Páll G Jónsson byggingameistari

Páll og Siggi

Páll G Jónsson byggingameistari Síldarverksmiðja ríkisins.

Það hefur áður komið fram að Páll átti til að vera orðheppinn og fljótur að svara hnitmiðað þegar á hann var deilt.

Eitt sinn kom Sigurður Elefsen verkstjóri Vélaverkstæði SR, að máli við Palla á trésmíðaverkstæðinu. 

Siggi bað Palla að smíða fyrir sig skáp undir nokkur verkfæri. Siggi ætlaði að láta setja skápinn upp á SR-Renniverkstæðinu. 

Páll sagði það í fínu lagi en hann þyrfti fyrst að panta efni í skápinn þar sem hann ætti ekkert efni sem æskilegt væri í skápa. 

Páll og Siggi

Páll og Siggi

Siggi bendi á nýhefluð borð sem voru í stafla á verkstæðinu. Borðvið sem leit mjög vel út. Málin voru um 5/8 x 7 tommur nánast kvistalaus með fallegri áferð.  

Palli vildi meina að þessi borðviður væri ekki hentugur það væri raki í efninu. Siggi gaf sig ekki og sagðist sætta sig við þetta efni það væri fínt. „Allt í lagi“ sagði Páll og bætti við.

 „Ég skal láta Geira smíða skápinn, komdu með teikninguna“.

Geir Guðbrandsson smíðaði svo skápinn samkvæmt teikningu frá Sigga. Hann málaði hann einnig með grárri málningu. 

Siggi var himinlifandi þegar Geiri flutti skápinn til hans og setti hann upp samkvæmt óskum Sigga, inni á Renniverkstæðinu. Verkfærin voru svo hengd upp inni í skápnum og hurðinni læst með flottri læsingu.

það liðu nokkrir mánuðir. Þá gerði Siggi boð fyrir Palla um að hann ætlaði að sýna honum dálítið inni á renniverkstæði. 

Þegar Páll mætir þá bendir Siggi honum á skápinn fyrrnefnda og sagði í gagnrýnitón. 

„Sérðu rifurnar? Það væri hægt að ríða þilfullri meri inn um þær.“ 

Páll leit á skápinn og glotti. Hann svaraði um hæl.

 "Er nú ekki nóg að þú sért með alla fjölskylduna í vinnu hérna, þó svo þú farir ekki að draga helvítis merarnar þínar hingað líka?“ 

Með það fór Páll út í fússi, að Sigga sýndist.

þetta mátti kalla fast skotið eins og Palla var líkt. Hann var ófeiminn að tjá sig.  Sigga varð orðfall.

Borðviðurinn sem skápurinn var smíðaður úr, hafði verið geymdur lengi við slæm skilyrði og kominn í hann raki. 

Það sagði Páll, Sigga í upphafi. 

Síðan inni á renniverkstæði í miklum hita, þornaði viðurinn og rýrnaði og um 3ja mm rifur höfðu myndast á hurðum hans. 

Siggi hafði ráðið þrjú af börnum sínum til vinnu á verkstæðinu og kona hans vann þar einnig við þrif.  Siggi og fjölskylda hans áttu einnig nokkra hesta. Það var það sem Palli meinti með svari sínu. 

Ekki þó beint illa meint. 

Þótt Palli hafi alveg slegið Sigga út af laginu með svari sínu, þá sagði Siggi mér síðar frá þessari uppákomu og hafði gaman af. 

Skápnum var síðan hent á haugana veturinn, eftir að Geiri hafði smíðað nýjan skáp úr alvöru efni.