Unglingsárin - Fyrsta vinnan fyrir peninga

Shell bryggjan var um 50-60 metra löng og um 4-5 metra breið og um 5-6 metra há, til að vetrarbrimin grönduðu henni ekki. Þó kom fyrir að skemmdir yrðu á dekki bryggjunnar bvegna mjög mikils sjógangs, svo og hafíss. Þessi mynd er tekin einhverntíma eftir 1940. Ég man þó ekki eftir tilveru tankans sem merktur er PB – Ljósmynd: Kristfinnur (svörtu fletirnir er skemmd á glerplötunni, filmunni) 
(BP -  British Petroleum plc er breskt orkufyrirtæki sem er líka þriðja stærsta orkufyrirtæki í heimi og fjórða stærsta fyrirtæki í heimi. BP er fjölþjóðlegt fyrirtæki, stærsta fyrirtæki Bretlands og ein systranna sjö í olíuiðnaði. BP er með höfuðstöðvar í Westminsterborg í London og er skráð hjá kauphöllinni í London og FTSE 100. Fyrirtækið var stofnað árið 1909.) -- Heimild: Wikipedia  – Olíuverslun Íslands var hér áður með mjög sterkt samband við fyrirtækið og notaði meðal annars lógóið BP fyrirtækisins á bíla sína og fleira)

Shell bryggjan var um 50-60 metra löng og um 4-5 metra breið og um 5-6 metra há, til að vetrarbrimin grönduðu henni ekki. Þó kom fyrir að skemmdir yrðu á dekki bryggjunnar bvegna mjög mikils sjógangs, svo og hafíss. Þessi mynd er tekin einhverntíma eftir 1940. Ég man þó ekki eftir tilveru tankans sem merktur er PB – Ljósmynd: Kristfinnur (svörtu fletirnir er skemmd á glerplötunni, filmunni)
(BP - British Petroleum plc er breskt orkufyrirtæki sem er líka þriðja stærsta orkufyrirtæki í heimi og fjórða stærsta fyrirtæki í heimi. BP er fjölþjóðlegt fyrirtæki, stærsta fyrirtæki Bretlands og ein systranna sjö í olíuiðnaði. BP er með höfuðstöðvar í Westminsterborg í London og er skráð hjá kauphöllinni í London og FTSE 100. Fyrirtækið var stofnað árið 1909.) -- Heimild: Wikipedia – Olíuverslun Íslands var hér áður með mjög sterkt samband við fyrirtækið og notaði meðal annars lógóið BP fyrirtækisins á bíla sína og fleira)

Ég get ekki sagt að ég hafi verið duglegur á uppeldisárunum hvað vinnu  snerti. Mamma átti oft erfitt með að fá mig til að taka til í mínum hluta herbergisins sem við systkinin, Jonna og Hulda deildum. Herbergi okkar var með hengi eftir endilöngu herberginu þar sem ég hafði til umráða 1/3 á móti þeim.  

Ég var frekar latur að fara í sendiferðir, laga til á lóðinni umhverfis húsið á vorin, safna saman rekaviðbútum úr Hvanneyrarkróknum, sem var notaður sem eldsneyti í eldavélina. Einnig var miðstöðvarketillinn kynntur  með við og kolum. Þannig var það í íbúðinni á neðri hæðinni við Mjóstræti 1 langt fram eftir unglingsár mín. Oft var ég þó nálægt mömmu þegar hún var í síld. Fyrst í vagni og kerru ekki fjarri. Síðar fékk ég að „hjálpa henni“ við söltunina, svona til málamynda.  

Hjá Árna Kristjáns forstjóra Shell á Siglufirði fengum við guttarnir stundum að velta tómum olíutunnum frammá Shellbryggjuna og fullum til baka þegar slíkar tunnur komu, oftast var það steinolía. 

Við fengum 10 aura á klukkustund. Oft var þetta svona tveggja- þriggja stunda puð. 

Stundum var farið með staðgreiddan afraksturinn til Sigga bakara í Lækjargötunni, (þar sem Billinn er, 2013) og þar keypt vínarbrauð og mjólkurglas og einnig 10 einseyringskúlur sem kallaðar voru, en það voru litlar brauðkúlur með súkkulaðihjúp. 

Þrátt fyrir nafnið á einseyringskúlunum, þá fengum við 10 stykki fyrir einseyringinn. Þeir sem þekkja til þessara tíma, þá var hægt að fá ansi mikið fyrir smáaurana samber myntina sem samanstóð af einseyringi, túeyringi, fimmeyringi, tíeyringi, 25 eyrirngi, 50 aurum og einnar krónu penings og seðils.     

Nokkrum sinnum frá 10 ára aldri fékk ég vinnu við ýmislegt snatt á Pólstjörnuplaninu hjá Einari Indraða, en ég sóttist raunar ekki mikið eftir því.

Kaus frekar að vera frjáls við leik og skoðun umhverfisins.  

Ég vann um tíma hjá pabba á Útvarpsvirkja verkstæðinu hans við að afgreiða og að taka við pöntunum vegna viðgerða þegar pabbi var fjarverandi um borð í skipum við viðgerðir á talstöðvum og þessháttar.

Ég var ekki alltaf sáttur, bæði var vinnutíminn langur, lítið borgað og ég gerði víst ekki alltaf nákvæmlega það sem pabbi krafðist.  

Eins og áður segir þá var ég ekki alltaf mjög viljugur til vinnu á unglingsárunum og sótti ekki mjög fast að fá fastráðningu (sumarvinna) enda betur launað þegar komið var að kvöldi og um helgar.

Oftast var ekki erfitt að fá vinnu á þeim tímum á söltunarstöðvunum þegar síldina bar að landi.

