Glefsur úr blaðinu FRAMTÍÐIN

Blaðið Framtíðin 1923

FRAMTÍÐIN kemur út tvisvar á mánuði, í mánuðunum okt.—júní, og fjórum sinnum á mánuði í mánuðunum  júlí—sep. Að minsta kosti koma út 30. tölublöð á ári. Árgangurinn kostar 3 krónur. Afgreiðslumaður blaðsins er kaupm. Andrés Hafliðason og sé auglýsingum skilað til hans eða á prentsmiðjuna. Blaðið kemur út sunnudagsmorgna. Ritstjóri og útgefandi og ábyrgðamaður er Hinrik Thorarensen.            

  Framtíðin 1923 + Framtíðin 1926 -1927

Framtíðin - 11. mars 1923 

1. árgangur 1923, 1. Tölublað,

Ávarp.

Með þessu blaði hefur nýtt blað göngu sína hér í Siglufirði. Það er venja flestra blaða að byrja með ávarpi til lesenda, sem oftast nær er ekkert annað en heillöng þula yfir það sem blaðið lofar að gera. Loforðin eru góð en efndirnar betri. »Framtíðin« ætlar ekki að lofa miklu en reyna að efna því meira. Aðallega mun blaðið ræða um áhugamál Siglufjarðar og hvetja þar til framfara og framkvæmda. 

Einnig mun það ræða þau mál er snerta þjóðarheildina, og leggja það eitt til þeirra, er það telur heillavænlegast og þjóðinni fyrir bestu. Það skal tekið skýrt fram, að »Framtíðin« er ekki neitt flokksblað heldur algjörlega sjálfstæð og óháð. Fréttir útlendar sem innlendar mun blaðið flytja eftir megni. Um leið og eg hérmeð hleypi »Framtíðinni« af stokkunum vonast eg til að henni verði vel tekið, og að margir verði til þess að greiða götu hennar og styrkja hana.

---------------------------

Út í Grímsey fóru þeir Flóvent Jóhannsson og Guðm. Skarphéðinsson kennari. Flóvent fór sem erindreki bæjarins til þess að fá Grímseyinga til að senda áskorun til Alþingis um að loftskeytastöðin yrði reist hér á Siglufirði. Flóvent leysti starf sitt vel af hendi og kom með hið umbeðna skjal í vasanum — og fékk 50 kr. — fimmtíu krónur — fyrir. Rausnarlega var nú borgað. —

Borgarafundur var haldinn hér á miðvikudaginn var, aðallega til þess að fá tillögu samþykta sem mótmæli sameiningu Siglufjarðar við Eyjafjarðarsýslu. — En eftir þeim undantektum sem frumvarpið heftir fengið í þinginu, er lítil hætta á að það verði að lögum.

Hér út á Grandanum er stór haugur af gamallri skemdri síld. Er hann lítt til þrifa, og væri best að koma honum burtu sem fyrst.

Jarðarför Marsibil Baldvinsdóttur er lést úi berklaveiki á Akureyrarspítala, fór fram á fimtudaginn var.

Nýlega er látinn Þórður Þórðarsón bóndi og vitavörður á Siglunesi. Hann dó úr krabbameini. Þórður heitinn var hinn mesti sæmdarmaður.

---------------------------------------------------------------------------

Framtíðin - 18. mars 1923 

1. árgangur 1923, 2. Tölublað

Eftirmæli.

Hann »Fram« litli fæddist 1916. Hvaða mánuð og hvaða mánaðardag man eg ekki. Það er auðvitað hægt að slá því upp í kirkjubókinni, en eg nenni ekki að hafa fyrir því. Hann »Fram« átti marga feður, Og allir voru þeir skynsamir menn og gerfilegir, enda var strákhnokkinn svo stór og myndarlegur við fæðingu, að allir pabbarnir rifust um að taka hann til fósturs. En svo fóru leikar að þeir Friðbjörn og Hannes urðu hlutskarpastir, var þeim falið á hendur að ala »Fram« litla upp og gjöra hann að manni. 

Ekki leið á löngu áður en strákur fór að óþekkast, og þó ungur væri fór hann að hreyta úr sér skömmum til margra góðra manna. Þetta líkaði pöbbunum illa, og heimtuðu þeir að uppeldið yrði fullkomnara og að strák væru kendir einhverjir mannasiðir. Friðbjörn og Hannes lofuðu bót og betrun, en alt kom fyrir ekki, þeir margreyndu að siða »Fram« en samt fór hann hríðversnandi. 

Nú kölluðu pabbarnir saman fund til að ræða hvað gera skyldi, og kom þeim saman um að best væri að Sophus tæki við strák, Sophus er uppeldisfræðingur mikill og hefur jafnan átt sæti í skólanefnd. Honum tókst brátt að siða strákinn, og eftir árið var hann bara orðinn blíður og kurteis. En sá galli var á að Sophusi leiddist strákurinn svo mikið að hann átti bágt með að þola hann. Fyrir fortölur pabbanna hafði hann strák í eitt ár til, en þá var ekki við það komandi að hann hefði hann lengur. 

Enn komu pabbarnir saman á fund. Vildi nú læknirinn fá strák heim til sín, en það vildu hinir pabbarnir ekki, þeir sögðu að enn væri hann óþægur og læknirinn hefði engan tíma til að siða hann. Þá kom Olsen með þá uppástungu, að best væri að senda mann inn í Fljót og vita hvort enginn væri þar er myndi vilja taka strák. Það þótti hinum pöbbunum þjóðráð. Var nú fenginn sendisveinn og útbúinn með nesti og nýja skó. Gekk hann frá bæ til bæjar, en alstaðar var sama svarið að enginn vildi taka »Fram.« Loksins kom hann að koti einu, og bauðst bóndinn, sem Jón hét, að taka strák til fósturs. 

En nú vildi »Fram« ómögulega frá Siglufirði fara, og varð Jón því að bregða búi og flytja hingað úteftir. Tók hann nú við strák, en hvað skeður? Strákur er ekki fyr búinn að hafa fóstraskifti en að hann verður bandvitlaus. Ræðst hann nú á alla menn saklausa sem seka, en út yfir tók þegar hann fór að ráðast á sjálfa pabbana. Þá urðu þeir reiðir sem von var og kölluðu saman fund í snatri og boðuðu Jón á fundinn. 

Létu þeir þá Jón finna það, að þeir hefðu ekki gefið »Fram« lífið til þess hann rifi þá í sig. En Jón lét sig hvergi og sagðist ala »Fram« upp eftir allra nýjustu uppeldisfræði, sem stórstúkan hefði gefið út. Tóku þeir nú »Fram« af Jóni og samþyktu loksins að læknirinn skyldi taka við honum. Til þess að siða »Fram« lét læknirinn hann setjast niður og lesa Alþingistíðindin, og aumingja »Fram«, sem var orðinn hræddur, las og las Alþingistíðindin þar til hann sprakk. Vesalings »Fram«! Þannig urðu hans æfilok. 

En þrátt fyrir allar skammirnar og ókurteisina var nú margt gott í »Fram« litla. Eg tek því undir með öðrum og segi: »Blessuð sé hans minning.«

----------------------------- 

Chr. Möller lögregluþjónn, söng gamanvísur laugardagskvöldið 10. þ. m. fyrir troðfullu húsi. Möller fer ágætlega með gamanvísur, en ekki var eins mikið »púður« í þeim í þetta skifti og áður hefur verið.

Ágætan afla hafa mótorbátar þeir er róið hafa, fengið hér fyrir-utan. Er það sjaldgæft fyrir Siglfirðinga að hafa nýjan fisk um þetta leyti árs.

Ufsaveiði hefur verið hér talsverð inni á pollinum. Hafa fengist um 10 tunnur í drætti.

