Glefsur úr blaðinu Siglfirðingur 1928

Til almennings.

Það er ekki nýtt blað sem hjer hefur göngu sína. Heldur er það gamall kunningi, Siglfirðinga að minsta kosti. En þó blaðið sje ekki nýtt, mun þó það þykja hlíða að fylgja því úr garði með fáeinum línum er það nú rumskar, eftir áralangan svefn. „Siglfirðingur" er nú endurvakinn fyrir atbeina margra borgara þessa bæjar, af þeim ástæðum, að þeir telja það varla vansalaust. að bær sem telur nú nær 2 þús. íbúa, ekki geti neinstaðar látið í ljósi þóknun sína eða vanþóknun á meðferð þeirra mála sem hag hans varða.

„Siglfirðingur" mun því fyrst og fremst láta þau mál til sín taka sem Siglufjörð varða sjerstaklega. En einníg þau mál sem við koma alþjóð manna. mun hann hlutast um, að svo miklu leyti sem rúm hans leyfir og skal þar engin dul á dregin, að hann mun fylgja stefnu íhaldsflokksins í öllum megin atriðum, af því hann telur þá stefnu, er hlynnir að frjálsri þroskun hvers einstaklings og að frjálsri samkepni í atvinnu og viðskiftum meðal einstaklinganna, þá heillavænlegustu leiðina til þroska og gengis fyrir þjóðarheildina.

„Siglfirðingur" verður bindindishlyntur af því hann telur það mál eitthvert mikilvægasta málið fyrir heill niðja vorra í landinu og mannkyn alt. Eigi mun „Sigfirðingur" verða. áleitinn við aðra að fyrra bragði. Kýs hann heldur að ræða um málefni en menn, og með stillingu og rökum, en þó mun hann svara því sem honum sýnist, ef á hann verður ráðist og eigi !áta hluta sinn að óreyndu.

„Siglfirðingur" vill vera svo „frjálslynt íhaldsblað", að hann ljái rúm skoðunum þeirra manna sem öðrum steinum fylgja ef þeir vilja málin ræða með skinsemd og án æsinga. Mun hann ekki spara sitt litla pláss til þess. Blaðið mun flytja frjettir sem gleggstar og fylstar að kostur er á, bæði innlendar og útlendar, sem og bæjarfrjettir. Fleiru skal ekki lofað. Efndir þess sem hjer er lofað og ótalinna loforða, á reynslan að sýna.

Ritstjórinn.

----------------------------------

Hafnarbryggjan verður vígð kl. 1 á morgun, ef veður leyfir. Vígslan fer fram á bryggjunni með ræðum og söng. Öllum heimill aðgangur meðan rúm leyfir.

Siglufirði 3. nóv. 1928 Hafnarnefndin.

----------------------------------------------------------------

Siglfirðingur, Laugardaginn 10. nóv. 1928

Vígsla Hafnarbryggjunnar.

Það mátti á ýmsu sjá það, á sunnudagsmorguninn, að eitthvað sjerstaklega hátiðarlegt var í aðsígi á Siglufirði. Veðrið var hið fegursta, logn og frost, — hressandi, heilnæmt vetrarveður með svala og sól. Yfir bænum hvíldi sunnudags hátíðleiki. Fánar blöktu á hverri stöng og kl. 1 rendi „Brúarfoss", flöggum skreyttur, inn að hinni nýju hafnarbryggju Siglufjarðar. Var það fyrsta sinni, að skip leggur að henni til að ferma þar og afferma. Þar hafði verið hafður nokkur viðbúnaður, Reystur ræðustóll og bryggjan skreytt fánum. Á bryggjunni hafði safnast saman allur þorri bæjarbúa.

Bæjarfógeti stje fyrstur í ræðustólinn. Rakti hann sögu bryggjumálsins, og í því sambandi sögu bæjarins og lýsti því næst bryggjuna vígða og afhenta bænum til almennings nota, og óskaði að hún mætti verða bæ vorum til giftu og gengis. Fleiri ræður voru þarna fluttar. Guðm. Skarphjeðinsson mintist Siglufjarðar, Þorm. Eyjólfsson Íslands og bæjarfógeti Eimskipafjel. Íslands en Júlíus skipstjóri á Brúarfoss þakkaði f. h. Eimskipafjel. og mintist með snjöllum orðum framfara Siglufjarðar.

