Frá góðum vini +

Ég get ekki stillt mig um að birta þessa góðu afmæliskveðju sem ég fékk á 80 ára afmælisdegi mínum.

Heill þér gamli góði vinur í gegnum fjölbreytt lífið bæði á láði og á Dröfn.  Á Siglufirði, á Haferninum og á Hvalvík. 

Sá þig fyrst við afgreiðslu í veiðarfæraverslun Sigurðar Fanndals. Tíu árum síðar lágu leiðir okkar saman í gegnum síldarævintýrið á Haferninum. Við höfum farið til Mekka reyndar í Grimsby og þá um leið auðvitað á Rauða ljónið og vorum þar, þangað til konan á barnum sagði: "Time gentlemen" og Dóri Bolvíkingur svaraði: "Hvað segir þú, á að tæma". Við drösluðumst út og hinu megin götunnar blasti við fyrirtækið Lee Wong. Er ekki dásamlegt að vera til og upplifa ýmiss ævintýri víða á jarðar kringlunni. 

Það voru að vísu vonbrigði komast ekki í kaffi til Tito. Ég hefði haft gaman að því að smella af ykkur mynd saman. Í stað þess vorum við teknir fastir af Júgóslafniska landhernum uppi á Mariannihæð. Við vorum ekki settir inn upp á vatn og brauð en fengum í stað þess að labba í blíðunni um borð. Þú fékkst reyndar ávítur frá einum hásetanum fyrir að brjóta afgamlar SÍS reglur um stéttaskiptingu um borð í skipum. 

Guðmundur Arason skipstjóri

Guðmundur Arason skipstjóri

Ég kom um borð í Hvalnes (ex Hvalvík) í höfninni El Ferrol á Spáni 1989. Kom inn í herbergi þar sem eftirlitsmaður frá Nesskip hafði hreiðrað um sig. Herbergið var ein ruslahrúga. Herbergið, sem hafði verið flottasta svítan um borð, eftir að þú breyttir því í glæsilega íbúð. 

Minningarnar sækja að en einhvers staðar verður að slá af annars endar stórafmælisdagurinn þinn, áður en ég get sent þetta pár til þín. Hjartanlega til hamingju með stóráfangann. Haltu áfram að lifa með ævintýrunum og fjölskyldunni. 

Bið að heilsa Guðnýju. Hittumst á góðri stund, þinn vinur, Guðmundur Arason. 

 -----------------------------

Önnur kveðja:  Steingrímur áttræður, kveðja frá börnum. Hér fyrir neðan.

Afmæliskveðja barnanna.

Steingrímur og Guðný Ósk Friðriksdóttir kona hans