Seyðisfjarðar-ferðir

Margar ferðirnar fór ég til austfjarðaverksmiðjanna á Raufarhöfn, Seyðisfirði og á Reyðarfirði. Ég og fleiri með Páli, svo og á vegum Páls án þess að hann færi með og einnig á vegum Vilhjálms Guðmundssonar 

Ein ferð austur til Seyðisfjarðar, er mér nokkuð minnisstæð.

Það var árið 1962. Það ár keyptu Síldarverksmiðjur ríkisins Síldarbræðslu Seyðisfjarðar. (S.B.S.) Þessi verksmiðja var bæði gömul og úrelt og þar allt, langt frá þeirri tækni sem þróast hafði hjá öðrum verksmiðjum S.R., sérstaklega á Siglufirði. Þannig að margt þurfti að gera til að verksmiðjan þjónaði þáverandi kröfum um tækni og gæði framleiðslunnar.

Mikið var að gera hjá Pálsmönnum við ýmsa vinnu á Siglufirði, Þegar Páll kom boðum til mín um að hitta hann síðar uppi á skrifstofu hjá Vilhjálmi tæknilegs framkvæmdastjóra. Þegar þangað kom, voru þeir Páll og Vilhjálmur að skoða teikningu. Palli spurði mig hvort ég gæti skroppið til Seyðisfjarðar og unnið þar verk sem mikið lægi á.
Það þyrfti helst að klárast innan hálfs mánaðar. Þetta væri einöld smíði en þyrfti þó snör handtök til að ljúka. Hjá mér vaknaði spurning um það hvers vegna ég væri kallaður til skoða með þeim teikninga af óbyggðu húsi og taka við ýmsum skýringum því tengt, hvað var í gangi hugsaði ég.

Það átti að byggja 110 fermetra „hús“. Trégrind með ánegldum gipsonit plötum utan og innan, einangra veggi og gólf, en ekkert þak, aðeins bitar til styrktar.

Vilhjálmur Guðmundsson tæknilegur framkvæmdastjór SR

Vilhjálmur Guðmundsson tæknilegur framkvæmdastjór SR

Allt efnið væri komið á staðinn og ætti þetta takast og ganga frá á tilsettum tíma. Ég áttaði mig ekki í fyrstu hvar húsið umtalaða ætti að standa. Teikningin gaf litla vísbendingu um það. Nema að undirstaðan var stálbitagrind og húsið átti að hýsa rafmagnsvirki, töflur og sjálfvirktar rofasamstæður.

Hjarta verksmiðjunnar hvað rafmagnsstýringu snerti. En í ljós kom að búið var að koma fyrir og festa stálgrindina þar sem húsið átti að standa. Palli sagði mér að ég fengi tvo með mér til fararinnar, þá Ásmund Þorláksson trésmið og Geira Guðbrands gerfismið. (eins og ég var einnig)

Fleiri menn gæti hann ekki misst. Ég átti að leiða hópinn og bera ábyrgð á verkinu.

Vilhjálmur bætti við. “Þú verður á sveinakaupi með 20% álagi, þú lætur þó engan vita af því.
Ég er búinn að segja Einari Magnússyni verksmiðjustjóra frá því að hann eigi að gera allt sem þú biður hann um og þið ráðið hve lengi þið vinnið á kvöldin. Best sem lengst til að verkið klárist á tilsettum tíma".

Ég var þó alltaf á sveinakaupi hjá Palla, en 20% álag var góð viðbót fannst mér. Eins og áður segir fannst mér staðsetningin ekki greinileg. Í ljós kom að áðurnefnd stálgrind sem átti að reisa húsið á var uppi á annarri þurrkyndingunni inni í verksmiðjunni.

Mér varð á að spyrja Vilhjálm hvort ekki yrði of heitt þarna uppi þegar verksmiðjan færi í gangi.

Hann sagði að hönnuðir verksmiðjunnar teldu svo ekki vera, gólfið ætti að vera vel einangrað.

