu flýta fyrir því að reynt verði að fara á stúfana með hina hafnargjörðina, með öldubrjót o. fl., og er þeim, er þetta ritar, gleðiefni, að hafnarnefnd og bæjarstjórn skyldi falla frá hugmynd sinni, þeirri í vetur, að byggja svo innarlega á hinni ágætu hafnarlóð bryggju fyrir á annað hundrað þúsund krónur, sem auðvitað var eigi hægi að gjöra án tilstyrks ríkissjóðs, og skjóta með því loku fyrir að vér nokkurntíma seinna fengjum frekari styrk til hafnarbóta hér.

Með þessari nýjustu hugmynd höfum vér aftur á móti óbundnar hendur, og getum strax sem oss finst þar til vera hentugur tími lagt út í sjálfa hafnatgjörðina og þá með fullkominni sanngirni mæl>t til þess að verða til hennar styrktir af opinberu fé.

Ísfirðingar, sem hafa í huga umfangsmiklar umbætur á höfninni, hafa á þessu þingi fengið loforð fyrir mikilli fjárupphæð til hafnargjörðar um leið og fé verði fyrir hendi og þótt það geti dregist að peningar verði til í kassanum, þá eru þeir þó komnir á stað. Ekki skulum vér öfundast yfir því, að þeir fái bætur á höfn sinni, miklu fremur skulum vér gleðjast yfir því að þeir hafa fengið málum sínum framkomið, þess hægri verður eftirleikurinn okkur.

---------------------------------------------------------------------

Fram - 20. maí 1922

6. árgangur 1922, 18. tölublað

Hér með tilkynnist heiðruðum lesendum „Fram" að eg og faðir minn, Björn G. Blöndal, sem undanfarin ár hefur haft ritstjórnina á hendi með mér, hættum ritstjórninni með þessu tölublaði.

Virðingarfyllst Sophus A. Blöndal

--------------------------

Mótorbáta vantar.

Mótorbáturinn »Samson« eign útgerðarm. Porsteins Péturssonar hér í bænum, lagði héðan út þriðjudaginn í fyrri viku í hákarlalegu, og hefur ekki til hans spurst síðan. Eru menn orðnir hræddir um að bátnum hafi hlekst á í garðinum um síðustu helgi, en ekki vonlausir um, að hann hafi máske náð landi þar sem símalaust er, eða sé í hrakningi með bilaða vél. Fór mótorbátur héðan í nótt til að leita hans og bíða menn með eftirvæntingu, afturkomu hans.

Á »Samson« eru 7 menn, allir héðan úr Siglufirði. Frá Hnífsdal vantar mótorbátinn »Hvefsingur« með 8 eða 10 mönnum, og eru menn vestra orðnir vonlitlir að til hans spyrjist tíðar. Árabátur með 2 mönnum fórst úr Bolungavík á föstudaginn var. Fiskiskipin héðan og af Eyjafirði hleyptu inn á Vestfirðina undan garðinum og fengu sum þeirra smááföll, en ekki vitum vér annað en að ná sé frétt til þeirra allra, og mannskaði enginn á þeim.

----------------------------------

Bæjarbryggjan,

Lán fengið. Bæjarfógetinn hefur í ferð sinni til Akureyrar í fyrri viku fengið loforð fyrir láni til byggingar hafnarbryggjunnar, alt að 50 þúsund krónu upphæð. Er það útbú Landsbankans á Akureyri sem lánar féð. Er þá versta þröskuldinum rutt úr vegi, og ábyggilega byrjað á framkvæmdum á komandi hausti.

-----------------------------------

Hundahreinsun fer fram þriðjudag og miðvikudag 30. og 31 þ. m. Þeir í kaupstaðnum er eiga hunda komi með þá kl. 1—2 þriðjudag 30. þ. m. í hundakofann. Bændur í firðinum, Siglunesi, Staðarhóli,Saurbæ, Hóli, Skútu, Leyningi, Skarðdalskoti, Skarðdal, og Dölum, og þeir í kaupstaðnum sem koma ekki að hundum sínum fyrri. daginn, komi þeim í hundakofann miðvikudag 31. þ. m.kl. 1 síðd.

Sektir liggja við að láta ekki hreinsa hundana.

