Tengt Siglufirði
-----------------------------------------------------
Hér er smá saga um 13 daga veru mína um borð í togaranum Elliða SI 1. Saga sem er mér nokkuð minnisstæð enda í fyrsta sinn sem
ég var skráður á sjó. Það hafði aldrei hvarflað að mér að gerast sjómaður, því af margfenginni reynslu allt frá barnsaldri á ferðum með foreldrum
mínum með póstbátnum Mjölnir til og frá Sauðárkrók þar sem amma mín bjó.
Síðar á eigin bátskænu þegar ég sótti mér og fjölskyldu matföng á atvinnuleysis árunum um miðbik síðustu aldar. Alltaf sjóveikur, jafnvel við bryggju.
Ég var við vinnu hjá Síldarverksmiðja ríkisins frá 16 ára aldri, en í apríl árið 1955 er ég var að vinna Frystihúsi S.R. við fiskflökun. Þá barst mér skilaboð um að hafa samband við forstjóra S.R. Sigurð Jónsson.
Hann sagði mér að hann væri að leita af aðstoðarmatsvein á togarann Elliða en sá sem hafði verið í því starfi hafði forfallast skyndilega og búið væri að leita allstaðar af staðgengli en ekki tekist að ráða mann sem yfirkokkurinn Elías Ísfjörð sætti sig við. En hann hefði bent á mig sem hann vissi að væri með kokkapróf.
Ég var þessu mjög fráhverfur og sagði slíkt ekki mögulegt þar sem ég væri svo sjóveikur, auk þess sem þetta kokkapróf mitt væri frá þeim tíma er ég var unglingur sem skáti og var að safna "stjörnum" á skátabúning minn.
Ég hefði þá sótt námskeið á Veitingastaðnum Gildaskálinn (plássið á efri hæðinni fyrir ofan Raffó í dag 2018) á Siglufirði hjá Indriða Friðbjarnarsyni matreiðslumeistara.
Sigurður gafst ekki upp og lofaði mér öllu fögru, meðal annars fastri vinnu hjá S.R., á eftir (sem var vanfengið á þeim tíma) ef ég færi amk. þennan túr.
Ég lét tilleiðast, og hafði rétt tíma til að fara heim til að sækja mér fatnað og kveðja konu og börn.
Það var rjómablíða alla leið suður fyrir land á Selvogsbanka þar sem trollinu var kastað. Samt var ég mikið sjóveikur, ég ældi eins og múkki þess á milli sem ég reyndi eftir bestu getu að sinna mínu starfi, sem nokkuð er víst að engin meðmæli væri hægt að sækja fyrir þá vinnu.
Eitt af því sem ég var settur í að gera var á meðan á fyrsta borðhaldinu stóð, var að Elli rétti mér skál með matarleifum í og sagði mér að fara niður í vélarrúm og gefa kjalsvíninu, ég átti að spyrja kyndarann Jón á Eyri hvar það væri hann mundi vísa mér veginn. Ég sá fyrir mér glottið að strákunum þegar ég lagði af stað út með skálina. Ég var þó ekki alveg eins blautur á bak við eyrun og félagar mínir töldu og fór því út á dekk í svalann, henti innihaldi skálarinnar í sjóinn og slappaði svo af í dágóða stund. Vel þegið af sjóveikum manni. - Þegar ég kom aftur inn í borðsalinn horfðu allir á mig og Elli spurði.
"Þú hefur fundið kjalsvínið?"
Ég svaraði um hæl "Já, já ég þurfti ekkert að leita, svínið var í kyndarastólnum"
Elli og strákarnir voru á báðum áttum hvernig ætti að skilja það sem ég sagði og kusu að láta sem ekkert væri. Þeir voru vissir um að ég hefði farið niður og þeir mundu fá fréttir hjá Jóni hvernig komu minni þangað hefði reitt af. Ella þótti þetta gott svar hjá mér. Hann sagði mér síðar að spurningum hefði rignt yfir kyndarann þegar hann birtist stuttu síðar. Hann hefði ekki verið hress með að hafa verið kallaður kjalsvínið í kyndarastólnum.
Sjóveikin hélt áfram að angra mig, en Elías Ísfjörð matsveinn var skilningsríkur og góður húsbóndi og gaf mér tækifæri oftar en ekki til að slappa af.
