Útvarpstruflanir 1948

Allt frá því að Ríkisútvarpið fór að breiða úr sér, það að íbúar utan höguðborgasvæðisins gátu náð sendingum frá RÚV voru víða vandræði með þolanlega hlustun vegna rafmagnstækja og lélegra tenginga raflagna hjá rafveitunum í mörgum byggðarlögðum, þar á meðal á Siglufirði.

Og margir kvörtuðu, bæði í bæjablöðunum og annarsstaða þar sem fólk kom saman. Síðar losnuðu Siglfirðingar við truflanir, bæði vegna lagfæringar raflagnatenginga og betri loftneta, sem þá þurfti, en breyttist  tugum árum síðar er farið var að senda dagskrá RÚV á FM bylgjulengdinni eins og allir hafa notið síðustu áratugina.  

En áður en FM sendingar loks hófust til Siglfirðinga, var hljómburður frá langbylgju og miðbylgju sendunum alls óviðunnandi ef miðað var við sendingar til stærri byggðarlaga, enda var í ártugi var notast við gamla móttakara og sendir sem „Landsíminn“ hafði smíðað, (lengi staðsettir upp í Hvanneyrarskál)  -samsvarandi og notaðir voru um borð í síldarbátunum og öðrum skipum sem talstöðvarbúnaður. Hljómburður þessara tækja, var á tali eins og notað væri ryðgað gjallarhorn og á tónlist hljómaði falskt og bjagað eins og hænsnagarg.

Ótalin skrif fá fóru fram með lýsingu, bæði til RÚV og landsímas beint og í blöðum, þar sem fáir fengu svar hjá ríkisapparatinu RÚV og Landsímanum. Hér fyrir neðan er lítið dæmi um skrif á „heimavelli“ það er á milli Rafveitu Siglufjarðar og íbúanna.

Steingrímur Kristinsson  - 2016
-------------------------------------------------------------

Mjölnir - 25. febrúar 1948

Enn um útvarpstruflanir. Ennþá eru útvarpstruflanirnar erkifjandi allra þeirra, sem ánægju hafa af því að sitja heima og hlusta á útvarpið, — eða ætla að hlusta, því oftast fer það nú svo, að erkifjandinn yfirvinnur alla þolinmæði og næmleika eyrnanna, sem af fremsta mætti hafa reynt að greina hið talaða orð útvarpsmannsins frá suði og gargi truflananna. Útvarpstruflanir, eins og þær eru hér í bænum, eru ekkert gamanspaug.

Þær eru mikið vandamál og er stórfurðulegt að ráðamenn bæjarins skuli ekkert gera til að vinna bug á þessu. Það er hlustað á kvartanir almennings og gefin fyrirheit um að bæta úr, — en efndirnar tala skýrustu máli í hinum óstöðvuðu truflunum.

Útvarpstæki eru dýr og afnotagjaldið óneitanlega nokkuð hátt, enda vaxandi kröfur um bætt útvarpsefni og fjölbreyttara. Það er því gremjulegt, að mikill hluti útvarpsnotenda hér í Siglufirði skuli verða að hafa tæki sín lokuð yfir aðal útvarpstímann vegna truflana, sem eflaust væri hægt að hindra ef eitthvað væri til þess gert af þeim mönnum, sem um þetta eiga að sjá. 1 sumum bæjarhverfum eru truflanirnar svo yfirgnæfandi, að ekkert annað hljóð kemst í gegn og oftast stöðugar.

