Glefsur úr Siglfirðingi 1933

Siglfirðingur 7. janúar 1933

I

Frá bæjarstjórn. Nokkrir „lokaðir" fundir hafa verið haldnir í bæjarstjórninni og verður hér sagt frá nokkrum samþykktum sem þar hafa farið fram.

Jólaglaðning bæjarstj. til fátækra.

Erindi frá A. S. V. barst bæjarstj. rétt fyrir jólin, þar sem „verklýðsfundur" skoraði á bæjarstjórn að veita hverri atvinnulausri verkamannafjölskyldu 100 kr. í atvinnuleysisstyrk í peningum fyrir jólin.

Hermann Einarsson kom með br.till. við þetta erindi þess efnis að í stað 100 kr. handa hverri fjölskyldu, kæmi 25 kr. á hvern meðlim hverrar fjölskyldu. Þ. Eyólfsson vildi láta veita 4000 kr. i þessu skyni og gaf með þessari till. sinni erindi Kommúnista byr undir báða vængi. Gunnl. Sigurðsson gat þess, að ef tillaga Herm. Ein. yrði samþ. þá mundi það nema um 25000 kr. útgjöld fyrir bæjarsjóð, því gera mætti ráð fyrir að um 1000 manns (börn og gamalmenni þar með talin, samanb. till. H. E.) væru nú atvinnulausir. eins og ætíð væri á þessum tíma.

Flutti hann síðan og Vilhj. Hjartarson till. þess efnis að bæjarstjórnin veitti einhvern styrk þeim fátæklingum sem verst væru staddir fjárhagslega og skyldi þessi styrkur ekki kallast fátækrastyrkur. Gat hann þess í ræðu sinni að hann ætlaðist ekki til þess að aðrir fengu styrk en þeir, sem fátækranefnd, eftir fengna rannsókn, teldi vera svo fjárhagslega stadda að þeir þyrftu styrktar. Gat hann þess einnig að hann gæti ekki fylgt tillögu Þ. Eyólfssonar þar sem hún væri bundin við ákveðna upphæð og hana nokkuð hærri en hann gæti hugsað sér að þyrfti að koma til útbýtingar.

Jón Gíslason og O. Vilhjálmsson (sem sat þennan fund í stað O. Hertervigs) fluttu breytingartill. við till. G. S. og V. H., þess efnis að í stað styrks — kæmi lán. Bentu þeir á að með þessu væri bæjarstjórn að ganga út á rnjög hála braut. Nær væri að gefa fátæku fólki kost á peningahjálp fyrir jólin, sem það svo gæti greitt þegar betur áraði. Endalok þessa máls urðu svo þau, að tillaga Gunnlaugs og Vilhjálms var samþ. og útbýtti svo fátækranefnd) Andrés, fógeti og Fanndal) og fjárhagsnefnd (fógeti, Hertervig, Jörgensen, Þormóður, Vilhjálmur) rúmum 4000 kr. á milli ýmsra manna í bænum. Nokkuð háværar raddir hafa heyrst útaf útbýtingu þessara peninga. 

Finnst mörgum sem fullvinnandi menn á bezta aldri, þótt þeir hafi fyrir konu og barni að sjá, ættu ekki að þurfa styrk frá því opinbera. Sömuleiðis menn sem hafa haft á 4 þúsund kr. tekjur s.l. ár, og svona mætti lengi telja. Finnst mönnum sem þær 2 nefndir, sem um útbýtinguna fjölluðu, hafi farist það óhönduglega. — En erfitt mun að gera svo öllum líki.

Annað mál, sem nokkra undrun hefir vakið, kom nýlega fyrir bæjarstj.fund. Var það erindi frá skólanetnd þess efnis að bærinn legði fram 1000 kr. til leikfimisflokks sem sendur yrði til Rvíkur næsta vor, á leikfimissýníngu sem í ráði er að halda þar. Allir bæjarfulltrúarnir, sem til máls tóku er þetta mál lá fyrir bæjarstj., töluðu á móti þessu erindi,- að undanskyldum fjárhagsnefndarmanninum Þ. Eyólfssyni. O. J. Hertervig, sem er sá einasti af bæjarfulltrúunum sem hefir verulega þekkingu og áhuga fyrir íþróttamálum, og sem er það mest að þakka að við eigum nú íþróttavöll, þótt ófullkominn sé, — gat þess að hann teldi það mjög vanhugsað að senda leikfimisflokk héðan til Rvíkur. 

Leikfimi væri hér á mjög lágu stigi og mundi það bezt koma í ljós er flokkur héðan kæmi til höfuðborgarinnar, þar sem líkamsmenningin væri lengst á veg komin. Gat hann þess, að nær væri að verja meiru fé til þess að hafa skilyrði til sumar og vetraríþrótta. Bæjarfógetinn gat þess að ekki næði neinni átt að mæla með þessu þar sem ekkert væri veitt á fjárhagsáætlun fyrir þessu. Sagði hann jafnframt, að ef þetta yrði samþ. yrði að taka þetta fé úr hafnarsjóði, því ekkert fé væri fyrir hendi í bæiarsjóði. Endaði svo þessi deila þannig að Þormóður stóð einn uppi, og var tillaga sem hann flutti í þessu máli felld. Það er athugavert í þessu sambandi, að maður sem situr í fjárhagsnefnd, og ætti að vera það ljóst að bærinn er á heljarþröminni, að hann skuli nú 2 fundi í röð. flytja tillögur um stórar útborganir úr bæjarsjóði, sem enginn fjárveiting er fyrir á fjárhagsáætlun bæjarsjóðs.

II

Á bæjarstjórnarfundi sem haldinn var s.l. fimmtudag, var kosið í allar fastar nefndir innan bæjarstj. Nokkrar tilraunir voru gerðar fyrir fundinn til þess að útiloka kommúnista við nefndarkosningarnar. Munu menn geta skilið hvaðan sú alda hefir verið runnin. Þetta atriði, að útilokn bæjarfulltrúa frá þátttöku í nefndarstörfum, byrjaði þá er Guðm. Skarphéðinsson var fyrst kosinn í bæjarstjórn, og var aftur vakin upp þá er átti að útiloka núverandi fulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá þátttöku í nefndarstörfum eftir síðustu bæjarstjórnarkosningar. Og nú átti að gera 3ju tilraunina í þessari útilokunarpólitík — en hún mistókst, því fulltrúar Sjálfstæðisfl. neituðu að beita þeirri lúalegu aðferð, sem felst í því, að bola löglega kosnum bæjarfulltrúum frá réttmætri þátttöku í nefndarstörfum. En hvað lá nú til grundvallar fyrir því að 5—6 menn innan bæjarstj. þurftu að gera bandalag til þess að hnekkja valdi 3 manna (kommúnistanna)

Við þann er þetta ritar voru borin fram þessi rök:

1. Það á að útiloka kommúnista frá þátttöku í nefndum vegna þess að þeir fara svo illa með fé bæjarins, og taka ekkert tillit til fjárhags bæjarins.

2. Form. veganefndar, sem er Kommúnisti, lætur t.d. Hermann Einarsson sitja fyrir nær því allri þeirri keyrzlu sem til fellst vegna vegamála, og að. vegamálin (þ. e. útgj. til vegamála) færu alltaf fram úr áætlun.

3. Að ekki næði neinni átt að hafa 2 kommúnista í hafnarnefnd.

Þessu er því til að svara:

1. lið. Þótt kommúnistar fari ílla með fé bæjarins, ættu þeirra 3 atkvæði ekki geta miklu áorkað ef hinir 7 sýndu einlægan vilja í því gagnstæða, og meðan menn úr framsóknarflokknum, og þar að auki þeir sem eru í fjárhagsnefnd eru stöðugt að heimta fjárveitingar fyrir hinu og þessu sem ekki er á fjárhagsáætlun, ættu þeir ekki að undrast þótt eyðsluklær kommúnistanna yrði ekki þeirra eftirbátar.

2. Að form. veganefndar hafi látið H. E. hafa meiri keyrzlu en aðra mun vera rétt og væri mjög ámælisvert ef það væri gert í pólitísku greiðaskyni. En upplýst hefir verið að einmitt þessi maður, sem heldur verður útundan með ýmsa aðra keyrslu hafi verið sá eini sem fékkst til gatnakeyrslunnar á þeim tíma sem verið var að gera við göturnar. 

En segjum nú að þetta sé ekki nema hálfur sannleikur. En er þá ekki víðar pottur brotinn? Hvað segja menn um það að annar bróðir vatnsveitustjórans vinnur fyrir, næst s.l, ár, (1931) rúmum 2 þúsund krónum, en.hinn tæpum þúsund krónum í bæjarvinnunni. Það er langt frá því að þeir séu ekki vel að þessari vinnu komnir, en ef á að hneyxlast á vinnuútdeilingu veganefndarform., — því þá ekki líka hinna nefndarformannanna? Um það atriði að vegamál fari svo mikið fram úr áætlun, er rangt, þótt altaf sé skammarlega lítið áætlað til vegamála. Veganefnd hefir þess utan verið undir ströngu eftirliti, og hefir ekki mátt fara eyrir fram úr áætlun nema með sérstakri náð fjárhagsnefndar. En hversvegna mátti holræsanefnd fara rúmlega 100 prc. fram úr áætlun á árinu 1931?

Um 3. atriðið er það að segja, að ekki virðist þörf á að fá fleiri framsóknarmenn í hafnarnefndina, til þess að nota hafnargjöld þau sem skip greiða hér árlega, og ættu að notast til vitabygginga og hafnarbóta — til þess að byggja fyrir götur eða Litla-Klepp, Það hefir þótt rétt að skýra frá þessu svona rækilega, þar sem nú þegar er farið að nota þetta nefndarkosningamál, sem árásarefni á bæjarfulltrúa Sjálfstæðisfl. Eð endingu má geta þess, að hvaða flokkur sem orðið hefði fyrir því að vera útilokaður frá réttmætri þátttöku í bæjarmálum, hefði auðvitað notað, sem íkveykju í liðsmönnum sínum. En þess virðist nú ekki þörf með flokk þann, sem fyrir þessu átti að verða.

-------------------

Auglýsing:

TILKYNNING um sótthreinsanir eftir skarlatsótt. Í sambandi við auglýsingu landlæknis um sóttbann við skarlatsótt, stílaða til mín, og, sem út hefir verið borin um allan bæinn, fyrirskipa jeg hjermeð öllum húsbændum á skarlatsóttarsýktum heimilum að gefa sig fram við mig, svo að lögskipuð sótthreinsun fari fram á heimilum þeirra. Eins vil jeg áminna þá húsráðendur, sem skarlátsótt hefur komið upp hjá, og eigi hafa vitjað læknis, að koma til mín nú næstu daga eptir birtingu þessarar tilkynningar, á tímanum 2—3 e. h. og gefa mjer upplýsingar um skarlatsóttarfaraldurinn, annars mun verði krafizt lögregluvalds til þess, að þessu verði hlýtt. Þó nær þetta ekki til þeirra skarlatsóttarheimila, sem þegar er búið að sótthreinsa. En hinum, sem mundu trassa þetta boð mitt, verður þegar stefnt og þeir ákærðir til frekustu sekta, sem sóttvarnarlög fyrirskipa.

Hjeraðslæknirinn.

----------------------------------------------------------------------- 

Siglfirðingur 13. febrúar 1933

YFIRLÝSING.

Út af ummælum Guðm. Hannessonar bæjarfógeta um mig áborgarafundi 7. þ. m.

   Vil jeg geta þess að jeg lýsi hann opinberan vísvitandi lygara að þessu tvennu: 

I. Að jeg hafi verið drukkinn er hann átti tal - við mig í síma 21. sept. s.l., þar sem eg fyrirskipaði að spilla nitjum kúabúsins á Hóli, þangað til jeg næði nánara sambandi við heilbrigðisstjórn Ríkisins,

II. lýsi jeg hann lygara að því að hann hafi átt tal við landlæknir þennan sama dag eða næsta dag, útaf þessari mjólkurspilling.

Siglufirði 11. febr. 1933. Guðm. T. Hallgrímsson.

