Þorleifur Hólm múrari

Leifi Hólm var sérstakur persónuleiki og góður vinnufélagi. En hann reykti mikið og var nokkuð oft, aðeins rakur.

Ég kynntist Leifa þegar við unnum saman hjá Páli Jónssyni byggingameistara hjá Síldarverksmiðjum ríkisins. Hann stundaði þar almenna verkamanna vinnu og handlang. 
En ávalt er vinna þurfti við steypuvinnu og eða lagfæringar á steinsteyptum mannvirkjum þá var Leyfi þar fremstur í flokki með múrskeiðina og tilheyrandi.

Hann tók jafnframt oft að sér í tengslum við viðgerðir á veggjum mannvirkja, að reisa sjálfur vinnupalla sína. 
Stundum einn og stundum með aðstoð handlangara og eða með aðstoð hæfari manna. En hann stjórnaði hvernig þeir vinnupallarnir áttu að vera sem hann vann á.

Leifi hafði einnig oft tekið að sér eftir vinnutíma smáverk utan lóðar. Hann var sem sé nr. 1 múrari og númer 2 smiður sem smíðaði sín eigin mót þegar þess þurfti ásamt vinnupöllum. 
Þessa vinnu Leifa höfðu hinir löglærðu múrarar bæjarins á hornum sér og höfðu margsinnis kvartað við Pál án árangurs. Einnig kært til fógeta án árangurs. Meira um það síðar. 
Katta og hundabani. Einhvern tíma á árunum 1942 +/-

Þorleifur Hólm

Þorleifur Hólm

Grimmur hundur

Margar kvartanir höfðu borist til yfirvalda vegna hunds sem átti það til að hlaupa að krökkum og jafnvel fullorðnum og glefsa urrandi í og jafnvel bíta illa. 
Hundurinn, var að mér var sagt hafa verið í eigu eins af starfsmönnum á Hóli (þáverandi mjólkurbúi Siglufjarðar) 

Hundurinn var alltaf laus en þó oftast í fylgd húsbónda síns. En einnig átti hundurinn það til að flækjast víða þegar húsbóndi hans var einhversstaðar innandyra í heimsóknum til bæjarins. 
Búið var að gefa út sérstaka aftökuskipun á hundinn en þegar á reyndi þá hélt eigandi hundsins honum alltaf svo nærri sér að sá sem sjá átti um verkið gat ekki aflífað hundinn með hefðbundnum hætti vegna mótmæla eigandans. 

Þorleifur Hólm vann þá á vegum fógetans, við útrýmingu flækingskatta og hunda. Leifi átti að farga hundinum með einhverjum ráðum sagði fógetinn. 

Leifi vildi ljúka þessu verki sem fyrst og tók því til sinna ráða. Næst þegar hann frétti að hundurinn væri kominn í bæinn ásamt eigandanum þá tók hann vörubifreið á leigu og lét bílstjórann leita hundinn uppi. 
Sjálfur var Leifi við hlið bílstjórans með opinn glugga tilbúinn með haglabyssu sína ef hundurinn birtist. Það var svo á Suðurgötunni ofan við Skafta á Nöf. 

Hundurinn var á leið suður götuna nokkrum metrum á undan húsbónda sínum. 
Bílnum með Leifa við hlið bílstjórans var ekið hægt framúr hundaeigandanum. Leifi setti hlaupið út og hleypti af. Hundurinn steindauður og Leyfi hrópaði hátt til bílstjórans. "Settu á fulla ferð" 

Hundaeigandinn kærði Leifa, en fógetinn sagði það tilgangslaust þar sem eigandinn hafði alltaf komið í veg fyrir að hundinum yrði lógað á viðeigandi hátt. Eftir þetta var Leifi fljótur að forða sér ef fréttist til fyrrverandi hundaeiganda í bænum.

Ekki veit ég hvort þetta var sami hundurinn frá Hóli sem hafði bitið mig þegar ég var krakki, og ber enn ör eftir, en mér þætti það ekki ólíklegt. 

Leifi Hólm, staðfesti þessa frásögn við mig um hundadrápið mörgum árum eftir atvikin. Þá var Leifi vinnufélagi minn og þá í hópi Pálsmanna hjá S.R. En sagan sjálf hafði oft áður verið sögð í mín eyru og annarra.

Meira af Leifa: Lögreglumál.

Þegar byggt var við norðurhluta SR-Vélaverkstæðis árið 1960 bað Palli, Leifa að pússa gólfið í hinni nýju viðbyggingu. Til þeirra verka fór Leifi fús. Steypunni var keyrt inn jafnóðum þar sem Leifi tók við og sléttaði gólfflötinn eftir kúnstanna reglum. Hann var búinn að jafna gólfið á um á rúmlega eins metir svæði þvert yfir gólfið. 

Þá birtust tveir lögregluþjónar með tilskipun frá bæjarfógetanum um að stöðva verkið. Leifi var fluttur á lögreglustöðina til yfirheyrslu og skýrslugerðar.

