Miklu getur loftþrýstinur valdið

Bjarni Bjarnason (kallaður Boddi Gunnars) og Einar Björnsson frá  Siglunesi voru starfsmenn Síldarverksmiðjanna og voru þar undir stjórn Páls Jónssonar byggingameistara. 

Bjarni var lausamaður sem gat unnið nánast öll störf, allt frá múrskeiðinni sem hann var fær með og allskonar vélavinnu, þó ekki nákvæm trésmíðastörf. 

Einar hafði verið í námi sem trésmiður með Palla sem meistara og var nálægt því að ná sveinsréttindum í iðninni þegar neðanrituð saga átti sér stað. 

Eitt af verkum Bodda var að keyra, vinna við og hugsa um nýkeypta og fullkomna loftpressu að gerðinni Atlas Cooper. Loftpressan var mikið notuð, bæði til loftverkfæra vegna múrbrots, ryðhreinsunar og margs fleira. 

Einar Björnsson

Einar Björnsson

Eitt sinn vildi svo til að klósett niðurfall frá SR-Vélaverkstæði stíflaðist og menn höfðu gefist upp við að losa um stífluna með þar til gerðu verkfæri sem bærinn átti.  

Bjarni kom þarna að og taldi það ekki mikinn vanda að losa um þessa stíflu, hann skyldi redda því. Hann skýrði fyrir Sigga Elefsen verkstjóra verkstæðisins hvernig hann vildi vinna verkið. 

Siggi sem var vel að sér í eðlisfræðilögmálunum var fljótur að samþykkja aðferðina sem Bjarni ætlaði að nota og mannskapurinn sem nálægt var beið spenntur eftir árangrinum. 

Bjarni sótti loftpressuna góðu, tengdi við hana loftþrýstislöngu og setti hinn endann hennar niður í niðurfallið og inn í rörið svo langt sem það komst. 

Síðan fylltu þeir Siggi niðurfallið af sandi og settu sandpoka ofan á allt saman og Siggi stóð svo uppi á sandpokanum og sagði Bjarna að skrúfa frá loftinu og hleypa fullum krafti 7-8kg. loftþrýstingi á. 

Nokkrir drungalegir skruðningar bárust eyrum  manna og síðan hviss. Stíflan virtist rofin sem og var því  þegar Siggi tók burtu sandpokann þá var ekki aðeins vatnið sem hafði verið í niðurfallsrörinu horfið heldur einnig allur sandurinn. 

Gengið var niður að sjónum þar sem niðurfallið endaði og ekki var um að villast að það sem flaut á sjónum og hafði litað hann vel brúnan var sönnun þess að Bjarni hafði reddað málinu.  

Ofanritað er þó bara formáli af annarri stíflulosun Bjarna, sem varð nokkuð sögulegri en sú fyrri. 

Nokkrum dögum eftir stíflulosunina á vélaverkstæðinu, sem var á flestra vitorði eftir að margir höfðu rætt um á lóðinni, (verksmiðjusvæðið gekk almennt undir því nafni) kom Einar Björnsson að máli við Bjarna og spurði hvort hann gæti aðstoðað sig. 

Einar sem bjó á neðri h´ðinni og Haraldur Árnason sem bjó á efri hæðinni við Laugarveg, höfðu átt við þann vanda að etja að stundum þegar sturtað var niður úr klósetti efri hæðar, þá flæddi upp úr klósetti neðri hæðar hjá Einari. 

Stundum hafði einnig komið fyrir að flæddi upp úr klósetti efri hæðar. Einhversstaðar var lögnin stífluð svo var víst. 

Bjarni taldi öruggt að aðferðin sem hann hefði fundið upp varðandi vélaverkstæðið mundi einnig duga suður á Laugarvegi. 

Loftpressan var dreginn suður á Laugarveg og með var lítill sandpoki sem var settar fagmannlega ofan í klósettskálina hjá Einari á neðri hæðinni. Þetta var fyrir hádegi. 

Bjarni bað Einar að standa ofan á sandpokanum til öryggis og fór svo út og skrúfaði frá Einar heyrði fljótt mikla skruðninga og síðan breyttist hljóðið í hviss og Einar var sannfærður um að stíflan hefði verið losuð og kallaði á Bjarna og bað um að hann skrúfaði fyrir loftið. Bjarni heyrð auðvitað ekkert vegna hávaðans frá pressunni en kom svo eftir stutta stund niður, eftir að hafa skrúfað fyrir. 

Þeir gengu frá slöngunni og sturtuðu niður og aftur var sturtað niður og stíflan var greinilegt horfin. Báðir voru himinlifandi og héldu aftur til vinnu sinnar á SR-Tréverkstæði.

Í hádeginu fór Einar eins og flestir heim til hádegisverðar. Einar kom við þar sem kona hans vann og urðu þau samferða heim. Konan himinlifandi yfir því að nú væru þessi stífluvandræði úr sögunni og var að taka til snarl vegna hádegisverðar þegar bankað er nokkuð harkalega á útidyrnar. Áður en þau gátu opnað fyrir þeim sem bankaði kom hann inn þrútinn af reiði. Ekki skildu þau hjónakornin í fyrstu ekki orð af því sem hann sagði eða öskraði. 

Ekki var ástæðulaus reiði komumanns sem var Halli sjálfur (Haraldur Árnason í Shell) sem bjó í íbúinn á efri hæðinni. Þó svo að hann hefði í raun ekki vitað að íbúar neðri hæðar ættu einhverja sök á ástandinu sem hann lýsti að væru uppi á efri hæð, heldur kom niður til að kanna hvort ástandið væri eitthvað svipað þar.

Þegar Halli og kona hans höfðu komið heim í hádeginu og opnað dyr íbúðar sinnar, kom á móti þeim megn skítafíla og er inn var komið var varla líft vegna skítafýlu. Þau leituðu orsaka og datt klósettherbergið fyrst í hug og opnuðu dyrnar. Þeim dyrum var fljót lokað, en herbergið sem hafði verið flísalagt að stórum hluta og hvítir veggir og loft annarsstaðar, þar var hvergi í hvítan depil að sjá, nema ef til vill einstaka tægjur af klósettpappír uppi í lofti og á veggjum. 

Hvorki Einar né kona hans mættu til vinnu það sem eftir var degi, en þegar hreinsistarfinu lauk voru þau örmagna andlega og á líkama og voru lengi í sturtu á eftir. 

Halli fór með konu sína af vettvangi og sagði að Einar yrði að sjá um þrifin, hann og kona hans mundu ekki koma heim fyrr en að kveldi. 

Ekki urðu þó vinaslit á milli íbúanna eftir þetta, en sagt er að Halli hafi þó oft gert í gamni grín af Einari og Bjarna fyrir uppátækið, bæði í þeirra eyru og annarra.

Einar var á báðum áttu daginn eftir hvort hann ætti að skamma Bjarna fyrir leiðsögnina, eða hlæja á meðan hann sagði okkur vinnufélögum frá atburðinum. Palli hafði þó verið búinn að lauma hluta sögunnar til okkar hinna á verkstæðinu, þar sem Einar hafði hringt í hann og sagt frá ástæðum þess að geta ekki mætt til vinnu. 

Svona í aðalatriðum er þetta atvik í minni mínu.   Myndirnar úr ljósmyndasafni Siglufjarðar, ljósm. Steingrímur

Steingrímur

Bjarni, Einar og Haraldur

Bjarni, Einar og Haraldur