Siglufirði 19. maí 1922 Einar Jóhannesson

----------------------------------- -------------------------------

Fram - 27. maí 1922

6. árgangur 1922, 19. tölublað

Til lesendanna.

Með þessu blaði byrjar »Fram« að koma út undir nýrri stjórn. Skal það hreinskilnislega játað, að hinn nýi ritstjóri finnur sig í fylsta máta ómáttkan þess, að inna það starf af hendi svo sem vera ber, og biður hann góðfúsa lesendur að taka mjúklega á misfellum þeim, er á ritsjórninni kunna að verða. Um stefnu blaðsins skal eigi fjölyrða; hún mun á mörgum sviðum verða lík og undanfarið. »Fram« verður að sjálfsögðu fyrst og fremst blað Siglufjarðar og nærsveita en þó mun hann einnig leitast við svo sem hans litlu kraftar leyfa, að leggja orð i belg um þau mál er þjóðarheill varða.

Fréttir mun blaðið flytja eins og undanfarið, og kosta kapps um að afla sér þeirra svo ýtarlegra og réttra sem föng eru á, bæði innlendra og útlendra og er þegar gert talsvert í því efni að afla blaðinu góðra fréttasambanda. »Fram« vill eiga frið við alla menn, og mun ekki óneyddur leggja út í deilur og illindi, en hinsvegar mun hann reyna að verja sannfæringu sína og skoðanir um menn og málefni með fullri einurð, hver sem í hlut á.

»Fram« Ijær fúslega rúm vel rituðum greinum um hvert það mál er almenning varðar, hvort sem þær samrýmast skoðunum blaðsins eða ekki, því hann lítur svo á, að málefnin skýrist best við það að ræða þau frá fleiri en einni hlið. »Fram« þakkar fráfarandi ritstjóra og samverkamanni hans fyrir mikið og vel unnið starf í sínar þarfir, svo og öllum þeim er á einn eða annan hátt hafa styrkt blaðið og óskar eftir aðstoð þeirra og annara góðra manna framvegis.

-----------------------

Ritstjóri og ábyrgðarmaður: Jón Jóhannesson. Siglufjarðarprentsmiðja.

------------------------------------------------------------------------------------

Skip vantar

Þess var getið í síðasta blaði að vélbátinn »Samson« eign, Þorsteins Péturssonar hér, vantaði. Til hans hefir ekkert spurst síðan og munu nú flestir telja hann af. Vélbáturinn »Skarphéðinn« var sendur héðan að leita »Samsons« fyrra laugardag; lá hann á Kálfshamarsvík vegna óveðurs þar til á miðv.d.kvöld, mun nú vera að leita á ströndunum. —

Gjörði hann ráð fyrir að láta ekkert heyra frá sér, fyr en hann kæmi hingað heim. Á »Samson« voru 7 menn, allir héðan úr Siglufirði og Siglunesi. Skipstjóri Oddur Jóhannesson Siglunesi, fóstursonur hans, Guðlaugur Jósefsson, Ólafur Sigurgeirsson, Ólafur Ásgrímsson, Bjarni Gíslason, Bæringur Ásgrímsson og Sigurður Gunnarsson, allir héðan úr bænum.

Einnig vanta tvö skip önnur af norðlenska flotanum, kútter »Mariann« eign Höepfners verslunar á Akureyri. Á henni voru 12 menn allir úr Fljótum. Skipstjóri var Jóhann Jónsson frá Syðsta-mói, — og vélskipið -»Aldan« eign Guðmundurs Péturssonar kaupm. Akureyri. Á henni voru 16 menn, þar af 1 héðan úr Siglufirði. Bergur Sigursson skipstjóri.

og 4 af Höfðaströnd. Skipstjóri hennar var Vésteinn Kristjánsson frá Akureyri. Tveir togarar fóru frá Reykjavík í fyrrakvöld að leita skipa þessara, — átti annar að fara 80 og hinn 100 mílufjórðunga á haf út, og í gærmorgun lagði herskipið »Fylla« einnig á stað frá Rvík að leita.

Menn eru mjög hræddir um skip þessi, en þó eigi alveg vonlausir enn, því bæði eru sögð ágæt sjóskip, en bilurinn 13. og 14. þ. m er af öllum sem vit hafa á slíku, talinn einhver hinn versti sem komið hafi nú síðustu áratugina.