Við félagarnir fórum austur á Egilsstaði í einkaflugvél og til Seyðisfjarðar með rútu. Strax og við höfðum komið okkur fyrir í verbúðinni hófum við vinnu. Við fengum aðstoð við að nálgast efniviðinn í grindina og hífa upp á sökkulinn og byrjuðum af kappi. Allt gekk þetta vel. (þó heftibyssur væru þá ekki komnar á þessum tímum)

En rétt fyrir tíu um kvöldið á fyrsta degi kallaði Einar Magnússon verksmiðjustjóri í okkur og sagði að komið væri kvöld og að við ættum að hætta. Slökkt yrði á öllu klukkan tíu. Ég kallaði á móti að við ætluðum okkur að vinna til miðnættis, en hann ansaði ekki og fór.  Klukkan tíu fór rafmagnið, hann hafði slökkt.

Geiri vissi hvar aðalrofinn í verksmiðjunni var og rauk af stað í hálfrökkrinu og kveikti.  Við héldum áfram vinnu okkar eins og ekkert hefði í skorist. En nokkrum mínútum síðar birtist Einar í lúguopi á gólfinu og öskraði.  Hvern fjandann við værum að leika, ég sagði ykkur að hætta.

Ég hálf öskraði á móti og spurði hvort hann myndi ekki eftir fyrirmælunum sem hann hefði fengið frá Vilhjálmi. Hann ætti að gera allt sem ég bæði hann um.  Og nú ætla ég að biðja þig að fara heim að sofa, því við ætluðum að vinna lengur. Einari varð orðfall. Hann svaraði ekki og fór.

Eftir þetta tók hann ekki rafmagnið af verksmiðjunni þegar aðrir starfsmenn og verktakar sem þarna var krökkt af við vinnu við uppsetningu á ýmsum nýjum vélbúnaði og fleiru.
Einari hafði ég áður kynnst lítilsháttar þegar hann vann tímabundið hjá SR á Siglufirði. Ég vissi að hann var orðhvatur og stundum hastur við undirmenn sína en inn við beinið var hann besta skinn.

Þetta blessaða hús var mun einfaldara og fljótunnara en við höfðum í upphafi gert okkur grein fyrir. Þegar grindin var komin upp má segja að plöturnar hafi smellpassað og lítið sem ekkert þurfti að saga. Hæð platnanna 2,20m passaði við grindina og aðeins þurfti að saga fyrir dyrum og gluggum og einangruninni var fljótlegt að koma fyrir, ekkert þak átti að vera samkvæmt teikningu aðeins styrktarsperrur.

Á fimmta degi kom upp til okkar maður sem kynnti sig með nafni (sem ég man ekki) en sagðist vera slökkviliðsstjórinn á Seyðisfirði.
Hann spurði hvort teikningarnar sem við færum eftir tilgreindu virkilega það efni sem við værum að nota. Við jánkuðum því og bentum honum á teikningarnar sem voru ekki fjarri. Hann hristi höfuðið, og lét þau orð falla að þetta verk yrði örugglega stoppað vegna eldhættu sem stafaði frá kyndingunni beint fyrir neðan.  

Hann ætlaði að hafa samband við Brunamálastofnun fyrir sunnan. Hann var kurteis í alla staði, og við auðvitað einnig. Ég sagði honum að við værum bráðum búnir með okkar verk og mundum halda áfram við verk okkar, nema fyrirmæli um annað kæmi frá Vilhjálmi. Hann skildi það.

Seinnipart sjöunda dags höfðum við lokið við okkar verk. Við höfðum allir unnið eins og þrælar. Við vorum að pakka saman verkfærum okkar þegar Vilhjálmur kom. Hann sagði undrandi eitthvað á þá leið.