Álengdar stóðu múrarameistararnir þeir Baldur Sigfússon í Hlíð og Sigurður Magnússon. Báðir með glott á vör. 
Þeir munu hafa haft grun um athafnirnar, og gert ráðstafanir hjá fógeta um að stöðva ófaglærðan mann við að vinna við múrverk sem samkvæmt lögum tilheyrðu faglærðum múrurum. 

Páll sem kominn var á vettvang. Snéri sér að þeim félögum reiður á svip og sagði höstuglega: 
"Þið væntanlega takið þá að ykkur verkið  klárið " ? 
Siggi múrari varð fyrir svörum og sagði drjúgur samhliða því að hann tók upp vasaklút og snýtti sér rækilega: (hann tók mikið í nefið)

"Það er nú undir því komið hvort um það semst" Páll svaraði um hæl enn reiðari:
"Ef þið takið ekki strax við þá læt ég einhvern minna manna fara í verkið. Ég hefi nóg af hæfum mönnum til þess." 
Siggi ætlaði að svara en Baldur varð fyrri til og sagði að þeir mundu sjá um það. Siggi tók sig svo til og byrjaði þar sem Leifi hafði verið stöðvaður.

Áfram hélt Páll síðar, að láta Leifa vinna ýmis smáverkefni. Páll lét kvartanir og aðfinnslur múraranna ekkert á sig fá. Páll hafði nokkuð góð spil á hendi hvað múrarana varðaði, aðallega þó á Sigga. 

Tvisvar til þrisvar á ári þurfti einhversstaðar hjá verksmiðjunum, á Siglufirði og hjá verksmiðjunum fyrir austan að láta endurnýja múrhleðslur bæði við gufukyndingu og þurrkyndingu. þetta var vandaverk þar sem Siggi var snillingur til verka eftir margra ára reynslu. 

Siggi hafði verulega góðar tekjur af þessari vinnu sinni og hafði setið fyrir þeirri vinnu. Verk sem oftast fór fram yfir vetrarmánuðina þegar engin síld veiddist og lítil vinna var við venjuleg múrverk.  Páll sá einmitt um að það að skaffa verktaka til þessara verkefna ofl. 

Páll mun hafði laumað því að Sigga að ef hann léti ekki Leifa í friði við þessi hefðbundnu smáverkefni hjá SR. Þá gæti sér alveg eins dottið í hug að leita eftir múrara að sunnan til hleðslunnar í kyndiofnunum.  Siggi væri ekki eini múrarinn á landinu sem þetta kynni.

Örlög Leyfa ráðin

En svo var það um vorið árið 1963, að Palli gekk svo um munaði fram af múrurunum. Páll sá um allt viðhald fyrir bæjarfógetaembættið á Siglufirði. Hann hafði fengið beiðni frá fógetaskrifstofu um að endurnýja steyptar tröppur við innganginn að skrifstofunni. Þetta var talsvert verk, tvær tröppur og stétt. 

Páll setti Leifa í verkið. 

Leifi byrjaði á því að brjóta og fjarlægja skemmda steypuna og hóf svo uppsláttinn. 

Hann var einn að dunda við þetta í nokkurn tíma án þess að neinn gerði við það athugasemd. 

Meir að segja Siggi múrari sem fór þarna framhjá oft á dag til og frá heimili sínu sem var nokkru utar við Hvanneyrarbraut hafði ekki tekið eftir þessum vinnuvettvangi.  

Það var ekki fyrr en Siggi sá menn vera að handhræra steypu á stálplötu neðan við fógetahúsið. þetta var á laugardegi og fógetaskrifstofan lokuð. 

Ekki náðist í lögregluþjón fyrr en verkinu var að fullu lokið og þá lítið til að stöðva.

Þeir múrarafélagar kærðu þá bæði Pál, Leifa og fógetann sjálfan til dómsmálaráðuneytisins. Ráðuneytið hafði að sjálfsögðu samband við fógetann. En hvað þar fór á milli og eða annarra sem að málinu komu vitnaðist ekki.

En niðurstaða ráðuneytisins var sú að þar sem Leifi hefði stundað þessa vinnu svo lengi, þá mætti hann taka að sér í þjónustu byggingameistara, að sér minni verk.  

Þessum úrskurði vísuðu múrarnir til sjálfs dómsmálaráðherranns.  Þar létu þeir fylgja ma. þeirri röksemd, að Leifi væri langt frá því að vera hæfur til múrverka. Og að engum múrarameistara mundi láta sér detta í hug að ráða hann sem handlangara hvað þá til að vinna við almenn múrverk.  

Enn var á huldu hver atburðarásin var nema það að Palli kom til mín og bað mig um að stækka fyrir sig þrjár ljósmyndir sem ég hafði tekið og ég hafði sýnt vinnufélögum mínum í albúmi nokkrum mánuðum fyrr. 

Þetta gerði ég auðvitað. Myndirnar kom ég svo með stækkaðar í 18x24sm stærð, í vinnuna daginn eftir. Páll setti þær í umslag og límdi á það frímerki og fór með í póstinn. 

