Hver var Ole Tynes ?

Blaðið Fram 14 júlí 1917

Hver var Ole Tynes ?

Viðtal við O. Tynæs.

Litlu eftir heimkomu O. Tynæs, fór sá er þetta skrifar til hans til þess að fá hjá honum ýmsar fréttir frá Noregi.

Tók hann vel í það og fer hér á eftir ágrip af því viðtali.

*Hvað er að frétta af norsku síldveiðaskipunum? Er útlit fyrir að þau komi hingað í sumar?

**Um það atriði hefi ég bæði illt og lítið að segja. Skilyrði þau, sem Englendingar settu Norðmönnum hér að lútandi, voru þannig, að alveg ómögulegt var að ganga að þeim.

Þeir settu t.d. upp að hvert einasta skip, fiskiskip jafnt sem flutningaskip, kæmi við í enskri höfn á leið hingað til Ísland, hvort sem þau hefðu nokkurn flutning eða ekki, svo og að Norðmenn yrðu að selja þeim síldina og flytja hana sjálfir til Englands, ennfremur að öll fiskiskipin kæmu við i enskri höfn á heimleið, að endaðri vertíð.

Þessi skilyrði töldu Norðmenn alveg óaðgengileg, þar sem jafn mikil hætta er að fara til Englands með síld, eins og nú er og þar sem stríðsvátryggingarfélögin eru farin að taka svo hátt gjald af skipum þeim, sem fara inn á ófriðarsvæðið.

Það er því alveg áreiðanlegt að ekkert einasta norskt fiskiskip kemur hingað í sumar.

Ole Tynes - Ljósmynd Kristfinnur

Ole Tynes - Ljósmynd Kristfinnur

*En eftir stríðið? Ætli jafnmargir Norðmenn komi þá ekki hingað eins og áður?

**Eftir stríðið koma Norðmenn áreiðanlega til Íslands til síldveiða eins og áður hvort þeir koma aðallega til Siglufjarðar eins og verið hefir, er ekki víst. þeir eru farnir að hugsa um aðra staði hér á landi sem jafngóðir virðast Siglufirði, - eða alt að því, - og má þar nefna Ingólfsfjörð.

Mér er kunnugt um að þangað ætla sér margir Norðmenn að stríðinu loknu, og núna liggja í Kristjaníu fullgerðar vélar í bræðsluverksmiðju jafnstóra Evangers-verksmiðjunni, sem á að setja upp á Ingólfsfirði, og vélar í aðra verksmiðju eru pantaðar nú þegar og eiga þær að vera fullgerðar í árslok 1918. þeir sem ætla að setja upp verksmiðjur þessa, ætla einnig að hafa hér selveiðistöð, því tiltölulega stutt er þaðan fram í Grænlandshaf, og þar eru selirnir mikið veiddir.

Það er því áreiðanlega röng hugmynd sem sumir virðast hafa hér, sem sé sú, að það sé óhætt að vera kröfuharður við Norðmennina, því þeir séu neyddir til að koma hingað hvort sem er. Vöxtur og velmegun Siglufjarðar og Siglfirðinga, er of mikið Norðmönnum að þakka til þess, að rétt sé að þeir séu fældir burtu héðan. Það munu Siglfirðingar finna betur þegar meiri hluti norsku síldarskipanna er farinn að halda til annarstaðar.

*Hvað gjöra nú skip þau sem hingað hafa komið?

**Þau gjöra ekki neitt, liggja flest inni á höfnum. Í Aalesund liggja nú t. d. 122 gufuskip og um 600 mótorskip og bátar, og hefir mönnunum verið sagt upp af þeim öllum. Mörg af þessum skipum hafa verið hér á sumrin. Annars hefir gengið illa að gera út skip í Noregi, vantað bæði kol og salt.

Í vor kom t.d. síldarhlaup við Noreg, var það stór síld, nærri því eins stór og íslenska síldin, feit og digur en þó alveg átulaus. Tiltölulega fá skip gátu sinnt henni, en þau fáu, veiddu vel. T. d. "Balden", sem hér hefir verið, veiddi í júnímánuði fyrir 100 þúsund kr. af þessari síld. Þessi síldartegund hefir ekki veiðst við Noreg síðan fyrir 40 árum.

*Hvernig er útlitið yfirleitt, í Noregi?.

**Útlitið er yfirleitt mjög slæmt mikið verra en hér. Uppskeruhorfur voru þó góðar, nema hvað alt var seinna en vanalega, vegna kuldanna í vor. Dýrtíð er þar mikil og margar vörur nær ófáanlegar. Frakt á kolum, milli Englands og Noregs er nú 250 til 300 kr. á smálest, en verð á þeim í smásölu er 30 kr. fyrir 100 litra eða 375 kr. smálestin, en víðast hvar eru þau þó ófáanleg.

Á rafljósastöðinni í Aalesund - er brennt koltjöru í stað kola og reynist það heldur vel. Yfir 1 miljón tunnur af síld eiga Englendingar, liggjandi í Noregi sem þeir hafa ekki enn fengið flutta á milli vegna skipaleysis.  -

En þó munu ástæðurnar vera enn verri í Svíþjóð. t. d. Hafa 42 þúsund verkamenn frá Svíþjóð komið til Noregs til að leita sér atvinnu. Er orsök þess aðallega talin sú, að þar hefir iðnaður stöðvast allmikið, vegna hráefnaskorts, og svo munu þeir vera enn ver staddir hvað matarforða snertir, heldur en Norðmenn.

*En er nokkurt útlit, fyrir að Norðmenn lendi sjálfir í ófriðinum?

**Já. Sannleikurinn er sá, að þeir hafa aldrei staðið jafn nærri því, að fara í ófriðinn eins og núna, og ber margt til þess. Síðan stríðið hófst hafa Norðmenn misst 596 skip, þar af yfir 500 gufuskip, og 1100 norskir menn hafa þar látið lífið.

Skip þessi hafa öll verið hlaðin ýmiskonar varningi, ýmist til Noregs eða þaðan. Nýlega sendi ég skip á stað til Siglufjarðar með 700 smálestir af salti 400 smálestir af kolum og um 4000 tómar tunnur.

Það var skotið í kaf nálægt Orkneyjum, en mennirnir björguðust þó af því.

Daglega koma fregnir um niðurskotin skip, og suma daga um mörg. Þetta geta Norðmenn varla þolað lengur. Og svo þegar þar við bætist að Þjóðverjar taka skip sem eru á siglingu meðfram ströndum landsins, innan landhelgi, og fara með þau til Þýskalands, og slá eign sinni á þau, þá er eðlilegt að þolinmæðin minnki.

Sem dæmi uppá þetta má nefna að nýlega var gufuskipið "Thurun," alveg nýbyggt skip sem kostaði 3 miljónir króna, á leið frá Kristjaníu norður til Finnmarken með hey og fóðurmjöl, og var það innan landhelgi. Þá kom að því þýskt herskip og skipaði þeim að fylgja sér eftir, en skipsmenn sem vissu að þeir voru í landhelgi neituðu að hlýða þessu.

Tóku þeir þýsku þá við stjórn skipsins með valdi og fluttu það til Þýskalands. Mönnunum af "Thurun" var síðan stefnt fyrir herrétt, fyrir það að hafa neitað að hlýða skipunum Þjóðverja, en síðar var þeim þó sleppt, nema skipstjóra og stýrimönnum, þeim var haldið eftir.

Skipið sjálft var einnig tekið.

Eftir því sem mér virtist voru Norðmenn, þegar ég fór þaðan, mjög nærri því að sitja ekki lengur hlutlausir, og horfa á skip sín eyðilögð og menn sína drepna og eftir að skotfæra birgðir Þjóðverja fundust í Kristjaníu eru enn meiri líkur til friðslita. –

Ég get því búist við að á hverri stundu komi frétt um það að Norðmenn séu farnir í stríðið. Þegar hér var komið viðtalinu, snérist talið að Siglufirði aftur, og ýmsu hér heima.

Spurði hann meðal annars hvernig fyrirtækið , þetta, prentsmiðjan og blaðið bæri sig, og hvernig gengi með hlutafé. Og er hann hafði fengið það svar, að rekstur blaðsins og prentsmiðjunnar myndi koma til að bera sig, að því leiti sem séð yrði, en að nokkurt hlutafé vantaði enn til þess, að fengið væri fyrir öllum áhöldum, sagðist hann skyldi leggja 100 kr, í fyrirtækið. Þessa er hér getið því fremur, sem hann var áður einn af hæstu hluthöfunum.