---------------------------- 

Bæjarstjórnarfundur var haldinn þriðjudaginn 13. þ. m. í húsi Guðlaugs Sigurðssonar. Vatnsleiðslunefnd hafði samþykt tillögu um, að grafa upp vatnsleiðsluna frá þrónni og niður í bæinn og að skifta um rör, þannig að í stað 3ja tommu röranna sem eru, kæmu 6 tommu rör.

Flóvent benti á að þetta yrði að gerast fyr en síðar, og nú stæði svo á, að leggja þyrfti vatnsæðar meðfram Grundargötu o. fl. og mætti nota 3ja tommu rörin sem upp yrðu grafin í þær. Mismunurinn yrði því ekki annar en sá að panta þyrfti 6 tommu rör í stað 3ja. Tillaga nefndarinnar var samþykt.

Síra Bjarni gerði fyrirspurn um hvenær hann fengi vatnsæð frá bæjarþrónni heim að Hvanneyri, óskaði hann eftir að hún kæmi sem fyrst og að settur yrði brunahani nærri íbúðarhúsinu.

Raforkunefnd skýrði frá að vatnsmagnið í Selánni og Skarðdalsánni hefði verið mælt í jan. og febr. mánuði, og kom hún fram með tillögu um að halda þeim mælingum áfram og að mæla einnig vatnsmagnið í Leyningsánni, Tillagan var samþykt umræðulaust.

Hafnarnefnd kom með tillögu um að bygð yrði, ný síldarbryggja 60 álna löng og 10 álna breið á suðurenda eignarlóð bæjarins. Tillagan var samþykt.

Flóvent vildi einnig láta setja fram bryggju á nyðri enda lóðarinnar. Áður hefur nyðri endinn verið leigður bryggjulaus og hefur leigjandinn orðið að setja bryggjuna fram á vorin og taka hana upp á haustin.

Bæjarfógeti svaraði að hafnarnefnd myndi sennilega ekki vilja leggja þetta til, en leigt gæti hún efnið í bryggjuna. Næsta mál á dagskrá var að kjósa prófdómendur við unglingaskólann. Kosningu hlutu þeir síra Bjarni Þorsteinsson og Helgi Guðmundsson læknir.

H. Hafliðason kom með tillögu um að Flóvent yrðu greiddar 100 kr. fyrir Grímseyjarferðina Taldi hann það bænum ósamboðið að greiða aðeins 50 kr. fyrir jafn erfiða og hættulega för. Tillagan var samþykt með 4 samhljóða atkvæðum.

Samkomuhús. Bæjarfógeti fór nokkrum orðum um hve tilfinnanlega bæinn vantaði samkomuhús, Vildi hann að bærinn og hin ýmsu félög bæjarins bygðu samkomuhúsið í félagi. Nefnd var kosin til að athuga málið. Kosningu hlutu bæjarfógeti, Sigurður Kristjánsson og Hannes Jónasson.

---------------------------------------------------------------- 

Framtíðin - 25. mars 1923 

1. árgangur 1923, 3. Tölublað

Húsaleiga.

Jónas Jónasson frá Hriflu flytur frumvarp um takmörkun á húsaleigu í öllum kaupstöðum landsins. Samkvæmt frumvarpi þessu má húsaleiga ekki fara fram úr 12% af virðingarverði hússins og lóðarinnar miðað við síðasta fasteignamat.

Í hverjum kaupstað á að skipa þriggja manna húsaleigunefnd, er á að sjá um að farið sé eftir lögunum. Nefnd þessa á að launa úr bæjarsjóði.

Ættarnöfn.

Bjarni Jónsson frá Vogi kemur fram með frumvarp um að banna öllum íslendingum að bera ættarnafn. Þeir sem nú hafa ættarnafn og eru eldri en 10 ára mega bera það til dauðadags, en þeir sem yngri eru eiga að leggja það niður. Samkvæmt frumvarpi þessi má skíra barn aðeins einu nafni og því íslensku, sé út af því brugðið eru bæði foreldrar barnsins og presturinn dæmd til að greiða háar sektir alt að 2000 kr.

---------------------------------------------------------------- 

Framtíðin - 15. apríl 1923 

1. árgangur 1923, 5. Tölublað

Rafljósin.

Eg hef verið svo heppinn, að sjá gjaldaskrá fyrir notkun rafmagns í Siglufjarðarkaupstað, sem bæjarstjórnin samdi í fyrra vor. Þessi stórmerkilegu lög eru í 9 greinum, staðfest af stjórnarráðinu.

Fyrsta gr. er um verð á rafmagni til ljósa. Gjaldið er miðað við 16 kerta ljós, og er fyrsta ljósið dýrast, svo smá lækkandi að 5 ljósum. Hvert ljós fram yfir 5 ljós er t. d. einni krónu ódýrara heldur en fyrsta ljósið, og hvert ljós fram yfir 20 ljós er einni krónu og 50 aurum ódýrara heldur en fyrsta ljósið.

Gjald þetta er fyrir tímabilið frá 1, janúar til 14. maí, en 50% hærra frá 1. ágúst til 31. desember. Flestir rafljósanotendur í þessum bæ, eru efnalitlir verkamenn, með ómegð, hafa þröng og lítil húsakynni og nota auðvitað fá ljós. Bæjarstjórn Siglufj. blygðast sín ekki fyrir, að láta þessa stétt greiða hæðsta gjaldið. Hinir fáu, sem nota mikið ljós, hafa bæði efni og húsakynni til þess, verðlaunar bæjarstj. með ódýrari ljósum!! Hróplegt er þetta og annað eins hjá bæjarstjórn Siglufjarðar .

Hvernig greiddu fulltrúar verkamanna atkvæði í þessu máli?  Voru bæjarfulltrúarnir hræddir við það að ljósin seldust ekki nema með lækkandi gjaldi? Nei, óhugsandi að svo hafi verið, því rafljósastöðin framleiðir ekki helming þess rafmagns sem bæjarmenn þarfnast til ljósa

2. gr, »Rafmagn fyrir strokjárn kostar hlutfallslega sama og fyrir rafljós, þannig að greitt er jafnt fyrir hvert »vatt«, sem strokjárnið er merkt fyrir og fyrir hvert kerti í rafljósum samkv. gjaldaskránni. Raforkunefnd getur með samþykki bæjarstjórnar veitt undanþágu frá þessu, þegar vatn er meira en nauðsynlegt til ljósa«.

Þannig er 2. gr. orðrétt. — Í þessari grein gætir bæjarstjórnin sömu reglu og í 1. gr. nefnilega þess, að útiloka efnalitla menn frá því að nota strokjárn og verða njótandi þessa þæginda. Eg tek til dæmis, að notað sé strokjárn af minstu gerð, 320 vatt, það kostar 131 kr. og 25 aura, yfir sama tímabil og nefnt er í 1. gr. Hvaða verkamaður getur greitt þessa upphæð fyrir notkun á strokjárni? Auðsjáanlega nær þessi liður tilgangi sínum og þarfnast víst ekki frekari skýringar,

Svo er seinni liðurinn í 2. gr. mér alveg ráðgáta. Hvað er það sem rafveitunefnd getur með samþykk i bæjarstjórnar , veitt undanþágu frá, þegar vatn er meira en nauðsynlegt til ljósa ?

Má ekki allur almenningur fá að vita um í hverju þessar »undanþágur« eru fólgnar? Er hér einhver afsláttur, sem rafveitunefnd og bæjarstjórn, getur gefið þeim mönnum sem nægileg efni hafa til þess að nota rafstrokjárn ?