-------------------------------

„Vítisvélin" skopleikur, var leikinn hér um s.l. helgi. Leikurinn gerist á gamlárskvöld, hér á Siglufirði. og skýrir frá því, að Kommúnistar þykjast fá vitneskju um það, að áformað sé að sprengja gömlu kirkjuna í loft upp. Er leikurinn, sem víða er allhlægilegur, meinlaust skens til kommúnistaflokksins hér í bænum, en virðist illa hafa náð tilgangi sinum, vegna þess, hve lélega flestir leikendurnir fara með hlutverk sín. Þó ber þess að geta að hr. og frú Dýrfjörð, sem leika „skáldið" og forsetafrúna, leika af skilningi og fara ágætlega með sín hlutverk. Einnig mun frú Jóhanna Þórðardóttir, er syngur tvö gamankvæði í leikslok, hafa að venju vakið aðdáun allra með söng sínum.

Ungu hjónin, sjónleik eftir Björnsson, og Upp til selja er kvenfél. „Von" að æfa. Leiðbeinandi er Sig. Björgólfsson kennari. Um leikendur er Siglfirðingi ókunnugt. Við sýningu leiksins verða notuð í fyrsta sinn ný leik tjöld, mjög smekkleg, gjörð fyrir leiksvið kvenfélagshússins. Leiktjöldin eru máluð af Sig. Björgólfssyni.

----------------------------------------------------------------------------

Siglfirðingur 25. febrúar 1933

Manntal o. fl.

Manntal hér í kaupstaðarumdæminu var 2100 við ársbyrjun 1932 en 2180 við árslokin.

Fjölmennust er Suðurgata, 260, þá Lindargata, 246 þá Túngata 214.

Fámennust er Tjarnagata með 17 manns.

Á árinu fæddust 78 börn, þar af 4 andvana; 19 börn fæddust óskilgetin, og er það há tala.

Dáið hafa alls 39 manns, þar af 2 börn óskýið. Fermd vorn 45 ungmenni; gipt 15 brúðhjón, þar af tvenn borgaralega.

Yfir 50 börn voru hér óskírð í árslokin, og er sá ósiður að fara í vöxt, að draga skírn barna óhæfilega lengi.

— Í Héðinsfirði eru 29 manns; á Siglunesi 40; í Firðinum 29 og á Dölum 11; samtals 109.

Nú er hætt að reikna borgun fyrir aukaverk presta eptir verðlagsskrá, heldur er sett ákveðið krónu verð fyrir hvert verk, og gildir það fyrir land allt um 10 ára tímabil, fyrir fermingu með undirbúningi 18 krónur, fyrir giptingu 12 krónur, fyrir skírn 5 krónur, fyrir greptrun 8 krónur, en ræður ekki meðtaldar.

Um aldurstakmark til fermingar hefur verið rýmkað þannig, að ferma má hvert það barn, sem verður 14 ára fyrir lok þess árs, þegar ferma á.

B. Þorsteinsson.

----------------------------

Bæjarfréttir

Ungu hjónin, sjónleik eftir Björnsson, hefir kvenfélagið „Von" sýnt nokkrum sinnum nú undanfarið. Frá efni leiksins er skýrt all ítarlega í 6. tbl. Einherja og skal því ekki farið að endurtaka það hér. Að fara með leik þennan, svo vel sé á leiksviði, er hið mesta vandaverk, og má teljast furðu gegna, hve vel leikendunum hefir tekist að ná valdi á hlutverkum sínum, eftir jafn fáar æfingar og hafa verið haldnar á leik þessum hér. Amtmannshjónin leika þau Sig. Björgólfsson og frú hans. Bar leikur beggja, og þó einkum frúarinnar, sem leikur mjög vandasamt hlutverk, vott um fullkominn skilning á hlutverkunum. Og að dómi merks manns, sem er leiknum kunnugur, og hefir séð hann leikinn erlendis, var framkoma frú Svöfu, á leiksviðinu, hin prýðilegasta. 

Ungu hjónin, Axel og Láru. leika þau hr. Friðrik Guðjónsson og frk. Andrea Bjarnadóttir, er leikur þeirra yfirleitt ágætur. Matthildi leikur frú Jóhanna Þórðardóttir, og er leikur hennar á þessu hlutverki hinn bezti. Er það vel, að bæjarbúum gefst kostur á að horfa. á þennan ágæta leik, leikinn af þessum góðu leikkröftum, mun engan hafa iðrað þess að sækja þessar leiksýningar. Væri æskilegt að fólk ætti sem oftast kost á jafn uppbyggilegum skemmtunum og vel valdir og vel leiknir leikir eru. —

Þökk sé bæði kvennfélaginu „Von" og leikendunum fyrir sýningu leiksins.

Heyrst hefir að Kvennfélagið "Von" sé að láta æfa leikinn „Upp til selja", munu allir hlakka til að sjá þann leik, einkum þar sem notuð verða við sýningu leiksins, hins nýju leiktjöld er Sigurður Björgólfsson hefir málað, hefir sá, er þessar línur skrifar séð tjöldin og telur þau hin prýðilegustu.

Kvennfélagið „ Von" heldur öskudagsskemmtun 1. marz n. k.

Grímudansleik hefir kvennfélagið „Von" ákveðið að halda 17. marz n k. Er líklegt að ekki bresti þátttöku bæjarbúa, þar sem hér er um alveg ó- venju góða skemmtun að ræða.

Í vikublaðinu „Fram" birtist þessi vísa 2. okt. 1917:

„Bezt er að forðast félagsskap

finna sjálfur gróða.

Samvinna er sífellt tap

segir reynzla þjóða.

s. m."

Í vísunni felst mikill sannleikur og „aldrei er góð vísa of oft kveðin."

Tunnuverksmiðjan . . nýja er nú tekin til starfa. Unnið er með nýtísku vélum, enda eru tunnur þær, er verksmiðjan framleiðir fullkomlega fyrsta flokks vara.

Frá þessu merka fyrirtæki mun verða sagt nánar í næsta blaði.

-------------------------------------------------------------------- 

Siglfirðingur 4. mars 1933

Slysavarnardeildin biður að láta þess getið. að það sem stóð í „Einherja" síðast, um að fundur yrði haldinn n.k. sunnudag kl. 5 á Hótel „Dettifoss", stafaði af misskilningi, sá fundur verður ekki haldinn, en í þess stað verður haldinn stofnfundur kvennadeildar slysavarnarfélagsins í kvenfélagshúsinu sunnud. 5. mars n. k. kl. 4.

Ættu allar góðar konur, að styrkja þetta merka félag og hina göfugu starfsemi þess. Konurnar hafa löngum verið taldar betri partur mannkynsins, og er því þess að vænta að ekki muni þær verða eftirbátar karlmannanna með að vinna að göfugri starfsemi.

Eftirfarandi tillögur voru samþykktar á aðalfundi Slysavarnardeildarinnar:

1. „Aðalfundur Slysavarnardeildarinnar „Siglufjarðarsveit", haldinn 27. febr. 1933, samþykkir að fara þess á leit við útgerðarmenn, að þeir greiði af óskiftu, til Slysavarnarfélagsins, sem hér segir:

a. Bátar undir 5 smál. greiði kr...................................... 5,00.

b. Bátar frá1 5—10 smál. greiði kr.............................. 10.00.

c. Bátar yfir 10 smál. greiði kr..................................... 15,00.

d. Skip sem stunda síldveiðar með herpindt greiði kr. 25,00

2. Aðalfundur Slysavarnardeildarinnar „Siglufjarðarsveit", skorar á öll félög hér í bænum, að halda hvert um sig, eina skemtun, nú í vetur til ágóða fyrir Slysavarnarfélagið. .

3. Fundurinn samþykkir að skipa 7 manna nefnd til að undirbúa stofnun kvennadeildar."

-------------------------------------------------------------

Siglfirðingur 18. mars 1933

Samkvæmt ítrekaðri beiðni bæjarfógeta Guðm. Hannessonar, skal þess getið að bæjarfógeti hefir höfðað mál gegn héraðslækni Siglufjarðar vegna yfirlýsingar héraðslæknisins í 1. tbl. „Siglfirðings" þ. á. Vegna fjarveru ritstjórans láðist að geta þessa i síðasta tbl.

------------------------------------------------------------

Siglfirðingur 8. apríl 1933

Fyrirspurn

Það er haft fyrirsatt, hér í bænum, að einn morgun er börnin komu í skólann, hafi auglýsing verið fest upp á skólaganginum, þess efnis, að boða skólabörnin á  kommúnistafund, fyrir börn í gömlu kirkjunni, þennan og þennan dag og tíma. Eg vil því leyfa mér að spyrja:

1. Hver leyfir að nota barnaskólann til þess að boða börnin á pólitíska fundi?

2. Er það^skólaneínd sem leyfir það?

3. Leyfir skólastjórinn það, eða er það gjört án hans vilja og vitundar?

Nazisti.

ATHS. Blaðið hefir átt tal við skólastjóra og gefur hann eftirfarandi upplýsingar:

Það, sem átt er við, með fyrirspurninni, mun vera það, að eitt sinn í vetur, (snemma í marz) var hengd upp, í skólaganginum, auglýsing, þar sem skorað var á börnin að mæta á fundi í barnadeild A. S. V. Auglýsingin var hengd upp milli kl. 4 og 5 síðd. og hékk upp eitthvað á giska 1/2 til 1 kl.tíma, þar til hún var rifin niður, af þeim kennara, er festi hana upp. Auglýsingin var fest upp án vitundar skólastjóra og í fullkomnu óþakklæti frá hans hálfu. 

Sama mun vera með skólanefnd, að auglýsingin hafi ekki verið fest upp með hennar leyfi, annars mun skóla nefnd upplýsa það sjálf, ef fyrirspyrjandi snýr sér til hennar. Skólastjóri tók það fram, að kennarinn, sem festi upp auglýsinguna, hafi ekki gert það í pólitískum tilgangi, vegna þess að kennarinn hafi ekki álitið A. S. V. pólitískan félagsskap, og sé því einungis um vangæslu að ræða frá hans hendi að sýna ekki skólastjóra auglýsinguna. Hér eftir mun skólastjóri hafa eftirlit með því hvaða augl. 

Eru festar upp í skólanum. Enda er það mikill skortur á kurteisi, að festa upp auglýsingar í skólanum án leyfis skólastjóra. Með þessu telur, blaðið svarað þeim liðum fyrirspurnarinnar sem beint er skólastjóra og skólanefnd og er því kennarans sem festi upp auglýsinguna, að svara 1. lið, ef honum finnst þess nokkur þörf

---------------------------------------------------------------------

Siglfirðingur 6. maí 1933

1 Maí „g r í n i ð".

1 maí héldu kommúnistar hér í bænum hátíðlegan með því að hóa saman liðinu niður hjá samkomuhúsi sínu. Hófst „grín" þetta með því að reistur var rauður fáni á skólabalanum. Hélt Aðalbjörn Pétursson gullsm. þar ræðu. Var hann all hávær að vanda, og var ræðan samhengislaust og marklaust orðagjálfur og æsingakjaftæði, er allir sem sáu ræðumann, sannfærðust um að væri flutt af manni, er ekki væri „normal", þá stundina.

Eina nýbreytni tók Aðalbjörn upp í ræðu sinni, þá að lýsa vanþóknun sinni á stjórnendum Póllands, Ítalíu og Þýzkalands. (Enda munu nú stjórnarherrar þessara ríkja gerast valtir í sessi, þegar Aðalbjörn gullsmiður hefir sagt þeim stríð á hendur). Þá minntist ræðum, „íslenzku vikunnar", og komst að þeirri fáránlegu niðurstöðu, að hún væri eitt tæki til að pína og arðræna verkalýðinn, og kom þá glögglega í ljós fjandskapur kommúnistanna gegn viðreisn þjóðarinnar.

Þessi fjandskapur stafar af því, að eftir því sem framleiðslan er fjölþættari og afkoma þjóðarinnar batnar, skapast betri lífskjör, jafnt fyrir verkamenn sem aðra, eða jafnvel fyrst og fremst fyrir verkamenn, því bættur fjárhagur og aukin framleiðsla í landinu, skapar eðlilega meiri vinnu og hærra kaup fyrir verkalýðinn, en það er sem kunnugt er, eitur í beinum kommúnistabroddanna, því þeir óska einskis fremur en atvinnuleysis, illrar líðunar og menningar leysis meðal verkalýðsins, því þeir vita að hjá verkalýð, sem á við góð kjör að búa og er vel mannaður er starf þeirra fordæmt og þeir eiga sér einkis fylgis von.

