Óknytti

Ekki voru allir leikir okkar villimannanna, það sem kalla mætti heiðarlegt lagalega séð, þó svo að metast megi um alvarleika þeirra sem prakkarastrika. Snemma uppgötvuðum við að ekki þurfti að klifra upp í ljósastaurana og skrúfa lausa peru sem stundum var gert til að myrkva nálægt hverfi vegna undirbúning annarra prakkarastrika.

Það var nóg að gefa ljósastaurunum sem þá voru tréstaurar, duglegt spark til að slökkva á perunum sem þá voru venjulegar 200watta með E27 skrúffestingu. (Edison fattning) Perurnar þoldu ekki snöggan titring. Þetta var raunar oft gert án nokkurs tilgangs annars en að „hafa gaman af“ 

Ófáar rúður voru brotnar hjá S.R. og söltunarstöðvum á haustin í þeim eina tilgangi að „hitta í mark.“ Kæruleysislegur og siðlaus verknaður eftir á  að hyggja, en svona var þetta ár eftir ár. Þar til einstaklingarnir uxu upp úr því að hafa gaman af.

Og það broslega við svona uppátæki, þá lenti ég, vor eftir vor, sem starfsmaður á SR Tréverkstæði, í því að setja nýtt gler í margar rúður verksmiðjanna, "leikurinn" hélt áfram, bara með nýjum árgöngum.

Önnur prakkarastrik voru af því tagi að banka á dyr og hlaupa síðan. Stundum var hengt eitthvað óþrifalegt á handföngin og hlaupa enn hraðar í burtu. Stundum vorum við eltir.  (þetta gerðu aðallega strákarnir, hrekkir stelpnanna voru öllu jöfnu siðaðri) 

Tilgangurinn með þessum og fleiri hrekkjum var að ergja íbúana til að hafa gaman af, og voru sumir sérstaklega áhugsöm fórnarlömb, þeir sem  gerðu ítrekaðar tilraunir til að hlaupa okkur uppi og klaga okkur síðan fyrir foreldrunum, þegar viðkomandi töldu sig þekkja óþokkana.

Við vorum einnig með gagnáætlanir í gangi til að krydda tilveruna varðandi hrekkina. Við skiptum um föt (ytri fatnað) og húfur hvors annars og sá sem fötin tilheyrðu tóku ekki þátt í tilræðunum á annan hátt en því, að hafa verið áberandi heima hjá pabba og mömmu.  Að minnsta kost hálftíma áður en hrekkurinn var framkvæmdur.

Framkvæmdaliðið, það er einn úr hópnum hljóp svo í áttina heim til þess sem átti fötin sem hann var í og passaði sig á að vera í hæfilegri fjarlægð frá fórnarlambinu sem áætlaði „réttilega“ hvert sökudólgurinn var að flýja. Sá sem elti bankaði svo hraustlega að dyrum móður og blásandi þrútinn af reiði. Við vorum oftar en ekki mikið í sömu utanyfir fötunum og auðþekktir úr fjarlægð í björtu

Hinn „saklausi“ lét ekki sjá sig fyrr en mesti reiðlesturinn hins lafmóða var afstaðinn og foreldrarnir lýstu því hátíðlega yfir að þarna væri greinilega um misskilning að ræða þar sem „engillinn“ þeirra hefði verið heima um kvöldið. Í þessu tilfelli var það ég sem lék engilinn. Svona atvik voru endurtekin einu sinni eða tvisvar, en hættu síðan að virka. 

Í hverfinu voru nokkur hús sem voru í algjörri friðhelgi. Það var Húsið þeirra Guðbjargar Kristinsdóttur ljósmóður og Árna í Shell, Ingibjargar Sveinsdóttur og Páls í Mjóstræti 2 og Þóru Ingmarsdóttir, móðir Siggurðar Ægissonar prests, svo auðvitað foreldrar viðkomandi hrekkjalóma. 

Ástæður friðhelginnar voru einfaldlega þær, að þetta fólk skammaði okkur aldrei vegna óláta og hávaða. Heldur talaði til okkar í ró og næði og bað okkur um að gera ekki þetta eða hitt og við bara hlýddum. En alltaf fundum við upp á einhverju nýju til afþreyingar, enda urðum við að bjarga okkur sjálf á þeim vettvangi, þá var ekki hægt að biðja pabba eða mömmu um einhvern tölvuleik til að stytta okkur stundir, við bjuggum til leikina sjálf og nutum útiverunnar í leiðinni.