Rafljósastöðin framleiðir 26 kilovatt, með fullri spennu (230 volt). Bæjarreikningarnir sýna, að seldur rafstraumur til ljósa, er meir en 26 k.v. svo er einnig seldur rafstraumur í nokkur strokjárn, eða rafveitunefndin selur bæjarmönnum þann »straum« sem ekki er til. Vélarnar geta ekki framleitt nema í mesta lagi 26 kilovatt með 230 volts spennu, hvað mikið vatn sem er!

Með þessari sölu standa ljósin aldrei 230 volta spennu, þau eru altaf hálf dauf, allan ljóstímann.

Að gefnu tilefni: Er frekar hægt að selja þann rafstraum sem ekki ert til, tiI strokjárns, heldur  en til ljósa ?

(Framh.) Oj.

-------------------------------------------------------------------------

Framtíðin - 29. apríl 1923 

1. árgangur 1923, 6. Tölublað,

Rafljósin - Framhald.

Samkvæmt 3. grein; »Heimilt er mönnum á eigin kostnað, að setja upp hemij, ef það er gert af manni, sem rafveitunefndin telur til þess hæfan, og gjalda notendur þá aðeins fyrir þann straum, sem fer gegnum hemilinn. Þó má enginn hemill vera settur fyrir stærri straum en þann, sem straumnotandi hefir leyfi til að nota til ljósa.«

Frágangur 3. gr. er ekki allskostar fullnægjandi. Byrjunin er að vísu spor í rétta átt, til þess að koma á skipulagi, á sölu og notkun rafstraumsins, en þar sem hér er aðeins um h e i m i I d en ekki s k u I d b i n d i n g u, að ræða, tel eg 3. gr. lítils virði.

Eitt er þó unnið við 3. gr. reglugjörðarinnar, og það er, að bæjarstjórn og rafveitunefnd Siglufjarðarkaupstaðar viðurkennir (óbeinlínis) að rafstöðin sé eingöngu áætluð fyrir ljós, en ekki strokjárn! 

Í heild sinni kemur 3. gr. nokkuð í bága við aðrar greinar reglugjörðarinnar. 

T. d. 2. gr. viðurkennir, að rafstraumur til strokjárns sé jafn rétthár og rafstraumur til ljósa, (eða jafnvel rétthærri, samkv. undanþágunum) en síðasta málsgrein 3. gr. nemur algjörlega þennan rétt úr gildi, og um leið fæst einnig viðurkenning fyrir því að ekki sé hægt að selja straum til annars en ljósa. Eg get ekki séð að þeir rafljósnotendur,- er rafveitunefnd leyfir notkun á strokjárni (með undan þágu! samkv. 2. gr.) finni mikla hvöt hjá sér til, að notfæra sér þessa »heimild«, ef viðkomandi hefir ekki nægilegan ljósastraum til að hita strokjárn gegnum »Hemil«, þeim mun eflaust finnast það mun frjálsara að mega nota rafstrauminn óhemlað eins og nú er; og ekki er haft á móti því að þeir sem hafa mörg ljós, og þeir sem hafa fá ljós, án réttar til notkunar á strokjárni, setji upp hemil hjá sér, en hversvegna skyldar þá ekki bæjarstjórnin alla rafljósanotendur til þess að sitja upp hemil? 

Er það af greiðvikni við þá fáu sem rafveitunefndin leyfir notkun á strokjárni umfram ljósin? Eg get ekki séð aðra ástæðu hjá bæjarstjórn og rafveitunefnd fyrir því að hafa núverandi sölufyrirkomulag og eftirlitsleysi á notkun rafstraumsins, Ekki get eg látið það til eftirlits, þótt svo eigi að teljast, að bærinn hefir einkasölu á glóðarlömpum þeim er nota skal. Það gat falist ofurlítið eftirlit í þessu fyrstu árin sem rafstöðin starfaði því þá var talsverðum erfiðleikum bundið fyrir almenning að útvega sér lampana og önnur tæki til notkunar við rafstraum. 

Nú er þetta orðið svo breytt, að hver sem vill getur útvegað sér allskonar glóðarlampa og raftæki, svo að segja hvar sem vera skal utan Siglufjarðar. Þarna er því engu öðru að treysta en ráðvendni þeirra er strauminn nota og má kalla að það gangi oftrausti næst, enda sennilega einsdæmi, þegar um er að ræða fyrirtæki sem er almannmenningseign; er mér heldur ekki kunnugt um að nokkuð svipað fyrirlæki, nær eða fjær, sé þannig starfrækt. 

Bæjarmenn eiga það á hættu að ofhleðsla gelur orðið hvenær sem vera skal, með núverandi fyrirkomulagi og rafstöðin gjöreyðilagst á svipstundu. Hver bæri ábyrgðina ef rafstöðin eyðilegðist vegna ofhleðslu, bæjarstjórn og rafveitunefnd eða rafljósanotendur? Eg mun dæma ábyrgðina á hendur þeirra fyrnefndu, það er í þeirra valdi að útiloka algerlega þessa hættu, með því að skamta hverjum einstökum þann straum er hann hefir rétt á til ljósa gegnum hemil. Á sjálfri rafstöðinni ætti einnig að. setja upp »öryggi« eða »hemil«, sem útilokaði hærri hleðslu en 26 kv. Þessi hemill, á rafstöðinni, verður alveg ómissandi tæki, um.......................... 

Ath;sk.

Þessi grein spannar einnig næstu blaðsíðu og næstu blöð, en restinni er sleppt hér. Smellið á „Framtíðin - 29. apríl 1923“ hér ofar til að lesa restina ef vill.

------------------------------------------------------------------ 

Framtíðin - 20. maí 1923 

1. árgangur 1923, 8. Tölublað

Stofan út af leikfimishúsi barnaskólans mun fyrst hafa verið bygð  með það fyrir augum, að nota hana til fundarhalda fyrir bæinn. Til þeirra hluta hefir hún þó aldrei verið notuð. Mörgum hefir þótt leitt að vita til þess að stofan stæði þannig ár eftir ár ónotuð. Æði oft hefi eg átt tal um það við suma bæjarfulltrúana, að heppilegast væri að gera úr henni lestrarsal fyrir bæinn. Inn af stofunni er lítið herbergi, og benti eg á um leið að nota það fyrir bókhlöðu. 

Sé það haganlega innréttað er þar pláss fyrir 4-5000 bindi, og yrði það því til frambúðar, eftir því sem safninu hefir farið fram síðustu 6 árin. Stofuna á síðan að mála ljósa, gera vel úr garði og nota fyrir lestrarsal. — Á fjárhagsáætlun í haust var samþykt að veita 2000 krónur til aðgerðar á þessari stofu. Þessi fyrirhugaða aðgerð hélt eg að væri sú, að gera stofuna og herbergið innaf nothæft fyrir bókasafnið. Til þeirra hluta á líka að nota þessa peninga og einskis annars; því húsnæðislaust getur safnið ekki verið lengur. 

Á síðasta bæjarstjórnarfundi — í gærkvöld — komu tveir fulltrúarnir, — annar úr fjárhagsnefnd — með tillögu um að veita nægilegt fé (ca. 4-5000 kr.) í sumar úr bæjarsjóði til að lengja þessa stofu jafnt leikfimishúsinu. Bæjarfógetinn talaði djarflega á móti tillögunni og spurði tillögumenn að, hvar ætti að taka þetta fé, þar eð það væri hvergi til á fjárhagsáætlun og þá ekki í kassanum. Hinir börðu höfðinu við steininn og töluðu fyrir tillögunni, en endirinn varð sá að málinu var vísað til fjárhagsnefndar.

