Þorlákur Guðmundsson, Láki á plankanum

Þorlákur Guðmundsson

Þorlákur Guðmundsson, var vel þekktur og vel liðinn karakter á Siglufirði. 

Þrautgóður karl með afbrigðum duglegur og samviskusamur.  

ÞORLÁKUR GUÐMUNDSSON fæddist í Saurbæ í Fljótum 22. júlí 1894. Hann lést á Siglufirði 5. júní 1994. 

Foreldrar hans voru Guðmundur Jóhannesson og Rósa Sigurðardóttir. 

Sjö nátta fór hann í fóstur vegna barnafjölda foreldra sinna, en þau voru tólf. 

Fósturforeldrar hans voru Ingibjörg Sveinsdóttir og Hallgrímur Björnsson og ólst hann upp hjá þeim til fermingaraldurs. 

Þorlákur Guðmundsson

Þorlákur Guðmundsson

Eftir það vann hann ýmis störf í Fljótum, þar til hann flutti til Siglufjarðar árið 1912. 

Árið 1924 giftist hann Guðrún Jóhannesdóttir og eignuðust þau tíu börn. 

Átta þeirra eru nú á lífi, en tveir synir þeirra drukknuðu ungir. 

Guðrún dó 1963 og árið 1967 gerist Þorlákur vistmaður á öldrunardeild Sjúkrahúss Siglufjarðar. 

Þorlákur var verkamaður alla sína tíð og vann á mörgum stöðum. Útför hans fór fram frá Siglufjarðarkirkju 

Hann vann mörg ár hjá Siglufjarðarkaupstað en stundaði oft sjómennsku á vetrarmánuðum, bæði hér heima og fyrir sunnan á vertíðum.

-----------------------------------------------

Árið 1953 var nokkuð atvinnuleysi á Siglufirði, Láki var einn af þeim "lánsömu" sem fengu atvinnu suður á Keflavíkurflugvelli. Hann lenti í vinnu hjá Bandaríska hernum við það að sópa gólf í stórri þjónustustöð fyrir herflugvélar. 

Þetta fannst Láka frekar löðurmannlegt verk, ekki vegna þess að lenda í því að sópa gólf. Heldur fyrir það að hann mátti helst ekki sópa nema þegar enginn annar var þar að vinna og eða hann þurfti að sópa löturhægt til að losna við rykmyndun, sagði tengiliður hans honum. 

Á milli mátti hann ekki yfirgefa svæðið heldur standa upp á endann eða sitja úti í horni aðgerðalaus.--  Það tók hann venjulega frekar stuttan tíma að fara yfir gólfin. Svo var það eitt sinn er gólfið var orði ryklaust og fínt og Láki sá fram á langa og leiðinlega pásu.  

Gefum Láka orðið:  

"Ég sá að viðgerðarmennirnir voru í góða veðrinu utandyra og voru eitthvað að vinna við eina flugvélina, ég var að drepast úr leiðindum og fór að huga að því hvort ekki væri hægt að laga eitthvað frekar til á svæðinu. 

Þá sá ég að mikil óreiða var á einu af stóru vinnuborði þeirra, verkfæri og allskonar vélarhlutir bæði að sjá ónotaðir hlutir og aðrir óhreinir í pörtum á borðinu. Ég fékk mér tusku og fór að þrífa smurningu og annað af hlutum, raða verkfærum og koma dótinu sem þarna var í snyrtilega og aðgengilega stöðu. 

Þetta gekk vel og var góð tilbreyting frá leiðinlegum pásum. Ég var rétt að enda við þessa tiltekt þegar inn koma tveir yfirmanna verkstæðisins sennilega til að ná í eitthvað af borðinu og ég hlakkaði til að sjá ánægjusvipinn á andlitum þeirra þegar þeir sæju að hvað allt var orðið fínt og hreint.

En hvað haldiði, þeir öskruðu hástöfum og snéri sér að mér og bölvuðu mér með alveg óskaplega ljótu orðbragi, þeir öskruðu á mig til skiptis, orðbragðið var voðalegt. 

En auðvitað skildi ég ekki orð af því sem þeir voru að segja, því ég skil ekki orð í ensku".

Láki karlinn fékk ákúrur frá tengilið sínum (túlki) fyrir það að hafa ruglað verkfærum og þeim hlutum sem þarna höfðu verið til viðgerðar. Hlutum og verkfærum sem sennilega hefur verið raðað eftir einhverju kerfi sem Láki hafði ruglað. 

Hann átti bara að sópa og ekkert annað. Láki var færður til annarra starfa hjá hernum, þar sem meira var að  gera, og það líkaði honum vel, sagði hann.    

E.S. Ég þekkti Láka vel og var einnig í vinnu á vellinum sama ár, en á öðrum vettvangi hjá hernum á þessum tíma og við hittumst nánast daglega. Og þessa sögu sagði hann mér sjálfur.

Steingrímur
--------------------------------------------------

Önnur saga af Láka, ekki þó frá veru hans á vellinum

Láki vann lengi hjá bænum og hafði meðal margra annarra starfa umsjón með hreinsun skólplagana þegar til þurfti. 

Gísli Þorsteinsson var þá bæjarverkstjóri. 

Fyrir kom að einstaklingar eða fyrirtæki föluðust eftir að fá að láni búnað nokkurn til stíflulosunar úr skólplögnum. Búnaður þessi gekk undir nafninu Fjöðrin.  Þetta var löng stálfjöður sem þrædd var niður í skólplagnir, þar ýtt eða krækt í viðkomandi hindrun. Ýtt áfram eða dregið til baka eftir þörfum. Ágætis verkfæti til síns brúks. 

Þessi fjöður var í vörslu Láka.

Vanalega var það Gísli sem hafði samband við Láka og sagði honum að hann mætti lána þessum eða hinum fjöðrina. Láki var vel sáttur við þetta fyrirkomulag. Eitt sinn er ekki náðist til Gísla, kom maður til Láka og falaðist eftir fjöðrinni. Láki svaraði bláalvarlegur:  

"Það er í góðu lagi vinur minn, en hún verður að fara í gegnum Gísla fyrst, örðuvísi læt ég ekki fjöðrina af hendi"

Steingrímur