F. 
------- ------ -----

Hér "Tynes" kallaður Tynæs, en seinni æviár hans var hann ætíð skrifaður og kallaður Tynes (sk)

Tengill til noskrar síðu: http://alexanderroald.blogspot.com/2011_12_01_archive.html   -------------------------

Grein eftir Ole Tynes,  birt í Siglfirðing 17 og 31. mars, 8. 14. 22. og 29. apríl 1944

Skyggnzt um á sjónarhóli

MINNINGAR FRÁ FYRSTU DÖGUM SÍLDARINNAR

Vonir og spár. - Hvað er í vændum?

Þegar rætt verður hér um Siglfirðinga hina eldri, þá er átt við þá eina, er fullþroska voru orðnir um og eftir aldamótin síðustu, 1903 og þar um bil, og þegar rætt er um gamla daga, þá er átt við sama tímabil.

Hvarvetna þar sem tveir eða fleiri aldraðir Siglfirðingar hittast, verður alloft efst á baugi þessar spurningar: Var nú ekki allt einhvernveginn betra og viðkunnanlegra í gamla daga heldur en nú, á þessum síðustu og verstu tímum ? 

Ríkti þá ekki mun meiri samúð og samtök meðal almennings ?

Mér virðist, og ég veit, að svarið er og verður hiklaust játandi. Væri þá einhver framkvæmd á döfinni, ellegar að eitthvert átak þurfti að gera til almennra hagsbóta í bænum, var ekki byrjað á því að rífast um framkvæmdirnar. 

 Allir lögðu fram krafta sína og studdu hvern annan til ráða og dáða. Allir voru samtaka í því að byggja upp — reisa út rústum. Til þess gerðist aftur á móti enginn að rífa niður, það sem ávannst.

Væri einhver gleði á ferðum til að létta skapið og hrista af sér hversdagsslenið þá voru þar allir með. Væri stefnt til danssamkomu, voru þar engar klíkur á ferðinni, þangað komu allir og voru velkomnir, hver dansaði við annan, án stéttameðvitundar. Þar urðu engir bardagar né illindi og engar stefnur né réttarhöld eftir á. Þú komst eins og vinur til vina, og hvarfst þaðan á sama hátt. Eg þykist vita, að yngri kynslóðin, er þetta les eða heyrir, mótmæli þessu og segi eitthvað á þessa leið: ,,Nei, heyrðu, góði! Ætli þú sért ekki orðinn of gamall til að fylgjast með þróun hins nýja tíma! Ónei, ekki er ég á því.

En hitt er satt, að nú standa börn uppi i hári foreldra sinna. Báðir málspartar þykjast hafa é réttu að standa. En að öðru leyti læt ég hjá líða að leggja frekari dóm á þetta mál að sinni, þótt margt mætti um það segja og næg dæmi nefna, er sannað gætu mitt mál. Vitaskuld liggja til þess margar ásæður, að almenningur undi betur lífinu áður fyrr en nú á sér stað, var hamingjusamara og ánægðara.

En við skulum hafa það hugfast, að allir þeir Siglfirðingar, sem hér hafa haft búsetu síðastliðin 40 ár, og nú hafa náð sextugs og sjötugsaldri, hafa allir verið þátttakendur í hinu mikla og undursamlega ævintýri, sem óslitið síðan 1903 hefir verið að skapa þessum bæ og þessu byggðarlagi framtíðarörlög.

Atburðir þeir, er skeðu í Siglufirði á fyrstu dögum þessa tímabils ruddust fram með slíkum krafti að í öllu gnast og brakaði. Allir drógust ósjálfrátt með, enginn komst hjá því, það var ekki hægt!

Það, sem nú fór að gerast hér í Siglufirði, mætti líkja við skriðu, er brýzt niður bratta fjallshlíð. Hún er smá og afllítil við upptök sín, en vex að magni og mætti því lengra, sem niður eftir kemur og þrífur í fangs sitt allt, sem á vegi hennar verður, dautt og lifandi. Hún stöðvast ekki fyrr en hún hefir breiðzt yfir dalbotninn og mætir mótsstöðu hlíðarinnar hinum megin.

Hún hefir skilið eftir í slóð sinni djúpa gilskorninga á berggrunn fjallshlíðarinnar, sem lengi munu eftir standa sem óljúgfróð sönnunargögn um atburðina, og sem ef til vill aldrei hverfa. Ójá, þessir tímar gleymast ekki. Þetta var í rauninni bylting, er steyptist jafn óvænt yfir fólkið og þrumuskúr úr heiðríkju.

Eg vil leyfa mér að nefna sem dæmi, að 7 manna fjölskylda, hjón með 5 börn, átti ekki meiri auraráð en sem svara mundi 40—50 kr. á ári.

Ekki svo að skilja, að heimilisfaðirinn ynni ekki fyrir meiru árlangt. En vinnan var gjaldmiðill, sem gekk inn i reikning hjá Gránu til greiðslu á lífsnauðsynjum heimilisins. Vinnan var greidd í vörum. En peningar voru sjaldséðir, að minnsta kosti sem greiðsla á vinnulaunum.

En svo kom hinn nýi tími, allt í einu með sumri og sól. Ári síðar hafði þessi fjölskylda handa á milli meira en tífalda upphæð þá, er fyrr var nefnd, og það í reiðu fé. Það var eins og gluggatjöldunum hefði allt í einu verið svift frá og sólskinið flæddi inn í íbúðirnar, hverja einustu eina, hvort sem bæjarglugginn var stór eða lítill.

Ævintýrið hefst.

Veturinn var harður og langur. Fyrstu dagana i febrúar kom hafísinn og girti norðurströndina, spennti hana helgreipum, þar til í apríllok. Þá gisjaði hann frá, svo að hákarlaskúturnar gátu smeygt sér út og vestur á bóginn til að byrja vertíðina.

Fyrstu dagana í maí sást allstórt seglskip beygja hér inn á fjörðinn. Þetta var óþekkt skip, sem kom öllum að óvörum og enginn vissi deili á erindum þess. Skip þetta var fullhlaðið og stór og hár búlki á þilfari. Skipið dró að hún norska fánann með sænska sambandsmerkinu og lagðist fyrir akkeri þar fram af, sem nú eru Síldarverksmiðjur ríkisins. Nafn skipsins var Cambria. Skipið var hlaðið trjáviði. Þar var efniviður í fyrstu síldarbryggjuna og söltunarpallana á Siglufirði og fyrsta síldarsöltunarhúsið.

Uppskipun timburfarmsins gekk treglega og seint. Timbrinu varð að demba útbyrðis og leggja í flota og fleyta því þannig til lands. En að átta dögum liðnum var farmur allur kominn á þurrt land.

Skipstjóri situr nú heima hjá hreppsstjóranum til að afgreiða skip sitt til brottfarar. Hann lætur þess getið, að nú sé ferðinni heitið beina leið heim til Noregs, en þar verði skipið fermt vistum, tómum síldartunnum og salti og að því búnu verði för þess hraðað sem mest til Siglufjarðar aftur, til síldveiða.

  • „Hvernig veiðiaðferðir verða við hafðar?"
  • „Við notum reknet"
  • „Og hvar verða veiðimiðin?"
  • „Sennilega 50 til 100 sjómílur út a f Siglufirði."

En svo bætir skipstjórinn við: „En líklega verður annað skip komið hingað frá sama útgerðarfélagi, áður en ég kem aftur. Það á líka að stunda samskonar veiðar og við. Sennilega kemur þetta skip síðustu daga júnímánaðar eða fyrstu dagana í júlí."

Og er afgreiðslunni var lokið lagði Cambria úr höfn, en skildi hér eftir þrjá menn. Það voru trésmiðir, þrír feðgar. Þeir eiga að byggja húsið, bryggjuna og söltunarpallinn. Svo líður maímánuður og júnímánuður. Siglfirðingar lifðu í voninni, og lék mjög hugur á að vita, hvað úr þessu yrði. Það var eins og allir finndu það einhvernveginn á sér, að nýir og betri tímar væru í nánd og miklar lífsvenjubreytingar voru í vændum, en engum var þó ljóst í raun og veru, hvað í vændum var. 1 júnílok var bryggjusmíðinni lokið og húsið komið undir þak.

