Evanger - Hluti greinar eftir Kristinn Halldórsson

Gustav Evanger og Olaf Evanger  - Leita á Heimildasíðunni

Hingað komu árið 1905 bræður tveir, er hétu Gustav og Olaf Evanger. Þeir voru ættaðir frá síldarútgerðarbænum Eggesbönes á vesturströnd Noregs, en þar átti faðir þeirra stóra útgerðarstöð. Þetta voru ungir og dugmiklir menn og þá dreymdi stóra drauma um síldina og Siglufjörð, en landnám hans var þá að hefjast af fullum krafti.

Fyrstu ár aldarinnar höfðu verið tilraunaár, þegar Norðmenn voru að þreifa sig áfram með notkun rekneta hér fyrir Norðurlandi, og árið áður hafði Mannes skipstjóri fiskað fyrstu herpinótasíldina, 300 tunna kast á Grímseyjarsundi, og var þá auðsætt að veiðitæki framtíðarinnar yrðu reknet og herpinætur og höfuðbækistöðin til verkunar aflans Siglufjörður, en landnótaveiðin fyrir austan og á Eyjafirði hafði þegar fyrir aldamótin verið farin að bregðast að miklu leyti. 

Á undan þessum bræðrum voru komnir hingað landar þeirra, Bakkevig, Söbstad, félagarnir Johan Hareide og Lars Garshol, og ennfremur H. Henriksen, og höfðu þeir allir keypt sér sjávarlóðir á austanverðri Siglufjarðareyri, norðan lóðarmarka Gnánufélagsverzlunar, er átti stóra sjávarlóð sunnan og austan til á eyrinni og náði hún suður fyrir tangann. Sjávarlóðum undir Hafnarbökkum var þá óráðstafaða, en ekki þótti tryggt að dýpi væri þar nægilegt, því síldarstöðvar þeirra tíma urðu að vera staðsettar þar sem bæði veiðiskip og flutningaskip gátu affermt og fermt framleiðsluna, því hafskipabryggja var hér engin, en upp- og útskipun á þungavöru bæði seinleg og dýr, ef flytja þarf varninginn i vöruprömmum og ferma í skip úti á sjálfri skipalegunni. 

En þeir bræður voru mjög áræðnir og stórhuga og höfðu miklar fyrirætlanir í huga og þurftu rúmgott athafnasvæði fyrir hinn fyrirhugaða rekstur hér á staðnum. Það varð því að ráði að þeir Evangersbræður tóku á leigu stóra sjávarlóð austan fjarðarins, í landi jarðarinnar Staðarhóls, er Ehr. Havsteen fyrrum faktor í Gránu átti. Þar reistu þeir síldarstöð og hófu síldarútgerð og söltun. En þeir létu ekki þar við sitja. Þeir höfðu hug á að reisa stóra og fullkomna síldarbræðslu þarna, stóra verksmiðju, búna beztu tækjum þeirra tíma. Um þetta leyti var að hlaupa mikill vöxtur í síldariðnaðinn í Noregi og voru margar bræðslur reistar þar um og fyrir 1910. En síldin hér var að jafnaði stærri og feitari en þar, og því líkleg til að vera betra hráefni í mjöl og lýsi. 

Og 1910 hefjast þeir handa um pöntun á vélum og útbúnaði til fyrirtækis þessa. Til að geta klofið hinn mikla stofnkostnað, fengu þeir bræður í lið með sér fyrirtækið Thomas Morgan & Sohn í Hamborg, og mynduðu þeir hlutafélag um bræðsluna, þessi tvö fyrirtæki, Morgan og firmað G. & O. Evanger í Eggesbönes. Félagið hét „Siglufjords Sildolje & Guanofabrik A. S.", og gekk greiðlega að reisa verksmiðjuna, en hún tók til starfa sumarið 1911, og með starfrækslu hennar hefst stórrekstur í síldariðnaði á Íslandi. Bræðslan var reist sunnan og neðan Staðarhólsins, þar sem landið nefnist einu nafni Staðarhólsengi. í lítilli kvos á milli sjálfs Staðarhóls og engisins, rennur lítill lækur, er nefnist Rjómalækur. Þaðan fékk verksmiðjan ferskt vatn. Sjálf verksmiðjan var þriggja hæða stórhýsi á steyptum grunni og var síldarþróin, steinsteypt, fyrir framan húsið og síldin flutt upp í suðukerin á þriðju hæð með færibandi. Öll íveru og geymsluhús voru reist á stóru svæði fyrir norðan og sunnan bræðsluna.

