Ólafur Þ Þorsteinsson sjúkrahúslæknir

Ólafur Þ Þorsteinsson

Ólafur Þ Þorsteinsson, læknir.  Fæddur 19-08-1906 - Dáinn 21/05-1989

Allir eldri Siglfirðingar muna eftir Ólafi lækni. Margar sögur hafa verið sagðar af þessum einstaka manni sem var ekki aðeins afburða hæfur læknir heldur dagfarsprúður og mátti ekki vamm sitt né annarra vita. 

Ólafur var stundum hrekkjóttur þó svo að ekki margir hafi kynnst þeim eiginleika hans. 

Ólafur réði sig sem lækni á Sjúkrahúsi Siglufjarðar árið 1942. Hann lauk þar ferli sínum sem yfirlæknir um árið 1976 en hélt þó áfram að stunda sjúklinga sína frá læknastofu sinni við Hólaveg á Siglufirði. 

Ólafur var læknir á Siglufirði í 47 ár. 

Ég kynntist Ólafi vel á mínum unglingsárum. Ég var hálfgerður hrakfallbálkur og var sífellt eitthvað að meiða mig. 

Ég fékk oft slæmar skrámur sem ég annað hvort af sjálfdáðum eða mamma  taldi ástæðu til að láta Ólaf skoða og eða binda um. 

Meðal annars eitt sinn af alvarlegri blóðeitrun af völdum skurðar sem ég hafði fengið við eitt af sjósundum mínum þegar ég rak tána í blikkafskurð eða hrúðurkarl. Vegna þess lagði Ólafur mig inn á spítalann, þar sem ég lá í hálfan mánuð, en fótur minn varð allur helblár upp að hné. Ég var þá 14 ára. 

Ólafur Þ Þorsteinsson

Ólafur Þ Þorsteinsson

En ég ætlaði að segja frá "hrekklund" Ólafs, hans kímnigáfu sem var saklaus en oft vandræðaleg fyrir þá sem fyrir urðu.

Sagan hér á eftir er af mér sjálfum sem varð fyrir hrekk hans og kímni. 

það var í byrjun októbermánaðar árið1950 þá var ég 16 ára. Mig fór að verkja illa í það allra heilaga, eistun og þar í kring. 

Engum sagði ég frá þessu og beit bara á jaxlinn. 

Ég tengdi þessa verki mína lífsreynslu sem ég hafði orðið fyrir austur í Mývatnssveit nokkrum vikum áður. Það var af mínum fyrstu kynnum með konu kynferðislega.  

Konan var um þrítugt og allt sem þar fór fram með mínu samþykki þó svo að hún hefði ráðið ferðinni alla þá nótt. Svolítið óvænt uppákoma með konu sem ég þekkti ekki neitt. Þess vegna enn meira feimnismál að nefna fannst mér. Og enn síður að nefna atvikið fyrrnefnda við mömmu, þar sem ímyndaðar ástæður verkja minna komu við sögu. 

Ég hafði einhvern tíma heyrt talað um lekanda sem menn hefðu fengið í siglingum. En áðurnefnd kona hafði einmitt frætt mig um það að hún hefði verið í siglingum áður fyrr sem þerna á einum fossanna og hefði reynt ýmislegt. 

Hugsunin um þau orð hennar tengdi ég við verkina sem ég hafði og ollu mér miklu hugarangri. Ég gat lítið sofið í nokkra daga. Þetta allt gerði mig skelfdan þó svo ég hefði ekki hugmynd um hvernig verkir, óþægindi eða afleiðingar væru af völdum kynfærasjúkdóma, þá grunaði mig hið versta.

Það endaði með því  að ég stappaði í mig kjark með kvalirnar í farkestinu. Ég fékk mér sæti á biðstofunni uppi á spítala. Það var enginn annar á biðstofunni sem betur fór fannst mér. Ég vissi að heimsóknartímanum var að ljúka. Hjúkrunarkona sagði mér að Ólafur væri inni og mundi kalla á mig.

Eftir nokkra bið kom Ólafur og Garðar Hallgrímsson "svæfingarlæknir" með honum út. (Garðar var einnig mikill prakkari)

Ólafur horfði á mig og spurði hvað amaði nú að mér, hann sá engin meiðsli á mér "að þessu sinni."

Ég var tregur til að svara í návist Garðars en sagði „Hérna“ og snerti klofið.  Ég hafði snúið mér frá Garðari svo hann sá ekki hvar ég benti.

Ólafur horfði á mig smá stund og sagði svo grafalvarlegur. "Komdu með, ég skoða þig niðri í kjallara".

Mér brá, því ég vissi að þar var Garðar með rannsóknarstofu og græjur. Garðar fylgdi okkur fast eftir. 

Farið var inn í litla kompu sem greinilega var kaffidrykkjuafdrep. Bekkur var til að sitja á og lítið borði með kaffibrúsa á, bollum og sykurkari. Ég var bæði undrandi og óttasleginn.

