Kajakasögur, og lýsingar

Allir strákar sem voru unglingar á árunum 1940 – 1970 muna eftir og eða tóku þátt í því að smíða sér kajaka. Nokkuð sem vel var stundað af krökkum á aldrinum 10-16 ára.  Villimannahverfið í norðurbænum var engin undantekning. Frekar en krakkar í suðurbænum nálægt Leirunum.

Kajakarnir voru smíðar úr bárujárni. Byrjað var á því að leita á haugum eftir hentugri plötu sem ekki voru of mörg naglagöt á. Síðan var platan flött út með ýmsum aðferðum hömrum sleggjum og fleiru tiltæku.  

Þá voru fundin á haugunum eða hjá einhverju tréverkstæðanna um 40-50 sm. langir timburbútar oftast 1½ tomma x 6“ sem notað var sem stefni og skutur.

Plötuendarnir voru síðan beygðir að spýtunum og negldir lauslega til að byrja með helt bráðnu stálbik á milli og neglt síðan að fullu. 

Bátslagið var mótað nokkuð jöfnum höndum þar til allir voru ánægðir en tveir til þrír hjálpuðust oftast að við smíðina. 

Ég var engin undantekning um að hunsa boð og bönn foreldra, nágranna og lögreglu. 

Sum okkar voru synt önnur ekki en flestir gættu þess að hafa tóman smurolíubrúsa með í för og að fara ekki of fjarri landi svona allflestir að minnsta kosti.

Oft hringdi einhverjir fullorðnir á lögregluna þegar kajakarnir voru í notkun og  siglt var með stolti á nýjum og gömlum fleytum. 

Hafðar voru úti varðsveitir sem oftar en ekki gátu komið viðvörunum um lögregluárás til þeirra sem á sjó voru og tími náðist stundum til að sökkva kajökunum á góðum stöðum svo auðvelt væri að nálgast þá síðar áður löggan kom.  

Svo kom fyrir að einhverjir komust ekki að landi til að fela Kajaka sína og hlýddu niðurlútir kalli lögreglu um að koma í land þar sem farkosturinn var eyðilagður. Og svo einn og einn sem réri bara lengra út í von um að þeir þekktust ekki og að félagar þeirra segðu ekki frá hver hann væri, það gerði ég einu sinni og komst upp með það þar sem löggan beið ekki né elti mig út með ströndinni.

Oft kom þó fyrir að löggan náði nokkrum kajökum og var Bragi Magg oft duglegur við að koma krökkunum að óvörum. 

Myndin hér fyrir neðan sýnir einmitt Braga Magg vera að krækja í einn kajakana sem sökkt hafði verið. Bragi hafði séð þá aðgerð úr fjarlægð. Hann náði upp kajaknum og tortímdi honum með aðstoð félaga síns. 

Myndin hér fyrir ofan var tekin árið 1965 af (sk).

Þegar ég var krakki 14-15 ára tókum við nokkrir krakkar okkur til, Pétur, Hreinn, Hjalti, Einar, Gói ofl. og fórum inn í stóran opinn og niðurníddan skúr sem gengið hafði undir nafninu Lúðuskúr eða Lúðuskúr. Inn var farið í ákveðnum tilgangi.

Nafngiftina á húsinu þekki ég ekki en þarna hafði verið einhver verbúð sem hafði verið yfirgefin í nokkur ár. Þangað höfðum við krakkarnir í Villimannahverfinu oft leitað til leikja sérstaklega þegar veður var slæmt.

Síðar hýsti þessi skúr eða hús Smurstöð BP.  (BP nú nefnt Olís) og enn síðar var þarna Bifreiðaverkstæði Birgis Björnssonar. 

Þarna var einnig pláss uppi undir risi en þar höfðu nokkur gólfborð verið tekin burtu á svæði. Þetta voru 3/4" nótuð gólfborð. Okkur kom saman um að svona efni væri upplagt til að smíða bát úr.

Við rifum upp gólfið á parti og hófum smíði á bát á neðri hæðinni. Úr varð um 5 metra langur flatbotna bátur um 70-80 sentímetra þar sem hann var breiðastur en mjókkaði til beggja enda með stefni og skut. Sama var í hvora áttina var róið þar sem hann var nánast eins í báða enda. Þetta bárum við á milli okkar með erfiðismunum yfir Flóðgarðinn norðan við húsið og sjósettum. 

Þetta var hörkufleyta fannst okkur, bátur sem bar okkur 4-5 án þess að yrði til vandræða vel stöðugur þegar setið var niðri og róið á báða kanta. Og það sem gladdi okkur ekki síður var að hann lak ekki dropa. Við höfðum notað tjöru við öll samskeyti. Á þessari fleytu lékum við okkur í nokkra daga. Við rérum út með ströndinni og inn með bryggjum. 

Bátinn geymdum upp á flotbryggju eða fleka sem venjulega var notuð á milli síldarskipanna og bryggju á sumrin við löndun báta hjá S.R.Paul bryggju. 

Einn daginn höfðum við fjórir úr hópnum ákveðið að fara yfir fjörðinn í Selvíkina við vitann. Við tókum með okkur mesti um morguninn. Mikil tilhlökkun var á meðal okkar. Ákveðið hafði verið fara þvert yfir fjörðinn og róa síðan með austurströndinni til norðurs og fara svo þar á eftir inn á Selvíkina og þaðan upp að vitanum og svo upp að Kálfsvatni.  

Við fórum þó aldrei nær en að Pólstjörnubryggjunni að þessu sinni. Þaðan sem við heyrðum mannamál úr fjarlægð og mikinn hávaða frá höggum.  Uppi á flotbryggjunni við S.R.P. voru tveir lögregluþjónar með stórar axir og voru komnir langleiðina með að höggva bátinn okkar í spón. 

Við fylgdumst með úr fjarlægð og létum ekki á okkur bera. Eftir að lögregluþjónarnir höfðu tortímt bátnum okkar hentu þeir brakinu í sjóinn og yfirgáfu staðinn kófsveittir. Annan lögregluþjóninn þekktum við, hann hét Friðrik Sveinsson hinn þekktum við ekki. Aldrei höfðum við kjark til að leita upplýsinga um tilurð atviksins, vitandi það að efnið í bátinn hafði verið tekið ófrjálsri hendi, „eða af mjög gráu svæði.“     

Smá viðbót tengt kajökum:

Hluti minningargreinar um Ásgeir Björnsson kaupmann

......................... Þú varst ekki vanur að segja okkur frá afrekum þínum, helst að maður rækist á það einhvers staðar á prenti og það gerði ég núna síðast fyrir fjórum dögum hjá mömmu þegar við vorum að spjalla og rifja upp minningar. Í bókaflokknum Þrautgóðir á raunastund er minnst á björgunarafrek þegar þú bjargaðir dreng frá drukknun hinn 14. mars 1962 eftir að mamma sá kajak hvolfa í höfninni sem var beint fyrir neðan húsið okkar.

Mamma sagði mér að hún hefði kallað á þig og minnti hana jafnframt að þú hefðir ekki gefið þér tíma til að fara í skó þar sem þú hefðir bara hlaupið niðureftir og stungið þér til sunds og bjargað drengnum................   (Gunnar Björn Ásgeirsson ritaði)

Braga Magg að krækja í einn kajakana sem sökkt hafði verið. Bragi hafði séð þá aðgerð úr fjarlægð. Hann náði upp kajaknum og tortímdi honum með aðstoð félaga síns.

Ljósmynd: Baldvin Jóhannsson