Mér tókst furðuvel að matast, en var þó jafnan búinn að skila þeim máltíðum fljótlega til sjávar. þannig gekk það. Ég át og ældi til skiptis, það eina sem virtist tolla niðri í mér lengur en máltíðir, var kakóblandað vatn sem Elli ráðlagði mér að drekka. Óblandað vatn kom upp úr mér nánast samstundis og ég kyngdi því.
Næringarskorturinn sem þessum ósköpum fylgdi, fóru brátt að segja til sín með auknu máttleysi, svima og sljóleika. Það má segja að ég hafi unnið með hangandi hendi. það var sennilega eftir 3 eða 4 dag (ekki viss) á sjó, alltaf blíðskaparveður en væg undiralda á Selvogsbankamiðum, að ég ákvað að gefast upp í orðsins fyllstu merkingu. Ég staulaðist upp í brú með kaffi handa þeim sem þar var á vakt svona eins og ég hafði gert nokkrum sinnum áður.
Ég snéri mér að 1. stýrimanni sem var Kristján Rögnvaldsson og sagði eins hátt og skýrt og mér var unnt.
"Kristján, ég verð að biðja þig að afskrá mig ég get ekki meira."
Þeir sem voru í brúnni setti hljóðan, sennilega á báðum áttum um hvort þeir
ættu að hlægja að mér eða ekki. það var auðvitað öllum ljóst að ég var enginn sjómaður og hafði verið virkilega sjóveikur. Kristján horfði á
mig um stund og sagði svo.
"Bíddu aðeins". Hann fór inn í kortaklefa, kom þaðan með lopapeysu og sagði mér að fara í hana.
Hann sagði mér að fara síðan aftur á hekk aftan við skorstein setjast þar niður og slappa þar af þar til hann kæmi. það hefur verið rúmlega hálftími eða svo þar til hann kom, þá með bússur, vettlinga og sjóstakk. Hann sagði mér að fara í gallann og fara síðan í pontið og vera þar út vaktina, strákarnir mundu segja mér hvað ég ætti að gera. Ég hefði gott af því að losna við hitasvæluna í eldhúsinu um stund, hann væri búinn að ræða við Ella sagði hann.
Ég staulaðist fram á dekk og tók þar við fyrirmælum. Pontið var þar sem fiskurinn í þessu tilfelli golþorskur, var skolaður eftir blóðgun og slægingu. Mitt verk var að skola og henda fiskinum svo í rennu sem skilaði fiskinum ofan í lest. Einnig var mitt verk þarna að fara með lifrarkörfur jöfnum höndum sem þær fylltust aftur að spili þar sem var önnur trekt sem lifrin var sett í og var síðan "skotið" með gufuþrýstingi aftur í skipið til bræðslumannsins.
Þetta var ekki auðunnið af manni sem hafði kvalist lengi af sjóveiki og var orðinn þreklítill af þeim völdum. Ég átti því erfitt með að lyfta stærstu golþorskunum. Ég gerði mitt besta til að standa mig og forðaðist að líta upp í brú þar sem ég var sannfærður um að fylgst væri með mér af gaumgæfni.
Það var skrítin tilfinning að setjast til borðs með hásetunum síðar, þeim sömu sem höfðu átt vaktina með mér á dekkinu í staðin fyrir að þjóna þeim til borðs. Mér tókst að innbyrða ýsubollurnar sem Elli hafði matreitt og sat meir að segja þokkalega laus við sjóveiki við borðið á meðan máltíðin stóð yfir.
Elli sagði mér að fara beint í koju því ég ætti að fara aftur á vakt um miðnættið. Ég stóð upp til að hlýða meistaranum, en tók þá á rás og skilaði kvöldverðinum fyrir borð. Síðan fór ég í koju og var sofnaður áður en ég snerti koddann og vaknaði ekki fyrr en hnippt var í mig til að mæta á næstu vakt. Þessi blundur hafði verið sá fyrsti í túrnum sem ég svaf í einum dúr án þess að vakna við ógleði.
Kaffið og meðlætið sem ég fékk ásamt hásetunum fyrir vaktina tolldi ofan í mér þangað til
ég var kominn í sjógallann og kominn út á dekk, þar skilaði ég næringunni út fyrir borðstokkinn.