Oft eru þær þannig, að engu er líkara en kveikt eða slökkt sé á truflvakanum, — koma snögglega og hætta jafn snöggt með misjöfnu bili langan tíma. Hverjum, sem heyrir þessi læti, er ljóst, að einhver tæki eru það, sem trufla svona. Upp á þessum tækjum þarf að hafa og gera þau óskaðleg. Það er óviðunandi lengur þetta truflanafargan, og skora ég eindregið á þá menn, sem eftirlit eiga að hafa með þessu að bregða nú við og rannsaka þetta vel svo úr verði bætt og við getum með ánægju hlustað á það í hinni f átæklegu útvarpsdagskrá sem við helzt kjósum. Það dugar ekkert kák í þessu máli, bara raunhæfar aðgerðir.
Útvarpshlustandi.
------------------------------

Mjölnir - 03. mars 1948

Frá Anton Kristjánsson rafvirkja hefur blaðinu borist bréf það, er hér fer á eftir, og er það svar við pistli „Útvarpshlustanda", sem birtist hér í dálkunum í síðasta blaði: „Ég er þér hjartanlega sammála með það, að útvarpstruflanir eru óþolandi, en ég er þér ekki sammála með, að ekkert sé gert til að hindra þær, og því til sönnunar vil ég segja þér, að rafveitan eyddi 53 dagsverkum síðastliðið ár í leit að útvarpstruflunum. Þú segir, að hlustað sé á kvartanir, og gefin fyrirheit um að bæta úr — en efndirnar tali skýrustu máli o.s.frv.

Ég tek þetta til mín, því aðrir geta ekki staðið við gefin fyrirheit til úrbóta 'i þessu, en hver sem þú ert, útvarpshlustandi, getur þú ekki, væni minn, staðið við þessa sögu þína. En í þessu sambandi skal ég upplýsa þig og segja þér, að í landinu eru innflutningserfiðleikar, sem einnig koma niður á varahlutum til rafmagnstækja, og taktu nú vel eftir. Minnst 90% af útvarpstruflunum koma frá skemmdum rafmagnstækjum innanhúss (hér í er talið viðtæki og útbúnaður) með öðrum orðum, frá íbúðum hlustendanna, og þess vegna ætti það ekki að vera ofverk hlustandans að taka bilaða raftækið úr sambandi með ríkisútvarpið sendir.

Ég sagði íbúðum hlustendanna, vegna þess að eftir tölu íbúða og viðtækja í bænum er viðtæki í hverri einustu íbúð. Ég vona, að þú sért ekki í þeirra hóp, sem loka fyrir viðtækið en ekki „truflvakann", eða þeirra, sem segja, þegar þeim er sýnt það, sem truflaði: „Ég hafði ekki hugmynd um að þetta truflaði, > það gerði það ekki í gær" — eða þeirra, sem fela skemmdu raftækin þegar við komum.

Að síðustu þetta. Rafveitan á ekki að sjá um að viðtækið, loftnetið og jarðsambandið við viðtækið sé í lagi, en áreiðanlega 50% af öllum útvarpstruflunum stafa frá einu af þessu, stundum tvennu, stundum öllu. Einnig getur rafveitan ekki komið í veg fyrir truflanir frá loftskeytastöðinni eða ritsímanum hér, og venjulegar lofttruflanir verður þú einnig að þola, og ef þú hefur loftnetið þitt nálægt (ekki nær en 1 m.) rafmagnslínum, þá máttu alltaf eiga von á slæmum hlustunarskilyrðum.

Með vinsemd. Anton Kristjánsson
-------------------------------------------------------

Mjölnir - 10. mars 1948

Kristinn Guðmundsson útvarpsvirki biður blaðið fyrir bréf það, sem hér fer á eftir:

 „Í síðasta „Mjölni" skrifar Anton Kristjánsson rafvirki heilmiklar „upplýsingar" um útvarpstruflanir og segir þar, að mestar, eða 50% allra útvarpstruflana hér í bæ, stafi frá biluðum viðtækjum, loftnetum eða jarðtengslum. 40% frá földum heimilistækjum, (sem útvarpsnotendur trufli sjálfa sig með á kvöldin). En aðeins 10% frá útineti rafveitunnar (glóandi víraklemmum og ónýtum ljósaperum) vélaverkstæðum, ríkisverksmiðjunum o.fl. ofl.

