Drukknun

Eitt sumarið gekk yfir slæm flensupest með miklum forföllum hjá mannskapnum hjá verksmiðjunum á Siglufirði, þar á meðal á mjölpalli SR46 þar sem ég vann þá sem vaktformaður yfir sumartímann. (á hinni vaktinni far Friðrik Friðriksson vaktformaður) Þessi forföll urðu til þess, að viðkomandi tvær vaktir voru sameinaðar í eina og unnið allan sólarhringinn.
Það var Vilhjálmur Guðmundsson tæknilegur framkvæmdastjóri sem kom þessu á eftir bón til okkar, sem ekki höfðum fengið pestina, um það að vera á vakt allan sólarhringinn en skipta með okkur tækifærum til að sofa á staðnum á vaktinni og biðja aðstandendur okkar að færa okkur mat í vinnuna, sem var gert.

Þetta var raunar allt auðfengið. Samtals vorum við tveimur fleiri en á venjulegri vakt og því auðvelt að skiptast á um að sofa á vaktinni vitandi það að vera á næturvinnukaupi allan sólarhringinn eins og Vilhjálmur hafði lofað okkur á meðan þetta ástand varði sem entist að vísu ekki nema í rúmlega fjóra sólarhringa.

Menn voru að vísu þreyttir, því ekki áttu allir auðvelt með svefn þó þeir lentu í svefnpásu og voru því sumir nokkuð slappir þegar á leið, þar á meðal ég á þriðja sólarhringnum. Ég hafði ekki sofið mikið í vel á annan sólarhring þó svo ég hefði notað allar mínar hvíldarpásur.

Í einni af síðustu pásu minni, hafði ég lagst til svefns í pokastæðu þar sem í voru tómir strigapokar og voru geymdir aðeins til hliðar við mjölpallinn sem var nokkuð hærri en sjálft aðalgólfið. Ég hafði dottið út af mjög fljótt sögðu strákarnir og sofið í um þrjá tíma þegar komið var að því að vekja mig samkvæmt áætlun.

Aðferðin sem þeir félagar mínir notuðu til þess, var vægt til orða tekið ógnvænleg. Á meðan ég svaf á bakinu föstum svefni, sennilega með opinn munninn, höfðu þeir saumað mig fastan í pokabúntin tvö sem ég lá á. Búntin hvert um sig sennileg um 500 kg.

Hægt og rólega létu þeir „í hæfilegu magni,“ leka vatn úr stórri vatnsfötu yfir andlit mitt. Ég gat mig hvergi hreift. Ég vissi ekki hvar ég var, hvort ég væri að drukkna eða hvað, algjörlega út úr heiminum súpandi hveljur og sá ekki neitt frá mér, í rökkrinu sem þarna var.

Það var ekki fyrr en rétt áður að fatan tæmdist að ég heyrði hlátur strákanna óljóst í gegn um vatnsniðinn, að ég áttaði mig hvað raunverulega var í gangi. Ég var að hugsa um að gera mótleik gagnvart þeim, en undir niðri var ég svo reiður að það mistókst að láta þá halda að liðið hefði yfir mig eða jafnvel drukknað. Þá setti hljóða þegar þeir sáu svipinn á mér, þeir horfðu á mig og voru á báðum áttum hvað gera skyldi.
Ég held það hafi verið þá sem þeir áttuðu sig á því að þetta var sennilega einum of langt gengið. Í þessu kom Eyþór Baldvinsson (frá Enni) sem einnig hafði verið í svefnpásu annarsstaðar. Hann hafði vaknað við hlátur og öskur strákanna.  Hann vissi ekki hvað var að ske, en grunað þó að hrekkur væri í gangi, þar sem hlátur var yfirgnæfandi. Hann kom svo til mín í flýti og skar mig lausan. Hann stumraði yfir mér og fór að spyrja.

Ekki veit ég hvað ég hefði gert hefði Eyþór ekki komið þarna á þessari stundu. Sá sem losað hafði úr vatnsfötunni lagði hana frá sér og gekk sneyptur til sinna verka. Ég var lengi að jafna mig á þessari martröð og átti mjög erfitt með að fyrirgefa vinnufélögum mínum, þeim sem stóða að „tilræðinu“ 

En þegar leið á daginn og ég hafði hugsað minn gang. Þá gerði ég mér grein fyrir að þetta hefði skapast útfrá svefngalsa sem stundum var sagt að kæmi upp í fólki eftir langa vöku og hefði komið þessu öllu af stað án þess að vera hugsað til enda. Svo var ég sjálfur ekki alsaklaus af hrekkjabrögðum og átti hrekki skilið.  Þó svo að eftir á, að mati allra félaga minna þá hafi þetta verið aðeins of gróft hrekkjabragð.

Þeim var fyrirgefið eins og öllum hinum hrekkjunum sem ég hefi orðið fyrir sem voru margir á þessum árum. En mörgum vikum eftir þennan atburð fékk ég martraðir sem tengdust drukknun. Það var jafnvel enn verri upplifun en þegar atvikið sjálft átti sér stað í mjölhúsinu áður.

Ég hefi þó engum sagt frá þeim hluta sögunnar fyrr í þessari skráningu hér.