Bethke - Herbert Pálsson verkstjóri

Heinbert Bethke

Og hér er einnig önnur saga sem tengist Ólafi lækni, söguna sagði mér Herbert Pálsson, Þjóðverji sem bjó á Siglufirði í mörg ár, raunar í sama húsi, Hvanneyrarbraut 80 sem ég eignaðist síðar og bjó þar í áratugi.

Heinbert Bethke  eins og hann hét upphaflega sem þýskur ríkisborgari breytti nafni sínu í Herbert Pálsson er hann varð Íslenskur ríkisborgari.  Bethke þekkti ég vel en hann var lengst af verkstjóri og skrifstofumaður hjá söltunarstöðinni Hafliði hf. 

Hann var tekinn fastur á stríðsárunum og fluttur til Bretlands vegna þjóðernis en kom heim aftur til konu og barna eftir stríð. Bethke var mjög málgefinn og kátur náungi og átti það til að taka duglega til  máls í umræðum undirmanna sinna þegar hlé gafst frá önnum við síldina. 

Fyrstu kynni mín af Bethke urðu þegar ég var unglingur, þau kynni þróuðust fljótt vegna tíðra ferða minna á svæði umhverfis hús hans og nágrenni þar sem "bestu guttarnir" áttu heima, þar á meðal voru synir hans tveir, Örn og Dither.

Heinbert Bethke

Heinbert Bethke

Mikið var leikið og  flækst um fjörur og fjöll á ströndinni og einnig leikur við sjóinn á svæðinu, ma. mikið um sund í sjónum fyrir neðan hús hans. 

Valbjörn Þorláksson vinur minn bjó þá ásamt foreldrum í bragganum niður á Bakka og voru því margar ferðir mínar í norðurbæinn kringum hús Bethke við Hvanneyrarbraut 80. 

Svo og auðvitað þegar ég fullorðnaðist vegna við vinnu hjá honum á kvöldin og um helgar í síld á planinu sem hann stýrði.

Eins og áður segir, þá var hann mjög málgefinn og talaði oft mikið um einföldustu málefni og hafði skoðum á öllum málum og lét þær skoðanir vel í ljós.  Gallinn var bara sá að það var alls ekki góð íslenska sem hann talaði, það voru fáir sem skildu hann vel. Hann talaði bæði hratt og blandaði gjarnan mikið þýskum orðum saman við setningar. 

Alltaf brosti Bethke jafnvel þó illa gengi. Hann hafði ávalt af að klára erfið verk með hörku og brosi til skiptis. Þessi orðaflaumur hans var þekktur og brosað af en Bethke aftur á móti gerði sér litla grein fyrir því að ekki var auðvelt stundum að skilja hann.

það var svo eitt haustið að Bethke ásamt fjölda Siglfirðinga fengu slæma flensu. Fólk fékk hæsi á háu stigi og átti erfitt með að tala. Ekki voru mörg árangursrík lyf til við svona flensu. Margir drukku svokallaða brjóstdropa og eða hóstasaft við þessum kvilla. það virkaði á suma eða öllu heldur minnkaði sársauka í hálsi.

Gefum Bethke orðið: 

"Ég var búinn að reyna bæði brjótsdropa og einhverjar mixtúrur, meðal annars koníak, en ekkert dugði. Ég ákvað að fara til Ólafs vinar míns og fá hjá honum eitthvað krassandi við þessu en ég  hafði vart getað talað í nærri viku.

Ég fór á stofu hans og beið þar stund þar til röðin kom að mér. Hann hlustaði mig skoðað upp í mig og þreifaði hálsinn á mér. 

Hann sagði að þetta væri ekkert hættulegt bara þessi flensuskratti sem gekk í bænum ég skildi bara fara í Apótekið og fá mér hóstamixtúru. Brjóstdropar væru eiginlega það besta sem hann gæti ráðlagt mér.

Ég var ekki sáttur við þessa niðurstöðu og ég gekk hart að honum um að hann hlyti að geta gefið mér réseft upp á eitthvað sem virkaði betur.  
Hann sagði nei, en ég gafst ekki upp en Ólafur "gafst upp" og sagðist hann ætla að skrifa réseft ef ég lofaði að segja engum frá því. 

Aðeins Schiöth mætti sjá réseftið. Hann ætlaði að hringja í hann og láta hann vita. Hann lagði áherslu á það að aðeins Schiöth fengi réseftið, enda skrifað á latínu. 

Ég fór niður í Apótek og spurði um Schiöth, hann hafði brugðið sér frá en var væntanlegur fljótlega. Ég beið í dágóða stund. 

Þegar Schiöth loksins kom, leit hann á mig alvarlegum augum og sagði að Ólafur hefði hringt í sig. 

Schiöth benti mér á að koma inn fyrir og sagði blá alvarlegur. 

 „Ég veit ekki hvort ég get afgreitt það sem Ólafur sagði mér í símann við getum báðir misst réttindi okkar ef upp kemst“ sagði Schiöth. 

Ég var ekki viss hvernig ég ætti að bregðast við en tuldraði hásum rómi hvort þetta meðal mundi virka. 

Ég er nokkuð viss um það, farirðu eftir því sem á lyfseðlinum stendur, en lofaðu mér að sjá seðilinn, sagði Schiöth.

Ég rétti honum réseftið. Hann las vandlega en spurði svo hvort ég kynni að lesa latínu. Ég hristi höfuðið og hann endurtók orð Ólafs. Þú mátt ekki segja nokkrum manni frá þessu, en hér stendur greinilega: 

" Bethke, þú átt að halda kjafti í tvo til þrjá daga, þá batnar þér." 

Annað stendur ekki hér, sagði svo Schiöth.

Ég var á báðum áttum, hvernig ég ætti að bregðast við þessum skilaboðum frá vini mínum Ólafi lækni, lesin upp af öðrum vini mínum Aage Schiöth. 

En brosglott apótekarans kom mér til að hlæja þó erfitt væri vegna eymsla í hálsinum. Frá Apótekinu fór ég svo með enn eitt brjóstdropaglasið Í VIÐBÓT og talaði svo sem minnst næstu daga.  

Ekki skyggði þessi hrekkur þeirra Ólafs og Schiöth á vináttu þessara heiðursmanna. Einhverjar útgáfur af þessari sögu fóru á milli manna. En ofanritaða söguna sagði Bethke mér sjálfur eftir að ég bað hann um það. 

Þá sátum við á sitthvorri síldartunnunni á Hafliðaplaninu einn sunnudagsmorgun árið 1960. En beðið var eftir að fullhlaðinn síldarbátur kæmi til söltunarstöðvarinnar. 

Myndir í eigu Ljósmyndasafns Siglufjarðar, ljósmyndarar: Kristfinnur Guðjónsson;  Aage R Schiöth og Steingrímur; Bethke

Ólafur Þ Þorsteinsson læknir

Aage Schiöth lyfjafræðingur