-------------------------------------------------------------------------

Fram - 3. júní 1922

6. árgangur 1922, 20. tölublað

Skipin sem vanta.

Af þeim hefir ekkert frést. — Margir togaranna sunnulensku, leituðu þeirra jafnframt því að þeir voru á veiðum enn þeir hafa einkis orðið vísari og varðskipið eigi heldur. V.b. »Skarphéðinn« sem sendur var að leita að »Samson« kom á fimtud. Hafði hann leitað rækilega á Ströndum; — höfðu þeir gengið allar fjörur frá Norðurfirði og vestur á Hornvík, en einkis orðið varir.

Tvö skip vanta frá vesturlandi, vélbátinn »Hvessing« frá Hnífsdal og vélsk. »Skírni« frá Súgandafirði og var bátur frá ísafirði einnig að Ieita, og mætttust hann og »Skarphéðinn« á Hornvík, enn öll leit þeirra var árangurslaus.

-------------------------------------

Símskeyti:

Leit »FylIa« og togaranna varð að öllu leiti árangurslaus.

Nánar um sjómennina sem fórust eru í 21 tölublaði Fram – ásamt fleiru sem slysunum tengist. Löng grein:

http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=52213&pageId=960961&lang=is&q=fram

------------------------------------------------------------------

Fram - 17. júní 1922

6. árgangur 1922, 22. tölublað

Leiðrétting. Fregnin sem birtist í síðasta blaði (21. Tölublaði) að V.s. »Skírnir« mundi hafa farist, hefir sem betur fer reynst tilhæfulaus. — Vér höfðum fregnina eftir skipum sem komu að vestan og töldum hana því ábyggilega, en skeyti komu engin til blaðsins síðast.

Þótt blaðinu falli illa yfirleitt að afturkalla fregnir sem það flytur vegna óáreiðanlegleika þeirra, þá er því þó í þessu tilfelli óblandin ánægja að gjöra það, og það hefði hjartans fegið viljað hafa ástæðu til að afturkalla fleiri af slysafregnunum.

----------------------------------------------------------------

Fram - 24. júní 1922

6. árgangur 1922, 23. tölublað

D-listinn 8. júlí.

Á þessum lista eru þeir efstir Jón Magnússon fyrverandi forsætisráðherra og næstur Sigurður Sigurðsson ráðunautur Búnaðarfélags Íslands, en fjórði maður á listanum er Páll Bergsson útgerðarmaður í Hrísey; þá eru þar þrír aðrir sem okkur eru minna kunnir. Aðalumboðsmenn þessa lista í Reykjavík hafa falið mér að vera umboðsmaður þessa lista við kosningarnar hér 8. júlí og mæla fram með listanum.

Eg gjöri hvorttveggja með ánægju. Því þótt eg sé ekki allskostar ánægður með röðina á listanum, — hefði t. d. óskað að Páll Bergsson stæði ofar —, þá dettur mér ekki í hug að taka neinn af hinum listunum til jafns við þennan hvað þá heldur fram yfir hann.

Eg mun því hiklaust kjósa D-listann, og skora á alla góða menn í kjördæmi þessu að gjöra slíkt hið sama, og vona að svo verði sem víðast gjört; en svo sem öllum ætti að vera kunnugt, er listinn kosinn með því að gjöra kross framan við lista-bókstafinn, framan við stóra D, þannig: X D-listi.

Bjarni Þorsteinsson.

---------------------------------------

Ágangur búfjár, einkum sauðfjár og geitfjár á Hvanneyrartún, bæði heimatúnið og strandartúnið er orðinn svo afskaplega mikil og kæruleysi fjáreigendanna í þessum efnum orðið svo óþolandi, að við slíkt er ekki unnt að una lengur. Vil eg því biðja alla þá, sem eiga sauðfé eða geitfé í Hvanneyrarlandi, að taka það strax og þeir hafa lesið eða heyrt þessa aðvörun, og flytja það út á Strönd og upp á Dal og halda því síðan þar, fjarri túnunum.