„Eruð þið búnir?“
Hann hristi hausinn, þið eruð meiri karlarnir sagði hann. En það er illt í efni bætti hann við. Fulltrúar frá Brunamálastofnun eru á leiðinni hingað. Ég geri fastlega ráð fyrir því að húsið verði rifið og annað byggt úr járni og blikki.
Við horfðum til skiptis á hvorn annan. Við félagarnir höfðum jú rætt þennan möguleika eftir að fyrrnefndur eftirlitsmaður heimsótti okkur. En undir niðri áttum við von á að ekkert yrði úr því að sinni.

Við fórum heim til Sigló með fyrstu ferð. En afdrif hússins urðu þau að starfsmenn verksmiðjunnar voru látnir rífa það til grunna og öllu efninu var hent á haugana og brennt. Gipsonit plöturnar brunnu víst illa var okkur sagt síðar. Það tók eina viku að byggja húsið og einn dag, daginn eftir að það var fullgert, að rífa það til grunna.

Járnsmiðir voru svo fengnir til að smíða nýtt hús á sama stað, í sama stíl. Ekki kom járnið þó þar að gagni því hitinn frá kyndingunni og rakinn sem draup frá lofti verksmiðjunnar olli eilífum útslætti og truflunum á rafmagnskerfinu þegar frysta tók um haustið.

Verkfræðistofan, sem oftar en ekki fékk verkefni hjá SR, höfðu ekki ávalt hugmyndir um annað en verkefnið sjálft, ekki það sem var umhverfis verkefnið, raunar kom fyrir að ekki var hægt að vinna sum verk sem skyldi, þar sem staðsetning hluta stangaðist á. Fleiri en eitt slíkt dæmi kom upp hjá verksmiðjum SR, þar sem niðurstaðan varð ekki sú sama og teiknigarna sýndu.

Um veturinn var smíðað nýtt afdrep fyrir rafmagnskerfið niðri á gólfi við einn útvegg verksmiðjunnar.

Önnur ferð, sama ár.

það var stuttu eftir að verksmiðjunni á Seyðisfirði var startað eftir hinar gagngeru breytingar. Þar var komin á mikil sjálfvirkni svipað og í öðrum verksmiðjum SR. En eitthvað gekk þar þó ekki eins og vænst hafði verið, fréttum við heima á Siglufirði.

Ég var á kafi í verkefni sem mikið lá á, þegar Palli kom til mín. Hann dró mig afsíðis og sagðist vera með skilaboð til mín frá Vilhjálmi sem væri á Seyðisfirði. Það væri neyðaróp. Allt hafði gengið á afturfótunum í sambandi við mjöl- þurrkunina, mjölið var annað hvort brennt eða blautt.
Þeir sem þar áttu að stjórna náðu engum tökum á stillingum sjálfvirkninnar sem þar átti að ríkja.

Stefnir Guðlaugsson alvanur kyndari hjá SR á Sigló væri tilbúinn að fara austur í hvelli til að leiðbeina liðinu á Seyðisfirði hvað þurrkyndinguna varðaði. Það vantaði vanann mann á mjölpallinn til að kenna heimamönnum á tæknina sem þangað var komin. Ég hefði verið átta sumur á mjölpalli forðum og ég væri hans eina von.  Friðrik Friðriksson hafði verið beðinn að fara, en hafði neitað að fara sagði Vilhjálmur mér síðar.

Ég sá alvöruna í málinu og skildi að brennt mjöl var ónýt vara og blautt mjöl þrefalt dýrara til endurvinnslu. Ég sló til og spurði hvenær ætti að fara. Núna strax, sagði Palli, flugvélin sem sækir ykkur Stefni er að lenda. Palli keyrði mig heim svo ég gæti kvatt konuna og tekið með mér aukafatnað. Svo var komið við heima hjá Stefni og haldið á flugvöllinn þar sem flugvél beið okkar. 

Flugið gekk samkvæmt áætlun og lent var á Egilsstaðaflugvelli. Þar beið Vilhjálmur okkar. Hann leit út eins og flækingur. Með hattinn sinn á höfðinu en ljós jakkafötin hans voru öll útötuð frá hvirfli til ylja af soðkjarna.
Soðkjarni er brúnn þykkur verðmætur lögur sem unninn er úr grút sem í gamladaga var látinn renna í sjóinn.

