Umsókn um vitavarðarstöðu, ofl.

Eins og annarstaðar hefur komið fram í þessum minnisbrotum mínum þá hefi ég á unglingsárum mínum fram undir tvítugt ekki verið neinn engill í vöggu.

Þó ég muni alls ekki viðurkenna að ég hafi verið óþokki, þeirri ströngu tilvitnun. Þrátt fyrir það hefi ég tvívegis verið skráður sem afbrotamaður, það er ég komist á hegningarskrá. "Lögbrot mín", skráð og óskráð til þessa, voru flest framin af prakkaraskap og fávisku en einnig af gróðavon og kæruleysi. 

Tvisvar hefi ég þó komist á sakaskrá eins og fyrr segir, fyrir brot sem ég ber þó engan kinnroða yfir enda kom kæran frá lögregluþjóni sem lagt hafði mig í einelti allt frá barnsaldri. (10-17 ára) Ég var kjaftfor, og ófeiminn við að láta í ljós skoðanir mína og meðfylgjandi lýsingarorð, þegar fauk í mig. Slíkt orðaflaum hafði Bragi og fleiri þjónar laga og réttar fengið hjá mér, þegar ég taldi þá vera að skipta sér að mínum málum, meðal annars vegna kajakasmíði og notkunar á þeim óskafleytum, sem oft komu upp.

Sauðarnesviti, við Siglufjörð

Sauðarnesviti, við Siglufjörð

Þetta varð síðar góður vinur minn öll síðari æviár hans, Bragi Magnússon hét sá sem kom mér á sakaskrá. Hann breytti persónulegri skoðun sinni á mér síðar, eftir að honum var sagt að ég hefði sennilega bjargað lífi hans.

Ég hafði raunar ekki áttað mig á því hvað sakaskrá var fyrr en ég rúmlega tvítugur sótti um vitavarðarstarf við Sauðanesvita við Siglufjörð. Vitavörðurinn Oddur Oddsson vinur minn og fyrrum vinnufélagi, var að láta af störfum fyrir aldurssakir og hafði mælt með mér sem eftirmanni sínum við vitamálastjóra sem þá var stórkratinn Emil Jónsson.

Sækja þurfti formlega um hina opinberu stöðu. Krafist var að hegningarvottorð fylgdi umsókninni. Ég fór á fógetaskrifstofu þar sem Hjörleifur gaf út vottorð um hegningarferil minn.

þar var stuttlega skýrt frá því að ég hefði tvívegis gerst brotlegur við lög. Þar var tilgreint að ég hefði gerst brotlegur við lög númer nn og hlotið fyrir það 50 króna sekt. Og aftur brot á lögum nr. nn og hlotið fyrir það 50 króna sekt. Ekki nefnt einu orði hver brotin hefðu verið.

Það skrítna var við "meintan dóm" að ég var aldrei kvaddur fyrir dómara heldur aðeins sendur reikningur í pósti þar sem mér var bent á að mæta á fógetaskrifstofu og borga. Það gerði ég í bæði skiptin þó svo að málsaðferðin að mínu mati nú í dag, (2018) hafi verið á frekar gráu svæði, ef ekki kolsvörtu.

Ég var ekki sáttur við þetta vottorð sem stimplað var embættinu með undirskrift Hjörleifs fyrir hönd fógeta. Ég bað hann um nánari skilgreiningu í vottorðinu en fékk harðlega neitun frá Hjörleifi, sem svo var staðfest af fógeta sem kom fram á skrifstofuna eftir að hafa heyrt háværar kröfu raddir mínar.

Málið endaði með því að ég gaf skít í fógetafólkið og hringdi suður til Dómsmalaráðuneytisins þar fékk ég samband við mjög vinalega konu sem hlustaði með athygli á sögu mína.  Hún var hissa á þessari neitun fógetaskrifstofunnar heima og sagist mundi útvega mér nákvæmari hegningarskrá. Hún gerði það á þann hátt að hún sendi fógetanum skjal með tilskipun um að afhenda mér það og láta mig kvitta fyrir móttökuna. Hjörleifur var frekar sneyptur þegar sú athöfn fór fram, en fógetinn lét ekki sjá sig.
Umsóknin um vitavarðarstöðuna rataði á borð vitamálastjóra, og erindisbréf mitt var undirskrifað tilbúið til sendingar norður.