Karlakórinn söng á eftir hverju minni, þar á meðal tvö kvæði, orkt fyrir tækifærið, en því miður er rúm Siglfirðings svo takmarkað að hann getur ekki flutt þau, nje ágrip af ræðunum. Var þar þó margt vel sagt. Vígsla bryggjunnar fór að öllu vel fram. Síðar um daginn var boð inni hjá bæjarfógeta. Var þar bæjarstjórn, hafnarnefnd, yfirmenn e.s. Brúarfoss og margt af bæjarbúum. Hafnarbryggja Siglufjarðar er traust og myndarlegt mannvirki. Er með henni bætt úr brýnni þörf bæjarins og er varla hægt að giska á, hve stórmikla þýðingu bygging hennar kann að hafa fyrir atvinnulíf og þroska hans.

Bryggjan er bygð syðst austan á eyraroddanum og er í rauninni landauki. Mætti frekar nefna hana hafnarbakka en bryggju. Umgerð hennar eru stálstuðlar, reknir mörg fet niður í grundvöll og haganlega saman falsaðir, svo að kallast má vatnsþjett, og síðan bundnir með gildum járnböndum í öfluga staura langt inni í bryggjunni. Innaní umgerð þessa er svo fylt leðju og sandi, og ofan á það sett þykt grjótlag, en efst malarlag og í ráði mun vera, að setja þar ofaná lag af grjótmulningi.

Flatarmál bryggjunnar er rúml. 3500 fermetrar. Norðurhliðin er 70 metra löng, austurhlið 80 metrar og suðurhlið 45 metrar. Er gert ráð fyrir, að 2 skip stór, geti fermt þar og affermt í einu og eitt eða fleiri smærri skip þó legið þar líka jafnframt. Bryggjan mun kosta um 300 þús. krónur, og hefir Dansk Sandsuger A.S. bygt hana, en stjórnað hefur verkinu Sigurður Jónsson verkfræðingur. Eftirlit með verkinu fyrir bæjarins hönd hafði Magnús Konráðsson verkfræðingur.

--------------------------------------------------------------

Siglfirðingur, Laugardaginn 17. nóv. 1928

Leiðrjetting.

Misritast hafði í síðasta blaði nafn á fjelaginu sem bygði hafnarbryggju Siglufjarðar; það heitir: Dansk Sandpumpe Kompagni.

Dýpi við hafnarbryggjuna er 6 metrar um stærstu fjöru.

-----------------------

Hrakningur á sjó.

Á sunnudagsnótt síðastl. rjeru allmargir bátar hjeðan til fiskjar. Var hægviðri og frost um nóttina, en strax í birtingu tók að hvessa á austan og jafnframt gekk upp brim á norðaustan. Margir bátanna fóru því skemra en venjulega og fæstir lögðu alla línuna, því þegar fram á morguninn kom, óx veðrið, og varð það því harðara sem á daginn leið og um kvöldið var komið ofsarok með foráttu brimi. Bátarnir voru að smá týnast hingað inn, en þó vantaði fjóra þeirra að áliðnu kvöldinu.

Voru það þeir Hjeðinn og Oddur sem báðir eiga hjer heima, Njörður trá Akureyri og Hegrinn frá Hrísey. Hjeðinn kom hingað inn nokkru fyrir háttatíma. Hafði Hegrinn verið hjá honum og með bilaða vjel, en fylgt honum eftir á seglum upp undir Almenninga. Þar hafði Hjeðinn tekið hann aftaní, en Hegrinn slitnað frá honum í veðurofsanum. Vildi þá formaður Hjeðins, Barði Barðason yngri, annað tveggja taka mennina og sleppa bátnum, eða þá fara með hann undan veðrinu til Haganesvíkur, en það taldi form. Hegrans ekki ráðlegt, því Hegrinn hefði ónýt legufæri.

Yfirgaf þá Hjeðinn hann og hafði sig inn hingað. Fjekk Barði svo strax gufuskipið Alden sem lá hjer inni, til þess að leita bátsins. Leitaði Alden langt fram á nótt en fann hann hvergi, og varð heldur ekki var við Njörð.

M.b. Oddur kom hingað inn kl. 2 um nóttina. Á mánudagsmorgun vantaði því tvo bátana Hegrann og Njörð. Gekk sú frjett um morguninn, að báðir lægju á Haganesvík, en þetta reyndist rangt, þar lá aðeins Njörður. Hafði hann komist þangað með bilaða vjel um kvöldið, en annars heilu og höldnu, en um Hegrann vissu menn það síðast, að hann var undir seglum vestur af Almenningum þegar Hjeðinn skyldi við hann kl. 6 á sunnudagskvöldið.

