Fyrsta vinnan hjá SR

Um sumarið þegar ég var orðinn 16 ára sótti ég um vinnu hjá S.R.  -

Þá var venja, að ráðnir voru vel á annað hundrað starfsmenn víða af frá landinu á tímabili sem nefnt var Tryggingartímabilið. Viðkomandi starfsfólki fékk launa-tryggingu í tvo mánuði fyrir lágmarks vinnutíma sem var 8 stundir á dag 6 virka daga vikunnar. (laugardagur var þá talinn til virkra daga, 48 stunda vinnuvika)  Svipað fyrirkomulag var haft hjá söltunarstöðvunum.

Ég fékk vinnu og hóf störf á Lagernum hjá Jóel Hjálmarssyni lagerstjóra. Mitt fyrsta verk var að telja (vörutalning) málm smíðaefni á stangalagernum sem þá var utandyra á S.R. lóðinni staðsettur á milli skrifstofubyggingarinnar og mjölhúss SRN. (síðar Frystihús SR og enn síðar ruslageymsla Þormóðs ramma hf. og ní dag 2018 Bjórverksmiðjan Segull)

Efnið var í rúmlega þriggja metra háum rekkum, þar var geymt rúnnað stál, (öxulstál)  margir  sverleikar og lengdir, að auki flatjárn, vinkiljárn, skúffur og annað álíka. Megnið af öxlunum var þakið þykkri feiti og hálf óþægilegt viðkomu og annað nokkuð ryðgað. Þetta átti ég að mæla, þvermál og lengdir og telja af mikilli nákvæmni sagði Jóel.
„Ég þarf að hafa einhvern áreiðanlegan í þetta starf,“ bætti hann við. Sennilega hefur hann ekki frétt af því, að ég var einn af 14 villingunum í 1. bekk Gagnfræðaskólans sem féll á vorprófi árinu áður.

En hvað um það, þarna var ég í eina tvo - þrjá daga að príla í rekkunum með tommustokk á milli tannanna, skíðmál í rassvasanum og skrifblokk á platta og blýant. Jóel leit til mín annað slagið og leiðbeindi mér um mæliatriði þau sem ég ekki þekkti. Allt gekk þetta vel og Jóel var sýnilega ánægður því næsta verkefni var af léttara taginu, þar sem ég sat löngum tíma á rassinum uppi á lagernum. Ég fór í ýmsar sendiferðir fyrir hann innan lóðar sem utan.

Þarna á myndinni sjást ma. mjölrörin, það grennst lá frá SR 30 verksmiðju en hitt frá SR 46 – Þarna sést einni norðurendi vélaverkstæðis, þar aftan við heimili Andersen og SR-Efnarannsókn í hvíta húsinu, tunnuverksmiðjan sem brann árið 1964 og fleiri byggingar.

Þarna á myndinni sjást ma. mjölrörin, það grennst lá frá SR 30 verksmiðju en hitt frá SR 46 – Þarna sést einni norðurendi vélaverkstæðis, þar aftan við heimili Andersen og SR-Efnarannsókn í hvíta húsinu, tunnuverksmiðjan sem brann árið 1964 og fleiri byggingar.

En þetta letitímabil varði ekki nema í um viku. Þaðan var ég sendur út í port sem var vestan við skrifstofu og mjölhúss SRN. Þar var mikil hrúga af steypustyrktarjárni, bogið að skælt. Ég og nokkrir strákar áttum að rétta bogið járnið og vírbursta síðan af því hálflaust ryðið sem safnast hafði utan á járnið. Þetta járn mun hafa verið afgangar frá því að SR46 verksmiðjan var byggð. þetta var leiðinlegt og sóðalegt verk. Vinnuföt okkar báru þess greinleg merki auk þess sem vinnuvettlingarnir okkar entust lítið.

Á þeim tíma þurfti verkafólk sjálft að hafa áhyggjur af sínum vinnufatnaði. Fyrirtækin sköffuðu ekki vinnuklæðnað þá eins og í dag.

Seinnihluta sumarsins var ég sendur til vinnu á mjölpalli hjá Guðmundi Sigurðssyni verkstjóra S.R. í Ákavíti, (Mjölhús SR46) Þar líkaði mér vel, bæði félagsandanum sem þar ríkti og þar var mikil vinna.  (sami Guðmundur hafði kennt mér lestur og framburð, þegar ég var 6 ára)

Áður en sumrinu lauk, hafði Guðmundur ráðið mig til starfa þarna næsta sumar á mjölpall í Mjölhúsi SR46. Þar vann ég næstu 7 sumrin og síðar hluta viðkomandi ára í Hraðfrystihúsi SR um veturna við flökun, vinna sem þó var stundum stopul vegna skorts á hráefni.

Í frystihúsinu sátu þeir fyrir vinnu, Siglfirðingarnir sem höfðu starfað sumarið áður hjá sjálfum verksmiðjunum. Sú regla var þó oft brotin af verkstjóranum Birni Björnssyni, góinum eins og hann var kallaður. Hann vildi helst ekki hafa aðra menn í vinnu en þá sem voru í Framsóknarflokknum.
Sá ættbálkur fékk yfirleitt mestu yfir og næturvinnuna. Við þessir yngri sem vorum á öndverðum meiði í pólitík eða höfðu ekki látið pólitískar skoðanir okkar greinlega í ljós í átt til Framsóknarflokksins sátum á hakanum. Svo hefur það eflaust einnig spilað inn í hvað mig snerti að ég var bæði hrekkjóttur og kjaftfor og var ófeiminn að lofa honum að heyra álit mitt á „framsóknarstefnunni.“ Bruðlinu hjá Sambandinu ofl.
Hann lokaði að mestu fyrir aukavinnu hvað mig snerti nema ef bráðvantaði mannskap þegar mikið var um að vera.