Auk þess angaði Vilhjálmur af megnri verksmiðjulykt. Hvað kom fyrir þig spurði ég undrandi.  "Minnstu ekki á það. Það hefur bókstaflega allt gengið á afturfótunum. Það er ekkert til þarna í verksmiðjunni sem hefur ekki bilað, eða verið klúðrað af þekkingarleysi. Hann hélt áfram að segja okkur frá ástandinu......"  "Ég reyndi að fylgjast með og leiðbeina þeim sem ekki vissu.... Ég tók eftir því  að 2“ gúmmíslanga var við það að losna frá kjarnadælu.....  Ég rauk til og stoppaði dæluna sem í sjálfu sér skaðaði ekkert í stuttan tíma....  Ég náði í skrúfjárn til að herða slönguklemmur sem höfðu ekki verið nógu vel hertar auk þess sem þær voru ekki á réttum stað.
Til að laga klemmurnar þá þurfti ég að taka slönguna frá dælunni en á sama tíma setti einhver dæluna í gang og ég fékk heitan kjarnann yfir mig eins og þið sjáið....... " Ég vona að það líði ekki yfir flugmanninn sem flýgur með mig til Akureyrar, þar ætla ég að fara upp á Hótel KEA og fara þar í bað.
Hótelstjórinn á von á mér, ég hringdi í hann og bað hann að kaupa handa mér alfatnað. Svo ætla ég að sofa í svona 8-10 tíma. Hann glotti yfir síðustu orðunum og jafnframt vottað fyrir brosi.

Ég vona að þið reddið málunum fljótt. Þið verðið á kaupi allan sólarhringinn þar til þið eruð komnir heim aftur. Hérna eru lyklarnir af Volgunni minni, þið getið farið á henni yfir og notað hann til að hvíla ykkur í á milli tarna."  (Volga, var rússneskur fólksbíll með númerinu F-201, og var í einkaeigu Vilhjálms)

Eitthvað svona var það sem hann rumdi út úr sér, hann var svo farinn upp í flugvélina sem beið eftir honum. Við gengum að bílnum hans og opnuðum.   Út úr bílnum gaus frekar óvistleg lykt sem við Stefnir þekktum svo vel frá verstu stöðunum hjá okkar SR verksmiðju heima á Sigló.

Stefnir lét orð falla eitthvað í þá átt, að blessaður flugmaðurinn væri örugglega ekki hress eða ánægður með lyktandi Vilhjálm í vél sinni.

Þegar við opnuðum skottið á Volgunni og ætluðum að setja þar inn þann litla farangur sem við vorum með. þá hættum við að gera það því í skottinu voru vinnuföt og stígvél sem Vilhjálmur átti. Það var verra ástand á þeim en jakkafötum Vilhjálms, og angaði einnig af megnri lykt, þeirri sömu sem hafi verið af Vilhjálmi er við mættum honum.

Ferðin yfir Fjarðarheiði til Seyðisfjarðar gekk vel, Stefnir keyrði. Við náðum tali af Einari Magnússyni verksmiðjustjóra. Hann lýsti fyrir okkur þáverandi ástandi og sagði allt við það sama varðandi þurrkyndinguna. Þar væri greinilega einhverjar rangar tengingar vegna sjálfvirknina því þar væri mjölið til skiptis brennt og blautt. Rafvirkjateymið sem sá um verkið væru farnir og enginn með þekkingu gæti lagfært það. Stefnir sagðist verða fljótur að finna meinið.

Einar fór svo með mig út í mjölhús. Hann benti mér á mjölpallinn en sagði ekkert meira og yfirgaf mig. Þegar ég kom á pallinn sá ég að þarna voru fjórar fullorðnar konur og einn karlmaður við vinnu. Öllu heldur þau sátu þar aðgerðalaus, en verið var að hleypa niður kolbrenndu mjöli framhjá sjálfvirka vogarbúnaðinum.
Ég bauð góðan daginn kynnti mig og sagðist vera kominn frá Sigló í von um að geta aðstoðað þau. Ég taldi þetta hæfilega kurteisa kveðju miðað við þann andlitssvip sem á konunum var, sem ekki var vingjarnlegur.