En ekki bólaði á skipinu. Menn höfðu heyrt, að það héti Marsleys. Hugir bæjarbúa voru hlaðnir ofvæni, og margskonar lausafregnir og kviksögur gengu manna á milli um þetta, sem í vændum var. Einn hafði heyrt þetta og annar hitt, og allir þóttust vita talsvert.

En að veiða síld út í reginhafi! Það var ekki vert að leggja mikinn trúnað á slíkt. Mönnum var vel kunnugt um það, að síld var veidd í lása og lagnet. Það var svo sem hægðarleikur. En að hægt væri að handsama síldina af stórskipum úti á yztu miðum, það var ekki trúlegt. Ónei! Það náði engri átt! Jæja, það var nú ekki vert að vera með neinar spásagnir og getgátur um þessa hluti. Marsleys kemur bráðum og þá hefst dansinn fyrir alvöru. Það er bezt að bíða og sjá hvað setur.

Fyrsta hafsíldin lögð á land í Siglufirði.

Tíminn líður óðfluga. Það er kominn 8. Júlí 1903. Ekki bólar á Marsleys. Undanfarið höfðu verið stillur og blíðviðri, sumarangar í lofti og sólfar mikið — sigfirzkt sumar. Heitir dagar og svalar nætur. Það gengu um það lausafregnir, að ísinn væri enn landfastur við Grímsey. En í dag er veðurbreyting í lofti Þokubólstrar leggjast á Nesnúp. Hann er að ganga til austuráttar. Það er komið leiði fyrir Marsleys, Hún kemur kannske í dag. Hver veit? Um nefndan dag var kominn stinnings kaldi á austan úti fyrir, og óx er lengra leið fram á daginn. Inni á firðinum er logn, að öðru leyti en því, að ofurlítil skinnaköst gára sjávarflötinn við og við úti í Neskrók, en svo er þar allt spegillyngt á milli.

Um miðaftansleytið flýgur sú fregn eins og eldur í sinu um allt þorpið, að seglskip sé á leiðinni vestur með Siglunesi. Hreppstjórinn kemur á vettvang með langa kíkinn sinn, sem við sáum hann svo oft með í gamla daga. Jú, alveg rétt! Þarna var skip á siglingu. En það var vitaskuld ekki víst, að það væri á leið til Siglufjarðar. Þetta gat alveg eins verið eitthvert „spekulantsskip," sem væri á leið vestur á Húnaflóa, ellegar þá frönsk fiskiskúta. Við sjáum nú til. Eftir svo sem klukkutíma verður úr því skorið, hvort skipið ætlar sér hingað.

En strákarnir höfðu engan tíma til að bíða í heila klukkustund eftir slíkri vitneskju. Þeir tóku á sprett út á Hvanneyrarströnd og fór þar fremstur Andrés Hafliðason. Hann var þá 12 ára. Að þrem stundarfjórðungum liðnum koma sendiboðarnir á harða spretti og æpa löngu áður en þeir komast í kallfæri: „Skipið kemur! Það er aðkoma! " það vill fagna sem bezt hinu nýja skipi.

Skipið mjakast ofurhægt inn fjörðinn og varpar akkerum fram undan nýju bryggjunni. Báti er skotið út frá skipinu, sem ber nafnið „Marsleys". Skipstjórinn stígur á land. Og það voru allar konur, er þarna voru viðstaddar sammála um, að skipstjórinn, sem þarna kom neðan bryggjuna, væri sá fallegasti Norðmaður, sem nokkurntíma hefði stigið fótum á siglfirzka grund. Og ekki skal ég rengja þær um það. Hann var um þrítugt, hár og íturvaxinn, ljós yfirlitum og norrænn á svip.

Hann hét Ole Myrset. En þarna á malarkambinum voru samansafnaðir því nær allir íbúar Siglufjarðar, ungir og gamlir, enda var nú fólksfjöldinn ekki mikill hér í þá daga. Allir vildu heilsa hinu nýja skipi. En hreppsstjórinn var þá ekki kominn á vettvang.

Skipstjórinn kastar kveðju á bæjarbúa, og þeir bjóða hann velkominn, enda þakkar hann þeim alúðina. Hann spyr eftir lénsmanninum. Menn áttuðu sig ekki á því alveg strax, að þar var um að ræða hreppstjórann. En fljótt kom þó í ljós að svo var. Gekk þá fram Jón gamli Skúlason, og lét á sér skilja, að hann væri fús á að leiðbeina skipstjóra á fund yfirvaldsins. Jón gamli var harla frumstæður skringikarl.

Hann var eineygður og rýndi jafna fast með þessu eina auga og var engu líkara en að hann hefði alltaf eitthvað „í sigti", rétt eins og þegar menn miða skotvopni. Enda var hann jafna nefndur Sigtesen af Norðmönnum. Ókvæntur var Jón gamli og víst hvorki læs né skrifandi. Hann bjó í kothreysi er hét Vindheimar og var á líkum slóðum og nú er kirkjan.

Er skipstjórinn var í þann veginn að ganga á fund hreppstjórans var einhver sem innti hann eftir því, hvað það væri, sem skip hans hefði á þilfari og glitraði svo mjög.

Brosti þá Myrset og svaraði að það væri síld. — Ha, síld? — Já. Við létum reka í fyrrinótt og fengum þá 11 tunnur og svo létum við reka aftur í nótt og fengum þá 60—70 tunnur, og er það reyndar of mikið, til þess að við komum því óskemmdu í salt hjálparlaust. Við ætluðum því að reyna að fá hér hjálp til þess.

Að stundarkorni liðnu kemur Jón Skúlason aftur með miða frá hreppstjóranum þess efnis, að afferming megi hefjast þegar í stað. Og það er heldur ekki beðið boðanna. Kringum nýju bryggjuna iðar allt af starfsömu fólki, ungu og gömlu, konum og körlum. Það er eins og skipið spúi úr sér tómum tunnum og salttunnum niður í bátana og óslitinn tunnustraumurinn liðast upp eftir bryggjunni, og snjóhvítir tunnustaflar og salttunnuflekkir þjóta upp við söltunarpallinn. Og svo kemur það, sem mest er um vert:

Löndun fyrstu hafsíldarinnar hefst hér í Siglufirði. 1903

Aðferðin við löndun síldarinnar er þannig, að þrír menn bera milli sín tvo bala fulla af síld. Og nú er kvenfólkið kallað í síldina í fyrsta sinni. Þær bera sig illa, því þær hvorki eiga né hafa neitt til neins. Þær vantar stígvél, olíusvuntur, olíuermar og kverkunarhníf (þá voru klippurnar ekki komnar til sögunnar). En skipshöfnin af Marsleys léði kvenfólkinu þetta allt saman, nema stígvélin. Og svo var farið að kverka og allt gekk með mestu prýði. Skipstjóri lætur flytja sig aftur á skipsfjöl. Í fylgd hans og boði eru þeir hreppstjórinn og séra Bjarni. Það á að gæða þeim þar á norsku ákavíti, og hressandi norsku öli.

Litlu síðar kemur maður nokkur fram á bryggjuna og óskar viðtals við skipstjórann. Skipstjórinn gekk á þiljur til viðtals við manninn, en það var sendiboði frá Gránufaktornum með skilaboð þess efnis, hvort skipstjóri vilji ekki að Grána tæki að sér að annast um alla af greiðslu skipsins og greiði öll gjöld þess til bráðabirgða.

Þetta átti skipstjóri bágt með að skilja. Ókunnugur maður kemur með tilboð — já næstum beiðni — frá ókunnu fyrirtæki þess efnis að það tæki að sér allar greiðslur fyrir skipsins hönd.

En skýringin á þessu kemur neðan úr káetunni: Þetta gerir faktorinn í því skyni, að hann og verzlun hans sitji að öllum viðskiptunum og fái til þóknanlegra umráða allt vinnulaunaféð, svo það verði eigi greitt beint til verkafólksins.

Er skipstjórinn er kominn í skilning um þetta verður hann öskuvondur og næstum ósvífinn í garð sendiboðans. Hann biður að heilsa faktornum og skila til hans frá sér, að hann ætli sér sjálfur að greiða fólkinu vinnulaunin, því að hann hafi sjálfur beðið það um hjálp við söltunina, en hvað það geri svo við sín vinnulaun komi sér ekki við.

