Tengt Siglufirði
Sören Goos.
Ekki verður sagt að Danir hafi verið stórvirkir við að grundvalla síldarútveginn hér á landi, þótt þeim stæðu allar dyr opnar til að svo mætti verða. Þeir voru þegnar sömu ríkisheildar og við og síðar sambandsþjóð, en það var gömul hefð að Danir fengust mest við vörudreifingu og kaupsýslu hér á Íslandi. Þó eru til einstaka undantekningar frá þessari reglu. Ein hin helzta þeirra er starfsemi Sören Goos í Siglufirði.
Hann kom hingað til lands árið 1907 og hóf starfsemi á Eyjafirði, en í Siglufjörð flutti hann sig fjórum árum síðar og hóf bræðslu síldar á skipsfjöl, um borð í stóru járnskipi, er lá fyrir festum hér í höfninni. Danskt félag átti þennan rekstur. En hann sá strax að fótfesta á þurru landi var óhjákvæmileg, ef framhald skyldi verða á starfseminni, og því réðust hann og félagar hans í að kaupa eignir þær og lóðir, er Sigurður Helgi Sigurðsson átti fyrir sunnan tangann á Siglufjarðareyri. Á þeirri lóð reisa Goos og félagar hans síldarstöð og bræðslu 1913, og hét hlutafélag þeirra „A. s. Siglufjords Sildoliefabrik".
Bræðslu þessa margstækkaði hann og endurbætti þegar fram í sótti. Þetta félag færði brátt út kvíarnar, gerði út eigin skip og leiguskip til síldveiða og rak mikla síldarsöltun, bæði þar á tanganum og eins úti við Hvanneyrará. Goos rak hér og kolasölu, stofnsetti veiðarfæraverzlun og hafði leiguskip í förum á sumrin og haustin fyrir rekstur sinn. Þegar hinar „Sameinuðu ísl. verzlanir", hættu starfsemi 1926, keypti hann Gránuverksmiðjuna af þeim, en hún hafði verið reist 1919—20.
Goos var mesti dugnaðarforkur og óefað í hópi dugmestu athafnamanna hér í firðinum um tveggja áratuga skeið. En kreppan eftir 1930 batt endi á starfsemi hans. Af erlendum starfsmönnum hans má nefna verkfræðinginn Vestesen, er byggði hér íbúðarhús úti við Hvanneyrarhlíð, og vélfræðinginn Gustav Blomkvist, norskan mann, sem ílentist hér og rak síðar skipaverzlun. Af Siglfirðingum, er störfuðu hjá honum til margra ára, má nefna Hannes Jónasson, Snorra Stefánsson og Einar Eyjólfsson.
Hér verður ekki rakin starfsemi Goos, en telja má líklegt að þeir menn, er gegndu trúnaðarstörfum hjá honum, geri það, svo merkur er þessi rekstur í siglfirzkri sögu. Það er kunnugt að Goos hafði gertáætlanir um aukna afkastagetu bræðslnanna, þegar verðfall og sölutregða á lýsi og mjöli stöðvaði áform hans. Sören Goos var vinsæll og vel kynntur atorkumaður, fjörmaður mikill og frár á fæti, og hann vingsaði göngustafnum með ákafa, þegar hann hafði hraðann á.
Hann var mikill hestamaður og hafði mætur á íslenzku hestunum, og ein bezta skemmtun hans var sú að fá sér gæðinga og þeysa suður í fjörðinn með kunningjum sínum. Goos bjó hér ásamt fjölskyldu sinni á sumrin í snotru eigin íbúðarhúsi við Tjarnargötu, „Gooshúsi". Heimilisbragur var þar fágaður og marga bar að garði. Heimili foreldra minna og Goosfjölskyldunnar voru hér hlið við hlið, og því kynntist ég þessu fólki, en allar þær minningar eru of persónulegar til þess að þeirra verði getið hér, Það er þó óhætt að staðhæfa að Goos var mætur borgari og einkar vinsæll af hinum mörgu starfsmönnum, er unnu hjá fyrirtækinu.