Gústi guðsmaður, trúboði og sjómaður

Ágúst Gíslason, guðsmaður - Gústi guðsmaður,  f. 1897  d. í mars 1985

Á árunum 1953 og síðar kynntist ég Gústa nokkuð náið. Á þessum árum átti ég ásamt tengdaföður mínum Friðrik Stefánssyni í Bakka, lítið trilluhorn sem bar nafnið Guðrún. Ég réri oftast einn til að afla mér og mínum fæðu og viðurværis. Einnig með því selja fisk í Fiskbúðina. 

Yfir hásumarið  var bátnum oft lagt við stjóra framan við steinbryggjuna sem þá var í Bakka, og eða bundnum við Shell bryggjuna og stjóra. 

Snemma á vorin og seinnipart sumars var ég með bátinn við bryggjurnar sunnar í firðinum, bryggju Skafta á Nöf. Þar sem Gústi guðsmaður var með bát sinn Sigurvin. Guðrún var oft bundin við hlið Sigurvins. 

Við Gústi ræddum oft saman um fiskinn, síldina og hið daglega amstur eins og gengur. Oft nefndi hann guð sinn og boðskap sem hann trúði fast á sem kunnugt er, þrátt fyrir að hann gerði sér grein fyrir því að það var langt bil á milli okkar hvað guðstrúna snerti. 

Ágúst Gíslason, guðsmaður

Ágúst Gíslason, guðsmaður

Svona óbeint þó, reyndi hann að koma mér á rétta braut eins og hann orðaði það.

Meðal annars átti hann það til að færa mér handskrifaða miða með tilvitnunum úr biblíunni og bað mig að lesa og hugsa málið.

Eitt sinn að morgni dags vorum við báðir, - í blíðskapar haustveðri að fara í róður. Sólin var þó ekki enn farin að skína yfir byggðina. 

Við stukkum nánast samtímis um borð í bátana okkar eftir að hafa kastað á hvorn annan kveðjum. Þegar ég var að fara til að gangsetja mína trillu kallaði Gústi. „Steingrímur, hérna taktu þetta og festu innan í vélarhlífina þína þá bilar ekkert hjá þér".

“Sá gamli glotti, en á miðanum var handskrifuð einhver ritning úr guðspjöllunum. Sýnishorn hér fyrir neðan af úrvalinu sem hann dreifði víða.

Ég glotti á móti og tók við og festi miðann á innanvert lok vélarkassans í trillu minni að honum ásjáandi. Þar sem miðinn var allt fram á næsta ár, er hann hvarf ofan í kjalsogið.

Báðir héldum við af stað til róðrar, en þar sem minn bátur var gangmeiri, þá dróst bátur Gústa fljótlega aftur úr. Mér hafði sýnst hann hægja á ferðinni stuttu eftir að hann var kominn út fyrir fjörðinn. En ég fylgdist ekki frekar með ferðum hans. Ég hélt vestur á Fljótamið og aflaði vel, tæp 300 kg. það þótti gott á færi á svo litlum bát sem mínum aðeins minni en báturinn Sigurvin. 

Þegar ég hélt heim seinnipart dagsins sá ég til báts djúpt undan Hellunni. Þar um borð var maður sem veifaði ákaft með ár. 

Ég sá fljótlega að þetta var Gústi og breytti því stefnunni og hélt til hans. Vélin í bátnum hans hafði bilað og hann hafið róður til lands. 

Ég lagði að bát Gústa og spurði hvort vélin væri biluð. 

„Já helvítis rokkurinn gaf upp öndina, má ég rétta þér spotta?" svaraði Gústi 

„Auðvitað“ svaraði ég og glotti, en Gústi var þekktur fyrir það að láta trillukarlana halda að vélin hans væri biluð til að fá "drátt" í land og spara með því bensínið á rokkinn sinn á meðan. Því meira gat hann þá sent af peningum til Afríku tengt kristniboði þar. 

Ég gaf aflanum um borð hjá Gústa auga í leiðinni, afli hans var frekar rýr miðað við minn afla. 

Ég sagði við Gústa. “ Hann hefur verið tregur hjá þér“

„Já minnstu ekki á það drengur. Ég byrjaði út af Hellunni, en þar var ekkert annað en helvítis kommúnista að fá. Ég flutti mig utar en þar var einnig  lítið að fá.“  
(„kommúnistar“ voru þeir þorskar oft nefndir, sem voru áberandi rauðir á lit, sennilega vegna legu sinnar innan um þara á grunnslóð ?)

Gústi hélt áfram og sagði: „Og þegar ég ákvað að fara heim, þá fór helvítis rokkurinn ekki í gang“

Ég gat ekki stillt mig um að stríða Gústa örlítið og sagði: „Gústi, gleymdirðu að setja miða inn í vélarrúmið þitt, á ég að lána þér minn miða ? 

Þar átti ég auðvitað við bænatilvitnunina sem hann hafði rétt mér um morguninn“  

Svarið var stutt og laggott: „Þegiðu strákur og taktu við spottanum“

Ferðin heim gekk vel. Það lenti á Jóhanni Sigurðssyni (Jóa Bö) hjá S.R. sem oftar en ekki reddaði Gústa, hvað vélina hans snerti.

Vélin var biluð þrátt fyrir grun minn um annað. Í ljós kom að stimpilhringur hafði brotnað, nokkuð sem Jói var fljótur að lagfæra

Jói ásamt Nirði syni sínum endurbyggði bátinn Sigurvin þá illa förnum, löngu síðar eftir lát Gústa. 

Báturinn Sigurvin er nú vel varðveittur á Síldarminjasafninu. 

Það vita sennilega flestir sem Gústa þekktu að þrátt fyrir einstaka góðmennsku þá bölvaði hann oftar en sumum þótti við hæfi, með tilliti þeirra guðspjalla og boðskaps sem hann boðaði við öll tækifæri. 

Steingrímur Kristinsson.

ES. Þess má geta að séra Sigurður Ægisson, hefur gefið út bók um ævi Gústa guðsmann. Mjög greinagóð frásögn af þessum gæða manni. – Auk þess er í komin stytta af Gústa við Torgið á Siglufirði - Mynd hér fyrir neðan.

Sýnishorn miða frá Gústa

Sýnishorn miða frá Gústa

Báturinn Guðrún

Styttan af Gústa guðsmanni, við Torgið á Siglufirði

Styttan af Gústa guðsmanni, við Torgið á Siglufirði