Vona eg að menn bregðist vel við þessari sanngjörnu kröfu og bæði sjái það og viðurkenni, hvílíkan skaða þessi ágangur gerir mér og hve mikla fyrirhöfn eg og fólk mitt má hafa fyrir fénaði þeirra. Sjái eg litla eða enga viðleitni fjáreigenda í þá átt að draga til muna úr ágangi þessum, þá rekur að því, að eg neyðist til að grípa til þess óyndisúræðis, sem eg hef ætlað að hlífast við í lengstu lög, að banna öllum fjáreigendum undantekningarlaust alla hagbeit í landi Hvanneyrar frá næsta nýjári.

B. Þorsteinsson.

------------------------------------------------------------------

Fram - 29. júlí 1922

6. árgangur 1922, 29. tölublað

Drykkjuskapur er mikill nú í bænum, en það skal skýrt tekið fram að það eru aðkomumenn, útlendir og innlendir, en ekki bæjarbúar, sem mestan þáttinn eiga í honum. Hávaði og gauragangur er mikill á nóttum, svo fólk hefir varla svefnfrið. — Það væri full þörf á að hafa tvo næturverði, því þess er engin von að einn næturvörður anni því, að halda reglu í bænum.

Þvottahús.

Jósep Blöndal hefir sett upp lítið þvottahús, og ætlar að bæta úr brýnni þörf, og þvo föt sjómannanna. Er vonandi að honum takist að stækka þvottahúsið síðar, og bæta það; — gjöra það »tip top«.

----------------------------------------------------------------------

Fram - 26. ágúst 1922

6. árgangur 1922, 33. tölublað

Minnisvarði Hafliða heitinn Guðmundssonar afhjúpaður 20. ág. 1922.

Eins og getið var i síðasta blaði að stæði til, var minnisvarði Hafliða afhjúpaður sunnudaginn 20. þ. m. og byrjaði athöfnin kl. 6 síðd. Fjórar stengur höfðu verið reistar umhverfis varðann með fánum hinna fjögurra norrænu ríkja og öll skip sem lágu hér á höfninni höfðu dregið upp fána og mörg skreytt sig með flöggum þegar um morguninn.

Kl. 5 ½ byrjaði fólk að safnast að, og kl. 6, þegar athöfnin byrjaði var manngrúinn, útlendra og innlendra orðinn svo mikill, að langt tók út á nærliggjandi götur auk þess sem svæðið í kring og gatan var fullskipað. Gátu kunnugir þess til, að þarna mundi hafa verið saman komið nokkuð á annað þúsund manns. Hr. Tönnes Wathne, bróðir skörungsins Otto Wathne, sem hafði verið falið að afhjúpa steininn og afhenda hann fyrir hönd gefendanna talaði þá á þessa leið:...........

Ræðuna og fleira má lesa með því að smella á Fram - 26. ágúst 1922

------------------------------------------------- -----------------------------------

Fram - 12. september 1922

6. árgangur 1922, 35. tölublað

S e k t a ð i r hafa nokkrir menn verið fyrir óspektir á götum bæjarins, — oftast stafandi af drykkjuskap. Sektirnar hafa verið frá 30—100 kr. fyrir hvern. Drykkjuskapur hefir verið vonum minni í sumar, en þó meiri en nógur. Er ilt til þess að vita að vín skuli vera selt hér á ólöglegan hátt í nokkurum stöðum, og lögreglan skuli standa magnlaus gegn þeim ófögnuði þrátt fyrir góðan vilja, af því hana vantar aðstoð borgaranna sjálfra, til að fá sannanir á lögbrjótana.

----------------------------------- -------------------------

Fram - 16. september 1922

6. árgangur 1922, 36. tölublað

Spánarvínið.

Söluleyfið er veitt Helga kaupmanni Hafliðasyni, og fyrsta vínsendingin komin. Stjórnarráðið hefir nú veitt Helga kaupm. Hafliðasyni leyfi til útsölu Spánarvína hér í bænum, til alþingisloka 1923.

Það má telja þessi úrslit málsins heppileg, þegar athugað er í hvert öngþveiti því var komið, er bæjarstjórn hafði afsalað sér öllum íhlutunarrétti um það. Það má óhætt fullyrða, að það fer saman við vilja alls þorra kosningarbærra manna hér að Helgi fær söluleyfið, jafnvel þótt það sé hending ein sem réði því, og er slíkt vel farið.