Sjávarbakkar eru þarna lágir og undirlendi nokkuð, gott dýpi við löndunarbryggjur og landrými mikið. Aflvélin var 140 hestöfl, gufuvél, er knúði pressur og kvarnir og færibönd, og ljósavél framleiddi raforku. Um þetta leyti voru fyrstu amerísku snigilpressurnar komnar í notkun í bræðslum í Noregi, og þeir bræður lögðu til að snigilpressur yrðu pantaðar, en fyrirtæki Morgans, er átti að fá til sölu síldarmjölið, hélt því fram að mjöl úr dúkapressum væri gæðameira og því verðmeira, og því fór svo að átta hydroliskar dúkapressur voru settar niður í verksmiðjuna, og skiluðu þær liðlega 800 hektólítra afköstum á dag. Snigilpressur þóttu ekki nægilega reyndar um það leyti. Að öðru leyti var verksmiðjan útbúin beztu tækjum og áhöldum, er kunn voru í slíkum rekstri á þessum árum. Fimmtíu starfsmenn unnu í verksmiðjunni og var unnið á vöktum. Að sjálfsögðu voru allir kunnáttumenn í iðnaði þessum norskir, þar sem landsmenn voru með öllu ókunnir slíkum rekstri, en margir íslendingar lærðu skjótt handtökin í þessari fyrstu stóru bræðslu, er hér var rekin. 

Hinir geðþekku Evangersbræður stjórnuðu fyrirtækinu til og með 1914, en mágur þeirra, Anton Brobakke, var fyrstu árin „kontoristi" hjá þeim, en 1915 varð hann „disponent"4) þarna og hafði veg og vanda af rekstrinum ásamt þeim. Brobakke var maður ötull og einarður, að góðu kunnur mörgum Siglfirðingum, því hann varð síðar verksmiðjustjóri hjá Dr. Paul, þýzkum manni, er reisti bræðslu norðantil á kaupstaðarlóðinni, utan við Söbstad. Evangerverksmiðjan hafði á leigu farmskipin „Marie", „Agnes" og „Argo" um lengri og skemmri tíma til flutninga á afurðum og vörum til rakstrarins, og jafnframt bræðslunni höfðu þeir bræður eigin síldarsöltun þarna svo sem fyrr segir.

Af kunnáttumönnum í síldariðnaði, er störfuðu þarna, auk Brobakkes, má nefna Arnfinsen vélstjóra, P. Vaaren og Knut Sether, verkstjóra, sá síðastnefndi með ársbúsetu sem eftirlitsmaður hér austan fjarðarins. 

Mannvirki Evangers voru stór um sig og einkar myndarleg. Geymslu- og íveruhús fyrir starfsmenn voru rammbyggð bjálkahús í norskum stíl. Bræðsla þessi var virt á fjórðung milljónar, hús, vélar og tæki, og var það geysihá upphæð á þeim lággengistímum, er hún var reist á, en ekki hefi ég getað fengið í hendur þá matsgjörð, þótt fróðlegt hefði verið á fá glöggt yfirlit um hin ýmsu tæki og matsverð þeirra. Ofurlítið þorp myndaðist þarna austan fjarðarins, og þessi byggð þarna neðst á Staðarhólsengi var hin mesta prýði bæjarins, blasti beint við eyrinni, og setti einkar reisulegan svip á hinn ört vaxandi Siglufjörð. 

Margir eldri Siglfirðingar minnast þess hve lífvænlegt var að líta austur yfir fjörðinn á kyrrum síðsumarkvöldum, þegar tekið var að rökkva, og þar gat að líta stórhýsi Evangersbræðra og ljóshafið frá því blika á lognsléttum firðinum, en gráhvítur gufumökkurinn úr þurrkurunum steig hátt í loft upp og hnikaðist upp eftir fjallinu, þar til eimyrjan dreifði úr sér uppi undir Skollaskál, — kvosinni, — er varð örlagabikar þessa fyrirtækis. Þessi bræðsla var reist með það fyrir augum að hún gæti staðið þarna um áratugi. En fáa mun hafa grunað, eða þá ekki sinnt um þá hættu er vofði yfir þessum myndarlegu mannvirkjum. Og á bjartsýnisárum eru menn fljótir að gleyma og hlusta ógjarnan á varúðartal gamalla manna. 