Þeir settust báðir.  Ólafur sagði alvarlegur. Svona strákur ekki feiminn við Garðar.  Hnepptu niður um þig og lof mér að sjá. 

Á meðan ég lækkaði seglin setti hann á sig bláa gúmmíhanska. Hann skoðaði og þuklaði þann stutta ásamt eystunum og svæðið umhverfis um stund. Ég væntanlega blóðrauður í framan og vandræðalegur eftir því. 

Ekki síst er ég sá eftir augnagot, að breitt glott var á andliti Garðars. Ólafur sagði svo eitthvað á þessa leið: 

"Ertu farinn að kela við stelpur strákur?"  

Ekki man ég hverju ég svaraði en það var eiginlega bæði já og nei svar. 

Síðan sagði Ólafur brosandi. "Upp með buxurnar strákur þetta er allt í lagi þetta eru bara vaxtavextir. Þetta lagast eftir 3-4 daga og þú gleymir þessum verkjum fljótt" Þungu fargi var vissulega af mér létt en þessari meðferð er mér enn í fersku minni.

það er ekki vafi á að þeir hafa hlegið vel eftir að ég yfirgaf þá félaga. 

En verkirnir voru horfnir eftir tvo þrjá daga.

Annan óbeinan hrekk sinn sagði Ólafur mér frá í formi dæmisögu mörgum árum síðar. 

Ég hafði lengi verið með slæman bakverk og fór nokkuð oft til Ólafs og fékk "sprautu" sem linuðu þjáningar þegar þær voru sem mestar. 

Ég fékk einnig reglulega á þeim tíma sterkar verkjatöflur sem síðar hættu að virka á mig.

Hann prófaði nokkrar tegundir en þar við sat. Þá sagði Ólafur að hann ætti ekki nein ráð eftir nema að gefa mér kalktöflur og segja mér EKKI frá því hverskonar töflur þær væru. En sagði jafnframt að það mundi víst ekki duga þar sem hann væri viss um að verkirnir mínir væru raunverulegir en ekki uppgerð. 

Ég spurði hvað hann ætti við, þá sagði Ólafur mér eftirfarandi sögu:

"Það er alþekkt fyrirbæri innan læknastéttar að til lækna komi fólk sem telji sig finna til hér og þar en væri alls ekki á neinn hátt líkamlega lasið heldur sálrænt ástand sem erfitt væri að lækna nema af sálfræðingum. 

Ég er engin undantekning frá slíkri reynslu. Ein fullorðin kona var nánast að gera út af við mig. Fyrst gaf ég henni meðul og töflur sem ég vonaði að virkuðu á hana en komst svo að því að þessi veikindi hennar voru sálræn uppgerð.

Eftir nokkurra mánaða reglulegar heimsóknir hennar með verki, svefnleysi, og neikvætt hugarfar að hennar sögn í tengslum við næturgaman bónda hennar meðal annars. Þá ákvað ég að beita sálfræðinni og vita hvort það mundi virka. 

Hún hafði komið til mín kvartandi eins og svo oft áður. Ég tók óvenju broshýr á móti henni og sagðist hafa góð tíðindi handa henni. 

Blessuð konan ljómaði og spurði  hver tíðindin væru. Ég sagðist hafa fengið sérstakar töflur frá vini mínum í Kína en hann hefði gert læknisfræðilega uppgötvun. Töflurnar hans hafa ekki enn fengið viðurkenningu í Evrópu né hér heima á Íslandi en hefðu virkað fullkomlega í Kína við ýmsum sjúkdómum. 

Ég sagðist sannfærður um að þessar töfratöflur hentuðu einmitt við hennar lasleika. En hún mætti bara engum segja frá þessu því ég gæti þá átt hættu á kæru frá landlækni. Hún yrði að sverja og lofa því að segja engum frá ekki einu sinni manni sínum frá þessu.

Konan lofaði hátíðlega að segja engum frá. Hún átti að taka eina töflu fyrir svefn og aðra eftir morgunverð. Alls ekki fleiri, skammturinn sem hún fékk átti að duga í viku og þá kæmi hún til að fá annan skammt. Henni yrði líklega batnað alveg eftir tvo til þrjá daga en yrði að halda áfram að taka pillurnar inn í að minnsta kosti tvær vikur.

Eftir viku kom konan og ljómaði öll og sagði að henni kenndi einskis mein og það sem betra var bóndi hennar var í skýjunum þar sem hún var hress í rúminu sem aldrei fyrr. Konan þurfti ekki á heimsóknum til Ólafs að halda í marga mánuði eftir þetta en hún brosti breiðu brosi framan í Ólaf er hún mætti honum á götu."

Þannig að venjulegar kalktöflur, „með aðstoð trúarinnar" geta gert kraftaverk.

Ég hafði sterkan grun um  hvaða kona þetta var, þó svo að Ólafur hafi aldrei nefnt nafn hennar, en það er önnur saga.

Steingrímur Kristinsson

Ljósmyndir: Steingrímur, myndir í eigu Ljósmyndasafns Siglufjarðar & Síldarminjasafnsins.