Bakkevig

Hluti greinar eftir Kristins Halldórsson -- Leita á Heimildasíðunni

Maður er nefndur Thormod Bakkevig, ættaður frá hinum kunna síldar og siglingabæ, Haugasundi. Fornafn hans er einkar norskt, en hefir jafnan verið skakkt ritað hérlendis, og ættarnafn hans hljómar danskt, einkum síðara atkvæðið, því í norsku er „vik" jafnan notað en ekki „vig". Frá Noregi er mér skrifað að nafnendingin „vig" komi fyrir í Suður-Noregi, og munu það vera dönsk áhrif á norska tungu, er þessu valda.

Séra Bjarni Þorsteinsson ritaði nafn hans „vig" og í gömlum verzlunarbókum föður míns er ritað skrautlega: Thormod Bakkevig. Þessi skýring á nafninu er sennileg og læt ég hana nægja. Maður þessi var allstór reiðari og athafnamaður í lok fyrri aldar og kom fyrst til Austfjarða, er landnótaveiðin var þar, og hafði þar „nótabrúk" og bækistöð á Reyðarfirði á þeim árum.

Hingað kom hann 1904 og tók á leigu stóra sjávarlóð á miðri austanverðri Siglufjarðareyri. Hann lét reisa þar platningu og bryggju og tvö allstór síldar- og íveruhús og hóf þar síldarsöltun. Árin 1910—11 hóf hann að reisa litla síldarbræðslu, þarna á malarkambinum. Sjálft bræðsluhúsið var allstórt, tvær hæðir og ris með allkostulegum minni viðbyggingum, en nyrðri hluti þaksins hafði hálfu lengri fláa en sá syðri, og gerði þetta byggingu þessa nokkuð óvenjulega að útliti. Síldarþróin var steypt og stór um sig og aflvélin var 16 hestafla gufuvél.

Thormod Bakkevig

Thormod Bakkevig

Raforku framleiddi bræðslan til ljósa og það gerðu og allar hinar fyrstu bræðslur hér. Hún tók til starfa sumarið 1911 og gekk undir nafninu „Sildeoljefabriken T. Bakkevig", en eigendur voru tveir, og hét fyrirtækið Gjerdsjö & Bakkevig, en frá 1918 átti fjölskylda Bakkevigs ein þennan rekstur og var nafninu breytt í Bakkevig & Sön A. S. 

Kunnáttumenn í síldariðnaði, er unnu þarna, voru norskir, en margir hérlendir menn voru og þar við störf. Verkstjórinn hjá fyrirtækinu hét Ehristoffer Eide frá Haugasundi, hann var maður vinsæll og af öllum vel látinn, er til þekktu. 

Bakkevig átti allmarga síldarbáta, gufuskip, t. d. „Atle", „Elin" og „Magna", og urðu þau síðar ísIenzk eign. Hann hafði lengi framskipið „Glygg" í förum fyrir rekstur sinn hér, skipstjórinn hét Iversen, hnellinn karl, sem hrópaði hátt úr brúnni fyrirskipanir sínar. „Glygg" flutti kol, tunnur og síldarafurðir fyrirtækisins árum saman.

Bræðsla þessi var reist í hinum gamla stíl, og norskir kunnáttumenn á sviði síldariðnaðar vildu ekki viðurkenna að hún væri „verksmiðja", þeir kölluðu hana „kokeri", sögðu hana gamaldags. Um 1922 lézt Bakkevig, og skömmu síðar hætti rekstur hans og eignirnar komust á hendur annarra útlendinga og síðar í eigu Íslendinga. Mun engin útgerðarstöð hér í firðinum hafa skipt oftar um eigendur en þessi. Um 1925 var bræðslu hætt þarna, og upp úr 1930 voru settar upp tunnugerðarvélar í húsið, en sá rekstur stóð stutt, vorið 1932 brann húsið ásamt miklum birgðum af tunnuefni.

Þegar þetta er ritað standa enn tvö af síldarhúsunum þarna, annað stórt, súðbyrt geymsluhús, er hefir þolað vel tímans tönn. Bakkevig var í hópi hinna rosknari Norðmanna, er námu land hér í Siglufirði eftir aldamótin. Kann það að vera orsök þess, hve bræðsla hans stóð langt að baki bræðslu þeirri, er reis hér upp austan fjarðarins um sama leyti og sem með ágætum getur borið nafnið „verksmiðja", þar eð hún markaði tímamót í síldariðnaði hérlendis, og skal nú sagt frá því myndarlega fyrirtæki. Þess má geta að bræðsla þessi gat ekki fullunnið síldarmjöl. Hinar þurrkuðu síldarkökur lét Bakkevig flytja til Noregs, þar sem þær voru tættar og malaðar og mjölið sekkjað.