SR-Raufarhöfn 1959

Þær voru margar ferðirnar á vegum S.R. til annarra verksmiðja fyrirtækis fyrir austan. Fyrsta slík ferð sem ég tók þátt í á vegum SR, var til Raufarhafnar í byrjun febrúar árið 1959, það var með hópi "Pálsmanna," smiðir og verkamenn sem Páll G Jónsson trésmíðameistari stjórnaði, en Páll var byggingameistari fyrirtækisins eins og fyrr er getið. 

Ákveðið var að reisa steinhús yfir soðkjarnatæki og að auki grunn undir stórt stálgrindarhús sem hýsa átti ketilstöð með tilheyrandi. Í febrúarmánuði mátti búast við rysjóttum vetri eins og gjarnan fylgir yfir vetrartímann.  Okkur voru  ætlaðir tveir mánuðir til verkloka.

Þar á eftir mundu svo starfsmenn SR-Vélaverkstæðis á Siglufirði koma og setja upp vélbúnað soðkjarnaverksmiðjunnar, reisa stálgrindarhúsið og koma þar svo fyrir kötlum og búnaði. 

Bjarni nýrakaður, örðu megin

Bjarni nýrakaður, örðu megin

Allt þetta átti að verða klárt til notkunar þegar fyrstu síldinni yrði landað á Raufarhöfn þá um sumarið. En Palli hafði góða menn í sinni þjónustu og hóf óragur vinnu við framkvæmdir ásamt sínu liði, þó svo að ekki væru margir trésmiðir með réttindi í hópnum, aðeins þrír auk Páls sjálfs.

Hjá Páli voru menn sem gátu unnið nánast allt sem gera þurfti. „gervismiðirnir“ ég þar á meðal,  voru að hans áliti fullgildir á við réttindamennina hvað vinnu snerti, að þeim ólöstuðum. 

Þrátt fyrir hörkufrost, skafrenning og stórhríð í febrúarmánuði gekk verkið vonum framar og var klárað hálfum mánuði á undan verkfræðilegri áætlun. Gufa og yfirbreiðslur voru notaðar til að koma í veg fyrir frostskemmdir þegar steypt hafði verið í sökkla, gólf og veggi. Mannskapurinn dúðaði sig vel á meðan á verkinu stóð. (Þá voru ekki til kuldagallar eins og þeir sem eru taldir ómissandi í dag 2018)

Félagsandinn og fjörið var í hávegum haft. Þrátt fyrir að við höfðum fyrstu dagana orðið fyrir aðkasti og rúðubrotum í gluggum vistarvera okkar.  Þar voru nokkrir unglingar að verki. Þeir sögðust ekkert vilja með aðkomu menn að hafa. Þetta áttum við raunar erfitt með að skilja þar sem velgengi Raufarhafnarbúa á þessum tímum stóð og féll með því aðkomufólki sem kom til Raufarhafnar hvert sumar auk þeirrar uppbyggingar sem þar fór fram í tengslum við síldina. Í þorpinu var alls ekki nægur mannskapur til að vinna slík verk þó allir heimamenn sem það vildu gætu fengið við það vinnu.

Fullorðnum heimamönnunum tókst loks að fá ungmennin til að hætta ítrekuðum árásum á okkur. Enginn hafði þó meint af þessu ef frá er talinn einn okkar sem skarst lítilsháttar á glerbroti þegar hann var að sópa upp af gólfi eftir eitt rúðubrotið.

þegar Páll sá að verki okkar mundi ljúka fyrr en áætlað hafði verið. Var slappað frekar á og nokkrir sunnudaga notaðir til gönguferða um nágrenni Raufarhafnar. Það var farið víða um, fram í hólma og nánast um allt umhverfið, bæði austur og vestur.
Einnig  tók Páll G Jónsson ákvörðun um að létta aðeins frekar á mannskapnum, og skroppið var til Ásbyrgis og fleiri staða þar í nálægð í leiðinni. Farið var á tveim jeppum og lífinu tekið með ró einn góðviðrisdaginn í marsmánuði

Nokkrir Pálsmanna ákváðu að safna skeggi á meðan dvalið var á Raufinni. Það tilefni vakti að lokum skemmtilega sögu af einum okkar sem safnaði skeggi. Það var Bjarni Bjarnason (Boddi Gunnars) sem hafði tilkynnt hátíðlega að hann mundi raka sig sama dag og við héldum heim til Siglufjarðar.  Þetta höfðu allir frétt. Á þeim tímapunti voru vélaverkstæðismenn komnir til Raufarhafnar auk rafvirkjans Gunnars Guðbrandsonar.  Hópurinn var á leið til hádegisverðar.