Dagarnir sem sól var á lofti voru oftar en ekki notaðir til slæpast og við leik.  

Þó var nokkuð oft sem ég tók að mér að rukka fyrir pabba, síldakóngana. Þá aðila sem voru umboðsmenn síldarbátanna samhliða því að reka síldarsöltun og annan rekstur. Nánar um það hér: http://www.sk2102.com/437192988  

Þá réði ég mig til vinnu eitt sumar hjá Gesti Fanndal, um það má lesa hér: http://www.sk2102.com/437381957 

Sumarið þegar ég var orðinn 16 ára sótti ég um vinnu hjá S.R. - Síldarverksmiðjum ríkisins.

Þá var venja, að ráðnir voru vel á annað hundrað starfsmenn víða af frá landinu á tímabili sem nefnt var tryggingartímabilið.

Viðkomandi starfsfólki fékk launa-tryggingu í tvo mánuði fyrir  lágmarks vinnutíma sem var 8 stundir á dag 6 virka daga vikunnar. 

(Laugardagur var þá talinn til virkra daga, 48 stunda vinnuvika)   Svipað fyrirkomulag var haft hjá söltunarstöðvunum.

Ég fékk vinnu og hóf störf á Lagernum hjá Jóel Hjálmarssyni lagerstjóra.

Mitt fyrsta verk var að telja (vörutalning) málm smíðaefni á stangalagernum sem þá var utandyra á S.R. lóðinni staðsettur á milli skrifstofubyggingarinnar og mjölhúss SRN. (síðar Frystihús S. R. og enn síðar ruslageymsla Þormóðs ramma hf. Og nú 2018 bjór-brugghúsið Segull)  

Í rúmlega þriggja metra háum rekkum var geymt rúnnað stál, (öxulstál) margir  sverleikar og lengdir, að auki flatjárn, vinkiljárn, skúffur og annað álíka.

Megnið af öxlunum var þakið þykkri feiti og hálf óþægilegt viðkomu og annað nokkuð ryðgað. Þetta átti ég að mæla, þvermál og lengdir og telja af mikilli nákvæmni sagði Jóel.

„Ég þarf að hafa einhvern áreiðanlegan í þetta starf,“ bætti hann við.

Sennilega hefur hann ekki frétt af því, að ég var einn af 14 villingunum í 1. bekk Gagnfræðaskólans sem féll á vorprófi árinu áður.

En hvað um það, þarna var ég í eina tvo - þrjá daga að príla í rekkunum með tommustokk á milli tannanna, skíðmál í rassvasanum og skrifblokk á platta og blýant. 

Jóel leit til mín annað slagið og leiðbeindi mér um mæliatriði þau sem ég ekki þekkti. Allt gekk þetta vel og Jóel var sýnilega ánægður því næsta verkefni var af léttara taginu þar sem ég sat löngum tíma á rassinum uppi á lagernum.

Ég fór þó í ýmsar sendiferðir fyrir hann innan lóðar sem utan. 

En þetta letitímabil varði ekki nema í rúma viku. Þaðan var ég sendur út í port sem var vestan við skrifstofu og mjölhúss S. R. N.. Þar var mikil hrúga af steypustyrktarjárni, bogið að skælt. Ég og nokkrir strákar áttum að rétta bogið járnið og vírbursta síðan af því hálflaust ryðið sem safnast hafði utan á járnið. Þetta járn mun hafa verið afgangar frá því að SR46 verksmiðjan var byggð. þetta var bæði leiðinlegt og sóðalegt verk.

Vinnuföt okkar báru þess greinleg merki auk þess sem vinnuvettlingarnir okkar entust lítið. 

Á þeim tíma þurfti verkafólk sjálft að hafa áhyggjur af sínum vinnufatnaði.

Fyrirtækin sköffuðu ekki vinnuklæðnað þá eins og í dag. 

Seinnihluta sumarsins var ég sendur til vinnu á mjölpalli hjá Guðmundi Sigurðssyni verkstjóra S.R. í Ákavíti, 

(Mjölhús S.R.46) Þar líkaði mér vel, bæði félagsandanum sem þar ríkti og þar var mikil vinna.  (sami Guðmundur hafði kennt mér lestur og framburð, þegar ég var 6 ára) 

Áður en sumrinu lauk, hafði Guðmundur ráðið mig til starfa þarna næsta sumar á mjölpall í Mjölhúsi S.R.46.

Þar vann ég næstu 7 sumrin og síðar hluta viðkomandi ára í Hraðfrystihúsi SR. um veturna við flökun, vinna sem þó var stundum stopul vegna skorts á hráefni.

Í frystihúsinu sátu þeir fyrir vinnu, Siglfirðingarnir sem höfðu starfað sumarið áður hjá sjálfum SR verksmiðjunum. Sú regla var þó oft brotin af verkstjóranum Birni Björnssyni verkstjóra, Góinum eins og hann var kallaður. Hann vildi helst ekki hafa aðra menn í vinnu en þá sem voru í Framsóknarflokknum.  

Sá ættbálkur fékk yfirleitt mestu yfir og næturvinnuna. Við þessir yngri sem vorum á öndverðum meiði í pólitík eða höfðu ekki látið pólitískar skoðanir okkar greinilega í ljós í átt til Framsóknarflokksins sátum á hakanum. 

Svo hefur það eflaust einnig spilað inn í hvað mig snerti að ég var bæði hrekkjóttur og kjaftfor og var ófeiminn að lofa honum að heyra álit mitt á  „framsóknarstefnunni.“  Bruðlinu hjá Sambandinu ofl. Hann lokaði að mestu fyrir aukavinnu hvað mig snerti nema ef bráðvantaði mannskap þegar mikið var um að vera.