VEIÐISAGA, hlustað á inni í kaffistofu.

(ekki endilega alveg orðrétt frásögn)

Þrír veiðimenn frá Siglufirði, höfðu komið sér saman um að útvega sér skotveiðileyfi í þeim tilgangi að skjóta gæsir. Þeir komu reglulega saman til ráðagerða varðandi útbúnað nesti o.s.frv. og fleiri skipulagninga á hinni fyrirhuguðu ferð,

Loksins rann hinn langþráðri veiðidagur upp. En ekki verður ætíð allt eins og vonast er til og skipulagt. Eins því til dæmis, erfitt er að ráða veðrinu, sem var fremur hráslagalegt þennan veiðidags morgun. Farkosturinn var þó nýr og stór fjallajeppi, góður og traustur, og góður hitti innandyra. Annað neikvætt fyrir utan veðrið var að einn félaginn var með einhver óþægindi í maganum sem félagar hans töldu vera vegna kvíða og spennu, vegna fyrsta veiðidags hans á ævinni. Síðar kom þó í ljós að magaverkirnir voru undanfari magakveisu og niðurgangs.

Ekki segir þó af ferðum þeirra fyrr en komið var að útjaðri væntanlegs veiðisvæðis og jeppinn stöðvaður, búnaðurinn var tekinn úr bílnum og haldið út á víðáttumikið sléttlendi. Eftir nokkuð langa göngu bað þessi með magakveisuna um að þeir héldu á búnaði sínum því hann þyrfti að sinna köllun náttúrunnar og ganga afsíðis, hann mundi ná þeim fljótlega. 

Félagarnir tveir komust á áfangastað þar sem þeir ætluðu að bíða birtingar og eftir því að gæsir birtust. Þegar félagi þeirra kom aftur var greinilegt á fari hans að honum leið betur. Þeir höfðu kaldan og napran vindinn í bakið, og eins og eftir köllun þá settu þeir hver á eftir öðrum hetturnar á veiðigöllum sínum upp til að verjast nepjunni. Þegar sá sem hafði verið með magakveisuna hafði sett upp hettuna rak hann upp angistar kvein og upp gaus heldur óþægileg lykt. 

Manngarmurinn hafði í fljótfærni sinni við að sinna köllun náttúrunnar ekki sinnt því að gæta þess að gallahettan yrði ekki fyrir gusunni sem frá honum kom vegna niðurgangsins og hálf fyllt hettuna sem hann svo losaði yfir höfuð sér.

Félagar hans voru í miklum vanda. Áttu þeir að hlæja eða samhryggjast? 
Fyrri kosturinn var valinn. 

Ekki segir frá niðurlagi atburða, en lyktin hlýtur að hafa verið óþægileg í nýja stóra jeppanum á leiðinni heim.

Ljósmynd. Steingrímur, ótengt ofan rituðum atburði

Grágæsir og ungar

Grágæsir og ungar