Eins og kunnugt er byggist tilvera kommúnista á því að þeim takist að gera verkalýðinn að skríl, en það mun varla takast með meginþorra íslenzks verkalýðs. Í enda ræðu sinnar fór gullsmiðurinn allhörðum orðum um ímyndaða Facistahreyfingu hér í bænum, um þá hreyfingu veit víst Aðalbjörn einn, (aðrir hafa ekki orðið hennar varir). Lauk hann máli sínu með því að þessir rækalls óþokkar, Fascistarnir, hefðu ætlað að kveikja í „gömlu kirkjunni". Þessi ummæli hafa hingað til ekki orðið Aðalbirni eða flokksbræðrum hans til sóma, og þykir blaðinu ekki ólíklegt að þeir verði látnir sæta ábyrgð fyrir þau.

Þegar Aðalbjörn hafði lokið máli sínu skipaðist liðið til kröfugöngu, en reyndist þá bæði fátt, og smátt sumt, Þegar upp á Túngötuna kom, mætti liðið hóp af börnum, sem báru íslenzan fána og sungu ættjarðarsöngva, brugðust Kommúnistar reiðir við, og hefir blaðið heyrt að þeir hafi haft í hótunum við börnin, og jafnvel hrint þeim og barið þau. Gekk fylkingin sem mjög virtist riðluð og óskipuleg, suður á Bakka, en er þeir komu sunnanað aftur, voru börnin komin á undan þeim, og var íslenzki fáninn í fararbroddi eftir það.

Um kvöldið héldu Kommúnistar  skemmtun í Bíóhúsinu, fram eftir nóttu. Heyrt hefir blaðið, að þegar næturvörðurinn kom að loka húsinu, hafi einn háttsettur kommúnisti helt yfir hann ókvæðisorðum og skorað á félaga sína að henda honum út, en hinir voru það prúðari, að þeir höfðu þessa áskorun að engu. Lauk þar með þessu „gríni". Má að endingu geta þess, að rauður fáni, er dreginn var upp á einu húsi í bænum, rifnaði í tvo hluti og eyðilagðist, vonandi er það fyrirboði þess, að nú sé lokið upp gangi Kommúnista hér í bænum.

-----------------------------------------------------------------------

Siglfirðingur 13. maí 1933

Kjarkur Kommúnistabroddanna

S.l. fimmtudag fór fram útskipun á fiski í m.b. „Stathav", en Kommúnistar, hugðust að setja verkbann á bátinn. Tilefnið var það, eftir því sem blaðið hefir heyrt, að fyrir nokkrum dögum var verið að skipa upp fiski úr bátnum inni á Akureyri og vinnan borguð samkvæmt gildandi kauptaxta hjá Verkamannafélagi Akureyrar. En Kommúnistar sem öllu ráða í Verkamannafélagi Akureyrar hafa sett annan taxta, sem þeir telja gildandi, komu og hugðust með handafli stöðva vinnuna, en fengu snarpar viðtökur og urðu frá að hverfa við lítinn orðstýr og illan. Flokksbræður þeirra hér tóku upp þykkjuna fyrir þá gagnvart eiganda bátsins, E. Malmkvist útgerðarmanni og skyldi nú hefnt hrakfaranna og bönnuð vinna við bátinn.

Klukkan rúmlega 4 á fimmtudag gengu Kommúnistar í fundarhús sitt, og hefir blaðið heyrt, að þar hafi kappinn Þóroddur Rússlandsfari haldið hvatningarræðu og eggjað liðið til vakslegrar framgöngu. En kapparnir reyndust deigir í sóknum og var báturinn afgreiddur án þess að nokkur tilraun væri gerð til þess að hindra það. Svo fór um sjóferð þá. En af þessu má nokkuð sjá frekju og ósvífni Kommúnista. Fyrir vinnuna á Akureyri er greitt fult taxtakaup samþykkt af starfandi verklýðsfélagi þar í bænum, en af því að Kommúnistar eru reiðir við þetta félag og vilja ekki viðurkenna gildi gjörða þess, svífast þeir ekki að koma með sinn slettirekuskap, og heimta að einhver taxti, sem þeim hefir þóknast að setja, og er þessum aðiljum með öllu óviðkomandi, sé látinn gilda, og þegar því er ekki sinnt reyna þeir að beita ofbeldi. 

En, sem betur fór komu þeir, eins og áður sagt, ekki sínu fram í þessu tilfelli. En þeir treystu því að félagar þeirra hér, tækju upp hanskan fyrir þá. Þeir reiknuðu með því að siglfirzkir verkamenn væru það mikill skríll að þeir létu teima sig til þess að gera óspektir og beita handafli gegn saklausum mönnum. Þessi von mun nú hafa brugðist Kommúnistum, er mælt að jafnvel fjöldinn af þeim, sem teljast kommúnistar hafi verið óviljugir til þess að láta foringjana hafa sig til þess að gera óspektir í bænum. 

En foringjarnir voru sjálfir ofmiklar bleyður til þess að þeir þyrðu að tikynna verkbannið, án þess að vera liðsterkir, enda er það oft einkenni þeirra þorpara, er sífellt eggja til óeirða, að þeir eru hin svívirðilegustu ragmenni. Hafa nú kommúnistar beðið fullkominn ósigur í þessu máli og mun það vera fyrirboði þess, að ósigur verði þeirra hlutskifti bæði hér og annarstaðar. Eru augu almennings að opnast fyrir því. að starfsemi þeirra sé fjandsamleg þjóðfélaginu og fullkomin landráðastarfsemi. Enda mun meirihluti verkalýðsins og sjómannastéttarinnar vera þeim algerlega andvígur. Hefjum samtök antikommúnista af öllum stéttum og flokkum og rekum landráðamennina af höndum hinnar íslenzku þjóðar.

Siglfirðingur 14. maí 1933

Svar til „Siglfirðings".

--- Í 7, tbl. „Siglfirðings" þ. á., stóð fyrirspurn vegna auglýsingar nokkurrar, er eg festi upp í skólanum í vetur, þess efnis, að börn í Barnadeild A. S. V. ættu að mæta á aðalfund félagsins í Verklýðshúsinu á tilsettum tíma. Fyrsti liður fyrirspurnarinnar hljóðaði þannig: „Hver leyfir að nota Barnaskólann til þess að boða börn á pólitíska fundi?" Þessu er fljót svarað: Það hefir enginn notað Barnaskólann, mér vitandi, til þess að hafa nokkur pólitísk áhrif á börnin. 

Enda vil eg taka það skýrt fram, að eg álít að kennurum beri skylda til þess að útiloka alla pólitík og allan stéttaríg frá barnaskólanum og öll börn eigi að skoða hvort annað sem bræður og systur, án nokkurrar sundurþykkju. Barnadeild A. S. V, er algjörlega ópólisk. Það áleit eg, þegar eg festi upp auglýsinguna og nú er eg sannfærður um að svo sé, eftir að hafa starfað með börnunum í vetur. Aldrei hefir nokkurt barn lesið upp sögu eða kvæði, er á nokkurn hátt væri pólitísk og hingað til hefir enginn fullorðinn maður úr neinum pólitískum flokki setið fundi með börnunum, svo ekki hafa þau orðið fyrir pólitískum áhrifum úr þeirra átt. 

Ef sá sem spyr, trúir nú ekki þessu, þá getur hann fengið að sjá hjá mér fundargerðabók félagsins hvenær sem honum þóknast, og fengið fulla vissu um sannleika þessara orða. Á eftir fyrirspurninni koma svo nokkur orð, er ritstjóri telur sig hafa eftir skólastjóra. T. d. að skorað hafi verið á öll börn að mæta á fundinum. Þetta er ekki rétt, í auglýsingunni stóð, að öll börn væru velkomin og finnst mér það nokkuð annað, þótt það skifti nú ekki miklu máli. Þá segir í sömu grein, að auglýsingin hafi verið fest upp án vitundar skólastjóra og í fullkomnu óþakklæti frá hans hálfu. 

Eg játa það hreinskilnislega, að auglýsingin var fest upp án vitundar skólastjóra, vegna þess, að hann var ekki viðstaddur þá í svipinn. En eg áleit, að það væri ekki verra að festa þessa auglýsingu upp i skólann, heldur en aðrar auglýsingar um sjónleiki skemmtanir o. fi., sem eg hefi séð að voru hengdar þar upp og sumar hvorar, að minnsta kosti, án vitundar skólastjóra. En hitt, að þetta hafi verið gjört í fullkomnu óþakklæti skólastjóra, því mótmæli eg algjörlega. 

Að minnsta kosti hefi eg ekki orðið var við það óþakklæti. Enda má og geta þess, að skólastjóri hefir sagt, að það sem væri eftir sér haft í téðri grein, væri að ýmsu leyti rangfært, og trúi eg því vel. En Siglfirðingur var enn ekki ánægður. Að öllum líkindum fundist sér misboðið, að eg skyldi ekki virða hann svars. Hann sendir mér aftur kveðju sína í 10. tbl. blaðsins. Þar gerir hann mig að höfundi einhverrar greinar um A. S. V., er birtist í fjölrituðu blaði er Kommúnistar gáfu út 1. maí s.l. Því miður get eg ekki svarað öðru en því, að eg hefi ekki ritað téða grein og veit ekkert hver höfundur hennar er, því eg er hvorki í Kommúnistaflokknum né í öðrum pólitískum félagsskap og veit ekkert hvað gerist innan þeirra vébanda, 

Ef greinarhöf. leikur forvitni á að fá vitneskju um hver hefir skrifað áðurnefnda grein, vil eg benda honum á, að hann ætti fremur að snúa sér til útgefenda blaðsins heldur en til kennara barnaskólans. Þá gjörist greinarhöf svo ósvífinn, að drótta því að okkur kennurunum og þó öllu helzt að mér, að við höfum rænt fjölritara skólans, og þá að sjálfsögu stencil og pappír líka, og fjölritað pólitískt blað í skólanum án vitundar hlutaðeigenda. Sönnun þess telur greinarhöf. þá, að í bænum séu ekki til nema 2 fjölritarar. 

Þetta er heldur ekki rétt. Þóroddur Guðmundsson á fjölritara og veit eg fyrir víst, að hann muni ekki ófús á að lána hann sínum flokksbræðrum. Enda er þessi svívirðilega aðdróttun tilhæfulaus ósannindi. Fjölyrði eg svo ekki frekar um þeta mál, enda tel eg mig hafa gefið „foreldrum barna" skýr og ákveðin svör.

Siglufirði, 11. maí 1933 Friðrik Guðjónsson.

ATHS. Undirritaður er ekki höfundur fyrirspurnar þeirrar er Friðrik Guðjónsson nefnir í ofanritaðri grein og svarar því ekki fyrir hana. Þess er líka tæplega þörf, því kennarinn viðurkennir, að hata fest upp auglýsingu, þar sem skólabörnunum er boðið að mæta í þeim félagsskap. sem rex pacis segir að hafi þann tilgang að gera „börnin betur hæf til þess að skilja nauðsyn verkalýðssamtakanna og stéttabaráttunnar," — „að vekja áhuga barnsins fyrir lífi og baráttu verkalýðsins, gegn þjóðernisdrambi, hleypidómum og afturhaldsuppeldi," — og að forða börnunum frá því að verða fyrir áhrifum „yfirstéttarinnar", er hann lýsir þannig: 

„Fyrir langa löngu hafa yfirstéttirnar stofnað félög fyrir börn, t. d. Skátafélögin, K. F. U M. o. fl. og reynt á alla lund, að lokka sem flest börn inn í þessi félög undir því yfirskyni, að þeir vildu ala æskuna upp í „guðsótta og góðum siðum", — Notað öll meðöl til þess að tæla börnin frá stétt sinni og baráttu hennar, reynt að kenna þeim, að skríða fyrir valdhöfunum og hlíða þeim í blindni". Það, sem er innan gæsalappa er orðrétt tekið uppúr blaðinu „Ungkommúnistinn" , sem gefið var út hér 1. maí s.l. og er þetta lýsing á starfi og stefnu ungherjadeildar A. S. V. —

En kennari Friðrik Guðjónsson er formaður þessarar ungherjadeildar. Geta svo lesendur blaðsins sjálfir dæmt um hvort félagsskapur þessi er pólitízkur eða ekki. — Nei! Með grein rex pacis er því slegið föstu, að A. S. V. er kommúnistískur félagsskapur.