Emil Jónsson vitamálastjóri hafði hringt í Odd vitavörð og sagt honum að ég hefði verið valinn af þrem eða fjórum umsækjendum. Oddur hringdi svo í mig og sagði mér tíðindin, sem og glöddu mig.
En sú gleði var skammvinn því daginn eftir hringdi Oddur aftur í mig og sagði mér að Emil hefði hringt í sig og hann sagt vera hættur við að ráða mig.

Ástæðan var sú að (annar stórkrati), Kristján Sigurðsson frá Eyri á Siglufirði hefði heimsótt hann. Vitavarðarstaðan komið þar til umræðu og Kristján hefði alvarlega varað sig við að ráða þennan mann sem væri bæði drykkfeldur og ótreystandi og eitthvað fleira sem Kristján nefndi mér til foráttu.

Oddur hafði mótmælt þessu harðlega þar sem hann þekkti mig af allt öðru. En kratar eru alltaf kratar en ekki Oddur. Þar við sat. 

Afbrotin: !

Atvikin sem ollu því að ég var settur á sakaskrá var í fyrra tilfellinu þegar ég var 16 ára. Þá kærði Bragi Magg mig fyrir að reiða Siggu Tótu Eggerts á reiðhjóli niður Aðalgötu. Ég hafði tekið Siggu með, en bæði vorum við að verða of sein til vinnu hjá S.R.  Fyrir það tilvik var ég sektaður um kr.50,00 -

Seinna tilfellið var árið eftir um haustið, Þá hafði ég tekið að mér að keyra vörubifreiðina hans Steina Kristjáns í kolauppskipun. Ausandi rigning var og ég lét til leiðast að taka tvo af bryggjukörlunum upp í bílinn mér við hlið mér í matartíma. Í bílnum mátti aðeins einn sitja hjá ökumanni samkvæmt skoðunarvottorði. Aftur fékk ég kr.50,00 í sekt og þar var Bragi aftur að verki.

Bjargvættur

Atvikið sem nefnt er lauslega hér á undan, var er ég kom í veg fyrir að Bragi yrði fyrir alvarlegu höfuðhöggi, jafnvel dauða var mér sagt síðar. Það átti sér stað á Aðalgötunni, sem þá logaði öll í slagsmálum frá neðst í götunni og upp að Nýja Bíó, þar sem dansleik var ný lokið.

Þarna voru útlendingar að megni til bæði í slagsmálum við Íslendinga svo og innbyrðis. Og að auki annarra sem ráfuðu um og eða fylgdust með því sem var að ske á svæðinu. Margir lögregluþjónar voru þarna, sem reyndu að róa þá allra verstu sem voru á svæðinu.

Þar á meðal var Bragi Magg kominn með einn kolbrjálaðan blindfullan Íslending á magann og var að berjast við að koma á hann handjárnum, þegar vinur minn Steini Kristjáns kom að ofurölvi. Steini hafði um kvöldið verið að drekka með manninum sem Bragi var að handjárna.
Steini var með óopnaða pilsnerflösku í hendi og reiddi hana til höggs, sem lent hefði á höfði Braga ef ég hefði ekki komið í veg fyrir það með því að stökkva á Steina. Höggið lenti á vinstri öxl Braga og gerði hann handlama í nokkra daga.

Ég reyndi að róa vin minn sem ég hafði fellt í götuna en hann barðist um á hæl og hnakka.  Tveir lögregluþjónar sem höfðu séð aðförina úr fjarlægð, komu og handjárnuðu Steina en létu mig að öðru leiti í friði.  Steini ásamt félaga sínum fengu að dúsa í steininum um nóttina og Steini fékk háa sekt.

Steini þakkaði mér síðar fyrir það að hafa komið í veg fyrir að höggið hæfði höfuð Braga, sem hafði verið ætlun hans, í stundarbrjálæði