Klukkan eitt miðnættis er fyrsta siglfirzka hafsíldin komin í salt. Fólkið er að hætta og þvo sér og þrifa sig. Þá kemur skipstjórinn með tvær litlar skinnskjóður. Hann ber sína í hvorri hendi, sezt á tóman síldarstamp og hefir hreina heiltunnu fyrir greiðsluborð. Og þarna greiðir hann fólkinu laun þess upp á eyri í glerhörðum peningum. Þetta var nýlunda í Siglufirði. Hver gengur til sinna heimkynna í blíðu sumarnæturinnar í þann mund er nætursólin hellir geislaflóði yfir bæinn og gerir hverja rúðu að lýsigulli.

Á morgun er helgidagur. Þetta er sunnudagsnótt. Nú eru komnir peningar inn á hvert heimili á Siglufjarðareyri.

Allir leggjast til hvílu í friði og kyrrð sólskinsnæturinnar. Það er einhvert öryggi og sælublandin von í hverju brjósti. Menn sofna með bros á vör. Það er kominn nýr dagur — nýi tíminn hefir haldið innreið sína í þennan litla bæ norður við heimskautsbauginn.

—oOo—

Það hvílir sólgullin kyrrð og friður yfir litla þorpinu. Siglufjörður er í fasta svefni. Þá gellur allt í einu við glaðvært hundagellt, sem rýfur kyrrðina. Það er hundajómfrúin Stella frá Hvanneyri, sem hefir gefið sig á tal við hinn gjörvulega skipshund frá Marsleys Hann hét Trusk.

Hún er víst að bjóða hann velkominn til Siglufjarðar. Þessi fyrstu samfundir enda á þá lund, að Setta býður Trusk heim á prestssetrið. En kunningsskapur þessi og kærleikur höfðu sínar afleiðingar. 1 nóvember eignaðist jómfrú Setta sjöbura. Geri þær Amerísku betur! Öll voru börnin hin efnilegustu, og ekki leyndi það sér á svip þeirra og yfirbragði, hver var faðirinn. Það var enginn annar en Trusk. Varð þetta upphaf mikillar ættkvíslar, og segir fátt af henni, að öðru en því, að einn var sá afsprengur hennar, er frægur varð, og brá frá honum ljóma á alla ættina.

Það var hundurinn Fílos, sem víðkunnur varð fyrir dyggðir sínar og skarpar hundsgáfur. Væri hægt af þeim, er bezt þekktu og vel muna, að skrifa stóra bók um Fílos. Hann mun lengi verða talinn skarpvitrastur allra hunda, sem gengið hafa fjórum fótum í þessum bæ.

Sunnudagshelgi.

Það er helgur hvíldardagur. Sunnudagur með sólfar og sunnanblæ, og djúpblár heiðsumarhiminn hvelfdist yfir fjörðinn litla milli háu fjallanna. Austanvindurinn; sem var í gær, hefir lygnt og þokubólstrarnir eru horfnir af fjöllunum.

Yzt við hafsbrún getur að líta tvo mikla borgarísjaka, er rekur austur með fallinu. En þegar líður að kvöldi eru þeir horfnir úr augsýn. Norðan undir einum kofanum á Eyrinni stendur húsbóndinn og 12 ára gamall sonur hans. Bóndanum verður starsýnt á veiðiskipin norsku, er liggja þarna í blíðviðrinu.

 „Jæja," segir bóndi. „Norðmennirnir eru þá ekki farnir út ennþá." „Hvert?" spyr pilturinn. „Út á veiðar, til að ná í síldina," svarar faðirinn. „Nei, pabbi," svarar pilturinn. „Eg veit hvernig stendur á því. Norski drengurinn, sem ég var með í gær, sagði mér, að Norðmenn færu aldrei á veiðar á sunnudegi, því að það væri synd. En heyrðu, pabbi. Er þetta satt, að það sé synd að fara á veiðar á sunnudögum?" „Ja-á," svarar faðirinn dræmt. „Hefur þú nokkurntíma verið að veiðum á sunnudögum?" spyr drengurinn. „Ójá. Það hef ég nú gjört," svaraði faðirinn.

 Samtal feðganna varð nú eigi lengra. Húsmóðirin kallar þá til máltíðar. Þeir fá steikta hafsíld, er fengin var í gærkvöldi hjá norsku veiðiskipunum. Sú máltíð var ódýr. Það hvílir, að því er séð verður, ró og friður í litla fiskiþorpinu, Siglufirði. Þetta litla þorp er næsta óþekkt, þú hefur að þessu sjaldan heyrt á það minnzt í ræðu né riti af þeirri einföldu ástæðu, að þar gerist aldrei neitt, sem vakið gæti sérstaka athygli, eða talizt fréttnæmt.

Í dag eru menn ekki að ræða um hákarlinn og miða tekjurnar við tölu lifrartunnanna. Ónei. Nú er ekki um annað rætt en síld og svo og svo margar tunnur síldar. Kvenþjóðin ræðir um það, hve Ingibjörg hafi kverkað í margar tunnur, og hve Anna hafi haf tmargar, ellegar Guðrún á Kambi. „Þær höfðu allar fleiri tunnur en ég," sagði ein. „En ég skal lofa sjálfri mér því, að í næstu söltun skulu þær ekki fara upp fyrir mig, og ekki bera meira úr bítum."

Það er komið kapp og nokkurs konar veiðihugur í „kerlingarnar." Nú er klukkan orðin hálfellefu þennan sunnudagsmorgun. Kirkjuklukkurnar hringja til hámessu í gömlu Siglufjarðarkirkjunni.

Tveir tugir ungra Norðmanna ganga í guðshúsið. Hinn elzti þeirra er skipstjórinn, þrítugur. Þeir setjast allir austan megin í framkirkjunni. Presturinn og prestsfrúin ganga inn. Norðmennirnir standa allir upp til að sýna þjóni kirkjunnar og frú hans tilhlýðilega lotningu. Prestshjónin heilsa þeim öllum með handabandi og bjóða þá velkomna til Siglufjarðar. Þeir þakka - hrærðir þessa vinsemd.

 Guðsþjónustuna og ræðu prestsins skilja þeir ekki, eða að minnsta kosti mjög takmarkað. En sönginn skilja þeir þeim mun betur, að minnsta kosti lögin. Þetta eru sömu sálmalögin, sem sungin eru í kirkjunni þeirra heima.

 Á mánudagsmorgun fer Marsleys út til veiða. Nú líður svo fram júlímánuður, og kominn 28. — Cambria er löngu komin og mörg fleiri skip, en búizt var við í fyrstu. Þar á meðal þrjú norsk skip, er ráðgert var að lægi við í Raufarhöfn um vertíðina. En þar um slóðir reyndist þá síldarlaust. Skipin koma og fara og sé veiðin mikil, fá skipverjar mannhjálp frá landi til að koma síldinni í salt, en sé veiðin lítil notast þeir við þann mannafla, er fyrir var á skipinu.

Svífur að hausti.

Tíminn líður fram eins og straum hörð elfur. Nú er komið fram í síðari hluta september. Öll norsku skipin eru lögð af stað heimleiðis fullhlaðin, nema eitt. Fyrsti norðangarðurinn er liðinn hjá. Hann kom óvenju snemma. Hann skall á 6. september. Hann breytti grænum lit fjallahlíðanna í gulan fölnunarsvip, og fjallahnúkarnir földuðu hvítu. Veturinn var á næstu grösum.

Í dag er 22. september. Klukkan er 2 eftir miðnætti. Niður á malarkambinum, þar, á sama blettinum og þorpsbúar stóðu í öndverðum júlímánuði til að fagna fyrsta síldarskipinu, stendur nú allmikill flokkur karla og kvenna í hátíðaklæðum. Fólk þetta kemur af kveðjudansleik, er haldinn var skip verjum af Marsleys, sem í nótt leggur af stað heimleiðis. Fólkið er þarna komið til að kveðja skipshöfnina. Marsleys hefur þegar undið upp segl og létt akkerum, og sígur nú ofur hægt fyrir léttum kalda út af legunni.

Í myrkrinu og næturkyrrðinni berast til fólksins á malarkambinum tónar einfaldrar harmoniku. Ýmist hljómar lagið Eldgamla Ísafold ellegar „Ja, vi elsker " Það er brytinn á Marsleys, er leikur, og hann hafði líka leikið fyrir dansinum fyrr um kvöldið.

Tónarnir dofna meira og meira. Brátt var ekkert að heyra nema veikan seiminn af örlitlum bárunum, er þær brotna út á Hvanneyrarrifnu og deyja.