Tillögumenn lystu því yfir, að nauðsyn væri á að byggja þessa viðbót í sumar, af því nú væri bókasafnið húsnæðislaust og ekki annað sjáanlegt en bæjarstjórnin og hin ýmsu félög í bænum yrðu í vandræðum með fundarsal í vetur. Hugmynd þeirra er því, að stækka þetta herbergi og nota það síðan bæði fyrir bókasafn og fundarsal. Að þetta tvent sé samrækilegt — tel eg litlar líkur. — 

Safnið þarf að vera út af fyrir sig, og því verður hvergi betur komið eður ódýrara, en þar sem þegar hefir verið bent á. Að nauðsynlegt sé að byggja þessa viðbót vegna fundarsalsvandræða, að vetri, er algjörlega rangt, af því að sá er leigir hús Karls Sturlusonar hefir sagt mér að hann skyldi leigja hverjum sem vildi, salinn í því húsi til fundarhalda að vetri og það fyrir sanngjarna borgun. Og fá þá félögin og bæjarstjórnin þar ólíkt vistlegri sal en þann raka-rangala, sem hin byggingin yrði. Grunnflötur fyrirhugaðrar byggingar lítur þannig út; 4,25m : 15m. (mjór og langur)

Heldur snotur fundarsalur! Með þeirri stofubyggingu, sem nú er við leikfimishúsið eru teknir af því t v e i r  g I u g g a r og eigi að fara að byggja þennan »stofugang« norðan við verða a l l i r  g l u g g a r n i r byrgðir á þeirri hlið og húsið með því stór skemt. Því fyrir utan það sem dimmir í húsinu við það að gluggarnir eru ekki orðnir nema 5 í stað 10 þá verður altaf rökkur undir suðurveggnum og nær sá skuggi fram á mitt gólf, og er það af því hvað gluggarnir eru hátt á hliðinni. 

Það er komið nóg af smekklausum kumböldum kringum skólahúsin — sambr. stein- og járnvarða skúrinn austan við leikfimishúsið og skúrhringinn norðan við skólann — þó ekki sé farið að fjölga þeim. Eg treysti því meiri "hluta bæjarstjórnar til að kveða það gersamlega niður að kasta peningum á glæ til þessarar byggingar. Og það væri líka skrítin fjármálaspeki að telja það lífsnauðsyn og s p a r n a ð  að byggja fundarsal, sem kostar ca. 5000 krónur, en geta á sama tíma komist af með 100—150 kr. á ári fyrir húspláss til fundarhalda. 

Nei, Siglufjarðarkaupstaður þarf ekki að byggja þannig fundarhús og hér ræðir um. Það er nær að leggja þessar þ ú s u n d i r  í samkomuhúsbyggingarsjóð, fyrst bærinn er farinn að undirbúa það mál. En langi þessa tvo fulltrúa afar mikið til að bærinn byggi sér svolítinn fundarsal, og vilji hinir fulltrúarnir ómögulega neita þeim um það, þá á bærinn að byggja sérstakt hús til þeirra hluta, en ekki að fara að h á l f  e y ð i I e g g j a  önnur hús, sem hann á, með því káki.

Siglufirði 8. maí '23. G. S.

------------------------

Dómur uppkveðinn í Háhyrningamálinu.

Tildrög þessa máls, eru, sem kunnugt er þau, að 19. maí 1917 kom háhyrningavaður inn á Siglufjörð. Var safnað liði og hvalirnir reknir af miklum mannfjölda inn á höfn kaupstaðarins og inn að timburhólmanum (Anlæg) sem bygður er innst á höfninni, fram undan landi jarðarinnar Höfn. Voru 74 af hvölunum drepnir þar, ýmist lagðir eða skotnir, er þeir kendu grunns, eða hættu að geta neitt sunds. Voru hinir drepnu hvalir síðan fluttir út á Siglufjarðareyri og skornir þar. — 

Eftir að búið var að drepa hvalina og flytja þá á land, var skotið á fundi meðal þeirra manna sem unnið höfðu að hvaladrápinu en það var sennil. mikill meiri hluti vinnufærra manna í bænum. Var á þessum fundi kosin 9 manna nefnd til þess að ráðstafa afurðunum og koma þeim í verð. Nefnd þessi vann svo að þessu verki, uppskurði og sölu hvalanna. Innkallaði andvirðið og skilaði svo bæjarstjórn Siglufjarðar andvirðinu, sem var, að frádregnum öllum kostnaði, kr. 7622,52. 

Eigendur jarðarinnar Hafnar töldu flestalla hvalina vera drepna í Hafnarlandareign og kröfðust landshlutar af nefndinni, en sem hún neitaði að greiða. Hófu þeir því mál gegn nefndinni, og var lögmaður Böðvar Bjarkan sækjandi málsins en Vald. heit. Thorarensen verjandi fyrir nefndarinnar hönd, meðan hann lifði, en síðan Jón Sveinsson bæjarstjóri. Málið var rekið á Akureyri, með því það byrjaði áður en Siglufjörður fékk bæjarrétttindi og bæjarfógeta og hefir Steingrímur bæjarfógeti nú kveðið upp dóm í málinu svohljóðandi:

»Stefndu: Séra Bjarni Þorsteinsson, verslunarstjóri Jón Guðmundsson, kaupmaður Helgi Hafliðason, hreppstjóri Guðmundur Hafliðason, kaupmaður Sophus Blöndal, Flóvent Jóhannsson, fyrv. bóksali Jón Jóhannesson og veitingasali Þorsteinn Pétursson, allir til heimilis á Siglufirði, greiði stefnendunum þeim: læknir Helga Guðmundssyni, Rakel Pálsdóttir (nú dánarbúi hennar) og Páli Kr. Jóhannssyni, 2540 - tvö þúsund fimm hundruð og fjörutíu krónur 84 aura, ásamt 5% ársvöxtum af þeirri upphæð, frá 11. okt. 1917 að telja, þar til greitt er.

Svo greiði þeir og stefnendunum 300 — þrjú hundruð krónur í málskostnað. Dóminum að fullnægja innan 3ja sólarhringa frá löglegri birtingu hans að viðlagðri aðför að lögum.«

------------------------------------------------------------------------- 

Framtíðin - 3. júní 1923 

1. árgangur 1923, 9. Tölublað

Bæjarstjórnarfundur   var haldinn fimtudaginn 31. maí í barnaskólanum. Aðalmálið er fyrir fundinum lá var veiting hafnarvarðarstöðunnar. Á síðasta fundi bæjarstjórnarinnar — 9, maí — var borin fram tillaga frá hafnarnefndinni um að skipa hafnarvörð frá 1. júní.

Frú Guðrún Björnsdóttir talaði þá um, að staða þessi væri óþörf að mestu, og bar fram breytingartillögu um að fresta veitingu hafnarvarðarstöðunnar þar til bærinn væri búinn að eignast hafnarbryggju. Tillaga frúarinnar var feld með 5 atkv. gegn 2, og tillaga hafnarnefndarinnar samþykt. Staðan var nú auglýst laus til umsóknar, sóttu margir góðir borgarar uni hana, og átti svo að veita hana á þessum fundi. Fyrst las bæjarfógeti upp langt erindisbréf handa tilvonandi hafnarverði, er hafnarnefnd hafði samið. Þá hófust umræður, 'og tók séra Bjarni fyrstur til máls. Sagði hann, að hann áliti þessa stöðu alveg óþarfa. 

