Sjósund og fleira

Á uppeldisárum mínum voru engir tölvuleikir, vídeó eða sjónvarp sem trufluðu krakka við útiveru og skipti raunar engu hvernig viðraði, alltaf var leikið úti í stórum og smáum hópum.

Og ekki var skólum aflýst vegna veðurs, né foreldrar keyrðu börnum til skóla enda fáir sem áttu bíla í þá daga. Við sáum um okkur sjálf.

Það var eins gott að við gættum hvors annars því fyrir kom að við lentum í ógöngum. Eitt atvik hvað mig varðar er mér minnisstætt. Skólplagnir frá Hvanneyrarbraut og svæðinu þar fyrir ofan og í kring, meðal annars frá spítalanum sem var að hluta til nýlega endurnýjaðar.

Steyptur var stokkur sem lá frá Hvanneyrarbraut (e.t.v. lengra) og til sjávar.  Mokað var yfir stokkinn þar sem götur og lóðir voru, en í fjörunni við Hvanneyrarkrók var hann sýnilegur.

Þar ofan á stokknum voru tveir steinhlerar yfir opum sem voru um 1 metir á lengd og hálfur á breidd.

Þetta var spennandi vettvangur þegar mikið brim var á vetrum, en þá tóku bæjarkarlarnir steinhlerana burt því sjórinn þrýstist með svo miklum krafti upp ræsið að það myndaðist yfirþrýstingur í skólplögnum þannig að gusugangur myndaðist í klóakleiðslum og baðherbergjum næstu húsa var okkur sagt.

Við fylgdumst oft með sjónum sem þrýstist upp ræsið og hentum stundum spýtnarusli og öðru lauslegu sem flaut í ræsið og hlupum svo á milli opa til að sjá hreyfingarnar. 

Mikill hamagangur var oft þarna og í eitt skiptið er ég kom að efra opinu datt ég ofan í ræsið og sjórinn fór með mig eitthvað upp eftir því. Ræsið hefur verið tæpur metir á kant. (var og er) 

Það varð mér til láns að Henning Bjarnason var framarlega á ræsinu og sá hvað skeði. Hann reiknaði út í huganum hvenær ég kæmi með sjónum til baka, hljóp að anda ræsisins við sjóinn og náði að gripa í hárið á mér með annarri hendi og í föt mín með hinni og fékk svo hjálp til að hífa mig upp rétt áður en næsta alda skall á ræsið.

Ég var ósyntur á þessum tíma og óvíst hvort Henning sem var flugsyntur hefði lagt í að stökkva út í öldurótið til að bjarga mér, þá hefði hann ekki náð á mér taki og eða sjálfur varla komist lífs af við slíka tilraun.

Ég slapp furðu vel, með nokkrar skrámur og marblettir sem komu ekki í veg fyrir áframhaldandi leik daginn eftir. Farið var þó með meiri gát á þessum vettvangi eftir þetta atvik.

Einhvern tíma um 12-13 ára aldur, voru krakkar sendir til Ólafsfjarðar um tíma til að læra sund, þar á meðal Valbjörn Þorláksson skólabróðir minn. Ekki veit ég hversvegna ég fylgdi ég ekki þeim hópi.

Sundlaugin á Siglufirði var lokuð um tíma af einhverjum sökum. Ég lærði því ekki að synda samhliða skólasystkinum mínum. En um vorið, þá lærði ég að synda í sjónum við Hvanneyrarkrók og út með Ströndinni undir leiðsögn Valbjarnar.  Sundnámið undir leiðsögn Valbjarnar gekk vel þó svo að ég hafi haft meiri ánægju af því að vera undir yfirborðinu frekar en upp við það. Það var eftir að við uppgötvuðum að hægt var að elta rauðmagana, stugga við steinbýtum og marhnútum, ásamt því að synda innan um þaragróðurinn. Það var gaman, en okkur þótti grábölvað að geta ekki verið nógu lengi í kafi hverju sinni.