Bilaðir mótorar í bland við lagfærða

Allir  rafmótorar sem biluðu, brunnu yfir eða þurfti á einhvern hátt að lagfæra hjá SR verksmiðjum á Siglufirði, Raufarhöfn, Seyðisfirði og Reyðarfirði, einnig raunar víða annarsstaðar frá af landinu voru sendir á SR-Rafmagnsverkstæði á Siglufirði.

Þar voru brunnir og bilaðir mótorar lagfærðir af mönnum sem kunnu vel til verka. 

Eftir viðgerð voru svo mótorarnir hreinsaðir og málaðir að utanverðu og litu út sem nýir. 

Þann starfa hafði um tímabil Skarphéðinn Björnsson fyrrum sjómaður og áður pressumaður hjá SR í áraraðir. 

Skarpi var harðduglegur en á þessum tíma frekar skapstyggur sem rekja mátti til  fótbrots sem hann varð fyrir í vinnunni og fékk í því framhaldi ofangreint verk að vinna, þar sem hann átti erfitt með að sinna fyrra starfi.  

Karlinn var vandvirkur og vann sitt með prýði. Nýviðgerðir mótorar voru í einu horni vinnusvæðisins, og eftir að búið var að pússa þá og mála þá voru þeir fluttir yfir á annað svæði. 

Skarphéðinn Björnsson, ljósmynd; Kristfinnur

Skarphéðinn Björnsson, ljósmynd; Kristfinnur

Eitt sinn mun öllum viðgerðum mótorum hafa fækkað vegna annarra vinnu rafvirkjanna og Skarpi orðinn verkefnalaus. Það mun þessi duglegi karl ekki hafa verið hrifinn af svo hann tók sig til og málaði nokkra bilaða mótora og af hugsunarleysi flutti þá eftir sína aðgerð yfir á svæði hinna viðgerðu. 

Sumir mótoranna voru um og yfir 100kg og notaði hann sérstakt lyftiverkfæri á hjólum til þess, auðvelt mál jafnvel fyrir fatlaðan sem Skarpi var á þessum tíma. Þetta var snemma að vori. 

Svo var það stuttu eftir að landanir á síld hófust á Siglufirði að rafmótor brann yfir við einn löndunarkranann. Sá mótor var efst uppi á viðkomandi dragara sem var í um 10m hæð og þurftu vélaverkstæðismenn mikla tilburði og búnað ásamt viðkomandi þrældómi að koma um 100kg mótornum niður og svo öðrum í lagi, upp á sama stað með enn meiri fyrirhöfn og svita.  

Myndin hér fyrir neðan sýnir aðstæður. Vélverkstæðismenn unnu við verkið

Þetta tók langan tíma og á meðan biðu skip eftir löndun. Þegar mótorinn var kominn á sinn stað kom rafvirkinn til að tengja og rafmagni hleypt á til prufu en ekkert skeði. Mælitæki sótt og mælt bak og fyrir. Niðurstaðan var einföld, mótorinn var jafnbilaður og sá sem nokkru fyrr hafði verið þarna á sama stað. 

Rafvirkjarnir urðu æfir og vélaverkstæðiskarlarnir sem voru að taka saman verkfærin sín ennþá verri. Það munu hafa verið þung orð sem féllu frá Baldri meistara á rafmagnsverkstæðinu, reiðilestur yfir Skarpa sem hafði málað  bilaðan mótor og sett við hlið hinna nýviðgerðu, sem svo rafvirkjarnir höfðu flutt fram á bryggju til vélaverkstæðismanna.

Löndunarkranar SR – Örin bendir á staðsetningu ofar nefnds mótors

Löndunarkranar SR – Örin bendir á staðsetningu ofar nefnds mótors