Ekki vildi hann ræða neitt um ástæður þessarar beiðni en sagði að það kæmi í ljós síðar.

Nokkrum dögum seinna kom Páll inn á trésmíðaverkstæði og kallaði á Leifa sem þar var og rétti honum umslag. Það tók Leifa góðan tíma að átta sig á því hvað það var og táknaði, það sem stóð í bréfinu sem hann var að lesa.

Þorleifur Hólm var með í höndunum bréf sem veitti honum staðbundin réttindi til að sinna öllum verkefnum sambærilegum þeim sem hann hefði stundað síðasta áratuginn. Stimplað og undirskrifað af sjálfum dómsmáaráðherranum Bjarna Benedikssyni. þetta skjal sá ég sjálfur ásamt flestum vinnufélaga minna. 

En Leifi var óspar á að hampa „skírteininu“. Hann hafði í raun óbein trésmíðaréttindi að auki, þar sem hann hafði oft smíðað sína vinnupalla og uppslátt sjálfur eins og fyrr segir. Fréttin fór eins og eldur um sinu um vinnusvæðið. 

Auðvitað fengu ákærendurnir, múrararnir einnig bréf í pósti um niðurstöðu dómsmálráðherra.  

Steingrímur Kristinsson     

Viðbót um Leifa:

Þorleifur Hólm, f. 25, maí 1910 á Siglufirði, d. 18. apríl 1988 á Siglufirði.  Foreldrar Lárus Blöndal Bjarnason skipstjóri f. 17. júní 1894 d. 30 janúar 1954 í Reykjavík og Kristín Bessadóttir f. 13. júlí 1886 á Siglufirði d. 25. júní 1936 á Akureyri.

Iðnbréf samkvæmt ráðherraveitingu 1936. Félagi í Múrarafélagi Reykjavíkur. Kona hans Sesselía Jóhanna Jónsdóttir f. 26 mars 1905 á Haugasundi Árskógshreppi Eyjafirði, d. 7 júní 1989 á Siglufirði. Foreldrar hennar; Jón Jóhannssonsjómaður á Árskógströnd, f. 26 október 1864 á Selá Árskógshreppi og kona hans Kristín Loftsdóttir f. 17 júní 1863 á Dalvík, d. 1 mars 1929 á Árskógströnd. Börn þeirra Þorleifs og Sesselíu:

Hafsteinn Hólm, næst kom 
2. Elva Hólm fædd 10. apríl 1936, dáin 6. mars 2007; 
3. Sverrir Hólm fæddur 23. febrúar 1942, dáinn 19. apríl 1942
4. Kristinn Jón Hólm fæddur 2. júlí 1943, búsettur á Akureyri ásamt fjölskyldu sinni,
5. Þyri Sigríður Hólm fædd 21. apríl 1946, dáin 21. október 1977 og
6. óskírð Hólm fædd og dáin 8. september 1947. - Ofanritaðar heimildir (Viðbót) eru að hluta frá

„Múraratal og steinsmiða“ frá árinu 1936 gefið út af Múrarafélagi Reykjavíkur og Múrarameistarafélagi Reykjavíkur- 

Hvað varðar fullyrðingu þar, um ráðherrabréf til handa Leifa árið 1936, þá finnst mér það vera nokkuð ólíklegt þar sem aldrei hafði Leifi nefnt það við mig eða vinnuveitanda sinn þann áratug sem ég vann með honum og að hann var undir sífeldum kærum og kvörtunum frá múrurum á Siglufirði og að auki kærum vegna vinnu hans við múrverk, kærur sem náðu alla leið til ráðherra árið 1963 sem endaði með Ráðherra réttindum út gefið af Bjarna Benedikssyni til handa Þorleifi Hólm. 

Þá tilskipun sá ég með eigin augum mínútu eftir að hann tók við því úr hendi yfirmanns síns, Páli G Jónssyni byggingameistara. S.K.

Hinsvegar gæti verið að iðnheitið "Steinsmiður" og "ráðherratilskipun 1936" hafi verið gefin út og hafi gilt sem slíkt, en Leifi hafði lengi árum fyrr, framleitt gangstéttarhellur og álíka, jafnvel legsteina ofl. En þetta nefndi Leifi aldrei, hvorki við Pál verkstjóra sinn hjá SR, né vinnufélaga.

Hinsvegar gæti verið að iðnheitið "Steinsmiður" og "ráðherratilskipun 1936" hafi verið gefin út og hafi gilt sem slíkt, en Leifi hafði lengi árum fyrr, framleitt gangstéttarhellur og álíka, jafnvel legsteina ofl. En þetta nefndi Leifi aldrei, hvorki við Pál verkstjóra sinn hjá SR, né vinnufélaga. -- Og möglegt er að Leifi hafi ekki gert sér grein fyrir, að sennilega hafði hann þessi réttindi allt fr'a 1936 ?