Eftir erindisbréfinu sem bæjarfógeti hefði lesið upp, ætti starf hafnarvarðarins að vera, að halda »register< yfir öll skip er hingað koma, að gá að því að skip er koma frá útlöndum hefðu ekki samband við land fyr en læknisskoðun hefði farið fram, að innheimta gjöld af skipum, og að hafa eftirlit með eignum hafnarsjóðs. Öll þessi störf heyrðu undir lögregluþjóninn, og væri því óþarfi að fara að ráða fastan mann með 2400 kr. launum úr bæjarsjóði til þess að fara að vinna hans störf. Bar hann síðan fram tillögu um að fresta að veita stöðuna þar til hafnarbryggjan væri bygð. —

Frú Guðrún sagði, að sér þætti undarlegt að nú skuli koma fram samskonar tillagar og sú, sem hún hefði borið fram á síðasta fundi, og þá verið feld. Áleit frúin bæjarstjórnina tæplega geta, sóma síns vegna, farið að samþykkja það á þessum fundi, er hún felti á síðasta fundi, og lýsti því yfir að hún þessvegna myndi ekki greiða atkvæði með tillögunni.

Helgi Hafliðason tók í sama strenginn, og séra Bjarni, sagði að þessi hafnarvörður væri aðeins til þess að létta fyrir bæjarfógeta með innheimtun á skipagjöldum.

Bæjarfógeti mótmælti því að svo væri, sagði að hafnarvörður ætti aðeins að ná gjöldum hjá þeim skipum er kæmu og færu á þeim tíma sólarhringsins er skrifstofan væri lokuð.

Friðb. Níelsson taldi mikla þörf á að fá hafnarvörð. Reynslan hefði sýnt, að mikið af skipagjöldunum tapaðist ef ekki væri gengið vel fram í því að ná þeim inn. Áleit hann það vera að spara eyrinn og fleygja krónunni, að sjá eftir þessum peningum til hafnarvarðarins, því svo miklu minna myndi nást inn af gjöldum skipa, ef staðan yrði ekki veitt. Og auk þess væru eignir hafnarsjóðs svo miklar, að ekkert veitti af sérstökum manni til að gæta þeirra.

Jón Guðmundsson sagði, að sér þætti það undarlegt, að skipagjöld töpuðust þó ekki væri sérstakur maður til að innheimta þau. Skipstjóri væri skyldugur til að sýna skjöl sín á bæjarfógetaskrifstofunni, og gerði hann það ekki, væri ekki annað en að klaga hann, yrði hann þá dæmdur í svo háa sekt, að hann léki sér ekki að því aftur.

Eftir langar og fjörugar umræður var tillaga prestsins borin upp og samþykt með 4 atkvæðum gegn 3. Með tillögunni voru: Séra Bjarni, Helgi, Jón og Hannes, á móti voru: Bæjarfógeti, Sigurður og Friðbjörn. Frú Guðrún og Flóvent greiddu ekki atkvæði"

Sigurður og Friðbjörn gengu af fundi, er þeir sáu hvað verða vildi. Vægast talað er þessi meðferð bæjarstjórnarinnar á málinu ófyrirgefanleg. Þar sem meiri hluti bæjarstjórnarinnar var nú sammála um, að staðan væri með öllu óþörf, því gat hann þá ekki á fundinum 9. maí samþykt tillögu frúarinnar um að fresta veitingunni? Og hvernig gat bæjarstjórnin sóma síns vegna farið að samþykkja á fundinum 31. maí sömu tillöguna og hún feldi með miklum meiri hluta á fundinum 9. maí?—

Hér er verið að gabba borgara bæjarins með því að auglýsa opinberlega að þessi staða sé laus til umsóknar, og svo á síðustu stundu að kippa að sér hendinni og segja: nei, það var bara snuð, góðu hálsar! Bæjarstjórnin getur tæplega búist við að halda virðingu sinni óskertri ef húm afgreiðir mörg mál á þennan hátt. —

-----------------------------------------------------------------

Framtíðin - 16. júní 1923 

1. árgangur 1923, 10. Tölublað

Bæjarstjórnarkosning á 2 fulltrúum í stað þeirra Friðb. Níelssonar og Sig. Kristjánssonar fór fram miðvikudaginn 13. júní. Tveir listar komu fram: A-listi með fulltrúaefnunum Sophus Blöndal kaupmanni, til ársloka 1926, og H. Thorarensen lækni, til ársloka 1924 og B-listi með fulltrúaefnunum Friðb. Níelssyni kaupm. til ársloka 192ó, og Sig. Kristjánssyni kaupm. til ársloka 1924.

A-listinn sigraði með talsverðum atkvæðamun. Kosningu hlutu því Sophus Blöndal kaupm. með 100 atkvæðum, og Hinrik Thorarensen læknir með 101 atkvæði.

Friðb. Níelsson fjekk 47 atkvæði, og Sig. Kristjánsson fjekk 45.

A-listinn hafði 16 ógild atkvæði, B-lisinn 4.

-------------------------------

Sjúkrasamlag Siglufjarðar var stofnað 1915, meðlimir þess eru um 50. Kjör þau sem samlagið býður eru svo góð, að óskiljanlegt er, að meðlimirnir skuli ekki vera fleiri. Vafalaust veit fjöldi Siglfirðinga ekki hve mikil rjettindi þeir fá með því að ganga í sjúkrasamlagið, og skal því skýrt frá því hjer:

1) Ókeypis læknishjálp handa þeim sjálfum og börnum þeirra, sem eru hjá þeim, og innan 15 ára (einnig stjúpbörnum og meðgjafarlausum fósturbörnum).

2) Ókeypis ¾ hluta allra þeirra lyfja er læknir telur nauðsynleg, handa þeim sjálfum og börnum þeirra, sem hjá þeim eru og innan 15 ára.

3) Ókeypis sáraumbúðir.

4) Ókeypis sjúkrahúsvist í sjúkrahúsum Eyjafjarðarsýslu, geðveikrahælinu á Kleppi og heilsuhælinu á Vífilstöðum, ef læknir telur þess þörf, handa þeim sjálfum og börnum þeirra, sem heima eru, og innan 15 ára, þó aldrei lengur en 26 vikur á 3 samfleyttum reiknings- árum.

Nú vill samlagsmaður fremur fara í eitthvert annað sjúkrahús og greiðir þá samlagið fyrir nauðsynlega dvöl hans þar, það sem jafnlöng dvöl hefði kostað, í því sjúkrahúsi, sem samlagsmönnum er ætlað.

5) Dagpeningar handa þeim sjálfum, þannig: að

þeir er greiða 1.75 á mán. fá kr. 2.00 á dag

— —— —      1.35 » — —      »  1-50 » —

— — — —     1.00 » — —      »  1.00 » —  

— — — —     0.75 » — —      »  0.50 » —

Öll þessi rjettindi, er hjer eru talin, fær hver og einn er gengur í samlagið. Gjaldið, er greiða þarf fyrir þessi rjettindi, er afarlágt, því ef veruleg veikindi bera að höndum, hrökkva 12-24 krónur skamt fyrir meðul og læknishjálp. Áreiðanlegt er, að margir sem ekki eru í samlaginu, hafa ætlað sjer að vera gegnir í það fyrir löngu, en þegar allir hafa verið heilbrigðir á heimilinu, hefur það dregist og dregist og gleymst. 

Svo koma veikindin og minna á það, en þá er það orðið of seint, því hver sá er í samlagið gengur, verður að fá læknisvottorð um, að hann og fjölskylda hans sje heilbrigð. — Vafalaust er þetta atriði, að láta framkvæma læknisskoðunina, það, sem hindrar marga í að ganga í samlagið.

Til þess, að það ekki verði þröskuldur í vegi, býðst eg hjer með til að ransaka alla þá, er í samlagið vilja ganga endurgjaldslaust til 1. júlí Siglfirðingar! Gangið í sjúkrasamlagið, dragið það ekki þar til veikindin eru komin, því þá er það of seint. H.Thorarensen læknir.

-------------------------------------

Bæjarstjórnarfundur var haldinn í barnaskólanum 2. júní.