Þá er það ósannindi, að sagt sé í grein minni að ekki séu til nema tveir „duplikatorar" í bænum. Þar er sagt — „svo vitað sé". Annars hefir Þóroddur neitað að lána kunningja sínum hér á staðnum þann „duplikator", sem hann er sagður eiga. Því er heldur ekki dróttað að neinum kennaranna, að hafa rænt „duplikator" skólans. Það er spurt og krafizt svars og vitanlega eru það helber ósannindi, að um þjófnað á „stencil" og pappír sé að ræða. Að svo komnu tel eg ekki svör Friðriks Guðjónssonar að öllu leyti fullnægjandi „foreldrum barna".

Vettatem honorarens. Allar leturbreytingar mínar. V.h. –

-------------------

Véritatem honorarens, hefir gert sína athugasemd við grein Friðriks Guðjónssonar og hefir blaðið engu við það að bæta. Rétt þótti að taka svargrein kennarans til birtingar. Það, sem kennarinn beinir að ritstj. þessa blaðs viðvíkjandi því sem blaðið hafði eftir skólastj. vill ritstj. ekki kannast við að sé svo úr lagi fært, sem kenarinn vill vera láta.

Það er rétt að skólastjóri mun ekki hafa nefnt óþakklæti frá sinni hálfu yfir umræddri auglýsingu, en heldur ekki var hægt að merkja þakklæti frá hans hendi fyrir auglýsinguna. Annars er það álit blaðsins að barnaskólanum beri að halda utanvið pólitískar deilur, og ef sannast að kennari flytji pólitík inn í skólann beri tafarlaust að láta hann fara frá starfi sínu.

-----------------------------

Eins og sjá má af auglýsingu hér í blaðinu, opnar Bíó-Café í dag.

Munu bæjarbúar framvegis eiga kost á að hlusta þar á góða músik, þar sem hr. Tómas Hallgrímsson verður við hljóðfærið.

Í dag opnar einnig veitingaskálinn Bristol, og eiga menn kost á að fá þar ódýra og góða hressingu.

Í greininni  „Kjarkur Kommúnistabroddanna" hefir misprentast: Fyrir vinnuna við „Stathav" var greiddur taxti Verkalýðsfélags Akureyrar, en ekki Verkamannafélags Akureyrar.

--------------------

Auglýsingar:
B Í Ó - C A F É opnar í dag. Píanómúsík — dansmúsik — á hverju kvöldi frá kl. 9 til 11 ½. Við hljóðfærið: T ó m a s Hallgrímsson .

B R I S T O L. opnar í dag. Verður þar á boðstólum: Mjólk, hvítöl, gosdrykkir, pilsner, bjór, maltöl, brauð frá Hertervigsbakaríi, soðin egg, og smurt brauð.

-----------------------------------------------------

Siglfirðingur 27. maí 1933

Þjóðernishreyfingin. Eftir Gísla Sigurbjörnsson.

Um fátt er nú meira talað um land allt heldur en þjóðernishreyfinguna, sem er að breiðast óðfluga um sveitir og kaupstaði landsins. Margoft hafa menn hugsað um að eitthvað þyrfti að koma, sem hristi deyfðina og drungan af þjóðinni og nú er svo komið að hafist hefir verið handa. Æskulýður landsins vill ekki lengur horfa á hvernig farið er með mál þjóðarinnar. — Nógu lengi — of lengi — hefir úrræðaleysi, skipulagsleysi og atvinnuleysi verið í öndvegi hvar sem litið er. — 

Það er óþarft að skýra lesendum Siglfirðings frá því hvernig komið er fyrir þjóð vorri, sem hefir orðið fyrir því óláni að hafa í valdasætum flestum ábirgðarsnauða menn, sem ekki hafa gert skyldu sína gagnvart landi og þjóð. Íslenzka þjóðin er að vakna til starfa og dáða. — Þjóðin hefir sofið en nú er hún að vakna — og hún vaknar við illan draum. — Mennirnir, sem með mál hennar eiga að fara, þeir hafa gert það smánarlega. Þeir hafa hugsað meira um að hafa sjálfir góð laun og nóg að bíta og brenna — en þeir hafa hugsað minna um það hvort alþýðan í landinu á við erfið kjör að búa — og þeir hafa aðgerðarlausir að mestu horft á hvernig atvinnuleysið er að drepa kjark og þrótt hundruð manna, sem mestan hluta árs hafa lítið eða ekkert að gera. 

Alþýðan í landinu — öll þjóðin — veit og sér að málum hennar er í óefni komið — en hversvegna hefir ekkert verið aðgert? — Fynst þér, sem þessa grein lest, hagur þjóðar þinnar svo góður að ekkert þurfi að gera? Ertu ánægður með að nokkrir menn fá stór laun fyrir lítil eða engin störf, frá ríkinu. Ertu ánægður með þá spillingu, þann klíkuskap sem ríkir í þjóðmálum vorum. — Fynst þér það eðlilegt og sjálfsagt að í landinu séu ávalt nokkur hundruð menn atvinnulausir og að mörg hundruð fjölskyldur hafa lítið að borða — eiga við sult og seyru að stríða. Ertu ánægður með það að hafa ekki sjálfsagðan rétt til afskifta af málum þjóðarinnar — ertu ánægður með þrælalögin, kosningalögin, til Alþingis, sem í landinu eru — og sem skipa meirihluta landsmanna á bekk með hálfvitum lýð. 

Þú ert ekki — það er ekki neinn sannur íslendingur ánægður með að traðkað sé á virðing og drengskap hans — en samt sem áður hefir það verið gert og er gert ennþá af mönnum sem illu heilli fara með völdin í landinu. Endurreisn íslands er mark og miðþjóðernishreyfingarinnar. — Vér getum ekki lengur þolað ofríki — viljum ekki aðgerðarlausir horfa á sorgarleikinn sem háður er í íslenzkum stjórnmálum. Vér viljum og vér störfum að því, að reisa úr rústum alt það sem fallið hefir í rústir á þeim óstjórnartímum sem þjóðin hefir sætt sig við undanfarin ár — En fyrst og fremst er mark vort það, að sameina vora fámennu en margskiftu þjóð. —

Vér viljum ekki flokkaríg og klíkuskap vér viljum sameina þjóðina um hennar mál. — Vér viljum og berjumst fyrir því að þjóðernistilfinning landsmanna vakni — vér vitum að þá munu nýjir og betri tímar koma meðal þjóðarinnar. Siglfirðingar! Munið eftir að allir íslendingar verða að standa saman í þeirri baráttu sem hafin hefir verið fyrir heill og velferð lands og þjóðar. — Munið eftir þeim skyldum sem á yður hvíla gagnvart þjóðinni — skyldur sem þér hafið vanrækt en sem mikilsvert er að þér ynnið af hendi.

Vertu íslendingur — sýndu það í öllum verkum þínum og störfum.

------------

Aths. sk: En hvað þessi skrif minna mig á sum áróðursorðin, sem Hitler skrifað í í bók sína „Mein Kampf „ Allir þekkja eftirmálann, er hann komst til valda með stuðningi „þjóðernishreyfingarinnar“ þýsku, sem „síðar fékk“ nafnið Nasistaflokkurinn, og í framhaldi lét hann myrða miljónir manna, sem ekki voru honum að skap

--------------------------------

Afmæli

Hinn gamli góðkunni borgari þessa bæjar, Helgi læknir Guðmundsson, er í dag 78 ára. Munu allir hinir mörgu kunningjar gamla mannsins óska honum alls hins bezta nú á æfikveldi hans.   (27. maí 1933)

Aðgerð á götum bæjarins mun nú vera byrjuð. Væri ekki úr vegi fyrir veganefnd að athuga, hvort ekki mundi borga sig að gera ræsi ofan við Suðurgötuna í lægðinni skammt fyrir sunnan gatnamót Lindargötu og Suðurgötu. Það munu allir hafa séð, sem um götuna hafa gengið í leysingum vetur og vor, að gatan liggur þar undir stórskemdum af vatnsrensli yfir götuna, sem þvær í burtu úr götunni allan ofaníburð á kafla, vegna þess að niðurfallið er ófullnægjandi til að taka við vatninu, sem safnast fyrir í lægðinni, auk þess sem niðurfallið er nokkrum metrum of sunnarlega.

Úr þessu mætti, eftir vorri hyggju, bæta að töluverðu leyti, með því að leggja kant að ofanverðu við götuna ca. 25 cm. háan, þar sem lægðin er mest, og gera skurð ca. 30 cm. djúpan að meðaltali með hæfilegum fláa fyrir ofan götuna og færa niðufallið þangað, sem lægðin er dýpst, þó æskilegast hefði verið að setja þverrennu í götuna 50 cm. háa og 50 cm. breiða, því slík renna mundi algerlega taka við vatninu og halda götunni þurri. Ekki væri heldur úr vegi, að Hafnargatan væri endurbætt, því eins og hún er nú holótt, getur hún tæplega talist fær, hvað þá ef eitthvað blotnar um. Ekki væri heldur neitt að því, að ræst væri fram úr forarvilpu þeirri, sem oft er við efri brún götunnar, sérstaklega á einum stað utantil.

O. Tynes útgerðarmaður, kom heim úr utanferð með s.s. „Nova" í gær.

Kristmann Guðmundsson, hinn góðkunni rithöfundur er nýlega kominn heim til Íslands eftir 10 ára dvöl erlendis. Hyggst hann að dvelja hér heima í sumar. Heyrt hefir blaðið að hann muni ætla að dvelja hér á Siglufirði eitthvað í sumar, og eiga bæjarbúar þar góðum gesti að fagna, því Kristmann er einn þeirra Íslendinga, sem gert hafa þjóð sinni sóma erlendis. Hann mun, eftir því sem blaðið hefir heyrt, vera að afla sér efnis í nýja skáldsögu úr nútímalífi íslendinga. (Ath, sk: og heimsækja bróður sinn Kristinn, Siglufirði)

Gísli Sigurbjörnsson kom hér með „Novu" í gær og fer aftur með „Gullfoss" áleiðis suður.

Hafnarbryggjan

Byrjað var í gær á viðgerð og uppfyllingu á Hafnarbryggjunni, og var þess síst vanþörf.

Héraðslæknirinn biður að láta þess getið að bóluskoðun á börnum fari fram í Barnaskólanum 31. maí n. k.

----------------------------------------------------------------

Siglfirðingur 10. júní 1933

F á n a l i ð Sjálfstæðismanna.

Afturhalds og öfgaflokkarnir á alþingi, Hriflungar og Sósíaldemokratar, fundu hjá sér hvöt til að flytja bann gegn því að pólitískir flokkar notuðu einkennisbúninga eða merki, sem gæfu til kynna hverjum pólitískum flokki menn fylgdu. Við frumvarpið bættu þeir svo því, að ekki mætti heldur nota íslenzka fánann, sem flokksfána þ. e. a. s. ef menn með sömu stjórnmálaskoðun, alíslenzka í anda, sprottna upp úr þeim jarðvegi, sem forvígismenn Sjálfstæðisbaráttunnar íslenzku ruddu, vildu ganga saman undir íslenzkum fána, þá yrðu þeir hinir sömu menn fyrir það sekir við lög sjálfrar íslenzku þjóðarinnar. 

Það er tæpast hægt að hugsa sér öllu aumlegri hugsunarháttá því Alþingi, sem nú á að taka upp lokabaráttuna um fullkomið sjálfstæði Íslands, að þar skuli vera til þeir flokkar, og menn, sem vilja burtu það tákn íslenzks sjálfsforræðis, sem beztu menn þjóðarinnar færðu henni heim eftir langa og erfiða baráttu. Til hvers er þá unnið er nú á að veitast að því málefninu, sem helgast hefir verið talið í íslenzkri frelsisbaráttu, með því að svifta þá stjórnmálaflokka, sem stefna að fullkomnu frelsi þjóðarinnar, réttinum til að ganga undir íslenzkum fána.