Vér berum gott traust til Helga, að hann eigi misbeiti leyfi sínu að neinu leiti og eigi síður í því tilliti að hann varði um rétt sinn í því efni, að líða eigi ólöglega áfengissölu hér við hliðina á sér, en eins og áður hefir verið tekið fram hér í blaðinu, þá teljum vér það mikið heilbrigðara fyrirkomulag að hér sé ein lögleyfð vínsala heldur en margir launsölustaðið eins og orð hefir leikið á að væru hér.

Launsalan á og verður að hverfa. Hún er bæjarhneysa og landshneysa og það tvöfalt, nú þegar hver sem vill getur fengið vín á lögleyfðan hátt svo sem vilji hans og geta leyfir. En það er ekki Helgi Hafliðason einn sem með hjálp lögreglunnar getur stemt stigu við þeim ófögnuði. Til þess þarf hann og lögreglan að hafa hjálp bæjarbúa sjálfra og það á að vera öllum bæjarbúum bæði skylt og kært að veita þá hjálp, og varða á þann og á allan hátt um sóma bæjarins sem oss öllum er kær.

---------------------------------------------------------

Fram - 4. nóvember 1922

6. árgangur 1922, 43. tölublað

Prentsmiðjufélag. Siglufjarðar kaus nýja stjórn (sem starfar til nýjárs) núna í vikunni. Þessir voru kosnir: G. T. Hallgrímsson héraðsl. formaður, O. Tynes útgerðarm. og S. A. Blöndal kaupm. meðstjórnendur.

Tundurduflið .

»Fálkinn« kom loks á miðvikudagskvöldið til að gjöra vágest þann óskaðlegan. Gekk fimtudagurinn í að athuga duflið og undirbúa eyðileggingu þess, — þar á meðal að saga skarð í öldustokk og skjólborð bátsins, svo hægra væri að koma duflinu í sjóinn því Fálkamenn töldu hættulegt að lyfta því.

Töldu þeir fyrst heppilegast að flytja bátinn með duflinu út á rúmsjó og skjóta alt sundur. — Þó varð það ekki. Var í gærmorgun farið með bátinn hér út í fjörðinn og duflinu þar velt út af honum og tók Fálkinn kúluna á taug á eftir, og flutti til hafs. Eru það síðustu fregnir sem Fram hefir af þessu, að Ólafsfirðingar sáu Fálkann hringsnúast nokkra stund austur í ál, og taka síðan stefnu inn Eyjafjörð.

--------------------------

Vélbátur brotnar .

V.b. »Urriðafoss«, eign Matth. Hallgrímssonar kaupm. hér, fór til Haganesvíkur um helgina og rak þar upp á þriðjudaginn. Báturinn brotnaði í spón, en menn voru ekki í honum. Báturinn var óvátrygður.

-----------------------------------------------------------

Fram - 11. nóvember 1922

6. árgangur 1922, 44. tölublað

Til kaupenda.

Sú breyting hefur orðið á útgáfu blaðsins, að herra Jón Jóhannesson hefur fyrst um sinn hætt ritstjórn blaðsins og hefur því Prentsmiðjufjelag Siglufjarðar kosið Guðm. T. Hallgrímsson hjeraðslækni ábyrgðarmann að blaðinu til næstu áramóta og í ritnefnd með honum þá hr. Ole O. Tynes og hr. Sófús A. Blöndal.

Jeg undirritaður Guðm. T. Hallgrímsson hef tekið að mjer ofannefnt kjör.

Siglufirði 11. nóv. 1922 Guðm. T. Hallgrímsson.

---------------------------------------------------------------

Fram - 18. nóvember 1922

6. árgangur 1922, 46. tölublað

Bæjarstjórnarfundur 17. þ. mán.

Gatnagerð.

Fyrir fé það sem veitt var á, fjárhagsáætlun til vegagjörða, er nú samþykt að lengja þvergötu, af Vetrarbraut og niður á hafnarlóðina, kemur getan rétt norðan við hafnarbryggjuna fyrirhuguðu. Þá á að halda áfram með Þormóðsgötu frá Hvanneyrarbraut og upp í hlíðina, er sú vegabót nauðsynleg vegna aðdrátta á ofaníburði. Síðan á að lengja Grundargötu frá Aðalgötu og suður að sjó. Hefur verið samið um vinnuna og á verkinu að vera lokið fyrir 1. ág. næstk. Auk þessa á eitthvað að gera við gamla vegi.