Ég var þó furðuhress, eftir góðan svefn og tók
til fyrri vinnu. Vaktin var nokkuð fljót að líða, ekki síst vegna þess að þegar trollið var látið fall varð smá bið eftir næsta holi, og nokkur hvíld þar á
eftir.
Eftir þessar tvær vaktir á dekki fór ég aftur í eldhúsið til Ella og var nokkuð hress. Eftir hádegið var rennisléttur sjór sem fyrr og glampandi sólskin, sjóveikin í lágmarki, þó ekki laus við svima og máttleysi. Ég skrapp út á dekk til að skoða það sem þar væri að gerast. (í fyrsta raunverulega skiptið) Það sem vakti athygli mína þegar út á dekk var komið var að einn hásetinn losaði körfu fulla af humri í sjóinn og annar var að tína humar í körfu sem átti að fara sömu leið.
Mig rak í minni frá námskeiðinu hjá Indriða Friðbjarnar forðum, að hann kenndi okkur sem voru á námskeiði hjá honum í kokkamennsku að matreiða humar á fljótlegan hátt. Ég tók við humarkörfunni af hásetanum og kláraði að fylla hana, en humar var út um allt dekk, hann hafði komið í bland með vænum þorski með síðasta holli. Ég tók góðan slatta af humri og setti í nokkra grisjupoka sem nóg var af um borð og setti inn í frystir. þetta ætlaði ég að fara með heim.
Um restina af humrinum spurði ég Ella hvort ég mætti ekki steikja á pönnu handa strákunum í eftirrétt við vaktaskiptin. Hann tók vel í það og ekki var að spyrja. Steiktur humarinn rann út eins og heitar lummur. Eftir það var ekki einum einasta humri hent í sjóinn, strákarnir rifust um að safna honum í poka.
Ekki losnaði ég við sjóveikina þrátt
fyrir rjómablíðu og ældi nokkrum sinnum að strákunum ásjáandi. Þeir vissu að mér leið ekki sem best.
Einn skipverjinn, kyndari í vél sem ég raunar þekkti
vel sem nágranna minn til margra ára þegar ég var í föðurhúsum.
Hann lét mig sjaldan í friði, var alltaf með einhverjar glósur um ræfildóm, ég væri
ekki eins borubrattur nú eins og þegar ég hefði verið að gera at í konunni hans sem stráklingur og fleira sem hann tiltók. Meðal annars blés hann sífellt er færi gafst framan í
mig tóbaksreyk sem ég hataði þarna um borð, sem og bætti ekki líðan mína vegna sjóveikinnar.
Þessari áreitni hans lauk ekki fyrr en Hallur Ólafsson bátsmaður tók karlinn kverkataki, lagði hann á lunninguna og sagðist mundi henda honum fyrir borð ef hann ekki hætti þessum orðaflaumi í minn garð. Ekki bar á áðurnefndri áreitni eftir þetta.
Mig minnir að það hafi verið skírdagur, frekar en páskar, þegar Elli bað mig að taka allar grindurnar úr kæliklefanum, hreinsa gólfið og fara með grindurnar út á dekk og þrífa þær. Hann fyrirskipaði jafnframt að ég ætti að binda allar grindurnar kirfilega með trollgarni.
Ég hváði við og spurði hvort það væri ekki óþarfi það væri blankalogn og skipið hreyfðist ekki. En hann endurtók fyrirmælin og ég hlýddi. Ég þreif síðan gólfið í kæliklefanum og fór svo að skrúbba grindurnar. Ég var hálfboginn yfir þessu verki. Á meðan heyrðist lítið annað en hljóðið á máfunum sem eltu skipið. Allt í einu heyri ég hrópað hátt og skýrt, "sjór" og aftur var kallað "sjór" Ég leit upp og sá á sama augnabliki grænan vegg koma að skipinu stjórnborðsmegin, ég sá ekki til himins.
Ég leit í kringum mig og sá að ég mundi ekki komast inn um dyrnar í tíma og ósjálfrátt leit ég upp undir bátadekkið sá þar rör sem ég
greip í með báðum höndum og vogaði mig með lappir upp á sama augnabliki og brotsjórinn skall á stjórnborðshliðina og fyllti ganginn undir bátadekkinu.