Nú er vitanlegt að landráðamennirnir, sem standa að þeim fordæðuskap að ætla sér að banna íslenzka fánann, hafa ekkert tækifæri látið ónotað til að ganga undir rauðum druslufána, og eiga þeir því aðeins eftir að flytja frumvarp um að lögleiða slíkan fána og yrði það þá að eins afleiðing af þeirra fyrri gjörðum. Sjálfstæðismenn hafa nú risið upp á móti þessari svívirðingu með því að stofna fánalið til verndar íslenzka þjóðfánanum. Hefir þessi ráðstöfun mælst svo vel fyrir að sífeld aðsókn er nú að fánaliðssveitunum. 

Félag ungra Sjálfstæðismanna gekkst fyrir því að hér var stofnuð fánaliðssveit, og kom hún fyrst fram hér í bænum á annan hvítasunnudag. Eru nú í þessari sveit 30 menn og hafa margir fleiri óskað eftir upptöku. Búningur fánaliðsins er bláskyrta með hvítu bindi. Allir sannir íslendingar fylkja sér nú um íslenzka fánann og þess vegna munu fánaliðssveitirnar um allt land aukast og margfaldast, sem er tákn þess að menn fyrirlíta þá menn, sem vilja svívirða og hnekkja sjálfstæði og frelsi ættjarðarinnar.

Y.

-------------------------------

Finnbogi R. Þorvaldsson verkfræðingur, hefir verið hér í bænum undanfarna daga og undirbúið útboð á byggingu fyrirhugaðs öldubrjóts og hafnargarðs.

Hjónaband. S.l. laugard. voru gefin saman í hjónaband af sóknarprestinum ungfrú Steinunn Stefánsdóttir og Nils Ísaksson, verzlunarmaður. —

Þá hafa nýlega verið gefin saman í hjónaband ungfrú Selma Friðbjarnardóttir og Sig. Kristjánsson, fulltrúi. Báðum þessum hjónum óskar blaðið allra heilla.

Hafnarbryggjan.

Undanfarna daga hefir verið unnið að steinlagningu hafnarbryggjunnar. Var fyrst unnið 7½ tíma á dag og sóttist því verkið seint, en nú hefir verið tekin upp vaktaskifting, og er því unnið 15 tíma í sólarhring þegar veður leyfir. Bryggjan verður öll lögð járnbentri steinsteypu.

„Vörn" kvennadeild Slysavarnarfélagsins heldur fund á morgun — sjá augl. í blaðinu. — Ættu konur að fjölmenna í þetta þarfa félag, og styrkja þar með gott málefni.

Höfnin. „

Carstein" kom hingað um síðustu helgi með timbur til Samvinnufélags ísfirðinga og Kaupfélags Siglfirðinga. — „Kanik" losar hér kol til síldarverksm. S. Goos. — „Muninn„ kom með saltfarm til ýmsra útgerðarmanna. — „Ida" uppmoksturskipið, er komin og byrjuð að moka upp við hafnarbryggjuna. — „Lagarfoss" var hér í gær á vesturleið.

Sauðanesvitann er nú byrjað að byggja. Er gert ráð fyrir að byggingin standi yfir í 4 mánuði, og má því gera ráð fyrir að vitinn taki til starfa fyrir haustið. Er það mjög gleðilegt að þetta mikla áhugamál er nú loks komið í örugga höfn.

Hljómleikar.

Ungfrú Jóhanna Jóhannsdóttir hélt kirkjuhljómleika annan hvítasunnudag, Voru þeir hinir prýðilegustu og ungfrúnni til mikils sóma, en hitt var fremur til vansæmdar hve áheyrendur voru fáir. Mun það ef til vill hafa valdið að hljómleikarnir voru ekki vel auglýstir.

--------------------------------------------------------

Siglfirðingur 17. júní 1933

Fyrirspurn.

Hve lengi ætlar heilbrigðisnefndin að líða það að dragúldin síld, sem nú hefir legið í 2 ár við Aðalgötu bæjarins, haldi áfram að grotna þar, svo illmögulegt sé að opna glugga í nærliggjandi húsum fyrir megnum ódaun?

Borgari.

--------------------------------------------------------------

Siglfirðingur 12. ágúst 1933

Samsæri kommúnista gegn þýska vísikonsúlnum á Siglufirði. Síðastliðinn sunnudagsmorgun dróg þýski vísikonsúllinn hér Sophus A. Blöndal, flögg að hún í tilefni af dvöl allmargra þjóðverja hér í bænum. Eftir skipun þýsku stjórnarinnar flaggaði konsúllinn, auk ríkisfánans, með hakakrossfánanum. Með þessu „tiltæki" fannst kommúnistaskrílnum sér ófyrirgefanlega misboðið, og þar sem skynsemi þessara ofbeldisseggja er af skornum skamti eins og flestir munu vera farnir að sjá, þurfti ekki meira til að framkalla óþokkatilhneigingar þeirra. 

Samstundis þegar skríllinn kom auga á hakakrossfánann, æddi hann í ofboði til Þóroddar Guðmundssonar sem virðist hafa verið foringi glæpamannana í þessari svívirðingu, og klöguðu fyrir honum. Var þá brugðið við og farið að safna liði til að ráðast að húsi konsúlsins. Um klukkan 12½ var búið að smala ca. 30—40 manns, og þar sem glæpamannseðli Þórodds er ríkt og sýnilega vel skólað eftir Rússlandsveru hans, sá hann sér leik á borði og sveikst v o p n a ð u r heim að húsinu þegar hann hugði allflesta bæjarbúa sesta að snæðingi. Ruddust 3 glæpamannanna inn á afgirtan reit, þar sem reistur hefir verið minnisvarði tengdaföður konsúlsins, og þar af leiðandi helgaður minningu þess mæta manns, en það létu þeir sig engu skifta og réðust inn með Þórodd í broddi fylkingar, og hafði hann blikandi hníf í hendi.

Skar Þóroddur á flagglínuna og dróg fánann niður. Kona konsúlsins var ein heima í húsinu, þegar glæpamennirnir komu, spurði hún Þórodd hvort hann hefði leyfi til að fremja þennan verknað, og svaraði hann því játandi með þeim rökum, að þetta hefðu flokksbræður hans, sem sé glæpamenn annara landa, gert oft og mörgum sinnum. Réðist Þóroddur síðan á fánann með reiddan hnífinn og skar hann í sundur. en hinir tveir sem með honum voru hjálpuðu til að rífa hann. En þetta þótti þessum óþokkum ekki nægilegt. heldur tóku þeir fánapartana og fóru með þá út á götuna, hræktu á þá og tróðu þá niður í forina, og öskruðu ýms ókvæðisorð. Hörmuðu þeir það mjög að þeir skyldu ekki ná í konsúlinn, sem þeir án eta hefðu mis- þ y r m t.

Þegar hér var komið voru allmargir áhorfendur komnir á staðinn, og sáu þá óþokkarnir, að ráðlegast mundi vera að hafa sig á brott. Það var engu líkara en þarna væru samankomin villidýr með bráð á milli sín, svo mikil var ilskan í glæpamönnunum þar sem þeir voru með fánann, og hinir sem ekki gátu náð til hans hlógu dýrslegum hlátri siðspiltra óþokka. Þessi atburður er eitt svívirðilegasta athæfi, sem kommúnistaskríllinn á Siglufirði hefir framið, og er þó ekki fögur hans saga fram að þeim tíma. 

Það er óútreiknað það tjón sem þeir hafa valdið mönnum hér með ýmsum glæpsamlegum ofbeldisverkum, en hitt er þó verra þegar einstaklingar sem engin afskifti hafa af þessum mannhundum, geta ekki verið óhultir um sig í sínum eigin húsum fyrir yfirgangi þeirra en það hefir sýnt sig að svo er ekki, á meðan tekið er á þeim með þeim silkihönskum sem hingað til hefir verið gert. Það er hastarlegt til þess að vita, að Siglufjörður skuli vera neyddur til að ala upp slíkan þorparalýð, en það má segja að hann sé, svo lengi sem ríkisvaldið lætur hann vera varnarlausan gegn kommúnistaskrílnum sem hér hefir aðsetur sitt. Þessvegna verða Siglfirðingar að krefjast þess að þeir menn sem fremstir stóðu í þessu ofbeldisverki, verði látnir sæta þyngstu refsingu, og héðanífrá verði settar strangar varúðarreglur, til tryggingar öryggi siglfirskra íbúa.

---------------------------------------------------------------------------------

Siglfirðingur 26. ágúst 1933

YFIRLÝSING.

Undirrituð lýsi hérmeð yfir, að það sem haft er eftir mér hér í bænum, svo sem að eldsvoði eigi að eyða meirihluta bæjarins, eða það að engin síld veiðist framar í sumar o. fl. af slíku tægi, eru tilhæfulaus ósannindi, því slíkt hefi eg aldrei látið mér um munn fara. Vil eg biðja þá, sem þessi ummæli hafa útbreitt að gefa sig fram og sanna að rétt sé eftir mér haft, eða að öðrum kosti heita vísvitandi lygarar. Framanritað vil eg biðja Einherja og Siglfirðing að birta.

Siglufirði, 22. ágúst 1933. Lea Josephsson.

---------------------------------------------------------------------------------------

Siglfirðingur 2. september 1933

Unglingaskólinn

Þar eð eigi er prentuð nein skýrsla um Unglingaskólann þykir hlýða að fara nokkrum orðum um starfsemi hann síðastliðinn vetur, svo að mönnum gefist kostur á að kynnast því, sem þar fer fram. Skólinn var settur 1. vetrardag. Nemendur voru þá 42. Skipting kennslu var sem hér segir:

Jón Jónsson kenndi íslenzku, ensku og stærðfræði í báðum deildum og dönsku í yngri deild, ennfremur 2 tíma í þýzku á viku á tímabili. en ensku og reikning seinni hluta vetrar í stað þýzkunnar, alls 27 kl.st. á viku.

Helga Gísladóttir kenndi bókfærzlu í báðurn deildum og dönsku í eldri deild, alls 7 st. á viku.

Guðrún Björnsdóttir kenndi landafræði og íslenzkar bókmenntir, alls 2 st. á viku,

Sigurlaug Vilhjálmsdóttir kenndi stúlkum handavinnu 2 st. á viku. (Kennslan var sameiginleg í báðum deildum).

Friðrik Guðjónsson kenndi sögu í yngri deild 2 st. á viku.

Friðrik Hjartar kenndi stúlkum leikfimi 2 st. á viku.

Bergur Guðmundsson kenndi drengjum leikfimi 2 st. á viku.

Kennslan fór fram í barnaskólahúsinu, Unglingaskólinn hafði þar 1 stofu til afnota. Kennsla hófst kl. 9 að morgni. Nemendur yngri deildar komu þá, en eldri deildar nemendur komu kl. 2 eða 3. Var skólanum því eigi lokið fyr en kl. 6—7, og verður það að teljast miður heppilegt að þurfa að halda nemendum svo lengi í skólanum.

Félagslíf. Snemma á skólaárinu var stofnað „Skólafélag Unglingaskólans". Markmið félagsins er í senn að auka og efla félagslegan þroska nemenda og veita þeim holla skemmtun. Í félaginu voru 5 fundir. Þar voru ýms mál rædd, svo sem áfengisnautn, tóbaksnautn o. fl. Einn skemmtifundur var hafður. Þar flutti skólastjóri Friðrik Hjartar fróðlegt erindi um ferð sína til útlanda, síðan var dansað í söngstofu skólans.

Snemma á skólaárinu var ákveðið að efna til skemmtunar til þess að afla tekna í sjóð, er heita skyldi áhaldasjóður skólans, Var það ætlunin að nemendur sæju algerlega um þá skemmtun og voru þeir byrjaðir að æfa söng og fleira, þegar skarlatsóttarbann var sett 14. des. sem stóð til 21. febrúar eins og kunnugt er. Þegar banninu var aflétt, þá var orðið svo áliðið vetrar og stutt til prófs, að eigi þótti rétt að hafa skemmtunina að þessu sinni. Formaður skólafélagsins var Jón Kjartansson. Í skólanum starfaði einnig taflfélag. Taflæfingar voru allmargar. 