Fólkið fetar sig heim í septembermyrkrinu neðan frá malarkambinum, og háttar í rúm sín. Allir sofna með þá sömu ósk í brjósti og sömu bæn á vör, að Marsley gangi allt að óskum á heimleiðinni.

Úti á nyrzta odda malarkambsins standa tveir ungir elskendur. Þau hafa skilið sig frá hópnum og leitað einverunnar, er allir aðrir hlýddu á hljómana frá Marsley, sem nú eru dánir út í fjarlægðinni. Unga stúlkan snýr sér allt í einu að unnusta sínum, slöngvar örmum sínum um háls hans og hjúfrar sig upp að brjósti hans, og kyssir hann heitum, föstum kossi. Svo sleppir hún tökunum, reigir höfuðið og hristir það.

Hún segir: „Jæja, nú hef ég unnið mér inn í sumar jafnmikið og við urðum ásátt um að eignazt, áður en við giftum okkur. Og nú getum við gift okkur. Þetta kom piltunum alveg á óvart. Hann varð hálfhvumsa við. „Þú heyrðir hvað norski skipstjórinn sagði," svaraði hann. „Hann fullyrti, að næsta sumar kæmu hingað tífalt fleiri skip en hér voru í sumar. Ef við þá erum laus og liðug, eru líkindi til að við innvinnum okkur tífalt á við það, sem okkur áskotnaðist í sumar. Það getur meira að segja vel verið, að okkur auðnist þá að byggja okkur dálítið hús."

„Ja-á," sagði stúlkan. Það var einhver efi í svipnum. Hún strauk yfir bringsvalir sér með hendinni. Eg er ekki viss um að þetta bíði nú þangað til." Hún var ekki grunlaus um að hún gengi með barni. Það gat vel verið. Hún var þó ekki viss um það, þótt henni þætti það líklegt. Það var ekki siður í þá daga að hlaupa til læknis og láta hann skera úr um hlutina.

Pilturinn svaraði og strauk henni hóflega um kinnina: „Ef það kemur í ljós, að eitthvað slíkt sé í vændum, þá er sjálfsagt að við giftum okkur áður en það kemur." Þetta var útrætt mál. En á leiðinni heim urðu þau ásátt um það, að hvað sem í skærist skyldi hvorugt binda sig vistráðum lengur en til 14. maí næsta ár.

Veturinn kom. Á mánabjörtum vetrarkvöldum, þegar gott var færi, sáu þorpsbúar elskendurna tvo vera í óða önn við að aka grjóti utan frá malarkambi og suður á Eyri, þar sem þau áttu byggingarlóð. Þetta grjót átti að verða í grunninn undir framtíðarheimili þeirra. Og óskir þeirra og vonir rættust. Húsið var byggt á næsta sumri og hausti. Það var fyrsta húsið, er byggt var hér fyrir norska síldarpeninga. En þau komu mörg á eftir.

Þessi vetur var óvenju harður, og mun harðari en veturinn næsti á undan. Hafísinn kom fyrstu daga febrúarmánaðar, eins og árið áður, en nú voru frosthörkur mun meiri, og ísinn losnaði ekki frá landi fyrr en í maí, og fyrr komst ekkert skip á veiðar.

Hreppstjóranum bárust bréf frá Noregi einhverntíma í marz, þar sem frá því var skýrt, að tvö þeirra skipa, er síldveiðina hefðu sótt frá Siglufirði um sumarið, hefðu farizt með allri áhöfn, — að líkindum í óveðrinu 6. september. "

Og það er rétt að taka það fram hér, að þrjú árin í röð, 1903, 1904 og 1905 skall hér á hinn 6. september og það svo að segja á sama klukkuslagi fyrri hluta dags, fárviðri af útnorðri.

En þó mun veðrið 6. sept. 1905 hafa verið læsilegast. Þá rak á land mörg skip og eitt skipið fórst alveg, fram undan Staðarhóli. Eitt af skipum þeim, er hér strönduðu þá, var Olivetta, og var hún seld á uppboði og var lengi skrásett héðan, en nú mun hún flutt til Stykkishólms. Mörgum þótti sem eigi væri einleikið með þessi 6. septemberveður og að minnsta kosti fengu Norðmenn mestu ótrú á þessum degi, svo að bæði 1906 og 1907 sigldu öll norsk veiðiskip í höfn að kvöldi þess 5. sept, og jafnvel þótt gott væri veður og útlit fyrir blíðviðri. En síðan 1905 hefur eigi svo mér sé kunnugt geisað hér fárviðri þennan mánaðardag.

Veturinn leið og aftur kom sumar í Siglufjörð og færði nýjar vonir og ný lífsviðhorf. Það reyndist líka rétt er norski skipstjórinn sagði, að hingað komu tífalt fleiri skip þetta sumar, því að nú sóttu hingað til veiða um eitt hundrað skipa og sum stór, sem láu hér og keyptu síld af veiðiskipunum og söltuðu á skipsfjöl úti á höfn og þar hittum við enn ungu stúlkuna og unnusta hennar, sem við kynntumst haustið áður Þau voru á stanzlitlu ferðalagi milli síldveiðiskipanna og lands.

Það er líka goldið 10 aurum hærri söltunarlaun á skipsfjöl en í landi og auk þess fá þau fæði þar. Þessi unga stúlka sagði mér það, að oft hefði hún sofnað fram á síldartunnuna sem hún var að salta í, oft eftir sólarhrings látlaust strit. Og þá dreymdi hana lítið hús, sem hún átti sjálf og svo vaknaði hún, tók til óspilltra málanna við söltunina og vann og vann þangað til svefninn sigraði hana á nýjan leik. Hún hafði, og þau bæði, sett sér takmark er keppt skyldi að, og því takmarki varð náð.

Og Siglufjörður varð frægur, og hann varð meira. Hann varð alræmdur. Hann eignaðist fjölda öfundarmanna, óvina, andstæðinga. Enginn staður hérlendis var rægður jafn greipilega og enginn staður jafnvandlega níddur niður í skarnið. Og sögurnar flugu á vængjum lýginnar og rógsins út um landsbyggðina. Þær komust „inn á hvert heimili" og jukust og margfölduðust og urðu svo ægilegar, að dygðuga borgara hryllti við slíkri ógn, eins og vonlegt var.

Og sögurnar bárust alla leið til eyrna hinna háttvirtu og hávitru löggjafa, er sátu á bekkjum Alþingis með geislabaug óskeikulleikans um höfuð sér, allt fyrir náð sinna kjósenda. Og þeir hristu hin skarpvitru höfuð sín og blöskraði spillingin, og þeir allraheilögustu ásettu sér að frelsa þjóðina frá síldarvoðanum, og þurrka þessa sódóma út af landabréfinu. Hér áttu manndráp að vera daglegir viðburðir. Og sögumennina munaði það engu, þótt þeir dræpu tvo og upp í þrjá á sérstökum tyllidögum.

Aldrei linnti hér blóðugum bardögum og ofdrykkju allan sólarhringinn. En verst fór þó kvenþjóðin út úr þessu. Siglfirzkt kvenfólk og aðkomustúlkur er unnu hér við síldverkun, voru hispurslaust stimplaðar skækjur. Allar áttu þær að vera óléttar eftir hverja vertíð og löðrandi í kynsjúkdómum. Og skáldin fylltust heilagri andagift og helltu sér yfir ósómann með dæmafáum hátíðleik og viðbjóðshrolli í hverjum pennadrætti.

Vitaskuld varð því eigi með öllu neitað, að hér var talsvert um drykkjuskap og sjómönnum lenti saman í skærum, sem gáfu þeim glóðaraugu og timburmenn. En hér var gerður úlfaldi úr mýflugu og ein lítil fjöður varð að fimm hænum. Þetta var eigi ósvipað eggjunum hans Nasreddins. Þar varð eitt egg að 699.

Enda hjálpaðist svo gott sem öll þjóðin að þessu og vitringarnir á Alþingi hlupu undir bagga og svo náttúrlega blaðamennirnir, eins og þeirra var von og vísa.

Hinu var ekki jafn skelegglega á lofti haldið, sem þó var sannleikur, að stúlkurnar innunnu sér meira hér á þrem mánuðum en þær höfðu áður gert á þrem árum eða fjórum.

