Hluti greinar eftir Kristinn Halldórsson

Hans Söbstad   -- Leita á Heimildasíðunni

Einn mesti atorkumaður í hinu nýja landnámi í Siglufirði í byrjun tuttugustu aldar var skipstjórinn Hans Söbstad. Hann er ættaður frá Kristiansundi í fylkinu Mæri.
Hann kom fyrst til Eyjafjarðar, er landnótaveiðin var stunduð þar, og átti þar „nótabrúk", en hingað kom hann 1904 og tók á leigu stóra og mikla sjávarlóð norðarlega á Siglufjarðareyri, norðan lóðarmarka Bakkevigs, og byggði þar strax síldarstöð og íveru- og geymsluhús.
Á þessu svæði standa nú hinar miklu byggingar Síldarverksmiðja ríkisins. Söbstad átti þrjá litla gufubáta, er báru nöfn sona hans og hétu „Haakon", „Harald" og „Erling". Þeir týndu þó fljótlega tölunni, tveir þeir fyrstnefndu strönduðu.

Síðar eignaðist hann vélskipið „Brödrene", gott og þekkt vélskip á þeim tímum. Hann hóf hér útgerð og síldarsöltun, eins og aðrir landar hans, og hann jók við bryggjur sínar og hús, því nær árlega, eftir því sem reksturinn leyfði. Atorka hans og dugnaður er mjög rómaður af öllum, er til þekktu, og það, sem einkenndi hann, var hugrekki og drengskapur. Um það bil ári eftir að Bakkevig hafði reist bræðslu hér, hóf hann að reisa samskonar fyrirtæki. En hann fór að öllu með gát, því að margar torfærur var yfir að fara.

Gamall og góðkunnur Siglfirðingur, er lengi starfaði hjá honum, m. a. sem skipstjóri á „Brödrene", Kristján Ásgrímsson frá Kambi, hefir sagt mér meðal annars um þessa bræðslu hans fyrstu árin, hvernig Söbstad reisti hana í áföngum. Hún hafði fyrst í stað ekki yfir að ráða dúkapressu né þurrkofni, heldur aðeins gufukatli. Síldin var brædd og lýsið var fleytt ofan af suðukerunum og úr einni ámunni í aðra, en sjálfu síldarmaukinu var fleytt út í tjörnina, er þá var vestan bræðslunnar, því var hent. En hann kom sér fljótlega upp dúkapressu og þurrkofni og gat þá hagnýtt síldarmaukið til mjölgerðar.

Rekstur hans jókst smátt og smátt, síldarþró var steypt, hús voru járnklædd o. s. frv., eftir því sem getan leyfði hverju sinni. 

 Eftir góðærin 1915—16 kom hann á fót tunnuverksmiðju, hinni fyrstu hér í firðinum, og var hún staðsett á neðri hæð íbúðarhúss hans og hóf tunnugerðin starfrækslu sumarið 1917. Afköstin voru talin 250 tunnur á dag. Það bagaði nokkuð hve erfitt var að fá gott og þurrt efni til smíðinnar vegna stríðsins.

Það er einnig all lærdómsríkt að kynna sér hversu fór um þennan rekstur, þennan vísi að nýjum iðnaði, sem vissulega átti fyllsta rétt á sér og var einkar nauðsynlegur fyrir síldarbæ eins og Siglufjörð, þar sem atvinnulífið var mjög einhæft og allur þorri manna gekk iðjulaus mestan hluta vetrarins. Söbstad hafði gerzt. Siglfirðingur 1910 og hafði hér fasta búsetu. Hann kunni vel við sig hér og átti marga vini, og allt aflafé hans fór til að auka reksturinn á eignum hans, og því hafði hann sterka löngun til að efna til þeirrar nýbreytni er tunnusmíðin var.

Þar að auki var ástandið í Siglufirði mjög alvarlegt þetta ár, sökum þess að norski síldarflotinn gat ekki komið hingað til veiða, vegna afarkosta Englendinga, sem kröfðust þess að norsku skipin hefðu viðkomu í enskri höfn á upp- og heimleið, en slíkt var að bjóða hættunni heim, því Norðmenn stóðu utan við stríðið. Þessum skilyrðum höfnuðu Norðmenn, allir sem einn, og síldárfloti þeirra lá í heimahöfnum, aðgerðalaus, þetta sumar. Þessi ákvörðun var þungt áfall fyrir Siglfirðinga. 

