Nýja Bíó Siglufirði

Ég fór snemma að horfa á bíósýningar. Samkvæmt frásögn mömmu var það árið 1936, þá tveggja ára gamall, sem ég sá mína fyrstu "bíómynd".  Þá hélt móðir mín á mér í fanginu og lét mig kíkja í gegn um op í sýningarklefa Nýja Bíós á Siglufirði, þar sem pabbi, hafði starfað að mestu frá 14 ára aldri.

Auðvitað man ég ekki eftir söguþræði eða hvaða persónur þarna voru á tjaldinu. Mamma sagði mér síðar að ég hefði horft á með slíkri athygli og innlifun að hún hafi átt fullt í fangi með að hemja mig.

En á tjaldinu voru Mickey Mouse og félagar, teiknimynd frá Walt Disney.

Fyrsta kvikmyndin sem ég sýnd einn, þá tæplega 14 ára

Fyrsta kvikmyndin sem ég sýnd einn, þá tæplega 14 ára

Upp frá því fór móðir mín, að fara með mig í "barnabíó" þegar teiknimyndasyrpur voru sýndar. Slíkt var algegnt í þá daga og allt til ársins 1970 sem slíkar syrpur voru sýndar í Nýja Bíó á Siglufirði.  Mamma var mikil áhugamanneskja um kvikmyndir og fór því oft "í bíó" eins og það var gjarnan kallað á Siglufirði frá upphafi kvikmyndasýninga þar. 

Oftar en ekki horfði móðir mín á bíó uppi í sýningarklefa hjá föður mínum. Hún tók mig þá oft  með sér, ekki þó til að láta mig fylgjast með kvikmyndunum heldur svaf ég í vöggu bakatil þar sem auðvelt var að fylgjast með mér kornabarninu.

Þegar ég var um 5-6 ára, fór ég að fara einn í bíó (barnasýningar). 

Ég sleppti aldrei sýningu enda fékk ég frítt inn þar sem pabbi var sýningarstjórinn, hefð sem hélt alveg til síðasta dags kvikmyndasýninga á Siglufirði, hvað fjölskyldur mínar varðaði.

Um 10 ára aldur sá ég allar kvikmyndir sem sýndar voru í bíó. Leyfðar myndir sá ég  stundum tvisvar, því þær voru einnig oftast sýndar á barnasýningum.

Á kvöldin sá ég myndirnar uppi í klefa hjá pabba, án tillits til hvort myndir væru  bannaðar börnum 12, 14, eða 16 ára.

"Hverskonar uppeldi !" segja ef til vill sumir í dag.

En móðir mín sagði snemma við mig að kvikmynd væri eins og skáldsaga, sem gerð væri til að stytta fólki stundir og til fróðleiks.

Hún sagði mér að Það ætti ekki að herma eftir því sem þar færi fram frekar en við lestur skáldsagna, þar væru fyrst og fremst um draumóra að ræða sem sjaldan ættu sér stað í raunveruleikanum og  hugsa svo vel um hvort þar væri eitthvað til eftirbreytni eða ekki með tilliti til þess að skaða engan í raunveruleikanum.

Mamma hafði þá trú að ef hún og eða foreldrar almennt kenndu börnum sínum að horfa á kvikmyndir, segði þeim að “bíó” væri afþreying en ekki skóli í bókstaflegri merkingu og að það ætti ekki að herma eftir því sem á tjaldinu birtist því það væri aðeins leikur. Það mætti engan skaða eða meiða.

Þegar ég var 12 ára byrjaði pabbi að kenna mér á sýningarvélarnar og var ég fljótur að ná tökum á búnaðinum.

Vorið 1947 þegar nýjar sýningarvélar höfðu verið keyptar í Nýja Bíó, þá fylgdist ég grannt með uppsetningu þeirra og fékk alltaf greið svör frá pabba sem sá alfarið um uppsetningu vélanna.