Eins og getið var um í síðasta blaði, gengu þeir Sig. Kristjánsson og Friðb. Níelsson af fundi, er bæjarstjórnin samþykti að fresta veitingu á. hafnarvarðarstöðunni. Daginn eftir sendu þessir tveir fulltrúar lausnarbeiðni til bæjarstjórnarinnar, og var hún annað aðalmálið er fyrir fundinum lá. Eftir að búið var að lesa upp lausnarbeiðnina, tók séra Bjarni fyrstur til máls. 

Áleit hann rjett af bæjarstjórninni að samþykkja lausnarbeiðnina, og ástæðulaust að vera að þvinga menn til að setja ,í bæjarstjórninni. Frú Guðrún bar fram tillögu um, að frestað væri að taka ákvörðun um lausnarbeiðnina, og að bæjarstjórnin fæli oddvita sínum, að tala við fulltrúana, og fá þá til að taka sæti sitt aftur. — 

Helgi Hafliðason og Jón Guðmundsson sögðu, að þessi lausnarbeiðni fulltrúanna væri svo ókurteisislega orðuð, að þeir gætu ekki greitt atkvæði með því, að fara að senda nefnd til þeirra og biðja þá um að koma. Tillaga frúarinnar var feld og lausnarbeiðnin samþykt með 4 atkvæðum (séra Bjarni, bæjarfógeti, Helgi, Jón) gegn 3 (Frú Guðrún, Flóvent, Hannes).

Kjörtímabil Friðb. Níelssonar var til ársloka 1926 og Sig. Kristjánssonar til ársloka 1924. Bæjarfógeti tilkynti að bráðlega myndu fara fram nýjar kosningar á 2 fulltrúum í stað þeirra er fengið hefðu lausn. Þá skýrði bæjarfógeti frá, að dómur væri fallinn í háhyrningamálinu, og vildi fá álit bæjarstjórnarinnar um hvort áfrýja ætti málinu eða ekki. Helgi Hafliðason sagði, að nefndin er fyrir málinu stæði, hefði ekki fjallað um það enn, og það væri hún sem ætti að ráða því hvað gert yrði í málinu, en ekki bæjarstjórnin.

Séra Bjarni hjelt því fram, að það væri bæjarstjórnin er ætti að taka ákvörðun um hvort áfrýja ætti eða ekki, því bærinn en ekki nefndin hefði allan hag eða skaða af málinu. Eftir nokkrar umræður var samþykt tillaga frá bæjarfógeta um, að skora á nefndina að áfrýja málinu, og að bærinn bæri allan kostnað, er af því leiddi,

----------------------------------------------------------------

Framtíðin - 30. júní 1923 

1. árgangur 1923, 12. Tölublað

Bæjarstjórnarfundur var haldinn í barnaskólanum á mánudaginn var. Fyrsta mál á dagskrá, var upplestur fundargerða nefnda. Talsverðar umræður urðu um fundargerð rafveitunefndar. Nefndin hafði samþykt, að láta mæla Selá í vetur og fela Gunnlaugi Þorfinnssyni verkið. Átti nú að hafa aðra aðferð við mælingarnar en áður, og sem talin er ábyggilegri. Flóvent hóf fyrstur umræður, sagði hann, að ekki væri eyðandi fje í þetta, því full vissa væri fengin fyrir því, að vatnsmagnið í Selá og læknum samanlagt væri svo lítið, að ekki kæmi til mála að fara að virkja þær.

H. Thorarensen talaði um, að mælt hefði verið í að minsta kosti 3 ár áður, og gerði fyrirspurn um hvaða árangur hefði hlotist af þessum mælingum, og hvernig á því stæði að ekki væri enn fengin full vissa um aflið eftir allan þennan tíma. Spurði hann ennfremur um, hvenær háttvirt bæjarstjórn hjeldi að búið yrði að fullmæla þessar lækjarsprænur, og hve mörg árin í viðbót bæjarbúar ættu að sitja í myrkrinu og hugga sjálfa sig með því, »að altaf væri verið að mæla. « Þá kom hann með fyrirspurn um, hvort hr. Rögnvaldur Snorrason útgerðarmaður á Akureyri hefði boðist til að framleiða rafurmagn með motor og selja bæjarbúum. Vildi hann, að þessi leið yrði einnig ransökuð.

Bæjarfógeti svaraði, og sagði að allar mælingarnar í þessi 3 ár hefðu mislánast, og því þyrfti að mæla enn í vetur. Taldi hann og sjera Bjarni það vera sök Jóns Þorlákssonar verkfræðings, því hann hefði sagt að mæla ætti niðri í dalsbotni, en nú heimtar hann mælingarnar uppi í fjallshlíðinni. —

Fundargerð nefndarinnar var síðan samþykt. —

Þá kom Jón Guðmundsson fram með tillögu um, að fela rafleiðslunefndinni að leita hófanna hjá Rögnv. Snorrasyni hvort hann myndi vilja framleiða hjer rafurmagn með motor og selja bæjarbúum til ljósa. Taldi hann þetta ljósleysisástand gjörsamlega óviðunandi, og að sjálfsagt væri áð bæta úr því sem fyrst, og hefði átt að vera búið fyrir löngu. Bæjarfógeti sagðist vera á móti tillögunni, vildi láta athuga málið betur áður en þessi ákvörðun yrði tekin.

Helgi Hafliðason talaði um, að ekki væri síður ástæða til að athuga þessa leið, yrði tilboðið óaðgengilegt gæti bæjarstjórnin altaf neitað að ganga að því. Hjer væri því ekki verið að gera neina endanlega ákvörðun, heldur aðeins verið að leita fyrir sjer. Tillagan var síðan borin upp og samþykt með 5 atkvæðum (jón Guðmundsson, sjera Bjarni, H. Hafliðason, Blöndal, Thorarensen) gegn 4 (Bæjarfógeti, frú Guðrún, Hannes og Flóvent).

Þá var kosið í nefndir í stað fulltrúanna Friðb. Níelssonar og Sig. Kristjánssonar. Kosningu hlutu: Í Kjörstjórn Jón Guðmundss. með 7 atkvæðum. í fjárhagsnefnd H. Thorarensen með 8 atkv. og S. A. Blöndal með 7 atkvæðum. í brunamálanefnd S. A. Blöndal með 9 atkv. í ellistyrksnefnd H. Hafliðason með 5 atkv. í rafleiðslunefnd H. Thorarensen með 7 atkv. í bókasafnsnefnd H. Thorarensen með 5 atkv, í hafnarnefnd S. A. Blöndal með 5 atkv.

-------------------------------------------------------------

Framtíðin - 8. september 1923 

1. árgangur 1923, 22. Tölublað

Mótörbátur ferst hjer á firðinum. 4 menn drukna.

Síðasta mánudag vildi það sorglega slys til, að mótorbátur fórst hjer á firðinum og druknuðu allir er á bátnum voru. Báturinn lagði af stað frá Gránubryggju í blíðalogni með snyrpinótabát aftan í sjer, til að sækja möl í hann. En áður en komið var yfir fjörðinn, skall á alt í einu afskapa sunnanstormur, sneru bátverjar þá þegar heim á leið aftur, en þá vill til sú ógæfa, að vjelin bilar, og hrekjast bátarnir út fjörðinn. 

Norskt skip Pr. Wilson, sá bátinn á reki, og snjeri þegar að honum til að reyna að bjarga. Skipverjum tókst að koma kaðli um borð í mótorbátinn, og var hann bundinn um mastursstubbinn. Þegar skipið svo ætlaði að fara að slefa bátnum, lagðist hann flatur fyrir vindinum, og var að því kominn að kantra, til þess að hindra það, sleptu skipverjar kaðlinum, en þá skall á afskapleg roka, og báturinn kantraði og sökk. 

