Sendur í sveit - Í sveit í Flókadal

Ég var 8 eða 9 ára þegar ég var sendur í sveit hjá þeim gæðahjónum Ásmundi og Ebbu að Stórureykjum í Fljótum. Fólk var hvatt til þess að koma börnum sínum í sveit á sumrin, vegna hættu á loftárásum nasista á þessum árum. Ég man lítið eftir vistinni þar nema að félagsskapurinn var góður.

Synir hjónanna voru fjórir, Eyríkur sem var elstur, Hreiðar, Guðmundur og Lúðvík sem var jafngamall mér og yngstur.

Ég fékk að ríða hesti sem pabbi leigði hjá Birni keyrara. 

(afi Björns Jónasar, fv. sparisjóðsstjóra)

Með í för var Bogga frænka, mamma og pabbi. Ég hafði aldrei riðið hesti fyrr en tókst vel að sitja þó berbakt væri og klárinn sem var með fjörugra móti.

Fyrir mistök hafði rangur hestur verið valinn undir mig.

Ég hafði séð margar kúrekamyndirnar og ætlaði nú aldeilis að láta spretta úr spori.

Leiðin lá yfir Siglufjarðarskarð um þröngan stíg sem þá var ekki ökufær bílum og tæplega kerru, heldur aðeins hestaslóði.

Foreldrar mínir voru í öngum sínum yfir því að ég færi á þessum hraða sem þau treystu sér ekki til að ná.

Ég stoppaði þó í einhverri beygjunni til að sjá hvað þeim liði og láta þau vita að allt væri í fínu lagi hjá mér.

Ég hélt svo áfram á rölti alla leið upp í Skarð þar sem ég beið drjúga stund eftir þeim.

Pabbi vildi þar skipta á hesti en ég var rokinn niður skarðið Skagafjarðarmegin og skeytti engu um fortölurnar sem á eftir mér fóru. 

Efri myndin: Hjónin Ásmundur Jósefsson og Arnbjörg Eiríksdóttir ljósmóðir, með syni sína í aldursröð: Eiríkur Ásmundsson, Guðmundur Ásmundsson og Hreiðar Ásmundsson (tvíburar) og Lúðvík Ásmundsson. Ég Steingrímur Kristinsson er þarna á myndinni lengst til vinstri.
Neðri myndin: Þarna er ég síður en svo hress. Ég grenjaði þegar ég fékk „lata brún“ til reiðar (kerruhest)   Ljósmyndir: Valborg Steingrímsdóttir, móðir mín.

Efri myndin: Hjónin Ásmundur Jósefsson og Arnbjörg Eiríksdóttir ljósmóðir, með syni sína í aldursröð: Eiríkur Ásmundsson, Guðmundur Ásmundsson og Hreiðar Ásmundsson (tvíburar) og Lúðvík Ásmundsson. Ég Steingrímur Kristinsson er þarna á myndinni lengst til vinstri.
Neðri myndin: Þarna er ég síður en svo hress. Ég grenjaði þegar ég fékk „lata brún“ til reiðar (kerruhest) Ljósmyndir: Valborg Steingrímsdóttir, móðir mín.

Það var ekki fyrr en komið var að Hraunum (vissi ekki nafnið þá) sem ég stoppaði og beið eftir þeim.  En ég vissi auðvitað ekki hvar ég átti að vera í sveit. Það gat alveg eins verið þessi fyrsti sveitabær sem komið var að.

Þegar ég var sóttur um haustið. Þá var "réttur hestur" valinn undir "óknyttaknapann" Sá hestur er rólegur hafði Björn keyrari sagt, en þetta var kerruhestur.

Ekki var ég sáttur við það og fór að grenja eins og ofdekraður krakki. (sem ég var) -

En ég þekkti fyrri reiðskjótann minn sem faðir minn hafði tekið traustataki.

Þar við sat og engar kappreiðar á heimleiðinni enda var ég í fýlu og ekki í skapi til að reyna á þrek hestsins.