Karbítur (calcium carbide)

Þetta efni, sem fáir ef nokkrir af yngri kynslóðinni þekkja. Þetta efni var þó mikið notað víða um heim og meðal annars hér á Siglufirði allt fram undir árið 1952. 

Síðasti notandi þessa efnis í iðnaði á Siglufirði var Jón Kristinsson gullsmiður á verkstæði þeirra bræðra, hans og Svavars við Eyrargötu 16.  (Jón; f. 31-12-1924 d. 05-04-1955)

Þar áður nokkrum árum fyrr var þetta margnota efni notað á vélaverkstæðum landsins vegna logsuðu, meðal annars á verkstæðum á Siglufirði. Karbítur var notaður til að framleiða gastegundina acetylen. (almennt kallað gas) Gastegund sem enn í dag er notuð til logsuðu og logskurðar, ásamt súrefni á járni. Gasið er þó framleitt með öðrum hætti  í dag  en hér áður fyrr.  

Karbítur var mjög aðgengilegt almenningi allt fram á miðbik síðustu aldar þar sem það fékkst í flestum verkfæra og veiðafæraverslunum landsins. 

Karbítur var notaður af almenningi sem ljósgjafi bæði innan og utandyra og mikið til sjós, það gaf mikla og góða birtu, betri en olíuljósgjafar. 

Guðbjartur Þórarinsson

Guðbjartur Þórarinsson

En Karbítur var stórhættulegur og urðu mörg dauðsföll og slys sem rekja mátti til nærveru þessa efnis. 

Myndir hér neðar á síðunn, gefa smá vísbendingu um tegund slysa og raunar einnig vísbendingu um að efnið hafi verið nota til að hrekkja náungann. 

Ég kynntist fyrst karbít þegar ég vann í Veiðarfæraverslun Sigurðar Fanndal árin 1957-1959 - Georg Fanndal þáverandi eigandi verslunarinnar var mjög fróður um efnið karbít og miðlaði til mín sem og öllu sem hann þekkti til varðandi þær vörur og verkfæri sem hann verslaði með. 

Hann sagði mér jafnframt að til langs tíma hefði áðurnefndur Jón gullsmiður verið sá eini sem keypti hjá honum karbít, en Jón lést árið 1952. 

Talsvert magn af dósum, sennilega um 100 kíló voru eftir á lager veiðafæraverslunarinnar og hafði Georg nokkrar áhyggjur af hvernig hann ætti að farga þessu magni, en eins og fyrr segir þá var efnið stórhættulegt ef ekki var farið með það af fyllstu gát í meðferð og geymslu. Ef efnið komst í snertingu við vatn eða raka þá myndaðist mjög eldfimt gas (acetylen) ásamt banvænu og illþefjandi andrúmslofti. 

Ekki var óhætt að henda svo miklu magni samtímis í sjóinn  því þá myndaðist mikill gosmökkur með viðkomandi þef og gasi og ef eldur kæmist nærri yrði sprenging. Sama gat komið fyrir hefði karbíturinn verið grafinn einhversstaðar eða komið fyrir á ruslahaugunum. 

Með samþykki Georgs tók ég með mér slatta af efninu heim, ég hafði ég áhuga á að kynnast efninu betur, sjá hvernig það virkaði (á þessum tíma var ég með efnafræði dellu) 

Ég átti á þessum tíma heima í Óskarsbragganum úti í Bakka, þar framan við var hár steinkantur/bryggja og fram af honum henti ég nokkrum molum í sjóinn. Molarnir sukku eins og búast mátti við, en upp úr sjónum kom gufustrókur og mikið af loftbólum. 

Ég fór inn í kjallara braggans og náði mér í eldspítur og henti nokkrum molum til viðbótar í sjóinn og eldspýtu á eftir. Margar háværar sprengingar urðu og mikill eldur myndaðist yfir svæðinu þar sem karbíturinn hafnaði. Margir krakkar og tveir þrír fullorðnir komu að og horfða furðulostnir á atvikið og skildu ekki hvað var í gangi og raunar enn meira hissa þegar þeir sáu mig henda að þeim sýndist vera steinum yfir svæðið sem og ollu fleiri sprengingum og eldhafi.  

Síðar á árinu að kvöldi og komið var myrkur, endurtók ég leikinn eftir að hafa smalað krökkum og unglingum nágrennisins  á vettvang og var talsvert tilkomumeira að sjá þetta í myrkrinu heldur en í björtu. 