Pr. Wilson lá í heilan klukkutíma á staðnum sem slysið vildi til, en skipverjar sáu ekkert til manna meir. Þrír af þessum 4 mönnum er druknuðu voru hjeðan af Siglufirði og hjetu þeir: Júlíus Jóhannsson, Þorleifur Jónsson og Zophanías Guðmundsson. Sá fjórði hjet Guðbrandur Árelíus Guðbrandsson og var ættaður úr Reykjavík. Júlíus var kvæntur, skilur eftir sig konu og eitt barn, hinir voru ókvæntir.

Ath. sk 2018: Verið var að sækja möl vegna byggingar á húsinu við Aðalgötu 30, það er Nýja Bíó, sem verið var að byggja á þessum tíma. Húsið var vigt til kvikmyndaýninga föstudaginn 18. júlí árið 1924

------------------------------------------------------------------------

Framtíðin - 15. september 1923 

1. árgangur 1923, 23. Tölublað

PANTIÐ ALLA YÐAR PRENTUN hjá undirritaðri prentsmiðju! Reikninga, Brjefhausa, Umslög, Skuldamiða, Kvittanir, Nótubækur, Vinnubækur, Síldarbækur, Samninga allskonar og ótal önnur eyðubl.

Sanngjarnt verð ! Auk ofantaldrar prentunar leysir prentsmiðjan af hendi aðra prentun, svo sem: Bækur, Blöð, Auglýsingar, Verðlista o.fl. o. fl. fyrir mjög tágt verð! Frágangur hinn besti! Fyrirliggjandi pappír, svo sem: Bíkúba, Própatría, Consept hvítt og gult, Auglýsingapappír misl., Skrifpappír og Umslög.

Siglfirðingar! — Sækið ekki prentun til annara staða, þar sem prentsmiðja er hjer á staðnum, — og sem mun leitast við að gjöra þá, er skifta við hana, ánægða með viðskiftin!

V i r ð i n g a r f y i s t

Siglufj.prentsmiðja Grundargöt u 2 Talsími 42.

---------------------------

Framtíðin - 22. september 1923 

1. árgangur 1923, 24. Tölublað

Ný rafmagnsstöð.

Mjer hefur borist til eyrna að komið hafi til orða að reist yrði mótorstöð á Siglufirði til framleiðslu raforku í viðbót við Hvanneyrarárstöðina, og vildi jeg af því mjer er þetta mál vel kunnugt, fara nokkrum orðum um þetta í sambandi við fyrirhugaða útbyggingu nýrrar vatnsaflsstöðvar við Selá. 

Þegar um slíkt mál er að ræða sem framleiðslu raforku til bæja, þar sem búið er í haginn fyrir bæjarfjelagið fyrir marga tugi ára fram í tímann, ber skyldu til þess að athuga vandlega alla málavexti áður en til framkvæmda kemur. Hver sá maður er ákvarðanir á að taka um slík mál, verður þegar í stað að leggja fyrir sig tvær mjög einfaldar en engu að síður algjörlega ákvarðandi spurningar, nefnil.

1. Hver er sú virkjun sem fjárhagslega gefur bæjarfjelaginu þann varanlega besta árangur?

2. Er sú virkjun framkvæmanleg þannig að bæjarfjelagið geti risið undir, þeim kostnaði sem óhjákvæmilegur er fyrstu árin?

Hin fyrri þessara spurninga felur auðvitað einnig í sjer þá hlið málsins, hver virkjun sje sú, sem með nútímans verklegri þekkingu tryggi hagkvæmasta rekstur og sem minsta fyrning á vjelum.

Þegar litið er á hver sje sú virkjun sem gefi bestar vonir um varanlegan hagnað fyrir bæjarfjelag Siglufjarðar, þá virðist mjer, með þeim kunnugleik sem jeg hefi til málanna, að ekki geti leikið neinn vafi á því að vatnsaflsstöð við Selá sje sjálfsagða lausnin á því máli. 

Það er því miður ekki tækifæri hjer til að fara svo nákvæmlega út í það mál sem þörf og nauðsyn ber til, og verð jeg því að láta mjer nægja að setja hjer fram nokkrar af þeim þýðingarmestu ástæðum sem styðja þá skoðun mína.

Við vatnsaflsstöð á Siglufirði er sjerstaklega að athuga:

1. Aflgjafinn (vatnsaflið) kostar ekkert,

2. Fyrning á vjelum er hverfandi ef pössunin er góð.

3. Eftir þeim mælingum sem hingað til hafa verið gerðar, má fyllilega gera ráð fyrir að úr Selá megi fá 100 hesta orku þegar hún er með minsta móti á vetrum, en á sumrum og haustum tvisvar sinnum meira.

4. Á Siglufirði hagar alveg sjerstaklega til hvað snertir afnot aflsins. í öðrum kaupstöðum landsins verður að ganga út frá minni afnotum orkunnar á sumrum en á vetrum. Hjá Siglfirðingum hagar svo til að framtíð bæjarfjelagsins er að mjög verulegu leyti undir því komin að næg orka sé á boðstólum á sumrin , og það er einmitt sá tími sem nægilegt vatnsmagn er í Selá.

Við mótorstöð á Siglufirði kemur sjerstaklega til athugunar:

1. Aflvakann (olíuna) verður að kaupa árlega dýru verði frá útlöndum. Þar af leiðir að rafstraumurinn yrði að vera svo dýr, að aðeins gæti komið til greina að nota hann til ljósa, — sem þó yrðu dýr, — og alls ekki til neins annars. Selárstöðin mundi aftur á móti geta framleitt talsvert afl til suðu fyrir utan nægilegt afl til ljósa.

2. Eftir fenginni reynslu verður að gera ráð fyrir að olíumótor með svo mikilli notkun sem hjer er um að ræða, sje að mestu leyti ónýtur eftir 7—8 ára brúkun.

3. Vegna straumverðsins og takmörkun aflsins gæti ekki komið til mála að nota afl frá mótorstöðinni til iðju nema í mjög smáum stíl.

Jeg vil hjer nota tækifærið til að benda á enn einn kostnaðarlið sem mótorstöð hefur í för með sjer, og það er rafgeymir. Rafgeymir er nauðsynlegur í sambandi við mótorstöð, til þess að mótorinn ekki þurfi að vera í gangi þegar notkunin er lítil, og við það sparast talsvert af olíu. En hann er dýr og fyrnist tiltölulega fljótt.

Í reksturskosnaði er venjulega gert ráð fyrir að árleg fyrning rafgeymara sje 10-15%.

Hvað nú snertir þá spurning hvor af þessum báðum virkjunum sje framkvæmanlegri fyrir bæjarfjelagið þegar litið er á þann kostnað sem er óhjákvæmilegur fyrstu árin, þá vil jeg láta þess getið að jeg hefi athugað þetta mál nokkuð nákvæmar, og er það álit mitt, að árlegur reksturskosnaður *) við 100 hestafla stöð við Selá mundi ekki fara fram úr árlegum reksturkosnaði við mótorstöð sem aðeins nægði til ljósa.

Vegna erfiðleika við að fá peningalán er viðbúið að ekki yrði hægt t. d. á komandi vori að byggja stærri stöð við Selá en 100 hestöfl, samsvarandi minsta venjulegu vatnsrensli á vetrum; en hæglega mætti þegar í fyrstu gera ráð fyrir annari vjelasamstæðu jafnstórri bæði hvað snertir stærð vjelahússins, gildleika vatnspípunnar í fjallshlíðinni og gildleika koparþráðanna niður í kaupstaðinn.

Þegar svo væri búið um í fyrstu, mætti með tiltölulega mjög litlum kostnaði stækka stöðina upp í 200 hestöfl, og selja straum til iðnaðar á sumrin. Af ofangreindum ástæðum finst mjer alls ekki rjett að ráðast út í byggingu mótorstöðvar með frekar vaxandi en minkandi árlegum reksturskostnaði, áður en ransakað er til hlýtar hvort Selárstöðin ekki fullnægi betur þeim skilyrðum bæði fjárhagslegum og öðrum Siglfirðingum eru haganlegust.

