Eftirfarandi hrekkur, mun hafa átt sér stað á árunum 1940-1945:

Það var um hásumar, steikjandi sólskin og hiti. Enn meiri hiti á vettvangi sögunnar sem var pressuloftið (þar sem síldarpressur voru staðsettar) í Síldarverksmiðjunni S.R.30 á Siglufirði. Allt var á fullu. Mikil síld hafði borist að. Menn unnu þar 6 stunda vaktir allan sólarhringinn. 

Einn ónefndur starfsmaður 40-50 ára hafði tekið að sér aukavakt og hafði komið boðum til konu sinnar og beðið hana að senda sér kaffi og einhverja næringu. Aukavaktin átti að hefjast klukkan 12 á hádegi. 

Einn félagi hans (sagður hafa verið Jón á Eyri ?) frétti af skilaboðunum og hugsaði smá launráð.

Matarsendingin barst á tilsettum tíma og beið fórnarlambsins inni í smá kytru sem notuð var til afslöppunar frá mesta hávaðanum utan við og var einnig notuð sem kaffi kompa. Félagar fórnarlambsins fylgdust grannt með þegar fórnarlambið opnaði pokann sem innihélt m.a. grautarskál. Hann svelgdi í sig innihaldið með ánægjusvip og velþóknun félögum hans til undrunar.

þegar fórnarlambið hafði lokið máltíð sinni ásamt kaffisopa, þá stundi hann hressilega og sagði. 

"þetta var nú meiri dásemdar grjónagrautur nú hefur konu minni tekist að næla í rúsínur* hjá Gesti Fanndal."

Hann reis síðan upp hinn ánægðasti og fór til sinna verka.

Félagar hans glottu, en sögðu ekkert.

Skýringar tengdar hrekknum:

* Á þessum árum, stríðsárunum voru margar vörutegundir skammtaðar, sumar komust raunar ekki uppí hillur verslana og voru aðeins seldar "föstum viðskiptavinum" undir borði eins og sagt var. Rúsínur voru í þeim flokki.

* þekkt fyrirbæri í síldarverksmiðjum þessa tíma var að mikið magn af dauðum fiskiflugum safnaðist í gluggakistur verksmiðjanna.

Talsverðu magni af dauðum fiskiflugum hafði "Jón" hrært út í grjónagrautinn góða sem fórnarlambið hafði ætlað að í væru rúsínur. 

Ekki fer sögum af hvort hann hafi uppgötvað síðar að kona hans hefði ekki átti neinar rúsínur, en örugglega fékk hann próteinríkari fæðu en rúsínur hefðu veitt honum.

sk