Það var svo nokkrum árum síðar, þá hættur að vinna hjá Georg og kominn aftur til SR í þetta sinn á SR-Tréverkstæði hjá Páli. Um veturinn skorti verkefni á tréverkstæðinu og vorum við strákarnir (þá komnir vel yfir tvítugt) sendir til vinnu í SR-Frystihúsi til flökunarvinnu. Það var ágætis tilbreyting í skammdeginu. Það munu síðan hafa orðið allmiklar breytingar á frystihúsavinnu eins og flestir vita og fer ekki  út í þá sálma. 

En svokallaðar pásur voru algengar, sérstaklega hjá reykingafólki sem hafði verið bannað að reykja inni í  vinnusal og varð að fara niður í búningsherbergi, salerni eða kaffistofu til þeirra óþrifa verka. Einn vinnufélaga minna Guðbjartur Þórarinsson, (kallaður Bjartur í sumarhúsum), seigur og nýtinn flakari. 

Hann reykti mikið og fór reglulega í pásu. Alltaf á sama tíma á morgnanna fyrir kaffihlé, fór hann niður á salernisrými og læsti að sér inni á einu klósettanna, alltaf á sama klósettið. Þar tefldi hann við páfann á meðan hann reykti eina sígarettu. Ef klósettið var upptekið þegar hann kom niður, þá beið hann frekar en að fara á annað sett. 

Eftir þessu tókum við strákarnir, allir hrekkjalómar innst inni. Við veltum fyrir okkur hvernig við gætum hrekkt karlinn. Þá mundi ég eftir því að ég átti enn til slatta af karbít í dós heima og sagði strákunum frá. Ég kom með í vinnuna litla karbít mola í eldspýtustokk. 

Ég kom stokknum varlega fyrir ofan í klósettinu rétt áður en Bjartur birtist. Stokkurinn flaut vel og setan sett niður. Síðan var setið  álengdar á bekk og beðið spenntir og það mátt hefði heyra saumnál detta. Allt í einu heyrðum við greinilega að kveikt var á eldspýtu. Ég hrökk við og hugsaði ef yrði nú sprenging og var á báðum áttum hvort ég ætti að reyna að koma í veg fyrir slíkt því karlinn mundi þá brenna illa á rassinum. 

En þá heyrðum við stunu og mikið fret. Karlinn er með niðurgang hugsaði ég og það sögðust félögum mínum einnig hafa dottið í hug, sögðu þeir síðar. En nokkrum sekúndum, kannski tíu sekúndum kom það sem búist var við. Enn meiri skruðningar heyrðust, enn háværari en frá karlinum en hafði komið rétt áður, hurðin á klósettdyrunum opnaðist með látum og út kom karlinn æpandi með buxurnar á hælunum og hann féll síðan flatur rétt framan við þar sem við sátum.

Eftir á að hyggja þá var ekki alveg öruggt hverjir okkar voru óttaslegnari, Bjartur eða við sem forðuðum okkur hið snarasta skíthræddir um að Bjartur mundi nota krafta sína til að lumbra á okkur fyrir ódæðið, lyktin sambland af gaslykt og niðurgangi var hrikaleg.

Við fórum til vinnu okkar við flökun og gátum varla falið  sambland af ótta og hlátri, hlátri sem þó síðar um daginn leystist úr læðingi. Bjartur kom upp til vinnu sinnar nokkru síðar en hann var vanur.

Hann leit hvorki til hægri né vinstri og nefndi atvikið ekki við nokkurn mann svo við vissum. Það var svo sumarið eftir að hann kom að máli við mig hálf brosandi og spurði sakleysislega. Hvað settuð þið í klósettskálina?  

Ég þóttist ekki átta mig á hvað hann meinti en hann sagði það þýddi ekki fyrir mig að bera á móti því að við hefðum átt einhvern þátt í sprengingunni sem hann kallaði svo, hann hefði jú reiðst ofsalega og þurft að bíða lengi á eftir til að bæla reiðina en hefði kosið að láta ósagt frá atvikinu, hvorki að kæra okkur né nefna það við neinn. Ég leysti frá skjóðunni og Bjartur fyrirgaf okkur hrekkinn. 

Með því að smella á þennan tengil hér fyrir neðan, má nálgast allskonar upplýsingar um Karbít (calcium carbide)

 https://www.google.is/search?q=acetylene+from+calcium+carbide&newwindow=1&espv=2&tbm=isch&tbo=u&source=univ&sa=X&ei=74LrU7-vKOOS7Aa1j4CoAQ&ved=0CE8QsAQ&biw=1525&bih=850  

Smellið á myndirnar hér fyrir neðan, hægra og eða vinstra megin, til að færa á milli mynda