Ein konan svaraði með illskulegum tón eitthvað á þá leið að þær þyrftu enga helvítis aðstoð frá Siglufirði þær væru vanar á mjölpalli. „Við viljum fá gamla dótið okkar aftur. Það klikkaði aldrei eins og þetta svo kallaða sjálfvirka drasl sem kom frá Siglufirði“.

Áður en ég svaraði þessari neikvæðu kveðju, leit ég á vogirnar tvær sem þarna voru. Þetta voru samskonar vogir og voru á mjölpallinum heima. Þetta voru greinilega ekki nýjar vogir heldur höfðu þær verið endurnýjaðar heima á Sigló.

Ég snéri mér að þessari sem hafði sent mér tóninn. Sagði við hana brosandi. „Áttu systir á Siglufirði?“ Hún varð undrandi á svip og spurði öllu vingjarnlegri tón en áður, þó ekki með bros á vör.
"Hvernig veistu það?" Ég sagði henni að vinkona mín á Sigló væri Inga á Eyri, og að hún væri mjög lík henni og röddin þegar hún steytti skapi.

Hinar konurnar glottu. Sú sem svarað hafði, spurði svo aftur.
„Þekkirðu Ingu? Ég játaði því, og sagðist hafa átt heima á mínum uppeldisárum, í næsta húsi við þau hjónin Jón og Ingu, auk þess sem við Jón værum báðir að vinna hjá SR á Sigló.
Í ljós kom að þetta var systir Ingu á Eyri eins og mig hafði grunað.

Eftir þetta féll allt í dúnalogn, viðmótið breyttist og við fórum að ræða saman eins og vinnufélagar. Mér var sagt að þau hefðu öll unnið á mjölpalli gömlu verksmiðjunnar og gengið vel. Afköstin hefðu að vísu ekki verið mikil. Það kurraði enn undir niðri reiði hjá þeim og almennt á meðal bæjarbúa yfir því að bærinn "Seyðisfjörður" hafði selt verksmiðjunnar til S.R.

Þeim hafði verið sagt í upphafi, að vogarbúnaðurinn væri alveg sjálfvirkur. Þegar mjölið sem í pokann kæmi og næmi 50 kg. þá mundi búnaðurinn sjálfur loka og pokarnir tilbúnir að flytja til kælingar. Þær ættu bara bíða rólegar þar til pokinn væri tilbúinn. Þeim var ekki sagt að taka þyrfti pokana handvirkt undan voginni þegar vogin hafði lokað fyrir mjölstreymið eftir að 50 kg. voru komin í pokann.

Þannig að í fyrsta sinnið, þá bara biðu þær og biðu eftir að pokarnir losnuðu frá. Rörin fylltust, mótor við snigilinn sem skammtaði á milli voganna tveggja brann yfir vegna álags.
Þær fengu svo ónot og blótsyrði frá Einari verkstjóra þegar þetta uppgötvaðist. Þeim hafði ekki líkað svona munnsöfnuður frá Einari sem var einnig aðkomumaður. Þar var sennilega skýringin komin á því að Einar fór ekki alla leið með mig til þeirra.

Þær töluðu alltaf eins og þær væru bara fjórar á mjölpallinum. Það var eins og maðurinn sem með þeim var væri ekki til. Hann átti bara að sjá um að sópa og moka mjöli þegar þess þyrfti, sögðu þær.

Ég skýrði fyrir konunum nákvæmlega hvernig gangverkið virkaði. Þær spurðu margsinnis og fengu greið svör. Við vorum orðnir bestu vinir áður en vakt þeirra lauk og þegar næstu fjórar konur komu á vakt hófst annað kennsluferli sem gekk aðeins betur í upphafi en það fyrra þar sem konurnar gáfu mér meðmæli.