Tvisvar tefldu félagar þess samtímisskák við góða taflmenn í bænum. Formaður taflfélagsins var Þorsteinn Hannesson. Farnar voru nokkrar skemmtiferðir, svo sem út á Siglunes, yfir á Kálfsdal o. fl. Slíkar ferðir eru heppilegar bæði frá félagslegu- og heilbrigðislegu sjónarmiði og treysta samband og samvinuu kennara og nemenda. Skólanum var slitið síðasta vetrardag að afloknu prófi. Nokkrir nemendur gátu ekki þreytt prófið sakir innflúensu, sem um þær mundir geisaði um bæinn.

Sennilega verður Unglingaskólinn með líku sniði næsta vetur eins og hér hefir verið frá skýrt og fyrir komulag líkt, þó mávera að kennsla verði eitthvað aukin og einhverjum námsgreinum bætt við. Eg teldi það æskilegt, ef hægt væri að auka kennnslu í hagnýtum fræðum, svo sem handavinnu. Það er mikils virði að kunna sem flest verk, ekki síst á slíkum tímum sem nú eru, þegar atvinnuleysi er svo mikið um heim allan. Þess ber og að gæta, að margir fátækustu nemendur eiga ef til vill ekki kost annarar menntunar en þeirrar sem Unglingaskólinn veitir, verður því að leitast við að haga kennslu þannig, að námið verði þeim að einhverju liði í lífsbaráttunni. 

Til eru heimildarlög fyrir því að reistur verði Gagnfræðaskóli á Siglufirði. Það væri að sumu leyti æskilegt að þau lög yrðu notuð, þó að það skipti raunar minnstu hvaða nafn skólinn ber. Ef forráðamenn bæjarins vilja gera vel til skólans, þá er það vitanlega hægt að efla svo unglingaskólann, að hann veiti jafnmikla fræðslu og Gagnfræðaskólar. Í því trausti að bæjarbúar vilji gjarna efla unglingaskólann hér og sýni það í verki, unglingar með góðri aðsókn, en ráðandi menn með ríflegri fjárframlögum en verið hefir, lýk eg línum þessum.

Staddur á Siglufirði 27. ágúst 1933. Jón Jónsson frá Völlum.

----------------------------------

Yfirlýsing.

Eg undirritaður skora hér með í þessari yfirlýsingu á sögumanninn að gefa sig fram og sverja á mig þann óhróður sem borinn er út um mig, að öðrum kosti er hann auglýstur sem lygari og mannorðsþjófur.

Björn Hallgrímsson.

----------------------------------------------------------------------------

Siglfirðingur 16. september 1933

Hvað veldur drættinum?

Fyrir nokkrum vikum gerðust hér á Siglufirði þau fádæmi, að hópur skrílmenna réðist á stjórnarfána Þýzkalands, er dreginn var upp á húsi þýzka vicekonsúlsins¹ hér, og rifu í tætlur. Út af þessum atburði voru næstu daga haldin nokkur réttarhöld og málskjölin síðan send suður til stjórnarráðsins. Síðan mun nú vera liðin mánuður að skjölin komu í hendur stjórnarinnar, — en ekki hefir heyrst að nein fyrirskipun um meðferð málsins hafi komið frá stjórninni ennþá og má slíkt furðulegt kallast, þar sem um jafn alvarl. mál er að ræða og þetta, þar sem höfð er í frammi svívirðileg móðgun gagnvart einni af okkar viðskiftaþjóðum, að vísu mun ríkisstjórnin íslenzka hafa sent þýzku stjórninni afsökun, að „þetta væri ekki sér að kenna". 

Og stjórninni virðist hafa fundist það nóg, hún virðist ekki hafa skilið það, að til þess að slík afsökun gæti orðið annað en markleysa eín, bar henni skylda til að sjá um að verknaðurinn væri ekki látinn órefstur, en beitt yrði gegn illræðismönnunum gildandi ákvæðum hegningarlaganna. Ef stjórnin lætur það undir höfuð leggjast, er afsökun hennar einkisvirði gagnvart þjóð þeirri, er í hlut á, þar sem stjórnin íslenzka, ef hún lætur málið falla niður við svo búið, óbeinlínis tjáir sig vera samþykka gjörðum spellvirkjanna. Getur slík framkoma íslenzku stjórnarinnar haft hinar háskalegustu afleiðingar gagnvart viðskiftum íslands við Þýzkaland, og er beinlínis sviksamleg gagnvart þeim íslenzkum þegnum, er selja afurðir sínar á þýzkum markaði. Svo sem kunnugt er, heyrir þetta mál undir forsætisráðherra, sem einnig er utanríkisráðherra.

En forsætisráðherra þessi „Friðgeir" framsóknarinnar, hefir hér, eins og raunar oft áður, snúið þykku hlustinni að réttlætinu og gleymt skyldu sinni gagnvart þjóðinni, sem hann er settur til að vinna fyrir, en lítur í náð til spellvirkja þeirra, sem hans fyrverandi samherjar, kommúnistarnir, vinna. Svo sljó er ábyrgðartilfinning forsætisráðherra, að hann situr „á friðstóli" og hefst ekki handa, þó haft sé í frammi athæfi, er getur haft þær afleiðingar, að útiloka ísland frá öllum viðskiftum við þjóð, sem jafnan hefir því vinveitt verið. Og þó ekki væri annað en vináttuþel það og áhugi fyrir mörgu er okkur hefir snert, sem fjölmargir Þjóðverjar hafa sýnt, fyr og síðar, ætti það eitt að vera íslenzka forsætisráðherranum næg hvöt, til að láta ekki líðast refsingarlaustað fáni þeirra sé óvirtur innan takmarka íslenzka ríkisins. 

En forsætisráðherrann virðist vera alveg gjörsamlega sljór fyrir sóma ríkisins bæði út á við og inn á við, hans áhugi virðist eingöngu miðast við það, að geta hangið við völd sem lengst og brosað framan í erlenda gesti eða sýnt sig erlendís sem forsætisráðherra íslands, þó hvorttveggja sé í fyllstu óþökk meirihluta kjósenda landsins. En þess verður að krefjast af forsætisráðherranum, að hann láti ekki rolumennsku sina ráða, þegar heiðri þjóðarinnar og velferð eins af atvinnuvegum hennar er stefnt í beinan voða af nokkrum skrílmennum, heldur sjái um að lögum landsins og almennum þjóðarrétti sé beitt. Ef forsætisráðherra gerir það ekki, gerist hann samsekur föðurlandssvikurum, og þó honum verði ekki refsað sem föðurlandssvikara, hlýtur hann að verðleikum fyrirlitningu allra heiðarlegra manna. cxc.

------------------------------------------

Söngskemmtun Erlings Ólafssonar í kirkjunni í gærkvöld var vel þess verð að fleiri hefðu komið og hlustað á þenna unga efnilega bariton-söngvara. Erling hefir mjög blæfallega rödd og bar meðferð hans á mörgum lögunum vott um næman skilning og tilfinningu. Á söngskránni voru meðal annars lög eftir söngvarann, sjálfan og söng hann þau prýðis vel, sérstaklega lagið „Svarti dauði" enda lá það lag sérlega vel við rödd hans. Bróðir Erlings lék undir. Er vonandi að Erling láti bráðlega aftur til sín heyra, og ætti fólk þá ekki að setja sig úr færi að heyra til hans.

Z.

Lík fundið.

Í fiskiróðri í gær fann m.b. Haraldur lík á reki um 24 sjómílur norður af Siglufirði. Var það í bjarghring, á nærfötunum og með skó á fótum. Andlitið var óþekkjanlegt.

Á einum fingri þess var gullhringur með plötu, og á hann grafinn stafurinn K.

Af vaxtarlagi, hringnum og öðrum einkennum er fullyrt af kunnugum að lík þetta muni vera af Kristjáni Sigurgeirssyni stýrimanni á gufubátnum Gunnari, sem fórst nálægt Horni fyrir 3 vikum síðan.

---------------------------------------------------------------------

Siglfirðingur 14. október 1933

Eftirlit með húsabyggingum.

Það er ekki sjaldgæft orðið hér, að í hvassviðrum fjúki úr húsum bæði núbyggðum sem gömlum og valdi tjóni víðsvegar í bænum. Í síðasta hvassviðri fauk þak af nýbyggðu smíðaverkstæði utarlega í bænum og skemdi að meiru eða minna leyti reykháfa, þök og glugga á sex húsum. Þar sem stormurinn var ekki sérlega mikill, hlýtur að hafa verið gengið meira en litið ótraust frá byggingu þessari, og verður manni á að halda að byggingafulltrúinn, sem á að hafa eftirlit með byggingum í bænum, hafi í þessu tilfelli ekki rækt hlutverk sitt. 

Það er hastarlegt að þurfa að líða tjón fyrir trassaskap þennan, og verður að krefjast þess að byggingafulltrúi gegni betur skyldu sinni í framtíðinni. Þá ber og byggingafulltrúa að sjá um, að það sem aflaga fer á húsum og hættulegt má telja fyrir öryggi fólks og húsa í næsta hvassviðri, verði tafarlaust lagfært þannig að forsvaranlegt megi teljast. — En, meðal annara orða, ber ekki bæjarsjóði skylda til að bæta slík tjón á húsum manna og öðrum eignum, þegar hús það er tjóninu veldur, fullnægir ekki byggingarlögum bæjarins.

-----------------------------------------------------------------------

Fylgiblað „Siglfirðings" 28. okt. 1933.

Rafvirkjun í Siglufirði. - Skeiðsfoss.

Horfur.

Eins og flestum Siglfirðingum mun ljóst er núverandi rafveitustöð að verða of lítil og er í hæsta lagi hægt að komast af með hana um 2—3ja ára tímabil. Er því sannarlega kominn tími til, að bæjarstjórn Siglufjarðar fari að leggja grundvöll undir framtíðarfyrirkomulag rafmála kaupstaðarins. Tel eg rjett, að skýra frá mínum athugunum, sem eg í kyrþey hefi unnið talsvert að.

Ýmsar leiðir.

Vandasamasta úrlausnaratriðið er þetta: Hvað á að gera?  Því virðist mjer ekki að ræða nema um 2 leiðir: virkjun Fljótaár í Skeiðsfoss eða dieselmótorstöð.

En athuga ber þó allar aðrar hugsanlegar leiðir. Fyrsta og næsta leiðin fyrirhendi væri að stækka Hvanneyrarstöðina og færa hana jafnvel niður að sjó.

Þá leið hefir Steingrímur Jónsson raffræðingur kveðið niður og virðist ekki þurfa að rökræða það frekar, enda fyrirsjáanlegt, að slíkt væri alls ófullnægjandi og svara ekki kostnaði, eins og eg hefi oft haldið fram.

En þá er næsta leiðin: virkjun vatnsafls þess, sem til er inn í firðinum. Helzt er Selá, sem gefur tæpa 50 hesta minnsta rennsli og Fjarðará álíka. En báðar þessar ár hafa lítið úrkomusvæði og litla mögulegleika fyrir vatnsmiðlun, í mesta lagi fyrir dægurmiðlun og notkun yfir það, sem minnsta rennsli gefur, því mjög óviss, enda taldi Steingrímur Jónsson raffræðingur ekki til neins að arða uppá þær og enn minni er Grísará. 

Má því segja, að innan fjarðarins komi ekki til mála að virkja fallvatn fyrir bæinn. Heldur væri þá að ræða um Hjeðinsfjarðarárnar. Þær hafa aldrei verið mældar, en virðast nokkuð stórar og fallhæðin miklu meiri en Siglufjarðaránna. Væri því ef til vill rjettara að láta mæla þær, svo að vissa nokkur fáist um vatnsaflið, en á það er að líta, að þær ár hafa lítið úrkomusvæði, svo að mikill munur er á þeirra minnsta rennsli og meðalrennsli, að eg ekki tali um mesta rennsli. og varla er þar heldur að tala um nokkra vatnsmiðlun nema að einhverju leyti um dægurmiðlun. — 

Hinsvegar yrði leiðslan dýr, jarðstrengsleiðsla mesta af leiðinni og þótt leiðin sje mun styttri en til Skeiðsfoss munar það ekki því, sem vatnsaflið mun vera miklu meira í Fljótaá. Það virðist því rjett að telja það nokkurn veginn vafalaust, að annaðhvort verði bærinn að virkja Fljótaá eða koma sjer upp dieselmótorstöð. Þegar um þetta tvennt er að ræða: dieselmótorstöð eða virkjun Skeiðsfoss. Virðist mjer einsætt, að rjett sje að telja vafalaust, að eina úrlausnin til frambúðar sje virkjun Skeiðsfoss, en að það geti verið íhugunarefni og rannsóknarvert, hvort heldur eigi nú strax að snúa sjer að dieselmótorstöðinni eða virkjun Skeiðsfoss. 