Var nú símað til stöðvanna austan Skagafjarðar og spurt um hann, og voru menn hjer mjög uggandi um afdrif bátsins, ekki síst vegna þess, að skipverjar voru allir ókunnugir á Skagafirði. Var svipast eftir bátnum með sjó fram, þar sem helst þóttu líkur til, ef hann hefði rekið á land.

Kl. 4 á mánudaginn kom sú fregn frá Hofsós, að bátur þaðan sem var á sjó, hefði sjeð vjelbát undir seglum í vesturál Skagafjarðar og hefði hann haft stefnu á Sauðárkrók. Þetta reyndisit rjett, og kl. 4 kom Hegrinn heilu og höldnu til Sauðárkróks, en með allmikið bilaða vjel. E.s. Björgúlfur fór á mánud. til Haganesvíkur og sótti Njörð, og strax um hæl til Sauðárkróks og kom þaðan á þriðjudagskvöld með Hegrann í eftirdragi.

Þetta tilfelli sýnir, að það væri full þörf á því, að sjerstök skoðun færi fram á bátum þeim sem stunda hjer haustróðra. Þeir bátar þurfa að vera traustir og hafa allan útbúnað í lagi, því ekki er altaf víst að þeir geti bundið sig við bryggjurnar á Siglufirði, en líf sjómanna vorra er altof dýrmæt eign þjóðinni til þess, að mönnum sje liðið að tefla því í hættu með trassaskap eða glópsku.

-----------------

Skipstjórinn af „Varild" sem strandaði á Siglunesi í haust, var tekinn fyrir sjórjett í Haugasundi þegar hann kom heim. Var hann þar sektaður um 250 kr.fyrir óvarkárni í leiðarreikningi, en að öðru leyti sýknaður. Skuldinni um strandið var skelt á hafnarvita Siglufjarðar (Selvíkurvitann), — að hann væri óglögur og lýsti skamt. Sjálfsagt er þetta rjett, að vitinn er of lítill, en í þessu tilfelli virtist vorkunarlaust, að rata rjetta leið inn Siglufjörð, jafnvel vitalaust, því bjart veður var, svo sá til fjalla.

-----------------------------------------------------------

Siglfirðingur, Laugardaginn 24. nóv. 1928

Lítið brot af grein um Hafnarbryggjunnar, annað má lesa með því að smella á hér ofar.

Siglufjarðarhöfn ..................Bryggjan er fyrst og fremst ofl lág. Hún hefði þurft að vera að minsta kosti hálfum meter hærri. Eins og : hún er nú, er sjáanlegt að sjór muni ganga á hana þegar að fylgist sjógangur og hásævi. En úr þessu er hægt að bæta og verður sjálfsagt bætt síðar, þótt það muni kosta talsvert fje.................

-----------------------------------------------------------------------

Siglfirðingur, Laugardaginn 1. des. 1928

Sjúkrahús Siglufjarðar verður vígt í dag. Gengst bæjarstjórn fyrir því. Fer sú athöfn fram við sjúkrahúsið, og hefst kl. 2 e. h. Verða þar ræðuhöld og sungið kvæði eftir Hannes Jónasson, orkt fyrir tækifærið.

-------------------- -----------------------------------------

Siglfirðingur 8. des. 1928

Sjúkrahús Siglufjarðar.

Það var vígt eins og tilstóð 1. des. að viðstöddum miklum fjölda bæjarbúa. Vígslan hófst kl. 2 með guðsþjónustu, Flutti sóknarpresturinn sra. Bjarni Þorsteinsson fagra og efnisríka ræðu og lagði út af orðum Krists, „Komið til mín allir þjer, sem erfiði og þunga eruð hlaðnir, jeg skal veita yður hvíld". Fyrir og eftir voru sungnir sálmarnir nr. 375 — 217 og 367 í sálmabókinni,

Að guðsþjónustunni lokinni flutti bæjarfógeti erindi. Rakti hann byggingarsögu sjúkrahússins og gerði grein fyrir hvernig fje hefði fengist til byggingarinnar. Einnig þakkaði hann fyrir hönd bæjarins, öllum þeim, sem stutt höfðu að því, að koma spítalanum upp og lýsti húsið afhent bæjarfjelaginu til afnota og umsjónar. Þá voru sungin vígsluljóð sem Hannes Jónasson hafði orkt. Læknir og starfsfólk sjúkrahússins sýndu gestunum, þeim sem vildu, húsið og áhöld þess, sem öll eru af nýjustu og fullkomnustu gerð.