Vaktin gekk eins og í sögu að því undanskildu að ekki var komið lag á mjölið, sem kom ýmist of þurrt, brennt eða blautt. Þó ekki eins mikið brunnið og áður sögðu konurnar. Ég var þó farinn að gera ráð fyrir að fara heim daginn eftir, því ég þekkti Stefnir sem var snillingur hvað hans verkefni snerti.  Hann þekkti þetta ferli eins og fingur sér.  Ég var því nokkuð hissa á þessum slæma gangi. Hann sagðist aldrei hafa kynnst öðru eins.

Hann hefði yfirfarið búnaðinn sem allur virtist vera í fínu lagi. Það væri sama hvernig hann stillti olíugjöfina til brennarans, til að faststilla sjálfvirknina. Ýmist var of lítill hiti eða of mikill. Nokkuð sem hann áttaði sig ekki á.
Þurrkyndari þurfti að sinna tveim áríðandi þrepum. Hann þurfti að stilla logann og hitann frá brennurunum með hringlaga handfangi á krana sem skammtaði olíustreymið. Kyndarinn gat séð logann frá litlu opi á framhliðinni, hitastigið inni í þurrkara frá mæli hafði kyndarinn einnig til hliðsjónar.

Síðan þurfti kyndarinn að fara aftur fyrir sjálfa mjöltromluna (Þurrkarann) sem snérist. Þar sá vanur kyndari hvort mjölið væri þurrt, mátulegt eða og blautt.  Þannig stillti kyndari sjálft olíustreymið í samræmi við mat sitt og þegar það allt var í samræmi, þá gat kyndari slappað af í rólegheitunum í langan tíma án áhyggja þegar búið var að stilla og sjálfvirknin tekin við.

Þannig átti þetta að ganga. En þetta misræmi gekk vakt eftir vakt.  Ég sem einnig hafði stundað vaktir við þurrkyndingu heima í gömlu SR30 verksmiðjunni (þá að vísu algjörlega handvirkt) benti Stefni á að prufa að taka sjálfvirka búnaðinn alveg úr sambandi og stilla alveg handvirkt. 
Það kunni Stefnir vel frá fyrri tíð og Það gerði hann. Nú var hann öruggur um að ekkert frá sjálfvirka búnaðinum væri að trufla. En allt var við það sama.

Þá vissi Stefnir að þetta var ekki búnaðurinn sem var að klikka, heldur eitthvað allt annað. En hvað, það var spurningin. Hann grunaði eina ástæðu, en var þó ekki viss. Alltaf þegar hann var ekki nærri eða þegar hann var að huga að mjölinu inni í þurrkaranaum á bak við stjórnbúnaðinn. Þá hafði vaktformaðurinn í verksmiðjunni sem taldi sig hafa ákveðinni ábyrgð að sinna, litið nokkuð oft inn í eldhólfið að framanverðu og talið að annað hvort þyrfti að minnka eða auka við olíustreymið og breytt olíuflæðinu. 

Þannig að þegar Stefnir ásamt hinum raunverulegu kyndurum voru að fikra sig áfram þá var sú stilling sem Stefnir taldi nálgast þá réttu, ekki hin raunverulega og ruglaði ferlið sem Stefnir stefndi að.

Einn úr lýsisvinnslunni hvíslaði að Stefni hver væri líklegur sökudólgur, það er vaktformaðurinn. Stefnir stóð hann loks að verki. Stefnir var vel að manni, hann tók vaktformanninn kverkataki og hélt honum á lofti upp við sjóðheita framhlið þurrkarans, og sagði við hann að ef hann nokkru sinni svo mikið sem kæmi nálægt olíukrananum þá mundi hann henda honum inn í ofninn.