Dieselstöð gæti verið fullnægjandi til ljósa næstu 10 ár og að einhverju litluleyti til smáiðnaðar og enginn vafi á, að með henni reisum vjer oss ekki hurðarás um öxl. En slíkt yrði þá aðeins bráðabirgðabúrlausn unz bærinn yrði stærri og færari um að taka að sér þá — óneitanlega stóru — byrði, sem virkjun Skeiðsfoss hefir í för með sjer. Frekara að ræða dieselmótorstöðina tel jeg óþarft, því að verði í því, er hjer fer á eftir, með rökum sýnt fram á, að Siglufjarðarkaupstað sje ekki ofvaxið nú strax að virkja Fljótaá er dieslmótorstöðin þar með úrsögunni, að því óslepptu, að ef fje fengist ekki til virkjunar Skeiðsfoss, verður bærinn í náinni framtíð að taka dieselmótor til aukningar núverandi rafstöð. Þó vil eg benda á, að með dieselmótorstöð er allur stærri iðnaður, sem fyrir er í bænum, íshús og verksmiðjur, sem hafa skrifað sig á fyrir yfir 300 ha. rafmagni, — útilokaður. 

Hinsvegar eru ýms atriði í sambandi við þetta mál þannig vaxin, að þau þurfa alhliða athugunar og eg tel rjett að ræða þau nánar. Það mun vera álit flestra vor, að ef vjer getum nú virkjað Skeisfoss fyrir fje. sem vjer erum menn til að greiða vexti og afborganir af, þá muni sú virkjun verða eitt hið mesta framfaraspor, sem hægt sje að stíga, en eg held fram, að slíkt spor beri að stiga nú þegar á næsta ári.

Í skjóli rafmagnsins munu rísa upp margskonar iðjur og atvinna og þægindi skapast, sem annars er lítt hugsanlegt. Rísa þá upp ýmsar spurningar, sem krefja svars þeirra, er fara með mál bæjarins.

Orkuþörf.

Hvað mikið rafmagn þarf Siglufjörður ___ til ljósa, rafsuðu, iðnaðar og að einhverju leyti til hitunar í náinni framtíð? Nú eru rúm 2100 manns á rafveitusvæðinu. Ef lagt yrði í að virkja Skeiðsfoss mundi slíkri virkjun ekki lokið fyr en 1935 eða 1936 og má þá reikna með, að 2300 manns að minnsta kosti yrðu búsett á rafveitusvæðinu.

Orku- áætlun Jóns Þorlákssonar.  

Samkv. útreikningum Jóns Þorlákssonar í Fossanefndinni áætlar hann rafmagnsþörfina á mann þannig:

til ljósa: 105 kwst. á ári,

til smáiðju: 60 kwst. árl.

til suðu: 875 kwst. árl.,

til fullkominnar hitunar: 1900 kwst. árl. —

Þessi áætlun mun nokkuð há, að minnsta kosti að því er svarar til ljósa og suðu eftir því sem ætla má líklegt fyrir Siglufjörð. Þegar maður sleppir áætlun um rafmagn til fullkominnar hitunar, svara aðrar orkuþarfir til um ⅓ hestafls á mann eftir áætlun Jóns Þorlákssonar, eftir því um 800 ha. á notkunarstað, sem svarar til um 1 þúsund til 11 hundruð hestafla við Skeiðsfoss. — En svo auðveld er eigi úrlausn áætlunarinnar um. hve mikið rafmagn gangi út hjer, því að áætlun Jóns Þorlákssonar gengur út frá orkuþörfum almennings, sem vanur er alhliða raforku, að minnsta kosti til ljósa, suðu og smáiðju og að nokkru til hitunar. 

Enda bendir þessi rithöfundur rjettilega á, að orkueyðsla sje mjög breytileg eftir staðháttum, svo sem að líkum lætur. Vjer skulum dvelja um stund við orkuþörfina og athuga hana frá fleiri hliðum. Eg hefi skrifað öllum rafveitustöðvum á landinu um orkueyðslu þeirra í ýmsu skyni, en ekki fengið svar nema frá fáeinum. Samkv. þessum upplýsingum um raforku til ljósa er reynsla rafveitu Akureyrar, að árseyðsla á mann til ljósa sje um 40 kwst, á mann, þar í mun þó vera einhver notkun til hitunar.

Orkuáætlun Steingríms Jónssonar til ljósa (Sogsáætlun).

Steingrímur Jónsson raffræðingur áætlar í Sogsáætlunum sínum árseyðsluna 50 kwst. á mann. Tel eg það alltof hátt fyrir Siglufjörð, enda segir raffræðingurinn, að í Reykjavík sje keypt mikið rafmagn til búðarauglýsinga í búðargluggum, og að það hleypi eyðslunni mjög fram. Vera má, að sú tíð komi, að talsvert rafmagn verði notað hjer í þessu skyni, en ekki er hægt að gera ráð fyrir því að miklu ráði fyrst um sinn.

Orkueyðsla nokkurra rafstöðva til ljósa.

Rafveita Húsavíkur eyðir á mann yfir árið milli 30—40 kwst. til Ijósa. Rafveita ísafjarðar um 20 kwst., en rafmagn er þar ekki allstaðar og mjög dýrt.

Orkueyðsla rafveitu Siglufjarðar til ljósa.

Rafveita Siglufjarðar selur 22 kwst. á mann á ári. Nú má gera ráð fyrir nokkurri aukningu frá þessu á mann, ef rafmagnið til ljósa yrði lækkað niður í 65 aura kwst. En varkárt er varla að áætla meir en 26 kwst. á mann í Siglufirði til ljósa. Þó býst eg við, að flestir raffræðingar muni telja 30—40 kwst. á mann mjög varkára áætlun, þótt eg fari ekki hærra en í 26 kwst. (Og er það þó eins og áður segir undir 3/5 af ljóseyðslu þeirri á mann, sem áætluð er í Sogsvirkjuninni og tæplega ⅓ hluti af áætlun Jóns Þorlákssonar.)

Suðuorkueyðsla

Þá er orkuþörfin til suðu. Um hana er mjög blint að gera áætlun vegna þess, að hverki hér á, landi á almenningur kost á nógu rafmagni til suðu. Eg tel rjett að ætla, að fyrst um sinn muni ekki nema þriðjungur íbúanna eða rúmlega það taka rafmagn til suðu og að síst muni ofreiknað að áætla, að í þeim húsum, sem hafa fulla rafsuðu, sje eytt 300 kwst. á mann árlega til suðu. Aðrir reikna enn meira. Ef maður gengur út frá og að hús með samtals einum þriðja íbúanna taki rafmagn til suðu, yrðu 100 kwst. á íbúa hvern. Þetta er þá ekki áttungur rafmagnsþarfar þeirrar, sem Jón Þorláksson áætlar til suðu á íbúa hvern. 

Sennilega er þetta mjög lá áætlun en auðvitað getur enginn — þótt raffræðingur væri — fullyrt með nokkurri vissu um, hve margir vilji fá suðu. Suðutækin eru alldýr og þurfa mikla og þrifnað í umgengni, ef þau eiga að endast nokkuð. Er hætt við, að almenningur, óvanur slíkum tækjum, gæti eigi eins vel og vert væri að viðhafa næga varkárni í meðferð tækjanna, en slíkt kemur þá fram í óánægju með suðuna og minni eftirspurn eftir henni, að minnsta kosti fyrst um sinn. Hinsvegar er vinnan ljettari, hreiniegri og hægt að komast af með minni vinnu. — 

Rjett er þó að benda á, að á vetrum kostar auk rafsuðu að hita upp eldhúsið, er eigi þarf við kolaeldun, en sennilega yrði rafhitun eldhúss meðan á rafsuðu matar stæði nauðsynleg, nema í miðstöðvarhúsum. Þar þyrfti aðeins að bæta við litlum miðstöðvarofni í eldhúsið. En sjerhitun eldhúss er aðalgallinn á að hafa almenna rafsuðu á vetrum. Aðalkosturinn: vinnusparnaður og aukið hreinlæti ætti þó að vega meira. Þá má og benda á, að rafsuða á vetrum yrði eigi tekin upp þar sem eldavjelarmiðstöð er, en það er allvíða á Siglufirði.

Rafhitun

Það er sannfæring mín, að rafhitun vor og haust gæti orðið almenn álíka og suðan að minnsta kosti, líklega almennari, en mesti vandi að gera þó áætlun um þá orkueyðslu. Fer notkunin að sjálfsögðu eftir verðinu. Ef kwst. yrði ekki seld nema á 4 aura mætti telja varkárt að áætla um 87 kwst. á hann til hitunar, m. ö. o. samtals um 200 þúsund kwst. Það er varla vafi á, að mörg hús, sem hafa miðstöðvartæki — a. m. k. ef ekki er frá eldavjel — mundu að sumrinu, vori og hausti, nota talsvert rafmagn til hitunar, því. að það mundi ódýrara en að kynda upp miðstöð. En einnig mundu mörg fleiri hús nota rafmagn til hitunar á þessum tíma, því að það yrði handhægra, þrifalegra og útheimti minni vinnu og tíma.

Iðnaðar orkueyðsla

Þá er Það iðnaðarorkan. Af öllum orkuþörfum er hún óákveðnust og ekkert hægt að fara eftir því, sem almennt mætti áætla um aðra bæi innan lands nje utan. Slík orkunotkun hjer yrði líka mjög breytileg og allt þetta torveldir mjög ábyggilega áætlun. Eg hefi bæði brjeflega og munnlega leitað ýmsra upplýsinga um slíka notkun meðal bæjarbúa, því að það er eina færa leiðin og helst að byggja á, en þó er eigi bægt að telja hana óskeikula, því að menn geta gengið frá loforðum og atvinnuvegir breytst eða lagst niður. — 

Nú fer að sjálfsögðu sala á rafmagni til iðnaðar mjög eftir því hvað verðið verður. Hefi eg hugsað mjer margskonar verð: frá 45 aura fyrir smáiðju og niður í 8 aura fyrir 100 hestafla vjelar eða stærri Hvar takmörkin yrðu sett á milli hinna ýmislegu verða má síðar ákveða, en annars hefir reynslan sýnt, að smáiðja getur borgað allt að ljósaverð fyrir orkuna. Fer þetta allt eftir stærð iðjunnar. Því stærri iðja, því ódýrara þarf rafmagnið að vera til þess að keppa við annað afl. Markmið orkunnar veldur og miklu, hvort fer til hreyfiafls, hitunar eða annars o. s frv. 

Eg hefi varið allmiklum tíma og vinnu til þess að komast að ábyggilegri niðurstöðu um orkueyðslu til iðnaðar. í því efni leitaði eg fyrst til síldarverksmiðjanna, og fjekk litlar undirtektir, nema hjá ríkisverksmiðjunni. Þá fór eg til vjelaíshúsanna. Mjer virtist auðsætt, að þar væri atvinnurekstur þar sem rafmagnið hefði aðstöðu til að geta keppt við annað afl. Af allri vjelaiðju, sem er í bænum, er vjelarekstur íshúsanna sjálfkjörinn til þess að nota rafmagn og einkum fyrir það, að vjelareksturinn og orkueyðslan fer fram um 2ja mánaða bil jafnt að nóttu sem degi, er rafveitunni viðskiftin, nætureyðslan, svo eftirsóknarverð. 

Kveður svo mikið að þessari sjerstöku aðstöðu hjer, að ætla má, að þetta ásamt ríkisverksmiðjunum hjálpi virkjun Fljótaár yfir örðugasta hjallann, að minnsta kosti að mínu áliti. Samkv. upplýsingum frá væntanlegum notendum má gera ráð fyrir, að minni og stærri iðnaður í bænum, þar með talin tvö vjelaíshús, taki upp að sumrinu um 4 hundruð hestöfl með 8—10 aura verði kwst. og gefi um 30 þús. kr. í tekjur til stöðvarinnar. Hefi eg þó gert áætlunina minni en upplýsingar nótenda benda til. Til þess nú að geta gert sjer nokkra grein fyrir hvort virkjunin geti svarað kostnaði, þarf að áætla virkjunarkostnaðinn.