Sjúkrahús Siglufjarðar er einlyft steinsteipuhús, með háum kjallara. Stærð þess er 18,9 x 10,4 metrar. — Aðalinngangurinn er á norðurhlið og er þar lítil útúrbygging, opin upp í gegnum báðar hæðir, og þaðan trappa bæði niður í kjallara og upp í stofuhæðina. I kjallarahæð hússins er eldhús, íbúð starfsfólksins, geymsla, miðstöð til hitunar og ljóslækningastofa.

Á stofuhæð eru 5 sjúkrastofur, skurðstofa, baðherbergi, og íbúð hjúkrunarkvenna. Sjúkrastofurnar rúma samtals 16 sjúklinga, en hægt er í knýjandi nauðsyn að taka á móti 20 sjúkl. á sjúkrahúsið. Húsið er bygt eftir uppdrætti og forsögn Guðjóns Samúelssonar húsam. Er það alt úr járnbentri steinsteypu og hvergi trje í byggingunni utan hurðir og gluggar, og svo þak.

Er húsið alt innan hið ásjálegasta og virðist þar vera vel frá öllu gengið, en að utan er það húsinu til stórra lýta, að það er grafið í jörð upp að kjallaragluggum. Verður því húsið lágkórulegt og sviplaust á að sjá og mjög hætt við, að kjallarahæðin grafist undir snjó í fannavetrum. Úr þessu ætti þó að vera hægt að bæta að nokkru hvað útlit byggingarinnar snertir, með því, að byggja aðra hæð ofaná það; enda má óhætt gera ráð fyrir því að þess þurfi bráðlega ef dæma má eftir þeirri aðsókn sem að sjúkrahúsinu hefir verið þann tíma sem það er búið að starfa. —

Vill Siglf. leyfa sjer að benda á það, þeim mönnum sem síðar koma til að fara með þessi mál, að jafnvel sjúkrahús mega vera til prýði jafnframt og til gagns, en þetta virðist húsameistarinn ekki hafa athugað, því eins og húsið er nú, er að því bæjarbót en engin bæjarprýði og hefði þó Siglufjarðarbæ ekki veitt af því, ekki er ofmargt af byggíngum sem prýða bæinn. Sjúkrahúsið stendur á fögrum og hagkvæmum stað, í dálítilli lægð sunnan undir hólnum sem prestsetrið Hvanneyri stendur á.

Er þar bæði skjólsamt og fögur útsýn yfir fjörðinn og bæinn. En auk þess er húsið þarna utan við ys og skarkala bæjarins. Sjúkrahúsið sjálft er fullgert. Mun það kosta kringum 125 þús. krónur og er þar af í skuld um 20 þús. Eftir er að laga og bæta lóðina kringum húsið, og að byggja þvottahús og líkhús og mun það láta sanni næst, að með þeim tilkostnaði muni sjúkrahúsið kosta um 145 þús. krónur. Hefir þetta fje fengist á þrennan hátt. Fyrst og fremst með framlögum bæjarsjóðs árlega í ein 10 eða 12 ár, þar til safnast hafði sú fúlga, að bærinn taldi sjer óhætt að ráðast í það stórvirki að byggja sjúkrahúsið. Í öðrulagi með framlagi ríkissjóðs og síðast en ekki síst með fjársöfnun kvenna kaupstaðarins.

Safnaði „Frúafjelagið", sem það oftast var nefnt, um 11 þús. krónum til áhaldakaupa og má það óefað þakka dugnaði og áhuga þessara kvenna, að Siglufjarðar spítali á nú áhöld, svo vönduð og fullkomin sem nokkur annar spítali "á landinu, Einnig kvennfjelagið „Von" safnaði fyrir og gaf spítalanum búnað til hússins fyrir um 2 þús. krónur. Standa bæjarbúar hjer í stórri þakkarskuld við kvennfólkið. Sjúkrahúsið tók til starfa í júlí mán. í sumar. Má kalla að þar hafi altaf verið húsfyllir síðan og sýnir það best hve brýn þörf var hjer fyrir sjúkrahús.

Læknir sjúkrahússins er Steingrímur Einarsson, sem áður var búinn að geta sjer hinn besta orðstýr við Akureyrar spítala. Mun sá orðstýr frekar hafa vaxið en þverrað hjer, enda lofa sjúklingar einróma bæði lækningu og hjúkrun á spítalanum. Það má kallast vel að verið fyrir Siglufjarðarbæ, að hafa á einu og sama ári lyft tveimur jafnþungum tökum og þeim, að byggja hafnarbryggju fyrir um 300 þús. kr. og sjúkrahús fyrir um 140 þús. —

Þó er það ekki núverandi bæjarstjórn, sem á heiðurinn af þessum framkvæmdum nema að nokkrum hluta, því að þessum málum hefur verið unnið kappsamlega af þeim sem með mál bæjarins hafa farið um mörg undangengin ár. En framgang þessara mála má fyrst og fremst þakka því, að þessi mál tvö hafa alla tíð staðið utan við allar flokkadeilur og að um þau hafa allir bæjaíbúar fylkt sjer meðeinum huga.

