Þ Ragnar Jónasson skrifar: Þegar björgin klofnuðu

Siglfirðingur - 10. tölublað (21.11.1986) -- Leita á Heimildasíðunni

Ein af bújörðum þeim, sem voru austan Siglufjarðar, hét Ráeyri. Hún var til forna (árið 1550) metin á 20 hundruð á landsvísu, og því verið mjög góð búskaparjörð. Bærinn stóð neðan til í Ráeyrardal, sem nú kallast Skútudalur.

Dalurinn er lítill, en grösugur og liggur austan við Álfhyrnu (nú Hólshyrna). Ráeyrará rennur eftir dalnum. Hún rann áður svo til beint norður til sjávar. Austan hennar stóð bærinn í stóru túni og grösugar engjar voru til beggja hliða. Niður frá bænum og vestan við ána gekk eyri, sem bærinn dró nafn af, og fram af henni hólmi, Ráeyrarhólmi (Kríuhólmi). Bæði eyrin og hólmurinn voru grasi vafin og ágæt slægjulönd.

Norðan eyrarinnar við ósa árinnar var Naustavík. Þar var áður uppsátur vetrarskipa Siglfirðinga. Þar munu vafalaust hafa verið nokkur mannvirki í sambandi við útgerðina. Ýmis hlunnindi munu hafa fylgt jörðinni áður fyrr, svo sem mikill reki og fjörubeit. Skipalendingin var talin sú besta í firðinum og því heimræði gott, og varð þetta aðal verstaða þeirra sem hákarlaveiðar sóttu við Siglufjörð.

Þ Ragnar Jónasson  - Ljósmynd: Kristfinnur

Þ Ragnar Jónasson - Ljósmynd: Kristfinnur

Þó að hin háu fjöll myndi skjól umhverfis byggðir Siglufjarðar, fylgja þeim líka hættur af snjóflóðum og skriðuföllum og er þá ýmsu hætta búin. Í Annál 19. aldar, sem séra Pétur Guðmundsson í Grímsey skráði, er svohljóðandi frásögn árið 1830: „3. febrúar féll aurskriða á bæinn Ráeyri í Siglufirði. Flýði heimafólk jafnskjótt og hennar varð vart og gat þannig bjargað lífi sínu, nema Kristrún Björnsdóttir, um hana kvað Hannes prestur:

  • Kerling ein er Kristrún hét
  • komst í hlaðbrekkuna,
  • varð of sein og líf þar lét,
  • litlu þurfti að muna.

Tveir bændur bjuggu á jörð þessari. Hafði annar þeirra snúið við aftur heim á leið og ætlaði að bjarga kerlingu. Tók skriðan hann og spýtti fram á sjó, en þó komst hann heill af. Skriða þessi var um 300 faðma breið. Hún tók bæinn allan, með því er í var, fjós með tveim kúm og sauðfé allt, nema 6 ær, en nokkuð af heyi stóð eftir óhaggað."

Í Aldarfarsbók Gunnlaugs Jónssonar á Skuggabjörgum í Deildardal og í Árbókum Espólíns eru svipaðar frásagnir. Jón Espólín telur þennan atburð hafa orðið 10. febrúar, en draga verður það í efa. Ástæðan er sú að í prestsþjónustubók Hvanneyrarkirkju hefur séra Ólafur Thorberg skráð í dánarskrár 3. febrúar 1830:

 „Kristrún Björnsdóttir á Ráeyri fórst með jarðarinnar túni, parti af engi, öllum húsum og fjármunum öllum, lifandi og féll til vesturs sunnan skriðu og eyrar“.

Útrás hennar hefur verið breytt á ný, við gerð hins nýja flugvallar 1985. Norðurendi hans er þar sem áður var eyrartanginn, en skipalægið í Naustavík var austan hans. Er því allt orðið breytt þar, frá því sem áður var. Í fjallinu rétt sunnan Skollaskálar er greinilega hægt að sjá hvar berghlaupið sprakk fram fyrir 156 árum, því sárið stendur ennþá eftir ógróið.