Mjölrörin

Eitt af verkefnum „mjölhúsmanna“ þegar engin bræðsla stóð yfir var að rústbanka undirstöður mjölröranna tveggja og rörin sjálf sem lágu frá SR46 verksmiðju og SR30 verksmiðjunni að SR46 mjölhúsinu.  Mjölinu var blásið frá verksmiðjunum til mjölhússins.

Ég og Friðrik Friðriksson (Frissi í Bakka) lentum einir í því að skrapa, menja og bronsa sjálf rörin sem voru 12“ og 10“ í þvermál. Fyrst var unnið ofan á rörunum og síðar úr körfu á fornaldarlegum rafmagnskrana sem við Frissi skiptumst á um að stjórna. Það er fyrir kaffi uppi í körfunni, og eftir kaffi við stjórn kranans o.s.f.v.  Þetta gekk allt vel, en við þessa vinnu komumst við ekki hjá því að sjá að ástand röranna það er að samsetningum þeirra var ábótavant, ma. vantaði bolta sem ryðgað höfðu í sundur í flangsana sem tengdu rörin saman sem og aðrir sem voru mikið tærðir. 

Vinnan uppi á rörunum eins og þarna var aðhafst, væri ekki talin sómasamleg í dag. Ekkert gat hindrað annað en okkar eigin aðgæsla að við féllum niður af rörunum.  En 8-9 metrum neðar var oft allskonar drasl. Engin öryggisbönd voru notuð né annað sem í dag tíðkast öryggis vegna. En við vorum ungir og kærulausir um eigið öruggi og unnum við það sem okkur var sagt.
Það var ekki fyrr en eftir að ég hafði eignast fjölskyldu nokkrum árum síða er ég lenti í því að bæta nokkrum boltum í flangsa á einu röranna  að ég fór að hugsa um þá hættu sem stafaði af svona príli og hugsaði til tímanna okkar Frissa sem við þrömmuðum upp á rörunum eins og apar. 
Sumstaðar hafði verið vafinn segldúkur um samskeytin til að koma í veg fyrir að mjöl blési út um lek samskeytin.

Við létum Guðmund verkstjóra vita af þessu sem tilkynnti það sínum yfirboðurum. Við vissum ekki þá að fylgst hafði verið með okkur úr annarri átt af manni sem hafði  spurt okkur mjög sakleysislega um ástand röranna. Upplýsingar sem við létum í sakleysi okkar í té.
Ekkert var gert í því að setja menn í að fara yfir flangsana og bæta í boltum að þessu sinni.

Það var aftur á móti um eitt haustið sem ég var kallaður til bæjarfógeta. Þar var einhver ókunnur maður inni hjá honum sem fór að spyrja um vinnu okkar Frissa um við rörin. Ég spurði hvað væri í gangi en í staðin fyrir að svara spurningu minni spurði maðurinn hvort ég vildi sverja eið að því að segja satt og rétt frá, það væri áríðandi.

Ég hvað já við þó var engin biblía eða handaupprétting við það tækifæri. En í kjölfarið kom önnur spurning frá ókunna manninum, eitthvað á þá leið hvort mjölrörin væru í góðu lagi að mínu mati.
Ég svaraði eitthvað á þá leið á móti að það vissi ég ekki þar sem ég hefði ekki komið þar nærri lengi og að ég væri að vinna í frystihúsinu.
Þá spurði maðurinn aftur, hvort það hefði vantað marga bolta í samskeyti röranna þegar ég hefði unnið við þau á sumrin. Ég játaði því.
Hann spurði hve marga, það sagðist ég ekki vita ég hefði aldrei talið þá. Hvað heldurðu að þeir hafi verið margir? Spurði hann aftur.

Það veit ég ekki svaraði ég, og var farið að síga í mig vegna þess sem mér fannst ágengni um nokkuð sem honum kæmi ekki við.
Og þá spurði hann mig hvort ég hefði látið verkstjórann minn vita af þessu. Ég játti því og aftur spurði sá ókunni. Lét verkstjórinn yfirmenn sína vita. Þá var mér nóg boðið og svaraði með þjósti:
„Hvern andskotann veit ég um það, spyrjið hann“. Ég stóð upp og sagðist vera farinn, sem ég gerði. Þennan tíma hjá fógetanum, skrifaði sá ókunni eitthvað niður á blað en fógetinn sjálfur sagði aldrei orð.
Fljótlega eftir þetta hitti ég Frissa og sagði honum frá þessu. Þá kom í ljós að hann hafði verið kvaddur til fógeta fyrr um daginn en neitað að svara þegar hann vissi um erindið og komst upp með það. (Hann var greinilega skinsamari þá en ég!) Þetta var, minnir mig árið 1955. 

Þarna á myndinni sjást ma. mjölrörin, það grennst lá frá SR 30 verksmiðju en hitt frá SR 46 – Þarna sést einni norðurendi vélaverkstæðis, þar aftan við heimili Andersen og SR-Efnarannsókn í hvíta húsinu, tunnuverksmiðjan sem brann árið 1964 og fleiri byggingar.