Ég slapp með
skrekkinn og hafði aðeins blotnað á afturendanum við það að ganginn fyllti af sjó. Sjórinn hafði fossað inn um dyrnar og meðal annars fór stór skvetta niður í vélarrúm
og svo var allt búið.
Grindurnar voru allar innanborðs því er að þakka fyrirhyggju Ella. Engin meiðsl á skipverjum en megin þungi brotsins lenti á aftanverðu skipinu. Ég var mjög hissa á þessu og fékk þau svör að svona brot kæmu stundum alveg upp úr þurru. Við hefðum verið heppnir að brotið lenti ekki yfir dekkið þar sem hásetarnir voru við vinnu það hefði getað valdið slysi. Elli sagði það táknrænt og glotti góðlátlega, að ég hefði verið sá eini sem hefð fengið blautan rassskell.
Það skal tekið fram að það var Kiddi Rögg 1. stýrimaður sem hrópaði "sjór" ofan frá brúarvængnum og hann fylgdist vel með hjálparkokknum sem var að þrífa grindurnar ekki síður enn strákunum fram á dekki.
Á páskadag (eða skírdag ?) var óvenju mikið að gera í eldhúsinu hjá Ella, hann ætlaði að hafa veislumat á borðum, bæði vegna "páskanna" og svo ekki síst vegna þess að mjög vel hafði aflast það sem af var túrnum, sem stefndi í metafla á ferli togarans sögðu strákarnir.
Hann hafði meðhöndlað nokkur kjötlæri eftir kúnstarinnar reglum, gert girnilega desert rétti og tilheyrandi. það var aðeins farið að hreifa vind og komin örlítil undiralda, (mikil fyrir minn maga þó) sjóveikin aðeins farin að gera meira vart við sig en undanfarna daga.
En ég hlakkaði þó til matarins. Eftir að búið var að
bera á borð fyrir fyrri vaktina þá fengum við Elli okkur bragð í eldhúsinu, ég borðaði raunar nær yfir mig, þar sem matarlistin var góð þá stundina.
Elli
horfði á mig með glott á vör og spurði mig hvort ég væri ekki aðeins of stórtækur. Ég hvað ekki svo vera en var vart búinn að sleppa orðinu, þegar ég tók
til fótanna og gaf Ægi magafyllina og gott betur, einnig það sem ég hafði fengið mér um morguninn.
Mig sundlaði smá stund en var fljótur að jafna mig, fann raunar varla fyrir sjóveiki. Ég fór aftur inn í eldhús og fékk aftur matarlistina og fékk mér aftur á diskinn. Elli gaf mér hornauga en sagði ekkert, hann hafði séð mig við borðstokkinn og vissi til hvers ég hljóp út. Ég náði ekki alveg við að ljúka af disknum í þetta sinn þegar maginn kallaði aftur á losun, og ég tók til fótanna.
þegar ég fór inn aftur var hin vaktin að koma sér fyrir í borðsalnum og Elli byrjaður að setja meiri mat á borðin, sem ég aðstoðaði hann við. það var eitt kjötlæri eftir inni í eldhúsi og ég gerði mig líklegan til að fara að skera mér sneið af því, þá sagði Elli stopp og sagði mig vera búin að fá nóg þetta ætti að vera til vara ef þeir vildu meira strákarnir og við það sat.
Stuttu fyrir heimsiglingu snemma að morgni vaknaði ég við mikil læti, köll og hávaða, ég svaf í skipinu aftanverðu. Ekki vissi ég hvað var að ske en rauk á fætur, enda nær kominn tími til að mæta á vaktina í eldhúsinu. Ég fékk fljótt að vita að annar togvírinn hefði sveiflast til í veltingnum (eða skipið skvett rassi, sagði einhver) og vírinn væri fastur ofan á stýrinu.
Þetta væri ekkert alvarlegt en stýrið væri fast með stefnu á stjórnborða. Ég fór svo að tína hinn hefðbundna morgunverð á borð eins og var í mínum verkahring. Ég fór inn í kæli til að ná í súrt slátur í tunnu og fleira. Á meðan var hurðin opin og fest með þar til gerðri krækju. En við þær aðstæður lokaðist þröngur gangurinn fyrir gangandi.