Hans Söbstad - ókunnur ljósmyndari--og

Hans Söbstad - ókunnur ljósmyndari--og

Hin mikla atvinna og verzlun og þjónusta, er Siglfirðingar létu Norðmönnum í té gegn skilvísri greiðslu, allt hvarf þetta óvænt, og menn hér fundu fyrir þeirri tómleikakennd, er þessi tekjumissir olli.

Og þær raddir, er höfðu amazt við starfsemi Norðmanna hér, hljóðnuðu nú með öllu. Aflatregða gerði og vart við sig og kol fengust ekki keypt né flutt til landsins vegna stríðsins, og jók þetta á vandræðin. Því var aðeins ein bræðsla starfrækt hér 1917, nefnilega Goos-verksmiðjan. 

Söbstad lagði nú áherzlu á tunnugerðina og hafði samið um að fá raforku frá stöðinni í Hvanneyrarhlíð, þar sem hreppsbúar þurftu ekki orku til ljósa á meðan nótt er albjört. Hann fékk þó ekki heimild til raforkunota, nema til 1. ágúst, en sendi nokkru áður beiðni um frekari heimild til að fá enn um skeið raforku fyrir tunnugerðina.

A fundi hreppsnefndar seint í júlí var samþykkt að fresta umsókn hans, og 27. ágúst er umsóknin loks tekin fyrir og henni vísað til rafmagnsnefndar hreppsins, sem svo 3. sept. synjar um raforku og ber við að mælir hafi ekki verið útvegaður, er mæli notkunina. Söbstad stóð því uppi með tunnugerðina óstarfhæfa en ærinn kostnað og þannig kól þennan iðnaðarnýgræðing í fæðingu.

Ráðamenn hér virðast ekki hafa metið alls kostar rétt þessa viðleitni til iðnaðar. Að vísu var rafstöðin lítil, en með nokkurri tilhliðrunarsemi hefði þessi rekstur getað lifað lengur og veitt drjúga atvinnu. Um þetta leyti hafði Söbstad fleiri áform á prjónunum. Hann vildi ráðast í að fylla upp tjörnina fyrir vestan hús sín og ætlaði að koma upp kaðalbraut, „snörebane", er hvíldi á stauraröð, neðan frá lóð sinni og upp í fjall og flytja þannig grjót í tunnum, er áttu með sérstökum útbúnaði að renna eftir strengnum. En einhvern veginn voru agnúar á þessu og úr framkvæmd varð ekki. Þess má geta að starfsmenn Evangers komu upp slíkri grjótferju, „snörebane", í Staðarhólsfjalli, þegar bræðslan þar austur frá var reist. Gaf sú kaðalbraut góða raun.

Hákarlaútgerð var hér enn mikil um þetta leyti, og gaf hún oft drjúgar tekjur. Söbstad gerði út á hákarl allmargar vertíðir, bæði „Brödrene" og leigubáta. Hans Söbstad var maður hár vexti og myndarlegur á velli og sístarfandi að áhugamálum, og hann var glettinn og gamansamur, ef því var að skipta, í hópi kunningja og vina. Einhverju sinni hafði einn kunningja hans orð á því að grútarlyktin úr bræðslunni hjá honum væri ekki sem bezt. „Ja," svaraði Söbstad og hugsaði sig um, „men pengenelugter ekki stygt." Skyldi þetta tilsvar ekki vera upphaf þess að Siglfirðingar fóru að kalla grútarlyktina „peningalykt?"

Þegar faðir minn, Halldór Jónasson, safnaði hér hlutafé fyrir stjórn Eimskipafélags íslands við stofnun þess, vakti það athygli hér í byggðarlaginu, hve framlög Siglunesbænda og Söbstads voru myndarleg. Söbstad kenndi sjóndepru á fullorðinsaldri, og hún ágerðist með aldrinum. En hugrekkið og atorkan virtust vaxa að sama skapi. Vorið 1919 var mikill undirbúningur undir síldarvertíðina hér í kaupstaðnum. Stríðinu og siglingateppunni var lokið og ljóst að þátttaka innlendra og erlendra skipa í síldveiðunum yrði gífurleg.