Og það geta liðið margir áratugir á milli þeirra náttúruhamfara er snjóflóð nefnast. En veturinn 1919 var mjög snjóþungur og þann 12 apríl féll snjóflóð mikið úr Skollaskál í Staðarhólsfjalli og olli gífurlegu tjóni á mönnum og mannvirkjum. Flóðið sópaði með sér verksmiðjuhúsinu og íveru- og geymsluhúsum og miklum birgðum af tómum síldartunnum og einum þúsund áfylltum lýsisfötum, langt út á fjörðinn, en síldarþrær og steyptar undirstöður húsanna stóðu einar eftir. Snjóflóð þetta náði allt suður að Ráeyri og varð níu manns að fjörtjóni. Meðal þeirra er fórust var eftirlitsmaðurinn Knut Sether og kona hans. Jón Jóhannesson málflutningmaður og fræðimaður í Siglufirði samdi skilmerkilega ritgerð um þessar miklu náttúruhamfarir og birti hana í tímaritinu Grímu, 18. árg., og vísast til hennar fyrir þá, er vilja vita nánari skil á þessum örlagaríka atburði. Olaf Evanger hafði á eigin spýtur reist litla síldarstöð nokkru áður, sunnar á þessu svæði, nær Ráeyri, en hún eyddist og í þessu flóði.

Bræðsla Evangersbræðra var ekki endurbyggð, en 1922 komu þeir bræður aftur á fornar slóðir og reistu síldarstöðina að nýju og komu upp lifrarbræðslu og íveruhúsum. Olaf sá þar um mikla síldarsöltun í mörg ár og firma þeirra reisti síldarverksmiðjur á Dagverðareyri og á Raufarhöfn, þær bræðslur seldu þeir svo nokkru síðar, og eru þær utan við ramma þessarar greinar. Löngun þeirra bræðra að reisa að nýju verksmiðju hér í Siglufirði brann jafnan í þeim, en minningin um reiðarslagið mikla hamlaði því að meiri háttar mannvirki risu að nýju á sjávarbökkum Staðarhólsengis. Þeir gerðu tilboð í Roaldsstöðina á sínum tíma og höfðu í huga nýja bræðslu, en tilboð Gustavs var of lágt, aðrir hrepptu þá eign. Þetta telur Olaf að hafi orðið þeim dýrkeypt mistök. 

Olaf Evanger og A. Brobakke eru nú líklega einir á lífi (1961), þeirra manna, er voru hér frumherjar í síldinni á fyrsta tug aldarinnar. Ég hef átt ánægjuleg bréfaskipti við Olaf um rekstur þeirra bræðra her í Siglufirði og í Noregi og orðið fróðari af, og nýt ég þess að þeir voru hér góðir vinir föður míns. Olaf var sá yngri þeirra, fæddur 1887, og því innan við tvítugt er hann kom hingað til að gegna ábyrgðarstörfum. Ég hefi getað sannprófað margar af frásögnum hans og verð að undrast hið góða minni hans og áreiðanleik í meðferð heimilda. Fyrirtæki þeirra bræðra í Eggesbönes fór halloka á árum heimskreppunnar. Gustav fluttist til Nýfundnalands, og þar starfaði hann og lézt þar 1954, varð 73 ára. Brobakke er á lífi, er þetta er ritað, 78 ára, en er nú hættur störfum sakir aldurs. 

Olaf fluttist til Danmerkur 1938 og setti upp lifrarbræðslu í Esbjerg og keypti og seldi fiskafurðir. Þetta gekk allvel, en fyrir nokkrum árum seldi hann eign sína og hætti starfi þessu sakir aldurs. Hann á nú búgarð og hefir ofurlitla garðyrkju sér til hugarhægðar. Hann var síðast við störf her í Siglufirði sumarið 1933. Bróðir þeirra Gustavs og Olafs, fyrrum sjómaður, og ógift systir þeirra hafa rekið verzlun og skipaafgreiðslu í húseignum fjölskyldunnar í Eggesbönes, en verksmiðja og vöruskemmur, er firmað G. & 0. Evanger átti, fóru yfir á annarra hendur. Samkvæmt yfirliti þessu, má ljóst vera, að lýsingin í upphafi þessarar greinar á hinum fyrstu bræðslum hér í firðinum á ekki nema að litlu leyti við um Evangersverksmiðjuna, sem var þeirra langstærst og stóð þeim framar hvað snertir afköst og útbúnað allan.