Ég var með hausinn nær ofan í sláturtunnunni þegar hurðin skellur með miklum látum á afturendann á mér. Ósjálfrátt sparkaði ég
hressilega í hurðina sem hafði nærri því sett mig og tunnuna um koll, hurðin opnaðist því aftur með enn meiri krafti en hún hafði skollið á mér áður, og á
sama augnabliki hvað við mikið öskur.
Sá sem hafði losað um hurðarkrækjuna og skellt hurðinni á mig kom frá stjórnborða til að komast um ganginn yfir á bakborða,
hann lá endilangur á gólfinu og bölvaði illilega. En reis svo upp og rauk út á dekk án þess að líta við.
Þetta var sjálfur skipstjórinn, (Ólafur Karvelsson) þetta var í fyrsta sinn sem þessi maður hafði farið úr brúnni eða klefa sínum í túrnum. Hann var þarna aftur í til að stjórna aðgerðum við að losa togvírinn af stýrinu. Sennilega hefur hann haldið að veltingurinn hafi slengt á sig hurðinni því aldrei leit hann við né hafði orð á þessu. Skipstjóranum tókst fagmannlega að stjórna verki sem losaði togvírinn.
Elli og Hallur hlógu aftur á móti mikið þegar ég sagði þeim frá þessu síðar á heimsiglingunni.
Á heimsiglingunni var farið að hvessa nokkuð. Ekki fylgdi þó mikill sjór en sjóveikin aftur á móti farin að aukast.
Ég var sendur í hina hefðbundnu ferð seinnipart kvölds upp í brú með kaffi. Þar virtust allir vera að fylgjast af áhuga með einhverju sem var framundan. Þegar ég gáði betur, sá ég að það var bátsmaðurinn Hallur Ólafsson sem allir voru að horfa á. Skipstjórinn hafði sent hann upp í frammastur til að skipta um peru í siglingaljósi sem ekki hafði kviknað, en komið var rökkur.
Togarinn valt dálítið en Hallur fikraði sig varlega upp bakborðsvantinn. Hann stoppaði rétt áður en komið var að siglingaljósinu til að kasta mæðinni. Skipstjórinn opnaði glugga og öskraði. "Hættu þessi hangsi maður og komdu helvítis perunni á sinn stað"
Hallur öskraði á móti án umhugsunar: "Haltu kjafti og lokað glugganum fíflið þitt" sem karlinn gerði hið bráðasta, kannski ekki vegna orða Halls, heldur vegna sjóroks sem þyrlast hafði upp. Hinir í brúnni sem allir heyrði orðaskipti greinilega, glottu en ég hissa á að bátsmaður talaði svona til skipstjórans.
Hallur sagði mér síðar að hann hefði aldrei kunnað vel við karlinn og fannst tilvalið að senda honum tóninn. Enginn eftirmáli varð þó af þessu. Heimsiglingin gekk vel og þegar gengið hafði verið frá landfestum heima við bryggju, ráfaði ég í land með sjóriðu heim til fjölskyldu minnar.
Ég var með hálfgerða sjóriðu í marga daga þar á eftir.
Upp úr togaranum var viktað alls 314 tonn af vænum þorski og eitthvað af öðrum tegundum. Metafli og mjög góður hlutur til skiptana.
Á sjóinn fór ég ekki aftur að sinni þó svo að sjóveikin hafi farið á lægra stig þegar leið að lokum túrsins og líðan hefði skánað aðeins, þá hætti ekki ælugangurinn þar sem ekkert tolldi niðri í mér nema kalt kakó.
Ég léttist um 14 kg. í túrnum eða um 1 kg. á dag að meðaltali og ég hafði sett giftingarhringinn um háls mér í seglgarnsspotta.
Ég hafði vigtað mig nokkrum dögum á baðviktinni heima fyrir túrinn og síðan 14 dögum eftir að komið var í land.
Síðar um sumarið týndi ég hringnum í heyskap vestur á Máná þar sem ég var að aðstoða mág minn Stefán Friðriksson í Bakka, síðan hefi ég ekki borið hring af neinu tagi né annað glingur og mér hefur vegnað vel.
Sigurður Jónsson framkvæmdastjóri stóð við sitt. En nokkrum vikum eftir sjósóknina, réði ég mig til vinnu hjá Veiðarfæraverslun Sig Fanndal, en snéri þó aftur til S.R. í vinnu hjá Páli Jónssyni byggingameistara S.R., árið 1959.
Steingrímur Kristinsson