En það var ekki fyrr en í desember árið 1947 þá tæplega 14 ára sem ég sýndi mína fyrstu kvikmynd án þess að pabbi væri nálægt. Tilefnið var að pabbi sem var útvarpsvirki að mennt eins og fyrr segir varð að sinna neyðartilfelli á loftskeytastöð Landsímans.
Breski togarinn "Dhoon FD 54"  hafði sent frá sér neyðarkall sem heyrðist veikt á loftskeytastöðinni á Siglufirði. Sterkari móttakarinn þar hafði bilað og þurfti pabbi að sinna viðgerð á honum á sama tíma og hann hefði átt að "sýna bíó".

Myndin hét "Fljúgandi morðinginn" á íslensku, eða “Non-Stop New York"  (UK 1937)  þetta var spennumynd bönnuð yngri en 16 ára. Þetta var einnig frumsýning myndarinnar á Íslandi.

Thorarensen hafði allt frá upphafi sýninga í Nýja Bíó gert mikið af því að flytja myndirnar inn sjálfur og leigði hann þær síðan gjarnan bæði til Reykjavíkur og annarra staða úti á landi.

Sýningin tókst vel, þó svo ég hafi ekki veitt kvikmyndinni sjálfri mikla athygli það kvöldið. Númer 1, 2 og 3 var að sinna mínu hlutverki en það var talsvert verk á þeim tímum. t.d. þurfti að vera vel vakandi yfir kolbogaljósunum sem lýstu upp filmuna og komu myndbrotum hennar, hverjum ramma sem voru 24 á sekúndu, yfir á stóra tjaldið í salnum.

Þegar landlegur voru, þá var sýnt bíó klukkan 15:00,17:00,19:00 og klukkan 23:00, eða 5 sýningar á dag og oftast uppselt (alla daga sem landlegur voru) og sýndi ég oft fyrstu 4 sýningarnar. Það var yfirleitt mjög mikið að gera hjá pabba við viðgerðir vegna skip, þegar landlegur stóðu yfir. Pabbi leysti mig svo af klukkan 23:00. Þetta voru dásemdar dagar, oftast 2-3 nýjar myndir á dag og faðir minn endursýndi þær svo dagana eftir landlegurnar.

Nokkrir árekstrar höfðu orðið á milli Thorarensen og barnaverndarnefndar vegna frétta og gruns um að ég hefði horft á „bannaðar“ kvikmyndir uppi í sýningaklefa. - Þau læti jukust verulega þegar fréttist að ég væri einnig farinn að sýna þessar kvikmyndir einn, án þess að hafa til þess aldur, né réttindi til að stjórna sýningarvélunum. Kærur vegna þessara mála bárust til stjórnvalda í Reykjavík, en málin kólnuðu síðan hægt og rólega.

Ekki man ég eftir undirleik við þöglu myndirnar en foreldrar mínir sögðu mér frá að svo hafi verið nær undantekningar laust fyrstu árin. Ég man þó eftir þöglum myndunum sem krakki en þöglar myndir komu annað slagið og voru sýndar mörgum árum eftir að fyrstu "talmyndirnar" komu. Ég man óljóst eftir því hvernig "græjurnar" litu út sem notaðar voru. (sem voru þá í geymslu)  

Þegar sýningar á talmyndum hófust í Nýja Bíó á Siglufirði, Þann var 17. janúar árið 1931,  (þrem árum áður en ég kom í heiminn)  þetta samanstóð af heljarmiklum gramofon og gramfonplötum sem spilaðar voru samhliða filmuspólunni og skiluðu talinu og hljóminum sem fylgdi myndunum.

Jónatan Ólafsson tónskáld með fleiru, starfaði á sínum yngri árum hjá Thorarensen. Mun hann oft hafa leikið "undir" kvikmyndum á þeim tímum en hann lék einnig “dinner músík” og á dansleikjum uppi á Bíó Café. Einnig hefur mér verið sagt frá að Guðný Fanndal (kona Gests Fanndal) hafi á sínum yngri árum, um tíma leikið á píanó "undir" á meðan þöglar myndir voru sýndar í Nýja Bíó á Siglufirði.

Bíósýningum í Nýja Bíó á Siglufirði lauk endanlega árið 1999 og samhliða því var rúmlega 50 ára ferli mínum sem sýningarmaður við Nýja Bíó á Siglufirði lokið.