Ég skal viðurkenna, að útvarpsnotendur, sem hafa léleg, eða engin, loftnet eða jarðtengingu við tæki sín, verða meira varir við truflanir en þeir, sem hafa hvortveggja í ágætu lagi. En að truflanir stafi að mestu frá þessu, er alveg útilokað. Flestar truflanir hér, stafa fyrst og fremst frá útinetinu, þar næst frá ýmsum heimilistækjum, þriðja lagi frá vélaverkstæðum og ýmsum handverkfærum þar. En fjórða lélegur útbúnaður við viðtækin sjálf.

Það sem þarf að gera til að útiloka útvarpstruflanir að mestu er að rafveitan láti athuga útinetið og útiloka truflanir þaðan. Næst ætti rafveitan að setja rafvirkjum og verzlunum, sem raftæki selja, þær reglur, að engin raftæki megi selja, nema eftirlitsmaður rafveitunnar, hafi prófað þau og deyft, hafi þau truflað. Þannig útilokast (að mestu) að nýir truflvaldar komist daglega í notkun. Svo ætti að leita uppi og deyfa gömlu truflvaldana, og þar geta útvarpsnotendur sjálfir hjálpað mikið til með því að koma með ýms heimilistæki til viðgerðar, þau tæki, sem þeir vita að trufla útvarp, og gefa rafveitunni upp truflvalda, sem þeir vita um.

En ef á að útiloka útvarpstruflanir að mestu þá dugar ekkert kák. Það dugar ekki að semja „upplýsinga"- skrá yfir tækin, eins og gert hefir verið, því þau eru svo ósvífin að trufla, þótt þau séu skráð hjá rafveitunni. Anton mun vel kunnugt, að víraklemmur geta oft truflað, og vil ég minna hann á heitu klemmuna við Tjarnargötu-Aðalgötu, hvað var sú klemma búin að valda lengi truflun á því svæði? Anton skrifar líka um, að mikið hafi verið gert á s.l. ári, til að hindra útvarpstruflanir, og ætlar að sanna mál sitt með því, að 53 dagsverkum hafi verið eytt í þetta starf.

Vill nú Anton ekki „upplýsa" okkur útvarpsnotendur, við hvað var unnið, í þessum dagsverkum, hvað margir truflvaldar teknir úr notkun eða deyfðir o.s.frv. Og hvað fóru mörg dagsverk í að „upplýsa" útvarpsnotendur um, að truflunin væri í tækinu sjálfu. Að síðustu vildi ég segja Anton, að truflun sú, sem frá Loftskeytastöðinni hér, stafar, og sem er mjög lítilfjörleg frá þeirri truflun séð, sem útinetið veldur, þá veit ég, að stöðvar stjórinn okkar vinnur að því, að fá truflun þessa útilokaða, og veit ég, að honum muni takast það.

En ég gat ekki annað en brosað, þegar Anton minnist á ritsímann, því þar eru engin tæki, sem valda truflun í útvarpi. Og að endingu bið ég „Mjölni" fyrir kveðju mína til „útvarpsnotanda", sem skrifaði greinina um truflanir í 8 tbl. og bið ég hann að afsaka, að ég skuli vera að sletta mér fram í skrif hans, en ég vona, hann svari Anton í sama tón og Anton skrifar honum.

Kristinn Guðmundsson".
---------------------------------------------

Mjölnir - 24. mars 1948

Góði bæjarpóstur! — Enn langar mig að biðja þig fyrir línur, og er ennþá útvarpstruflanamál á dagskrá hjá mér. Ég varð harla glaður er ég sá að Anton Kristjánsson, rafveitustjóri tók að sér að svara kvörtunarbréfi mínu. Ég er honum einnig þakklátur fyrir „upplýsingarnar" um innflutningserfiðleika o. þ.u.l. Skil ég mætavel að slíkt getur komið illa við, t.d. þegar um biluð raftæki er að ræða.

Ég hef enga þekkingu á rafmagnsmálum, útvarpsvirkjun eða þ.h„ en þó finnst mér það mjög skrítið að rafveitan skuli eyða „53 dagsverkum í leit að útvarpstruflunum" án þess að um verulegan árangur sé að. Þá finnst mér það ótrúleg fullyrðing hjá A. K. að 10% truflananna stafi frá truflvökum utan húss. Það vita allir og sjá, hvernig rafmagnskerfi bæjarins er; lausir og skröltandi ljósastaurar víða slakir þræðir, o.s.frv.