Bjarni og Gunnar voru samhliða á leiðinni. Gunnar snýr sér að Bjarna og segir.  "Þú hefur látið verða af því að raka þig" og hann strýkur í leiðinni nýrakaðan vangann á Bjarna.  Maður verður að standa við þær yfirlýsingar sem maður gefur, sagði Bjarni og glotti. Við sem nærri vorum og heyrðum orðaskiptin, og glottum.

Svo hagaði til að borðað var við langborð, ég og Einar Björns settumst hlið við hlið beint á móti Gunnari, sem var sestur. Bjarni settist við hlið Gunnars beint á móti okkur Einari og byrjaði að raða á disk sinn eins og aðrir. Gunnar segir hátt til að yfirgnæfa glamrið frá diskum og hnífapörum og horfir á okkur Einar alskeggjaða. „Þið hafið ekki rakað ykkur eins og Bjarni“  
Einar varð fyrir svörum og sagði hlæjandi. "Ég get ekki séð það að Bjarni hafi rakað sig" 
Gunnar svarar um hæl, á sama tíma og hann skimar eftir Bjarna og sagði. (hann hafði ekki veitt því eftirtekt, að það var  Bjarni sat við hlið hans)

"Víst er hann búinn að raka sig, ég strauk á..........." þá  tók Gunnar eftir Bjarna "alskeggjuðum" við hlið sér. Hlátur dundi um salinn. Gunnar vissi ekki hvað á sig stóð veðrið, hann hafði jú örugglega strokið nýrakaðan vanga Bjarna.  
Sannleikurinn var sá að hinn gáskafulli Bjarni hafði rakað sig til hálfs eins og myndin af honum hér fyrir ofan sýnir, vanginn sem Gunnar hafði strokið snéri nú frá Gunna. 

Orðaskiptin voru óundirbúin og raunar tilviljun, en Bjarni notaði tækifærið og settist við hlið Gunna þar sem hann virtist vera sá eini í salnum sem ekki hafði séð eða heyrt um uppátæki hans að raka sig aðeins öðrum megin. Gunnar varð hálf vandræðalegur í fyrstu, en tók svo þátt í hlátrinum.

Brottför, frá Raufarhöfn.

Verkefnum Pálsmanna var lokið. Að kvöldi þess dags sem skeggsagan átti sér stað hélt Vilhjálmur Guðmundsson mikla veislu á staðnum í tilefni af því hversu vel Pálsmönnum hafði gengið við sitt verkefni og í leiðinni fyrir góðum verklokum í heild.

Hann hafði komið frá Akureyri seinnipart dagsins hlaðinn góðum veigum og ýmsu meðlæti. Menn tóku vel til matar og drykkjar í veislunni og flestir í hópnum, trésmiðirnir, vélsmiðirnir og fleiri sem á annað borð smökkuðu áfengi voru orðnir vel hífaðir. Um miðnættið kom strandferðaskipið Esja (eða Hekla? man ekki hvor) á leið vestur. Við fórum um borð stuttu síðar. 

Vilhjálmur Guðmundsson sem var aðeins hreifur eins og fleiri stóð við landganginn og kvaddi alla Pálsmenn með handabandi, þakkaði þeim fyrir gott starf og óskaði góðrar heimferðar.
Það sem snerti mig nokkuð við þessa kveðjustund Vilhjálms var að hann leiddi mig aðeins afsíðis og sagðist skulda mér afsökunarbeiðni.  Hann rétti mér höndina og spurði hvort sér væri fyrirgefið.

Ég vissi vel hvað var í gangi. Við höfðum ekki talast við síðan ég hóf störf aftur hjá SR, eftir veru mína í Veiðarfaraverslun Sig Fanndal. Fyrirgefning var fúslega veitt og hann faðmaði mig að sér og sagði að Páll hefði sagt sér að ég væri einn af hans bestu mönnum. Þessa sátt þótti mér vænt um og það fór mjög vel á milli okkar upp úr þessu.

En nánar var sagt um ástæður afsökunarbeiðninnar hér á undan  kaflanum "Hætti hjá SR og kom aftur/Aftur til S.R."

Flest allir fóru beint til koju þar sem löng sigling var heim, með viðkomu á nokkrum stöðum og best að nota nóttina til svefns. Blíðskaparveður var og nokkuð stilltur sjór. Um átta leitið um morguninn þegar ég mætti til morgunverðar þá var það fyrsta sem ég sá, Vilhjálm á leið að morgunverðarborðinu.

Hann var hress og brosandi og bauð viðstöddum góðan daginn og þakkaði fyrir ánægjulega kvöldstund. Hann hefði alltaf ætlað að koma með heim en notaði tækifærið við landganginn til að þakka hverjum og einum Pálsmanna fyrir gott starf.

Bland ljósmynda frá Raufarhöfn