Bæjarstjóin Siglufjarðar hefur ákveðið og gert ráðstafanir til að mæla vatnsmagn Selár á komandi vetri nákvæmar en áður hefur verið gert, og virðist einnig þess vegna rjettara að bíða með byggingu mótorstöðvarinnar þangað til útkoma þeirra mælinga liggur fyrir. Að lokum vil jeg hvetja Siglfirðinga til að leggjast á eitt og reyna að koma sjer upp hæfilegri vatnsaflsstöð, því með öðru móti  fá þeir aldrei nógu ódýrt rafmagn

*) Í árlegum reksturskostnaði felst:rentur og afborgun, laun stöðvarstjóra, olíueiðslan, fyrining o. s. frv.

Akureyri 2. Sept. 1923 Ásgeir Bjarnason.

-----------------------------------------------------------------

Framtíðin - 17. nóvember 1923 

1. árgangur 1923, 28. Tölublað

Lokun Álalæks.

Á bæjarstjórnarfundi, er haldinn var í byrjun októbersmánaðar, tilkynti form. heilbrigðisnefndar, að nefndinni hefði borist beiðni frá Matthíasi Hallgrímssyni um að mega leiða ræsi frá vatnssalerni út í lækinn, og veitti nefndin þetta leyfi. Heilbrigðisnefndin er hæstirjettur í öllum heilbrigðismálum, og gat bæjarstjórnin því ekki breytt þessum gerðum nefndarinnar þótt hún hefði kosið það. Hjer var því ekki nema um tvent að ræða, annaðhvort að loka læknum eða láta hann vera sem opið sorp- og salernisræsi fyrir öll hús fyrir ofan lækinn, við Lækjargötu, við Grundargötu, við efri hluta Eyrargötu og við efri hluta Aðalgötu.

Þegar búið er að leyfa einum borgara að mega nota lækinn til slíkra hluta, þá er ekki hægt að neita öðrum um það, — Að hafa lækinn sem opið sorp- og saurræsi, er ekki að eins ljótt og særandi fyrir augað, sjerstaklega þegar svo vill til, að lækurinn rennur gegnum þveran bæinn, heldur stafar af því svo mikil sýkingarhætta, að segja mætti, að háttvirt heilbrigðisnefnd og bæjarstjórn væru búin að setja þarna upp ræktunarstöð fyrir bakteríur. Taugaveikisbakterian myndi sjerstaklega þrífast vel og dafnast í þessari ræktunarstöð, jafnt vetur sem sumar, þar sem hún þolir frost og klaka, og berst nær eingöngu frá sjúklingnum með þvagi og saur.

Og eins og kunnugt er, er hjer taugaveikis- Bazillentrӓger« *) og má því altaf búast við að veikin gjósi upp, — þess vegna er það beinlínis s k y I d a bæjarstjórnarinnar, að gera alt sem í hennar valdi stendur, til að minka sýkingarhættuna, og til að hefta útbreiðslu veikinnar, ef hún skyldi koma upp í bænum. Þetta hvortveggja gerir bæjarstjórnin með því að loka læknum, þar sem þrifnaðarástand bæjarins batnar stórum við það. Heilbrigðisskýrslur alstaðar frá sýna, að óþrifnaður í bæjarfjelögum og sýkingarhætta af taugaveiki haldast í hendur. 

Á þeim stöðum þar sem þrifnaður er á lágu stigi, eins og t. d. í sumum ríkjunum í Suður-Ameríku, er taugaveikin tíður gestur, aftur á móti þar sem þrifnaður er góður, kemur taugaveiki tiltölulega sjaldan fyrir. Það, hvort taugaveiki kemur oft eða sjaldan fyrir, nota heilbrigðisfræðingarnir sem mælikvaðra fyrir þrifnaðar- og mentunarstig landanna. Bæjarstjórnin hafði í sjálfu sjer ekkert um að velja. Þessi sampykt heilbrigðisnefndarinnar var sama og skipun frá nefndinni um að loka læknum. 

Og óneitanlega hefði verið rjettara, að nefndin sjálf hefði samtímis komið með tillöguna um lokunina. En þar sem engengin slík tillaga vár í fundargerðinni, kom H. Thorarensen læknir með tillögu um að læknum skyldi lokað, og var hún samþykt með öllum atkvæðum, — Á fjárhagsáætlun eru veittar 10 þúsund krónur til þessa þarfaverks, og verður sú upphæð vafalaust nægileg. —

*) Heilbrigð manneskja, er gengur með lifandi bakteríur í sjer, er sýkja aðra.

------------------------------------------------------------------- 

Framtíðin - 1. desember 1923 

1. árgangur 1923, 29. Tölublað

Fjárhagsáætlun Siglufjarðar 1924.

3. Sorp- og salernishreinsun. Þriðji liðurinn til að auka hreinlæti í bænum er, að ráða mann til að taka að sjer sorp- og salernishreinsun. Þetta mál hefur bæjarstjórnin haft til meðferðar áður, en það aldrei fundið náð fyrir augum fulltrúanna fyr en nú, að fjárhagsnefndin tók það á arma sína og áætlaði 1500 kr. í laun til þess manns, er við starfinu tæki, og auk þess 500 kr, til áhaldakaupa. 

Tillögur nefndarinnar voru samþyktar óbreyttar. — Eins og tekið var fram í brjefi til bæjarstjórnarinnar, er læknar bæjarins sendu er mál þetta var þar til umræðu í fyrsta sinni, voru kamarsfötur tæmdar á götubörmum hjer og hvar. Ástandið hefur ekki batnað síðan. 

Á sumrin er venjan, að hella úr fötunum í sefinu beggja megin við Eyrargötu fyrir neðan Vetrarbraut, grasið hylur hrúgurnar fyrir augum okkar, og með því halda þeir, er þetta gera, að nóg sje fengið, þótt mannaumferð sje þar lítil eða engin á sumrin, þá eru kýr þarna oft á beit, og á veturna er fjöldi af krökkum að leika sjer þar á svelli. — Það stafar því síst minni hætta af þessu en af Álalæknum, og því sjálfsagt að ráða bót á því þegar í stað, og ófyrirgefanlegt, að ekki skuli vera búið að því fyrir löngu. 

Þetta verk á að framkvæmast án nokkurs sjerstaks endurgjalds frá borgurunum, en hvetja og jafnvel skylda verður alla húsráðendur til að hafa járnkassa undir ösku við hús sín. Þessir þrír liðir miða allir að því, að gera bæinn þrifalegan og þar með að því, að tryggja líf og heilsu borgaranna. Og þótt útgjöldin við þá sjeu um 40 þús. krónur, þá er ekki sjáandi eftir þeim peningum. Mannslífið er dýrmætt, og verður naumast til peninga metið. —

-----------------------------------------------------------------

Framtíðin - 15. desember 1923 

1. árgangur 1923, 30. Tölublað

Hjermeð tilkynnist að jeg hefi breytt um nafn á eignarjörð minni, Skarðdalskoti, og heitir hún frá þessum degi: Fossstaðir.

Siglufirirði 12. des. 1923 Sveinn Sveinsson

--------------------------- 

30. Tölublaðið af „Framtíðin“ var það síðasta á árinu 1923. Og ekkert eintak fannst hjá www.timarit.is árið 1924, en svo kom árið 1926 áframhaldandi útgáfa, 4. árgangur þann 1. maí.  – Hvort eintökin „1924-1925“ hafi glatast, eða verið gert hlé á útgáfunni veit ég ekki. sk.