Sykurinn og "umsátrið"

Á síldarárunum forðum daga var mikið um að sykur væri notaður í bland við salt þegar saltað var í tunnur til sérstakra viðskiptavina erlendis. Þessi tegund var á manna á meðal kölluð sykursöltun. Þessu fylgdi að sjálfsögðu mikill innflutningur af sykri af hálfu Síldarútvegsmanna. Sykurinn kom í tunnum sömu stærðar og algengast að notuð var við söltun og viðkomandi tunnur voru einnig notaðar til söltunar eftir að þær voru tæmdar af sykrinum. 

Oft bar svo við að Síldarútvegsnefnd fékk að láni nokkra starfsmenn frá SR verksmiðjum vegna uppskipunar og geymslu. 

Eftirfarandi sögu sagði mér Kristinn Jóakimsson

Það hafði komið skip á vegum Síldarútvegsnefndar, með tómar tunnur, krydd, salt og sykur til uppskipunar á Siglufirði og SRingar fengnir til starfans. 

Þetta var seinnipart dags snemma að vori og komið var rökkur þegar uppskipun farmsins var lokið. 

Kristinn og félagar hans; þeir Steingrímur Magnússon, Jörgen Hólm og Eggert Theódórsson voru í því teymi sem sá um að koma sykrinum í geymslu, þeim hafði í sameiningu tekist að koma einni sykurtunnu undan og komið tunnunni fyrir undir Hábryggjunni við Síberíu. 

Þeir komu sér saman um að mæta klukkan 9 um kvöldið á þann vettvang og skipta þar fengnum á milli sín, fengur sem væri rúm 30 kg. á mann, meðfærilegt í poka á bakinu og gott í væntanlegt landabrugg þeirra hvers um sig. 

Slík bruggun þótti sjálfsögð á þeim tíma og fáir sem á annað borð neyttu áfengis, stunduðu til einkaneyslu, þó misjafnlega mikið eins og gengur.

Kiddi sagðist hafa mætt á staðinn um 15 mínútur fyrir klukkan 9. Hann var með vasaljós meðferðis eins og mælst hafði verið til, þar sem engin lýsing var þarna og svarta myrkur þarna undir Hábryggjunni. 

Þegar hann kom á staðinn þar sem tunnan var, þá lagði hann frá sér vasaljósið og reisti tunnuna við. Hann bölvaði sjálfum sér fyrir að hafa ekki komið með sér díxilinn sinn, því þá hefði hann getað opnað tunnuna og verið búinn að gera allt klárt þegar félagar hans kæmu, vonandi man einhver þeirra eftir því að koma með verkfærin, dixil og skóflu til að moka í pokana sem Eggert hafði sagst mundi redda, hugsaði hann. 

Kiddi teygði sig í vasaljós sitt og stakk því í rassvasann. - Klukkan var að verða 9 og Kidda farinn að lengjast biðin eftir félögum sínum. Hann hafði gengið um nokkrum sinnum svona til að taka úr sé mesta hrollinn, en það andaði köldu úr norðri. Klukkan var orðin 10 mínútur yfir 9 og Kiddi farinn að örvænta, hafði hann misskilið tímamörkin, eða eitthvað komið upp á hjá þeim félögum? 

Ekki komu félagar hans og klukkan hálf tíu gafst Kiddi upp og gekk að reiðhjóli sínu og hjólaði heim. Hann var bálvondur og var lengi að sofna vegna vangavelta yfir málinu. Hafði undanskotið (þeir litu ekki á þetta sem þjófnað) komist upp og félagar hans verið teknir fastir og yfirheyrðir, nei það getur ekki verið hugsaði hann. Þetta kemur í ljós í fyrramálið. 

Stuttu eftir að Kiddi mætti í vinnuna klukkan 7 um morguninn fór hann upp á Lager til Eggerts. Þar voru félagar hans mættir og voru greinilega áhugasamir um að heyra hvað Kiddi hefði að segja, en þeir drógu hann með sér inn á skrifstofu Eggerts og lokuðu á eftir sér. 

Af hverju mættir þú ekki eins og við ? Varstu látinn vita ? Af hverju lést þú okkur ekki vita? Það munaði engu að við yrðum teknir........  

Eitthvað á þessa leið romsuðu þeir út úr sér nánast allir í einu. Kiddi vissi ekki sitt rjúkandi ráð og spurði þá um hvað þeir væru að tala, hann sagðist eins og var að hann hefði verið mættur löngu fyrir tímann og ekki farið þaðan fyrr en klukkan hálf tíu. – 

Það var löng þögn og félagarnir litu á hvorn annan, eitt spurningarmerki.  

Eggert varð sá fyrsti sem opnaði munninn og sagði. Það voru margir menn þarna með ljós, við sáum það greinilega þegar við komum fyrir hornið á þrónni. --  

Þá fattaði Kiddi hvað hefði skeð og valdið öllu þessu uppnámi.

Þegar hann hafði komið heim um kvöldið og lagt frá sér vasaljósið heima í forstofu, sá hann að ljós var á lugtinni. Það hafði kviknað á ljósinu þegar hann hafði stungið því í rassvasann og þegar hann hafði genguð um þarna um á vettvangi í myrkrinu undir hábryggjunni, þess vegna máttu félagar hans ætla að þar væru nokkrir menn á ferli.

Það var hlegið mikið og hressilega eftir að þeir höfðu bölvað hvor öðrum í kæring. 

Sykurinn var sóttur næsta kvöld, en ekki vildi Kiddi segja mér hvort bruggunin hefði tekist vel og  smakkast vel, eða hvort sykurinn hafi verið notaður til annarra nytsamari hluta.

 Steingrímur