Eftir þetta gekk allt eins og í sögu þurrt og gott mjöl. Ungu kyndararnir lærðu vel á kerfið án afskipta hins „vitra“ vaktformanns.  Hinsvegar er (var) þurrkynding ávalt mjög háð pressukörlunum um góðan og öruggan gang verksmiðjanna, en Stefnir var búinn að kanna þann vettvang, sem var í góðum höndum.

Þegar síldin (síðar loðna og kolmunni) fór úr þróm verksmiðjanna, þá fór hráefnið út frá þró, eftir dragaralyftum upp í suðukör. Þar var síldin/loðnan soðin, soðvatnið fór til lýsisvinnslunnar en soðin síldin til pressanna. Þær pressuðu nánast allan vökva sem eftir var úr síldinni, vökvann sem einnig fór til lýsisvinnslunnar þar sem fitan, lýsið fór til lýsistanka og sullið, grúturinn til kjarnavinnslu. Grúturinn fór í gamla daga beint í sjóinn og var ekki nýttur. Pressukakan fór svo inn í þurrkarana. Það streymi þurfti að vera stöðugt, annars gat mjölkakan sem þar var þar inni ofhitnað og brunnið eða öfugt.

Með slíkum miklum breytingum átti þurrkyndarinn að gefa auga og bæta við eða minnka olíuflæðið. (sjálfvirknin hafði ekki algjört næmi á slíkt.)

Eftir árið 2000 var svona kerfi allt orðið sjálfvirkt og fjarstýrt frá tölvuskjám. Frá þurrkara fór svo þurr kakan til kvarnanna sem saxaði mjölið og því síðan komið til mjölhúss, oftast blásið þangað.  

Af okkur Stefni er það að segja að þegar við töldum okkar hlutverki lokið og eftir samkomulag við Vilhjálm í síma, fórum við í rækilegt bað og síðan í aukafötin sem við höfðum farið með að heiman.  Og nánast lausir við „peningalyktina,“ fórum við með áætlunarrútu til Egilsstaðaflugvallar (Vilhjálmur sagði okkur að skilja Volguna eftir) og þaðan með áætlunarflugi til Akureyrar. Þangað sem Páll sótti okkur og við komum heim seinnipart dags.

Daginn sem við komum heim var liðin vika síðan við höfðum sofið í rúmi og eða þvegið okkur, fram að sturtunni á Seyðisfirði. Við höfðum hvílst í Volgunni þegar færi gafst. Okkur hafði verið fært gott nesti við hvert mál svo ekkert var undan því að kvarta. Daginn eftir ræddi Vilhjálmur heil lengi við okkur um gang mála. Hann hafði þó annað slagið haft samband við okkur í síma og þekkti því atburðarásina vel. Öll vandræðin hefðu í raun alltaf frá byrjun verið vaktmanninum að kenna. Þar sem hann hefði í fyrsta lagi ekki leiðbeint konunum á mjölpalli nógu vel og svo með því að skipta sér af því sem honum kom ekki við.

Strákarnir ungu sem ráðnir höfðu verið sem kyndarar fengu bara lauslega leiðsögn sem svo vaktformaðurinn gerði að engu með því að fikta í olíukrananum án vitneskju sjálfra kyndaranna. Vilhjálmur sagði að Einar Magnússon verksmiðjustjóri hefði gefið vaktformanninum rækilega ráðningu, ekki síst þar sem annar kyndarinn var sonur Einars.

Vilhjálmur sagði svo við okkur Stefni, að uppi á skrifstofu S.R. hjá Siggi Árna væri umslag til okkar sem væri með launum okkar. Greiðsla í formi næturvinnutexta var staðfest óslitið frá deginum sem við hefðum farið austur og til dagsins sem við komum til baka. Við ættum þó ekki að hafa hátt um þá greiðslu, í bili að minnsta kosti.

Vilhjálmur stóð við sitt, þrátt fyrir að tíminn hefði orði lengri en áætlað hefði verið í upphafi. Ég sem var á sveinakaupi hjá Páli, og var reiknaður á sama texta í austurferðinni fyrr um vorið + 20% álag.