Ég fæ ekki skilið annað en að slíkt og þvílíkt trufli og spilli hlustunarskilyrðum fjær og nær sér. Það er vel skiljanlegt, að efnisskortur, vöntun á ýmsum nauðsynlegum hlutum, geti hamlað því, að útvarpstruflanir verði upprættar með öllu. Eg skil það vel, sé um slíkt vandræðaástand í stórum stíl að ræða hjá rafveitunni.

En A. K. og aðrir þeir, sem þetta heyrir undir, mega bara ekki bregðast þannig við kvörtunum útvarpshlustenda að setjast í dómarastól og fella úrskurð um það, að svona mörg % truflana stafi af þessu og svona mörg af hinu; þetta sé okkur að kenna o.s.frv. Þeirra er að eyða fáfræði okkar í meðferð hinna ýmsu rafmagnstækja og hafa eftirlit með því, að þau séu óskaðleg og truflanalaus, I fullri vinsemd við A. K. óska ég þess, að honum megi takast að eyða óvinu okkar hlustenda, en láta ekki fullyrðingar sínar um 10% valda því að hin 90% séu lítt rannsökuð, og látin í friði um skemmdarverkin.

Að síðustu þakka ég Kristni Guðmundssyni, útvarpsvirkja fyrir innlegg hans í þetta mál. Veit ég að hann talar af reynslu og þekkingu, þar sem þetta er svo náið hans fagi. Hlustendum öllum mun það kærkomið, ef einhver skriður kemur á það, að uppræta truflvaldana, hvar og hvernig, sem þeir finnast, og finnst mér að í því stríði megi hvorki metingur né Píiatusar-þvottur verða til þess að spilla, að góður árangur náist.
 
Útvarpshlustandi.
---------------------------------------------------------
Mjölnir - 06. apríl 1949

Útvarpstruflanir. „Hér syndum við fiskarnir," sagði hornsílið, las ég nýlega í einhverju bæjarblaðanna, og mér datt þetta í hug, þegar ég sá svar herra Páls Einarssonar við fyrir spurningu  minni í 12. tbl. Mjölnis.
En spurningin,, var:
Til hvers eða til hvaða manna ætti að snúa sér með kvartanir vegna útvarpstruflana, en ekki í hvaða reglugjörð. En ég er honum þakklátur fyrir reglugerðina, sem ég hefi þegið, til þess að ef einhverjir útvarpsnotendur óska að kynna sér hana, þá er hún til sýnis á verkstæði mínu Tjarnargötu 12.

En sjálfur hefi ég átt þessa reglugerð í níu ár og var hún mér afhent af Rafmagnseftirliti ríkisins 'í Reykjavík, svo persónulega þarf ég ekki á kynningarstarfsemi rafveitustjóra að halda. En svar hans við síðari fyrirspurn minni er tvíofið og þótt hann segi að góðkunningi minn, sem er einn af nokkrum starfsmönnum rafveitunnar, sé lygari, þá má hann ekki halda, að ég og margir fleiri útvarpsnotendur komi til hans, krjúpi á hné og biðjum hann vinsamlegast hjálpa okkur.

Nei, við krefjumst raunhæfra ráðstafana til að útiloka útvarpstruflanir hér í bæ, því til þess höfum við rétt, samkvæmt tilvitnun rafveitustjórans í sextán ára gamla reglugerð. Og til að koma því í framkvæmd ættum við útvarpsnotendur að stofna hér öflugt útvarpsnotendafélag til að fylgja eftir kröfum okkar. Það yrði sterkasta tækið í höndum okkar, og gegn því dygðu ekki tilvísanir embættismanna í reglugerðir, sem að okkar reynslu eru aðeins pappírsgögn.

Kristinn Guðmundsson