Hér var maður einn við síldarvinnu í fjögur eða fimm sumur og með honum tvær dætur hans, sem vitanlega urðu fyrir sömu álygunum og aðrar kynsystur þeirra og fengu sama vitnisburðinn og óorðið. Þótti föðurnum svo nærri gengið sóma, og heiðri dætra sinna og sjálfs sín af þessum orsökum, að hann lét þær ganga undir læknisskoðun og reyndust þær fullfrískar og alheilbrigðar.

Var svo ráðinn málflutningsmaður og ráðstafanir gerðar til málshöfðunar gegn rógberunum fyrir æruspjöll. En þá kom annað hljóð í strokkinn.

Rógberarnir skriðu í felur, en þegar höfðu verið undirbúnar á annað hundrað stefnur á nafngreinda aðila að róginum.

Sagt var, að mál þetta væri þaggað niður og sóknarprestur hefði verið beðinn að ganga um sættir í kyrrþey. En ekki veit ég sönnur á því. En hitt var satt, að ekki varð meira úr þessu stærsta hneykslismáli, sem nokkurntíma hefur komið upp hér. Eftir þetta slæfðist nokkuð rógburðurinn, að minnsta kosti um einstakar persónur.

Maður nokkur skrifaði grein í blaðið Norðurland á Akureyri, að samkvæmt frásögnum þeim, er gengi af ófremdarástandinu á Siglufirði, þá væri réttast vegna landsins í heild og sérstaklega Siglufjarðar, að bannaðar yrði með lögum allar síldveiðar og öll síldarverkun á Siglufirði og fjörðurinn stranglega einangraður fyrir öllu síldarathæfi, og Norðmenn gerðir landrækir með alla síldarstarfsemi og þeim bannaðar síldveiðar og síldin látin „sigla sinn sjó". Siglfirðingar gætu hér eftir eins og hingað til látið sér nægja með há karlinn og heyskapinn, o.s. frv.

En þrátt fyrir alla mótspyrnu, hindranir og róg í garð Siglufjarðar, óx honum jafnt og þétt fiskur um hrygg og tók skjótum og hröð um þroska. Húsin og bryggjurnar þutu upp og fólkstalan jókst árlega frá 2 og upp í 3 hundruð. Þar skapaðist gróandi líf, sem enginn megnaði að bæla né kæfa.

Hafliði Guðmundsson, hreppstjóri.

Á þessum árum voru það einkum tveir menn er settu svip sinn á bæinn, og unnu óeigingjarnt og mikið starf, er skapaði staðnum álit og frægð langt út fyrir íslenzkt umhverfi. Þessir tveir menn voru þeir, séra Bjarni Þorsteinsson og Hafliði Guðmundsson, hreppstjóri, en hinn fyrrnefndi var líka oddviti hreppsnefndar.

Hafliði var, eins og hann kom mér fyrir sjónir fyrir 37 árum, þrekvaxinn meðalmaður, hraustlegur og burðulegur með jarpbrúnt alskegg, sem þá var orðið dálítið hæruskotið. Hann var alþýðunnar maður í þess orðs fyllsta og bezta skilningi. 

Og þegar einhver kynntist honum fyrir alvöru fann sá hinn sami fljótt, að þar var maður, er hann gjarna vildi eiga að vini og vera samvistum við. Hann var góðhjartaður og höfðingi í lund. Og góðvildin og manngæzkan skein út úr skeggjuðu andlitinu.

Margur leitaði á hans fund með sorgir sínar og áhyggjur og spurðu hann ráða er mikils þótti með þurfa. Og engan mann lét hann synjandi frá sér fara, því allra manna vandræði leysti hann með einhverju móti svo betur þótti en áður. Orðtak hans var ævinlega: „Það er stórartað!" Já, er það ekki stórartað!" Honum þótti gott að fá sér staup og bezta guðaveig hans var norskt Loytens- ákavíti, ellegar gott danskt Kornbrennivín. Kampavín kallaði hann súrblöndu. Ekki var með sanni sagt að hann drykki of mikið — og ef til vill heldur ekki of lítið. Hver maður elskaði hann og virti, bæði landar hans og útlendir menn, og þeir mest er þekktu hann bezt. Norðmennirnir elskuðu hann, og hann þá, enda þótt þeir gerðu honum oft erfiðara fyrir en þeir vildu gert hafa.

Í fjölda ára var hann eina yfirvald staðarins, og átti þess vegna miklum og ábyrgðarfullum störfum að gegna. Hann varð að afgreiða hvert skip til komu og brottfarar, og frá því í maí og til októberloka urðu skip þessi oft á fimmta hundrað. Voru það líklega tvöfalt fleiri afgreiðslur en allar aðrar íslenzkar hafnir höfðu samtals að meðtaldri Reykjavík á sama tíma. Hann innheimti öll hafnargjöld og, alla inn- og útflutningstolla o. s. frv.

En þetta olli honum ekki mestum örðugleikunum og erfiðinu. Nei, en það var löggæzlan. Samkvæmt embætti sínu, var hann hvortveggja í senn, lögregluþjónn og lögreglustjóri. Það var hann, sem átti að halda hér öllu í skefjum, stilla til friðar og skapa borgaralegt öryggi í þorpinu og sjá svo um að enginn lögbrot væri framin.

Hér var í þá daga hægt um hönd að afla sér gnægða áfengis. Þá var slík vara ódýr. Þá fengust 50 flöskur af brennivíni fyrir sömu upphæð og nú kostar ein flaska af „Svartadauða", og miklu betri tegund, en „Svartidauði" Áfengisverzlunarinnar er.

Þetta ástand margfaldaði auðvitað erfiðleikana við löggæzluna. Einn maður átti að halda slíkri launverzlun í skefjum. Menn geta nokkurn vegin getið sér til hve erfitt slíkt starf hlaut að vera einum manni, sem hniginn var á efra aldur, er það er tekið með í reikninginn, að yfir síldarvertíðina dvöldust hér um þrjár þúsundir manna og þar af að líkindum um 2000 Norðmenn. Af þeim var rúmlega helmingur 17 til 25 ára, og flestir ófyrirleitnir, og kærðu sig kollótta hvort þeir sukku eða flutu, og meiri hlutinn drykkfelldur og gjarn til grárra leikja.

Þeir, sem muna þessa tíma og bera þá saman við ímyndaða eftirlitsþörf nú og horfa á 6 til 7 einkennisklædda lögreglumenn ganga fram og aftur um Aðalgötuna, þeim verður það á að bera saman ástandið nú og þá, og þeim verður áreiðanlega tíðhugsað til Hafliða, gamals manns, sem einn átti að vinna meira starf en nú er ætlað 6 til 7 fílefldum mönnum á bezta skeiði. Og þá verður þeim hinum sömu á að spyrja sjálfa sig:

Hvað olli því, að allt gekk þá jafnvel og raun var á ? Svarið verður vafalaust það sama hjá öllum er til þekktu: Því olli hin óvenjulega manngæzka og góðvild Hafliða. Þessir skapkostir orkuðu þannig á hugina, að allir elskuðu manninn og virtu í senn, svo að enginn, vitandi vits, gerðist til þess að brjóta á móti skipunum hans, og ef svo vildi til, að einhverjir væri svo langt leiddir, að þeir skeyttu hvorki boði hans né banni, þá nýttist þeim sá yfirgangur til engrar hlítar, því að þeir, er Hafliða fylgdu að málum voru ævinlega í stórkostlegum meiri hluta.

Eg vil leyfa mér að nefna hér eitt dæmi um það, hvernig Hafliði rækti sitt lögreglustjórastarf, og mætti þó nefna ótal mörg fleiri. Eitt sumarið kom hingað norsk skonnorta frá Stavangri með kolafarm og átti að hlaða hér síld til útflutnings. Skipstjórinn hét Tride og var að mörgu misendismaður. Matreiðslumaður skipsins var piltur, óharðnaður og kornungur. Hann var rétt nýfermdur, er hann réðist á skip þetta, eða tæplega 15 ára.

Hann hafði aldrei fyrr farið úr foreldrahúsum. En hann varð að freista þess svo fljótt sem verða mætti að bjarga sér sjálfur, því móðir hans var fátæk ekkja. Dag nokkurn kemur skipstjóri þessi heim til Hafliða og tilkynnir honum, að sér hafi horfið veski með 500 krónum, og það með, að drengur þess sé hinn eini, er valdur geti verið að hvarf i veskisins og hann muni hafa stolið því.