Og Söbstad lét ekki sitt eftir liggja. Þá um veturinn sendi hann „Brödrene" til Akureyrar, og var skipið endurbyggt, það var lengt, og ný vél sett í það og það var mjög álitlegt að aðgerð lokinni. 

Og hér heima lét hann reisa stóra viðbyggingu við bræðsluna og gerði ýmsar endurbætur aðrar. Var þessu að mestu lokið í byrjun júlí. Hann var þá orðinn nær alveg blindur, en hann fetaði sig upp í rjáfur og þuklaði á sperrum og stoðum til að ganga úr skugga um að vel væri frá öllu gengið. Það virtist tryggilega um allt búið. Bræðslan var nú orðið mikið mannvirki, og sænskur maður hafði boðið honum 300 þúsund krónur í eignirnar en hann ekki viljað selja. Leið nú að vertíð, og var þess beðið, að síldin færi að vaða.

En kjarkur hans var óbugaður. Í blaðinu Fram frá þessum tíma standa þessi orð: „Ekki mun kjarkur Söbstads hafa bilað meira en svo, þótt farinn sé að eldast og blindur, að strax er farið að hressa upp á sementsteypuveggi sem lítið skemmdust og mun hann strax ætla að reyna að koma upp einhverju skýli yfir verkafólk sitt og salta síld í sumar."

Hann hafði áhuga á að endurreisa bræðsluna en hafði ekki bolmagn til þess: mikill hluti af höfuðstól hans fór forgörðum í hinum mikla eldsvoða. Hann gerði út og saltaði síld næstu árin eftir brunann, en brátt lauk starfi þessa víkings, því 1921 varð hafnarsjóður eigandi lóðarinnar og þeirra mannvirkja, bryggja og platningar, er á henni voru.   

Eigi mun hann hafa farið með gildan sjóð frá þeirri sölu. Um syni hans og fjölskyldu hefir Kristján frá Kambi tjáð mér eftirfarandi: Erling starfaði hér lengi með föður sínum við reksturinn. Harald lézt 1915 og var jarðsettur hér. Pétur varð síðar verksmiðjustjóri á Hesteyri og lézt hér á landi. Kona Söbstads og Hanna dóttir hans voru á leiðinni hingað til Siglufjarðar frá Noregi þegar brann, og komu þær að húsunum föllnum, er þær stigu hér á land. Ég hefi gerzt nokkuð fjölorður um þennan landnámsmann, enda var hann einn hinna „stóru" í hinum gamla Siglufirði.

Því nær ekkert hefir verið um Söbstad ritað. Geta má þess að í hinni svo kölluðu „síldarsögu", sem gamla einkasalan sendi frá sér, er Söbstads að engu getið, en hins vegar eru þar birtar myndir af dönskum síldarkaupmönnum, er aldrei hafa hætt eyrisvirði í síldarútveg á Íslandi, og þeir örfáu menn, er lítillega hafa ritað um fyrstu bræðslurnar hérna, virðast hafa sótt fyrirmyndina í það rit: að geta Hans Söbstads að engu.

En ekki þurfa Siglfirðingar að fylgja þeirri tízku. Það er sanngjarnt að siglfirzk saga veiti minningu hans þann sess, sem hann ávann sér sjálfur. Söbstad var ættaður frá Bremnesi við Kristiansund, og þangað hvarf hann og þar lézt hann, að mér er tjáð, árið 1926. 

Kristinn Halldórsson

Myndin sýnir nefndan bruna. -  Ljósmyndin var tekin þann, 7. júlí 1919. - Ljósmynd: Sveinbjörn Jónsson Byggingameistari frá Akureyri - Ólafur Magnússon ljósmyndari (Mbl.) litaði myndina árið 1924- 
Húsið mun hafa staðið á þeim stað er húsið Síbería, sem Primex-kitosanverksmiðjan

Myndin sýnir nefndan bruna. - Ljósmyndin var tekin þann, 7. júlí 1919. - Ljósmynd: Sveinbjörn Jónsson Byggingameistari frá Akureyri - Ólafur Magnússon ljósmyndari (Mbl.) litaði myndina árið 1924-
Húsið mun hafa staðið á þeim stað er húsið Síbería, sem Primex-kitosanverksmiðjan