Stofnkostnaður

Hann er nú áætlaður af raffræðing Steingrími Jónssyni. Áætlunin er frá 1930. Er þar að ræða um 3 leiðir.

1.   að virkja Skeiðsfoss þannig, að komið sje þar fyrir tveim 300 hestafla vjelum, kostnaður áætlaður 520 þús. kr. Árleg útgjöld áætlar Steingrímur Jónsson 79 þús. kr.

2. þannig, að komið sje fyrir tveim 450 hestafla vjelum, kostnaður áætlaður 570 þús. kr. og það er sú leið sem Steingrímur Jónsson ræður til að fara. Árleg útgjöld áætlar raffræðingurinn 85 þús. kr.

3. þannig, að virkja með tveim 600 hestafla vjelum, kostnaður 604 þús. kr. Árleg útgjöld (m. ö, o. reksturskostnað) áætlar raffræðingurinn 89 þús. kr. Af þessum leiðum tel eg sjálfsagt að taka þá síðastnefndu. Bæði verður virkjun hvers hestafis þar ódýrust og við þá virkjun verður hægast að auka virkjunina framvegis. Hún hefir og þann kost, að athugandi er, hvort eigi mætti í fyrstu byrjun, ef menn væru hræddir um, að rafmagnið gengi ekki út, öll 1200 hö. (sem yrðu komin til Siglufjarðar ekki nema um 1000 hö.) spara stofnkostnaðinn við í bili að setja niður aðeins 1 rafmagnsvjel 600 ha. 

     Við það sparast í bili miðað við verðlag áætlunarinnar 23 þús. kr. (túrbína), 16 þús. (rafmagnsvjel), 7 þús. kr. (ásspennir) eða 46 þús. kr., auk flutningskostnaðar við að þurfa ekki að flytja þessar vjelar að. Sennilegt er þó, að slíkt sje ekki arðvænlegt. Í áætlun þessari, er gert ráð fyrir, að rafstöðin og vatnsþrýstipípur verði vestan Fljótaár. Eg geri enga kröfu til að vera talinn sem sjerfræðingur um þetta, en eg fullyrði, eftir athugun á staðnum, að ódýrara sje að grafa fyrir vatnsþrýstipípum austan ár en vestan. En aðalatriðið verður þó, að mælingar sýna, að fallhæðin verður 1,5 metr. meiri austan ár en vestan.

      Tel eg því sjálfsagt að hafa stöðina fyrir austan á og býst eg við, að raffræðingurinn sje því nú samþykkur. Í áætluninni er gert ráð fyrir 4 km. jarðstreng, en eg tel nauðsyn á að hafa jarðstreng 5 km. a. m. k. Miðað við verð áætlunarinar yxi áætlunin við það um 12 þús. kr. Nú lít eg svo á, að þegar Skeiðsfoss verði virkjaður sje nauðsynlegt að fá víxilstraumsvjelar að Hvanneyrarrafslöðinni í stað jafnstraumsvjelanna, sem þar eru nú, til þess að geta haft Hvanneyrarstöðina sem varastöð. Er ótalinn kostnaður við það. Þá er og ótalinn kostnaður við afföll væntanlegs virkunarláns. Að áliti raffræðings Steingríms Jónssonar mun það vera varkár áætlun að reikna, að virkjunarkostnaðurinn verði 660 þús. kr. að þessu meðtöldu.

Árlegur reksturskostnaður í mesta lagi 103 þús. kr., af raffræðing Steingrími Jónssyni áætlaður 89 þús. kr.

Í samræmi við áætlun Steingríms Jónssonar raffræðings — þó nokkru ríflegri — yrðu gjöldin árlega þessi:

1.   Af borgun ....................og vextir...................... 66.000,00

2.   Reksturskostnaður og viðhald..........................16.000,00

3.   Vjelgæzla........................................................... 8.000,00

4.   Gæzla veitunnar, innheimta og reikningshald. 10.000,00

5.   Ýmislegt............................................................ 3.000,00

                                                           Alls kr. 103.000,00

Í samræmi við áætlaða orkueyðslu hjer að framan yrðu tekjurnar þessar:

1. Ljóseyðsla 2300 X 26 kwst, = 59800 kwst. #= ca. 60000 kwst. á 65 aura, kr. 39.000,00

2. Rafsuða 2300 X 100 kwst. 230000 kwst, á 7 aura — 16.000,00

3. Hitun 2300 X 87 kwst. = ca. 200000 kwst. á 4 aura –   8.000,00

4. Iðnaðarrafmagn — .....................................................26.000,00

5. Raforkueyðsla bæjarsjóðs, sjúkrahúss og Hólsbús — 10.000,00

6. Raforkugjald hafnarsjóðs —......................................... 4.000.00

.................................................................................Kr. 103.000,00

Er þegar áður rætt um hina einstöku liðu nema þá 2 síðustu.

Rafnotkun bæjar sjóðs

Um raforkugjald bæjarsjóðs má segja, að sje ekki nema eðlileg greiðsla — og það fremur lá — fyrir raforku þá, er bæjarsjóður, sjúkrahús og Hólsbú mun nota. Skal þetta sannað nokkru gjörr.

1. Til gatnalýsingar fóru s.l. ár í bænum rúmar 12 hundruð kwst. Hæfilegt gjald fyrir þær væru 5 þús. kr, þessi gatnalýsing fer vaxandi með auknum vexti bæjarins, auk þess, sem bærinn er nú víða illa lýstur. þótt Skeiðsfoss yrði virkjaður eftir 2—3 ár yrði fullkomin götulýsing það orkufrekari, að 6 þús. kr. væri sízt meira en hófleg greiðsla fyrir.

2. Rafnotkun sjúkrahússins var s.l. ár 5 þúsund kwst. og borgað fyrir kr. 2528.—

    a. Upphitun sjúkrahússins með rafmagni er sjáltsögð. Árlega er kolum eytt þar fyrir 2 þús. kr. En það sparast fleira. Vegna kolamiðsöðtvarinnar verður að hafa ársmann. Kaup þessa manns er 15 hundruð kr. fæði og þjónustu má reikna a. m. k. 9 hundruð kr. Rafhitun spítalans mundi því spara þarna 2400 kr.

    b. Sjúkrahúsið tæki að sjálfsögðu upp rafsuðu.

    c. þvottavjelar og þurkvjelar þarf sjúkrahúsið að fá og það er aðeins tímaspurning, hvenær þær koma, en til slíks þarf mikið rafmagn, þótt auðvitað geti dregist, vegna fjárskorts, að þær komi.

3. Upphitun barnaskóla og leikfimihúss er sjálfsögð. þar fara árlega í eldsneyti, yfir 2 þúsund og fimm þúsund krónur. Ræsting skóla og leikfimihúss yrði þá líka minni og ódýrari.

4. Mjöltunarrafmagn að Hóli. Af þessu er auðsætt, að þótt sleppt væri rafmagni til þvotta og þurks í sjúkrahúsinu, myndi það verða allálitlegur gróði fyrir bæinn að taka upp rafmagn, er nefnt hefir verið hjer að framan í lið 1—3, þótt bærinn yrði að greiða 10 þúsund kr. fyrir árlega. Slíkt yrði þó enginn styrkur til rafveitunnar heldur gjald og það tæpast fullt fyrir margvíslega rafnotkun. Ýmsa aðra rafnotkun bæjarins mætti nefna, eins og t. d. upphitun sundlaugar fyrir almenning, rafmagn til grjótborunar fyrir grjótmulningsvjelina og mundi grjótnámið þá svara betur kostnaði. o. fi. o. fi., enda liggur í augum uppi, að rafmagn afgangs almennri notkun, sem talsvert mun verða a. m. k. framan af, er sjálfsagt að nota til ýmsra bæjarþarfa.

Eg býst nú við, að menn spyrji, hvort víst sje, að Skeiðsfoss sje nógu stór til að virkja 12 hundruð hö. Mælingar þaraðlútandi hefir raffræðingur Ásgeir Bjarnason með höndum og mun hann á sínum tíma skýra bæjarstjórn frá þeim nákvæmlega, en eftir þeim að dæma og eftir áætlun Steingríms Jónssonar, má virkja við Skeiðsfoss meira en í 2 hundruð hö. (3-4 þús. hö.) Hvort vjer getum fengið lán til virkjunarinnar er annað mál. Allt getur strandað því. En nauðsynlegt er að hafa hugsað málið og athugað vel áður um fjárhagsafkomu fyrirtækisins, og gera tilraun til fjáröflunar. Fyrsta sporið til fjáröflunar er að fá ríkisábyrgð fyrir rafvirkjuninni. 

Ber að afla hennar sem fyrst og það á næsta þingi. þótt ekki sje fjárlagaþing. Er þess að vænta, að þingið muni veita ábyrgðarheimildina, eins og t. d. Ísafjarðarkaupstað, ekki sízt, er ríkísverksmíðjan mun njóta góðs af raforkunni og taka hana að nokkru leyti til reksturs, því að síldarverksmiðjur ríkisins hafa hag af virkjuninni. Eg er sannfærður um, að ekkert þeirra viðfangsefna, sem vjer erum nú að glíma við bænum til framfara, mun verða bænum eins mikil lyftistöng og rafvirkjun Skeiðsfoss. Auk þess sem sjálf virkjunin mundi auka vinnu í bænum mundi sjálft rafmagnið skapa margvísleg skilyrði fyrir meiri vinnu og auknum iðnaði.

8 sinnum meira rafmagn fyrir rúmlega tvisvar sinnum meira árg.

Góðir Siglfirðingar! Athugið, að fyrir rafmagn það, er vjer notum nú, 124 hestöfl, þurfum vjer að greiða um 45 þús, kr. árlega. Er þá ekki sjálfsagt að greiða rúmlega 2 sinnum meira árlega fyrir um 1 þúsund hestöfl rafmagns, og ef vjer leggjum 89 þús, kr. áætlun Steingríms Jónssonar raffræðings yfir árlegan reksturskoslnað til grundvallar, þurfum vjer ekki að greiða nema tæpl. Tvöfállt meiri fúlgu árlega en fáum 8 sinnum meira rafmagn! Er þetta ekki augljósasta sönnun þess, að gera eigi gangskör að því nú þegar að virkja Skeiðsfoss? 

Eg hefi skrifað framangreint erindi til þess að sýna fram á, að virkjun Skeiðsfoss sje eigi aðeins menningar- og metnaðarmál fyrir bæinn heldur einnig fjárhagslegt framfaraspor. Virðist mjer, að hjer að framan sje tekið þeim tökum á fjárhagshlið málsins, að hún hafi skýrst svo, að hjeðan af sje það útilokað, að menn líti á þetta sem hálfgert fjárglæfrafyrjrtæki eða loftkastala framtíðarinnar. Nútíðin er fær um að hefja verkið strax og láta það svara kostnaði, bænum og bæjarbú- um til ómetanlegs gagns og gengis.

Siglufirði, 15. ágúst 1933 G. Hannesson

--------------------------------------------------------------------------

Siglfirðingur 4. nóvember 1933

Leiðrjetting. Í grein minni um virkjun Skeiðsfoss hafði af vangá orðið ritvilla þar sem stendur að núverandi Hvanneyrarstöð og mótorstöð sje 124 hö., en þær eru aðeins 106 hö. (bruttó). Af þessu leiðir, að 1200 hö, úr Skeiðsfoss gefa 12 sinnum meira rafmagn en núverandi stöð, og þegar Hvanneyraráin er lítil verður hlutfallið enn meira. Siglufirði, 1. nóv. 1933 G. Hannesson.

---------------------

Byggingafulltrúastarfið sem byggingarfulltrúi í Siglufjarðarkaupstað er laust til umsóknar frá 1. febr. n, k. Umsóknir sendist á bæjarfógetaskrifstofuna fyrir nýár. Árslaun 1200 kr. Æskilegt, að umsækjendur kunni sem bezt skil á teikningum og mælingum. — Erindisbrjef sett af bæjarstjórn.

Skrifstofu Siglufjarðar 31. okt. 1933 G. Hannesson.