Hafliði bað skipstjórann að senda drenginn heim til sín, og einn skipsfélaga hans fylgdi honum heim til yfirvaldsins. Hjá Hafliða var þá staddur séra Tómas. Hafliði sagði nú drengnum hvað hann væri ákærður um, og bað drenginn að skýra sér satt og rétt frá öllum málavöxtum. Veslings drengurinn var svo óttasleginn og yfirkominn, að hann kom ekki upp nokkru orði. Og gekk svo um stund. Honum lá við yfirliði og varð að færa honum vatn til þess að hann gæti jafnað sig ofurlítið. Loks gat hann komið fyrir sig orði, og sór og sárt við lagði, að hann væri alsaklaus af þessum áburði. Og loks bugaðist hann og fór að gráta. Hafliði leitaðist við að hugga sveininn, sem trúði þá yfirvaldinu fyrir því, að skipstjórinn hefði misþyrmt sér og hótað að fleygja sér fyrir borð á heimleiðinni o. fl. þessu líkt.

Hafliði sendi nú eftir skipstjóra og tilkynnt honum, að hann væri orðinn þess fullviss, að sveinninn væri saklaus. Skipstjóri varð öskuvondur og viðhafði ósæmilegt orðbragð. Skipið átti að láta úr höfn um nóttina, en er leggja átti af stað fannst drengurinn hvergi. Öll skipshöfnin, og allir, er til málanna þekktu í landi, töldu víst, að drengurinn hefði annaðhvort viljandi eða óviljandi fallið útbyrðis um nóttina og drukknað. Og sakir sjóprófa, er haldin voru út af þessum atburði, tafðist skipið hér í tvo sólarhringa. Upplýstist þá í prófum þessum, að drengurinn hafði sætt miklu verri meðferð en hann hafði sagt hreppstjóranum.

Svo lét skipið úr höfn. En er skipið var farið, kom drengurinn í leitirnar. Hann hafði strokið af skipinu um nóttina og flúið fram í Skarðdalskot og hafzt þar við í felum í þrjá sólarhringa og hvorki fengið þurrt né vott, því að hvergi þorði hann að gefa sig fram meðan hann sá að skipið var enn í höfn. En nú kom hann og spurði eftir „lénsmanninum". En hann var þá ekki heima, en drengurinn fann hann hjá Edwin Jacobsen. Er fundum þeirra bar saman, féll hann um háls Hafliða og bað hann líknar hágrátandi. „Já, ekki þarft þú að óttast mig," sagði Hafliði. „Já, er það ekki stórartað, að þú skulir vera lifandi. Við héldum öll, að þú værir drukknaður." Og drengurinn sagði honum allt af létta um flótta sinn.

Að því búnu tók Hafliði drenginn heim til sín. Þar var hann látinn þrífa sig og klæddur í hrein og góð föt yzt sem innst og um nóttina svaf hann í herbergi með Andrési syni Hafliða og Ólafi Vilhjálmssyni. Það var vel séð fyrir heimför drengsins og honum fengið far með gufuskipinu Glyg, en því stjórnaði Iversen skipstjóri. Drengurinn hafði með sér bréf rá hrepp stjóranum til lénsmannsins í heimabyggð sinni og annað bréf frá frú Indu Tynes til móður hans. Bæði þessi bréf skýrðu nákvæmlega frá málavöxtum og færðu sönnur á, að allir, sem til þekktu, teldu piltinn alsaklausan af áburði skipstjórans. Enda kom brátt í ljós að svo reyndist.

Þegar skonnorta þessi kom heim var hún seld. Hinn nýi eigandi lét setja mótorvél í skipið og var þá rifið skilrúmum milli lestarinnar og káetu skipstjóra, og þá fannst veskið. En í því voru ekki fimm hundruð krónur, eins og skipstjórinn hafði staðhæft, heldur aðeins tvö hundruð krónur. En af piltinum er það að segja, að hann varð hinn nýtasti maður og til mikillar gleði móður sinni og skyldfólki.

Og þegar ég frétti síðast af honum var hann skipstjóri á 6000 smálesta olíuskipi, sem Tiger hét. Þetta er eitt af mörgum dæmum er nefna mætti um framkomu Hafliða og starf, bæði sem prívatmanns og umboðsmanns laga og réttar hér á þessum tímum, og læt ég það nægja að sinni. Óðum líður að ævikvöldi þessa valmennis.

Hinn 17. apríl 1917 lézt Hafliði. Hinn langi starfsdagur hans var liðinn og vinsælasti og bezti borgar Siglufjarðar var genginn til sinnar hinztu hvílu. Oft var Hafliða legið á hálsi fyrir það, að hann drægi um of taum Norðmanna. Ekki skal ég dæma um það. En víst og satt er það, að hann dró einskis manns taum hvorki Norðmanna né annarra fram yfir það, er honum fannst rétt og sæmilegt, og afskipti hans af þeim málum er undir hann heyrðu, munu öll hafa hnigið í þá átt, að vinna gagn landi sínu og þjóð, og aldrei mun Ísland hafa beðið tjón af hans völdum, né heldur nokkur einstaklingur.

Sunnudaginn 21. ágúst 1922 safnaðist mikill mannfjöldi saman við heimili hans, þar sem þá bjó tengdasonur hans og ekkja hans. Þar var þá saman komið um 100 manns, bæði Norðmenn og Íslendingar. Þá var afhjúpaður minnisvarðinn, er stendur framan við hús það er hann bjó í. Á hann eru letruð þessi orð: „Reist av norske Venner."

Tönnes Wathne, útgerðarmaður, hélt aðalræðuna við það tækifæri. Um Hafliða og ævistarf hans má með sanni viðhafa orð Björnsterne Björnsons: Þar sem góðir menn fara eru guðs vegir.

Séra Bjarni Þorsteinsson.

Starfsemi séra Bjarna var á öðrum sviðum en starfsemi Hafliða. Það mætti með nokkrum sanni segja, að séra Bjarni hafi verið byggingarmeistarinn og komið húsinu upp, en Hafliði hafi haldið þar aga og séð um að allt væri í röð og reglu.

Í fimmtán ár mátti kalla að séra Bjarni væri ókrýndur konungur í þessum bæ, og einvaldur forráðamaður um flesta hluti. Okkur, sem honum voru samtíða hér á þroskaárum hans, er það vel ljóst, að hann hélt fast á sínum málum og skoðunum, og ýmsum þótti hann ganga of mjög sínar eigin brautir. En ævinlega bar hann fyrst og fremst hag og heiður Siglufjarðar fyrir brjósti.

Og enginn mun hafa glaðst innilegar en hann yfir hverju spori er Siglufjörður steig fram á við til meiri og betri þroska.

Undir hans handleiðslu óx Siglufirði ásmegin hröðum skrefum, óx úr lítilli, umkomulausri og óþekktri veiðistöð í mesta athafnabæ landsins, með langstærstu útflutningshöfn Íslands utan höfuðstaðarins. Og út um heiminn varð Siglufjörður langþekktasti staður á þessu landi, sakir síldarstarfseminnar og fjörugs athafnalífs á heimsmælikvarða. Undir forystu þessa manns tókst að lyfta mörgu því Grettistakinu, er án hans hefði óhreyft legið.

En það væri synd að segja, að öll þessi barátta fram á við til nýrrar tækni og nýrra umbóta gengi þegjandi og hljóðalaust né án megnrar mótspyrnu af hálfu margskonar keppinauta. Allir virtust líta Siglufjörð öfundarauga sakir þeirrar risaþróunar atvinnulífsins er hér átti sér stað. Og það var satt. Þróun þessi var svo hröð og stórstíg, að hún fór langt fram úr öllu, er hér á landi þekktist í atvinnumálum.

Fyrsta stóra átakið var það, að ná hingað rit- og talsímasambandi. Það virtist lengi með öllu ófáanlegt. Ólafsfjörður fékk símasamband umtölulaust, en hvað Siglufjörð snerti var því við borið, að þangað bæri alls ekki að leggja síma, því að það yrði einungis til hagsbóta fyrir útlendingana, og það væri hreint ekki tilgangurinn, að landssjóður væri að moka út fé til slíkra hluta. Slíkt væri að vinna beint á móti hagsmunum lands og þjóðar.

Í þessu þófi gekk á þriðja ár. Urðu þá Siglfirðingar, og aðrir þeir, er hér dvöldu, og viðskipti þurftu að eiga við umheiminn, að senda nokkurskonar símskeytapóst tvisvar í viku yfir fjöllin til Ólafsfjarðar til að sækja og fara með símskeyti. Þessum „póstsamgöngum" var bráðnauðsynlegt að halda uppi yfir síldarmánuðina þrjá, júlí, ágúst og september.