-------------------------

Tannsmíði, vandað og ódýrt, hjá lækninum í Ólafsfirði.

---------------------------------------------------------------------

Siglfirðingur 22. des. 1928

Skipstjórafjelag Siglufjarðar gerði á síðasta fundi sínum herra O. Tynes að heiðursfjelaga fyrir lífstíð.

Fljótamenn margir hata verið hjer á ferð þessa viku að sækja nauðsynjar til jólanna. Fengu þeir v.s. Snorra til að flytja fullfermi fólks og farangurs inneftir.

Kolalaust var orðið i bænum um síðustu helgi. Tók þá bæjarstjórn rögg á sig og fjekk kol með póstbátnum. Annan farm fær hún næstu daga með v.s. Snorra. Einnig hefir hún þegar gert ráðstafanir til þess að fá kol frá útlöndum.

Tvo seli væna, fjekk Guðmundur Konráðsson núna á dögunum í fiskiróðri.

Æðarfulgaskyttirí er nú haft hjer um hönd svo opinberlega, að ekki má telja vansalaust fyrir bæinn. Það er ekkert óalgengt hjer í vetur, að sjá menn skjóta ýmist af bryggjum eða af bátum hjer inn á höfninni á vesalings fuglinn um hádaginn fyrir augum allra bæjarbúa og fuglinn flögra særðan burtu.

Hey, 40 hestar, var boðið upp á Hóli á þriðjudaginn. Hafði mjólkurbúsnefnd keypt það á Sauðárkrók sem töðu, tekið á móti því hjer, sem töðu og flutt það fram að Hóli sem töðu. En kýrnar á Hóli dæmdu það úthey. Vitrar kýr þær.

Hjónabaud. Nýlega voru gift hjer Ólöf Oddsdóttir frá Siglunesi og Tryggvi Guðlaugsson frá Ystahóli. Í Reyklavík giftust nýlega ungfrú Gunnhildur Árnadóttir frá Grenivík og Ólafur A. Guðmundsson útgerðarmaður sem hjer hefir rekið útgerð og síldarsöltun undanfarið.

Kærðir fyrir brot á áfengislögunum hafa allir þeir verið sem þátt tóku í veislunni sem Einkasöluforstjórarnir hjeldu Ameln hinum sænska 1, des. á Akureyri. Hefir ekki gengið á öðru en rjettarhöldum á Akureyri undanfarna daga.

Blaðið mun víkja nánar að þessu síðar.

Stolið var á þriðjudagsmorguninn um sjö leytið, þvotti af snúrum í 4 eða 5 stöðum hjer í bænum. Þetta var um það leyti sem póstbáturinn var á förum hjeðan. Rjettarhöld munu hafa verið í gær út af þessu en blaðinu er ókunnugt um árangur þeirra.

Sóknarpresturinn hefir verið veikur undanfarið, en er nú í afturbata og vonast til að geta messað um hátíðarnar.

------------------------------------------------------------------------

Siglfirðingur 31. desember 1928

Kærumálin út af vínveitingunum í Enkasöluveislunni hafa verið ransökuð á Akureyri, en rjettarprófin verða send stjórnarráðiuu án þess að dómur falli í hjeraði. Virðist hjer vera beitt nýrri aðferð í dómsmálum, og er leitt getum að því að sumir hinna ákærðu þykist eiga þá hönk upp í bakið á stjórninni að hún taki hóglega á smásyndum þeirra. Reynir nú á hvort meira má sín fylgi Jónasar við bindindismálið eða vináttan við samherjana.

----------------------

Áfengisbruggun komst upp um útlending sem dvelur hjer í bænum í vetur, núna á Þorláksmessunótt. Varð næturvörðurinn var við ljósagang og umgang í kjallara norska sjómannahælisins, en hann hafði maður þessi leigðan." Var gerð húsrannsókn um morguninn og" fundust. brensluáhöldin, slatti af bruggunarefni sem eftir var að brenna og 12 fl. af brendu áfengi. Maður þessi, sem er sænskur múrari, meðgekk strax. Hann bíður nú dóms.