Hafnarbryggjan.

Samþykt að gjöra útboð á alt að 60 ferh. föðmum af grjóti í hafnarbryggjuna.

Uppfylling á hafnarlóðinni.

Oddviti skýrði frá því að hann hefði þegar gjört samninga um rúm 13 þús. vagna af ofaníburði í uppfyllinguna á hafnarlóðinni, á 50 aura vagninn. Fól bæjarstjórn honum að semja um alt að 14 þús. vagna alls. Hafa menn tekið að sér þetta frá 500 til 1000 vagna, svo næsta nákvæmt eftirlit virðist muni þurfa til þess enginn geti nú snuðað, en bæjarstjórninni láðist að ráða þennan teljara. Hún hefur sjálfsagt augastað á einhverjum »hafnaringenjör« eða uppfyllingar-»kontrollör«. eða hvað menn nú vilja kalla hann, og verður það besta staða.

Lögregluþjónn . Ákveðið að ráða lögregluþjón í stað Guðm. Hafliðasonar sem sagt hafði starfanum upp í haust, og launa þeim nýja manni 1800 krónur í árslaun auk dýrtíðaruppbótar, sem reiknist eftir sama mælikvarða og dýrtíðauppbót embættismanna, og ennfremur fatnað annaðhvort ár. Starfinn er nú auglýstur til umsóknar.

--------------------------------------------------------------

Fram - 16. desember 1922

6. árgangur 1922, 50. tölublað

Sóknarpresturinn mælist fastlega til þess, að allir þeir hér, sem eiga ólokin gjöld til hans, hvort heldur eru lóðargjöld, hagagjöld eða gjöld fyrir aukaverk, greiði þessi gjöld öll nú fyrir áramótin.

Lögregluþjónsstaðan.

Um hana höfðu komið 5 umsóknir, frá þeim Chr. L. Möller, Flóvent Jóhannssyni Jósep Blöndal, Lárusi Jónssyni frá Saurbæ, og Sigurhirti Bergsyni, Hrísey.

Chr. L. Möller var veitt staðan með 7 samhl. atkvæðum. Flóv. J. greiddi ekki atkvæði. Staðan er veitt frá áramótum.

Endurskoðan á lögreglusamþyktar bæjarins.

Fiov. Jóh. hreyfði þessu máli. Taldi hann þetta hina mestu nauðsyn, sér í lagi með tilliti til hinna tíðu slysa er hér yrðu á síldarpöllunum vegna ónógs viðhalds eigandanna, en eftir núgildandi samþykt væri tæplega hægt, að skylda þá til að halda pöllum og bryggjum »mannfærum«.

Samþykt tillaga um að kjósa 2 menn með bæjarfógeta, til þess að endurskoða lögreglusamþyktina, og hlutu kosningu Flóv. J. með 6 atkv. og séra B. Þ. með 4.

Sorphreinsun .

Frú Guðrún Björnsdóttir kom með tillögu um, að ráðinn væri sérstakur maður til þess að flytja sorp og saur frá húsum. Húseigendur yrðu skyldaðir til að hafa þétta járnkassa við hús sín, undir alskonar sorp og ösku, yrðu þeir síðan tæmdir reglulega af þessum manni. Meðmæli með þessari tillögu hafði frúin frá héraðslækni Guðm. T. Hallgrímssyni, og ennfremur frá þeim læknum H. Guðmundssyni, og H. Thorarensen. Útgjöld í sambandi við þetta áætlaði frúin kringum 1.500 krónur árlega. Eftir stuttar umræður var málinu vísað til fjárhagsnefndar.

-------------------------------------------------------

Enga tilkynningu, né upplýsingar fann ég í þessu síðasta blaði af Fram sem kom út.

En fleiri eintök voru ekki prentuð.

Fullyrt var þó annarsstaðar, að ástæðan fyrir skyndilegri uppgjöf, hafi verið skuldir og vanskil "áskrifenda" -

Svo og að ekki fengust framlengingar á bankalánum ! Og blaðið farið á hausinn.

Steingrímur