En loksins létu stjórnarvöldin undan síga og Siglufjörður komst í símasamband við aðra landshluta

Síðasti sunnudagur í ágúst 1912 var merkisdagur í sögu þessa bæjar. Snemma morguns þennan sunnudag gat að líta mikinn flokk göngubúinna manna niður við Gránu.

Þar voru um eitt hundrað norskir sjálfboðaliðar komnir, sem buðust til að bera í áfangastaði jarðstreng þann, er Landssíminn hugðist að leggja yfir Siglufjarðar skarð. Og þeir lögðu af stað með jarðstrenginn og komu honum á sinn stað með mikilli prýði. Allt gekk vel, og loksins fékk Siglufjörður hið langþráða símasamband.

Næsta framfaraátakið var vatnsleiðslan. Hvert einasta hús fékk leitt vatn inn í hverja íbúð, niður á hverja bryggju og söltunarpall. Það voru mikil og góð viðbrigði fyrir fólkið, því að hér var oft erfitt um vatnssókn.

Þá kom skipulagning bæjarins og var þar svo röggsamlegt átak, að þótt ekki væri annað, væri það ærið til að halda á lofti minningu séra Bjarna. En hann kom víðar við. Næst kom bygging nýs barnaskólahúss, sem í þá tíð þótti ein hin myndarlegasta skólahúsbygging á landinu, enda þótt nú sé hún löngu orðin of lítil og ónóg og nú orðið á mjög óheppilegum stað. En í þá daga varð eigi fyrir séð neitt af því er þessu veldur.

Næst kom raflýsingin, og var það mikið átak og raunar óvenjulegt á þeim tímum. En Siglufjörður á þó heiðurinn af því, að hafa orðið einn af þremur fyrstu stöðum þessa lands til að láta vatnsorkuna gefa sér ljós og yl fyrir heimilin. Þar næst kom fimleikahúsið, sem fram á síðustu ár hefur verið með stærstu og fullkomnustu fimleikahúsum á landinu.

Og loks kom það, er mestu varðaði fyrir bæinn og harðasta baráttuna kostaði. Það var skilnaður Siglufjarðar frá Eyjafjarðarsýslu, og löglegur réttur til að fara sjálfur með öll sín mál. Þetta var síðasta stórvirkið, sem séra Bjarni hratt í framkvæmd fyrir Siglufjörð.

Og það var stórvirki. Því að móti málinu lögðust 10—12 áhrifamestu menn Eyjafjarðarsýslu, með tvo Alþingismenn og sýslumanninn í broddi fylkingar. En séra Bjarna tókst þó um það er lauk að fá Stefán alþm. frá Fagraskógi til liðs við málstað Siglufjarðar.

Og 1918 lauk þessari baráttu með sigri séra Bjarna og Siglufjarðar. Bærinn okkar fékk sjálfstæði sitt sama ár og Ísland varð sjálfstætt ríki. Og tvímælalítið mun 20. maí 1918 hafa verið einn af mestu sigur- og gleðidögum í ævi hins duglegasta forystumanns, er Siglufjörður hefur nokkurn tíma átt.

—oOo—

Það er þetta tímabil, sem nú hefur lauslega verið frá sagt í þessum minningum, sem gamlir Siglfirðingar telja gæfu- og gengisdaga Siglufjarðar — sköpunartímabil þessa bæjar. Á þeim dögum var lagður sá framtíðargrundvöllur, er síðan hefur verið byggt á og reynzt hefur að þessu hinn traustasti. Enda mun svo verða alla tíð, meðan unnið er í þeim anda, sem þá var gert. Og sú kynslóð, er nú tekur völdin, verður að gæta þess, að sá grundvöllur raskist ekki, því annars er viðbúið, að bæjarfélagsbyggingunni verði hætt og hún riði til hruns.

Það hefur verið sagt um Siglufjörð, að á þessum árum hafi hann siglt sólarleiði, með örugga kjölfestu. Sólarleiði er það kallað, er áttin fylgir sólu á daggöngu sólar og vindurinn blæs hverja stund dagsins úr sólarátt, fylgir henni á leið hennar frá austri til vesturs. Að minnsta kosti gefur það leiði öllum óskabyr einhvern tíma dagsins.

Og vitað er það, eigi sízt nú á þessum sjóslysatímum, að þeirri skipshöfn er hætt, er sigla vill skipi sínu háan vind kjölfestulaust. Og þeim sem kjölfestuna færa úr kjalsoginu upp á þilfarið er hætt við veltu, sem riðið getur skipi og allri áhöfn að fullu. Skip sem þannig er ráðlauslega stjórnað ná sjaldnar en hitt heil í höfn. Þeim skolar að vísu oft að landi, en þá veit oftast kjölurinn upp, og þau hafa þá tíðast hvolft úr sér fólki og farangri.

Við minntumst þess áður, að Hafliða hefir verið reistur óbrotgjarn minnisvarði. En ekki voru það Siglfirðingar, er það gerðu, enda þótt þeim hefði verið það skyldast. Ennþá er enginn bautasteinn reistur til þess að halda á lofti minningu þess mannsins, er margur hefur sagt um með sanni, að í raun og veru haf i skapað Siglufjörð, eins og hann nú er, og lagt flesta steinana í þann grunninn, er byggt verður á í framtíðinni.

Vitaskuld geta menn afsakað sig með þeim sannleika, að séra Bjarna muni aldrei hafa dreymt um slíka viðurkenningu af hálfu Siglufjarðar. Og sama má víst óhætt segja um Hafliða. Það mætti segja mér, að ef Hafliði mætti líta upp úr gröf sinni og sjá minnisvarðann, sem honum var settur í virðingar- og heiðursskyni, að þá yrði honum að orði eitthvað á þessa leið: „Var það ekki stórartað hvað Norðmennirnir gátu enzt til þess að drekka og slást!" Það er furðulegt, hve fljótir menn eru að gleyma, og það oft sínum mestu og beztu mönnum.

Séra Bjarni lézt 2. ágúst 1938. Ekki er nú lengra síðan. En nú heyrist því nær aldrei á hann minnzt. Það er ekki langt síðan að Siglufjarðarbær hélt hátíðlegt 100 ára afmæli sitt sem verzlunarstaðar og 25 ára sjálfstjórnarafmæli sitt. Við þessi hátíðahöld var hvorki getið Hafliða hreppstjóra né séra Bjarna, og skyldu menn þó ætla, að störf þeirra beggja í þágu bæjarins hefðu enn átt að vera mönnum í fersku minni, ekki sízt störf séra Bjarna, mannsins, sem skiplagði bæinn, ákvað reglubundna afstöðu hverrar götu og hvers einasta húss.

Ekki komumst við þó hjá þeirri staðreynd, að það voru þeir Hafliði og séra Bjarni, er kjölinn lögðu að því skipinu, sem við öll, er þennan bæ byggjum, erum skrásett á, og lögðu hornsteinana að þeirri samfélagsbyggingu, er við búum í.

Til er spakmæli er þannig hljóðar: Spámaðurinn deyr, en spádómar hans lifa. Raunar var séra Bjarni sjálfur búinn að reisa sér óbrotgjarnan minnisvarða með gullfögrum tónsmíðum sínum og ritstörfum.

En sá minnisvarði, er ekki Siglfirðingum að þakka, né heldur er hann séreign þeirra. Hann er eign allrar þjóðarinnar. En útgjaldalaust gætu þó Siglfirðingar reist honum minnisvarða, er lengi mundi standa. Þeir ættu að láta eina af aðalgötum þeim, er hann skipulagði bera nafn hans t. d. Túngötuna eða Norðurgötuna. Þessar voru þær götur, er leið hans lá helzt um, er hann gekk niður í bæinn, eða heim til sín.

Eg vil svo enda þessar minningar horfinna sæludaga með því, að biðja guð að blessa minningu þessara tveggja heiðursmanna, er hvor um sig og hvor á sinn hátt lögðu fram krafta sína öll sín beztu manndómsár til þess að skapa framtíð Siglufjarðar og plægja þann akur, er nú er að bera okkur þá ávexti, er skapa okkur lífsuppbeldi. Og enn munu niðjar okkar um langan aldur njóta starfa þeirra. Þessvegna ber að halda á lofti minningu þeirra, og varðveita hana sem bezt.

Hafliði Guðmundsson

Bjarni Þorsteinsson