Ég veit ekki á hvaða texta Stefnir var, kyndarakaupi eða því sama og ég mig grunar það þó, en náði aldrei að spyrja hann um það.

Ein af mörgum ferðum til Seyðisfjarðar var árið 1963 snemma sumars.

Það átti að byggja stærra mjölhús. Það var einmitt erindi okkar í þetta skipti, það er að byggja grunn undir stórt stálgrindarhús. Það verk gekk vel eins og önnur verk sem Pálsmenn tóku að sér og á styttri tíma en verkfræðingarnir höfðu áætlað.

Árið 1964 fór Palli með enn stærri hóp til SR á Seyðisfirði. Þá til að reisa steyptan grunn undir stóran lýsistank og fleira tönkum tengt.  Og einnig átti að byggja langa bryggju meðfram mjölhúsinu sem byggt var á fyrra ári.  Ekki var aðkoman þá til vistarvera okkar jafn góð og hún hafði verið árið áður.  Við komum seint um kvöld með m/s Heklu (eða Esju) að bryggju á Seyðisfirði, eftir að hafa komið við á nokkrum stöðum á leið frá Akureyri.

Vaktmaður hjá SR sem opnaði fyrir okkur sagði að sótsprenging hefði orðið í kyndiklefanum í vikunni áður en þar sem lofthiti var í húsinu (heitu loftið blásið um lagnir til alla herbergja) Þá mætti búast við því að eitthvað hafi borist til herbergjanna, það væri örugglega lítilræði.

Ekki reyndist það í okkar augum neitt lítilræði, þar sem við gátum skrifað nafn okkar með fingrunum á veggi, loft og gólf sem var þakið sóti.
Í staðinn fyrir að byrja á að búa um rúmin okkar (kojur) og leggjast til hvílu eftir langt ferðalag var hafist handa við að þrífa allt húsið hátt og lágt. Því verki lauk um klukkan fjögur um nóttina.

En mannskapur mætti þó í morgunverð klukkan 7 eftir að Jón Rögnvaldsson kokkur Pálsmanna ræsti okkur. Hann var búinn að gera allt klárt á morgunverðarborðið áður en við hinir fórum á lappir.

Þegar komið var á vinnustað og undirbúningur verka hafinn þá kom Palli mér nokkuð á óvart. Hann kallaði á mig og flatti út teikningu af bryggjunni áðurnefndu. Hann sagði mér að velja 8-9 úr hópnum, ekki þó trésmiði sem hann nefndi, né Geira Guðbrands.
Júlli Gull væri sjálfkjörinn í minn hóp þar sem hann væri vanur á rammbúkka. Ég ætti að sjá um bryggjusmíðin, hann mundi vera til taks ef mig vantaði frekari aðstoð.

Ég hafði að vísu oft verið einskonar flokksstjóri yfir ýmsum smáverkefnum heima á Sigló. En þetta var stærra en mér datt í hug að mér yrði falið.  Ég var að vísu orðinn vanur allskonar viðgerðum og nýsmíðum við bryggjur en aldrei verið trúað fyrir svona stóru verkefni. Svo sannarlega var þetta stórt verkefni. En ég vissi af nálægð Páls og sagði þessa ákvörðun hans í fínu lagi.

Ég valdi mína menn og við byrjuðum á því að rífa niður gamlan bryggjustubb sem þarna var. Á sama tíma fór Júlli með góða menn úr hópnum sem ég hafði valið til að ná í rammbúkka pramma sem var uppi í slipp innar í firðinum. Allt gekk samkvæmt áætlun, bæði hjá „bryggjudeildinni,“ mínum körlum og mannskapnum sem Palli hafði valið við tankagrunninn og tilheyrandi.

Páll fylgdist vel með bryggjudeildinni en hafði þó engin afskipti af okkur. Málin voru jú alltaf rædd í hópnum yfir kaffibolla eða við önnur tækifæri. 

Myndir frá þessari ferð og fleirum eru á tenglinum Seyðisfjarðar myndir