Brotskálin sést best þegar sól er lágt á lofti og skuggar skarpir. Eins og eðlilegt er hefur frost og vatn hjálpað til að sprengja þetta bákn fram. Það má telja mikið andvaraleysi þeirra sem bjuggu neðan undir þessu augljósa skaðræði, að hafa ekki flutt byggð sína þangað sem öllu hefði verið óhætt.

Á Ráeyri var tvíbýli árið 1830. Annar bændanna var Magnús Þorsteinsson. Hann tók við búi þar 1822 eftir foreldra sína, Vilborgu Jónsdóttur og Þorstein Þorleifsson frá Siglunesi. Hann var ekkjumaður.
Kona hans var Kristrún Sveinsdóttir, dáin 11. september 1827. Þau höfðu gifst 24. apríl 1810. Hún var dóttir Kristrúnar Björnsdóttur, þeirrar sem fórst í skriðunni og var ráðskona tengdasonar síns þessi árin. Magnús bjó síðar í Skarðdal með seinni konu sinni, Guðfinnu Aradóttur. Hún dó 19. nóvember 1838.

Hinn ábúandinn var Gísli Sigurðsson. Kona hans var Guðrún Árnadóttir frá Ámá í Héðinsfirði. Hún stundaði ljósmóðurstörf í sveitinni. Seinna bjuggu þau í Skarðdal og Skarðdalskoti. Á manntali í ársbyrjun 1830 voru 9 manns skráðir á Ráeyri.

Eftir bjarghlaupið mikla fór Ráeyri í eyði, eins og áður sagði. Það var svo árið 1833 að Höskuldur Jónsson, sem áður hafði búið í Grundarkoti í Héðinsfirði, byggði lítinn bæ á svipuðum slóðum, niður við sjóinn, og kallaði hann Ráeyrarkot. Hafði hann áður byggt sér kofa, þar sem síðar var kallað Efri-Skúta. Höskuldur og kona hans Guðný Árnadóttir bjuggu svo í kotinu þar til Guðný dó 22. mars 1839. Höskuldur brá þá búi, en var þar áfram í húsmennsku.

Í Jarðatali J. Johnsens 1847 er Ráeyri talin aðeins 5 hundruð að dýrleika, og er því aðeins einn fjórði af hinu forna mati. Þegar Hólastólsjarðir voru seldar árið 1802 var Ráeyri seld fyrir 283 ríkisdali og 40 skildinga og munu þá tvö kúgildi hafa fylgt með í kaupunum. Þetta var hærra verð en fékkst fyrir ýmsar aðrar jarðir í firðinum. Það hefur líklega verið áðurnefndur Þorsteinn Þorleifsson sem keypti jörðina, því hann bjó þar frá 1792 til 1821, en það ár dó hann, 88 ára.

Eftir síðustu aldamót voru byggð nokkur húsmannsbýli í landi Ráeyrar. Voru þau með ýmsum nöfnum, og sum þeirra breyttu um nöfn eftir eigendum. Þarna er eitthvert fegursta útsýni í Siglufirði, og virðist þessi staður hafa mikið aðdráttarafl. Og ennþá eru nokkur hús á þessu svæði. Hitavatnslindirnar sem nú hita upp híbýli Siglfirðinga eru innst í Ráeyrardal, í landi Ráeyrar hinnar fornu.

Um land allt hafa skriðuföll valdið miklu tjóni og hörmulegum áföllum. Má víða, bæði í Siglufirði og annars staðar, sjá skriðuvængi undan lækjargiljum í bröttum fjallahlíðum. Fjallsöxlin sunnan við Skollaskálina sprakk fram og steyptist niður hlíðina og reif með sér grjót og jarðveg um leið og hún sundraðist. Var því ekki um venjulega jarðskriðu að ræða þarna, heldur berghlaup.

Vatn og frost voru þarna að verki sem öflugustu bjargkljúfar. Þar sem áður var skriðumelur er nú hamrabelti og brotskál. Skipalægið í Naustavík fylltist og hvarf undir aur og grjót, hina góða jörð Ráeyri lagðist í auðn, og gömul. kona lét þar líf sitt með hörmulegum hætti, þegar björgin klofnuðu.
Þ.R.J.